Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 466. máls.

Þskj. 645  —  466. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
nr. 78 26. maí 1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt framlag á grundvelli samninga um kirkjueignir og prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.
    Launagreiðslum til starfandi presta þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna hennar skal hagað samkvæmt því sem greinir í 60. gr.

2. gr.

    4. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Biskup Íslands skipar í embætti sóknarprests sem og í önnur prestsembætti, sbr. 35., 36., 44. og 45. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Biskup Íslands veitir þeim embætti sóknarprests eða prests sem hlotið hefur bindandi val eða kosningu, samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.
     b.      4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Kjósi meiri hluti kjörmanna að embættið verði auglýst skal sú samþykkt send biskupi Íslands til samþykktar.

5. gr.

    1. málsl. 41. gr. laganna orðast svo: Hafi enginn sótt um prestakall eða embætti er biskupi Íslands heimilt að setja prest í embættið í allt að eitt ár.

6. gr.

    62. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
    Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem prestssetrasjóður tók við yfirstjórn á frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.
    Kirkjuþing setur nánari ákvæði um prestssetur í starfsreglur, sbr. 59. gr.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2007 fyrir utan ákvæði 3.–5. gr. sem öðlast gildi 1. desember 2007.
    Þá falla lög um prestssetur, nr. 137 31. desember 1993, úr gildi 1. júní 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er stefnt að tvennum breytingum. Annars vegar að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar vegna samkomulags milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem undirritað var 20. október 2006 af hálfu biskups Íslands, dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra, um að íslenska ríkið afhendi þjóðkirkjunni til eignar prestssetur eins og nánar greinir í samkomulaginu og greiði þar að auki nokkuð aukið árlegt framlag til hennar. Hins vegar er lagt til að biskupi Íslands verði fengið veitingarvald til að skipa sóknarpresta, en það er nú í höndum dóms- og kirkjumálaráðherra. Kirkjuþing hefur fjallað um þessar tillögur og fallist á þær fyrir sitt leyti, sbr. 4. mgr. 23. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997.

I.


