Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 604  —  386. mál.
Leiðréttur texti.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Guðjón Guðmundsson og Sigurð Jónsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Einar Þ. Harðarson og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru leiddar í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja sem byggjast á staðli frá Basel-nefndinni um bankaeftirlit, svokölluðum Basel II staðli sem var uppfærður í nóvember 2005. Eldri staðall um eigið fé alþjóðlegra fjármálafyrirtækja er að stofni til frá 1988. Eru reglurnar teknar upp á Evrópska efnahagssvæðinu með breytingum á tveimur tilskipunum. Er annars vegar um að ræða tilskipun 2006/48, svonefnda lánastofnanatilskipun, og hins vegar tilskipun 2006/49, svonefnda eiginfjárkröfutilskipun.
    Markmið með breytingunum er einkum að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hafa gilt og að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfu. Aðeins meginatriði eru tekin í lögin sjálf en kveðið verður á um nánari útfærslur og tæknileg atriði í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu lánastofnanir geta valið milli ýmissa aðferða við uppgjör á eiginfjárkröfum vegna lánaáhættu. Verður annars vegar unnt að velja staðlaða aðferð sem er tiltölulega einföld og líkist þeirri aðferð sem er notuð nú til að reikna út eiginfjárkröfu. Hins vegar verður unnt að velja aðra af tveimur svokölluðum innramatsaðferðum en þær eru heldur flóknari og byggjast meðal annars á eigin útreikningi fyrirtækja á áhættu. Þessar síðarnefndu aðferðir gera strangar og auk þess kostnaðarsamar kröfur til áhættumats og má gera ráð fyrir að það verði aðeins stærri fyrirtæki sem sæki um leyfi til að nýta þær.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni barst athugasemd frá Sambandi íslenskra sparisjóða þess efnis að gera þyrfti breytingu á því ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem fjallar um skyldu til innlausnar. Telja fyrirsvarsmenn sambandsins að að óbreyttum lögum muni hluti sparisjóða lenda í vandræðum við gildistöku laganna þar sem stofnfé verður ekki talið sem eigið fé. Nefndin flytur breytingartillögu um þetta atriði. Lýtur hún að því að innlausnarskylda sparisjóða verði felld niður til að gera þeim kleift að nýta stofnfjárbréf til útreiknings á eigin fé í samræmi við ákvæði nýrra reikningsskilastaðla.
    Verði frumvarpið að lögum munu þau öðlast gildi 1. janúar 2007. Hins vegar munu þau fjármálafyrirtæki sem ekki nýta innramatsaðferð hafa um það val árið 2007 hvort þau beita reglum sem eru í gildi fyrir þá breytingu sem þetta frumvarp kveður á um. Er því um að ræða svigrúm fyrir fjármálafyrirtæki.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við frumvarpið bætist ný grein, er verði 5. gr., svohljóðandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    65. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreigenda.
    Nú synjar sparisjóður um heimild til sölu stofnfjárhlutar, sbr. 64. gr., eða neytir ekki heimildar til innlausnar hans skv. 1. mgr., og skal hann þá, ef óskað er, hafa milligöngu um sölu hlutarins eða innleysa hann innan árs frá því er skrifleg beiðni kom fram um sölu eða innlausn enda uppfylli sparisjóðurinn eiginfjárkröfur skv. 84. gr. þegar innlausn fer fram.
    Fari innlausn stofnfjárhlutar fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

Alþingi, 8. des. 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson.