Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 785  —  410. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um endursölu viðskiptabanka og sparisjóða á eignum sem þeir hafa leyst til sín við nauðungarsölu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er mismunur á innlausnarverði íbúða sem seldar hafa verið á nauðungarsölu til viðskiptabanka og sparisjóða og endursöluverði þeirra á frjálsum markaði síðastliðin tvö ár?
     2.      Hvernig standa bankar og sparisjóðir að endursölu á eignum sem þeir hafa leyst til sín við nauðungarsölu?
     3.      Er eitthvert eftirlit með kostnaði sem viðskiptabankar og sparisjóðir láta ganga til lækkunar á skuld gerðarþola áður en endursöluvirði er greitt til hans við nauðungarsölu eignar?
     4.      Er ástæða til að setja reglur um slíkt?


    1.–2. Upplýsingar um mismun á innlausnar- og endursöluverði íbúða sem seldar hafa verið á nauðungarsölu til viðskiptabanka og sparisjóða síðastliðin tvö ár og upplýsingar um framkvæmd endursölu viðkomandi eigna hjá bönkum og sparisjóðum eru ekki tiltækar í ráðuneytinu.
    Ráðuneytið fór þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það veitti þær upplýsingar um framangreint sem stofnunin hefði handbærar og teldi sig hafa heimildir til að veita. Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins kemur fram að upplýsingarnar sem óskað sé eftir í fyrirspurninni séu ekki meðal þeirra upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið safni með reglubundnum hætti frá fjármálafyrirtækjum, né heldur sé unnt að lesa þær upplýsingar úr þeim gögnum sem safnað sé með reglubundnum hætti.
    Ráðuneytið vill benda á að sýslumönnum er falin framkvæmd nauðungarsölu og uppboða, þ.m.t. úthlutun uppboðsandvirðis til kröfuhafa.
    Upplýsingar um endursöluverð framangreindra fasteigna á frjálsum markaði og upplýsingar um framkvæmd banka og sparisjóða við endursölu eigna má hins vegar ætla að liggi eingöngu hjá viðkomandi bönkum og sparisjóðum. Ráðuneytið setti sig í samband við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) vegna þessa en af hálfu SFF var vísað til bréfs SBV (Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja) til ráðuneytisins frá árinu 2002 vegna fyrirspurnar frá Alþingi. Í bréfinu segir:
    ,,Allar opinberar upplýsingar um félagsrekstur fjármálafyrirtækja sem heyra til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja eru birtar í ársskýrslum þeirra á hefðbundinn hátt. Þá veita fjármálafyrirtæki reglulega upplýsingar til Fjármálaeftirlits eftir því sem óskað er lögum samkvæmt. Að öðru leyti hvíla ekki upplýsingaskyldur á fjármálafyrirtækjum gagnvart öðrum en hluthöfum sínum.
    Þar sem framangreind fyrirspurn beinist að einkamálefnum viðkomandi félaga telja SBV sig ekki í aðstöðu til að verða við beiðni ráðherra. Opinberar upplýsingar um starfsemi þeirra er hins vegar að finna í ársskýrslum þessara fyrirtækja, eins og fyrr segir, auk þess sem Seðlabanki Íslands birtir reglulega almennar upplýsingar í Peningamálum um reikninga bankakerfisins.“

    3. Ekki er haft sérstakt eftirlit með kostnaði af þessu tagi. Fjármálaeftirlitið sinnir heildstæðu eftirliti með starfsemi og starfsháttum fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitið getur tekið mál til athugunar að eigin frumkvæði auk þess sem viðskiptavinir banka og sparisjóða geta leitað til Fjármálaeftirlitsins, úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og Neytendastofu vanti þá aðstoð eða upplýsingar vegna starfshátta fjármálafyrirtækja.

    4. Að svo stöddu telur ráðuneytið ekki ástæðu til að setja sérstakar reglur um eftirlit af þessu tagi. Fjármálafyrirtæki eru undir beinu eftirliti Fjármálaeftirlitsins auk þess sem margþættar úrlausnarleiðir eru í boði fyrir viðskiptavini telji þeir á sér brotið eða viðskiptaháttum áfátt. Ráðuneytinu hafa ekki borist neinar ábendingar eða kvartanir um að eftirlit með fjármálafyrirtækjum sé ekki fullnægjandi.
    Loks ber að nefna að lög nr. 90/1991, um nauðungarsölu, geyma ítarleg ákvæði um meðferð eigna sem óskað er nauðungarsölu á, m.a. ákvæði um kostnað. Mat á því hvort ákvæði þeirra laga séu fullnægjandi er ekki á færi viðskiptaráðherra þar eð þau heyra undir dómsmálaráðherra.