    Hinn 1. janúar 1994 tóku gildi lög nr. 137/1993, um prestssetur. Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að tilvitnuðum lögum, var því slegið föstu að sérstakar reglur og sjónarmið giltu um prestssetur þjóðkirkjunnar og umsýslu með þeim. Jafnframt kom fram að engin afstaða væri tekin til eignarréttar yfir prestssetrunum enda væru að störfum sérstakar nefndir ríkis og kirkju sem hefðu það hlutverk að fjalla um framtíðarskipan kirkjueigna.
    Tæplega þremur árum síðar eða 10. janúar 1997 gerði ríkið og kirkjan með sér samkomulag um svokallaðar kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir, fyrir utan prestssetur. Samkomulagið var gert með það fyrir augum að það væri liður í að skýra tengslin milli ríkis og kirkju en um langt skeið höfðu kirkjan og ríkið verið nánast óaðgreinanleg. Við undirritun samkomulagsins var af hálfu ríkisins talið eðlilegt að ekki yrði tekið á eignarréttarmálum prestssetranna enda voru þau nýtt af prestum þjóðkirkjunnar til íbúðar, og þar sem um þau giltu sérlög væri nauðsynlegt að taka á þeim sérstaklega.
    Í framhaldi af undirritun samkomulagsins var í 62. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997, mælt fyrir um að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgdu, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgdi, væru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða skyldi renna í ríkissjóð. Á móti mundi ríkið skuldbinda sig til að greiða laun 138 presta og 18 starfsmanna biskupsstofu.
    Þá voru í kjölfar samkomulagsins um kirkjujarðirnar teknar upp nýjar viðræður við kirkjuna og nú um eignarréttarstöðu prestssetranna. Þær viðræður hafa staðið með hléum um árabil. Einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðunum hefur verið mismunandi skilningur ríkis og kirkju á því hvernig bæri að skýra og túlka samkomulagið frá 10. janúar 1997 varðandi prestssetrin.
    Sjónarmið ríkisins voru að samið hefði verið um öll önnur prestssetur og prestssetursjarðir en þau sem færðust yfir til prestssetrasjóðs með lögunum um prestssetur, nr. 137 31. desember 1993. Ríkið hefur þó verið reiðubúið að bæta kirkjunni með fjárgreiðslum tiltekin atriði sem út af stóðu að mati samningsaðila þegar umsýsla prestssetrana var færð yfir til sjóðsins. Þar var í fyrsta lagi um að ræða tilteknar skuldbindandi ákvarðanir stjórnvalda um stofnun, flutning, viðhald og breytingar á prestssetrum sem teknar voru áður en umsýsla prestssetra fluttist til prestssetrasjóðs og höfðu haft í för með sér fjárskuldbindingar fyrir sjóðinn. Í öðru lagi var um að ræða fjárgreiðslur vegna aukins umsýslu- og stjórnunarkostnaðar hjá kirkjunni eftir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hætti að sjá um og kosta umsýsluna. Í þriðja lagi var um að ræða fjárgreiðslur sem kirkjan kynni að bera í framtíðinni við að leiða í ljós réttindi eða skyldur sem tengjast umræddum jörðum.
    Sjónarmið kirkjunnar hafa verið talsvert frábrugðin sjónarmiðum ríkisins að þessu leyti. Kirkjan hefur í viðræðunum byggt sinn málflutning á að ósamið væri um ýmsar aðrar eignir og réttindi en færðust til prestssetrasjóðs með lögum um prestssetur. Þar ber helst að nefna það sjónarmið að nýbýli, hjáleigur, útskipt landsvæði og tengd réttindi sem einhvern tímann hefðu tilheyrt prestssetrunum allt frá setningu laga nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða, ættu einnig að teljast eign kirkjunnar. Jafnframt hefur það verið sjónarmið kirkjunnar að henni yrði afhent eða bætt með fjárgreiðslum óseld fyrrum prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir, nýbýli og hjáleigur úr prestssetursjörðum frá sama tíma sem nú eru í umsýslu landbúnaðarráðuneytisins. Þau prestssetur sem hefðu verið seld á þessu tímabili af ríkinu yrðu jafnframt bætt með sérstakri greiðslu. Auk þess taldi kirkjan að Þingvellir væru prestssetursjörð sem ætti að vera á forræði kirkjunnar.
    Samkomulagið sem hefur tekist milli þessara aðila felur í sér endanlega lúkningu allra mála er snúa að prestssetrunum og tengdum réttindum milli ríkis og kirkju.
    Samkomulagið byggist í meginatriðum á eftirfarandi:
    Kirkjunni verði afhent til fullrar eignar og ráðstöfunar þau prestssetur og prestssetursbústaðir sem henni voru afhent til umsýslu með lögum um prestssetur frá 1993, ásamt þeim fasteignum sem kirkjan hefur keypt fyrir eigið fé frá þeim tíma. Samkomulag þetta gerir því ekki ráð fyrir afhendingu annarra eigna til kirkjunnar en hún hefur nú þegar á sínu forræði.
    Allar kröfur kirkjunnar á hendur ríkinu vegna annarra eigna sem deilt hefur verið um á milli ríkis og kirkju og snúa að eldri prestssetrum, nýbýlum, hjáleigum og öðrum útskiptum eignum og réttindum allt frá árinu 1907 falla niður eða teljast umsamdar. Sama gildir um kröfur vegna prestssetra eða tengdra réttinda sem ríkið hefur selt á þessu tímabili.
    Mælt er sérstaklega fyrir um í samkomulaginu að jörðin Þingvellir og kirkjan þar sé eign íslenska ríkisins sem sjái um búnað hennar og viðhald, ásamt því að veita aðstöðu fyrir sóknarprest í tengslum við kirkjuathafnir.
    Gert er ráð fyrir að íslenska ríkið hækki árlegt framlag sitt til kirkjumálasjóðs sem nemur 3% af því gjaldi sem árlega er nú greitt til sjóðsins þannig að gjald í kirkjumálasjóð verði 14,3% frá 1. janúar 2007. Samhliða umræddri hækkun er lagt til að eftirfarandi ótímabundin viðfangsefni undir fjárlagaliðnum 06-701 Þjóðkirkjan falli brott frá og með fjárlögum 2007:
    1.12         Sérþjónustuprestur vegna áfengis og vímuefnavandans          7,1 m.kr.
    1.15         Kirkjumiðstöðvar          2,2 m.kr.
    1.16         Langamýri í Skagafirði          1,7 m.kr.
    1.91         Skálholtsskóli          9,4 m.kr.
    Hækkun á gjaldi ríkisins í kirkjumálasjóð nemur um 55 millj. kr. á ári en að teknu tilliti til þeirra liða sem niður falla á móti verður raunhækkun útgjalda ríkisins vegna samningsins um 35 millj. kr. á ári.
    Í samræmi við 23. gr. laga nr. 78 26. maí 1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, hefur samkomulagið og þessar tillögur til lagabreytinga verið lagt fyrir kirkjuþing til umfjöllunar. Samþykkti kirkjuþing fyrir sitt leyti samkomulagið. Jafnframt beindi það tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra um að hann flytti á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á þjóðkirkjulögunum. Nauðsynlegar lagabreytingar vegna samkomulagsins er að finna í frumvarpinu, auk tillagna um að nema úr gildi ákvæði um prestssetrasjóð.

