Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 459. máls.

Þskj. 624  —  459. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári skulu vera til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið sem heimilt er að ráðstafa þannig til stuðnings byggðarlögum:
     a.      Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski.
     b.      Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og skerðingin hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.
    Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um skilgreiningu á byggðarlögum skv. 1. mgr. og nánari reglur um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga. Aflaheimildir samkvæmt þessari grein miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar.
    Sveitarstjórnir annast úthlutun aflaheimilda, sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til einstakra fiskiskipa og senda tilkynningar þar um til Fiskistofu. Framsal aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt þessari grein er óheimilt en þó skulu heimil jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Skylt er að landa og setja til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur þeim aflaheimildum sem úthlutað er samkvæmt þessari grein enda fari vinnsla botnfisks þar fram.
    Ákvarðanir sveitarstjórna um úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar sem sjávarútvegsráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti þrír menn. Skal einn nefndarmaður skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, einn skal tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af Byggðastofnun. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úrskurðir nefndarinnar verða ekki kærðir til ráðherra. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar skal vera tvær vikur frá tilkynningu sveitarstjórnar um úthlutun eða höfnun umsóknar um úthlutun og skal nefndin hafa lagt úrskurð á kærur innan tveggja mánaða.
    Ráðherra setur með reglugerð almenn samræmd skilyrði fyrir allt landið um úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga samkvæmt þessari grein, m.a. um stærð, gerð, skráningarstað, skráningartíma og eignarhald skipa, heimilisfesti útgerðaraðila, löndun og vinnslu afla á grundvelli úthlutaðra aflaheimilda, framkvæmd úthlutunar, brottfall aflaheimilda, framsal og skipti á aflaheimildum, starfshætti úrskurðarnefndar o.fl. Einnig getur ráðherra ákveðið, samkvæmt tillögum sveitarstjórna, að sett verði tiltekin viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa í einstökum byggðarlögum enda séu til þess málefnalegar og staðbundnar aðstæður.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma fyrst til framkvæmda fyrir fiskveiðiárið 2006/2007.

3. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

    a. (VI.)
    Á fiskveiðiárunum 2006/2007, 2007/2008, 2008/2009, 2009/2010 og 2010/2011 skal þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. laganna heimilt að ráðstafa hluta af þeim aflaheimildum sem þar eru tilgreindar til að mæta áföllum sem hafa orðið vegna verulegra breytinga á aflamarki í innfjarðarækju og hörpudiski.
    Ráðherra setur með reglugerðum nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

    b. (VII.)
    Á fiskveiðiárunum 2006/2007, 2007/2008 og 2008/2009 skal þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. laganna heimilt að ráðstafa hluta af þeim aflaheimildum sem þar eru tilgreindar til sveitarfélaga sem fengið hafa úthlutað aflaheimildum á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXVI í lögum nr. 38/1990 og uppfylla skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 eða sem hér segir: 750 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2006/2007, 500 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2007/2008 og 250 þorskígildislestum á fiskveiðiárinu 2008/2009. Skal þessum aflaheimildum úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Aflaheimildirnar skulu vera í þorski, ýsu, steinbít og ufsa og skal þeim úthlutað í hlutfalli við aflamark viðkomandi tegunda.
    Ráðherra setur með reglugerðum nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegsráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegsráðherra og er því ætlað að skýra reglur og framkvæmd við úthlutun svonefnds byggðakvóta, þ.e. aflaheimilda sem úthlutað er skv. a- og b-lið 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í þeim ákvæðum hefur sjávarútvegsráðherra verið veitt vald til úthlutunar aflaheimildanna. Hefur í framkvæmd verið byggt á því við úthlutun byggðakvótans samkvæmt nefndum ákvæðum að ráðherra hefur sett reglugerðir um úthlutunina fyrir hvert fiskveiðiár. Í þeim reglugerðum hefur sú leið verið valin að gefa sveitarstjórnum kost á að gera annars vegar tillögur til ráðuneytisins að reglum um úthlutun aflaheimilda í viðkomandi byggðarlögum og hins vegar, að fengnum umsóknum, tillögur að skiptingu aflaheimildanna milli fiskiskipa innan byggðarlaganna. Um tillögur að úthlutunarreglum hefur verið tekið fram í reglugerðunum að féllist ráðuneytið á reglurnar staðfesti það þær og birti. Þá var einnig mælt svo fyrir að eftir það bæri sveitarstjórnum að kynna reglurnar og gefa útgerðum fiskiskipa kost á að sækja um aflaheimildir. Að loknum umsóknarfresti sem sveitarstjórn ákvað gerði sveitarstjórn síðan tillögur til ráðuneytisins um endanlega skiptingu aflaheimilda milli fiskiskipa sem staðfesti úthlutanir og tilkynnti til Fiskistofu. Ef ráðuneytið féllst hins vegar ekki á endanlegar tillögur sveitarstjórnar um skiptingu aflaheimildanna fól það Fiskistofu að skipta þeim milli einstakra skipa samkvæmt fyrirmælum í reglugerðinni. Á grundvelli framangreindra reglugerða hefur ráðuneytið staðfest auglýsingar um tillögur sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.
    Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur telur ráðuneytið hins vegar tímabært að endurskoða þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið við úthlutun aflaheimilda samkvæmt umræddum lagaákvæðum. Ráðuneytið telur m.a. að rétt sé að færa vald til úthlutunar byggðakvótans til sveitarfélaga. Það byggist á því sjónarmiði að ætla verði að hjá þeim sé að finna þá staðbundnu þekkingu á aðstæðum sem byggðakvótanum er ætlað að mæta á hverjum stað og tíma. Þá telur ráðuneytið rétt að færa úrskurðarvald á kærustigi um úthlutun aflaheimildanna til sérstakrar úrskurðarnefndar sem verði skipuð fulltrúum stjórnvalda sem hafa sérstaka þekkingu á sjávarútvegi, málefnum sveitarfélaga og landsbyggðarinnar. Loks er frumvarpi þessu ætlað að bregðast við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis hefur gert við reglur um úthlutun byggðakvótans og framkvæmd úthlutunar. Athugasemdir umboðsmanns hafa einkum beinst að því að í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, sbr. nú 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, væri ekki gert ráð fyrir jafnsjálfstæðri aðkomu sveitarfélaga og leitt hefði af áðurnefndri framkvæmd af hálfu ráðuneytisins en umboðsmaður hefur gert fleiri athugasemdir við framkvæmd úthlutunarinnar. M.a. hefur hann talið að takmörk væru fyrir því að hve miklu leyti almenn, hlutlæg skilyrði fyrir úthlutun byggðakvótans gætu verið byggð á mismunandi forsendum og útfærslum í einstökum byggðarlögum, t.d. um skráningarstað, skráningartíma og eignarhald skipa nema slík frávik yrðu leidd af málefnalegum, staðbundnum aðstæðum. Umboðsmaður hefur talið að slík skilyrði yrðu að lágmarki að koma fram í almennri reglugerð fyrir allt landið. Þá hefur umboðsmaður einnig vakið máls á hvort afmörkun 9. gr. laga nr. 38/1990 á þeirri viðmiðun sem bæri að fylgja við slíka úthlutun væri nægileg eða hvort fyrir henni vantaði tryggari lagastoð.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að fellt verði brott ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 sem fjallar um úthlutun aflaheimilda til að mæta fyrirsjáanlegum áföllum vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda en í ákvæði til bráðabirgða er hins vegar gert ráð fyrir nokkurra ára aðlögunartíma vegna þeirra sem þegar hafa orðið fyrir slíkum áföllum þannig að úthlutun aflaheimilda til þeirra á þeim grundvelli verður heimil í tiltekinn tíma eftir gildistöku laganna.
    Loks er í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu gert ráð fyrir tímabundinni framlengingu á gildistíma heimildar til úthlutunar sérstakra aflaheimilda til sveitarfélaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og er ætlað að bæta upp úthlutun Byggðastofnunar til þessara sveitarfélaga samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXVI með eldri lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, en það gilti með tilteknum skerðingum til loka fiskveiðiársins 2005/ 2006.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni koma fram efnisreglur sem lagt er til að byggt verði á við úthlutun aflaheimilda skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. áður 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990, um sama efni. Lagt er til að felldur verði niður 1. tölul. greinarinnar eins og hann er samkvæmt gildandi lögum um að hluta aflaheimilda samkvæmt ákvæðinu skuli ráðstafað til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða VI sem kveður á um ráðstöfun aflaheimilda í tiltekinn tíma með sama hætti og kveðið er á um í núgildandi ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar á því ákvæði sem í gildandi lögum er í 2. tölul. Helstu breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á greininni með frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Sveitarstjórnum verði í stað sjávarútvegsráðherra falin úthlutun aflaheimilda sem sjávarútvegsráðherra úthlutar til byggðarlaga samkvæmt því ákvæði sem er nú í 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Ástæður þess að umrædd breyting er lögð til eru þær að ætla má að hjá sveitarfélögunum sé fyrir hendi besta þekking á þeim aðstæðum sem ætlað er að mæta með byggðakvótanum á hverjum stað og tíma. Ljóst er að úthlutun byggðakvótans innan sveitarfélaganna hverju sinni er stjórnvaldsákvörðun og munu sveitarstjórnir bera ábyrgð á að við úthlutunina verði auk sveitarstjórnarlaga, nr. 45/ 1998, fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og almennum, óskráðum reglum stjórnsýsluréttar eftir því sem við á.
