Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 513. máls.

Þskj. 776  —  513. mál.
Frumvarp til laga

um bókmenntasjóð og fleira.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Markmið og yfirstjórn.
1. gr.

    Markmið laga þessara er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu og búa íslenskri bókmenningu hagstæð skilyrði.
    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna er varða bókmenntir samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Bókmenntasjóður.
2. gr.

    Hlutverk bókmenntasjóðs er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu. Hlutverk sitt rækir sjóðurinn með því að:
     a.      styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka og vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu,
     b.      styrkja útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslenskri tungu,
     c.      stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi og erlendis og
     d.      sinna öðrum verkefnum er falla undir verksvið stjórnar bókmenntasjóðs.
    Alþingi veitir árlega fé í sjóðinn til ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    Menntamálaráðherra skipar fimm menn í stjórn bókmenntasjóðs til þriggja ára í senn. Rithöfundasamband Íslands tilnefnir tvo fulltrúa, Félag íslenskra bókaútgefenda tilnefnir einn fulltrúa, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna tilnefnir einn og einn er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn bókmenntasjóðs lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Stjórn bókmenntasjóðs ákveður árlega skiptingu ráðstöfunarfjár sjóðsins á fjárlögum á milli viðfangsefna hans, sbr. 2. gr., og úthlutar úr sjóðnum. Við mat á umsóknum er stjórn bókmenntasjóðs heimilt að leita umsagnar fagaðila.
    Ákvarðanir um úthlutun úr bókmenntasjóði verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
    Stjórn bókmenntasjóðs gerir tillögur til menntamálaráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára. Stjórn bókmenntasjóðs veitir umsögn um erindi sem menntamálaráðuneyti vísar til hennar og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum um bókmenntamálefni til ráðuneytisins.
    Heimilt er menntamálaráðherra að fela stjórn bókmenntasjóðs að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast umsýslu sjóðsins.
    Þóknun til stjórnarmanna og annar kostnaður við störf stjórnarinnar greiðist úr bókmenntasjóði.

III. KAFLI
Greiðslur fyrir afnot á bókasöfnum.
4. gr.

    Höfundar sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins eiga rétt á greiðslum fyrir notkun bóka þeirra á bókasöfnum, sem eru rekin á kostnað ríkissjóðs eða sveitarfélaga, af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum. Hér er bæði átt við útlán og afnot bóka á lestrarsölum bókasafna.
    Rétt til úthlutunar samkvæmt þessari grein eiga rithöfundar, þýðendur, myndhöfundar og tónskáld, auk annarra einstaklinga sem átt hafa þátt í ritun bóka, enda sé framlag þeirra skráð hjá Landskerfi bókasafna eða á annan sannanlegan hátt. Fyrir afnot hljóðrita og útgáfna í stafrænu formi er úthlutað á sama hátt. Úthlutun vegna erlendra bóka sem þýddar eru á íslensku skiptist á milli þýðanda og frumhöfundar. Þýðandi fær greidda tvo þriðju og frumhöfundur einn þriðja miðað við fulla úthlutun. Réttur til úthlutunar samkvæmt þessari grein er persónulegur réttur sem er bundinn við framangreinda rétthafa og fellur niður við framsal höfundaréttar, hvort sem um er að ræða framsal að hluta eða að öllu leyti.
    Rétt til úthlutunar skv. 2. mgr. eftir andlát rétthafa eiga eftirlifandi maki eða eftirlifandi sambúðaraðili, enda hafi sambúð staðið í fimm ár hið skemmsta, eða börn yngri en 18 ára, enda sé hitt foreldrið látið eða njóti ekki réttar samkvæmt lögum þessum. Séu framangreindir vandamenn fleiri en einn skiptist úthlutunin jafnt á milli þeirra. Rétthafar samkvæmt þessari málsgrein fá aðeins helming af þeirri greiðslu sem rétthafa skv. 2. mgr. hefði borið.
    Greiðslur fyrir útlán bóka skulu byggðar á upplýsingum frá Landskerfi bókasafna. Við úthlutun á greiðslum fyrir afnot bóka á lestrarsölum bókasafna er heimilt að meta fjölda titla og eintaka bóka hvers höfundar, sem eru til afnota á lestrarsölum bókasafna, sem jafngildi tiltekins fjölda útlána á grundvelli stigagjafar þar sem tekið er tillit til tegundar, umfjöllunarefnis eða lengdar bóka.

5. gr.

