Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 588. máls.

Þskj. 873  —  588. mál.



Frumvarp til laga

um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.


(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Gildissvið, markmið og skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið og yfirstjórn.

    Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
    Lög þessi taka til:
     a.      sölu á gistingu,
     b.      sölu og veitingar hvers kyns veitinga í atvinnuskyni á veitingastöðum og gististöðum og öðrum stöðum, svo sem samkomusölum eða um borð í skipum,
     c.      tækifærisleyfa vegna skemmtanahalds,
     d.      útleigu samkomusala í atvinnuskyni.
    Lög þessi taka þó hvorki til framleiðslu og dreifingar matvæla, sbr. lög um matvæli, né hollustuhátta, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Um veitingu og neyslu áfengis, að öðru leyti en kveðið er á um lögum þessum, fer eftir ákvæðum áfengislaga.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja allsherjarreglu í starfsemi veitinga- og gististaða og við skemmtanahald og stuðla að stöðugleika í rekstri, sem og að starfsemi falli að skipulagi viðkomandi sveitarfélags hverju sinni.

3. gr.
Flokkun gististaða.

    Gististaðir eru staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga. Heimagisting er gisting á heimili leigusala gegn endurgjaldi.
    Heimilt er að gera mismunandi kröfur til starfsemi í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum og haga gjaldtöku þess eftir tegund og flokkun gististaða.
    Flokkun gististaða er sem hér segir:
    Flokkur I:     Heimagisting.
    Flokkur II:     Gististaður án veitinga.
    Flokkur III:     Gististaður með veitingum en þó ekki áfengisveitingum.
    Flokkur IV:     Gististaður með minibar.
    Flokkur V:     Gististaður með bar og/eða veitingaaðstöðu þar sem áfengi er veitt.
    Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um einstakar tegundir gististaða, flokkun þeirra og búnað.

4. gr.
Flokkun veitingastaða.

    Veitingastaðir eru staðir þar sem eitthvað af eftirfarandi á við:
     a.      Framreiddur er matur og/eða drykkur sem boðinn er viðskiptavinum í atvinnuskyni, til neyslu á staðnum, þar með taldir skemmtistaðir þar sem fram fer reglubundið skemmtanahald og samkomusalir sem leigðir eru í atvinnuskyni.
     b.      Framreiddur er og boðinn til sölu, í atvinnuskyni, matur sem ekki er til neyslu á staðnum, enda er sú starfsemi meginstarfsemi staðarins.
    Heimilt er að gera mismunandi kröfur til starfsemi í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum og haga gjaldtöku þess eftir tegund og flokkun veitingastaða.
    Veitingastaðir flokkast með eftirfarandi hætti:
    Flokkur I:    Staðir án áfengisveitinga.
    Flokkur II:    Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23 og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu.
    Flokkur III:    Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.
    Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Leyfisveitandi getur þó heimilað í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastað, að fengnum jákvæðum umsögnum umsagnaraðila skv. 10. gr. Á slíkum stöðum er sýnendum óheimilt að fara um á meðal áhorfenda og jafnframt eru hvers konar einkasýningar bannaðar.
    Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um einstakar tegundir veitingastaða, flokkun þeirra og búnað.

II. KAFLI
Almenn ákvæði um veitingastaði.
5. gr.
Dvöl ungmenna á veitingastöðum.

    Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 22 á kvöldin og fram til lokunar staðarins nema í fylgd með foreldrum sínum, öðrum forráðamönnum, ættingjum eða maka, 18 ára eða eldri. Dyraverðir, eftirlitsmenn, framreiðslumenn og/eða aðrir sem ábyrgð bera á rekstri staðarins skulu láta ungmenni er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 22 að kvöldi, án framangreindrar fylgdar, sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt enda sé ástæða til að ætla að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.
    Veita má í reglugerð undanþágu frá reglu 1. mgr. sem tekur til ákveðinna tegunda veitingastaða og sérstakra tilefna, svo sem skóladansleikja, enda fari engar áfengisveitingar þar fram og afgreiðslutími viðkomandi veitingastaðar sé í samræmi við heimilan afgreiðslutíma samkvæmt rekstrarleyfi staðarins, nema sótt hafi verið um tímabundið leyfi skv. 4. mgr. 18. gr.

6. gr.
Dyravarsla.

    Dyravarsla á veitingahúsum og öðrum samkomum fer eftir flokkun þeirra, tegund, stærð, afgreiðslutíma og hvort um áfengisveitingar er að ræða. Nánar skal kveða á um hæfni og þjálfun dyravarða í reglugerð og er heimilt að kveða þar á um að dyraverðir skuli sækja sérstök námskeið þar sem farið er yfir atriði sem á reynir við dyravörslu, svo sem ákvæði áfengislaga, hjálp í viðlögum, viðbrögð við óspektum og hvernig þekkja megi merki um neyslu og sölu ólöglegra vímuefna. Leyfisveitanda er heimilt að binda útgáfu rekstrarleyfis því skilyrði að hluti dyravarða hafi lokið slíku námskeiði.
    Nánar skal kveða á um skyldu til dyravörslu og framkvæmd námskeiða í reglugerð.

III. KAFLI
Leyfisveitingar.
7. gr.
Leyfisskylda.

    Hver sá sem hyggst stunda starfsemi sem fellur undir lög þessi skal hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda. Í rekstrarleyfi getur falist leyfi til sölu gistingar og/eða veitingar og sölu veitinga, hvort sem er í mat eða drykk, bæði áfengra og óáfengra, og/eða útleiga samkomusala í atvinnuskyni.
    Rekstrarleyfið skal tilgreina þann flokk og þá tegund staðar sem starfsemi fellur undir og leyfi fæst fyrir.
    Leyfisveitendur samkvæmt lögum þessum eru sýslumenn að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans.
    Leyfisbréf vegna leyfisskyldrar starfsemi samkvæmt lögum þessum skal leyfishafi hafa sýnilegt fyrir viðskiptavini þar sem leyfisskyld starfsemi fer fram.

8. gr.
Skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla.

    Til þess að öðlast rekstrarleyfi þarf umsækjandi og/eða forsvarsmaður umsækjanda ef hann er lögaðili að uppfylla eftirfarandi skilyrði og framvísa nauðsynlegum vottorðum því til staðfestingar:
     a.      Hafa búsetu á Íslandi.
     b.      Vera lögráða og hafa náð a.m.k. 20 ára aldri á umsóknardegi.
     c.      Hafa forræði á búi sínu.
     d.      Hafa tilkynnt atvinnurekstur til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra.
     e.      Hafa ekki á síðustu fimm árum gerst sekur um háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög, lög um ávana- og fíkniefni, lög um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald eða ársreikninga eða lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um tryggingagjald né lög þessi sem og reglur settar samkvæmt tilgreindum lögum.
     f.      Hafa ekki verið sviptur leyfi til rekstrar gististaðar, veitingastaðar eða áfengisveitinga á síðustu fimm árum frá umsókn.
     g.      Skulda ekki skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr.
    Ákvæði c–g-liðar 1. mgr. gilda jafnt um umsækjanda sem er lögaðili og forsvarsmann umsækjanda.
    Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði rekstrarleyfis og gögn sem afla þarf.

9. gr.
Umsókn.

    Umsækjandi um leyfi samkvæmt lögum þessum getur verið hvort sem er einstaklingur eða lögaðili. Ef leyfishafi er lögaðili skal tilgreindur forsvarsmaður sem jafnframt ber ábyrgð á rekstrinum og uppfyllir skilyrði laga þessara.
    Umsókn skal vera skrifleg og send leyfisveitanda í því umdæmi þar sem leyfisskyld starfsemi er fyrirhuguð. Sækja skal um rekstrarleyfi vegna sölu veitinga um borð í skipum til leyfisveitanda þar sem heimahöfn skipsins er samkvæmt lögum um skráningu skipa.
    Umsóknareyðublað skal vera tiltækt bæði á prentuðu formi hjá leyfisveitanda og rafrænt á heimasíðu hans. Skal þar getið um þau gögn sem fylgja þurfa umsókn.
    Heimilt er að skila umsókn rafrænt og skal á umsókn vera heimild til handa umsækjanda að fela leyfisveitanda að afla nauðsynlegra gagna sem fylgja þurfa umsókn rafrænt, þar sem slíkt er mögulegt. Kjósi umsækjandi að nýta sér þessa heimild skal það skoðast sem upplýst samþykki í skilningi laga um persónuvernd.
    Heimilt er að kveða nánar á um það sem koma þarf fram í umsókn og um fylgigögn með umsókn í reglugerð.

10. gr.
Umsóknarferli.

    Útgáfa rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum er háð því að starfsleyfi, sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli, fáist fyrir þeirri starfsemi sem umsókn lýtur að.
    Liggi starfsleyfi heilbrigðisnefndar ekki fyrir þegar sótt er um rekstrarleyfi getur umsækjandi sótt um slíkt leyfi samhliða umsókn um rekstrarleyfi á þar til gerðu eyðublaði sem nálgast má hjá leyfisveitanda, hvort sem er á skrifstofu hans eða heimasíðu. Um umsókn um starfsleyfi fer eftir ákvæðum laga og reglna sem um slík leyfi gilda.
    Þegar fullnægjandi umsókn um rekstrarleyfi hefur borist leyfisveitanda skal hann þegar í stað senda umsókn til umsagnaraðila skv. 4. mgr. þrátt fyrir að starfsleyfi liggi ekki fyrir.
    Leyfisveitandi skal leita umsagna eftirtalinna aðila í því umdæmi þar sem starfsemi er fyrirhuguð og skulu umsagnir vera skýrar og rökstuddar:
     1.      Sveitarstjórnar sem m.a. staðfestir að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
     2.      Heilbrigðisnefndar sem gætir að samræmi við starfsleyfi og metur grenndaráhrif starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist.
     3.      Slökkviliðs sem staðfestir að kröfum um brunavarnir sé fullnægt.
     4.      Vinnueftirlits sem m.a. kannar hvort aðstæður á vinnustað séu í samræmi við ákvæði laga og reglna.
     5.      Byggingarfulltrúa sem m.a. staðfestir að starfsemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála sem og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
     6.      Lögreglu sem m.a. kveður á um nauðsyn til dyravörslu.
    Óheimilt er að gefa út rekstrarleyfi ef einhver framangreindra aðila leggst gegn útgáfu leyfisins og skal rekstrarleyfi jafnframt bundið þeim skilyrðum sem fram kunna að koma í umsögnunum.
    Leita skal umsagnar Siglingastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til veitingarekstrar um borð í skipi auk annarra umsagna eftir því sem við á.
    Heimilt er með reglugerð að kveða nánar á um umsóknarferli vegna rekstrarleyfa, þar á meðal útgáfu leiðbeininga fyrir umsagnaraðila um þau atriði sem umsögn skal lúta að og tímafresti.

11. gr.
Rekstrarleyfi.

    Rekstrarleyfi til starfsemi samkvæmt lögum þessum skal veitt til fjögurra ára í senn og getur leyfishafi sótt um endurnýjun leyfis að þeim tíma loknum.
    Heimilt er að veita rekstrarleyfi til skemmri tíma óski umsækjandi eftir því eða sérstakar ástæður mæla með því en þó ekki í styttri tíma en til eins árs í senn. Rekstrarleyfi er bundið við leyfishafa og er á engan hátt framseljanlegt. Þá er rekstrarleyfið jafnframt bundið við hina tilgreindu starfsemi og staðsetningu.
    Í rekstrarleyfi skal koma fram gildistími leyfis, sú starfsemi sem veitt er leyfi fyrir og þau skilyrði sem sett eru fyrir leyfi, svo sem um gestafjölda, heimilan afgreiðslutíma, heimild til útiveitinga, dyravörslu, hávaða, umgengni, öryggi, þrifnað og annan aðbúnað.
    Heimilt er að binda rekstrarleyfi mismunandi skilyrðum og haga töku leyfisgjalds eftir flokkun og tegund starfsemi. Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um mismunandi kröfur sem gera má til starfsemi og mismunandi skilyrði sem setja má fyrir rekstrarleyfi eftir tegund og flokkun staða og annað það sem koma skal fram í rekstrarleyfi.

12. gr.
Breytingar er varða rekstrarleyfi og leyfishafa.

    Leyfishafi skal tilkynna leyfisveitanda þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi. Kalli þær á breytingar á skilmálum gildandi rekstrarleyfis skal sótt um slíkar breytingar sérstaklega til leyfisveitanda.
    Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi er fyrir samkvæmt lögum þessum eða hyggist leyfishafi hætta hinni leyfisskyldu starfsemi skal það tilkynnt leyfisveitanda án tafar. Leyfishafi ber ábyrgð á rekstrinum þar til slík tilkynning hefur borist leyfisveitanda en nýr aðili sem við rekstrinum tekur frá þeim tíma og skal hann þegar í stað sækja um nýtt rekstrarleyfi.
    Með umsókn skv. 1.–2. mgr. skal að jafnaði fara eftir ákvæðum 9.–11. gr. eftir því sem við á. Leyfisveitanda er þó heimilt að falla frá öflun umsagna skv. 10. gr. að öllu leyti eða hluta ef um umsókn skv. 2. mgr. er að ræða telji hann slíkt óþarft, svo sem ef ekki er um breytingar að ræða á starfsemi sem rekstrarleyfi tekur til. Um umsókn og skilyrði fyrir rekstrarleyfi fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara.
    Á meðan umsókn skv. 1.–2. mgr. er til meðferðar má leyfisveitandi gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra leyfi, til allt að þriggja mánaða. Að liðnum þriggja mánaða gildistíma bráðabirgðaleyfis verður bráðabirgðaleyfi einungis framlengt ef umsækjanda verður ekki kennt um tafir á útgáfu rekstrarleyfis.
    Leyfisveitandi skal tilkynna umsagnaraðilum um nýjan rekstraraðila eftir því sem við á.
    Gildistími rekstrarleyfis sem sótt er um breytingar á skv. 1. mgr. breytist ekki við breytingar á starfsemi nema leyfisveitandi telji sérstakar ástæður til þess. Við gjaldtöku vegna viðbótarstarfsemi skal miða við mismun gjalds vegna upphaflegs rekstrarleyfis og gjalds fyrir rekstrarleyfi eftir breytingu.

13. gr.
Endurnýjun rekstrarleyfis.

    Leyfishafi sem vill endurnýja rekstrarleyfi sitt skal sækja um endurnýjun til leyfisveitanda a.m.k. tveimur mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út.
    Meðan umsókn um endurnýjun er til meðferðar er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra rekstrarleyfi, til allt að þriggja mánaða. Gildistími bráðabirgðaleyfis verður þó aldrei lengri en þrír mánuðir frá því að rekstrarleyfi rann út. Að þeim tíma liðnum verður bráðabirgðaleyfi ekki framlengt nema tafir á afgreiðslu endurnýjunar sé ekki að rekja til umsækjanda. Óheimilt er að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi hafi umsókn um endurnýjun borist eftir að fyrra rekstrarleyfi rann út.
    Við mat á umsókn um endurnýjun skal taka mið af því hvernig starfsemi hefur gengið á leyfistíma og þeirri reynslu sem fengist hefur af rekstrinum. Skal við það hafa hliðsjón af tilkynningum og upplýsingum sem borist hafa frá eftirlitsaðilum skv. 21. gr. á leyfistíma og skal leyfisveitandi leita upplýsinga frá eftirlitsaðilum skv. 21. gr. og umsagna skv. 10. gr., um starfsemi, eftir því sem hann telur nauðsynlegt til afgreiðslu umsóknar.
    Ef ekki er um breytingar á starfsemi að ræða og starfsemi hefur verið athugasemdalaus af hálfu eftirlitsaðila skv. 21. gr. á leyfistíma er leyfisveitanda heimilt að gefa út nýtt rekstrarleyfi án þess að leita umsagna skv. 10. gr.
    Um endurnýjun starfsleyfis heilbrigðisnefnda fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

IV. KAFLI
Synjun, brottfall, afturköllun og svipting rekstrarleyfis.
14. gr.
Synjun rekstrarleyfis.

    Leyfisveitandi synjar um rekstrarleyfi ef einhver af skilyrðum 8. gr. eru ekki uppfyllt og/eða einhver umsagnaraðila skv. 10. gr. mælir gegn útgáfu rekstrarleyfis.
    Umsækjanda skal tilkynnt um fyrirhugaða synjun skriflega og skal þar getið um ástæður hennar. Skal umsækjanda gefinn kostur á að bæta úr því sem er ábótavant við umsókn, ef þess er kostur, innan hæfilegs tíma sem tilgreindur skal í tilkynningu. Að öðrum kosti skal umsókn synjað.

15. gr.
Brottfall, innlögn, afturköllun og svipting rekstrarleyfis.

    Rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum fellur niður við lok gildistíma sem tiltekinn er í leyfisbréfi. Rekstrarleyfi telst jafnframt niður fallið frá þeim tíma þegar það er móttekið hjá leyfisveitanda kjósi leyfishafi að leggja það inn.
    Leyfisveitandi skal afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi eða forsvarsmaður uppfylla ekki lengur skilyrði 8. gr., sbr. þó heimild 16. gr.
    Leyfisveitanda er heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfi tímabundið verði hann eða forsvarsmaður hans uppvís að því að misnota rekstrarleyfið eða vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum sem um reksturinn gilda eða brjóti hann að öðru leyti gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins. Verði leyfishafi uppvís að ítrekuðum brotum samkvæmt þessari málsgrein er leyfisveitanda heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfinu að fullu.
    Áður en kemur til afturköllunar skv. 2. mgr. eða sviptingar skv. 3. mgr. skal leyfisveitandi senda leyfishafa viðvörun þar um, þar sem fram komi tilefni afturköllunar eða sviptingar og skal leyfishafa eftir atvikum gefinn frestur til að bæta úr annmörkum sé það mögulegt.
    Komi til afturköllunar eða sviptingar rekstrarleyfis skal leyfishafa tilkynnt um það skriflega og frá hvaða tíma rekstrarleyfið telst niður fallið og skal leyfishafi skila leyfisbréfi til leyfisveitanda án tafar fyrir þau tímamörk. Leyfisveitandi skal tilkynna heilbrigðisnefnd um afturköllun eða sviptingu rekstrarleyfis
    Við innlögn rekstrarleyfis á leyfishafi ekki rétt á endurgreiðslu hluta gjalds sem greitt var fyrir rekstrarleyfi þótt leyfistími sé ekki liðinn. Sama gildir ef rekstrarleyfi er afturkallað skv. 2. mgr. eða leyfishafi er sviptur rekstrarleyfi skv. 3. mgr.
    Beita skal úrræði 23. gr. um lokun staðar ef starfsemi er haldið áfram eftir brottfall rekstrarleyfis, afturköllun eða sviptingu þess skv. 1.–3. mgr.

16. gr.
Gjaldþrot eða andlát.

    Þrotabúi leyfishafa er heimilt að halda starfsemi áfram meðan á skiptum stendur og tekur skiptastjóri þrotabúsins þá stöðu leyfishafa.
    Dánarbúi leyfishafa eða þeim sem hefur tekið við starfsemi að arfi er heimilt að halda starfseminni áfram í allt að eitt ár eftir andlát leyfishafa án nýs rekstrarleyfis en sækja skal um bráðabirgðaleyfi ef rekstrarleyfi rennur út innan ársins. Að þeim tíma liðnum skal erfingi sækja um rekstrarleyfi vilji hann halda starfsemi áfram.

V. KAFLI
Tækifærisleyfi.
17. gr.
Tækifærisleyfi.

    Sækja þarf um leyfi fyrir einstakar skemmtanir og atburði sem fram fara utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni og eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða, og kalla á eftirlit og/eða löggæslu. Hér undir geta fallið t.d. útihátíðir, útitónleikar, skóladansleikir og tjaldsamkomur. Leyfi samkvæmt ákvæði þessu er bundið við einstaka skemmtun og/eða atburð og skal gildistími að jafnaði ekki vera lengri en 7 dagar. Ekki þarf leyfi fyrir einkasamkvæmum.
    Sækja skal um tækifærisleyfi með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Umsækjandi og/eða forsvarsmaður ef umsækjandi er lögaðili skal uppfylla skilyrði 8. gr. eftir því sem við á. Leyfisveitanda er þó heimilt að víkja frá fjárræðisskilyrði í því tilviki að umsækjandi hafi ekki náð tilskildum aldri enda verði tilnefndur ábyrgðarmaður að skemmtun eða atburði sem uppfyllir skilyrðið.
    Leyfisveitandi getur bundið leyfi eftirfarandi skilyrðum að fenginni umsögn lögreglustjóra:
     1.      að sá sem fyrir skemmtun stendur geri fullnægjandi ráðstafanir til að halda uppi reglu, öryggi og velsæmi,
     2.      að eigi annist aðrir dyravörslu en hann samþykkir,
     3.      að lögreglumenn verði á skemmtuninni,
     4.      að sá sem fyrir skemmtun stendur greiði kostnað af ráðstöfunum sem lögreglustjóri ákveður,
     5.      öðrum þeim skilyrðum sem nauðsyn ber til, svo sem um aldur og fjölda gesta og slit skemmtunar.
    Leyfisveitandi skal jafnframt leita umsagna heilbrigðisnefnda og slökkviliðs og eftir atvikum annarra umsagnaraðila skv. 10. gr.
    Heimilt er leyfisveitanda að krefja leyfishafa um þann kostnað sem leiðir af aukinni löggæslu umfram venjubundna löggæslu á sama tíma. Getur leyfisveitandi krafist þess að sá kostnaður verði greiddur fyrir fram eða trygging sett fyrir greiðslu hans.
    Ákvæði 23. gr. gilda um úrræði vegna brota gegn ákvæði þessu.
    Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd við útgáfu leyfa, skilyrði fyrir leyfum og innheimtu og ákvörðun löggæslukostnaðar.

18. gr.
Tímabundin áfengisveitingaleyfi.

    Sækja þarf um leyfi til sölu og/eða afhendingar áfengisveitinga við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu veitinganna er að ræða eða hvers kyns afhendingu þeirra, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í hvers konar samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innandyra, undir berum himni eða í tjaldi. Slík leyfi verða eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en fjórum sinnum ár hvert vegna sama staðar.
    Ekki þarf leyfi fyrir áfengisveitingum í einkasamkvæmum.
    Tímabundið leyfi samkvæmt ákvæði þessu verður ekki gefið út til veitingar og/eða sölu áfengisveitinga á stað sem hefur fengið útgefið rekstrarleyfi heldur fara allar áfengisveitingar á slíkum stöðum fram á grundvelli rekstrarleyfisins og á ábyrgð leyfishafa.
    Rekstrarleyfishafa er heimilt að sækja um leyfi samkvæmt ákvæði þessu sem viðbót við gilt rekstrarleyfi, svo sem vegna tímabundins viðbótarafgreiðslutíma áfengisveitinga.
    Um leyfi samkvæmt ákvæði þessu fer samkvæmt ákvæðum 17. gr. eftir því sem við á og er leyfið bundið við einstaka atburði og getur gilt í allt að 7 daga hið mesta. Ákvæði 23. gr. gilda um úrræði vegna brota.
    Heimilt er að kveða nánar á um framkvæmd leyfisveitinga samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.

VI. KAFLI
Upplýsingaskylda, eftirlit, viðurlög o.fl.
19. gr.
Upplýsingaskylda.

    Rekstraraðilar er undir þessi lög falla skulu veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt nánari fyrirmælum Hagstofu Íslands eða viðkomandi stjórnvalds. Slíkar upplýsingar skulu einungis notaðar til könnunar og skipulagningar á ferðaþjónustu almennt og/eða rekstri veitingastaða og gististaða sérstaklega sem atvinnugreinar.

20. gr.
Skrá.

    Leyfisveitandi skal skrá útgefin rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum í miðlægt leyfakerfi sem nánar er kveðið á um í reglugerð og birta rekstrarleyfi í gildi með aðgengilegum hætti, svo sem á heimasíðu sinni. Skráin skal innihalda upplýsingar um nafn leyfishafa, kennitölu, hvar aðalstarfsemin er rekin, útgáfu rekstrarleyfis og annað sem ákveðið kann að vera í reglugerð.

21. gr.
Eftirlit.

    Lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal eftirlit með því að leyfishafi uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi, að fylgt sé skilyrðum sem leyfi er bundið, svo sem um dyravörslu, leyfilegan afgreiðslutíma og gestafjölda, einnig að fylgt sé ákvæðum laganna um dvöl ungmenna á veitingastöðum og um áfengisveitingar.
    Um eftirlit með starfsemi sem lög þessi taka til fer að öðru leyti samkvæmt lögum og reglugerðum um matvæli, hollustuhætti og mengunarvarnir, eftirlit, aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, brunamál og öðrum lögum sem átt geta við um viðkomandi starfsemi. Eftirlitið er í höndum þeirra sem lögin kveða á um hverju sinni.
    Heilbrigðisnefnd skal tilkynna viðkomandi leyfisveitanda ef fyrirhuguð er svipting starfsleyfis.
    Eftirlitsaðilar skulu tilkynna leyfisveitanda um alvarlegar athugasemdir sem þeir kunna að gera við rekstur leyfishafa og annað sem er tilefni athugasemda af þeirra hálfu við starfsemi og áhrif kann að hafa á rekstrarleyfið og endurnýjun þess, sem og ef fyrirhuguð er stöðvun starfseminnar á grundvelli heimildar viðkomandi laga.

22. gr.
Viðurlög vegna brota.

    Hver sá er brýtur gegn 5. gr. um dvöl ungmenna á veitingastöðum eða rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis, sbr. 7., 12., 17. og/eða 18. gr., skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Brot gegn reglugerðum settum með stoð í lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Misbeiti leyfishafi sem hefur leyfi til veitingar áfengis leyfi sínu með því að veita áfengi á öðrum tímum eða á annan hátt en honum er heimilt, eða aðrar áfengistegundir, svo og með því að selja eða afhenda áfengi án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt gegn fyrirmælum sem um áfengisveitingar gilda, varðar það refsingu samkvæmt áfengislögum.
    Heimilt er jafnframt í tilefni brota skv. 1. og 2. mgr. að beita úrræði 23. gr. um lokun starfsstöðvar þar sem brot er framið.

23. gr.
Þvingunarúrræði.

    Lögreglustjóri skal án fyrirvara eða aðvörunar stöðva leyfisskylda starfsemi sem fer fram án tilskilins leyfis. Á það við um eftirfarandi tilvik:
     a.      Þegar ekki hefur verið gefið út rekstrarleyfi vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi, útrunnið rekstrarleyfi hefur ekki verið endurnýjað, nýr rekstraraðili hefur ekki fengið útgefið nýtt rekstrarleyfi, rekstrarleyfi hefur verið lagt inn, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því.
     b.      Þegar leyfisskyld starfsemi fer út fyrir mörk og skilmála útgefins rekstrarleyfis, svo sem varðandi heimilaðan afgreiðslutíma og þá tegund leyfisskyldrar starfsemi sem hið útgefna rekstrarleyfi tekur til.
     c.      Þegar veitingar áfengis, sem leyfisskyldar eru skv. 18. gr., fara fram án tilskilins leyfis eða út fyrir mörk og skilmála útgefins leyfis.
    Lögreglustjóri skal jafnframt slíta samkomu sem fram fer á grundvelli 17. gr. ef hún brýtur gegn ákvæðum laga eða brotin eru fyrirmæli eða skilyrði sem leyfisveitandi hefur sett, ef regla á samkomu er eigi nægilega góð eða þegar slík samkoma fer fram án tilskilins leyfis.
    Lögreglustjóri skal tilkynna heilbrigðisnefnd um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt ákvæði þessu.

24. gr.
Gjaldtaka.

    Um gjald fyrir rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

25. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

26. gr.
Kæruheimild.

    Stjórnsýsluákvörðunum leyfisveitanda, svo sem um synjun á útgáfu leyfa og ákvörðun um sviptingu leyfa, má skjóta til ráðuneytisins. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum.

VII. KAFLI
Gildistaka, brottfall laga o.fl.
27. gr.
Gildistaka og brottfall laga.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2007.
    Við gildistöku laga þessara falla brott eftirfarandi lög:
     1.      lög nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði, og
     2.      lög nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma.

28. gr.
Brottfall og breyting lagaákvæða.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði laga sem hér segir:
     1.      Áfengislög, nr. 75/1998, með áorðnum breytingum:
                  a.      Orðið „veitingar“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. fellur brott.
                  b.      2. málsl. 1. mgr. 3. gr. fellur brott.
                  c.      Á eftir 1. mgr. 3. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um leyfi til veitingar áfengis fer eftir lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
                  d.      Orðið „veitingar“ í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. fellur brott.
                  e.      2. málsl. 4. mgr. 4. gr. fellur brott.
                  f.      Í stað orðsins „ríkislögreglustjóra“ í 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. kemur: lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
                  g.      V. kafli fellur brott.
                  h.      2. mgr. 18. gr. fellur brott.
                  i.      Á eftir „3. gr.“ í 4. mgr. 19. gr. kemur: laga þessara og III. kafla laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
                  j.      Orðin „eða lögreglustjóri“ í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. falla brott og í stað orðsins „ríkislögreglustjóri“ kemur: lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
                  k.      VIII. kafli fellur brott.
     2.      Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með áorðnum breytingum: Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr.:
                  a.      20.–24. tölul. orðast svo:
                      20.      Gistileyfi skv. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
                                  a.      flokkur I          18.500 kr.
                                  b.      flokkur II          18.500 kr.
                                  c.      flokkur III          24.500 kr.
                                  d.      flokkur IV          74.500 kr.
                                  e.      flokkur V          161.500 kr.
                      21.      Veitingaleyfi skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
                                   a.      flokkur I          18.500 kr.
                                  b.      flokkur II          124.500 kr.
                                  c.      flokkur III          161.500 kr.
                      22.      Tækifærisleyfi skv. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald          6.000 kr.
                      23.      Tímabundið áfengisveitingaleyfi skv. 18. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald          20.000 kr.
                      24.      Endurnýjun
                                   a.      rekstrarleyfa skv. a–c-lið 20. tölul. og a-lið 21. tölul.          5.500 kr.
                                  b.      rekstrarleyfa skv. d-lið 20. tölul.          25.000 kr.
                                  c.      rekstrarleyfa skv. e-lið 20. tölul og b–c-lið 21. tölul.          50.000 kr.
                  b.      32. tölul. fellur brott.
                  c.      47. tölul. fellur brott.
     3.      Lögreglulög, nr. 90/1996: Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr.:
                  a.      1. mgr. fellur brott.
                  b.      Í stað orðanna „Enn fremur má í slíkum reglum“ í 2. mgr. kemur: Lögreglustjóra er heimilt í sérstökum reglum sem dómsmálaráðherra setur að.
     4.      Lög um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með áorðnum breytingum: 2. mgr. 7. gr. fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Veitinga-, áfengisveitinga- og skemmtanaleyfi.

    Leyfishafar sem hafa í gildi leyfi til sölu veitinga og gistingar samkvæmt lögum nr. 67/1985, áfengissöluleyfi skv. V. kafla áfengislaga, nr. 75/1998, og skemmtanaleyfi samkvæmt reglugerð nr. 587/1987, sbr. lög 120/1947, geta sótt um og fengið endurnýjað rekstrarleyfi skv. 13. gr. þegar einhver framangreindra leyfa renna út, þó ekki síðar en tveimur árum frá gildistöku laga þessara. Að þeim tíma liðnum þarf leyfishafi samkvæmt gildandi lögum að sækja um rekstrarleyfi.
    Leyfishafi sem sækir um endurnýjun rekstrarleyfis skv. 1. mgr. skal uppfylla skilyrði 8. gr. og jafnframt skal starfsemi hans hafa verið óaðfinnanleg á leyfistíma. Áður en endurnýjað rekstrarleyfi er gefið út leitar leyfisveitandi umsagna og álits aðila skv. 10. og 21. gr. í því skyni að kanna hvort rekstur hafi verið athugasemdalaus af þeirra hálfu og hvort ástæða er til að leggjast gegn endurnýjun og hvort setja þarf frekari skilyrði fyrir starfseminni. Í því tilviki að fallist er á endurnýjun er gefið út rekstrarleyfi. Allar breytingar á starfsemi frá fyrri leyfum, sbr. 1. mgr., kalla á umsókn um rekstrarleyfi.

II.
Tryggingar.

    Tryggingarskylda sem grundvallast á 14. gr. áfengislaga skal falla niður frá og með gildistöku laga þessara. Tryggingar sem í gildi eru við gildistöku laganna halda gildi sínu á meðan leyfi það sem tryggingin stendur fyrir er í gildi. Leyfishafi sem hefur lagt fram tryggingu vegna áfengisveitingaleyfis til innheimtumanns ríkissjóðs skal framvísa staðfestingu á að hann hafi nýtt rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum eða lagt inn áfengisveitingaleyfi samkvæmt áfengislögum áður en tryggingu er skilað.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið af fulltrúum úr samgönguráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti og er ætlað að leysa af hólmi lög um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, V. og VIII. kafla áfengislaga, nr. 75/1998, og lög nr. 120/1947, um heimild til að marka skemmtunum og samkomum tíma.
    Megintilgangur frumvarpsins er að einfalda leyfisveitingar til reksturs veitinga- og gististaða og draga úr þeim fjölda leyfa, gagna og umsagna sem umsækjendur þurfa nú að afla til að hefja slíkan rekstur. Þá er einnig lagaumhverfi fyrir þessa starfsemi gert einfaldara og skýrara með því að kveða á um leyfisveitingar í því sem næst einum lagabálki í stað margra.