II.


    Samkvæmt 37. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 26. maí 1997, skipar dóms- og kirkjumálaráðherra í embætti sóknarpresta. Biskup Íslands skipar í önnur prestsembætti. Í frumvarpi þessu er lagt til að biskup skipi í öll prestsembætti.
    Á undanförnum árum hefur sjálfstæði kirkjunnar aukist. Í þessu skyni var veitingarvald embætta sérþjónustupresta, héraðspresta, presta sem ráðnir eru til starfa erlendis og annarra prestsembætta en embætta sóknarpresta fært frá dóms- og kirkjumálaráðherra til biskups Íslands með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Sama á einnig við um skipun í embætti prófasts.
    Með starfsreglum um presta, nr. 735/1998, sem kirkjuþing samþykkti haustið 1998 á grundvelli framangreindra laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, var gerð grundvallarbreyting á reglum um val og veitingu prestsembætta. Valnefndir velja nú jafnt sóknarpresta sem aðra presta í sóknum, sbr. 35. gr. laganna. Vegna samræmis þykir eðlilegt að sami háttur verði hafður á um skipun sóknarpresta og annarra presta og að veitingarvaldið verði hjá biskupi Íslands.
    Tillaga um þetta sama efni var lögð fyrir kirkjuþing árið 2001, en þá taldi kirkjuþing ekki tímabært að ráðast í þessa breytingu, og var þá ákveðið að láta málið kyrrt liggja. Fyrir liggja nokkrar álitsgerðir, m.a. álit dr. Páls Sigurðssonar lagaprófessors. Þá hefur ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni fjallað um málið og komist að þeirri niðurstöðu að það snerti ekki grundvöll embættis evangelísk-lúterskrar kirkju.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er fjallað um framlag ríkisins til þjóðkirkjunnar. Í samkomulagi því, er greint er frá í almennum athugasemdum, er nánar kveðið á um að íslenska ríkið greiði aukið framlag sem nemur 3% aukningu þess gjalds sem árlega er greitt til kirkjumálasjóðs. Framlagið hækkar þá úr 11,3% í 14,3%. Jafnframt eru felld brott framlög til einstakra viðfangsefna undir fjárlagaliðunum 06-701, 1.12, 1.15, 1.16 og 1.91 í fjárlögum 2007.

Um 2. gr.


    Ákvæði um hvernig kjósa á í stjórn prestssetrasjóðs fellur brott þar sem prestssetrasjóður verður lagður niður. Þjóðkirkjan hyggst skipa eignamálum prestssetranna á þann veg að færa prestssetrin og eignir þeim tengdar undir kirkjumálasjóð, og að þar verði búið til sérstakt viðfangsefni sem ber heitið prestssetrasjóður. Allar ákvarðanir um málefni þess sjóðs verða því alfarið á valdi þjóðkirkjunnar sjálfrar framvegis.

