Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 496. máls.

Þskj. 750  —  496. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15 25. mars 1998,
og lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 15 25. mars 1998.
1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Dómstólar í héraði eru átta. Heiti þeirra, aðsetur og umdæmi eru sem hér segir:
     1.      Héraðsdómur Reykjavíkur hefur aðsetur í Reykjavík og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
     2.      Héraðsdómur Vesturlands hefur aðsetur í Borgarnesi og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær og Dalabyggð.
     3.      Héraðsdómur Vestfjarða hefur aðsetur á Ísafirði og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Bæjarhreppur.
     4.      Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur aðsetur á Sauðárkróki og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduóssbær, Höfðahreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður, Skagabyggð og Akrahreppur.
     5.      Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur aðsetur á Akureyri og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Dalvíkurbyggð, Arnarneshreppur, Hörgárbyggð, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Aðaldælahreppur, Tjörneshreppur, Norðurþing, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.
     6.      Héraðsdómur Austurlands hefur aðsetur á Egilsstöðum og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður.
     7.      Héraðsdómur Suðurlands hefur aðsetur á Selfossi og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus.
     8.      Héraðsdómur Reykjaness hefur aðsetur í Hafnarfirði og heyra þessi sveitarfélög til umdæmis hans: Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Sveitarfélagið Álftanes og Kópavogsbær.
    

2. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Um þingbækur, dómabækur, atkvæðabækur og málaskrár fer samkvæmt reglum sem Hæstiréttur setur.
    Dómar Hæstaréttar skulu gefnir út. Um tilhögun útgáfunnar fer eftir ákvörðun Hæstaréttar að fengnu samþykki dómsmálaráðherra, sbr. þó 3. mgr.
    Dóm Hæstaréttar, vegna kæru á úrskurði kveðnum upp skv. 87. gr., sbr. 86. gr., 90. gr., sbr. 89. gr., eða 103. gr. laga um meðferð opinberra mála skal ekki gefa út fyrr en mánuður er liðinn frá uppkvaðningu hans.
    Um heimildir til mynd- og hljóðupptöku í húsakynnum Hæstaréttar gilda að breyttu breytanda ákvæði 2. og 3. mgr. 22. gr.

3. gr.


    Í stað tölunnar „38“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: 40.

4. gr.


    Á eftir 1. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Dómstólaráði er heimilt að fela löglærðum starfsmanni að sinna verkefnum sem hafa upplýsingagildi fyrir almenning, þar á meðal að taka þátt í opinberri umræðu um dómsmál.

5. gr.

    16. gr. laganna breytist þannig:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Flytjist dómari, sem gegnir starfi dómstjóra, til annars dómstóls eða sé honum veitt lausn frá starfinu eða embætti héraðsdómara skal skipaður nýr dómstjóri samkvæmt því sem segir í 1. mgr. Láti dómstjóri tímabundið af starfi skal varadómstjóri gegna starfi hans enda verði forföll dómstjóra ekki lengri en þrír mánuðir. Verði forföll dómstjóra lengri skal dómsmálaráðherra setja dómstjóra í hans stað.
     b.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Dómari sem telur á sig hallað með ákvörðun dómstjóra samkvæmt þessari grein getur leitað álits dómstólaráðs um ákvörðunina.
                  Dómstjóri ræður aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slítur ráðningu þeirra, sbr. þó 17. gr. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og annarra starfsmanna og gæta aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki kemur í hlut annarra samkvæmt ákvæðum 28.–30. gr.

6. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Til aðstoðar dómurum má ráða til héraðsdómstóla lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 12. gr. og hafa í minnst tvö ár átt sæti á Alþingi, stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi, en leggja má saman starfstíma í hverri af þessum greinum. Dómstjóri annast slíka ráðningu og gilda um hana almennar reglur um starfsmenn ríkisins að öðru leyti en því að hún skal vera til sex ára og skal vera heimilt að endurráða starfsmanninn einu sinni við sama dómstól. Aðstoðarmanni verður þó ekki vikið úr starfi nema samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna.
    Dómstjóri getur falið aðstoðarmanni að annast hvers konar dómsathafnir en þó ekki fara með og leysa að efni til úr einkamálum, þar með töldum ágreiningsmálum um fullnustugerðir eða þinglýsingar, þar sem vörnum er haldið uppi eða opinberum málum frá því að þau koma til aðalmeðferðar.
    Um störf þau sem dómstjóri felur aðstoðarmanni skv. 2. mgr. fer eftir IV. kafla laga þessara.
    Þá skulu eftir því sem við á ákvæði 4. og 5. mgr. 18. gr. gilda um störf þau sem dómstjóri felur aðstoðarmanni skv. 2. mgr. þessarar greinar.
    Dómstólaráði er heimilt, með samþykki aðstoðarmanns og beggja dómstjóra, að flytja aðstoðarmann tímabundið milli héraðsdómstóla á meðan á ráðningartíma hans stendur.

7. gr.

    Við 22. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Öðrum en dómstólnum sjálfum eru óheimilar myndatökur og hvers kyns hljóð- og myndupptökur í dómhúsum. Frá þessu má víkja í einstök skipti með leyfi dómstjóra, enda sé þess gætt að myndatökum og upptökum verði ekki beint að aðilum dómsmáls, án þeirra samþykkis.
    Brot gegn ákvæðum 2. mgr. varða sektum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

8. gr.


    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 113. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Eins má dómari með áritun fallast á kröfu um staðfestingu lögveðréttar, sé hún að hans mati í samræmi við gögn málsins og útivist hafi orðið af hálfu stefnda eins og segir í 1. málsl.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði laga þessara um starfsgengisskilyrði skulu fyrst koma til framkvæmda næst þegar ráðnir eru starfsmenn samkvæmt lögunum. Sex ára tímabil skv. 6. gr. skal fyrst hefjast við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var lagt fram á 132. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Er það lagt fram að nýju, með nokkrum breytingum, eftir athugun ráðuneytisins á umsögnum sem bárust allsherjarnefnd Alþingis frá dómstólaráði, réttarfarsnefnd, héraðsdómi Reykjavíkur, ríkissaksóknara, sýslumannafélagi Íslands, félagi löglærðra fulltrúa ákæruvalds og Blaðamannafélagi Íslands. Auk þess er lagt til að héraðsdómurum verði fjölgað um tvo, sbr. nánari umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins.
    Sú meginbreyting, sem lögð er til í frumvarpinu, er eftir sem áður að dómstjóra héraðsdómstóls verði veitt heimild til að fela löglærðum aðstoðarmönnum héraðsdómara að fara með dómstörf að ákveðnu afmörkuðu leyti. Með því er reynt að endurheimta kosti dómarafulltrúakerfisins, sem féll úr lögum árið 1998, en jafnframt að nýta kosti aðstoðarmannakerfisins sem þá tók við með því að dómstjóri getur sem fyrr nýtt aðstoðarmennina sem aðstoðarmenn, og þá jafnvel eingöngu sem slíka, ef honum þykir hagsmunum dómsins þannig best borgið. Með frumvarpinu er dómstjóra því fengin heimild en ekki skylda til þess að nýta aðstoðarmenn með þessum hætti. Núverandi kerfi hefur hins vegar þann galla að aðstoðarmenn hafa ekki heimild til að vinna nein dómstörf í eigin nafni. Má þar nefna að meginfjöldi þeirra dómsmála sem héraðsdómstólunum berast á hverju ári eru svonefnd útivistarmál, þ.e. mál þar sem þing er ekki sótt af hálfu stefnda eða þingsókn hans fellur niður áður en greinargerð er skilað af hans hálfu og dómur er lagður á málið eftir þeim gögnum sem stefnandi hefur lagt fram. Eftir núverandi lögum hafa héraðsdómarar getað falið aðstoðarmönnum að fara yfir þau gögn og gera tillögu um afgreiðslu hvers máls um sig, ljúka því með áritun eins og algengast er eða semja í málinu dóm eða þá vísa því frá með úrskurði. Lokahönd á málið hefur dómari hins vegar orðið að leggja sjálfur og hann hefur ekki getað falið aðstoðarmanni eða öðrum það verk, enda kveða lög á um að það sé dómari sem ljúki málinu með áritun. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er dómstjóra heimilað að fela aðstoðarmanni að ljúka málinu endanlega í sínu nafni og ábyrgð. Með því móti sparast tími héraðsdómarans, auk þess sem niðurstaða málsins er í nafni þess sem í raun vann að málinu. Sama má segja um aðra möguleika sem dómstjóri fær til að fela aðstoðarmanni einstök dómstörf; þeir eru til þess fallnir að létta verulega vinnuálagi af héraðsdómurum, sem þar með gefst aukinn tími til að sinna því hlutverki að leggja dóm á munnlega flutt mál, hvort sem þau eru einkamál eða opinber mál.
