Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 561. máls.

Þskj. 836  —  561. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Stjórn sjóðsins er með samþykki fjármálaráðherra heimilt að veita sjóðfélaga sem fær launalaust leyfi frá störfum til að starfa hjá alþjóðastofnun, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, rétt til að greiða áfram iðgjald til B-deildar sjóðsins á starfstíma hans hjá viðkomandi alþjóðastofnun, enda hafi hann átt aðild að B-deildinni er hann hóf störf erlendis og njóti ekki lífeyrisréttar hjá viðkomandi alþjóðastofnun. Stjórn sjóðsins skal ákveða viðmiðunarlaun fyrir starfið með hliðsjón af 6. mgr. 23. gr. Nánar skal kveðið á um aðild samkvæmt þessari málsgrein í samþykktum sjóðsins.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „9,5%“ í 2. mgr. 34. gr. laganna kemur: 7,5%.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 41. gr. laganna og orðast svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem falla undir samkomulag Norðurlandanna frá 1. júní 2001 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Fela má Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins framkvæmd samkomulagsins. Kostnaður sem hlýst af framkvæmd þess greiðist úr ríkissjóði.
    Heimilt er að ákveða í reglum, sbr. 1. mgr., að víkja megi frá skilyrðum laga þessara um upphaf lífeyristöku, enda teljist það nauðsynlegt við samhæfingu réttinda samkvæmt samkomulaginu. Með sama hætti má ákveða að upphæð ellilífeyris lækki svo að ekki aukist heildarskuldbindingar sjóðsins þegar ríkisstarfsmaður velur að hefja töku ellilífeyris fyrr en samkvæmt lögum þessum.
    Reikna skal út aukinn kostnað við greiðslu lífeyris sem kann að leiða af framkvæmd samkomulagsins og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð.
    Útreikningar skulu byggðir á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.
    Ágreiningi sem rísa kann út af beitingu samkomulagsins verður skotið til úrskurðar fjármálaráðherra.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga,
með síðari breytingum.

4. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 27. gr. laganna og orðast svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem falla undir samkomulag Norðurlandanna frá 1. júní 2001 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Fela má Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins framkvæmd samkomulagsins. Kostnaður sem hlýst af framkvæmd þess greiðist úr ríkissjóði.
    Heimilt er að ákveða í reglum, sbr. 1. mgr., að víkja megi frá skilyrðum laga þessara um upphaf lífeyristöku, enda teljist það nauðsynlegt við samhæfingu réttinda samkvæmt samkomulaginu. Með sama hætti má ákveða að upphæð ellilífeyris lækki svo að ekki aukist heildarskuldbindingar sjóðsins þegar ríkisstarfsmaður velur að hefja töku ellilífeyris fyrr en samkvæmt lögum þessum.
    Reikna skal út aukinn kostnað við greiðslu lífeyris sem kann að leiða af framkvæmd samkomulagsins og skal ríkissjóður greiða lífeyrissjóðnum þá fjárhæð.
    Útreikningar skulu byggðir á sömu tryggingafræðilegu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.
    Ágreiningi sem rísa kann út af beitingu samkomulagsins verður skotið til úrskurðar fjármálaráðherra.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. 2. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á lögum sem snúa að lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins.
    Í fyrsta lagi er lagt til að starfsmönnum alþjóðastofnana, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, verði að uppfylltum vissum skilyrðum veittur réttur til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins á meðan starfstími þeirra erlendis stendur.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lögð til lækkun á viðbótarframlagi sveitarfélaga vegna lífeyrisiðgjalds kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Með lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, voru verkefni grunnskóla flutt frá ríki til sveitarfélaga. Þetta viðbótarframlag byggist á samkomulagi ríkis og sveitarfélag um kostnaðar- og tekjufærslu vegna flutnings grunnskólans. Í því samkomulagi var samið svo um að sveitarfélögin bæru ekki frekari ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum vegna kennara. Með lögum nr. 167/2006, um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði, hækkaði mótframlag í B-deild sjóðsins úr 6% í 8%. Að óbreyttu hækkar því heildariðgjaldið úr 15,5% í 17,5% en það var ekki ætlunin. Er því sú breyting sem hér er lögð til nauðsynleg til að koma í veg fyrir að útgjöld sveitarfélaga hækki vegna hækkaðs mótframlags í B-deild sjóðsins.
    Í 3. og 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar í tilefni af samkomulagi Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Samkomulagið var undirritað í Stokkhólmi 1. júní 2001 og öðlaðist gildi 1. mars 2002, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 38 frá 31. desember 2001.
    Samkomulagið leysir af hólmi eldra samkomulag Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar frá 18. desember 1973. Ísland átti ekki aðild að samkomulaginu en samkvæmt því átti ríkisstarfsmaður við starfslok rétt á að áunnin lífeyrisréttindi hans í sambærilegu starfi í öðru norrænu landi yrðu talin með við útreikning lífeyris og lífeyririnn yrði allur greiddur í því landi þar sem starflok urðu og taka lífeyris hófst. Ekki var gert ráð fyrir því að greiðslur kæmu frá öðrum löndum þar sem réttindi höfðu verði áunnin. Þetta eldra fyrirkomulag var ekki talið samræmast reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Reglur Evrópusambandsins á þessu sviði byggjast á sjónarmiðum um jafnræði milli launþega sem flytjast milli landa og þeirra sem búa í viðkomandi landi, enn fremur að við flutninginn glati launþegi ekki þeim réttindum sem hann hefur áunnið sér samkvæmt reglum viðkomandi lands og að lífeyrir sé greiddur út án tillits til þess hvar viðkomandi er búsettur innan Evrópusambandsins. Loks er byggt á því að lífeyrisþegi eigi rétt á að lífeyrir hans sé reiknaður hlutfallslega hjá hverju og einu landi þar sem hann hefur öðlast rétt til lífeyris (pro-rata-temporis).
    Það samkomulag, sem Norðurlöndin hafa nú gert og Ísland er aðili að, byggist að meginstefnu á sömu sjónarmiðum og liggja til grundvallar reglugerð (EBE) nr. 1408/71 og Norðurlandasamningi um almannatryggingar, sbr. lög nr. 66/2004. Mismunandi uppbygging lífeyriskerfa ríkisstarfsmanna og tengsl þeirra við almannatryggingakerfi landanna getur á hinn bóginn leitt til þess að ríkisstarfsmenn, sem taka við samsvarandi starfi í öðru norrænu landi, tapi réttindum. Samkomulagið fylgir þeim megintilgangi eldra samkomulags að stuðla að því að lífeyrismál hamli því ekki að ríkisstarfsmenn geti tekið við samsvarandi starfi í öðru norrænu landi. Þannig stefnir samkomulagið að því að lífeyrisréttindi starfsmanns sem starfað hefur í öðru norrænu landi verði sem líkust þeim réttindum sem hann hefði aflað hefði hann hvergi farið en haldið áfram í starfi sínu, þó þannig að réttindaávinnsla miðist ávallt við reglur hvers lands fyrir sig. Með sama hætti er ekki gert ráð fyrir því að ríkisstarfsmaður öðlist betri rétt en ella. Það er jafnframt einn megintilgangur samkomulagsins að útreikningur lífeyrisréttinda þeirra sem falla undir samkomulagið skuli byggjast á sömu sjónarmiðum og reglugerð (EBE) nr. 1408/71.
    Í heiti samkomulagins er talað um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna (á sænsku: samordning av pensionsrätt enligt statliga pensionsordningar). Rétt er að leggja áherslu á að með samkomulaginu er ekki stefnt að einsleitum lífeyrisreglum fyrir norræna ríkisstarfsmenn. Réttara er í þessu sambandi að tala um að samhæfa útreikning lífeyrisréttinda vegna mismunandi lífeyriskerfa. Nokkur dæmi eru um að íslenskir ríkisstarfsmenn taki tímabundið við samsvarandi starfi í öðru norrænu landi eða hjá samnorrænum stofnunum. Mikilvægt er að mismunandi lífeyrisreglur landanna komi ekki í veg fyrir að menn fari úr starfi, sem veitir rétt til lífeyris ríkisstarfsmanna í einu norrænu landi, í samsvarandi starf í einhverju öðru þessara landa.
    Samkomulagið felur í sér samhæfingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna, einkum á eftirfarandi sviðum:
          Við útreikning lífeyrisréttinda sem byggjast á lengd starfstíma eða sambærilegum tímaskilyrðum sé litið til samsvarandi starfstíma í öðru norrænu landi.
          Ríkisstarfsmaður geti, í því landi sem starfslok verða, virkjað þau lífeyrisréttindi sem hann hefur öðlast í öðru norrænu landi frá sama tíma, en þau verði þá oft fyrir skerðingu sem er mismunandi eftir reglum hvers lands.
          Mat á heilsufari við fyrri ráðningu í starf verði almennt lagt til grundvallar við útreikning lífeyris samkvæmt lífeyrisreglum annars norræns lands.
          Úrskurður um örorkulífeyri í einu landi sá lagður til grundvallar við útborgun örorkulífeyris í öðru norrænu landi.
          Í einstökum vafamálum sem upp kunna að koma um framkvæmd samkomulagsins er gert ráð fyrir að löndin hafi samráð áður en máli er ráðið til lykta.
          Jafnframt gerir samkomulagið ráð fyrir því að ákveðin samhæfing og samvinna eigi sér stað milli Norðurlandanna um útreikning og útborgun lífeyris fyrir þá ríkisstarfsmenn sem í hlut eiga.
    Norræna samkomulagið tekur til lífeyrisréttinda vegna starfa sem falla undir lífeyrisreglur ríkisstarfsmanna á Norðurlöndum. Samkvæmt fylgiskjali með samkomulaginu er þar vísað til lífeyrisréttinda samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og laga nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Jafnframt er rétt að benda á að samkomulagið tekur til ríkisstarfsmanna í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem uppfylla aðildarskilyrði að sjóðunum.
    Með frumvarpi þessu fylgja drög að reglum sem settar verða nái frumvarpið fram að ganga. Jafnframt fylgir frumvarpinu Samkomulag Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna frá 1. júní 2001.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við 4. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ákvæðinu er ætlað að veita stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, með samþykki fjármálaráðherra, heimild til að veita starfsmönnum alþjóðastofnana, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, rétt til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins á starfstíma þeirra hjá viðkomandi alþjóðastofnun, enda hafi þeir átt aðild að B-deildinni er þeir hófu störf erlendis og hafi jafnframt fengið launalaust leyfi til að sinna starfinu erlendis. Ríkisstarfsmenn hafa ekki átt rétt til að halda áfram að ávinna sér réttindi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins meðan þeir starfa hjá alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að. Þegar samfelldar iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falla niður af þessum sökum getur það komið niður á réttindaávinnslu þeirra. Yfirleitt eiga viðkomandi starfsmenn ekki rétt á aðild að öðrum lífeyrissjóði á meðan og jafnvel þótt þeir greiði í söfnunarsjóði í staðinn kemur það ekki í sama stað niður. Stjórn sjóðsins er falið að ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af með hliðsjón af 6. mgr. 23. gr. laganna en almennt er gert ráð fyrir því að iðgjald verði greitt af þeim launum sem starfsmaður hafði áður en hann hóf störf hjá alþjóðastofnun og taki þau breytingum með hliðsjón af launaákvörðunum sem gilda um ríkisstarfsmenn. Um nánari aðild og framkvæmd skal ákveðið í samþykktum sjóðsins. Í ákvæðinu felst að ekki er um sjálfkrafa rétt að ræða heldur þarf stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að heimila og þarf fjármálaráðherra að samþykkja þær fjárhagslegu skuldbindingar ríkisins sem af þessu hljótast. Heimildin er einnig bundin við starfstíma erlendis, að viðkomandi hafi fengið launalaust leyfi, um sé að ræða alþjóðastofnun sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða fjölþjóðlegum samningum, starfsmaðurinn þarf að hafa átt aðild að B-deildinni er hann hóf störf erlendis og njóti ekki lífeyrisréttar hjá viðkomandi alþjóðastofnun.