Um 3.–5. gr.


    Um breytingar þær, sem lagðar eru til í 3.–5. gr. frumvarpsins, vísast til kafla II í almennum athugasemdum hér að framan. Einungis er um að ræða formlega breytingu á því hver er handhafi veitingarvaldsins, en hún hefur ekki í för með sér neina efnislega breytingu á réttarstöðu þeirra sóknarpresta sem skipaðir verða eftir að frumvarp þetta verður að lögum, ef samþykkt verður. Aðeins er verið að færa eðlilegt hlutverk yfirstjórnar þjóðkirkjunnar til hennar sjálfrar í ljósi þeirrar stefnumörkunar sem ákveðin var með þjóðkirkjulögunum um að veita þjóðkirkjunni meira sjálfstæði.

Um 6. gr.


    Í samkomulagi því, sem greint er frá í I. kafla almennra athugasemda, er tekið fram hvaða eignir það eru sem afhentar eru þjóðkirkjunni til eignar, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, svo og hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt síðan 1. janúar 1994. Þá fylgir skrá yfir þau prestssetur sem um ræðir. Rísi ágreiningur um efni eða túlkun á samkomulaginu milli aðilanna skal gerðardómur útkljá slík mál, enda verði gerðardómsmál höfðað fyrir árslok 2010. Samkomulagið fylgir í heild sinni sem fylgiskjal með þessu frumvarpi.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Samkomulag milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur
og afhendingu þeirra, undirritað hinn 20. október sl.


Íslenska ríkið og Þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi
samkomulag
um prestssetur og afhendingu þeirra til Þjóðkirkjunnar

I. Kafli

1. gr.

    Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem Prestssetrasjóður tók við yfirstjórn á frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá ráðuneytinu, sbr. upptalningu prestssetra í II. kafla samkomulags þessa, er eign Þjóðkirkjunnar.

2. gr.

    Prestsbústaðir, hús og aðrar eignir, sem Prestssetrasjóður hefur keypt er eign Þjóðkirkjunnar, sbr. upptalningu í III. kafla samkomulags þessa.

3. gr.

    Íslenska ríkið afhendir eignirnar til fullra yfirráða eins og þær eru nú ásamt þeim réttindum, skyldum og/eða kvöðum sem þeim fylgja með þeim takmörkunum sem nánar greinir í samkomulagi þessu. Þjóðkirkjan tekur við eignunum ásamt réttindum, skyldum og/eða kvöðum frá sama tíma.

4. gr.

    Samkomulag þetta felur í sér, auk afhendingar tiltekinna eigna til Þjóðkirkjunnar, að íslenska ríkið hækkar árlegt framlag sitt til Kirkjumálasjóðs sem nemur 3,0% af því gjaldi sem árlega er greitt til sjóðsins þannig að gjald í Kirkjumálasjóð verði 14,3% frá 1. janúar 2007. Samhliða umræddri hækkun munu framlög samkvæmt eftirfarandi viðfangsefnum undir fjárlagaliðnum 06-701 Þjóðkirkjan falla brott frá og með fjárlögum 2007: 1.12, 1.15, 1.16 og 1.91.

5. gr.

    Með eignaafhendingu og uppgjöri samkvæmt samkomulagi þessu á sér stað fullnaðaruppgjör vegna allra prestssetra og prestssetursjarða.
    Uppgjör þetta tekur einnig til ákvarðana stjórnvalda um stofnun, flutning, viðhald eða breytingar á prestssetrum sem teknar voru áður en umsýsla prestssetra fluttist til Prestssetrasjóðs og höfðu eða kunna að hafa í för með sér fjárskuldbindingar fyrir sjóðinn.
    Samkomulag er með aðilum um að í uppgjöri þessu felist einnig að bættur hafi verið sá umsýslu- og stjórnunarkostnaður sem Prestssetrasjóður hefur haft af rekstri sjóðsins eftir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hætti að kosta umsýslu með honum.
    Sama gildir um þann lögfræði- og málskostnað sem Þjóðkirkjan kann að bera í framtíðinni við að leiða nánar í ljós réttindi eða skyldur sem tengjast umræddum jörðum.