    Ástæða er til að nefna sérstaklega að frumvarpið gerir ráð fyrir að dómstjóra verði heimilað að fela aðstoðarmanni að kveða upp svonefnda rannsóknarúrskurði, þar á meðal úrskurð um gæsluvarðhald. Hér er ástæða að minna á að einungis er um heimild til dómstjóra að ræða, og getur dómstjóri tekið þann kost að nýta hana aldrei, ef honum svo þykir henta. Á hitt er að líta að með frumvarpinu eru gerðar ákveðnar hæfniskröfur til aðstoðarmanna, en þeir munu allir hafa öðlast lögfræðilega starfsreynslu annars staðar áður en þeir eru ráðnir til starfa hjá dómstóli. Ætti því að vera eðlilegra en ella að fela þeim slík dómstörf sem uppkvaðning rannsóknarúrskurða er. Rétt er að hafa í huga að verulegt hagræði er af því að unnt sé að fela aðstoðarmanni uppkvaðningu slíkra úrskurða, en með því móti geta héraðsdómarar, ekki síst þeir sem starfa við dómstól þar sem einungis er einn héraðsdómari, losnað undan þeirri kvöð að þurfa ávallt að vera til taks. Af því yrði auk þess verulegur fjársparnaður, en launakostnaður aðstoðarmanns yrði talsvert lægri en héraðsdómara.
    Þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fela megi aðstoðarmönnum dómara ákveðin dómstörf er í frumvarpinu lagt til að starfsöryggi þeirra verði tryggt. Með þessu móti er komið til móts við þau rök sem helst þóttu mæla gegn fulltrúakerfinu. Ekki er lagt til að kjör aðstoðarmanna verði ákveðin af kjararáði, enda heyrir sú ákvörðun undir ráðið sjálft. Í 1. gr. laga um kjararáð, nr. 47/2006, segir að verkefni kjararáðs sé að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra og dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að þau geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu. Færa má fyrir því gild rök að kjararáð ákveði laun aðstoðarmanna dómara, þar sem þeim er falið að fara með dómstörf að afmörkuðu leyti og því nauðsynlegt að búa þeim öryggi í starfi.
    Lagt er til að hlutverk dómstólaráðs til þess að koma fram í þágu héraðsdómstólanna sameiginlega gagnvart almenningi verði aukið og heimilt verði að ráða sérstakan fulltrúa sem sinni samskiptum við fjölmiðla og aðra sem leita eftir sértækum upplýsingum sem varða málefni dómstólanna. Ástæða getur verið til þess að upplýsa almenning betur um starfsemi dómstólanna og eftir atvikum um einstök dómsmál enda eru rangfærslur og umræða á villigötum til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á dómstólunum.
    Meðal annarra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu má nefna breytingu á lögum um meðferð einkamála sem lýtur að því að dómurum, og þá eftir atvikum aðstoðarmönnum, verði heimilað að fallast með áritun á kröfu um staðfestingu lögveðréttar í útivistarmáli. Samkvæmt núgildandi reglum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður að semja dóm í þeim málum þar sem fallist er á slíka kröfu en form þessara dóma hefur verið staðlað. Yrði af þessari breytingu töluverður vinnusparnaður fyrir héraðsdómstólana.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir nýmæli um birtingu tiltekinna dóma Hæstaréttar, um bann við myndatökum og öðrum upptökum í dómhúsum og einnig hefur frumvarpið að geyma ákvæði er auka sjálfstæði dómara gagnvart dómstjóra og koma í veg fyrir að dómari verði gegn vilja sínum ávallt settur í sama málaflokkinn, t.d. í sakamál.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Frá því að dómstólalögin voru sett, árið 1998, hafa orðið miklar breytingar vegna sameiningar sveitarfélaga og nafnabreytinga. Til samræmis við það eru lagðar til breytingar á þessari grein.

Um 2. gr.