Um 2. gr.


    Með greininni er lögð til lækkun á viðbótarframlagi sveitarfélaga vegna kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Með lögum nr. 167/2006, um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði, sem gengu í gildi 1. janúar 2007, hækkaði mótframlag í B-deild sjóðsins úr 6% í 8%. Breytingin hefur þær afleiðingar að mótframlag sveitarfélaga vegna grunnskólakennara sem eru í B-deild hækkar úr 15,5% í 17,5%. Þetta viðbótarframlag byggist á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjufærslu vegna flutnings grunnskólans. Í því samkomulagi var samið svo um að sveitarfélögin bæru ekki frekari ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum vegna kennara og er því þessi breyting nauðsynleg til að koma í veg fyrir að útgjöld sveitarfélaga hækki vegna hækkaðs mótframlags í B-deild sjóðsins.

Um 3. og 4. gr.


    Í 3. og 4. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði nýju ákvæði við lög nr. 1/1997 og með samsvarandi hætti einnig við lög nr. 2/1997. Ákvæðin eru efnislega samhljóða. Með þeim er fjármálaráðherra fengin heimild til þess að setja í reglur fyrirmæli um framkvæmd norræna samkomulagsins þannig að sjóðfélagi geti notið þeirra réttinda sem það gerir ráð fyrir. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum stefnir samkomulagið að því að samhæfa lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna, þó þannig að réttindaávinnsla miðist við reglur hvers lands fyrir sig.
    Lagt er til að í reglum fjármálaráðherra verði ríkisstarfsmanni m.a. heimilt að virkja réttindi sín í samræmi við efni samkomulagsins þótt þau séu umfram ákvæði laganna. Leiði útreikningur réttinda við upphaf lífeyristöku ríkisstarfsmanns í ljós aukinn kostnað vegna samhæfingar réttinda hans er gert ráð fyrir að slíkur umframkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Dæmi um tilvik sem falla hér undir væri það þegar litið er til starfstíma í öðru norrænu landi, t.d. við útreikning á svonefndri 95 ára reglu. Enn fremur er gert ráð fyrir því að í reglum fjármálaráðherra verði, í samræmi við efni 4. gr. samkomulagsins, heimilt að víkja frá skilyrði um upphaf töku lífeyris. Það á einkum við um ellilífeyri úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga sem miðast við 65 ára aldur. Þær reglur sem gilda um upphaf töku ellilífeyris eru mismunandi milli Norðurlandanna. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að taka ellilífeyris sé fyrst möguleg við 60 ára aldur. Gert er ráð fyrir því að í reglum fjármálaráðherra verði heimilt að ákveða að taka ellilífeyris geti miðast við sama tímamark og ríkisstarfsmaður hefur öðlast í öðru landi. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að skerða ellilífeyri nýti ríkisstarfsmaður heimild til snemmtöku lífeyris samkvæmt reglunum. Hér verður að líta til þess að um val ríkisstarfsmanns er að ræða og að gert er ráð fyrir því við beitingu samkomulagsins að ríkisstarfsmaður hvorki tapi réttindum né öðlist aukin réttindi við það að hann taki við sambærilegu starfi í öðru norrænu landi. Vilji hann njóta óskerts lífeyris getur hann valið að bíða uns rétti til lífeyristöku er náð.
    Lagt er til að í þeim reglum sem settar yrðu samkvæmt framansögðu verði m.a. mælt fyrir um heimild til útborgunar lífeyris, greiðslu kostnaðar og önnur atriði er varða samhæfingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna sem tekið hafa við samsvarandi starfi annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra verði heimilt að fela Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins framkvæmd samkomulagsins. Í því felst m.a. að sjóðurinn annist upplýsingagjöf, leiðbeiningar og útreikninga í einstökum málum og taki við fyrirmælum fjármálaráðuneytisins um útborgun lífeyris samkvæmt samkomulaginu. Komi upp ágreiningur vegna meðferðar sjóðsins á einstökum málum er gert ráð fyrir að honum verði skotið til fjármálaráðherra. Slíkt fyrirkomulag þykir eins og hér háttar til eðlilegt, m.a. í því ljósi að fjármálaráðuneytið hefur haft umsjón með gerð samkomulagsins fyrir hönd Íslands og að í 6. gr. þess er m.a. við það miðað að aðildarlöndin aðstoði hvert annað eins og þörf krefur við beitingu samkomulagsins og semji sín á milli vegna deilna sem rísa kunna við túlkun eða beitingu þess.
    Loks er mælt fyrir um að kostnaður sem leiðir af framkvæmd samkomulagsins greiðist úr ríkissjóði. Ekki er gert ráð fyrir því að umtalsverður kostnaður falli á ríkissjóð af framkvæmd samkomulagsins, enda um tiltölulega fá mál á ári að ræða.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


SAMKOMULAG

milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna.