    Úthlutunarnefnd annast úthlutun skv. 4. gr. Skal hún skipuð af menntamálaráðherra til þriggja ára, þannig: einn samkvæmt tilnefningu frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, einn samkvæmt tilnefningu frá Rithöfundasambandi Íslands og formaður úthlutunarnefndar án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Sömu menn skulu ekki skipaðir oftar en tvö samfelld tímabil í úthlutunarnefnd.
    Menntamálaráðherra setur sérstakar reglur um umsóknir og úthlutun skv. 4. gr. Heimilt er í þeim reglum að setja lágmark á greiðslur úr sjóðnum þannig að eingöngu þeir höfundar sem ávinna sér greiðslur umfram tilskilið lágmark eigi rétt til greiðslna úr sjóðnum.
    Ákvarðanir um úthlutun verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Heimilt er menntamálaráðherra að fela úthlutunarnefnd skv. 1. mgr. að semja við til þess bæra aðila að annast umsýslu umsókna og greiðslur til rétthafa skv. 2. og 3. mgr. 4. gr.
    Þóknun til úthlutunarnefndar og annar kostnaður við störf nefndarinnar greiðist af árlegri fjárveitingu Alþingis fyrir afnot á bókasöfnum.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.
6. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 79/1993, um Menningarsjóð, lög nr. 35/1981, um þýðingarsjóð, og lög nr. 33/1997, um Bókasafnssjóð höfunda.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði bókmenntasjóður er taki við hlutverki Bókmenntakynningarsjóðs, Menningarsjóðs og þýðingarsjóðs. Helsta markmið laganna er að stuðla að frekari grósku í bókmenningu hér á landi og að beina stuðningi ríkisins í einfaldan, gagnsæjan og skilvirkan farveg, m.a. með því að sameina þrjá sjóði í einn. Með sameiningu sjóðanna er þess vænst að hægt verði að styðja betur við bókmenningu í landinu.
    Frumvarp þetta er m.a. byggt á tillögum starfshóps menntamálaráðherra sem skipaður var árið 2005 til að gera tillögur um breytingar á skipulagi sjóða er styrkja bókmenntir og bókaútgáfu svo og kynningar á íslenskum bókmenntum erlendis. Í starfshópnum voru Þorgeir Ólafsson formaður, skipaður án tilnefningar, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, tilnefndur af Rithöfundasambandi Íslands, og Sigurður Svavarsson, tilnefndur af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Hópurinn studdist við greinargerðir, ályktanir og skýrslur um íslenska bókaútgáfu og starfsskilyrði bókmennta, auk margvíslegra gagna um kynningar á íslenskum bókmenntum erlendis.
    Stuðningur við bókmenntir og bókaútgáfu á sér langa sögu hér á landi. Menningarsjóður og síðar bókaútgáfa Menningarsjóðs voru fyrstu stofnanirnar á þessu sviði, sbr. lög um menningarsjóð og menntamálaráð, nr. 50/1957. Í 1. gr. laganna var hlutverki menningarsjóðs lýst þannig að honum væri ætlað að styðja íslenska menningu með því að efla listir og vísindi. Tekna til menningarsjóðs var aflað með svonefndu menningarsjóðsgjaldi sem lagt var á aðgöngumiða að ýmiss konar listviðburðum og skemmtunum, auk tekna af innheimtu sekta sem ákvarðaðar voru fyrir brot á áfengislögum, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1957. Framangreindum tekjum menningarsjóðs skyldi varið til ýmissa málaflokka í formi styrkja til vísindasjóðs, bókaútgáfu, listaverkakaupa fyrir Listasafn ríkisins, framleiðslu íslenskra kvikmynda, eflingar þjóðlegra fræða og náttúrurannsókna, íslenskrar tónlistar og myndlistar, auk kynningarstarfsemi á íslenskri menningu innan lands sem utan, sbr. 4. gr. laganna. Sérstakt ráð, menntamálaráð, sem kosið var hlutfallskosningu á Alþingi hafði yfirstjórn með einstökum viðfangsefnum menningarsjóðs, svo sem Bókaútgáfu menningarsjóðs, Listasafni ríkisins, listskreytingum opinberra bygginga, gerð íslenskra kvikmynda, eflingar íslenskrar tónlistar og myndlistar, sbr. 7. gr. laganna.
    Lög um menningarsjóð og menntamálaráð, nr. 50/1957, voru leyst af hólmi með nýjum lögum um Menningarsjóð, nr. 79/1993. Bókaútgáfa á vegum ríkisins var þá lögð niður þar sem ekki var talið rétt að ríkisvaldið væri beinn aðili að bókaútgáfu. Í þess stað var sjóðnum ætlað að veita fjárhagslegan stuðning til úgáfu þeirra bóka á íslenskri tungu sem verða mættu til eflingar íslenskri menningu, sbr. 1. gr. laganna. Sérstök áhersla skyldi lögð á útgáfu fræðirita, handbóka, orðabóka og menningarsögulegra rita. Jafnframt veitti sjóðurinn fjárhagslegan stuðning til annarrar skyldrar starfsemi eftir nánari ákvæðum í reglugerð. Rökin fyrir fjárstuðningi við framantalin bókmenntaverk voru þau að verk sem hefðu mikið menningarlegt gildi væru dýr í útgáfu og litlar líkur væru til að söluandvirði bókanna stæði undir kostnaðinum. Var því talið nauðsynlegt að ríkið hefði einhver ráð til að styrkja útgáfu slíkra verka. Sem fyrr var tekna aflað í Menningarsjóð með menningarsjóðsgjaldi sem lagðist á aðgöngumiða að kvikmyndasýningum og dansleikjum, auk sérstaks framlags af fjárlögum ár hvert, sbr. 3. gr. laganna. Framangreindir tekjustofnar Menningarsjóðs voru felldir niður þegar lög um skemmtanaskatt, nr. 58/1970, voru felld úr gildi með lögum nr. 93/1998. Frá þeim tíma hefur Menningarsjóður eingöngu notið framlaga af fjárlögum. Í reglugerð nr. 707/1994 er nánar mælt fyrir um störf Menningarsjóðs.