    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir sérreglu um birtingu dóma sem kveðnir eru upp í þágu rannsóknar lögreglu, en þeir hafa iðulega að geyma upplýsingar um málavexti sem ekki þykir rétt að verði gerðar opinberar strax að dómi gengnum. Þá er einnig lagt til nýmæli í 4. mgr. og er því sambandi vísað til skýringa við 7. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lagt til að embættum héraðsdómara fjölgi um tvö. Er það gert til þess að mæta sívaxandi álagi á dómara, sem bæði stafar af auknum fjölda mála sem til þeirra kasta koma og því að mál verða sífellt flóknari og kalla á meiri vinnu dómara. Ekki síst á þetta við um sakamál en gert er ráð fyrir því að sífellt muni færast í vöxt að dómur sé þar fjölskipaður. Þá er það staðreynd að frá því dómstólaskipan var færð í núgildandi horf hefur ákærumálum fjölgað um tæplega fjórðung.
    Við gildistöku dómstólalaganna var dómurum fjölgað tímabundið um þrjá samkvæmt sérstakri heimild, en síðan hefur tala dómara verið föst. Á undanförnum árum hefur verið algengt að dómarar taki sér leyfi frá störfum um nokkurra mánaða skeið, hvort sem er vegna náms, barnsfæðingar eða veikinda. Samkvæmt núgildandi dómstólalögum er gert ráð fyrir því að við þær aðstæður verði ekki settur dómari í stað þess sem leyfið tekur, nema dómstólaráð mæli með því vegna sérstakra anna. Á undanförnum árum hefur dómstólaráð jafnan óskað eftir slíkri setningu. Er sú þróun ekki gallalaus og með þeirri fjölgun sem nú er lögð til, er gert ráð fyrir að þörf á tímabundnum setningum dómara minnki til muna. Gegn þeirri skipan að setja menn tímabundið til dómarastarfa má færa þau rök að slíkur dómari, sem ætla má að hverfi innan skamms aftur til starfa hjá fyrri vinnuveitanda, sé ekki að öllu leyti eins sjálfstæður í störfum sínum og þeir sem fastskipaðir eru. Þá nýtast setningar ekki nema að litlu leyti sem þjálfun dómaraefna, enda hefur reynslan á undanförnum árum verið sú að almennt hafa nýir dómarar ekki áður verið settir til dómarastarfa. Ekki verður talið að reynsla af setningunni færi þeim sérstakt forskot á aðra umsækjendur sem mundu vitanlega eftir jafnmarga mánuði í starfi hafa öðlast sömu reynslu. Á hinn bóginn blasir við að með tímabundnum setningum dómara má bregðast skjótt við erfiðleikum í rekstri dómstóls. Auk þess getur reynsla lögfræðings af setningu til dómarastarfs nýst honum vel í starfi síðar þó að á öðrum vettvangi kunni að vera. Þykir því ekki rétt að fella niður heimildir til setningar dómara, enda hafa þær vissulega verið taldar standast hefðbundin skilyrði um sjálfstæði dómsvaldsins og menn bæði verið settir tímabundið til setu í héraðsdómi og Hæstarétti, auk þess sem lengi hefur verið tíðkað að notast við sérfróða meðdómsmenn í einstökum málum.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að dómstólaráði verði heimilað að koma fram sem sameiginlegur málsvari dómstólanna gagnvart almenningi, en dómarar hafa hingað til verið tregir til að taka þátt í opinberri umræðu um þá dóma sem kveðnir hafa verið upp. Með vaxandi opinberri umræðu um einstaka dóma og fréttaflutningi af þeim kann að þykja æskilegt að dómstólar hafi sameiginlegan málsvara til að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum, og eftir atvikum leiðréttingum, sem mættu verða til þess að stuðla að því að borgararnir fái fremur rétta mynd en ranga af starfsemi dómstólanna. Því er lagt til að dómstólaráði sé heimilt að fela löglærðum starfsmanni að sinna þessu hlutverki, og er gert ráð fyrir að hlutverk hans verði þróað af ráðinu.

Um 5. gr.


    Hér er í fyrsta lagi lagt til að kveðið verði skýrar á um það að í þeim tilvikum þegar dómstjóri lætur af störfum skuli efnt til nýrrar kosningar dómstjóra. Varadómstjóri er staðgengill hans í skemmri leyfum en lagt er til að sá tími geti verið allt að þrír mánuðir.
    Í öðru lagi verði sett ákvæði sem komi í veg fyrir að dómari verði gegn vilja sínum ávallt settur í sama málaflokkinn, t.d. í sakamál, og því er lögð til heimild fyrir hann í greininni að bera upp kvörtun við dómstólaráð yfir úthlutun dómstjóra. Með þessu móti verður sjálfstæði dómara aukið gagnvart dómstjóra.

Um 6. gr.