II.

    Á undanförnum árum hafa leyfisveitingar í veitinga- og gistirekstri verið talsvert til umræðu og hefur umræðan að mestu snúist um hvernig einfalda megi umsóknarferlið, eftirlitið og kerfið í heild. Þau leyfi sem afla þarf til að hefja veitingarekstur í dag eru þessi:
     1.      Byggingarleyfi: Skv. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, þarf byggingarleyfi sveitarstjórnar ef byggja á húsnæði sem hýsa á veitingarekstur, breyta því, formi þess, svipmóti eða notkun. Slíkar framkvæmdir þurfa að samræmast aðal- og deiliskipulagi. Veitingarekstur verður því ekki hafinn í nýju húsnæði eða húsnæði sem ekki hefur hýst slíkan rekstur áður en fyrir liggur lokaúttektarvottorð byggingarfulltrúa sem gefið er út að lokinni úttekt á grundvelli byggingarleyfis. Telja má það breytta notkun í þessum skilningi ef grundvallarbreyting verður á eðli þess veitingarekstrar, sem fram fer í húsnæðinu, svo sem ef kaffihúsi er breytt í skemmtistað, sem kallar þá á nýtt byggingarleyfi.
     2.      Starfsleyfi: Veitingarekstur er ein þeirra atvinnugreina sem háð er starfsleyfi heilbrigðisnefndar á grundvelli 4. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sbr. einnig III. kafla reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002. Í starfsleyfi eru rekstrinum sett þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að fullnægt sé hollustuverndarkröfum, sjá einnig VIII. kafla laga um matvæli, nr. 93/1995, varðandi matarveitingar. Synji heilbrigðisnefnd um útgáfu starfsleyfis er ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og eru úrskurðir nefndarinnar fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar. Lögin heyra hins vegar undir umhverfisráðherra og ber hann ábyrgð á málaflokknum.
     3.      Tóbakssöluleyfi: Til þess að selja tóbak í smásölu þarf sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar skv. 8. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002. Þetta á m.a. við um veitingastaði þar sem selt er tóbak. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt tóbaksvarnalögum og eru ákvarðanir um synjun tóbakssöluleyfis kæranlegar til hans.
     4.      Veitingaleyfi: Lögreglustjórar veita veitingaleyfi á grundvelli laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, sbr. einnig reglugerð um veitinga- og gististaði nr. 288/1987. Leyfið er skilyrði þess að mega selja veitingar í atvinnuskyni. Umsækjandi þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. um fjárræði og forræði bús. Leyfið er veitt að fengnum umsögnum sveitarstjórnar, eldvarnaeftirlits, heilbrigðisnefndar og vinnueftirlits. Í veitingaleyfi er skilgreind tegund viðkomandi veitingarekstrar, svo sem kaffihús, veitingahús, skemmtistaður, bar eða næturklúbbur. Samgönguráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði og eru ákvarðanir um synjun veitingaleyfis kæranlegar til hans.
     5.      Áfengisveitingaleyfi: Samkvæmt áfengislögum, nr. 75/1998, sbr. einnig reglugerð um smásölu og veitingar áfengis nr. 177/1999, þarf leyfi sveitarstjórnar til að veita áfengi í atvinnuskyni. Umsækjandi þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. leggja fram tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur honum að ákveðinni fjárhæð komi til gjaldþrotaskipta eða rekstrarstöðvunar. Þá skal hann vera handhafi veitingaleyfis samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði. Heimilaður afgreiðslutími áfengis er tilgreindur í áfengisveitingaleyfi. Umsagnaraðilar eru lögreglustjórar og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna. Útgáfuaðili er sveitarstjórn. Sé umsækjanda synjað um áfengisveitingaleyfi er ákvörðunin kæranleg til úrskurðarnefndar um áfengismál og eru úrskurðir hennar fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar. Áfengislögin heyra hins vegar undir dómsmálaráðherra og fer hann með yfirstjórn mála samkvæmt þeim.
     6.      Skemmtanaleyfi: Samkvæmt reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum nr. 587/1987, sem sækir stoð sína til laga um heimild til að marka skemmtunum og öðrum samkomum tíma, nr. 120/1947, og lögreglulaga, nr. 90/1996, má ekki halda skemmtun, sem aðgangur er seldur að, nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Sama gildir um skemmtun sem fram á að fara á almennum skemmtistað, félagsheimili eða veitingahúsi ef hún á að standa lengur en til kl. 23:30. Í samræmi við reglugerðina hefur lögreglustjórinn í Reykjavík krafist þess að rekstraraðilar allra veitingastaða sem opnir eru lengur en til kl. 23:30 afli sér skemmtanaleyfis. Binda má skemmtanaleyfi ýmsum skilyrðum er lúta m.a. að gæslu á skemmtun en almennt skilyrði er að sá sem fyrir skemmtun stendur ábyrgist að á henni sé haldið uppi fullnægjandi dyravörslu og eftirliti að mati lögreglustjóra. Synji lögreglustjóri um skemmtanaleyfi er sú ákvörðun kæranleg til dómsmálaráðherra.
    Eins og sjá má eru málefni er varða leyfisveitingar til reksturs veitinga- og gististaða á margra höndum og heyra undir nokkur ráðuneyti. Í október 2002 barst umhverfisráðuneytinu bókun Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða frá 29. september sama ár þar sem fram kom nauðsyn þess að samræma skilgreiningar á hugtökum varðandi veitinga- og gististaði sem og vinnubrögð milli þeirra ráðuneyta og stofnana sem að þessum málum koma.
    Í framhaldi af því boðaði umhverfisráðuneytið til fundar með fulltrúum samgönguráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Hollustuverndar ríkisins, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar þar sem málið var reifað og ræddar aðgerðir til úrbóta. Niðurstaða fundarins var sú að beina þeim tilmælum til hlutaðeigandi ráðherra að settur yrði á fót starfshópur skipaður af löglærðum fulltrúum ráðuneytanna sem fengi það hlutverk að gera tillögur um hvernig best væri að standa að málum til frambúðar með hliðsjón af einföldun mála, svo sem útgáfu eins sameiginlegs leyfis sem innihéldi starfsleyfi og veitingaleyfi og einnig vínveitingaleyfi þar sem það á við. Jafnframt yrði leitað leiða til þess að einfalda og fella saman afgreiðsluferli vottorða sem krafist er vegna veitingareksturs. Starfshópurinn (hér eftir starfshópur I) hóf störf í febrúar 2003 og var hlutverk hans að gera tillögur að því hvernig best væri að standa að málum í framtíðinni og leita leiða til að einfalda og færa saman afgreiðsluferil vottorða sem krafist er fyrir gisti- og veitingarekstur. Starfshópur I hafði samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfis- og heilbrigðisstofu í Reykjavík, lögreglustjórann í Reykjavík og leyfisveitingadeild Reykjavíkurborgar. Hópurinn hafði einnig til skoðunar greinargerð vinnuhóps lögreglustjórans í Reykjavík og Reykjavíkurborgar vegna leyfamála frá september 2001.
    Starfshópurinn lauk ekki formlega störfum, en fyrir liggja drög að niðurstöðum hans, frá apríl 2005. Þar kemur fram að starfshópurinn taldi að sameina þyrfti einhver af þeim leyfum sem þarf til veitingareksturs og skoðaði ýmsa möguleika í því sambandi. Starfshópurinn taldi þó vandséð hvernig byggingarleyfi yrði sameinað öðrum leyfum en hins vegar mætti væntanlega sameina önnur leyfi og taldi hópurinn þar tvennt koma til greina, annaðhvort að sameina öll leyfin í eitt eða fara millileið og sameina annars vegar starfsleyfi og tóbaksleyfi heilbrigðisnefnda og hins vegar veitingaleyfi og skemmtanaleyfi lögreglustjóra og vínveitingaleyfi sveitarstjórnar. Taldi starfshópurinn að hvaða leið sem valin yrði þyrfti heildarútgáfa leyfa og framkvæmd öll að vera á einni hendi og mætti fela það hvort sem er lögreglustjórum eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Jafnframt taldi starfshópurinn að forræði á leyfisútgáfu vegna veitingastaða ætti annaðhvort að vera hjá dómsmálaráðuneytinu eða félagsmálaráðuneytinu, eftir því hverjum væri falin leyfisútgáfan.
    Í framhaldi þessa var samgönguráðuneytinu fengið umboð til að fela lögfræðingum úr samgönguráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og umhverfisráðuneyti, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga (hér eftir starfshópur II) að gera tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum og einföldun afgreiðslu leyfa til veitinga- og gistihúsareksturs. Var þeim falið að styðjast við niðurstöður starfshóps I.
    Starfshópur II skilaði bráðabirgðatillögum í formi minnisblaðs til dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra og umhverfisráðherra í maí 2006 þar sem lögð var til veruleg einföldun á leyfisveitingakerfinu. Í kjölfarið var fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og samgönguráðuneytis í starfshópnum falið að semja lagafrumvarp í samræmi við tillögurnar að höfðu samráði við hina fulltrúa starfshópsins. Frumvarp þetta er afrakstur þeirrar vinnu.
    Ákveðið var að hagkvæmara væri að semja nýtt frumvarp um útgáfu rekstrarleyfa til að reka veitinga- eða gististað heldur en breyta þeim sem fyrir eru. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að lagðar eru til verulegar breytingar á leyfisveitingum og ferlinu öllu. Þykir auðveldara fyrir þá sem að þessum málum koma að geta nálgast reglur sem um þetta fjalla á einum stað en ákvæði um þessi leyfi eru nú á mismunandi stöðum í löggjöfinni.

III.

    Helstu breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér frá gildandi lögum eru:
     *      Veitingaleyfi, áfengisveitingaleyfi og almennt skemmtanaleyfi eru sameinuð í eitt leyfi, rekstrarleyfi, sem gefin eru út af sýslumönnum að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans og er gildistími þess fjögur ár. Byggingarleyfi og starfsleyfi heilbrigðisnefnda verða áfram skilyrði fyrir útgáfu hins nýja rekstrarleyfis en umsóknarferli rekstrarleyfisins er einfaldað og gefinn er kostur á rafrænni afgreiðslu.
     *      Gagnaöflun vegna umsókna er einfölduð og miðað við að upplýsingar um ákveðin atriði, svo sem þau er varða sakaferil og skuldastöðu við lífeyrissjóði og hið opinbera taki eingöngu til umsækjanda eða forsvarsmanns fyrirtækis en ekki til allra stjórnarmanna eins og nú er.
     *      Endurnýjun rekstrarleyfis er einfölduð til muna í tilvikum þar sem ekki er um breytingar á rekstri að ræða og reksturinn hefur verið óaðfinnanlegur.
     *      Kveðið er á um leyfi til sölu gistingar og sölu og veitingu veitinga, hvort sem er í föstu eða fljótandi formi, áfengra eða óáfengra, á einum stað en ekki í ákvæðum á víð og dreif í löggjöfinni.
     *      Yfirstjórn mála er varða veitinga- og gististaði færist frá samgönguráðherra til dóms- og kirkjumálaráðherra og verða ákvarðanir er varða rekstrarleyfi kæranlegar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
     *      Tryggingar sem hafa verið grundvöllur áfengisveitingaleyfis falla brott.
     *      Skýrar reglur eru varðandi allar breytingar hvort sem þær varða starfsemina eða leyfishafa sjálfan,.
     *      Úrræði vegna brota eru skýr og er lögreglu gert skylt, án fyrirvara, að loka stöðum sem stunda starfsemi án tilskilins rekstrarleyfis.
    Með frumvarpinu er lögð til veruleg einföldun á leyfisveitingakerfinu. Hún gengur út á að veitinga-, áfengisveitinga- og skemmtanaleyfi verði sameinuð í eitt leyfi sem sótt er um hjá leyfisveitanda, sem er eins og áður kom fram sýslumenn að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans, á þeim stað þar sem starfsemin er fyrirhuguð enda er um lík leyfi að ræða og samskonar upplýsingar og gögn sem leggja þarf fram við umsóknina. Hið sameinaða leyfi mun kallast rekstrarleyfi til aðgreiningar frá öðrum leyfum.
    Ekki þótti ráðlegt að sameina byggingarleyfi hinu nýja rekstrarleyfi enda er byggingarleyfi veitt áður en rekstur hefst og kemur því á undan öðrum leyfum og er óháð daglegum rekstri veitingastaða. Ekki eru heldur gerðar tillögur um að sameina starfsleyfi heilbrigðisnefndar rekstrarleyfinu en samkvæmt gildandi lögum er starfsleyfi forsenda þess að veitingaleyfi verði gefið út. Starfsleyfið lýtur einkum að hollustuháttum við meðferð matvæla svo og hollustuháttum vegna starfsfólks og gesta. Stjórnsýsla matvælamála skiptist í dag á þrjú ráðuneyti: umhverfis-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Sameining þessa leyfis við önnur sem varða veitingarekstur mundi væntanlega gera stjórnsýsluna er þetta varðar enn flóknari og dreifðari. Áfram er gert ráð fyrir að starfsleyfi verði forsenda þess að rekstrarleyfi verði gefið út en hins vegar er lagt til að hafi starfsleyfis ekki verið aflað þegar sótt er um rekstrarleyfi þá sé hægt að sækja um slíkt leyfi samhliða umsókn um rekstrarleyfi á þar til gerðu eyðublaði sem nálgast má hjá leyfisveitanda rekstrarleyfis. Horfir það til einföldunar og tímasparnaðar fyrir umsækjanda.
    Ekki er lagt til í frumvarpinu að tóbakssöluleyfi verði sameinað rekstrarleyfi enda er það ekki óhjákvæmileg nauðsyn við rekstur veitingastaðar. Eins og staðan er í dag þarf umsækjandi sem hyggst reka veitingastað fyrst að afla sér byggingarleyfis ef ekki er um að ræða húsnæði sem áður hefur verið notað undir slíka starfsemi. Þegar það liggur fyrir þarf viðkomandi að afla starfsleyfis heilbrigðisnefndar. Þegar það hefur verið gefið út getur hann fengið útgefið veitingaleyfi hjá lögreglustjóra og að svo búnu getur hann snúið sér til sveitarstjórnar og sótt um áfengisveitingaleyfi, þ.e. ef hann hyggst bjóða upp á áfengar veitingar. Sé ætlunin að hafa opið lengur en til kl. 23:30 þarf að auki skemmtanaleyfi sem lögreglustjóri gefur út. Þetta fyrirkomulag hefur reynst flókið og hefur skapað verulegt óhagræði og umstang fyrir umsækjanda sem og leyfisveitendur auk þess sem í gildandi lögum er líftími þessara leyfa mjög mismunandi.
    Ef þetta er skoðað nánar yfir 10 ára tímabil lítur það út á eftirfarandi hátt:

1. ár 2. ár 3. ár 4. ár 5. ár 6. ár 7. ár 8. ár 9. ár 10. ár
Veitingaleyfi x x x x c c c c q q
Áfengisleyfi x y y y y w w w w æ
Skemmtanaleyfi x y z z z z b b b b
x= gildistími allra leyfa þegar sótt er fyrst um
y= nauðsynleg fyrsta endurnýjun
z=nauðsynleg önnur endurnýjun
c=nauðsynleg þriðja endurnýjun
w=nauðsynleg fjórða endurnýjun
b=nauðsynleg fimmta endurnýjun
q=nauðsynleg sjötta endurnýjun
æ=nauðsynleg áttunda endurnýjun