     2.      Almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga eru þau sömu og skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að fellt er niður ákvæði um að við ákvörðun um úthlutun aflaheimilda skv. b-lið beri að hafa samráð við Byggðastofnun. Hins vegar er gert ráð fyrir að Byggðastofnun fái fulltrúa í úrskurðarnefnd á kærustigi, sbr. 8. tölul. hér á eftir. Áfram er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um hvað kemur í hlut einstakra byggðarlaga og miðað við að þar verði að finna skilgreiningu og skiptingu landsins í byggðarlög, auk viðmiðunar- og útreikningsreglna um úthlutun aflaheimilda til byggðarlaganna.
     3.      Gert er ráð fyrir að heimilt verði að úthluta byggðakvóta skv. b-lið ákvæðisins til allt að þriggja ára í senn og er sú breyting lögð til þar sem það er talið líklegra til að stuðla að uppbyggingu í byggðarlögunum heldur en ef einungis væri heimilt að úthluta kvótanum til eins árs í senn.
     4.      Í greininni er lögfest að skylt sé að landa og setja til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur þeim aflaheimildum sem úthlutað er samkvæmt greininni enda fari þar fram vinnsla botnfisks. Ef engin vinnslustöð er í byggðarlaginu kemur það þó ekki í veg fyrir að það geti fengið úthlutað byggðakvóta samkvæmt lögunum. Rök fyrir þessu skilyrði eru þau að tryggja eins og unnt er að afli sem veiðist á grundvelli aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt lögunum komi til löndunar og vinnslu þar sem þörf er til að efla atvinnulíf í byggðarlögunum og er það í samræmi við þá hagsmuni sem byggðakvótanum er ætlað að styrkja.
     5.      Í samræmi við meginreglur fiskveiðistjórnunarlaga er miðað við að aflaheimildum verði úthlutað til fiskiskipa en gert er ráð fyrir að ráðherra kveði í reglugerð á um almenn grundvallarskilyrði sem uppfylla þarf fyrir úthlutun til fiskiskipa innan byggðarlaga. Jafnframt er gert ráð fyrir að þau skilyrði verði samræmd fyrir allt landið, m.a. um gerð, stærð, skráningarstað, skráningartíma og eignarhald skipa, löndun og vinnslu afla á grundvelli úthlutaðra aflaheimilda og heimilisfesti útgerðaraðila. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd úthlutunar, brottfall aflaheimilda, framsal og skipti aflaheimilda o.fl. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð kveðið svo á að unnt sé samkvæmt tillögum sveitarstjórna að setja tiltekin skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til viðbótar þeim skilyrðum sem ráðherra setur fyrir allt landið enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum aðstæðum, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 4477/2005.
     6.      Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir tilkynni Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en hún annast skráningu aflaheimilda samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.
     7.      Þá er lagt til að framsal aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt þessari grein verði bannað og er það í samræmi við þann tilgang með úthlutun þeirra að tryggja hagsmuni byggðarlags. Þó er lagt til að heimilt verði að skipta á úthlutuðum aflaheimildum yfir í aflaheimildir í öðrum tegundum enda sé um sama magn að ræða í þorskígildum talið.