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa, í því skyni að lífeyrismál komi ekki í veg fyrir að menn fari úr starfi, sem veitir rétt til lífeyris ríkisstarfsmanna í einu norrænu landi, í samsvarandi starf í einhverju öðru þessara landa, komið sér saman um eftirfarandi ákvæði.

1. gr.

    Samkomulagið tekur til lífeyrisréttinda vegna starfa sem falla undir lífeyrisreglur ríkisstarfsmanna á Norðurlöndum.
    Með lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er átt við þau lög og þær reglur um lífeyri ríkisstarfsmanna sem talin eru upp í fylgiskjali með samkomulagi þessu.
    Ef reglugerð (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, tekur til lífeyrisreglna ríkisstarfsmanna í viðkomandi landi skal ákvæðum þessa samkomulags því aðeins beitt að annað gildi ekki samkvæmt reglugerðinni.

2. gr.

    Þegar sá sem gegnt hefur starfi er 1. gr. nær til tekur við samsvarandi starfi í einhverju hinna norrænu landanna skulu þær lífeyrisreglur, sem gilda um annað starfið og varða lengd ráðningartíma eða lágmarksiðgjaldagreiðslutíma til að öðlast lífeyrisrétt eða ámóta tímatakmarkanir, einnig teljast hafa gilt um hitt starfið.

3. gr.

    Sé farið beint úr starfi sem 1. gr. nær til í samsvarandi starf í einhverju hinna norrænu landanna skal hugsanlegri takmörkun lífeyrisréttinda af heilsufarsástæðum ekki beitt samkvæmt þeim lífeyrisreglum sem gilda um seinna starfið hafi slík takmörkun ekki gilt fyrir starfsskiptin.
    Ef takmarkanir lífeyrisréttinda af heilsufarsástæðum giltu fyrir starfsskiptin skal litið fram hjá hugsanlegu versnandi heilsufari eftir þau. Þau gögn, sem lögð voru til grundvallar við heilsufarsmat fyrir starfsskiptin, skulu einnig lögð til grundvallar við heilsufarsmat samkvæmt þeim lífeyrisreglum sem gilda um seinna starfið.

4. gr.

    Taki sá, er gegnt hefur starfi sem 1. gr. nær til í að minnsta kosti þann lágmarkstíma sem þarf til að öðlast lífeyrisrétt, við samsvarandi starfi í einhverju hinna norrænu landanna heldur hann þeim lífeyrisréttindum sem áunnust í fyrra starfinu.
    Fyrir þann sem fær elli-, maka- eða barnalífeyri vegna starfs sem 1. gr. nær til skulu lífeyrisréttindi sem áunnin eru í einhverju hinna landanna reiknuð út samkvæmt reglum þess lands. Þá skal beita reglum þess lands um útreikning og verðtryggingu lífeyris. Lífeyrisrétthafinn skal, ef hann óskar þess, geta notið allra áunninna lífeyrisréttinda sinna samkvæmt samkomulagi þessu frá sama tíma og hann öðlast rétt til elli-, maka- eða barnalífeyris í því landi þar sem lífeyrisgreiðslur hans hefjast. Þetta á eingöngu við þegar greiðsla elli-, maka- eða barnalífeyris hefst í beinu framhaldi af starfslokum eða fráfalli starfsmanns. Taka ellilífeyris er þó fyrst möguleg frá og með 60 ára aldri. Lífeyrir greiðist af því landi þar sem hann var áunninn.

5. gr.