    Eftir 10 ár eru 2 ár eftir af veitingaleyfinu, 3 ár eftir af áfengisleyfinu og nauðsynlegt að endurnýja skemmtanaleyfið á ný, til 4 ára. Með frumvarpi þessu er lagt til að þetta verði einfaldað til muna með því að einungis verður um eitt rekstrarleyfi að ræða, rekstrarleyfi, sem gildir í 4 ár og er endurnýjað til sama tíma hverju sinni. Með því að sameina þessi þrjú leyfi, veitingaleyfi, áfengisveitingaleyfi og skemmtanaleyfi, næst talsverður ávinningur og tímasparnaður.
    Í frumvarpinu er lagt til að hið nýja leyfi verði svo til á einni hendi, þ.e. hjá sýslumönnum, nema sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans. Hér hefur verið tekið mið af þeim breytingum sem gerðar voru á skipan lögregluumdæma með lögum nr. 46/2006 og tóku gildi 1. janúar 2007. Ástæða fyrir þeirri leið sem valin er í frumvarpinu varðandi leyfisveitendur er að hún þykir heppilegust með tilliti til þeirra sem notfæra sér þjónustuna. Í dag fara lögreglustjórar með veitingu tveggja af þeim þremur leyfum sem stendur til að sameina í rekstrarleyfi. Við gildistöku laga nr. 46/2006 var lögregluumdæmum fækkað úr 26 í 15 og nú annast sýslumenn í 11 umdæmum af 25 ekki lengur stjórn lögreglu. Þykir rétt, til að halda sem bestri þjónustu við borgarana, að kveða á um að útgáfa leyfanna verði áfram í þeim 25 stjórnsýsluumdæmum sem nú eru til staðar á landinu. Hjá lögreglustjóranum í Reykjavík (nú lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu) er starfrækt sérstök leyfadeild sem hefur séð um útgáfu umræddra leyfa. Þar hefur verið komið upp sérþekkingu og verklagi við útgáfu leyfa sem óæskilegt væri að hrófla við. Því er lagt til að leyfisútgáfa verði áfram þar vegna rekstrarleyfa sem gefin eru út í Reykjavík. Eðli þeirra leyfa sem gefin eru út í dag og eru grundvöllur rekstrarleyfis er slíkt að lítið sem ekkert mat er hjá leyfisveitanda um útgáfu þess. Matið fer að mestu leyti fram hjá umsagnaraðilum. Með því að bæta lögreglustjórum við sem umsagnaraðilum, þar sem það á við, er tryggt að sýslumenn, sem ekki fara jafnframt með stjórn lögreglu, verði í stakk búnir til að gefa út slík leyfi.
    Eitt þeirra leyfa sem lagt er til að renni inn í hið nýja rekstrarleyfi er áfengisveitingaleyfi sem gefið er út af sveitarstjórnum í dag. Leyfi þessi voru þó gefin út af lögreglustjórum í tíð eldri laga en voru flutt til sveitarstjórna með setningu áfengislaga, nr. 75/1998. Ástæða þess að leyfin voru á þeim tíma flutt frá lögreglu til sveitarfélaga átti m.a. rætur að rekja til þess að sveitarfélögin vildu hafa hönd í bagga með hvar veitinga- og gististaðir væru staðsettir og hver afgreiðslutími þeirra væri.
    Eins og reynslan hefur leitt í ljós hefur þessi breyting haft þann ókost í för með sér að flækja umsóknarferlið til muna. Með því að færa leyfisveitingarnar aftur til lögreglu og sýslumanna verður um einföldun á umsóknarferlinu að ræða. Í frumvarpinu er kveðið á um að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn því. Þar sem sveitarstjórnum er m.a. ætlað að gefa umsögn varðandi staðsetningu og afgreiðslutíma er því markmiði náð sem að var stefnt á sínum tíma. Þá verður ekki heldur horft framhjá því að lögregla hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við eftirlit með veitingastöðum og því æskilegt að leyfisveitingar séu á þeirri hendi sem fer með lögreglustjórn í sem flestum tilvikum.
    Ekki eru gerðar breytingar á því að umsagnaraðilar þurfa eftir sem áður að skoða viðkomandi staði sem ætlaðir eru fyrir reksturinn og gera þær úttektir sem nauðsynlegar eru. Verður það gert í samráði við umsækjendur eins og nú er. Umsagnaraðilar eru þeir sömu og áður enda ekki tilgangur með þessari einföldun leyfisveitinga að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til staða og leyfishafa. Áfram þurfa t.d. eldvarnir og vinnuverndarmálefni að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í viðkomandi lögum.
    Til að einfalda enn frekar umsóknarferlið er gert er ráð fyrir að það geti verið rafrænt. Þá er einnig gert ráð fyrir því að umsækjandi geti gefið leyfisveitanda heimild til að afla nauðsynlegra vottorða og gagna rafrænt. Umsóknarferlið allt og gagnaöflun er með þessu einfaldað verulega hvað umsækjanda varðar þar sem hann þarf einungis að skila umsókn um rekstrarleyfi á einn stað og getur auk þess sparað sér sporin við útvegun vottorða og gagna á mismunandi stöðum. Einföldun ferlisins byggist þó fyrst og fremst á því að vel sé frá umsóknum gengið og allar nauðsynlegar upplýsingar komi þar fram.
    Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að tryggingar vegna áfengisleyfa verði felldar niður. Í gildandi áfengislögum er þeim sem fær leyfi til áfengisveitinga gert að setja tryggingu fyrir greiðslu krafna á hendur honum, ef til gjaldþrots kemur. Trygging þessi er í formi bankaábyrgðar eða annarrar sambærilegrar tryggingar og er stighækkandi eftir leyfilegum fjölda gesta frá 500.000 kr. til 3.000.000 kr. Tryggingarfé er ráðstafað til þrotabúsins, komi til gjaldþrots leyfishafans.
    Trygging þessi hefur verið gagnrýnd og þá einkum vegna þess að enginn annar atvinnurekstur býr við sams konar tryggingarskyldu nema um neytendavernd sé að ræða. Í þeim tilfellum er trygging sett í því skyni að neytendur verði ekki fyrir tjóni og geti fengið endurgreitt framlagt fé eins og t.d. tryggingar ferðaskrifstofa vegna alferða. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða heldur rennur tryggingarféð til þrotabúsins og kemur til greiðslu krafna eftir því sem þeim er skipað í skuldaröð.
    Í stað tryggingarskyldunnar er í 4. gr. frumvarpsins gert að ófrávíkjanlegu skilyrði rekstrarleyfis að umsækjandi, eða forsvarsmaður ef umsækjandi er lögaðili, skuldi ekki tiltekin opinber gjöld og að viðkomandi hafi ekki gerst sekur um háttsemi er varðar við nánar tiltekin lög. Afnám tryggingarskyldunnar grundvallast jafnframt á því að ástæðulaust þykir að þessari atvinnugrein sé íþyngt með slíkri tryggingarskyldu umfram aðrar atvinnugreinar þegar ekki er um neytendavernd að ræða.
    Ekki er lagt til að tekið verði upp í frumvarpið ákvæði er heimilar ráðherra að kveða á um menntun starfsfólks veitinga- og gististaða en slíkt ákvæði er í gildandi lögum um veitinga- og gististaði. Reglugerðarheimild þessi hefur ekki verið nýtt og þykir menntun starfsfólks sem starfar við þá starfsemi sem frumvarp þetta tekur til nægilega fyrirkomið hjá menntastofnunum landsins auk þess sem slík málefni eiga undir menntamálaráðuneytið. Hins vegar er kveðið á um í 6. gr. frumvarpsins að hægt sé að kveða á um í reglugerð að dyraverðir sæki sérstök námskeið.
    Þá er í frumvarpi þessu lagt til að fellt verði út ákvæði 4. og 5. mgr. 2. gr. laga nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði, um að heiti á starfsemi skuli falla að hljóðkerfi og beygingum í íslensku máli og hvernig fari um ágreining sem kunni að rísa vegna þess. Ekki er að sjá, á þeim heitum sem íslenskir veitingastaðir bera í dag, að ákvæði þessa hafi verið gætt og því ekki óeðlilegt að fella það úr gildi.
    Eins og fram hefur komið er lagt til að skemmtanaleyfi í núverandi mynd verði lagt niður, með sameiningu veitinga-, áfengisveitinga- og skemmtanaleyfis í eitt rekstrarleyfi. Staðir sem hafa rekstrarleyfi þurfa því ekki lengur sérstakt skemmtanaleyfi. Frumvarpinu er hins vegar ekki ætlað að breyta því að áfram þarf leyfi fyrir einstakar skemmtanir, atburði, útihátíðir og aðrar uppákomur sem fara fram utan hefðbundinna veitingastaða og fara fram í atvinnuskyni. Engin sérstök ákvæði eru í gildandi lögum um slík leyfi en lög nr. 120/1947 hafa verið talin lagastoð fyrir reglugerð sem um slík leyfi fjallar. Lagastoð þessi hefur verið talin ótraust og hefur ítrekað sætt athugasemdum umboðsmanns Alþingis. Í frumvarpinu er farin sú leið að setja ákvæði um sérstakt tækifærisleyfi sem nær til þessara leyfa og fela lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og sýslumönnum úti á landi útgáfu þess.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að hægt sé að fá tímabundin áfengisveitingaleyfi vegna slíkra veitinga í einstökum tilvikum, í atvinnuskyni og er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um útgáfu þeirra og um útgáfu tækifærisleyfa eftir því sem við á.
    Þar sem sýslumönnum, að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans, verður falið að annast útgáfu leyfa til áfengisveitinga í stað sveitarstjórna, er eðlilegt að gjald sem greiða skal til sveitarstjórnar vegna útgáfu leyfis til áfengisveitinga skv. 5. mgr. 14. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, falli brott. Þess í stað verður kveðið á um gjaldtöku vegna útgáfu leyfa í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Eins og fram hefur komið er aðalmarkmið laganna einföldun leyfisveitinga. Við þá einföldun er gert ráð fyrir að V. kafli áfengislaga er varðar veitingar áfengis verði felldur niður og hann tekinn upp í frumvarpið í breyttri mynd. Þá er einnig gert ráð fyrir að VIII. kafli áfengislaga um úrskurðarnefnd áfengismála falli niður þar sem ekki verður þörf fyrir slíka nefnd. Lagt er til að VI. kafli áfengislaga um meðferð og neyslu áfengis verði áfram staðsettur í áfengislögum enda er þar að mestu leyti kveðið á um stefnumótun er varðar meðferð og neyslu áfengis. Einungis eitt ákvæði kaflans er flutt yfir í frumvarp þetta og fjallar það um dvöl ungmenna á skemmtistöðum jafnframt sem því er breytt lítillega. Þá er jafnframt kveðið á um í frumvarpinu að brot á meðferð og neyslu áfengis varði við áfengislög.
    Loks ber að geta þess að samfara breytingum á áfengislögum vegna einföldunar á útgáfu leyfa til rekstur veitinga- og gististaða eru einnig í frumvarpinu tillögur að breytingum á sömu lögum vegna nýskipunar lögreglumála. Er hér um að ræða tilfærslu á útgáfu leyfa til framleiðslu, innflutnings og heildsölu á áfengi. Ríkislögreglustjóri hefur farið með slíkar leyfisveitingar en lagt er til í frumvarpinu að þær færist til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í kafla þessum er að finna ákvæði um yfirstjórn mála samkvæmt frumvarpinu, gildissvið þess og flokkun á veitinga- og gististöðum. Auk þess er nýmæli að kveðið er á um markmið frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Sú breyting er lögð til að yfirstjórn málaflokksins færist til dómsmálaráðherra. Þykir það eðlilegt þar sem leyfisveitingar vegna starfsemi sem undir frumvarpið fellur eru hjá lögreglustjórum og sýslumönnum sem eru undir yfirstjórn dómsmálaráðuneytisins.
    Hér er einnig kveðið á um gildissvið frumvarpsins en það tekur til sölu á hvers kyns gistingu og sölu og veitingu hvers kyns veitinga.
    Gildissvið frumvarpsins er að því leyti sama og gildandi laga um veitinga- og gististaði að það tekur til sölu á allri gistingu til gesta og gangandi, hvort heldur er á almennum gististöðum eða einkaheimilum. Ekki eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á því hvers konar gististaðir falli hér undir og eru t.d. áfram tjaldsvæði og orlofshús félagasamtaka undanskilin. Nánar er gerð grein fyrir þeim gististöðum sem undir frumvarpið falla í 3. gr. og athugasemdum við hana.
    Einnig tekur frumvarpið til hvers kyns veitinga, bæði í mat og drykk og falla þar undir bæði áfengir og óáfengir drykkir. Hvers konar veiting eða sala á áfengi í atvinnuskyni fellur undir leyfisskylda starfsemi samkvæmt frumvarpinu og er hér ekki um að ræða breytingu frá gildandi áfengislögum. Nýmæli er hins vegar að leyfi til sölu og veitingar áfengis fellur undir frumvarpið í stað þess að um það sé fjallað í áfengislögum.
    Nýmæli er að skemmtanaleyfi er ekki lengur til í sama formi og í gildandi lögum enda ekki talin ástæða til að veitingastaðir sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins þurfi jafnframt að hafa sérstakt skemmtanaleyfi. Um þetta vísast nánar til þess sem kemur fram um rekstrarleyfi í almennum athugasemdum við frumvarpið.
    Má segja að frumvarpið taki til hvers kyns veitingar og sölu veitinga, í atvinnuskyni sem almenningur á aðgang að, bæði í mat og drykk hvort sem þeir eru áfengir eða óáfengir.
    Í þessu felst að útleiga á samkomusölum og öðru slíku húsnæði í atvinnuskyni, til hvers kyns samkomuhalds, hvort sem eru opinberar eða einkasamkomur og hvort sem er með veitingum, í mat og/eða drykk eða án veitinga, fellur undir frumvarpið. Samkvæmt frumvarpinu er slíkt húsnæði leyfisskylt og háð ákveðnum skilyrðum, t.d. um hversu lengi samkoma má standa. Miðast þetta við að útleigan sé í atvinnuskyni og að einhvers konar endurgjald komi fyrir afnotin. Allt samkomuhald á slíkum stöðum fer því fram í skjóli rekstrarleyfis staðarins og þarf sá sem salinn leigir því ekki að huga að því að afla sér tímabundins leyfis fyrir samkomuna, eigi það við. Frumvarpið tekur einnig til svokallaðra tækifærisleyfa vegna skemmtanahalds og er með því átt við einstaka viðburði en um nánari skýringar vísast til athugasemda við 17. gr. frumvarpsins.
    Leyfi til veitinga um borð í skipum fellur undir frumvarpið og er óbreytt frá gildandi lögum. Miðað er við að leyfið taki til skipa í skipulögðum hópferðum og í einstökum hópferðum af sérstöku tilefni innan landhelgi Íslands eins og samkvæmt gildandi lögum.
    Rétt þykir að árétta á áfengislög gilda að sjálfsögðu áfram um neyslu og veitingu áfengis þar sem frumvarpinu sleppir.

Um 2. gr.

    Í ákvæði þessu er leitast við að setja fram þau markmið sem ætlunin er að ná fram með frumvarpinu. Er þar helst að um starfsemina sem undir frumvarpið fellur gildi samræmd löggjöf sem sé skýr öllum þeim sem hún varðar og starfsemin falli að því skipulagi sem fyrir hendi er á hverjum stað.

Um 3. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um þá gistingu sem er leyfisskyld samkvæmt frumvarpinu og flokkun þeirra gististaða sem frumvarpið gerir ráð fyrir að leyfi þurfi til að reka.
    Öll gisting sem boðin er til sölu á gististöðum eða sem heimagisting, gegn hvers kyns endurgjaldi, fellur undir frumvarpið og er þar með leyfisskyld. Endurgjaldið afmarkast ekki við að greitt sé með peningum heldur getur annars konar greiðslueyrir fallið þar undir. Með gistingu er átt við hvers kyns gistingu, hvort sem er í sérstöku húsnæði sem hannað er til slíkrar starfsemi svo sem hótel, gistiheimili og gistiskálar eða á einkaheimilum sem afmarkast við lögheimili leyfishafa eins og það er skilgreint í lögum. Jafnframt fellur hér undir útleiga íbúða, sumarhúsa og annars konar húsnæðis þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi. Efnislega er hér ekki um breytingar að ræða frá gildandi lögum á því hvaða gisting er leyfisskyld heldur varða breytingar fyrst og fremst það hvernig gististaðir eru flokkaðir í frumvarpinu.
    Flokkun gististaða í frumvarpinu tekur mið af því hvort veitingar eru jafnframt á boðstólum á viðkomandi gististað en flokkun þessi er veruleg einföldum frá gildandi lögum. Ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvernig búnaður hinna mismunandi gististaða skal vera heldur er gert ráð fyrir að það verði gert í reglugerð. Verður að telja að það sé til einföldunar enda þarf að vera hægt að aðlaga slíkt að kröfum hverju sinni, með skjótum hætti.
    Ástæða þykir að gera sérstaklega greinarmun á gististöðum og heimagistingu en ekki er gert ráð fyrir að leyfi til veitinga sé jafnframt innifalið í leyfi fyrir heimagistingu.
    Gististöðum er í frumvarpinu skipt í fimm flokka. Flokkur I er heimagisting og eins og áður sagði er ekki gert ráð fyrir að leyfi til veitinga sé þar innifalið. Flokkur II eru gististaðir þar sem ekki er boðið upp á veitingar og má sem dæmi nefna gistiskála og mundi leiga á sumarhúsum og íbúðum væntanlega falla hér undir þar sem slíkt er almennt án veitinga. Flokkur III eru gististaðir þar sem boðið er upp á aðrar veitingar en áfengisveitingar og gætu hér undir t.d. fallið gistiheimili sem bjóða morgunverð. Flokkur IV og flokkur V eru síðan gististaðir þar sem boðið er áfengi, auk annarra veitinga. Greint er á milli þeirra sem einungis hafa minibar og þeirra sem hafa bar og/eða veitingaaðstöðu þar sem áfengi er veitt og mundi t.d. hótel falla þar undir.
    Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um flokkun gististaða, tegundir þeirra og búnað í reglugerð, eins og samkvæmt gildandi lögum.