     8.      Loks er gert ráð fyrir kæruheimild til sérstakrar þriggja manna úrskurðarnefndar sem skipuð verður af sjávarútvegsráðherra en auk fulltrúa sjávarútvegsráðherra er gert ráð fyrir að í nefndina verði tilnefndir aðilar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun. Sérstakur kærufrestur er í frumvarpinu sem er skemmri en hinn almenni kærufrestur í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, svo og frestur fyrir nefndina til að afgreiða málin en stefnt er að því að afgreiðslu þeirra verði lokið svo fljótt sem unnt er þannig að sem fyrst liggi fyrir endanleg niðurstaða um hvernig aflaheimildirnar skiptast. Það minnkar óvissu auk þess sem æskilegt er að afgreiðslu málanna sé lokið sem fyrst eftir upphaf fiskveiðiárs. Almenna reglan er sú að ákvarðanir stjórnvalda eru kæranlegar til æðri stjórnvalda og ef ekki væri þetta sérákvæði væru ákvarðanir um úthlutanir til fiskiskipa væntanlega kæranlegar til sjávarútvegsráðuneytisins. Þar sem úrskurðarnefndin er hliðsett ráðherra verða úrskurðir nefndarinnar hins vegar ekki kærðir til ráðherra. Hins vegar verður að sjálfsögðu heimilt að bera þá undir dómstóla. Rök fyrir skipan sérstakrar úrskurðarnefndar í þessu tilviki eru svipuð og gerð hefur verið grein fyrir um að fela sveitarstjórnum úthlutun byggðakvótans. Úthlutun byggðakvóta er ætlað að styrkja og efla útgerð og fiskvinnslu í sjávarbyggðum og er því talið rétt að úrskurðarvald á kærustigi um úthlutun hans sé á hendi fjölskipaðs stjórnvalds sem ætla má að sé skipað aðilum með víðtæka þekkingu á þeim hagsmunum og aðstæðum sem byggðakvótanum er ætlað að mæta. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um starfshætti nefndarinnar en að öðru leyti verður gert ráð fyrir að hún beri sjálf ábyrgð á að fylgt verði reglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og almennum reglum stjórnsýsluréttar við meðferð einstakra mála.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa en miðað er við að lögin taki þegar gildi og komi fyrst til framkvæmda við úthlutun vegna fiskveiðiársins 2006/2007.

Um 3. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að lögfest verði tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem bæði fela í sér tiltekinn aðlögunartíma, þ.e. annars vegar vegna brottfalls 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 um sérstaka úthlutun til skel- og rækjubáta vegna áfalla sem orðið hafa vegna þess að aflamarki hefur ekki verið úthlutað í innfjarðarækju og hörpudiski og hins vegar vegna þess að útrunninn er gildistími ákvæðis um úthlutun sérstakra aflaheimilda til sveitarfélaga sem höfðu þann tilgang að bæta upp skerðingu á úthlutun Byggðastofnunar til sveitarfélaga sem lent höfðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXVI með eldri lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, en það gilti með tilteknum skerðingum til loka fiskveiðiársins 2005/2006.
     a.      Með lögum þessum er gert ráð fyrir að fellt verði úr gildi ákvæði sem nú er í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 en samkvæmt því er heimilt að ráðstafa hluta af aflaheimildum samkvæmt ákvæðinu til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Í bráðabirgðaákvæðinu er kveðið á um nokkurra ára aðlögunartíma vegna brottfalls fyrrnefnds ákvæðis og áfalla sem þegar hafa orðið vegna verulegra breytinga á aflamarki í innfjarðarækju og hörpudiski en gert er ráð fyrir að aflaheimildum í þessum tegundum verði áfram ráðstafað á sama grundvelli í tiltekinn tíma eða til og með fiskveiðiársins 2010/2011, þ.e. sem hluta af þeim aflaheimildum sem eru til ráðstöfunar skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Umræddar aflamarksbreytingar hafa orðið á mismunandi tímum á síðustu árum og hefur í framkvæmd verið á því byggt að þær yrðu bættar á tilteknum árafjölda samkvæmt reglugerðum sem settar hafa verið um þessar úthlutanir á hverju fiskveiðiári. Er talið rétt með tilliti til jafnræðissjónarmiða að þrátt fyrir að 1. tölul. sé felldur niður með lögunum verði umræddri framkvæmd haldið áfram þannig að allir hlutaðeigandi útgerðaraðilar fái bætur í jafnlangan tíma. Hins vegar er gert ráð fyrir að áföllum sem upp koma af sömu ástæðum eftir gildistöku laganna verði mætt með úthlutun aflaheimilda til byggðarlaga skv. 1. gr., sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Ráðstöfun aflaheimilda samkvæmt núgildandi 1. tölul. 1. mgr. 10. gr., eða nánar tiltekið eldra ákvæði um sama efni, hefur þegar farið fram fyrir fiskveiðiárið 2006/2007, sbr. reglugerð nr. 720/2005, um sérstaka úthlutun skv. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, til skel- og rækjubáta. Eftir gildistöku laganna er miðað við að sömu aðilar og þar eru tilgreindir geti átt rétt til úthlutunar en gert er ráð fyrir að úthlutun til þeirra samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu fari stiglækkandi á komandi fiskveiðiárum sem ákvæðið gildir um eins og verið hefur á undanförnum fiskveiðiárum, ef undan er skilin úthlutun samkvæmt reglugerð nr. 720/2005, og falli niður við lok fiskveiðiársins 2010/2011. Ráðherra hefur eftir það ákvörðunarvald um hve miklum hluta þeirra aflaheimilda sem til ráðstöfunar eru skv. 10. gr. laga nr. 116/2006, með þeim breytingum sem gerðar verða á henni með 1. gr. þessa frumvarps, verði ráðstafað til byggðarlaga sem hafa verið sérstaklega háð veiðum á innfjarðarækju og hörpudiski, þó að sjálfsögðu innan þeirra 12.000 tonna marka sem tilgreind eru í ákvæðinu. Tekið skal fram að eftir að gildistíma bráðabirgðaákvæðisins lýkur eiga þeir bátar sem fengið hafa úthlutun aflaheimilda samkvæmt því sömu möguleika og aðrir á að fá úthlutun á grundvelli 10. gr. laganna.
     b.      Lagt er til að veitt verði tímabundin heimild til að úthluta aflaheimildum til sveitarfélaga sem fengu úthlutað aflaheimildum frá Byggðastofnun á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXVI í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, enda uppfylli þau einnig skilyrði 1. gr. þessa frumvarps, sbr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Umrætt ákvæði til bráðabirgða var lögfest með ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 1/1999, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og varð ákvæði til bráðabirgða XXVI í síðastgreindum lögum. Samkvæmt því voru Byggðastofnun veittar árlega til ráðstöfunar aflaheimildir sem námu 1.500 þorskígildislestum til að styðja byggðarlög sem lent höfðu í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og skyldi það gilda fyrir fiskveiðiárin 1999/2000 til og með 2005/2006. Með lögum nr. 147/2003, um breytingu á lögum nr. 38/1990 voru heimildir Byggðastofnunar til úthlutunar samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skertar þannig að á fiskveiðiárinu 2004/2005 skyldi úthluta aflaheimildum sem námu samtals 750 þorskígildislestum og á fiskveiðiárinu 2005/2006 aflaheimildum sem námu samtals 375 þorskígildislestum en eftir það skyldi heimildin eins og áður segir falla niður. Eftir gildistöku laga nr. 147/2003 hefur sjávarútvegsráðherra úthlutað sveitarfélögum þeim aflaheimildum sem skerðing varð á samkvæmt þeim lögum og hefur úthlutunin verið miðuð við að úthlutanir fari til sveitarfélaga með tilteknar aðstæður, m.a. bágborið atvinnuástand. Ákvæði til bráðabirgða VII er ætlað að kveða á um tiltekinn aðlögunartíma fyrir þau sveitarfélög sem fengið hafa úthlutað aflaheimildum samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu vegna þessara sérstöku aðstæðna. Úthlutun þessara aflaheimilda er hluti af þeim aflaheimildum sem eru til ráðstöfunar skv. 1. mgr. 10. gr. laganna. Þá er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessu ákvæði lækki um 1/ 3 fyrir hvert fiskveiðiár og falli niður við lok fiskveiðiársins 2008/2009. Loks skal áréttað að umrætt ákvæði er annars efnis en miðað hefur verið við samkvæmt eldri framkvæmd að því leyti að úthlutun aflaheimilda samkvæmt því er óháð úthlutun annarra aflaheimilda skv. 1. mgr. 10. gr. laganna en samkvæmt eldri framkvæmd gat úthlutun aðeins orðið samkvæmt þeirri aðferð sem gaf hæsta niðurstöðu, sbr. t.d. 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 722/2005, um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

    Frumvarpinu er ætlað að skýra reglur og framkvæmd við úthlutun á svonefndum byggðakvóta, þ.e. aflaheimildum sem úthlutað er til byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Stjórnsýslunni er breytt og sveitastjórunum falin úthlutun aflaheimildanna. Jafnframt er sett upp sérstök úrskurðarnefnd sem kæra má úthlutunina til. Kostnaður ríkissjóðs, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, er sá kostnaður sem til fellur vegna starfa úrskurðarnefndarinnar, og áætlar sjávarútvegsráðuneytið að hann geti numið um 2 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að öll útgjöld sem til kunna að koma vegna lögfestingar frumvarpsins rúmist innan þeirra marka sem langtímaáætlun í ríkisfjármálum setur sjávarútvegsráðuneytinu.