    Þessari grein verður einvörðungu beitt ef reglugerð (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, á ekki við.
    Ef sá sem gegnir starfi sem 1. gr. nær til fær örorkulífeyri vegna skertrar starfsgetu samkvæmt lífeyrisreglum starfslandsins má samræma örorkulífeyrinn og lífeyri sem áunninn er samkvæmt samkomulagi þessu í einhverju hinna norrænu landanna. Við slíka samræmingu skal hafa til hliðsjónar ákvæði greinar 46b í reglugerð (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja.
    Sé einhver með ráðningu samtímis í fleiri en einu Norðurlanda í starf sem 1. gr. nær til skal örorkulífeyrir hans reiknast samkvæmt lífeyrisreglum starfslandsins eða í því landi þar sem lífeyrisrétthafi hefur aðalstarf sitt. Lífeyrir samkvæmt öðrum lífeyrisreglum sem koma til álita reiknast samkvæmt reglum þess lands og almennt í hlutfalli við ávinnslutíma þar.

6. gr.

    Til þess bær yfirvöld og stofnanir í aðildarlöndum samkomulagsins skulu aðstoða hvert annað eins og þörf krefur við beitingu samkomulags þessa og semja sín á milli vegna deilna sem rísa kunna við túlkun eða beitingu þess.
    Lífeyrisrétthafi skal sækja um lífeyri hjá lífeyrisyfirvöldum í hverju landanna fyrir sig þar sem hann ávann sér lífeyrisréttindi. Í þeim tilvikum að lífeyrisrétthafi sækir aðeins um lífeyri í því landi þar sem hann byrjar lífeyristöku skal viðkomandi lífeyrisyfirvald senda umsókn hans áfram til lífeyrisyfirvalda í þeim löndum sem málið varðar.

7. gr.

    Umsókn, umsögn eða kæra, sem á að berast yfirvaldi í einu landanna innan ákveðins tímafrests, telst hafa borist tímanlega hafi hún borist samsvarandi yfirvaldi í einhverju hinna landanna áður en fresturinn rann út. Þá skal síðarnefnda yfirvaldið umsvifalaust senda umrædda umsókn, umsögn eða kæru áfram til bærs yfirvalds í hinu landinu.

8. gr.

    Viðkomandi yfirvöld á Norðurlöndum skulu eins fljótt og auðið er tilkynna hvert öðru um allar breytingar á og viðbætur við lífeyrisreglur sem gilda varðandi þær greiðslur sem getið er um í 1. gr.

9. gr.

    Samkomulag þetta gildir um þá sem enn hafa ekki hafið töku lífeyris eða, þar sem það á við, hefur enn ekki verið veitt heimild til töku lífeyris við gildistöku þess.
    Hver einstaklingur, sem fyrir gilditöku samkomulags þessa hafði gegnt starfi sem 1. gr. nær til í fleiri en einu landanna og féll þá undir samkomulag Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Noregs frá 18. desember 1973 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna og fundargerð frá 28. júní 1990 um breytingu á því samkomulagi, á rétt á að velja um að fá lífeyri sinn reiknaðan eftir eldra samkomulaginu svo fremi að annað leiði ekki af reglugerð (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Þetta gildir í 5 ár frá gildistöku þessa samkomulags og að því tilskildu að lífeyristakan hefjist innan þeirra tímamarka og að látið sé af starfi sem 1. gr. nær til.

10. gr.

    Þegar nauðsynlegum formsatriðum vegna gildistöku er lokið skal viðkomandi land þegar tilkynna það öðrum aðilum samkomulagsins. Samkomulagið öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánuðar eftir að síðasta tilkynningin þar að lútandi hefur borist sænska utanríkisráðuneytinu.
    Þegar samkomulag þetta tekur gildi fellur úr gildi samkomulag Svíþjóðar, Danmerkur, Finnlands og Noregs frá 18. desember 1973 um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna og fundargerð frá 28. júní 1990 um breytingu á því samkomulagi.

11. gr.

    Aðildarland getur sagt samkomulaginu upp með skriflegri tilkynningu þess efnis til sænsku ríkisstjórnarinnar sem tilkynnir þá hinum aðilunum um móttöku slíkrar tilkynningar og um efni hennar.
    Uppsögnin tekur aðeins til þess aðila sem að uppsögninni stendur og hún tekur gildi frá og með næstu áramótum eftir að minnsta kosti 6 mánuðir eru liðnir frá því að sænsku ríkisstjórninni barst uppsagnartilkynningin.