    Enn er talin full nauðsyn á stuðningi ríkisins við útgáfu vandaðra bókmenntaverka. Sama gildir um þýðingar á vönduðum erlendum bókmenntum á íslenska tungu, jafnt skáldverka sem fræðirita. Þýðingarsjóður, sem stofnaður var með lögum nr. 35/1981, hefur gegnt þessu hlutverki. Nánari fyrirmæli um starfsemi þýðingarsjóðs hafa verið sett með reglugerð nr. 638/1982, sbr. reglugerð nr. 102/1992. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir að hlutverk sjóðsins sé að veita útgefendum styrki eða lán til útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslensku máli, einkum skáldrita og viðurkenndra fræðirita.
    Árið 1982 var Bókmenntakynningarsjóður stofnaður. Hann starfar samkvæmt reglum nr. 997/2001. Hlutverk Bókmenntakynningarsjóðs er skv. 1. gr. reglnanna að stuðla að sem víðtækastri kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis og greiða fyrir útgáfu þeirra með því að úthluta þýðingarstyrkjum, hafa umsjón með þátttöku Íslands í erlendum menningarviðburðum og alþjóðlegum samskiptum á sviði bókmennta. Að auki rækir Bókmenntakynningarsjóður hlutverk sitt með því að veita þýðendum íslenskra bókmennta á önnur tungumál ferðastyrki til að heimsækja Ísland og standa að ráðstefnum og vinnufundum þýðenda hér á landi, veita íslenskum rithöfundum ferðastyrki til að kynna verk sín erlendis, láta vinna kynningarefni á erlendum tungumálum, hafa umsjón með kynningu íslenskra bókmennta á erlendum bókmenntahátíðum og vera í samstarfi við sambærilegar stofnanir erlendis, og halda úti tölvugagnabanka til hagræðis fyrir kynningarstarf sitt innan lands og utan og semja um aðgang að gagnabönkum sem tengjast verkefnum sjóðsins, sbr. 2. gr. reglnanna.
    Bókmenntakynningarsjóður hefur, eftir því aðstæður hafa leyft, annast ýmis þau verkefni sem bókmenntakynningarstofnanir á vegum stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndunum hafa haft á sinni könnu. Að mati ráðuneytisins er mikilvægt að efla þessa starfsemi enn frekar.
    Auk ofangreinds hafa Alþingi og menntamálaráðuneyti í gegnum árin veitt ýmsa útgáfu- og bókmenntastyrki. Þá hafa rithöfundar getað sótt um starfslaun í Launasjóð rithöfunda, sbr. 6. gr. laga um listamannalaun, nr. 35/1991, og Launasjóð fræðiritahöfunda, sbr. reglur nr. 268/1999. Einnig hefur Bókasafnssjóður höfunda greitt höfundum fyrir afnot af verkum þeirra á bókasöfnum. Gildandi lög um Bókasafnssjóð höfunda eru frá árinu 1997 en rætur sjóðsins má rekja til Rithöfundasjóðs Íslands sem starfaði skv. 11. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976. Samkvæmt ákvæðinu skyldi ríkissjóður greiða árlega 12 millj. kr. (gamlar krónur) í Rithöfundasjóð Íslands fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í þeim söfnum sem lögin tóku til. Nánar var mælt fyrir um ráðstöfun þessara greiðslna til höfunda í reglugerð um Rithöfundasjóð Íslands, nr. 84/1977. Í 2. gr. reglugerðarinnar var mælt fyrir um skiptingu úthlutunarfjár í tvo jafna hluta. Skyldi öðrum helmingi fjárins úthlutað til rétthafa samkvæmt bókaeign þeirra í almenningsbókasöfnum á grundvelli skýrslna bókasafna um eintakafjölda höfunda. Hinum helmingi fjárins skyldi úthlutað til einstakra höfunda í viðurkenningarskyni fyrir ritstörf. Þá var sjóðsstjórn heimilt að veita eftirlifandi maka og niðjum nýlátinna höfunda framlög úr sjóðnum. Framangreind 11. gr. laga nr. 50/1976 var leyst af hólmi með sérstökum lögum um Bókasafnssjóð höfunda, nr. 33/1997. Úthlutað er úr Bókasafnssjóði til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa vegna notkunar bóka þeirra í bókasöfnum. Skilyrði úthlutunar er að bækur hafi verið gefnar út á íslensku eða þýddar á íslensku, sbr. 3. gr. laganna. Gert er ráð fyrir því að sjóðnum sé skipt í tvo hluta þannig að úr öðrum hlutanum sé úthlutað á grundvelli útlána bóka samkvæmt skýrslum um afnot bóka í bókasöfnum og úr hinum séu veittir styrkir samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar Bókasafnssjóðs höfunda, með hliðsjón af reglugerð, sbr. 5. gr. laganna. Nánar er mælt fyrir um úthlutun úr Bókasafnssjóði höfunda í samnefndri reglugerð, nr. 203/1998, með síðari breytingum. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að úthlutunarfé skiptist í tvo hluta og skal öðrum hluta fjárins úthlutað til einstakra höfunda í formi styrkja vegna afnota bóka þeirra á bókasöfnum, eftir nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins, sbr. 3. gr. laganna. Þá segir að heimilt sé að að meta fjölda titla og eintaka bóka hvers höfundar á lestrarsölum bókasafna sem jafngildi tiltekins fjölda útlána. Hinum hluta fjárins skal skv. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar úthlutað til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka á bókasöfnum.
    Í desember árið 2003 barst íslenskum stjórnvöldum fyrirspurn frá Eftirlitsstofnun EFTA (hér eftir nefnd „ESA“) þar sem vakin var athygli á ákvæðum 1. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 92/100/EBE frá 19. nóvember 1992 um leigu- og útlánsrétt og önnur réttindi tengd höfundarétti á sviði hugverkaréttar (hér eftir „tilskipunin“) og leitað upplýsinga um hvort ákvæði íslenskra laga væru í samræmi við meginreglu 4. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að aðildarríkin skuli, með fyrirvara um 5. gr., mæla fyrir um rétt til að heimila eða banna leigu og útlán á frumverkum eða afritunum verka sem njóta höfundaréttar og öðru efni sem nýtur skyldrar verndar, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Í 4. gr. EES-samningsins er lagt bann við hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs nema annað leiði af einstökum ákvæðum samningsins. Í svari íslenskra stjórnvalda til ESA í mars 2004 var gerð grein fyrir ákvæðum laga um Bókasafnssjóð höfunda, nr. 33/1997, en skilyrði til úthlutunar úr sjóðnum er að bók hafi verið gefin út á íslensku eða á Íslandi, sbr. 3. gr. laganna. Tekið var fram í svarinu að greiðslur úr Bókasafnssjóði höfunda teldust ekki vera höfundaréttargreiðslur í skilningi tilskipunar 92/100/EBE heldur væru þær menningarlegur stuðningur við útgáfu bóka á íslenskri tungu. Það væri því mat íslenskra stjórnvalda að tungumálaskilyrði 3. gr. laga um Bókasafnssjóð höfunda væri ekki andstætt 4. gr. EES-samningsins. Í ágúst 2006 kynnti ESA þá bráðabirgðaniðurstöðu stofnunarinnar að lögin um Bókasafnssjóð höfunda væru andstæð 4. gr. EES-samningsins og 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 92/100/EBE. Sú niðurstaða var rökstudd með því að hvers konar óbein mismunun á grundvelli ríkisfangs innan EES-svæðisins sem leiddi til sömu niðurstöðu og bein mismunun fæli í sér brot gegn 4. gr. samningsins. Þetta fyrirkomulag væri enn fremur í andstöðu við 18. skýringargrein tilskipunarinnar en þar segir að allar ráðstafanir á grundvelli 5. gr. tilskipunarinnar skuli vera í samræmi við 7. gr. Rómarsáttmálans, nú 12. gr. EB-sáttmálans, þ.e. 4. gr. EES-samningsins. Í rökstuðningi ESA segir einnig að höfundaréttur og skyld réttindi falli innan EES-samningsins og er sú ályktun rökstudd með vísan til eftirfarandi dóma Evrópudómstólsins, í sameinuðu máli C-92/92 og C-326/92 Phil Collins gegn Imtrat Handelsgesellschaft mhH og Patricia Im- und Export Verwaltungsgesellschaft mbH og Leif Emanuel Kraul gegn EMI Electrola GmbH [1993] ECR I-5145. Í svari íslenskra stjórnvalda við bréfi ESA frá október 2006 er ekki fallist á framangreinda ályktun en þar sem líta megi svo á að núverandi fyrirkomulag kunni að fela í sér óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs muni íslensk stjórnvöld huga að því að fella brott skilyrðið um útgáfu á íslensku eða á Íslandi.
    Þess má geta að í sambærilegu svari norskra yfirvalda til ESA frá október 2006 í tilefni af athugun ESA á hliðstæðri löggjöf í Noregi er ekki fallist á þá niðurstöðu að norsku lögin feli í sér höfundaréttargreiðslur til rétthafa heldur sé um að ræða menningarlegan stuðning við bókaútgáfu á þeim tungumálum sem notuð séu á norsku málsvæði. Í desember 2004 tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að ákveðið hefði verið að stefna dönskum og sænskum stjórnvöldum fyrir Evrópudómstólinn fyrir ætluð brot gegn 12. gr. EB-samningsins þar sem tungumálaskilyrði þarlendra laga um greiðslur til rétthafa fyrir útlán bóka á bókasöfnum fælu í sér mismunun gagnvart öðrum EES-ríkisborgurum en innlendum. Niðurstaða í umræddum dómsmálum á hendur dönskum og sænskum stjórnvöldum lá ekki fyrir í nóvember 2006.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fella hlutverk Bókasafnssjóðs höfunda undir lög um bókmenntasjóð og fleira. Þó yrði fyrst og fremst höfð yfirumsjón með úthlutun á greiðslum til lifandi höfunda eða náinna afkomenda þeirra fyrir útlán og afnot bóka á bókasöfnum sem rekin eru á kostnað ríkissjóðs eða sveitarfélaga. Greiðslur munu byggjast á talningu útlána samkvæmt upplýsingum frá Landskerfi bókasafna eða sem skráð eru á annan sannanlegan hátt. Lagt er til að afnot bóka á bókasöfnum sem ekki mælast í útlánum verði jafnframt metin sem ígildi útlána með ákveðinni stigagjöf. Mælt er fyrir um setningu reglna um frekari útfærslu og þannig búið um hnútana að úthlutunarfyrirkomulagið verði gagnsætt, sbr. nánari skýringar í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að það fé sem varið hefur verið samkvæmt fjárlögum til bókmennta úr nokkrum sjóðum og á vegum menntamálaráðuneytisins renni í bókmenntasjóð. Í fjárlögum 2006 var skipting liða eftirfarandi:

    02-976     Menningarsjóður          13 millj. kr.
    02-982-1.15    Þýðingarsjóður          12,5 millj. kr.
    02-982-1.16    Bókmenntakynningarsjóður          10 millj. kr.
    02-999-1.98    Ýmis framlög menntamálaráðuneytisins     2,6 millj. kr.

    Í fjárlögum 2007 eru bókmenntasjóði ætlaðar 37,3 millj. kr. til ráðstöfunar, að teknu tilliti til lækkunar vegna aðhalds í ríkisrekstri. Til viðbótar ætti fjárlagaliður 02-983-1.11, styrkir til útgáfumála, 14 millj. kr., einnig að renna í bókmenntasjóðinn. Samkvæmt fjárlögum 2007 renna 24,6 millj. kr. til Bókasafnssjóðs höfunda, 02-982-1.14.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í frumvarpinu er átt við bókmenntir í víðum skilningi. Um er að ræða jafnt skáldverk sem vönduð fræðirit, handbækur, orðabækur og menningarsöguleg rit. Með hugtakinu bókmenningu er átt við alla starfsemi sem tengist bókmenntum, þ.m.t. þýðingar á íslenska tungu og bókmenntaviðburði hér á landi og erlendis með þátttöku íslenskra og erlendra höfunda.
    Í greininni er áréttað að menntamálaráðherra fari með málefni er varða bókmenntir, í samræmi við 7. tölul. 10. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, þar sem segir að menntamálaráðuneytið fari með mál er varða menningarstarfsemi hvers konar, stuðning við hana og kynningu innan lands og utan.