Um 4. gr.

    Hvers konar veitingastarfsemi fellur undir frumvarpið og er að því leyti ekki um breytingu frá gildandi lögum að ræða.
    Veitingastaðir samkvæmt frumvarpinu eru í fyrsta lagi allir staðir þar sem framreiddur er matur og/eða drykkir og boðnir viðskiptavinum gegn gjaldi og falla hér undir allir þeir staðir sem í daglegu tali kallast veitingahús og bjóða einhvers konar veitingar. Hér er miðað við að aðstaða sé á staðnum til að neyta veitinganna og mundu því t.d. bakarí og söluturnar sem hafa slíka aðstöðu (borð og stóla fyrir viðskiptavini) falla undir lögin. Einnig eiga hér undir þeir staðir sem bjóða skemmtanahald svo sem eins og tónlist og dans enda viðbúið að þar séu a.m.k. boðnar drykkjarveitingar.
    Í öðru lagi falla undir frumvarpið þeir staðir sem bjóða veitingar þótt ekki séu til neyslu á staðnum og er með því fyrst og fremst átt við hvers konar veislu- og veitingaþjónustu og svokallaða heimsendingarstaði (take away). Hér er miðað við að þessi starfsemi sé meginstarfsemi viðkomandi staðar og mundu því verslanir sem selja tilbúinn mat ekki falla þar undir.
    Með frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á flokkun veitingastaða og tekin upp ný viðmið er það varðar. Er um einföldun að ræða og tekið mið af þeirri starfsemi sem raunverulega fer fram á einstakra stöðum. Hér er frekar horft til þarfa á eftirliti og áhrifa starfsemi á umhverfi, svo sem vegna afgreiðslutíma, hávaða og áfengisveitinga, í stað þess að binda leyfin við úrval veitinga.
    Flokkur I tekur yfir alla þá veitingastaði sem bjóða ekki áfengisveitingar og skiptir þá ekki máli hvaða aðrar veitingar eru þar á boðstólum.
    Þeim stöðum sem bjóða áfengisveitingar er skipt í umfangslitla og umfangsmikla staði. Sú skipting tekur fyrst og fremst mið af þeim áhrifum sem viðkomandi staður getur haft á umhverfi sitt enda augljóst að langur afgreiðslutími og hávær tónlist kalla á allt aðrar kröfur, svo sem um staðsetningu og eftirlit, en þeir staðir þar sem slíkt á ekki við.
    Flokkur II eru umfangslitlir áfengisveitingastaðir sem ekki hafa lengri afgreiðslutíma en til kl. 23. Má gera ráð fyrir vegna hins takmarkaða afgreiðslutíma séu áhrif á umhverfi hverfandi og lítil þörf á sérstöku eftirliti eða löggæslu.
    Flokkur III eru síðan umfangsmiklir áfengisveitingastaðir en þar undir falla t.d. þeir staðir sem í daglegu tali kallast skemmtistaðir. Á þessum stöðum getur afgreiðslutími verið langur og þar leikin hávær tónlist. Slíkir staðir hafa almennt mikil áhrif á umhverfið og er meiri þörf á eftirliti og/eða löggæslu við slíka staði og mikilvægt að þeir séu staðsettir þar sem skipulag gerir ráð fyrir þeim.
    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir flokki veitingastaða sem kallast „næturklúbbar“ þar sem heimilt er að fram fari nektardans. Þar sem flokkun frumvarpsins byggist á öðrum sjónarmiðum en í gildandi lögum er kveðið á um það í 4. mgr. að heimila megi slíkan dans á veitingastöðum í stað þess að slíkt falli undir ákveðinn flokk. Ekki eru gerðar efnislegar breytingar á þeirri heimild sem er í gildandi lögum fyrir slíku en rétt þykir til áréttingar að taka fram að einkadans sé bannaður og sýnendum sé óheimilt að fara um meðal áhorfenda en samsvarandi ákvæði er í lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar og eru þeir „næturklúbbar“ sem eru starfandi dag bundnir af því. Hér er því ekki verið að leggja til neinar breytingar frá gildandi lögum hvað þetta varðar.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um almenn ákvæði er gilda um veitingastaði. Hér er einkum um að ræða ákvæði um dvöl ungmenna á veitingahúsum og skyldu til dyravörslu. Í VI. kafla gildandi áfengislaga eru ákvæði sem gilda um veitingu og meðferð áfengis á veitingastöðum Þykir viðeigandi að þau standi áfram í áfengislögum þar sem um er að ræða ákveðna heildarstefnumótun er varðar meðferð og neyslu áfengis. Hins vegar þótti eðlilegt að ákvæði um dvöl ungmenna á veitingastöðum sem varðar ekki sérstaklega veitingu áfengis yrði staðsett í sérlögum sem gilda um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Því er lagt til að 2. mgr. 18. gr. áfengislaga verði tekin upp í frumvarpinu og falli jafnframt út úr áfengislögum.

Um 5. gr.

    Ákvæðið kveður á um heimila dvöl ungmenna á veitingastað sem hefur leyfi til sölu og veitingu áfengisveitinga. Ákvæðið er að grunni til sambærilegt og 2. mgr. 18. gr. áfengislaga. Hins vegar er lagt til að það tímamark sem miðað er við að ungmenni geti dvalist á veitingastað verði rýmkað nokkuð og einnig í fylgd hverra ungmenni getur dvalið á veitingastað eftir tímamark.
    Í gildandi áfengislögum er miðað við að ungmenni yngri en 18 ára geti dvalið á veitingastað sem býður upp á áfengisveitingar til kl. 20. Bent hefur verið á að reglan sé óþarflega ströng og að erfitt geti verið að framfylgja henni. Eigi þetta sérstaklega við um skyndibitastaði sem selji bjór og léttvín.
    Samkvæmt lögunum hefur 18 ára unglingur ekki heimild til að dvelja á slíkum stað eftir kl. 20 að kvöldi en engin takmörk eru á útivistartíma sama ungmennis samkvæmt barnaverndarlögum. Ungmenni sem eru orðin 18 ára eru á framhaldsskólaaldri og fylgja skólastarfi ýmsar hefðir svo sem árshátíðir, nemendamót o.fl. þar sem í mörgum tilfellum er farið út að borða á veitingastöðum þar sem áfengisveitingar eru seldar. Þá þykir það tímamark sem miðað er við í gildandi lögum einnig of knappt í ljósi þess að kvöldverðarvenjur Íslendinga hafa breyst. Eðlilegt þykir að miða við tímamarkið kl. 22 og er það lagt til í frumvarpinu. Lögð er áhersla á að ábyrgð hvílir á veitingamönnum að selja ekki, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára, sbr. 1. mgr. 18. gr. áfengislaga. Getur brot á slíku banni varðað sektum eða fangelsi allt að 6 árum samkvæmt þeim lögum.
    Í dag er ungmennum yngri en 18 ára heimil dvöl á veitingastað, eftir tímamark, ef þau eru í fylgd annað hvort foreldra eða maka. Rétt þykir að víkka þetta út og láta jafnframt ná til annarra forráðamanna og ættingja, svo framarlega sem viðkomandi er yfir 18 ára aldri. Ástæða þess er að forráðamenn geta verið aðrir en foreldrar og einnig þykir rétt að aðrir ættingjar, svo sem afi og amma, geti boðið barnabörnum út að borða, án þess að vera bundin við það að þurfa að yfirgefa veitingahúsið kl. 22.
    Regla um heimilan dvalartíma ungmenna á veitingastað sem selur áfengar veitingar er sérstaklega mikilvæg þegar um ræðir veitingastaði sem breytast í skemmtistaði eftir að borðhaldi lýkur, þ.e. staði þar sem megináhersla er lögð á sölu og veitingu áfengis. Í þeim tilvikum er mikilvægt að ungmenni séu ekki inni á viðkomandi veitingastöðum lengur en til kl. 22 nema í fylgd þeirra sem heimilt er. Hins vegar er gert ráð fyrir að hægt sé að veita undanþágu frá þessu og er þá fyrst og fremst verið að líta til skóladansleikja framhaldsskóla sem gjarnan eru haldnir á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Í þeim tilvikum verður ungmennum yngri en 18. ára heimil dvöl á slíkum stað, enda fari þá engar áfengisveitingar fram og afgreiðslutími viðkomandi veitingastaðar sé í öllum tilvikum í samræmi við rekstrarleyfi staðarins
    Hvað varðar aðra staði, svo sem skyndibitastaði, þykir ekki ástæða til að miða við svo ströng tímamörk og er því lagt til í ákvæðinu að undanþágu megi gera varðandi ákveðnar tegundir veitingastaða.

Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um skyldu til að hafa dyravörslu og helgast sú skylda af þeirri starfsemi sem um er að ræða og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að leyfisveitandi geti kveðið á um slíka skyldu við útgáfu rekstrarleyfis. Dyravarsla er mjög mikilvæg þegar kemur að eftirliti með því sem fram fer á veitingastöðum og mikilvægt að gott samstarf sé á milli dyravarða og lögreglu. Því er mikilvægt að kveðið sé á um heimild til námskeiðahalds fyrir dyraverði þar sem farið yrði yfir ýmis atriði sem á reynir í starfi þeirra. Einnig er nauðsynlegt að leyfisveitandi geti gert dyravörslu að skilyrði rekstrarleyfis og að hluti dyravarða hafi lokið námskeiði.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þetta í reglugerð enda um að ræða atriði sem markast mjög af tíðaranda og þörf á hverjum tíma og þykja því frekar eiga heima í reglugerð en í lagatexta. Núverandi reglur um dyravörslu er að finna í reglugerð nr. 587/ 1987 en lagastoð þeirrar reglugerðar hefur þótt nokkuð ótraust. Er ákvæði þessu m.a. ætlað að bæta úr því.

Um III. kafla.

    Kaflinn fjallar um leyfi fyrir starfsemi sem undir lögin fellur.

Um 7. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um hverjir fari með leyfisveitingar samkvæmt frumvarpinu og eru það sýslumenn að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans. Vísast um þetta til umfjöllunar í almennum athugasemdum í frumvarpinu.
    Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að sú starfsemi sem undir frumvarpið fellur sé leyfisskyld og að sérstakt rekstrarleyfi þurfi til að stunda hana og að leyfisbréf skuli vera sýnilegt fyrir viðskiptavini.
    Rekstrarleyfið tekur yfir þá starfsemi sem viðkomandi ætlar að stunda, hvort sem er í formi gististaðar með eða án veitinga, veitingastaðar með mat og drykk, kaffihúss, skemmtistaðar, dansstaðar, krárar, útleigu samkomusalar með eða án veitinga eða á annan hátt og er ekki gerður greinarmunur á leyfunum hvað þetta varðar. Einungis er um eitt leyfi að ræða og kemur þar fram fyrir hvaða starfsemi það gildir.
    Hér er um verulega breytingu að ræða frá gildandi lögum þar sem ekki er gert ráð fyrir sérstöku áfengisveitingaleyfi heldur verður það innifalið í rekstrarleyfinu. Þá er skemmtanaleyfið í þeirri mynd sem það er nú ekki lengur til staðar. Leyfi sem tekur til einstakra atburða eða skemmtana verður þó áfram nauðsynlegt og er fjallað um það sérstaklega í 17. gr. frumvarpsins sem tækifærisleyfi.
    Önnur leyfi sem nauðsynleg eru til reksturs veitingastaðar þ.e. byggingarleyfi og starfsleyfi rúmast ekki innan rekstrarleyfis en gert er ráð fyrir að umsóknarferli vegna þeirra leyfa verði auðveldað og er sérstaklega vikið að því í 10. gr. frumvarpsins.
    Tóbakssöluleyfi er heldur ekki hluti af rekstrarleyfi en það leyfi er gefið út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga og verður svo áfram.

Um 8. gr.

    Hér er fjallað um skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að fá rekstrarleyfi og er um nokkrar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Helsta breytingin felst í því að einungis er um eina umsókn að ræða vegna rekstrarleyfis og hafa skilyrði sem áður voru sett fyrir hverju leyfi verið sameinuð og eru nú þau sömu hvort sem sótt er um leyfi til reksturs veitingastaðar eða gististaðar eða veitingu og sölu áfengis.
    Þau skilyrði rekstrarleyfis sem kveðið er á um í frumvarpinu eiga við um umsækjanda, hvort sem hann er einstaklingur eða lögaðili, en í þeim tilvikum sem umsækjandi er lögaðili þarf forsvarsmaður lögaðilans að uppfylla skilyrðin sem snúa að persónu. Ekki er tekin upp í frumvarpið sú framkvæmd sem hefur tíðkast að afla vottorða fyrir alla stjórnarmenn fyrirtækis með ótakmarkaða ábyrgð, svo sem sakarvottorðs, búsetuvottorðs, búsforræðisvottorðs og vottorðs um skuldastöðu, heldur er látið nægja að afla þurfi þeirra eingöngu vegna forsvarsmanns félagsins.
    Fallið er frá skilyrði um lögheimili hér á landi enda samræmist það illa innri markaði Evrópu. Því er lagt til að einungis verði gerð krafa um búsetu leyfishafa eða forsvarsmanns. Sú breyting er gerð að krafist er lögræðis en áður hafði einungis verði krafist fjárræðis. Þykir eðlilegt að umsækjandi sýni jafnframt fram á að hann hafi sjálfræði. Einnig er sú breyting gerð að umsækjandi verður að vera 20 ára og er það í samræmi við ákvæði áfengislaga og þá reglu að ungmennum yngri en 20 ára er óheimilt að hafa áfengi með höndum og áfram er krafist búsforræðis. Nýmæli er að umsækjandi hafi tilkynnt um atvinnurekstur til skattstjóra og er þá aðallega átt við að viðkomandi hafi fengið virðisaukaskattsnúmer og nauðsynlegar tilkynningar vegna staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds hafi farið fram. Rétt þykir að setja þetta sem skilyrði fyrir rekstrarleyfi og er ekki talið að um íþyngjandi atriði sé að ræða þar sem þau eru nauðsynlegt skilyrði til að viðkomandi geti stundað atvinnurekstur og til þess fallin að draga úr „svartri atvinnustarfsemi“.
    Einnig er skilyrði fyrir rekstrarleyfi að umsækjandi hafi ekki á síðustu fimm árum gerst brotlegur við tiltekin lög er varða atvinnurekstur og er hér um hertar kröfur að ræða að því leyti að í gildandi lögum er einungis um heimildarákvæði að ræða. Þá er jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi skuldi ekki tiltekin gjöld en í gildandi áfengislögum og lögum um veitinga- og gististaði er heimilt að setja slíkt skilyrði. Ástæða þess að lagt er til að slíkt skilyrði verði ófrávíkjanlegt kemur til m.a. vegna tillögu frumvarpsins um að afnema tryggingagjald sem nú er skylt að leggja fram vegna áfengisleyfis. Rétt þykir að gæta mótvægis og herða á slíku skilyrði þegar slakað er á skyldum með afnámi tryggingar en um það vísast til almennra athugasemda með frumvarpinu. Eðlilegt þykir einnig að umsækjandi hafi ekki verið sviptur leyfi til samskonar reksturs og umsókn lýtur að, á tilteknum tíma fyrir umsókn. Gert er ráð fyrir reglugerðarheimild til nánari útfærslu á skilyrðum og gagnaöflun.

Um 9. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um leyfisumsóknina og hverjir geti sótt um. Tekið er fram að umsækjandi geti verið hvort sem er einstaklingur eða lögaðili en þá þarf að tilgreina aðila sem ber persónulega ábyrgð á rekstrinum.
    Leyfi til veitinga um borð í skipum er áfram óbreytt frá gildandi lögum.
    Gert er ráð fyrir að hægt verði að sækja um rafrænt og nýmæli er að umsækjandi geti falið leyfisveitanda að afla gagna sem fylgja þurfa umsókn og til eru á rafrænu formi. Slíkt fyrirkomulag er liður í að einfalda umsóknarferlið fyrir umsækjendur en í stað þess að umsækjandinn fari á marga mismunandi staði og afli þeirra gagna sem krafist er getur leyfisveitandi kallað eftir þeim rafrænt.
    Í ákvæðinu er kveðið nánar á um hvað skuli koma fram í umsókn og er gert ráð fyrir að þar séu allar upplýsingar um fyrirhugaðan rekstur og þær dugi til að hægt sé að koma umsóknarferlinu af stað. Heimilt er svo að kveða nánar á um í reglugerð hvað skuli koma fram í umsókn og hvernig hún skuli útfærð.

