Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 559. máls.

Þskj. 834  —  559. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    1. og 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldið skal nema 6.314 kr. á hvern gjaldanda og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
    Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru undanþegnir gjaldinu einstaklingar sem hafa tekjuskattsstofn skv. 1. og 3. tölul. 61. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, samtals lægri en 1.080.067 kr. á tekjuárinu 2007. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum skv. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin. Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti skv. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og innheimtuhlutfalli viðkomandi staðgreiðsluárs samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skattstjóri skal fella gjald þetta niður af öldruðum og öryrkjum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2008 vegna tekna ársins 2007. Ákvæði laga nr. 1/2006, um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, skulu gilda við álagningu á árinu 2007 vegna tekna ársins 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt frumvarpi þessu verða þeir sem hafa fjármagnstekjur að greiða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra en samkvæmt núgildandi 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, eru þessir aðilar undanþegnir gjaldinu. Undanþegin gjaldinu eru áfram börn innan 16 ára, þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs og aldraðir og öryrkjar undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Einnig eru undanþegnir gjaldinu einstaklingar sem á tekjuárinu 2007 hafa tekjur undir 1.080.067 kr. og þegar um hjón er að ræða skal skipta sameiginlegum fjármagnstekjum jafnt á milli þeirra þegar þessi tekjuviðmiðun er fundin. Í 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. er vísað til 2. mgr. 10 gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, að því er varðar undanþágur frá gjaldskyldu og gerir frumvarpið því ráð fyrir að sömu reglur gildi um undanþágur frá gjaldskyldu vegna Ríkisútvarpsins ohf. og vegna Framkvæmdasjóðs aldraðra.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999,
um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir sem hafa fjármagnstekjur greiði gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra en samkvæmt gildandi lögum eru þeir undanþegnir því að greiða gjald í sjóðinn. Gert er ráð fyrir að breytingin komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2008 vegna tekna ársins 2007. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að fjárhæð gjaldsins breytist en það er 6.314 kr. á hvern gjaldanda.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að gjaldendum sjóðsins fjölgi um 1,5% frá því sem nú er. Ef miðað er við sömu forsendur og liggja að baki áætlun um tekjur sjóðsins á árinu 2007 hefðu gjaldendur verið 2.600 fleiri og tekjur því orðið um 16 m.kr. hærri.