    Eins og vikið er að í almennum athugasemdum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á aðstoðarmannakerfinu eins og það er í dag. Er breytingunum ætlað að gera aðstoðarmönnum kleift að létta vissum störfum af dómurum, ef dómstjóri svo kýs. Rétt er að leggja áherslu á að hér er um að ræða heimild til dómstjóra en ekki skyldu.
    Þegar núgildandi dómstólalög voru sett kom sá möguleiki til greina að styrkja réttarstöðu dómarafulltrúanna enn frekar en verið hafði en að endingu var sú leið farin að fella niður stöðu dómarafulltrúanna í þeirri mynd sem hún þekktist. Rétt þykir að fara þá leið nú að sameina kosti þessara kerfa að ákveðnu takmörkuðu leyti. Lagt er til að dómstjórar geti nýtt sér þessa heimild telji þeir það þjóna hagsmunum dómstólsins. Það er því lagt í þeirra hendur að meta það hvort og þá hvernig þeir nýta krafta þeirra aðstoðarmanna sem við dómstólinn starfa eða þangað eru ráðnir. Gert er ráð fyrir að aðstoðarmenn uppfylli ákveðin hæfisskilyrði. Þurfa þeir því að eiga að baki nokkra starfsreynslu en það skilyrði er ekki sett samkvæmt núgildandi lögum.
    Í 2. mgr. eru afmörkuð þau störf sem lagt er til að dómstjóra verði heimilt að fela aðstoðarmanni að sinna í eigin nafni og ábyrgð. Aðstoðarmaðurinn yrði því sjálfstæður í störfum sínum að þessu leyti og verða honum því ekki gefin fyrirmæli um úrlausn málanna.
    Þá er lagt til að aðstoðarmanni verði ekki sagt upp störfum nema með dómi, sbr. IV. kafla laga nr. 15/1998, og gildir því það sama um hann og dómara sem eru skipaðir í embætti. Með þessu móti er honum tryggt öryggi í starfi. Þá verður hann ekki gegn vilja sínum fluttur tímabundið á milli héraðsdómstóla á ráðningartímanum.
    Nú kann svo að hátta til að fleiri en einn aðstoðarmaður starfi við dómstól og að dómstjóri telji henta að fela einum eða fleiri þeirra að fara með störf sem heimiluð eru í 2. mgr. en fela öðrum eingöngu eða nær eingöngu hefðbundin aðstoðarmannsstörf eins og nú tíðkast. Ekki er farin hér sú leið að setja dómstjóra sérstaka reglu um hvernig hann hagar slíku vali sínu, en vitaskuld verður að gera ráð fyrir því að þar muni dómstjóri fara eftir málefnalegum sjónarmiðum, svo sem starfsaldri aðstoðarmannsins. Þar sem gert er ráð fyrir að aðstoðarmaður verði sjálfstæður í þeim störfum sem honum kunna að vera falin skv. 2. mgr. þá verður að telja varhugavert að úrlausnir hans hafi áhrif á ákvarðanir dómstjóra um nýtingu heimildar samkvæmt þessari grein. Þá þykir ekki rétt að binda dómstjóra við að aðstoðarmaður skuli hafa starfað um ákveðinn tíma þar til honum verði falin verkefni skv. 2. mgr., en slíkt skilyrði mundi draga mjög úr hagræði minni dómstóla af heimildinni.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir nýmæli um bann við myndatökum og öðrum upptökum í dómhúsum. Undanskildar eru þær upptökur sem fara fram á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eðlilegar eru við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómstjóri geti heimilað myndatökur og aðrar upptökur í einstök skipti með nánar greindu skilyrði, og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila dómsmáls, sem eru í dómhúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara og svo framvegis.
    Mjög hefur færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dómsmáli þegar þeir sinna erindum sínum í dómhúsum. Einkum á þetta við um sakborninga í opinberum málum. Þá er alkunna að þetta er mjög fallið til þess að valda þeim, einkum hinum síðastnefndu, ama og óþægindum. Hafa sakborningar af þessum sökum mjög freistað þess að hylja andlit sín er þeir ganga í dómsal. Á síðustu árum hefur jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr eru opnaðar á meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Hefur reynslan sýnt að í þeim tilfellum hefur hinn ákærði iðulega freistað þess að hylja andlit sitt einnig við þau tækifæri. Leiðir það aftur til þess að hann þarf jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti á meðan á þinghaldinu stendur, í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni. Þykir þessi aðstaða vera til þess fallin að auka á ójafnvægi málsaðila.
    Í dönsku réttarfarslögunum (retsplejeloven) er meginreglan sú að hljóðritun eða myndatökur eru bannaðar, sbr. 1. mgr. 32. gr. laganna. Enn fremur eru myndatökur í dómhúsum bannaðar, nema með sérstöku leyfi, og sama gildir um myndatökur af grunuðum mönnum, sakborningum eða vitnum sem eru á leið til eða frá þinghaldi.
    Ákvæðunum í norsku dómstólalögunum (domstolloven) svipar nokkuð til dönsku reglnanna. Myndatökur og hljóðritanir í þinghaldi eru bannaðar, og einnig er bannað að hljóðrita eða taka myndir af sakborningi til eða frá þinghaldi eða í dómhúsi því sem þinghald fer fram, sbr. 131. gr. a laganna. Heimilt er að víkja frá þessu ef veigamikil rök mæla með því.
    Loks er lagt til að brot gegn ákvæðinu varði sektum.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til það nýmæli að árita megi mál þar sem staðfestur er veðréttur samkvæmt kröfu. Fjöldi mála er af þessu tagi og gera lög ráð fyrir því að semja þurfi dóm í þeim tilvikum þar sem fallist er á kröfu um staðfestingu veðréttar jafnvel þó að um útivist af hálfu þess eða þeirra sem stefnt er sé að ræða. Dómar þessir eru að formi til staðlaðir og væri af því mikið hagræði og vinnusparnaður ef árita mætti þessi mál á sama hátt og önnur útivistarmál.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Með ákvæðinu er tekið fram að lagabreytingar haggi ekki ráðningu þeirra starfsmanna sem fyrir eru hjá héraðsdómstólunum, en fyrir því eru sanngirnisrök. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15 25. mars 1998, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

