Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.

Þskj. 833  —  558. mál.



Frumvarp til laga

um
breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „87,72%“ í 3. og 5. mgr. 13. gr. laganna kemur: 93,46%.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „12,28%“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: 6,54%.

3. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2007. Þeir aðilar sem hafa heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð í samræmi við 2. málsl. 4. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skulu frá sama tíma nota uppgjörstímabil í samræmi við 1. mgr. eða 1. málsl. 4. mgr. sömu greinar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt.
    Í fyrsta lagi eru lagðar til tvær tæknilegar breytingar sem nauðsynlegar eru vegna breytingar á lægra skattþrepi virðisaukaskatts úr 14% í 7%, sem lögfest var með lögum nr. 175/ 2006 og tekur gildi 1. mars 2007.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð verði afnumin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lögð til breyting sem leiðir af lækkun neðra skattþreps í virðisaukaskatti úr 14% í 7%. Láðist að taka breytinguna inn í frumvarp það sem lagt var fram á sl. haustþingi og varð að lögum nr. 175/2006 (svo kallað matarskattsfrumvarp). Breyting þessi hefur það í för með sér að þegar reikna þarf út skattskylda veltu vegna sölu, skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal nota hlutfallstöluna 93,46% í stað 87,72%. Er sú tala fundin sem hlutfall út frá 7% í stað 14% áður.

Um 2. gr.

    Með greininni er um að ræða breytingu sem leiðir af lækkun neðra skattþreps í virðisaukaskatti úr 14% í 7%. Láðist að taka breytinguna inn í frumvarp það sem lagt var fram á sl. haustþingi og varð að lögum nr. 175/2006. Samkvæmt greininni er lagt til að svo kallað afreikningshlutfall, sbr. 20. gr. laganna, vegna 7% virðisaukaskatts verði 6,54%. Samkvæmt núgildandi lögum er afreikningshlutfallið 12,28% miðað við 14% virðisaukaskatts.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð verði felld úr gildi. Þessi heimild var upphaflega sett til að draga úr áhrifum fjárbindingar við yfirfærsluna úr söluskattskerfi í virðisaukaskattskerfi. Þannig er aðilum sem að jafnaði eru með útskatt sem er minni en helmingur innskatts heimilað að skila skýrslum örar til að endurheimta inneign sína fyrr og losa þannig um fjármagn. Þessi uppgjörstímabil eru nú aðeins nýtt af örfáum gjaldendum eða nánar tiltekið fjórum aðilum í janúar 2007. Þau valda allmiklum flækjum, bæði við almenna framkvæmd og við þróun rafrænnar þjónustu auk þess sem uppfærslur og breytingar á tölvukerfum eru flóknari en ella. Er því lagt til að heimildin verði felld úr gildi.

Um 4. gr.

    Í 1. málsl. greinarinnar er kveðið á um gildistöku laganna og er hún í samræmi við gildistöku laga nr. 175/2006. Í 2. málsl. er kveðið á um að þeir aðilar sem hafa heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð í samræmi við 2. málsl. 4. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skuli frá 1. mars 2007 nota uppgjörstímabil í samræmi við 1. mgr. eða 1. málsl. 4. mgr. sömu greinar, þ.e. annaðhvort vera í almennum tveggja mánaða skilum eða mánaðarskilum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til tæknilegar breytingar varðandi afreikningshlutföll virðisaukaskatts sem leiðir af lagasetningu um lækkun á 14% skattþrepi virðisaukaskatts í 7% 1. mars nk. Auk þess er lagt til að heimild til að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð verði afnumin. Verði frumvarpið að lögum hefur það engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs.