Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 625  —  397. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Á fund nefndarinnar til að ræða málið komu Ragnhildur Hjaltadóttir, Karl Alvarsson, Jón Eðvald Malmquist og Kristrún Lind Birgisdóttir frá samgönguráðuneyti, Guðmundur Ólafsson og Sigurjón Ingvason frá Póst- og fjarskiptastofnun, Páll Ásgrímsson frá Símanum, Dóra Sif Tynes frá Og fjarskiptum ehf. og Jón Rúnar Pálsson frá Samtökum atvinnulífsins. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Símanum, Og fjarskiptum ehf. og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, á þskj. 441, var vísað til nefndarinnar 30. nóvember sl. ásamt tilmælum úr ráðuneyti samgöngumála að málið væri brýnt og því lagt að nefndinni að afgreiða það fyrir jólahlé Alþingis. Við tóku kunnugleg vinnubrögð í þingnefndum undir stjórn núverandi meiri hluta. Málið var rætt á nefndarfundi 5. desember. Umsagna var leitað á elleftu stundu og málið í raun vanreifað af hálfu ráðuneytis samgöngumála. Þegar forsvarsmenn fyrirtækja sem bera kostnaðinn af fyrirhuguðum lagabreytingum gerðu nefndinni ljóst að þeim hefðu ekki verið kynntir kostnaðarútreikningar Póst- og fjarskiptastofnunar til grundvallar gjaldskrárbreytingu þeirri sem mælt er fyrir um, sá undirrituð sér ekki fært að styðja að málið yrði afgreitt úr nefndinni að svo búnu. Nær væri að afgreiða málið frá Alþingi þegar heildargreining kostnaðar, sem er grundvöllur gjaldtökunnar, liggur fyrir.
    Vinnubrögð þau sem hér er lýst eru því miður daglegt brauð í störfum Alþingis. Þau eru engum til sóma, og það sem verra er, þau geta leitt af sér mistök við lagasetningu vegna fljótaskriftarinnar sem óhjákvæmilega er á frumvörpum sem unnin eru með þessum hætti.

Alþingi, 7. des. 2006.Þórunn Sveinbjarnardóttir.