Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 95. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 636  —  95. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 8. des.)



1. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
     a.      að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri og kynna sögu lands og náttúru,
     b.      að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa,
     c.      að stofnað sé sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
     d.      að fyrir liggi upplýsingar um helstu aðstandendur kvikmyndar eða sjónvarpsefnis,
     e.      að fyrir liggi upplýsingar um innlenda aðila og hlutdeild þeirra við framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis,
     f.      að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun, auk staðfestingar fjármögnunaraðila, ásamt greinargerð umsækjanda um að framleiðslan falli að markmiðum laganna,
     g.      að fyrir liggi upplýsingar um efni fyrirhugaðrar framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis, svo sem handrit og upplýsingar um tökustaði,
     h.      að fyrir liggi að hið framleidda efni sé ætlað til almennrar dreifingar í kvikmyndahús eða til sjónvarpsstöðva,
     i.      að efni kvikmyndar eða sjónvarpsefnis stríði hvorki gegn ákvæðum laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum né ákvæðum almennra hegningarlaga um klám.
    Verði breyting á áætluðum framleiðslukostnaði, sbr. f-lið 1. mgr., eftir að framleiðsla hefst skal iðnaðarráðuneyti send ný kostnaðaráætlun.
    Við mat á umsókn um endurgreiðslu skal nefnd skv. 3. gr. hafa heimild til þess að afla álits sérfróðra aðila um ætlað listrænt gildi viðkomandi framleiðslu.
    Auglýsinga- og fréttatengt efni, stuttmyndir, upptökur af íþróttaviðburðum og skemmtunum, svo og framleiðsla efnis sem fyrst og fremst er ætlað til sýninga í eigin dreifikerfi, telst ekki til efnis skv. h-lið 1. mgr.
    Nú er framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis ekki lokið innan þriggja ára frá dagsetningu vilyrðis fyrir endurgreiðslu sem veitt er á grundvelli 3. gr. og fellur þá vilyrðið úr gildi.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „12%“ í 1. mgr. kemur: 14%.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Beiðni um útborgun skal send iðnaðarráðuneytinu.
     c.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr., sem verður 2. málsl., kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Berist beiðnin eftir að sex mánuðir hafa liðið frá lokum framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal hafna henni.
     d.      Við 3. málsl. 2. mgr., sem verður 5. málsl., bætist: sem skal jafnframt staðfesta að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.

3. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Hinn 31. desember 2011 falla úr gildi lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum. Endurgreiðslubeiðnir sem samþykktar hafa verið fyrir þau tímamörk halda þó gildi sínu.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þeir sem hafa fengið endurgreiðsluvilyrði fyrir 31. desember 2006 eiga þess kost að sækja aftur um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar eftir að endurgreiðsluhlutfallið hefur verið hækkað. Þó skal við það miðað að framleiðsla sé ekki hafin.