Um 10. gr.

    Í ákvæði þessu er kveðið á um umsóknarferlið og er um breytingar frá gildandi lögum að ræða. Áfram er gert ráð fyrir að starfsleyfi heilbrigðisnefndar þurfi fyrir starfseminni en nýmæli er að liggi slíkt leyfi ekki fyrir geti umsækjandi nálgast umsóknareyðublað hjá leyfisveitanda og gengið frá umsókn þar, samhliða umsókn um rekstrarleyfið. Leyfisveitandi getur þannig tekið við umsókn um starfsleyfi og sér þá um að áframsenda hana til heilbrigðisnefndar á svæðinu. Þetta breytir því að sjálfsögðu ekki að áfram verður hægt að sækja um starfsleyfið beint til viðkomandi heilbrigðisnefndar.
    Áfram er gert ráð fyrir að leyfisveitandi afli umsagna tiltekinna aðila áður en rekstrarleyfi er veitt og er það í samræmi við gildandi lög. Gert er ráð fyrir að leyfisveitandi sendi umsókn til umsagnaraðila þótt starfsleyfi liggi ekki fyrir og er það til að koma sem mest í veg fyrir tafir á afgreiðslu en rekstrarleyfið verður ekki gefið út fyrr en starfsleyfið liggur fyrir.
    Þótt umsagnir hafi ekki verið bindandi hefur framkvæmdin í raun verið sú að ávallt er farið eftir þeim. Því er lagt til í frumvarpinu að óheimilt verði að gefa út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn því og eru umsagnir þar með gerðar bindandi. Jafnframt er nauðsynlegt að umsagnir séu vel unnar og er því kveðið á um að umsagnir skuli vera skýrar og rökstuddar og umsagnaraðilum þannig gert að gera grein fyrir og færa rök fyrir því ef þeir leggjast gegn útgáfu rekstrarleyfis.
    Hér er rétt að taka fram að þótt umsagnaraðili geti ekki fallist á umsókn að öllu leyti þarf það ekki að þýða að hann leggist gegn leyfisveitingu. Sem dæmi má nefna að sótt er um að fá að hafa opið til kl. 3 eftir miðnætti en sveitarstjórn fellst ekki á það, t.d. vegna skipulags, heldur leggur til að opnunartími verði til kl. 1 eftir miðnætti. Hér er ekki lagst gegn leyfisveitingu heldur sett skilyrði.
    Mikilvægt að þær reglur séu samræmdar fyrir landið í heild og er því lagt til að kveða megi á um útgáfu leiðbeininga fyrir umsagnaraðila í reglugerð.
    Annars er ekki gert ráð fyrir breytingum hvað varða umsagnir og þær úttektir sem þarf að gera þarf á húsnæði vegna leyfisveitinga. Þykir rétt að það helsta sem umsagnaraðilar skulu gefa umsagnir komi fram í frumvarpinu en ekki er um tæmandi talningu að ræða.
    Umsagnaraðilar eru þeir sömu og samkvæmt gildandi lögum að því frátöldu að lögreglustjórum hefur verið bætt við sem umsagnaraðilum. Þetta á sér skýringu í því að í þeim tilfellum sem leyfisveitendur eru sýslumenn sem fara ekki jafnframt með lögreglustjórn er nauðsynlegt að lögregla veiti umsögn um þau atriði sem hún er bær um að meta. Í þeim tilvikum sem sýslumenn fara með lögreglustjórn og í tilviki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er eðli máls samkvæmt ekki þörf á að leita umsagnar lögreglu.
    Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði settar reglur um hvernig umsagnir skulu úr garði gerðar úr hendi umsagnaraðila og tímafrestir sem þeir hafa til skila á umsögnum, um umsóknarferlið og hvað skuli leita umsagna um.

Um 11. gr.

    Ákvæði þetta hefur að geyma ýmis almenn atriði um rekstrarleyfið sjálft. Er þar kveðið á um tímalengd þess sem er fjögur ár í senn. Einnig er gert ráð fyrir að hægt sé að sækja um styttra rekstrarleyfi en þó ekki styttra en til eins árs í senn. Þykir eðlilegt að svo sé, t.d. ef fyrirsjáanlegt er að reksturinn muni vara tiltekinn tíma eða ef ljóst er að staðsetning þarf að breytast. Rekstrarleyfi er jafnframt takmarkað við tiltekinn leyfishafa og tilgreinda starfsemi. Áfram er gert ráð fyrir að rekstrarleyfið sé óframseljanlegt.
    Í rekstrarleyfi skulu jafnframt koma fram skilyrði leyfis, svo sem hámarksgestafjöldi, heimill afgreiðslutími, skylda til að hafa dyravörslu, sem og annað sem varðar aðbúnað og starfsemina eins og hávaði, umgengni, öryggi og þrifnað, einnig hvort heimild er til útiveitinga og annað sem getur skipt máli. Skilyrði þessi grundvallast á því um hvaða starfsemi er að ræða enda er t.d. mjög mismunandi hvort þörf er á dyravörslu eða sérstökum skilyrðum vegna umgengni og hávaða.
    Við setningu skilyrða skal áfram miða við gildandi reglur lögreglunnar um löggæslu og slit á skemmtunum, nú samkvæmt reglugerð nr. 587/1987, auk lögreglusamþykkta sveitarfélaga. Einnig þykir rétt að sömu reglur um skyldu til dyravörslu og löggæslu gildi áfram þegar afgreiðslutíminn er langur. Leyfisveitendur taka því áfram mið af gildandi reglum þegar sótt er um rekstrarleyfi fyrir lengri afgreiðslutíma og skilyrðisbinda rekstrarleyfið til samræmis. Einnig má gera ráð fyrir að umsagnir sveitarfélaga fjalli um þetta og þá í samræmi við lögreglusamþykktir á hverjum stað sem kveða á um heimilan afgreiðslutíma veitingastaða.
    Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að í kjölfarið verði farið yfir allar þær reglur sem um þetta gilda í því skyni að bæta úr því sem ástæða þykir til.
    Gert er ráð fyrir að heimilt verði að haga gjaldtöku vegna rekstrarleyfa eftir því um hvaða starfsemi er að ræða og mismunandi gjald verði greitt fyrir mismunandi flokka, t.d. eftir því hvort áfengi er veitt. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 29. gr.
    Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að samhliða verði sett ný reglugerð sem m.a. kemur í stað reglugerðar nr. 587/1987 og kveður á um mismunandi kröfur til staða og skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi og það sem þar skal koma fram.

Um 12. gr.

    Hér er kveðið á um hvernig fara skuli með breytingar sem verða á starfsemi sem rekstrarleyfi hljóðar um og þegar nýr aðili tekur við leyfisskyldum rekstri.
    Allar fyrirhugaðar breytingar á starfsemi eru háðar tilkynningu til leyfisveitanda og er leyfishafa gert að sækja um slíkar breytingar sérstaklega ef þær kalla á breytingar á skilmálum gildandi rekstrarleyfis. Má sem dæmi um það nefna ef aukið er við starfsemi, t.d. áfengisveitingum bætt við rekstur eða afgreiðslutími lengdur. Í ákvæðinu er einnig fjallað um þegar aðilaskipti verða að rekstrinum eða leyfishafi hyggst hætt starfsemi og er sú ábyrgð lögð á leyfishafa að tilkynna um slíkt án tafar enda gert ráð fyrir að hann beri ábyrgð á rekstrinum fram til þess tíma. Áfram er gert ráð fyrir að nýr aðili skuli þegar í stað sækja um nýtt rekstrarleyfi.
    Í báðum framangreindum tilvikum, breytingar á starfsemi sem kalla á breytingar á skilmálum rekstrarleyfis og nýr rekstraraðili, er gert ráð fyrir nýrri umsókn um rekstrarleyfi. Almennt skal fara með slíkar umsóknir samkvæmt ákvæðum 9.–11. gr. en lagt er til að leyfisveitandi geti ákveðið að ekki þurfi að leita umsagnar allra aðila skv. 10. gr. ef hann telur slíkt óþarft. Hér er t.d. verið að líta til tilvika þegar engar breytingar verða á starfseminni sem nýr rekstraraðili kemur að og starfsemin hefur gengið óaðfinnanlega. Í þeim tilvikum getur leyfisveitandi gefið út nýtt rekstrarleyfi, án þess að leita þurfi nýrra umsagna skv. 10. gr. en nýr leyfishafi verður að sjálfsögðu að uppfylla skilyrði 8. gr. og mun þurfa að afla gagna skv. 9. gr. Leyfisveitanda kann jafnframt að vera heimilt að ákveða að víkja frá gagnaöflum skv. 9. gr., t.d. ef um er að ræða breytingar á starfsemi en rekstraraðili er sá sami. Hins vegar kann í því tilviki að þurfa að leita umsagna skv. 10. gr. Einnig er rétt að árétta að nýr rekstraraðili þarf eflaust að sækja um nýtt starfsleyfi til heilbrigðisnefndar eftir þeim reglum sem um það gilda.
    Leyfisveitanda er heimilt að gefa út bráðabirgðaleyfi til nýs rekstraraðila á meðan umsókn hans er til meðferðar og er slíkt leyfi í öllum atriðum grundvallað á því fyrra og bundið sömu starfsemi og skilyrðum fyrir henni. Gildistími bráðabirgðaleyfis getur verið allt að þrír mánuðir og telst það hæfilegur tími til að afgreiða nýja umsókn en heimilt er að framlengja ef tafir á útgáfu eru ekki umsækjanda að kenna. Með þessu ætti að vera tryggt að ekki þarf að stöðva rekstur þótt nýr aðili taki við enda má gera ráð fyrir að afgreiðsla nýs rekstrarleyfis taki ekki lengri tíma, svo framarlega sem rétt er frá umsókn gengið og öllum viðeigandi gögnum skilað í tíma.
    Til að taka af allan vafa er kveðið á um það í frumvarpinu að þótt sótt sé um viðbót við starfsemi sem þegar hefur rekstrarleyfi og nýtt rekstrarleyfi þar með gefið út, t.d. lengri afgreiðslutíma, þá haldist gildistími hins fyrra rekstrarleyfis óbreyttur og í raun litið svo á að það rekstrarleyfi haldi gildi sínu og einungis sé um viðbót við það að ræða. Er það m.a. til að leyfishafi þurfi ekki að greiða leyfisgjöld á ný, heldur greiðir hann einungis fyrir viðbótarstarfsemina ef um hærra gjald er að ræða fyrir rekstrarleyfi eins og það hljóðar eftir breytingu. Sem dæmi má nefna að rekstrarleyfi er fyrir veitingastað í flokk II og kostar það samkvæmt frumvarpinu 124.000 kr. Ef sótt er um lengri afgreiðslutíma hljóðar rekstrarleyfið um veitingastað í flokki III en þar er leyfisgjaldið 160.000 kr. og þarf leyfishafi að greiða mismuninn á þessum tveimur gjöldum.

Um 13. gr.

    Endurnýjunarferlið er einfaldað til muna með frumvarpinu og er nýmæli að ef starfsemi er óbreytt og engar athugasemdir hafa borist vegna hennar á leyfistíma eða koma fram við meðferð umsóknar, verður rekstrarleyfið almennt endurnýjað án þess að þurfi að leita umsagna á ný.
    Hér er einkum miðað við að eftirlitsaðilar skv. 21. gr. hafi ekki tilkynnt um athugasemdir en einnig er leyfisveitanda gert að leita upplýsinga hjá þeim á meðan á meðferð umsóknar stendur og einnig upplýsinga en þó með óformlegri hætti en í umsagnarformi, til hvers af þeim umsagnaraðilum sem kveðið er á um í 10. gr. Er það lagt í hendur leyfisveitanda að meta hvort ástæða er til að leita formlegra umsagna á ný og má ganga út frá því að það geri hann ef einhverjar athugasemdir hafa borist á leyfistíma eða upplýsingar sem hann aflar i umsóknarferlinum gefa tilefni til þess. Þetta nýmæli um einfaldari endurnýjunarferli grundvallast fyrst og fremst á því að eðlilegt þykir að þeir sem eru með starfsemi sína og rekstur í góðu lagi njóti þess og þurfi ekki að fara í allt umsóknarferlið á ný, eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Enda er þessi starfsemi undir stöðugu eftirliti þeirra aðila sem getið er í 21. gr. og hafa þeir heimildir til úrræða ef út af bregður auk þess sem þeim hafa tilkynningarskyldu gagnvart leyfisveitanda. Má því gera ráð fyrir að ávallt liggi fyrir ef einhverjir þeir hnökrar eru á starfsemi sem leiða til að endurskoða þarf rekstrarleyfi og skilyrði fyrir því.
    Endurnýjun starfsleyfis heilbrigðisnefnda fer eftir þeim reglum sem um það gilda hverju sinni enda fellur það leyfi ekki undir frumvarp þetta.
    Gert er ráð fyrir að sótt sé um endurnýjun tveimur mánuðum áður en rekstrarleyfi fellur úr gildi og á sá tími að nægja til að taka afstöðu til endurnýjunar. Hins vegar má alltaf gera ráð fyrir að ekki sé sótt um innan tímafrests heldur jafnvel á síðasta degi. Því þykir rétt að kveða á um það í frumvarpinu að gefa megi út bráðabirgðaleyfi sem í öllum atriðum er samhljóða rekstrarleyfinu, til allt að þriggja mánaða, á meðan endurnýjunarumsóknin er til meðferðar. Með þessu er komið í veg fyrir að til úrræða verði að grípa skv. 23. gr. frumvarpsins, ef farist hefur fyrir að sækja um það tímanlega að endurnýjun náist, áður en rekstrarleyfið rennur út. Bráðabirgðaleyfið er þó einungis heimilt að gefa út ef sótt er um endurnýjum áður en rekstrarleyfið rennur út og verður gildistími þess því aldrei lengri en þrír mánuðir frá því tímamarki. Lagt er til að óheimilt verði að gefa út bráðabirgðaleyfi ef sótt er um endurnýjum eftir að rekstrarleyfi rennur þar sem eðlilegt þykir að þær kröfur séu gerðar til rekstraraðila að þeir sæki um í tíma enda um að ræða leyfi sem er nauðsynlegt skilyrði starfseminnar.

Um IV. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um með hvaða hætti rekstrarleyfi getur fallið úr gildi.

Um 14. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um synjun á rekstrarleyfi og er helst um að ræða að einhver skilyrði 8. gr. eru ekki uppfyllt og ef einhver umsagnaraðili er mótfallinn útgáfu rekstrarleyfisins. Ekki er um sérstakar breytingar að ræða frá gildandi lögum hvað þetta varðar.
    Nýmæli er að tilkynna skuli umsækjanda skriflega um fyrirhugaða synjun og gefa honum kost á að bæta úr annmörkum. Er þetta í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu, sem fjallar um það þegar rekstrarleyfi fellur niður er gerður greinarmunur á því hvenær rekstrarleyfi fellur sjálfkrafa niður, án afskipta stjórnvalda og hvenær hægt er að afturkalla rekstrarleyfið eða svipta viðkomandi því. Jafnframt er kveðið á um að leyfishafi geti lagt inn rekstrarleyfið.
    Í 1. mgr. er fjallað um hvenær um sjálfkrafa niðurfellingu rekstrarleyfisins er að ræða og er um tæmandi talningu að ræða. Er það við lok gildistíma eða ef leyfishafi kýs að skila því. Í þessum tilvikum er engra utanaðkomandi aðgerða þörf við niðurfellingu rekstrarleyfisins. Þó kann að vera að starfsemi haldi áfram og er því gert ráð fyrir að beita megi úrræði 23. gr. um lokun staðar.
    2. mgr. kveður á um skyldu leyfisveitanda til að afturkalla rekstrarleyfið ef leyfishafi uppfyllir ekki lengur skilyrði 8. gr.
    Um heimildir leyfisveitanda til að svipta leyfishafa rekstrarleyfi er kveðið á um í 3. mgr. Er miðað við að svipting sé í upphafi tímabundin og verði í þeim tilvikum, t.d. ef leyfishafi misnotar rekstrarleyfi og má sem dæmi nefna að starfsemi er umfram það sem rekstrarleyfið kveður á um. Einnig ef hann verður uppvís að brotum gegn ákvæðum þeirra laga sem tengjast starfseminni, þar á meðal áfengislaga eða vanræki skyldur sem á honum hvíla samkvæmt þeim. Eins og fram kemur í skýringum við II. kafla frumvarpsins er áfram gert ráð fyrir að ákvæði áfengislaga gildi óbreytt eftir því sem við á um meðferð og neyslu áfengis og því eðlilegt að brot gegn þeim varði leyfissviptingu eins og samkvæmt gildandi áfengislögum. Munur er þó á að samkvæmt frumvarpinu er hinn brotlegi sviptur rekstrarleyfi sem innifelur leyfi til tiltekins reksturs en takmarkast ekki við sölu og/eða veitingu áfengis. Svipting rekstrarleyfis að fullu er síðan heimil við ítrekuð brot.
    Svipting eða afturköllun verður einungis eftir að leyfishafi hefur fengið viðvörun og átt þess kost að bæta úr því sem mundi valda brottfalli rekstrarleyfisins. Nánar er síðan kveðið á um tilkynningu til leyfishafa um brottfall rekstrarleyfis. Einnig er leyfisveitanda gert að tilkynna heilbrigðisnefnd um afturköllun eða sviptingu rekstrarleyfis enda kann það að hafa áhrif á starfsleyfi viðkomandi.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um heimild bústjóra til að halda rekstri áfram og taka stöðu leyfishafa. Einnig er erfingja heimilt að halda starfsemi áfram í allt að ár á grundvelli rekstrarleyfisins og þá þótt það renni út á tímanum. Er þá gert ráð fyrir að bráðabirgðaleyfi verði gefið út fyrir þann tíma sem eftir er af árstímabilinu. Ekki er um breytingu að ræða frá gildandi lögum hvað þetta varðar.

Um V. kafla.

    Í kafla þessum er fjallað um svokölluð tækifærisleyfi, bæði vegna einstakra skemmtana og atburða og til veitingar áfengisveitinga. Eins og heitið ber með sér er hér um að ræða sérstök tímabundin leyfi sem bæði einstaklingar og lögaðilar geta sótt um, vegna ákveðinna tilvika og eiga því um margt aðrar reglur við en um almenn rekstrarleyfi.

Um 17. gr.

    Hér er fjallað um svokölluð tækifærisleyfi en þau eru gefin út fyrir einstökum atburðum og skemmtunum Í gildandi lagaumhverfi hefur vantað skýr ákvæði um slík leyfi og er frumvarpi þessu ætlað að bæta úr því.
    Ákvæði þessu er ætlað að taka til atburða og skemmtana sem fara fram utan veitinga- og gististaða enda eru slíkir staðir rekstrarleyfisskyldir og fer allt skemmtanahald á þeim fram í skjóli þess rekstrarleyfis. Leyfisskylda samkvæmt ákvæði þessu afmarkast við að skemmtun og/eða atburður sé í atvinnuskyni og til þess fallinn til að valda ónæði og kalla á eftirlit lögreglu. Undir þetta mundu falla t.d. útihátíðir, útitónleikar, árshátíðir, bæjarhátíðir ýmiss konar, dansleiki og annars konar skemmtanir í samkomusölum svo og skóladansleikir. Gengið er út frá því að skemmtun/atburður sé í atvinnuskyni og því aðgangur seldur með einum eða öðrum hætti, hvort sem er með sölu aðgöngumiða kaupum á veitingum á viðkomandi skemmtun eða annars konar framlögum og eru hvers konar einkasamkvæmi því undanskilin. Erfitt kann að vera að setja skilin á milli leyfisskyldrar skemmtunar/atburðar og einkasamkvæmis. Ljóst er þó að undir einkasamkvæmi falla einkum samkvæmi fyrir fámennari hóp gesta, í heimahúsum og samkomusölum ýmiss konar, t.d. afmælisveislur, fermingar og brúðkaupsveislur enda má þá ganga út frá fríum aðgangi og veitingum.
    Rétt er að taka fram að ákvæði þessu er ekki ætlað að ná til íþróttakappleikja eða opinberra hátíðarhalda svo sem á þjóðhátíðardaginn, Menningarnótt í Reykjavík, Reykjavíkurmaraþons og á Sjómannadaginn enda eru slíkir atburðir almennt ekki í atvinnuskyni eða aðgangur seldur að þeim.
    Gert er ráð fyrir að útgáfa slíkra leyfa verði á sömu hendi og útgáfa rekstrarleyfa, þ.e. hjá sýslumönnum nema í Reykjavík, hjá lögreglustjóranum á höfðuborgarsvæðinu en samkvæmt gildandi lögum eru þessar leyfisveitingar hjá lögreglustjórum. Lagt er til að sækja þurfi um slíkt leyfi með a.m.k. viku fyrirvara. Þess er krafist að umsækjandi uppfylli skilyrði 8. gr. eftir því sem við á en þar sem um einstök tímabundin leyfi er að ræða má gera ráð fyrir að þau eigi ekki alltaf öll við hverju sinni. Heimild er veitt til að víkja frá fjárræðisskilyrðinu og er þá fyrst og fremst verið að líta til skóladansleikja og annarra skemmtana sem fara fram á vegum skólafélaga framhaldsskólanna og forráðamaður viðkomandi félags er undir aldri. Í slíkum tilvikum er krafist ábyrgðarmanns fyrir skemmtuninni sem er fjárráða.
    Kveðið er á um að leyfishafi geti sett ákveðin skilyrði fyrir útgáfu leyfis að fenginni umsögn lögreglustjóra umdæmisins, heilbrigðisnefndar og slökkviliðs og eftir atvikum annarra umsagnaraðila skv. 10. gr. Hér er áskilnaður um að leyfisveitandi afli umsagnar lögreglu um þá þætti sem ákvæðið tilgreinir áður en leyfi er gefið út. Er slíkur háttur hafður á þar sem um er að ræða atriði sem eðlilegast er að lögregla segi til um hvort eru nauðsynlegt skilyrði leyfis, miðað við þá skemmtun sem sótt er um leyfi vegna. Gert er ráð fyrir að umsagnir lögreglustjóra í þessum tilvikum séu bindandi sem og umsagnir heilbrigðisnefnda og slökkviliðs. Lagt er til að leitað sé umsagna aðila skv. 10. gr. frumvarpsins eftir því sem við getur átt en ekki þykir ástæða til að gera það að skyldu að leita umsagna frá þeim öllum. Helgast það fyrst og fremst að því að leyfi er veitt fyrir eitt ákveðið tilvik, hefur stuttan gildistíma og gert er ráð fyrir skömmum umsóknarfyrirvara.
    Kveðið er á um að leyfisveitanda sé heimilt að krefja leyfishafa um aukinn kostnað við löggæslu og er það í samræmi við gildandi 1. mgr. 34. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Jafnframt er kveðið á um að krefjast megi kostnaðarins fyrir fram eða að trygging sé sett fyrir greiðslu. Um það er nú kveðið á í reglugerð nr. 587/1987 en nokkuð hefur þótt skorta á lagastoð fyrir þeirri reglugerð. Ákvæði þessu er ætlað að bæta úr því. Samhliða er lagt til að 1. mgr. 34. gr. lögreglulaga falli brott enda ekki nauðsyn að kveða á um heimtu löggæslukostnaðar vegna skemmtanahalds á mörgum stöðum í löggjöfinni. Þykir heimildin betur eiga heima í lögum sem kveða á um leyfi til að halda slíkar samkomur en í lögreglulögum sem kveða að öðru leyti ekki á um skemmtanahald.
    Gert er ráð fyrir að löggæslukostnaður sem leyfisveitandi krefur leyfisbeiðanda um renni til lögreglustjórans í umdæminu.
    Rétt þykir að árétta að ákvæði 2. mgr. 23. gr. kveða á um skyldu til að slíta skemmtum sem fer fram án leyfis samkvæmt ákvæði þessu. Nauðsynlegt þykir að hafa heimild til að setja nánari ákvæði í reglugerð er varða þessi leyfi.

Um 18. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um tímabundin áfengisveitingaleyfi. Í frumvarpinu eru slík leyfi skilgreind sem sala og/eða afhending áfengis í atvinnuskyni við einstök tækifæri hvort sem um beina sölu er að ræða eða hvers kyns afhendingu þeirra, hvar sem slíkt fer fram, innan- eða utandyra. Ákvæði þetta tekur því til ýmiss konar tilvika þegar áfengisveitingar eru ýmist seldar eða afhentar, svo sem í samkvæmum, á sýningum, við kynningar ýmiss konar og er almennt gert ráð fyrir að þetta sé að einhverju leyti í atvinnuskyni. Áhersla hér er á að veiting/afhending áfengisins sé að einhverju leyti í atvinnuskyni og falla því utan ákvæðisins móttökur ýmiss konar, hvort sem eru eftir ráðstefnur, fundi, fyrirtækjaheimsóknir eða annað slíkt, hvort sem er á vegum opinberra- eða einkaaðila.
    Áfengisveitingar sem undir þetta ákvæði falla takamarkast ekki við að fari fram í svokölluðum samkomusölum heldur getur hvers kyns húsnæði fallið hér undir, svo sem íþróttahús og salir félagssamtaka og einnig þegar veitingin fer fram utandyra, hvort sem er undir berum himni eða í tjöldum. Almennt er gert ráð fyrir að leyfi sem þetta sé ekki gefið út vegna atburðar oftar en fjórum sinnum á ári vegna sama staðar. Þykir nauðsynlegt að hafa einhver mörk til að koma í veg fyrir að hægt verði að nota húsnæði, svo sem skemmur, flugskýli og íþróttahús til reglulegs samkomuhalds, án þess að sótt sé um almennt rekstrarleyfi og þannig komist hjá almennu eftirliti og skilyrðum sem setja má fyrir slíkri starfsemi. Ekki er þó gert ráð fyrir að þetta sé fortaklaust því í sumum tilvikum kanna að vera nauðsynlegt að geta gefið leyfi oftar vegna sama staðar. Er þá verið að horfa til mjög stórra samkoma sem rúmast varla nema í stærstu íþróttahúsum svo sem árshátíðir stórfyrirtækja og flokksþing stjórnmálaflokka. Ákvæði þessu er ekki ætlað að koma í veg fyrir slík tilvik.
    Veiting áfengis í einkasamkvæmum fellur ekki hér undir af sömu ástæðu og þau samkvæmi eru ekki leyfisskyld skv. 17. gr., enda eru slík samkvæmi ekki í atvinnuskyni.
    Tímabundin áfengisveitingaleyfi verður hins vegar ekki gefið út ef salan og/eða veitingin fer fram í húsnæði sem hefur rekstrarleyfi sem innifelur leyfi til áfengisveitinga heldur fara þá allar áfengisveitingar fram á grundvelli þess rekstrarleyfis og á ábyrgð leyfishafans.
    Hér er einnig kveðið á um heimild rekstrarleyfishafa til að sækja um tímabundið áfengisveitingaleyfi sem viðbót við það rekstrarleyfi sem hann hefur. Sem dæmi um þetta má nefna að í rekstrarleyfi fyrir samkomusal kveður á um afgreiðslutíma áfengisveitinga til kl. 1 en halda á árshátíð sem ætlunin er að standi til kl. 3. Í því tilviki gæti rekstrarleyfishafinn fengið tímabundið áfengisveitingaleyfi til að geta boðið upp á lengri afgreiðslu áfengisveitinga í því einstaka tilviki. Einnig má nefna að veitingastaðir í flokki II samkvæmt frumvarpinu kunna að vilja hafa lengri afgreiðslutíma í einstökum tilvikum t.d. á menningarnótt í Reykjavík.
    Leyfisveitandi gefur út tímabundin leyfi samkvæmt ákvæði þessu og er miða við að sömu reglur gildi og kveðið er á um í 17. gr. um tækifærisleyfi, einnig er varðar gildistímann. Einnig er gert ráð fyrir að úrræði 23. gr. frumvarpsins verði beitt við brotum gegn ákvæðinu. Jafnframt er kveðið á um reglugerðarheimild vegna nánari útfærslu leyfisveitinga.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um skyldu leyfishafa til að veita yfirvöldum ákveðnar upplýsingar, skyldu leyfisveitanda til að halda skrá yfir þá sem reka leyfisskylda starfsemi samkvæmt frumvarpinu eftirlit með frumvarpinu og viðurlög við brotum gegn þeim. Þá er jafnframt kveðið á um gjaldtöluheimild vegna útgáfu rekstrarleyfa, almenna reglugerðarheimild og kæruheimild.

Um 19. gr.

    Ákvæði þetta kveður á um upplýsingaskyldu rekstraraðila og er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 20. gr.

    Ákvæði þetta kveður á um skrá sem halda skal yfir leyfishafa og er um sams konar skyldu að ræða og samkvæmt gildandi lögum. Nýmæli er að ítarlega er kveðið á um hvað skuli koma fram í skránni, að skráning skuli vera í miðlægu leyfakerfi og að rekstrarleyfi í gildi skuli birta með aðgengilegum hætti.

Um 21. gr.

    Hér er kveðið á um eftirlit með framkvæmd þess sem kveðið er á um í frumvarpinu og að það sé í höndum lögreglustjórans á viðkomandi stað. Með þessu er lagt til að eftirlitið sé ekki alltaf hjá leyfisveitanda og helgast það af því að sýslumenn sem eftir 1. janúar 2007 hafa ekki jafnframt með höndum lögreglustjórn, hafa ekki nægar heimildir til að annast slíkt eftirlit.
    Samkvæmt 1. mgr. mun eftirlit lögreglu snúa að framkvæmd laganna, að leyfishafi uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi og fylgi þeim skilyrðum sem rekstrarleyfi eru bundin, m.a. um dyravörslu og einnig að þeim reglum sem um sölu og veitingu áfengis gilda sé fylgt.
    Ljóst er að starfsemi sú sem fellur undir frumvarpið á jafnframt undir ýmis önnur lög og reglur og má þar nefna vinnulöggjöf, matvælalög, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og brunamál. Þessi lög kveða á um ákveðnar skyldur og skilyrði sem þarf að uppfylla og einnig hvernig eftirlit skuli haft með að þeim sé fylgt. Er því gert ráð fyrir í 2. mgr. að allt slíkt eftirlit fari eftir viðkomandi lögum og reglum og sé á hendi þeirra sem þar er kveðið á um hverju sinni. Þannig mun Vinnueftirlitið áfram gæta að því að farið sé að lögum um öryggi og aðbúnað á vinnustöðum og heilbrigðisnefndir að skilyrði starfsleyfis séu uppfyllt.
    Lögð er sú skylda á heilbrigðisnefndir að tilkynna leyfisveitanda ef til stendur að svipta viðkomandi aðila starfsleyfi enda er slíkt leyfi nauðsynlegt skilyrði þess að hafa rekstrarleyfi. Má því gera ráð fyrir að svipting starfsleyfis hafi í för með sér sviptingu rekstrarleyfis, sbr. 15. gr. frumvarpsins. Jafnframt er sú skylda lögð á herðar eftirlitsaðilum að tilkynna leyfisveitanda um allt sem telst ábótavant við starfsemi og tekur það einnig til þess ef stöðvun starfseminnar er fyrirhuguð á grundvelli þeirra heimilda sem þeir aðilar hafa, enda getur slíkt valdið sviptingu rekstrarleyfis og einnig grundvallast einföldun á endurnýjun rekstrarleyfa á að rekstur hafi verið athugasemdalaus, m.a. frá hendi eftirlitsaðila.

Um 22. gr.

    Hér er kveðið á um viðurlög vegna brota. Refsingar eru afmarkaðar við sektir og þykir ekki ástæða til að hafa þyngri viðurlög enda jafnframt gert ráð fyrir að beita megi þvingunarúrræði 23. gr. og loka starfsstöð þar sem brot fer fram. Má gera ráð fyrir að slíkt úrræði hafi mest varnaráhrif enda um að ræða úrræði sem hægt er að beita fyrirvaralítið og hefur bein áhrif, bæði á þann sem brotlegur er og einnig starfsemi hans.
    Í 2. mgr. er sérstaklega fjallað um brot er varða misbeitingu á veitingu áfengis. Ákvæðið er samhljóða gildandi 26. gr. áfengislaga og fer um refsingu samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt þessu gilda ákvæði áfengislaga um hlutdeild, tilraun og eignaupptöku einnig um slík brot.
    Ekki er með frumvarpi þessu ætlunin að gera að öðru leyti breytingar frá gildandi lögum er varða meðferð og neyslu áfengis heldur er einungis verið að breyta umhverfi leyfisveitinga í þeim málaflokki.

Um 23. gr.

