Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 419. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 639  —  419. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneyti.
    Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru að lengja það tímabil úr einum mánuði í tólf sem nota má ökutæki á erlendum eða sérstökum skráningarnúmerum hér á landi án þess að greiða aðflutningsgjöld. Er um að ræða frestun á greiðslu aðflutningsgjalda til innflytjanda eða kaupanda bifreiðar sem hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis og hyggst dveljast hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Það er gert að skilyrði að bifreiðin sé flutt til landsins eða keypt ný og óskráð hér á landi innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins fyrst. Rétt er að ítreka að þessi heimild gildir einungis um þá sem koma hingað til tímabundinnar dvalar en reglurnar eiga ekki við um þá sem hingað koma til varanlegrar búsetu.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru tilkomnar vegna ábendinga Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Hefur ESA bent á að óheimilt sé að binda tímabundinn innflutning á fyrirtækjabifreiðum því skilyrði að hluti aðflutningsgjalda sé greiddur eins og gert sé í gildandi lögum. Þrátt fyrir að tilmæli ESA taki aðeins til fyrirtækjabifreiða er gert ráð fyrir að 2. gr. frumvarpsins eigi við um bifreiðar eins og þær eru skilgreindar í umferðarlögum. Einnig hefur ESA bent á að þeir sem hingað komi til starfa tímabundið eða í leit að atvinnu skuli eiga þess kost að hafa bifreið til eigin nota meðferðis í hæfilegan tíma án greiðslu aðflutningsgjalda og að þau formskilyrði tollalaga sem lúta að útgáfu leyfa til tímabundins innflutnings ökutækja fari í bága við meginreglur EES-samningsins um þjónustustarfsemi.
    Í frumvarpinu er einnig að finna aðrar breytingar á tollalögum. Má þar nefna að tollstjórinn í Reykjavík veiti starfsleyfi til tollmiðlunar en samkvæmt gildandi reglum fer ráðherra með það vald. Einnig er um að ræða breyttar tilvísanir 176. gr. í XXII. kafla laganna sem fjallar um refsiábyrgð, viðurlög og málsmeðferð.
    Nefndin telur að eftirlit með slíkum undanþágum eins og hér er kveðið á um verði skilvirkt. Hér getur verið um talsverðar fjárhæðir þótt það sé mismunandi eftir verði og vélarstærð bifreiðar. Sé tekið dæmi um bifreið í hærri vörugjaldflokki að andvirði 2 millj. kr. geta aðflutningsgjöld numið rúmlega 1,6 millj. kr.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. des. 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Þórarinn E. Sveinsson.


Þórdís Sigurðardóttir.Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.Ögmundur Jónasson.