12. gr.

    Frumeintak samkomulags þessa er varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu sem sendir hinum aðilunum staðfest endurrit.
    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar aðildarlandanna undirritað samkomulagið að framlögðum viðeigandi umboðum.

    Gjört í Stokkhólmi hinn 1. júní 2001 í einu eintaki á danskri, finnskri, íslenskri, norskri og sænskri tungu og eru allir textarnir jafngildir.

Fylgiskjal
með samkomulagi Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs
og Svíþjóðar um lífeyrismál.


    Með dönskum lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er átt við lög nr. 724 frá 9. september 1993, um lífeyri opinberra starfsmanna, sem taka til starfsmanna ríkisins, grunnskólans og þjóðkirkjunnar, sbr. breytingar á þeim með lögum nr. 316 frá 14. maí 1997 og lögum nr. 346 frá 2. júní 1999, lög nr. 82 frá 12. mars 1970, um eftirlaun borgaralegra starfsmanna o.fl. í hernum, sbr. breytingar á þeim með lögum nr. 821 frá 25. nóvember 1998, sem og lífeyrisreglur sem ríkið fjármagnar eða ábyrgist sem eru í aðalatriðum efnislega samhljóða lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna o.fl.
    Með finnskum lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er átt við lög nr. 280 frá 20. maí 1966, um ríkislífeyri, lög nr. 281 sama dag, um gildistöku laga um ríkislífeyri, lög nr. 774 frá 31. desember 1968, um fjölskyldulífeyri ríkisins, lög nr. 775 sama dag, um gildistöku laga um fjölskyldulífeyri ríkisins, lög nr. 1152 frá 11. desember 1997, um reglur um lífeyrisvernd við styttri ráðningartíma hjá ríkinu en einn mánuð, reglugerðir samkvæmt heimildum í ofangreindum lögum svo og lög og reglugerðir sem lífeyrisgreiðslur frá ríkinu grundvallast á eða hafa grundvallast á að teknu tilliti til viðeigandi hluta ofannefndra laga og reglugerða.
    Við ráðningar samkvæmt öllum framantöldum finnskum lögum og reglugerðum er farið eftir reglugerð (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja.
    Með íslenskum lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er átt við lög nr. 1 frá 10. janúar 1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lög nr. 2 frá 10. janúar 1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum.
    Með norskum lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er átt við lög nr. 26 frá 28. júlí 1949, um Lífeyrissjóð ríkisins, með síðari viðbótum.
    Með sænskum lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er átt við þau ákvæði um lífeyri ríkisstarfsmanna o.fl. sem sett hafa verið að tilhlutan ríkisstjórnarinnar eða af yfirvaldi eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar eða, hvað varðar þjóðþingið og stofnanir þess, að tilhlutan þjóðþingsins. Með lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna er þó ekki átt við ákvæði um viðbótarhlutalífeyri né heldur ákvæði um varalífeyri eða samsvarandi eingreiðslu.



Fylgiskjal II.


Drög að reglum

um samræmingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna
sem falla undir norrænt samkomulag um lífeyrismál.


1. gr.
Gildissvið og tilgangur.

    Reglur þessar taka til ríkisstarfsmanna sem áunnið hafa sér lífeyrisréttindi í störfum sem falla undir samkomulag Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar frá 1. júní 2001, um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Í reglum þessum nefnt samkomulagið.
    Til ríkisstarfsmanna samkvæmt reglum þessum teljast þeir sem falla undir gildissvið laga um réttindi og skyldur starfmanna ríkisins og öðlast hafa lífeyrisréttindi samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
    Reglunum er ætlað að stuðla að því að lífeyrismál komi ekki í veg fyrir að ríkisstarfsmenn taki við samsvarandi starfi í öðru norrænu landi.

2. gr.
Samræming réttinda.

    Við beitingu samkomulagsins skal við það miðað að ríkisstarfsmaður hvorki tapi áunnum réttindum né öðlist aukin réttindi við að hann taka við sambærilegu starfi í öðru norrænu landi.

3. gr.
Starfstími í samsvarandi starfi.