6. gr.

    Með samkomulagi þessu eru ekki afhentar aðrar eignir en þær sem nú eru á forræði Prestssetrasjóðs. Hjáleigur prestssetursjarða, nýbýli, lóðir og jarðarhlutar sem skipt hefur verið úr hinum afhentu jörðum ganga ekki til Þjóðkirkjunnar né andvirði fyrir sölu þeirra nema þess sé sérstaklega getið í samkomulagi þessu, sbr. III. Kafla.
    Önnur prestssetur, ásamt því sem þeim fylgdi og aðrar eignir og skuldbindingar ríkisins vegna prestssetra, teljast með kirkjueignum, sem afhentar voru með kirkjujarðasamkomulaginu frá 10.1.1997. Jörðin Þingvellir er þar meðtalin og skal hún vera eign íslenska ríkisins. Kirkjan þar er eign íslenska ríkisins, sem sér um búnað hennar og viðhald, ásamt því að veita aðstöðu fyrir sóknarprest í tengslum við kirkjuathafnir.

7. gr.

    Prestssetursjarðir, sem afhentar eru, miða við landamerki jarða eins og þau eru talin vera í dag og er Þjóðkirkjunni kunnugt um að niðurstöður Óbyggðanefndar og/eða dómstóla skv. lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun eignarlanda, þjóðlenda og afrétta, kunna að breyta þeim landamerkjum.
    Séu á umræddum jörðum byggingar eða aðrar eignir sem ekki hafa verið í eigu eða umsjá Prestssetrasjóðs fyrir samkomulag þetta, s.s. skólabyggingar, íbúðarhús eða önnur mannvirki, skal Þjóðkirkjan útmæla slíkum mannvirkjum hæfilega lóð og gera lóðarsamning við eiganda eða umsjónaraðila mannvirkisins.
    Þjóðkirkjan tekur við eignunum að öðru leyti í því ástandi, sem þær eru í, við undirritun samkomulags þessa og sættir sig við að fullu.

8. gr.

    Nú rís ágreiningur um efni eða túlkun samkomulagsins milli aðila þess, t.d. varðandi eignir, landamerki, hlunnindi eða ítök einstakra prestssetursjarða, og skal þá þriggja manna gerðardómur útkljá slík deilumál, enda verði gerðardómsmál höfðað fyrir árslok 2010.
    Gerðardómurinn skal skipaður einum fulltrúa tilnefndum af fjármálaráðuneytinu, einum tilnefndum af Þjóðkirkjunni og einum skipuðum af Héraðsdómi Reykjavíkur.
    Um gerðardóm þennan og um skiptingu málskostnaðar fyrir honum fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma.
    Sé ágreiningur þess eðlis að hann varði eignir, hlunnindi, ábúð, ítök, landamerki o.fl. sem snúi að öðrum en ríkisaðilum, eða gerðardómsmál skv. 1. mgr. 8. gr. og mál hefur ekki verið höfðað fyrir árslok 2010, fer um úrlausn þess samkvæmt almennum reglum.

9. gr.

    Þjóðkirkjunni er kunnugt um að í einhverjum tilvikum kann að skorta eignarheimildir fyrir eignunum.
    Lög um breytingar á lögum nr. 137/1993, um prestssetur, ásamt samkomulagi þessu skulu teljast fullnægjandi eignarheimild til að unnt verði að skrá prestssetrin og fá þeim þinglýst sem eign Þjóðkirkjunnar. Rísi vafi hjá þinglýsingarstjóra um skráningu í eigna- og veðmálabækur, skal dóms- og kirkjumálaráðuneytið útbúa sérstaka yfirlýsingu er skapi eignarheimild Þjóðkirkjunnar að tilteknu prestssetri.

