Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 416. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 626  —  416. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hennýju Hinz og Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ingva Má Pálsson og Þorstein Þorgeirsson frá fjármálaráðuneyti, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Hólmfríði Guðmundsdóttur og Hólmfríði Þorgeirsdóttur frá Lýðheilsustöð, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Elínu Smáradóttur, Hauk Eggertsson og Þorkel Helgason frá Orkustofnun, Guðmundur Guðmundsson frá Rarik, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vörugjald, lögum um virðisaukaskatt og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Kveðið er á um að vörugjöld falli niður af öllum matvælum, innlendum sem innfluttum, öðrum en sykri og sætindum. Vörugjöld munu áfram hvíla á þeim vörum sem taldar eru upp í 17. kafla tollskrár sem ber heitið ,,Sykur og sætindi“ og einnig á ýmiss konar súkkulaði í 18. kafla tollskrár og sírópi í 21. kafla tollskrár.
    Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Matvara ber nú ýmist 14% eða 24,5% virðisaukaskatt og felst breytingin í því að öll matvara beri 7% virðisaukaskatt. Virðisaukaskattur af öðrum vörum og margs konar þjónustu fer samkvæmt frumvarpinu úr 14% niður í 7% og má þar nefna bækur, tímarit, húshitun og hótelgistingu. Veitingaþjónusta fer úr 24,5% skattþrepi niður í 7% skattþrep og mun það ekki aðeins koma neytendum til góða heldur er það líka til mikils hagræðis fyrir aðila í veitingarekstri að greiða sama virðisaukaskatt af öllum vörum og þjónustu. Að lokum má nefna að virðisaukaskattur af tónlist, þ.e. geisladiskum, hljómplötum og segulböndum, verður 7% ef frumvarpið verður að lögum.
    Tvær aðrar breytingar eru lagðar til á lögum um virðisaukaskatt. Annars vegar er lagt til að heimild til samskráningar í virðisaukaskattsskrá nái einnig til sparisjóða og dótturfélaga þeirra. Hins vegar er lögð til framlenging á endurgreiðslu 2/ 3hluta virðisaukaskatts til kaupa á nýjum hópferðabifreiðum.
    Í 1. umræðu um málið kom fram hjá framsögumanni frumvarpsins að vegna mikillar umræðu um áfengisgjald og þess hve margslungið samspil er á milli lækkunar á virðisaukaskatti og hækkunar á áfengisgjaldi þurfi að kanna það samspil nánar. Áfengisgjald er lagt á sem krónutala á hvern millilítra af hreinum vínanda en virðisaukaskattur er lagður á heildarverð áfengis. Því var þess farið á leit við efnahags- og viðskiptanefnd að hún frestaði þeim þætti frumvarpsins sem snýr að breytingu á lögum um áfengisgjald fram yfir áramót. Sú frestun mun ekki hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs því þessi breyting á hvorki að hækka tekjur ríkissjóðs né lækka. Nefndin fellst á þessi rök og þessi tilmæli. Þær breytingar sem frumvarpið kveður á um gera ráð fyrir að áfengisgjald hækki um 58% og að virðisaukaskattur á áfengi lækki úr 24,5% í 7%. Helsta markmiðið með þessu er að sala veitingahúsa á áfengi beri 7% virðisaukaskatt. Nefndin mun því fara yfir þessar breytingar eftir jólahlé en afgreiðir aðra þætti frumvarpsins nú enda er það nauðsynlegt þar sem þeir hafa afleiðingar fyrir fjárlög og tekjugrundvöll þeirra.
    Talsvert var rætt um neysluskatta og neyslustýringu þegar málið var rætt í nefndinni. Í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að frumvarpið sé stærsta framfaraspor varðandi breytingu á neyslusköttum í langan tíma. Hins vegar lýsa samtökin vonbrigðum yfir því að enn verði lögð vörugjöld á ákveðnar fæðutegundir, þ.e. sykur og sætindi. Flestir gestir nefndarinnar lýstu ánægju með það að opinberar álögur á matvæli lækki og að „flækjustig“ verði minna, þó að það hverfi ekki alveg. Kom jafnframt fram það sjónarmið að hér væri um að ræða eina mestu einföldun skattkerfisins í langan tíma.
    Hins vegar kom fram ábending frá Lýðheilsustöð þess efnis að gosdrykkir tilheyri „sykri og sætindum“ og ættu því áfram að bera vörugjöld þannig að verð haldist óbreytt. Kom fram í máli fulltrúa Lýðheilsustöðvar að gosdrykkja væri afar mikil, einkum hjá unglingum, og að hún ylli glerungseyðingu auk þess sem hún gæti leitt til offituvandamála. Í máli fulltrúa stofnunarinnar kom fram að bæði gos sem innihaldi sykur og sömuleiðis gos með ,,gervisykri“ sé slæmt fyrir tannheilsu. Stofnunin telur að mikilvægt sé að halda verði á gosdrykkjum óbreyttu.
    Jafnframt var rætt um skattlagningu á raforku en á því sviði er afar flókið kerfi skattlagningar og endurgreiðslna sem virðist illframkvæmanlegt og mjög torvelt er að hafa eftirlit með því. Í umsögn Rariks kom fram að viðskiptavinir fyrirtækisins byggju við mjög mismunandi virðisaukaskattsstig eftir því í hvað orkan væri notuð. Af almennri raforkunotkun sé greiddur 24,5% virðisaukaskattur, af húshitun 14% virðisaukaskattur og svo sé gefin 63% endurgreiðsla á honum þannig að þá greiðist 5,18% virðisauki. Rarik telur að það mundi leiða til einföldunar, gagnsæis og lækkunar kostnaðar ef eitt virðisauksskattsþrep yrði lagt á alla raforkusölu og endurgreiðslur afnumdar. Á svipuðum nótum var umsögn Orkustofnunar en þar kom fram að þetta fyrirkomulag, mismunandi þrep á virðisaukaskatti á raforku eftir notkun sé óframkvæmanlegt og bjóði auk þess heim misnotkun. Nefndin hvetur ráðuneyti og hagsmunaaðila til að finna einfalda lausn á þessu flókna kerfi og gera það einfalt og gagnsærra.
    Nefndin leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar eru lagðar til framangreindar breytingar þess efnis að ákvæði sem breyta lögum um áfengisgjald falli brott úr frumvarpinu en nefndin fjalli um þær breytingar að jólahléi loknu. Hins vegar er gerð lagfæring á frumvarpinu þar sem við samningu þess láðist að setja inn ýmis tollskrárnúmer sem þó var ætlunin að frumvarpið tæki til.
    Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykkur áliti þessu en með fyrirvara.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. des. 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.,


með fyrirvara.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.Ásta Möller,


með fyrirvara.


Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.