    Ríkisstarfsmaður getur óskað eftir því að litið sé til réttindatímabila í öðru norrænu landi til að virkja rétt til lífeyris eða til að iðgjaldagreiðsluskylda hans falli niður.
    Samkomulagið tryggir ríkisstarfsmanni ekki áframhaldandi aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997, né að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 2/1997, hafi hann látið af starfi sínu hér á landi vegna starfa erlendis lengur en í 12 mánuði. Þetta á þó ekki við um launalaus leyfi frá starfi.

4. gr.
Um útborgun lífeyris.

    Jafnan skal miða við að lífeyrisþegi geti, þegar hann óskar þess, notið áunninna lífeyrisréttinda í öðru norrænu landi frá sama tíma og hann öðlast rétt til töku lífeyris í því landi þar sem lífeyrisgreiðslur til hans hefjast enda hefjist taka lífeyris í beinu framhaldi af starfslokum eða fráfalli starfsmannsins.
    Ríkisstarfsmaður, sem lætur af starfi í öðru norrænu landi og hefur töku ellilífeyris samkvæmt reglum þess lands en hefur jafnframt áunnið sér lífeyriséttindi í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, getur farið fram á að réttindi úr þessum sjóðum verði virk frá sama tíma, þó svo að hann hafi ekki öðlast rétt til töku lífeyris samkvæmt almennum reglum um sjóðina. Taka ellilífeyris er þó fyrst möguleg eftir 60 ára aldur.
    Nú ákveður ríkisstarfsmaður að hefja töku ellilífeyris úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga áður en hann hefur öðlast rétt til hans, sbr. 2. mgr., og skal þá lækka réttindi hans hlutfallslega svo að heildarskuldbindingar sjóðsins aukist ekki. Leggja skal til grundvallar útreikning tryggingafræðings, sem byggður er á sömu forsendum og notaðar eru við mat á skuldbindingum sjóðsins.

5. gr.
Framkvæmd og skipulag.

    Fjármálaráðherra er í fyrirsvari gagnvart öðrum aðilum samkomulagsins um framkvæmd þess og um úrlausn deilumála sem upp kunna að rísa við túlkun eða beitingu þess.
    Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tekur við umsóknum um útborgun lífeyris, annast útreikning hans og veitir jafnframt upplýsingar og leiðbeiningar til ríkisstarfsmanna um réttindi þeirra samkvæmt samkomulaginu. Lífeyrissjóðurinn gerir fjármálaráðuneytinu grein fyrir framkomnum umsóknum og útreikningum sínum.
    Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins annast greiðslu lífeyris samkvæmt samkomulaginu. Mismunur sem leiðir af framkvæmd þess og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, greiðist úr ríkissjóði.
    Telji ríkisstarfsmaður að lífeyrir hans sé ekki rétt ákveðinn samkvæmt samkomulaginu eða reglum þessum, sker fjármálaráðherra úr.

6. gr.
Kostnaður.

    Fjármálaráðuneytið ber kostnað af framkvæmd reglna þessara og gerir samning við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um uppgjör á kostnaði sjóðsins af framkvæmd þeirra.

7. gr.
Lagaheimild og gildistaka.
    

    Reglur þessar eru settar með heimild í 41. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 27. gr. laga nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
    Reglur þessar öðlast þegar gildi og taka til þeirra sem öðlast hafa lífeyrisréttindi vegna starfa sem falla undir samkomulagið, sem undirritað var 1. júní 2001 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda og tók gildi 1. mars 2002, en höfðu ekki hafið töku lífeyris við gildistöku þess.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins. Breytingarnar snúa annars vegar að því að tryggja betur og samræma lífeyrisréttindi þeirra ríkisstarfsmanna sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða annars staðar á Norðurlöndum. Hins vegar miða breytingarnar að því að leiðrétta iðgjaldaprósentu sveitarfélaga vegna starfsmanna grunnskóla þannig að hún hækki ekki frá því sem áður var samið um og kveðið á um í lögum þótt mótframlag vinnuveitenda hafi almennt verið hækkað úr 6% í 8%. Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjaldaskuldbindingar ríkissjóðs þar sem fremur fáir starfsmenn munu falla undir ákvæðin á ári hverju.