Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 400. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 622  —  400. mál.




Svar


kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Ellerts B. Schram um kirkjugarðsgjald.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu miklar tekjur eru af kirkjugarðsgjaldi, hvernig er þeim varið og fyrir hvaða þjónustu greiða skattgreiðendur með þessu gjaldi?

    Kirkjugarðsgjald hefur undanfarna áratugi, fram til ársins 2005, verið ákveðið sem fast árlegt gjald sem miðast við fjölda sóknarbarna 16 ára og eldri í viðkomandi sókn, um 3 þús. kr. á mann árið 2004, en gjaldið tók hækkunum á milli ára í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattstofni einstaklinga næstliðinna tveggja ára á undan gjaldárinu.
    Þar sem gjaldið tók í raun ekki mið af raunverulegri útgjaldaþörf samkvæmt rekstraráætlun einstakra kirkjugarða og hin sjálfvirka lögboðna hækkun milli ára kom misjafnlega út, hófust viðræður milli ríkisins og forsvarsmanna kirkjugarða árið 2003 um að freista þess að búa til gjaldalíkan, sem tæki mið af raunverulegum kostnaði við greftranir og rekstur kirkjugarða. Lyktaði viðræðum þessum á þann veg að lokið var við gerð reiknilíkans og síðan voru gerðar nauðsynlegar lagabreytingar í kjölfarið með lögum nr. 138/2004. Leiddi þetta til þess að gjaldið var ekki lengur reiknað út frá fastri krónutölu heldur var notast við tvær meginforsendur sem ráða útgjöldum kirkjugarða, þ.e. fjölda nýrra grafa annars vegar og flatarmál svæðis í kirkjugarði sem er í umhirðu hins vegar.
    Framlagið er í grófum dráttum sett saman úr þremur þáttum, þar sem vægi umhirðu og fasts kostnaðar í útgjöldum er um 80%, vægi grafartöku og breytilegs kostnaðar í útgjöldum er 18% og vægi líkbrennslu í útgjöldum er um 2%.
    Kirkjugarðsgjaldið er nú orðið sérstakt framlag sem flokkast undir kirkjumál og greiðist úr ríkissjóði sem fjárveiting á fjárlögum, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Framlag til kirkjugarða var 717 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi árið 2005, í fjárlögum 2006 var það 749,5 millj. kr. og í fjárlagafrumvarpi 2007 er framlagið áætlað 794,1 millj. kr.
    Framlaginu er úthlutað árlega til kirkjugarða í samræmi við úthlutunarreglur sem samþykktar eru af kirkjugarðaráði fyrir upphaf hvers árs.
    Kirkjugarðasjóður fær 8,5% af framlaginu og er meginmarkmið hans að jafna aðstöðu kirkjugarða á landinu og veita aðstoð þar sem tekjur kirkjugarða hrökkva ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.
    Kirkjugarðar landsins fá beint til sín 91,5% framlagsins. Með samningi sem gerður var milli ríkisins og Kirkjugarðaráðs og byggist á gjaldalíkaninu, er ljóst hvaða lögbundin verkefni kirkjugarðar eiga að inna að hendi fyrir þá fjárhæð sem kemur frá ríkinu. Verkefnin eru í meginatriðum þrenns konar:
     1.      Umhirða í kirkjugörðum landsins. Í því felst einkum almenn sumarhirða, svo sem sláttur, umhirða trjábeða og blóma o.fl. garðyrkjustörf, svo og trjáklippingar á vetrum.
     2.      Grafartaka. Kirkjugarðarnir sjá um að kosta og/eða framkvæma alla verkþætti er snerta grafartöku og frágang grafa og grafarsvæða, stígagerð o.fl. Kirkjugarðarnir sjá einnig um að greiða prestsþjónustu vegna útfara.
     3.      Rekstur bálstofu. 2% af framlagi ríkisins rennur til reksturs bálstofunnar í Fossvogi. Af tölu látinna árið 2005, átti sér stað bálför í 19% tilvika.