10. gr.

    Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki Kirkjuþings svo og um samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um prestssetur nr. 137/1993.

II. Kafli

    Hér að neðan eru tilgreindar þær eignir, prestssetursjarðir eða prestsbústaðir sem afhentar verða Þjóðkirkjunni til yfirráða frá 1. janúar 2007.

Skýringar Skráð eign
Múlaprófastsdæmi fj. 6
Skeggjastaðir Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hof Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Valþjófsstaður Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Eiðar 1) Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Seyðisfjörður, Öldugata 2 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Desjamýri 2) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Austfjarðarprófastsdæmi fj. 5
Neskaupsstaður, Blómsturvellir 35 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Eskifjörður, Hátún 13 3) Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Kolfreyjustaður Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Heydalir Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Djúpivogur, Steinar Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Skaftafellsprófastsdæmi fj. 5
Höfn, Hlíðartún 18 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Kálfafellsstaður Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Kirkjubæjarklaustur Íbúðarhús með lóð verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Ásar I Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Vík í Mýrdal, Ránarbraut 7 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Rangárvallaprófastsdæmi fj. 5
Holt, V-Eyjafjallahreppi 4) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Bergþórshvoll Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Breiðabólsstaður 5) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Oddi,Rangárvöllum Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Fellsmúli Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Árnesprófastsdæmi fj. 8
Hruni Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Tröð, Gnúpverjahreppi 6) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Skálholt 7) Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Mosfell, Grímsnesi Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Eyrarbakki, Túngata 20 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hveragerði , Brattahlíð 5 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Þorlákshöfn, Háaleiti Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hraungerði 8) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Kjalarnesprófastsdæmi fj. 5
Grindavík, Ránargata 1 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Útskálar, Garði Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Mosfell í Mosfellssveit 9) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Reynivellir í Kjós Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Vestmannaeyjar, Hólagata 42 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Borgarfjarðarprófastsdæmi fj. 6
Saurbær Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Akranes, Laugarbraut 3 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Staðarhóll, Hvanneyri, 10) Íbúðarhús og lóð verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Reykholt, Borgarfirði 11) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Stafholt Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Borg á Mýrum Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi fj. 5
Staðarstaður, Staðarsveit 12) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Ólafsvík, Lindarholt 8 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Grundarfjörður, Eyrarvegur 26 13) Íbúðarhús með lóð verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Stykkishólmur, Lágholt 9 14) Íbúðarhús með lóð verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hvoll, Saurbæjarhreppi Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Barðastrandarprófastsdæmi fj. 4
Reykhólar, Barðaströnd 15) Íbúðarhús með lóð verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Patreksfjörður, Aðalstræti 57 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Tálknafjörður, Túngata 28 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Bíldudalur, Bakkatún Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Ísafjarðarprófastsdæmi fj. 5
Þingeyri, Aðalstræti 40 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Holt í Önundarfirði Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Suðureyri, Túngata 6 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Ísafjörður, Miðtún 12 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Vatnsfjörður Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Húnavatnsprófastsdæmi fj. 5
Árnes I, Árneshreppi Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hólmavík, Kópnesbraut 17 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Prestsbakki Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Melstaður 16) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hvammstangi, Hvammstangabraut 21 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Skagafjarðarprófastsdæmi fj. 6
Sauðárkrókur, Víðihlíð 8 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Glaumbær Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Mælifell Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Miklibær 17) Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Hólar í Hjaltadal 18) Lóð verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Siglufjörður, Hvanneyrarbraut 45 Íbúðarhús, lóð og bílgeymsla verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Eyjafjarðarprófastsdæmi fj. 3
Hrísey, Austurvegur 9 Íbúðarhús og bílgeymsla verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Möðruvellir I, Hörgárdal Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Syðra-Laugaland Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Þingeyjarprófastsdæmi fj. 7
Laufás Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Háls í Fnjóskadal Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Skútustaðir Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Grenjaðarstaður Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Skinnastaður Jörðin verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Raufarhöfn, Tjarnarholt 4 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður
Þórshöfn, Sunnuvegur 6 Íbúðarhús verði eign Þjóðkirkjunnar Ríkissjóður

