Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 553. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 825  —  553. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjónustumiðstöð fyrir útgerð og siglingar í Norðurhöfum.

Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á möguleikum þess að efla norðanverða Vestfirði sem miðstöð þjónustu við vaxandi fiskveiðar við Austur-Grænland og skoða sérstaklega þann kost að þjónustumiðstöð og umskipunarhöfn fyrir siglingar í Norðurhöfum verði á Vestfjörðum. Haft verði náið samráð við heimamenn við gerð úttektarinnar.

Greinargerð.


    Íbúar Vestfjarða hafa háð mikla varnarbaráttu í atvinnu- og byggðamálum og íbúaþróun hefur verið þar óhagstæð síðustu áratugi. Ekki er séð fyrir endann á þeirri neikvæðu þróun ef ekki tekst að snúa vörn í sókn, ekki síst hvað varðar atvinnulíf og launaþróun.
    Á Ísafirði er lífhöfn frá náttúrunnar hendi og þar eru mikil mannvirki. Höfnin er stór og góð aðstaða fyrir allar stærðir skipa. Ísafjörður liggur mjög vel við þegar skip sem eru að veiðum við Austur-Grænland þurfa að sækja sér þjónustu og hafa útgerðir frá Noregi og Færeyjum helst nýtt sér þjónustuna undanfarin ár. Þjónustugetan er þó miklu meiri og því vannýttir möguleikar á að þjónusta útgerð, fiskvinnslu og flutninga til Austur-Grænlands. Mikilvægt er því að koma á tengslum og samvinnu milli Vestfjarða og byggðarlaga á Austur- Grænlandi. Þjónusta í Ísafjarðarbæ er fjölbreytt og má þar nefna vélsmiðjur, veiðarfæragerð og framleiðslu á tækjum til veiða og vinnslu. Einnig er nægt kristalstært vatn úr Vestfjarðargöngum til staðar við höfnina. Umhverfi til atvinnurekstrar er því gott og víða leynast tækifæri á sviði sjávarútvegs. Mikilvægt er að fullnýta þá þjónustu sem býðst í Ísafjarðarbæ og styrkja þar með rekstrargrundvöll fyrirtækja sem hefur verið að veikjast vegna samdráttar í útgerð og fiskvinnslu.
    Siglingar í Norðurhöfum munu aukast með hlýnandi veðráttu og Ísland því að flestra dómi álitlegur möguleiki þegar skoðaðir eru kostir fyrir umskipunarhöfn í Norður-Atlantshafi. Vestfirðir og þá einkum Dýrafjörður hefur verið nefndur í því sambandi. Þar er aðdjúpt og því góð náttúrleg skilyrði fyrir stórskipahöfn. Þar er einnig flugvöllur sem unnt væri að stækka. Miklu skiptir að sjálfsögðu að vanda staðarval, skipulag og hönnun umskipunarhafnar með umhverfissjónarmið í huga, ef til kemur.
    Tillagan gerir ráð fyrir að Vestfirðir séu sérstaklega skoðaðir sem valkostur fyrir þjónustu og siglingar í Norðurhöfum. Varðandi frekari upplýsingar má m.a. benda á skýrslu utanríkisráðuneytisins, Fyrir stafni haf. Tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum. Einnig eru margvísleg gögn í fórum heimamanna vestra og sjálfsagt að vinna málið í nánu samráði við þá.