Um 2. gr.

    Fyrri málsgrein greinarinnar fjallar um hlutverk bókmenntasjóðs. Efnislega er byggt á meginhlutverki þeirra þriggja sjóða sem sameinaðir verða í bókmenntasjóði. Orðalag greinarinnar gefur þó svigrúm til að efla og þróa mismunandi viðfangsefni eftir því sem eðlilegast þykir á hverjum tíma.
    Í a-lið 1. mgr. er lagt til að bókmenntasjóður veiti styrki til útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka en enginn opinber sjóður utan launasjóðs rithöfunda hefur til þessa sinnt því hlutverki sérstaklega. Meginhlutverk bókmenntasjóðs verður þó að halda áfram og efla þann stuðning sem Menningarsjóður hefur veitt til útgáfu bóka á íslenskri tungu. Á þeim sjóði hefur hvílt sú skylda að leggja sérstaka áherslu á útgáfu fræðirita, handbóka, orðabóka og menningarsögulegra rita. Þar sem slík rit, einkum menningarsöguleg rit, eru ekki einvörðungu rituð á íslensku er nú lagt til að heimilt verði að styrkja útgáfu þeirra óháð því á hvaða tungumáli þau eru rituð, svo fremi að þau efli íslenska menningu. Lög um Menningarsjóð hafa til þessa staðið í vegi fyrir því að hægt væri að veita slíkan stuðning þótt stjórn sjóðsins hafi talið að það mundi ekki síður styrkja íslenska menningu.
    Í b-lið 1. mgr. er fjallað um það hlutverk sem þýðingarsjóður hefur haft. Hlutverk hans hefur verið að lána eða styrkja útgefendur til útgáfu á vönduðum erlendum bókmenntum á íslensku máli, jafnt skáldverkum sem viðurkenndum fræðiritum. Bókmenntasjóði er ætlað að taka við því hlutverki.
    Bókmenntakynningarsjóði hefur verið ætlað að greiða fyrir aukinni kynningu og útgáfu á verkum íslenskra höfunda um allan heim. Liður í því starfi er að taka þátt í alþjóðlegum bókastefnum og bókmenntahátíðum, stuðla að því að íslenskir höfundar séu kynntir á erlendum vettvangi, stuðla að þjálfun þýðenda sem þýða úr íslensku á erlend tungumál, veita þýðingarstyrki, gera upplýsingaefni um íslenskar bókmenntir og höfunda aðgengilegt á veraldarvefnum, byggja upp öflugt tengslanet o.fl. Einnig er mikilvægt að efla kynningu íslenskra bókmennta á innlendum vettvangi og auka áhuga landsmanna á eigin bókmenningu. Styrk bókaútgáfa og bókmenning heima fyrir er forsenda góðrar kynningar á íslenskum höfundum erlendis. C-liður 1. mgr. tekur á þessu viðfangsefni.
    Í d-lið er skapað svigrúm til að stjórn bókmenntasjóðs geti sinnt ýmsum verkefnum sem upp kunna að koma og falla undir verksvið hennar.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skipan stjórnar bókmenntasjóðs. Gerð er tillaga um að skipunartíminn verði þrjú ár og að ekki verði heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa meira en tvö starfstímabil í röð, nánar tiltekið í sex ár. Með því verði tryggð eðlileg endurnýjun í stjórninni. Þá er gert ráð fyrir að fimm fulltrúar verði í stjórn, enda verksvið sjóðsins og sjóðsstjórnar talsvert umfangsmikið og stefnumarkandi. Þar sem hagsmunir rithöfunda og þýðenda vega þungt er talið eðlilegt að Rithöfundasamband Íslands tilnefni tvo fulltrúa í stjórnina. Þá er lagt til að Félag íslenskra bókaútgefenda tilnefni einn fulltrúa en þar sem félagið á líka ríkra hagsmuna að gæta varðandi sjálfa bókaútgáfuna og kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi sem erlendis. Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna er meginvettvangur fræðirithöfunda og er lagt til að félagið tilnefni einn fulltrúa í sjóðsstjórn. Einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti, eins og tíðkast í öðrum stjórnum og nefndum í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að stjórn bókmenntasjóðs ákveði árlega skiptingu fjárveitinga sjóðsins á milli viðfangsefna hans, sbr. 2. gr. Stjórnin gerir það m.a. á grundvelli þeirra tillagna sem hún gerir til menntamálaráðherra um stefnu og helstu áherslur til þriggja ára, sbr. 4. mgr. Æskilegt er að hægt sé að skipuleggja eitthvað fram í tímann áherslur sjóðsins og stýra þannig betur nýtingu fjárins, einkum þegar um er að ræða sérstök átaksverkefni. Samkvæmt þessari málsgrein er sjóðsstjórninni heimilt að leita umsagnar fagaðila. Þetta er gert í ljósi þess að verksviðið er breitt og ekki tryggt í öllum tilvikum að stjórnarfulltrúar búi yfir nauðsynlegri þekkingu og yfirsýn, einkum þegar um sérhæfð rit er að ræða.
    Samkvæmt 2. mgr. úthlutar stjórn bókmenntasjóðs fé úr sjóðnum. Hún ber í einu og öllu ábyrgð á úthlutuninni og á því að hún sé í samræmi við ákvæði í lögum og reglugerðum og góða stjórnsýsluhætti. Stjórnin ber þannig ábyrgð á móttöku umsókna, umsýslu gagna, varðveislu þeirra og afhendingu til Þjóðskjalasafns Íslands. Þetta er hliðstætt því sem gildir um úthlutun starfslauna listamanna. Þess háttar valddreifing hefur verið tíðkuð á öðrum sviðum á verksviði ráðuneytisins, svo sem á vísinda- og rannsóknasviðinu og á sviði safnamála. Það hefur reynst vel að láta hagsmunaaðilana hafa sem mest um að það segja hvernig fjárveitingum til málaflokksins er best og haganlegast ráðstafað. Ráðherra hefur hins vegar áhrif með framkvæmd laga og reglugerðasetningu, tillögum um stefnur og áherslur og svo með formanninum, sem er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Ráðherra kemur hins vegar ekki að einstökum úthlutunum. Þessi skipan mála, sem oft er nefnd „armslengdarreglan“, hefur tíðkast í nágrannalöndum okkar og er ríkjandi í norrænu menningarsamstarfi eftir endurskipulagningu þess. Til að undirstrika enn frekar þessa dreifingu valds og ábyrgðar, er í 3. mgr. ákvæði um að styrkveitingar verði ekki kærðar til æðra stjórnvalds.
    Í samræmi við þetta ábyrgðarsvið sem sjóðsstjórninni er veitt skv. 2. mgr. og vegna annarra verkefna sjóðsins, svo sem kynningar á íslenskum bókmenntum erlendis sem bókmenntakynningarsjóður hefur haft á sinni könnu, getur menntamálaráðherra falið stjórninni að semja við til þess bæra aðila, t.d. viðkomandi hagsmunasamtök eða stofnun, eða jafnvel að stjórnin reki skrifstofu til að annast umsýslu með verkefnum sjóðsins. Á vegum Bókmenntakynningarsjóðs hefur verið rekin skrifstofa með u.þ.b. hálfu stöðugildi frá ársbyrjun 1999. Hlutverk hennar hefur einkum verið að standa að kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis, auk þess að annast umsýslu sjóðsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi starfsemi verði fest í sessi. Þá hefur Rithöfundasamband Íslands annast umsýslu Bókasafnssjóðs höfunda. Stjórn bókmenntasjóðs verður falið að gera tillögur um hvernig hagkvæmast verður að koma málum sjóðsins fyrir.