    Helsta breytingin sem lögð er til í frumvarpi þessu snýr að því að dómstjóra héraðsdómstóls verði heimilt að fela löglærðum aðstoðarmönnum héraðsdómara að fara með dómstörf að ákveðnu afmörkuðu leyti. Flest mál sem berast héraðsdómstólum eru svonefnd útivistarmál en þá er átt við mál þar sem ekki kemur til þess að munnlegur málflutningur fari fram heldur er dómur lagður á málið eftir gögnum sem lögð hafa verið fyrir dómstólinn. Í samræmi við núgildandi lög er aðstoðarmönnum héraðsdómara vanalega falið að fara yfir gögn í slíkum málum, gera tillögu um afgreiðslu hvers máls, svo sem að því verði lokið með áritun, semja dóm eða vísað frá með úrskurði, en dómari hefur orðið að leggja lokahönd á málið sjálfur. Með breytingunni sem lögð er til í þessu frumvarpi verður unnt að fela aðstoðarmanni dómara að ljúka slíkum málum endanlega í sínu nafni og ábyrgð. Þannig mætti draga úr vinnuálagi á héraðsdómara og þeim væri gert kleift að verja meiri tíma í að dæma munnlega flutt mál. Þessu til viðbótar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að héraðsdómurum verði fjölgað úr 38 í 40. Er fjölguninni ætlað að koma til móts við álag á héraðsdómstólum, auk þess sem þörf á setningum dómara minnkar til muna.
    Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að dómstólaráði verði heimilt að fela sérstökum fulltrúa að sinna samskiptum við fjölmiðla og aðra sem leita eftir upplýsingum um málefni héraðsdómstóla. Miðað við fullt starf gæti kostnaður við það verið um 5–6 m.kr. á ári. Hér er þó um að ræða heimild og ræðst það af mati á þörf fyrir upplýsingagjöf og fjárhagslegt svigrúm dómstólaráðs á hverjum tíma hvernig hún verður nýtt, t.d. hvort fullnægjandi þætti að fela núverandi starfsmanni þetta hlutverk eða e.t.v. að því yrði sinnt sem hlutastarfi.
    Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi umtalsverð áhrif á launakostnað eða önnur útgjöld héraðsdómstóla. Hvað varðar fjölgun héraðsdómara um tvö stöðugildi er ljóst að það hefur í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð en á móti kemur að kostnaður vegna setninga dómara lækkar. Er því gert ráð fyrir að öll útgjöld sem til kunna að falla vegna lögfestingar frumvarpsins rúmist innan þeirra marka sem langtímaáætlun í ríkisfjármálum setur dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.