Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 658  —  390. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006.

(Eftir 2. umr., 9. des.)



1. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Til að standa undir kostnaði við útgáfu skírteina, starfsleyfa og heimilda, eftirlit og vottun auk annarrar starfsemi er Flugmálastjórn Íslands heimilt að innheimta gjöld, þ.m.t. árleg gjöld, vegna:
     1.      Útgáfu skírteina og heimilda einstaklinga, breytinga, endurnýjunar og endurútgáfu. Greiða skal fyrir mat og vottun á gögnum er fylgja umsókn fyrir hverja klukkustund sem matið tekur á grundvelli gjalds, sbr. 2. mgr. Einnig skal heimilt að innheimta fast gjald fyrir tiltekin skírteini og heimildir á grundvelli tímagjalds, sbr. 2. mgr.
     2.      Útgáfu starfsleyfa, heimilda og skírteina lögaðila, breytinga, endurnýjunar og endurútgáfu. Greiða skal fyrir mat og vottun á gögnum er fylgja umsókn fyrir hverja klukkustund sem matið tekur, sbr. 2. mgr. Einnig skal heimilt að innheimta fast gjald fyrir tiltekin starfsleyfi, skírteini og heimildir á grundvelli tímagjalds, sbr. 2. mgr. Heimilt skal að krefja umsækjanda um fyrirframgreiðslu vegna yfirferðar gagna og samskipta meðan á mats- og vottunarferli stendur.
     3.      Útgáfu lofthæfisskírteina og hávaða- og mengunarvottorða.
                  Gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis er miðað við hámarksflugtaksmassa loftfars:
                  a.      Fyrir loftför allt að 2.700 kg     13.680 kr. + 9,36 kr./kg.
                  b.      Fyrir loftför 2.701–5.700 kg     20.400 kr. + 7,80 kr./kg.
                  c.      Fyrir loftför 5.701–50.000 kg     96.000 kr. + 8,40 kr./kg.
                  d.      Fyrir loftför yfir 50.000 kg     480.000 kr. + 4,80 kr./kg.
                  Heimilt skal að endurgreiða hlutfallslega gjald vegna fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis ef skráning loftfars varir skemur en 12 mánuði. Endurgreiða skal 1/ 12hluta gjaldsins fyrir hvern heilan mánuð sem loftfarið er skemur á skrá en 12 mánuði, þó þannig að lágmarksgjald sé 6/ 12 fulls gjalds.
                  Gjald fyrir útgáfu tímabundins lofthæfisskírteinis sem gilda skal skemur en 30 daga skal vera 3/ 12 af gjaldi fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis.
                  Fyrir útgáfu lofthæfisskírteinis til útflutnings skal greiða helming af gjaldi fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis.
                  Gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis loftfars sem ekki er vélknúið er 25% af gjaldi fyrir vélknúin loftför.
                  Nú er loftfar skráð erlendis fært á flugrekandaskírteini íslensks flugrekanda og skal þá greiða fyrir útgáfu lofthæfisskírteinis eins og um fyrstu útgáfu þess væri að ræða.
                  Fyrir útgáfu vottorðs til staðfestingar á lofthæfi skal greiða samkvæmt tímagjaldi, sbr. 2. mgr.
                  Gjöld samkvæmt þessum lið falla í gjalddaga við útgáfu skírteinis eða vottorðs. Handhafar starfsleyfa útgefinna af Flugmálastjórn njóta greiðslufrests, enda séu þeir í skilum við stofnunina. Þegar greiðslufrestur er veittur er uppgjörstímabil þrír mánuðir sem miðast við febrúar, maí, ágúst og nóvember. Gjalddagi er 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     4.      Skráningar loftfars og breytingar á eigendaskiptum.
     5.      Árlegs eftirlits með:
                  a.      loftförum í almannaflugi (einka- og kennsluflugi),
                  b.      loftförum í flutningaflugi, verkflugi og ríkisflugi,
                  c.      flugrekstri,
                  d.      viðhaldsstöðvum og verkstæðum,
                  e.      flug- og þyrluvöllum,
                  f.      lendingastöðum,
                  g.      flugstöðvum,
                  h.      flugvernd,
                  i.      flugskólum,
                  j.      þjálfunarbúnaði,
                  k.      skólum fyrir flugleiðsöguþjónustu (flugumferðarþjónustu),
                  l.      skólum fyrir flugvéltækna og viðhaldsvotta,
                  m.      flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugleiðsögubúnaði,
                  n.      flugprófunarþjónustu,
                  o.      fluglæknasetrum,
                  p.      flugklúbbum sem sæta eftirliti,
                  q.      námskeiðahaldi,
                  r.      útleigu loftfara í atvinnuskyni,
                  s.      handhöfum skírteina útgefinna af Flugmálastjórn Íslands.
     6.      Prófgjalda, þ.e. til framkvæmdar prófa, skriflegra eða verklegra, eða yfirferðar eða eftirlits með próftöku.
     7.      Heimilda sem tengjast einstökum atburðum og afgreiðslum, svo sem flugsýningum, flugkeppnum, fallhlífarstökki, lágflugi, listflugi, flugeldasýningum, yfirflugi með takmarkað lofthæfisskírteini og yfirferð vátryggingaskilmála vegna loftferða.
     8.      Samhæfingar eða samstarfs við erlend stjórnvöld í þágu eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. vegna samningagerðar og framsals eftirlits, samkvæmt föstu gjaldi á hverja unna klukkustund, sbr. 2. mgr.
     9.      Sérstakrar þjónustu sem óskað er vegna vottunar, viðurkenningar, prófunar eða veitingar heimilda, samkvæmt föstu gjaldi á hverja unna klukkustund, sbr. 2. mgr.
    Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu flugrekstrar auk ferða og uppihalds. Fjárhæð gjalda tekur mið af þeim kostnaði sem almennt hlýst af eftirliti og þjónustu. Útlagðan kostnað, svo sem við ferðir, uppihald og sérfræðiþjónustu í þágu eftirlitsskylds aðila, skal greiða aukalega.
    Þá er Flugmálastjórn heimilt að hafa tekjur af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum.
    Gjöld Flugmálastjórnar skv. 1. mgr. eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
    Flugmálastjórn er heimilt að innheimta gjöld vegna heimildar- og leyfisveitinga og eftirlits, svo og fyrir aðra þjónustu sem veitt er á vegum stofnunarinnar, í samræmi við gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Jafnframt falla brott 35.–38. tölul. 1. mgr. 10. gr. og 9.–11. tölul. 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Þá falla brott 4.–6. mgr. 10. gr., 7. mgr. 56. gr., 7. mgr. 57. gr. og 5. mgr. 57. gr. a og 2., 3. og 5. mgr. 71. gr. a og 2.–4. mgr. 81. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.