Um 4. gr.

    Hér er mælt fyrir um greiðslur til höfunda vegna notkunar bóka þeirra á bókasöfnum. Notkun bóka á bókasöfnum felst annars vegar í útlánum og hins vegar í afnotum bóka á lestrarsölum bókasafna.
    Í 1. mgr. er tekið fram að réttur til úthlutunar sé bundinn við höfunda bóka, eins og þeir eru skilgreindir í 2. mgr., sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessu felst takmörkun miðað við lög nr. 33/1997, en ekkert slíkt skilyrði er um ríkisfang eða búsetu höfundar í 3. gr. þeirra laga. Hins vegar er skilyrði um að bækur hafi verið útgefnar eða þýddar á íslensku eða gefnar út á Íslandi ef um myndhöfunda eða tónskáld er að ræða. Ástæða þessarar breytingar er rakin í almennum athugasemdum frumvarpsins hér að framan en þar er greint frá því að ESA hafi komist að þeirri niðurstöðu að tungumála- og útgáfuskilyrði 3. gr. laga nr. 33/1997 væri í andstöðu við 4. gr. EES-samningsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um höfunda og aðra sem rétt eiga til úthlutunar samkvæmt greininni. Hér er um að ræða sömu aðila er eiga rétt til úthlutunar skv. 3. gr. laga nr. 33/1997, þ.e. þýðendur, myndhöfunda, tónhöfunda og aðra sem eiga hlut að ritun bóka, enda sé framlag þeirra skráð hjá Landskerfi bókasafna eða á annan sannanlegan hátt. Í þessu felst að rétthafar skv. 2. mgr., sbr. 1. mgr., öðlast rétt til úthlutunar skv. 2. gr. á grundvelli umsókna. Samkvæmt gildandi framkvæmd er nægilegt að sækja um einu sinni og gildir umsókn rétthafa þá ótímabundið, sbr. 3. gr. reglugerðar um Bókasafnssjóð höfunda, nr. 203/1998, með síðari breytingum. Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi á skráningu á framlagi rétthafa samkvæmt þessari málsgrein frumvarpsins sem verður nánar útfært í reglum, settum á grundvelli 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Sú breyting er lögð til varðandi þýddar bækur að réttur þýðenda og þeirra sem staðfæra bækur verði tveir þriðju á móti einum þriðja til höfundar útgáfu á frummáli af fullri úthlutun til höfundar bókar sem gefin er út á íslensku. Í þessu felst breyting frá 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 33/1997. Að baki breytingunni liggur sú hugsun að íslensk tunga verði studd sérstaklega með því að auka veg þýðenda og annarra sem þýða eða staðfæra bækur á íslensku. Samanlögð greiðsla til þýðanda og erlends höfundar getur þó aldrei orðið hærri en greiðsla til innlends höfundar sem ritar bók á íslensku. Ástæða þykir til að taka fram að réttur til úthlutunar fyrir afnot verka á bókasöfnum er persónulegur réttur sem er aðeins bundinn við rétthafann sjálfan skv. 2. mgr. Í því felst árétting á því markmiði 4. og 5. gr. frumvarpsins að afmarka fjárstuðning vegna notkunar verka á bókasöfnum við lifandi höfunda og nána afkomendur þeirra. Hafi rétthafi skv. 2. mgr. framselt höfundarétt að verki á hann enga kröfu á úthlutun vegna notkunar þess á bókasöfnum, sbr. lokamálslið 2. mgr.
    Í 3. mgr. er fjallað um úthlutanir til erfingja rétthafa skv. 2. mgr. Hér er stuðst við sömu reglur og gilt hafa skv. 4. gr. laga nr. 33/1997. Rökin fyrir því að nánir afkomendur skv. 3. mgr. fá aðeins helming á við rétthafa skv. 2. mgr. eru þau að markmið laganna er fyrst og fremst að styðja við menningarstarf lifandi höfunda.
    Í 4. mgr. kemur fram að greiðslur fyrir afnot einstakra verka á bókasöfnum skuli byggðar á upplýsingum frá Landskerfi bókasafna um útlán, titla og eintakafjölda hverrar bókar á bókasöfnum. Landskerfi bókasafna er hlutafélag í eigu ríkis og sveitarfélaga sem rekur bókasafnskerfið Gegni, sem notað er á flestum bókasöfnum. Hvað útlánin snertir er hægt að leggja til grundvallar upplýsingar um útlán bóka frá Landskerfi bókasafna en slíkar upplýsingar liggja hins vegar ekki fyrir um afnot bóka á lestrarsölum bókasafna. Um árabil hafa verið veittir svonefndir viðurkenningarstyrkir og heiðursstyrkir til höfunda á grundvelli reglugerða sem settar hafa verið um Bókasafnssjóð höfunda, áður Rithöfundasjóð, án þess að þar hafi legið að baki upplýsingar um afnot af ritum viðkomandi höfunda á lestrarsölum bókasafna. Sú framkvæmd hefur ekki átt sér stoð í lögum og hafa slíkar styrkveitingar oft valdið deilum. Því er lagt til að horfið verði frá kerfi viðurkenningar- og heiðursstyrkja og þess í stað leitast við að beita sem hlutlausustum viðmiðunum við úthlutun á greiðslum fyrir afnot bóka á bókasöfnum. Lagt er til að heimilt verði að úthluta vegna afnota bóka á lestrarsölum bókasafna á grundvelli stigagjafar þar sem tekið er tillit til tegundar bókar, umfjöllunarefnis og lengdar, auk upplýsinga frá Landskerfi bókasafna um fjölda titla og eintakafjölda. Þannig er að því stefnt að úthlutun fyrir afnot bóka á bókasöfnum byggist sem mest á hlutlægum viðmiðunum svo að ekki þurfi að koma til sérstakra matsþátta.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um skipan og störf úthlutunarnefndar. Lagt er til að úthlutunarnefnd verði skipuð einum fulltrúa samkvæmt tilnefningu Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslugagna og einum fulltrúa samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, auk formanns sem menntamálaráðherra skipar án tilnefningar. Hér er um ræða einföldun frá 1. mgr. 6. gr. laga nr. 33/1997, þar sem fimm manna stjórn annast úthlutun úr Bókasafnssjóði höfunda.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að menntamálaráðherra setji reglur um úthlutun samkvæmt þessari grein og að þar verði kveðið á um lágmarksúthlutun til rétthafa. Sambærileg regla er nú í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 33/1997, en þar segir að styrkir lægri en 1.000 kr. verði ekki greiddir út og að hámarksfjárhæð til einstaks rétthafa verði aldrei hærri en 300.000 kr. Umrædd viðmið eru frá árinu 1997 og í lögunum er mælt fyrir um að þau skuli endurskoða árlega. Á verðlagi október 2006 er þessi lágmarksgreiðsla 1.496 kr. og hámarksgreiðslan 452.924 kr. Í frumvarpinu er ekki lagt til neitt hámark á greiðslum til einstakra höfunda.
    Í 3. mgr. er lagt til að ákvarðanir um úthlutun á greiðslum sæti ekki stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds og er sú tilhögun í samræmi við 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Að fyrirmynd 5. og 6. mgr. 3. gr. er lagt til að tekin verði upp heimild fyrir menntamálaráðherra til að fela úthlutunarnefnd skv. 1. mgr. að semja við þar til bæra aðila til að annast umsýslu á umsóknum og greiðslum samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar.
    Í 4. mgr. kemur fram að þóknun til úthlutunarnefndar og kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist af fjárveitingunni sem veitt er skv. 1. mgr. 4. gr.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir því að menntamálaráðherra felli jafnframt úr gildi reglur um Bókmenntakynningarsjóð, nr. 997/2001.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um bókmenntasjóð og fleira.