Skýringar og ákvarðanir tengdar framangreindum 75 eignum:

1)    Réttindi yfir ca. 5 ha landspildu í samræmi við samning ríkissjóðs við Austur-Hérað, dags. 22.02.2001.
2)    Jörðin er nú leigð til ábúðar í umsjón Prestssetrasjóðs. Þjóðkirkjan tekur við öllum réttindum og skyldum ríkisins samkvæmt ábúðarsamningi.
3)    Prestsetrið á Hólmum í Reyðarfirði var flutt á Eskifjörð og jörðin leigð til ábúðar. Ríkissjóður hefur selt jörðina til Fjarðabyggðar og er gert ráð fyrir að starfandi prestur í sókninni hafi heimild til nýtingar þeirra hlunninda, sem hann hefur hingað til nýtt, þar til hann lætur af störfum, sem prestur í prestakallinu.
4)    Ásamt ½ Efsta-Koti, sem er óselt og ekki í umsjón ráðuneytis. ½ Efstakot var selt með afsali 12. 9. 1997.
5)    Ásamt hluta Aurasels í umsjón Prestssetrasjóðs.
6)    Skipti urðu á landi og er 50 ha spilda úr landi Réttarholts í umráðum ábúanda Traða. Gengið verður formlega frá eignarhaldi landspildunnar í samræmi við þá samninga sem gerðir voru.
7)    Íbúðarhúsið er á lóð í eigu þjóðkirkjunnar.
8)    Jörðin er nú leigð til ábúðar í umsjón Prestssetrasjóðs. Þjóðkirkjan tekur við öllum réttindum og skyldum ríkisins samkvæmt ábúðarsamningi.
9)    Ásamt lóðum sem nú eru leigðar út í umsjón Prestssetrasjóðs.
10)    Prestssetrið er í landi Hvanneyrar og var flutt þangað um miðja síðustu öld. Gengið verður frá skýrri eignarheimild og afmörkun lóðar prestssetursins.
11)    Ásamt jörðum, réttindum og skyldum, sbr. samning milli dóms- og kirkjumálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis, dags. 7. júlí 1987 og bréf dags. 17. nóv. 2005 frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til Prestssetrasjóðs um leigusamninga og löggerninga.
12)    Ágreiningur hefur verið milli Prestssetrasjóðs og eiganda jarðarinnar Traða sem seld var 1998. Þjóðkirkjan sjái um lausn ágreiningsins gagnvart eigendum jarðarinnar.
13)    Ásamt eyju í umsjón Prestssetrasjóðs samkvæmt haldsbréfi.
14)    Ásamt eyjum í umsjón Prestssetrasjóðs samkvæmt haldsbréfi
15)    Gengið verður formlega frá afmörkun þeirra réttinda og þeirrar lóðar sem prestssetrið hefur hingað til haft yfir að ráða.
16)    Ásamt eyju í umsjón Prestssetrasjóðs samkvæmt haldsbréfi.
17)    Ásamt Borgarhól, sem er óseldur og ekki í umsjón ráðuneytis.
18)    Gengið verður frá lóðarsamningi kringum íbúðarhús þjóðkirkjunnar.

III. Kafli

    Hér eru tilgreindar þær 20 eignir, sem Prestssetrasjóður hefur keypt eða byggt og verða eign Þjóðkirkjunnar:

Lýsing eignar Skýringar Skráð eign
Múlaprófastsdæmi fj. 2
Hof Hús á jörð Hlaða Prestssetrasjóður
Valþjófsstaður Hús á jörð Geymsla og karftöflugeymsla Prestssetrasjóður
Austfjarðaprófastsdæmi fj. 1
Heydalir Hús á jörð Hesthús-Dúnhús Prestssetrasjóður
Rangárvallaprófastsdæmi fj. 1
Oddi, Rangárvöllum Hús á jörð Gripahús Prestssetrasjóður
Kjalarnesprófastsdæmi fj. 3
Útskálar, Garði Skagabraut 30 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Vestmannaeyjar Hólagata 42, neðri hæð Íbúð Prestssetrasjóður
Vestmannaeyjar Smáragata 6 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Borgarfjarðarprófastsdæmi fj. 1
Reykholt, Borgarfirði Hús á jörð Bílskúr Prestssetrasjóður
Snæfellsnes- og Dalaprófastsd. fj. 2
Hellissandur Laufás 2 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Búðardalur Sunnubraut 25 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Ísafjarðarprófastsdæmi fj. 1
Bolungarvík Völusteinsstræti 16 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Húnavatnsprófastsdæmi fj. 2
Blönduós Hlíðarbraut 20 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Skagaströnd Hólabraut 30 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Skagafjarðarprófastsdæmi fj. 3
Glaumbær Hús á jörð Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Miklibær 1) Hús á jörð Íbúðarhús Ríkissjóður
Hofsós Kirkjugata 13 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Eyjafjarðarprófastsdæmi fj. 2
Ólafsfjörður Hlíðarvegur 42 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Dalvík Dalbraut 2 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
Þingeyjarprófastsdæmi fj. 2
Laufás Hús á jörð Einbýli með bílskúr ásamt geymslu Prestssetrasjóður
Húsavík Ketilsbraut 20 Einbýli með bílskúr Prestssetrasjóður
1)    Íbúðarhús byggt 1995 af Prestssetrajóði, skráð hjá Fasteignamati sem eign Ríkissjóðs.

IV. kafli

    Samkomulag þetta grundvallast á álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 og er viðauki við samkomulag íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, sbr. V. kafla laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar og samning íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998 með fjárskuldbindingum ríkisins á móti afhendingu kirkjueigna allt frá 1907.
    Í 5. gr. samkomulags íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar, frá 10. janúar 1997, um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar, segir að prestssetrin og það sem þeim fylgi séu undandskilin samkomulaginu. Í ákvæðinu kemur fram að fjallað verði síðar um eignarréttarstöðu prestssetranna.
    Með undirritun samkomulags þessa hefur þeirri umfjöllun að fullu verið lokið milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar og lýsa samningsaðilar því yfir að sú eignaafhending og árleg greiðsla sem á sér stað með samkomulagi þessu sé fullnaðaruppgjör milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar vegna allra prestssetra og hvorugur aðili eigi kröfu á hendur hinum vegna þeirra.

Reykjavík, 20. október 2006



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/1997,
um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

    Með frumvarpinu er stefnt að tveimur breytingum. Annars vegar að lögfesta samkomulag milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem gert hefur verið um að íslenska ríkið afhendi þjóðkirkjunni til eignar prestssetur, eins og nánar greinir í samkomulaginu, og auki nokkuð árlegt framlag til hennar. Hins vegar er lagt til að biskupi Íslands verði fengið veitingarvald til að skipa sóknarpresta, en það er nú í höndum dóms- og kirkjumálaráðherra.
    Kostnaður ríkissjóðs vegna áðurnefnds samkomulags er áætlaður um 35 m.kr. á ári og hafa þegar verið gerðar viðeigandi breytingartillögur við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2007 vegna þess. Annars vegar hækkar framlag ríkisins til kirkjumálasjóðs um 55 m.kr., þar sem í samkomulaginu er kveðið á um að reiknað hlutfall af sóknargjöldum sem rennur til sjóðsins skuli frá 1. janúar 2007 hækka úr 11,3% í 14,3%, en við það hækkar framlag til sjóðsins úr 207,5 m.kr. í 262,5 m.kr., eða um 55 m.kr. Hins vegar falla samkvæmt samkomulaginu á brott framlög á nokkrum nánar tilteknum viðfangsefnum fjárlagaliðar 06-701 Þjóðkirkjan, en í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 hafði verið gert ráð fyrir alls 20,4 m.kr. fjárveitingum til þessara viðfangsefna.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má ætla að kostnaður ríkissjóðs aukist um 35 m.kr. á ársgrundvelli.