Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 238. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 829  —  238. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 50/2004, um siglingavernd.

(Eftir 2. umr., 6. febr.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Markmið og gildissvið.


    Markmið laga þessara er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.
    Lög þessi gilda um eftirgreindar gerðir skipa ef þau eru notuð í millilandasiglingum:
     a.      farþegaskip, þ.m.t. háhraðaför,
     b.      flutningaskip 500 brúttótonn eða stærri og
     c.      færanlega borpalla.
    Lög þessi gilda einnig um farþegaskip og flutningaskip í innanlandssiglingum. Undanskilja má ákveðnar tegundir og flokka skipa í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur.
    Lög þessi gilda um útgerðir þeirra skipa sem nefnd eru í 1. og 2. mgr. og um hafnaraðstöðu þar sem slíkum skipum er þjónað.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo:
          9.      Umboðsmaður: Sá sem annast milligöngu útgerðar eða leigutaka skips og stjórnvalda.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Landhelgisgæslu“ í 1. mgr. kemur: vaktstöð siglinga.
     b.      Í stað orðsins „útgerðarfélögum“ í 1. mgr., orðsins „útgerðarfélaga“ í a- og b-lið 3. mgr. og orðsins „Útgerðarfélög“ í 9. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: útgerðir.
     c.      Við 3. mgr. bætast tveir liðir sem orðast svo:
               h.      gert sé áhættumat vegna siglinga innan íslenskrar efnahagslögsögu,
               i.      gerð sé og viðhaldið Siglingaverndaráætlun Íslands.
     d.      Við bætist ný málsgrein, 5. mgr., svohljóðandi:
                  Siglingastofnun Íslands annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Við framkvæmd eftirlits með siglingavernd skal fulltrúum Siglingastofnunar heimill aðgangur að skipum, hafnarsvæðum, mannvirkjum, búnaði, gögnum og skjölum eftir því sem telja má nauðsynlegt vegna eftirlitsins án undangengins dómsúrskurðar. Fulltrúar hafna, skipa og útgerða, sem lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim taka til, skulu veita stofnuninni þá aðstoð sem þörf er á vegna eftirlits í þágu siglingaverndar. Samgönguráðherra setur nánari reglur um framkvæmd eftirlits í þágu siglingaverndar.
     e.      1. málsl. 5. mgr., sem verður 6. mgr., orðast svo: Ríkislögreglustjóri ákveður vástig um borð í íslenskum skipum og í höfnum.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Útgerðarfélög“ og orðsins „útgerðarfélagið“ í 1. mgr. kemur í viðeigandi tölu og beygingarfalli: útgerð.
     b.      Við bætast fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Skipstjóri og útgerð skips skulu halda skrá yfir nauðsynlegar upplýsingar vegna siglingaverndar eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
                  Áður en skip skv. 2. gr. laganna kemur til hafnar skal höfn, útgerð, umboðsmaður eða skipstjóri skips veita upplýsingar skv. 3. mgr. sem að mati Siglingastofnunar Íslands eru nauðsynlegar vegna siglingaverndar og verndar íslenskra hafna.
                  Ef skip uppfyllir ekki reglur um siglingavernd er Siglingastofnun Íslands heimilt að leggja farbann á skip, vísa því frá höfn, krefjast þess að það verði fært innan hafnar eða á milli hafna og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir brot á reglum um siglingavernd. Útgerð og skipstjóra skips er skylt að verða við fyrirmælum Siglingastofnunar samkvæmt þessari málsgrein. Um farbann fer að ákvæðum laga um eftirlit með skipum.
                  Samgönguráðherra setur nánari reglur um skráningu upplýsinga vegna siglingaverndar, upplýsingaskyldu útgerða og skipstjóra og frekari aðgerðir Siglingastofnunar Íslands til framkvæmdar eftirlits í þágu siglingaverndar.

5. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Aðgangur að hafnarsvæðum, með einni grein, 8. gr., sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðgangur að hafnarsvæðum.


    Siglingastofnun Íslands er heimilt að höfðu samráði við hafnaryfirvöld að takmarka aðgang að höfnum og hafnarsvæðum, umferð um þær og dvöl skipa í þeim, svo og að banna umgengni eða dvöl á slíkum svæðum, ef slíkt er talið nauðsynlegt vegna siglingaverndar.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna, sem verður 10. gr.:
     a.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Höfnum er heimilt að innheimta sérstakt gjald, farmverndargjald, af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða landað í höfn.
     b.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Höfnum er heimilt að innheimta sérstakt gjald, hafnarverndargjald, fyrir hvert skip sem fellur undir lög þessi og getur gjaldið tekið mið af stærð skips, komufjölda skipa og/eða dvalartíma við hafnaraðstöðu í rekstri þeirra.
     c.      1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Höfnum er heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir hvern farþega sem kemur til eða fer frá landinu með skipi.

7. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein sem verður 11. gr. og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Þagnarskylda.

    Þeim aðilum sem starfa að siglingavernd ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða hagsmuna í þágu siglingaverndar. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða starfshætti vegna siglingaverndar og fyrirhugaðar aðgerðir vegna siglingaverndar og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglum eða eðli máls.
    Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna sem verður 13. gr.:
     a.      Í stað orðsins „útgerðarfélags“ tvívegis í 2. mgr. kemur: útgerðar.
     b.      Í stað orðanna „og um kennslu, þjálfun og æfingar vegna skipaverndar“ í 2. mgr. kemur: um kennslu, þjálfun og æfingar vegna skipaverndar, meðhöndlun trúnaðarskjala og eftirlit og skipan verndarfulltrúa og eftirlitsaðila.
     c.      Á eftir orðinu „hafnaverndar“ í 3. mgr. kemur: vöktun og afmörkun hafnaraðstöðu og haftasvæða, meðhöndlun trúnaðarskjala og eftirlit og skipan verndarfulltrúa og eftirlitsaðila.

9. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr., sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Afturköllun skipunar.


    Siglingastofnun Íslands er heimilt að afturkalla skipan verndarfulltrúa og eftirlitsaðila á grundvelli laga þessara, tímabundið eða að fullu, vegna brota gegn lögum og reglum ef telja verður, með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hins brotlega, varhugavert að hann sé skipaður. Ákvörðun um afturköllun skal rökstudd og starfsmanni gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun er tekin, í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
    Sé um að ræða alvarlegt brot í starfi, þar á meðal brot á trúnaðarskyldum, er Siglingastofnun heimilt að afturkalla skipan viðkomandi þegar í stað.

10. gr.

    12. gr. laganna, sem verður 15. gr., orðast svo ásamt fyrirsögn:

Refsingar.


    Brot gegn 5., 10. og 11. mgr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, en fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Brot á þagnarskyldu skv. 11. gr. laganna er refsivert skv. 136. gr. almennra hegningarlaga. Tilraun og hlutdeild í brotum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga. Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.

11. gr.

    Við 13. gr. laganna, sem verður 16. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með lögum þessum eru innleiddar í íslenskan rétt eftirtaldar gerðir Evrópusambandsins sem teknar hafa verið upp í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið:
     a.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 725/2004 frá 31. mars 2004 um aukið öryggi skipa og öruggari hafnaraðstöðu, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 14/2005 frá 8. febrúar 2005.
     b.      Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 884/2005 frá 10. júní 2005 um verklagsreglur við framkvæmd skoðana framkvæmdastjórnarinnar á sviði siglingaverndar, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES- samninginn nr. 34/2006 frá 10. mars 2006.
     c.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/65/EB frá 26. október 2005 um að efla hafnarvernd, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 65/2006 frá 2. júní 2006.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.