    Í frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði bókmenntasjóður er taki við hlutverki, Bókmenntakynningarsjóðs, Menningarsjóðs og Þýðingarsjóðs. Jafnframt er lagt til að III. kafli frumvarpsins komi í stað laga um Bókasafnssjóð höfunda.
    Helsta markmið frumvarpsins er að stuðla að frekari grósku í bókmenningu hér á landi og að beina stuðningi ríkisins til slíkra mála í einfaldan og gagnsæjan farveg með fækkun sjóða. Hlutverk bókmenntasjóðs verður að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu með það að markmiði að efla íslenska menningu, íslenska tungu og kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi sem erlendis.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að það fé, sem varið hefur verið samkvæmt fjárlögum til bókmennta úr nokkrum sjóðum á vegum menntamálaráðuneytisins, renni í bókmenntasjóð. Í fjárlögum 2007 er gert ráð fyrir 37,3 m.kr framlagi í bókmenntasjóð. Sú upphæð kemur í stað 13 m.kr. framlags sem áður var veitt til Menningarsjóðs, 12,5 m.kr. til Þýðingarsjóðs, 10 m.kr. til Bókmenntakynningarsjóðs og 2,6 m.kr. til ýmissa framlaga menntamálaráðuneytisins.
    Samkvæmt frumvarpinu skipar menntamálaráðherra fimm menn í stjórn bókmenntasjóðs til þriggja ára í senn. Þóknun til stjórnarmanna og annar kostnaður við störf stjórnarinnar mun greiðast úr bókmenntasjóði.
    Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir þeim möguleika að erlendir höfundar sem eru EES- ríkisborgarar geti sótt um úthlutun vegna afnota á bókasöfnum. Er sú breyting gerð vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð umfram það sem samþykkt er í fjárlögum.