    Hér er kveðið á um það nýmæli að lögreglustjóra er gert skylt að loka stað þar sem stunduð er leyfisskyld starfsemi samkvæmt frumvarpinu án þess að tilskilið rekstrarleyfi sé fyrir hendi. Er þetta heimilað án þess að þörf sé á sérstökum fyrirvara eða aðvörun áður en starfsemi er stöðvuð. Eru í ákvæði talin upp þau tilvik þar sem þetta er skylt og er m.a. um að ræða að ekki hefur verið sótt um rekstrarleyfi, leyfi ekki endurnýjað, eða starfsemi er ekki í samræmi við útgefið rekstrarleyfi, svo sem ef rekstrarleyfi hljóðar um afgreiðslutíma til kl. 1 en haft er opið til kl. 3 eða áfengisveitingar sem leyfisskyldar eru skv. 18. gr. fara fram án leyfis. Nauðsynlegt þykir að lögreglan geti brugðist við með skjótum og áhrifaríkum hætti þegar þannig stendur á sem rakið er í ákvæðinu en í gildandi lögum skortir slíkar heimildir.
    Þá er lögreglu gert skylt að slíta samkomu sem fram fer á grundvelli tækifærisleyfis skv. 17. gr. ef sérstakar tilgreindar ástæður liggja fyrir. Slík heimild er í dag til staðar í reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum en rétt þykir að treysta grundvöll reglunnar með því að kveða á um hana í lögum.

Um 24. gr.

    Ákvæði þetta kveður á um gjaldtöku vegna útgáfu leyfa og er áfram gert ráð fyrir að heimildir til töku leyfisgjalda vegna rekstrarleyfis verði í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Um 25. gr.

    Ákvæði þetta kveður á um heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Er þetta almenn reglugerðarheimild en jafnframt er kveðið á um þessa heimild í einstökum ákvæðum frumvarpsins. Í gildandi lögum um veitinga- og gististaði er gert ráð fyrir samráði við Samtök ferðaþjónustunnar og Umhverfisstofu við gerð reglugerðar. Ekki er gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að breytingar verði á því heldur verði reglugerðir sem settar eru á grundvelli frumvarpsins áfram sendar þessum aðilum sem og öðrum hagsmunaaðilum til umsagnar.

Um 26. gr.

    Hér er kveðið á um kæruheimild og málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.

Um VII. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um gildistöku frumvarpsins og brottfall laga og lagaákvæða sem óhjákvæmilegt er vegna gildistökunnar.

Um 27. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2007.
    Þar sem frumvarpið leggur til að ný lög leysi lögin um veitinga- og gististaði af hólmi falla hin síðarnefndu úr gildi.
    Þá er einnig lagt til að lög nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma, falli úr gildi. Lögin kveða á um að dómsmálaráðherra skuli heimilt að ákveða með auglýsingu hvenær skemmtunum, dansleikjum og öðrum samkvæmum sem fram fara á almennum skemmtistöðum, félagaheimilum eða veitingahúsum skuli í síðasta lagi slitið. Í þessu frumvarpi er lagt til að sveitarstjórnir ákveði afgreiðslutíma veitingastaða og gildir það jafnt um veitingastaði sem ætlað er að hafa stuttan eða langan afgreiðslutíma og án tillits til þess hvort áhersla er á áfengisveitingar eða dans eftir ákveðið tímamark. Þá er lagt til að leyfisveitendur kveði á um í tækifærisleyfum hvenær skemmtun skuli slitið, að fenginni umsögn lögreglustjóra. Að þessu gefnu er ekki lengur þörf á lögum nr. 120/1947.

Um 28. gr.

    Við sameiningu veitingaleyfa og áfengisveitingaleyfa í eitt rekstrarleyfi verður óhjákvæmilega skörun milli þeirra lagabálka sem um þessi leyfi gilda nú.
    Í 1. tölul. ákvæðisins er kveðið á um þær breytingar sem verða á áfengislögum.
    V. kafli áfengislaga fjallar um veitingar áfengis og fellur allur sá kafli brott verði frumvarpið að lögum. Þá er jafnframt lagt til að VIII. kafli um úrskurðarnefnd um áfengismál falli niður. Hlutverk úrskurðanefndarinnar er að leysa úr ágreiningsmálum vegna úrskurða sveitarstjórna samkvæmt áfengislögum. Fá mál hafa komið til kasta nefndarinnar á síðustu árum og hafa þau öll snúist um kærur vegna synjunar á áfengisveitingaleyfi til veitingastaða. Þegar áfengisveitingaleyfi verða sameinuð veitingaleyfum í rekstrarleyfi sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og sýslumenn gefa út verður dóms- og kirkjumálaráðuneytið æðra stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar. Ákvarðanir verða því kæranlegar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Einu leyfisveitingar sem standa eftir hjá sveitarstjórnum á grundvelli áfengislaga verða leyfi til rekstrar áfengisútsölu. Ekki er talin nauðsyn að kveða á um sérstaka úrskurðarnefnd til að endurskoða slíkar ákvarðanir heldur er rétt að þær fylgi hefðbundnum leiðum innan sveitarstjórnarlaga.
    Breytingar á liðum a–d eru tilkomnar vegna tillögu frumvarpsins um að kveðið verði á um leyfi til veitingar áfengis í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en ekki í áfengislögum.
    Í e-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir að leyfisveitingar vegna framleiðslu, innflutnings og heildsölu áfengis færist frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra. Breyting þessi er tilkomin vegna endurskoðunar sem gerð var á leyfamálum lögreglu og sýslumanna í kjölfar setningar laga nr. 46/2006 sem kveða á um umtalsverðar breytingar á málefnum sýslumanna og lögreglustjóra.
    Leyfi til framleiðslu, innflutnings og til að selja áfengi í heildsölu hafa verið gefin út af ríkislögreglustjóra frá árinu 1998. Á þeim tíma þótti heppilegt að slík leyfi væru á einum stað og því nærtækast að embætti sem væri samnefnari fyrir öll lögreglustjóraembættin í landinu sinnti þeirri útgáfu. Á daginn hefur komið að embætti ríkislögeglustjóra er ekki sérlega hentugt til útgáfu leyfa þar sem slík starfsemi er mjög lítill hluti af annarri starfsemi embættisins. Frá árinu 2001 hafa samtals verið gefin út 105 leyfi til framleiðslu áfengis. Þessu fylgir jafnframt útgáfa leyfa á grundvelli 5. og 6. gr. áfengislaga til að kaupa og nota etanól, spíritus fortis o.fl. vegna iðnaðar. Frá sama tímamarki hafa verið gefin út 7 leyfi til innflutnings á áfengi og 169 leyfi til að selja áfengi í heildsölu.
    Með því að fela lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins afgreiðslu þessara leyfa mun leyfaútgáfan áfram vera á einum stað sem er heppilegt vegna sérhæfingar. Þar verður starfrækt sérstök leyfadeild í líkingu við þá sem starfrækt var hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík og er mikið hagræði fólgið í að nýta þá sérþekkingu og verklag sem komið hefur verið upp við útgáfu leyfa af ýmsu tagi. Þessi leið þykir heppilegri en að fela lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og sýslumönnum á landsbyggðinni, eins og önnur ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir, útgáfu leyfanna þar sem flestir leyfishafar eru á höfuðborgarsvæðinu.
    Í 2. tölul. ákvæðisins er kveðið á um þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Gjöld vegna rekstrarleyfa eru nú ákveðin í lögum um aukatekjur ríkissjóðs og V. kafla áfengislaga. Þar sem í frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á leyfisveitingum á þessu sviði er nauðsynlegt að gera allnokkrar breytingar á þessum lögum auk þess sem gjaldtakan samkvæmt áfengislögum er felld niður, sbr. framangreint.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að þetta verði einfaldað til muna með því að einungis verður um eitt leyfi að ræða, rekstrarleyfi, sem gildir í 4 ár og er endurnýjað til sama tíma hverju sinni. Gjaldtakan miðast við flokkun staða skv. 3. og 4. gr. frumvarpsins og tekur mið af þeirri starfsemi sem þar fer fram.
    Verði frumvarp þetta að lögum er lagt til að gjaldtaka skiptist með eftirfarandi hætti og breytingar verði gerðar á 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs til samræmis:
    Í 20. tölul. er fjallað um gistileyfi skv. 3. gr. frumvarpsins. Miðað er við að fjárhæð leyfisgjalda sé að mestu leyti sú sama og samkvæmt gildandi lögum, að viðbættri hækkun neysluvísitölu frá síðustu breytingu, í desember 2004 til janúar 2007 og verða fjárhæðir því hærri sem því nemur. Í gildandi lögum eru gjöld vegna gistileyfis þrenns konar, 16.500, 22.000 og 55.000 kr. Áfram er miðað við sömu gjöld fyrir sams konar/svipaðrar starfsemi og verða þau með vísitöluhækkun 18.500 kr., 24.500 kr. og 61.500 kr. Því til viðbótar er gjald vegna áfengisveitinga og er um tvenns konar gjald að ræða, annars vegar vegna minibars eingöngu 50.000 kr. og hins vegar vegna áfengisveitinga almennt 100.000 kr. en nánar er gerð grein fyrir því gjaldi hér á eftir.
    Í 21. tölul er fjallað um veitingaleyfi skv. 4. gr. frumvarpsins. Einnig hér er fjárhæð leyfisgjalda sú sama og í gildandi lögum, að viðbættri hækkun neysluvísitölu og áfram er miðað við sömu gjöld fyrir samskonar/svipaða starfsemi. Fjárhæðir eru þær sömu og í 20. tölul. Viðbótargjald vegna áfengisveitinga er einnig 100.000 kr.
    Eins og sést af tillögum frumvarpsins um gjaldtöku er gert ráð fyrir að þeir staðir sem fá leyfi til að selja og veita áfengi greiði hærra gjald sem nemur 100.000 kr. frá því sem annars hefði verið, nema þegar einungis er um minibar að ræða, þá er lagt til að gjaldið sé 50.000 kr. Þetta sérstakt gjald vegna áfengisveitinga tekur mið af því að ekki þarf að sækja sérstaklega um áfengisveitingaleyfi og er sá gjaldstofn því felldur niður í áfengislögunum. Í staðinn er lagt til að staðir sem vilja veita áfengi greiði hærra gjald fyrir rekstrarleyfið. Þetta felur þó ekki í sér auknar álögur á starfsemi þar sem samkvæmt gildandi áfengislögum þurfa þeir sem hafa áfengisveitingaleyfi að greiða leyfisgjald sem er 100.000 kr. og gildir að hámarki í 4 ár. Við hverja endurnýjun gjaldsins þarf síðan að greiða fullt gjald.
    Frumvarpið felur það hins vegar í sér að þetta hærra gjald vegna áfengisveitinga er einungis greitt einu sinni, þegar sótt er um rekstrarleyfi í fyrsta sinn. Endurnýjun sem lögð er til að verði á fjögurra ára fresti innifelur allt það sem felst í rekstrarleyfinu og greiðir leyfishafi einungis endurnýjunargjaldið. Í raun er því um að ræða minni gjaldtöku en samkvæmt gildandi lögum.
    Í 22. tölul. er lagt til að gjald vegna tækifærisleyfis skv. 17. gr. frumvarpsins verði 6.000 kr. en það er nú 3.300 kr. samkvæmt gildandi lögum.
    Í 23. tölul. er kveðið á um gjald vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis skv. 18. gr. og er lagt til að það verði 20.000 kr. Í gildandi lögum er hægt að fá áfengisveitingaleyfi til allt að 6 mánaða og er gjaldið það sama. Með þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér þykir ekki ástæða til að hafa slíkan gildistíma á tímabundnu leyfi vegna áfengisveitinga heldur að það gildi bara um það ákveðna tilvik sem sótt er um vegna, í allt að 7 daga hið mesta og er þá verið að líta til að sami atburður standi þann tíma.
    Í 24. tölul. er gjald vegna endurnýjunar og lagt til að það verði þríþætt. Þar er fyrst að nefna gjald vegna endurnýjunar rekstrarleyfis án áfengisveitingaleyfis, 5.500 kr. Í annan stað er um að ræða endurnýjun rekstrarleyfis til gististaða sem hafa heimild fyrir minibar, 25.000 kr. Þar sem um áfengisveitingar er að ræða, þótt takmarkaðar séu, þykir rétt að endurnýjunargjald sé hærra en þar sem engar áfengisveitingar eru heimilar. Í þriðja lagi er um að ræða endurnýjun rekstrarleyfis sem innifelur heimild til veitingu og sölu áfengis, 50.000 kr. Helgast sú fjárhæðið af því að með frumvarpinu er verið að fella í eitt leyfi núgildandi áfengisveitingaleyfi og veitingaleyfi. Eins og að framan er rakið þarf samkvæmt gildandi lögum að greiða fullt gjald fyrir áfengisveitingaleyfi þegar það er endurnýjað (100.000 kr.). Ekki er því um að ræða hærri álögur á þessa staði heldur í raun nokkuð minni og má þá einnig hafa í huga að þessir staðir þurfa almennt samkvæmt gildandi lögum að hafa skemmtanaleyfi og greiða fyrir það hár fjárhæðir. Verði frumvarp þetta að lögum er það gjald aflagt og með því verulegum álögum létt af starfseminni sem fellur undir frumvarpið.
    Lagt er til að 32. og 47. tölul. falli brott en eins og fram hefur komið er lagt til í frumvarpinu að skemmtanaleyfið sem kveðið er á um í gildandi lögum verði fellt niður og ekkert annað gjald tekið upp í staðin.
    Í 3. tölul. ákvæðisins er lagt til að 1. mgr. 34. gr. lögreglulaga falli brott en sambærilega heimild er að finna í 17. gr. frumvarpsins og er í því sambandi vísað til nánari umfjöllunar í athugasemdum með þeirri grein.
    Í 4. tölul. ákvæðisins er lagt til að ákvæði í lögum um gjald af áfengi og tóbaki verði fellt brott. Þetta ákvæði útheimtir ákveðna vinnu og eftirlit í fjárlagagerð en breytir mjög litlu um útgjaldaheimildina til áfengiseftirlits. Ef þetta er fellt brott breytir það í raun engu nema að fjárheimildin verður fjármögnum með beinu framlagi úr ríkissjóð í stað ríkistekna.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Hér er lagt til að þeir sem hafa leyfi samkvæmt gildandi lögum þurfi ekki að sækja um nýtt rekstrarleyfi heldur geti farið beint í endurnýjunarferlið eins og það er samkvæmt frumvarpinu. Skilyrði er að reksturinn hafi verið í lagi og öll skilyrði starfseminnar uppfyllt. Gert er ráð fyrir að leyfisveitendur leiti álits og umsagnar hjá umsagnaraðilum skv. 10. gr. á rekstrinum og byggi ákvörðun sína um endurnýjun á því. Komi ekkert athugavert í ljós getur leyfishafi samkvæmt gildandi lögum fengi rekstrarleyfi eins og um endurnýjun væri að ræða og þarf ekki að fara í allt umsagnarferlið á ný eða greiða fullt leyfisgjald. Jafnframt er gert ráð fyrir að leyfisveitandi uppfylli skilyrði 8. gr. enda er að nokkru leyti um aðrar kröfur að ræða en í gildandi lögum. Hið nýja rekstrarleyfi sem fæst þannig útgefið verður alfarið samhljóða þeim leyfum sem það kemur í staðin fyrir auk þess sem leyfisveitanda verður heimilt að setja viðbótarskilyrði sem kunna að eiga við samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Allar breytingar á starfsemi kalla hins vegar á að sækja verður um rekstrarleyfi eftir þeim reglum sem kveðið er á um í frumvarpinu.
    Lagt er til að þessi sérstaka endurnýjun verði heimil í allt að tvö ár frá því frumvarpið tekur gildi en nauðsynlegt þykir að hafa einhver skil á því hvenær núgildandi leyfiskerfi er að fullu niðurfallið og það nýja tekið við. Þykja tvö ár hæfilegur tími til þess enda hafa gildandi leyfi mjög mismunandi gildistíma og sum hver eru endurnýjuð árlega. Með því að einungis þarf að greiða endurnýjunargjald er ljóst að verulega er létt álögum af starfsemi sem undir frumvarpið fellur.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Hér er kveðið á um afnám tryggingarskyldu sem stendur til grundvallar áfengisveitingaleyfinu samkvæmt gildandi lögum, verði frumvarp þetta að lögum. Vísast nánar um þetta til almennra athugasemda með frumvarpinu.
    Tryggingar sem í gildi eru, verði frumvarp þetta að lögum, halda gildi sínu á meðan leyfi sem tryggingin er tekin vegna eru í gildi, í allt að 2 ár eða til 30. júní 2009 hið lengsta. Að þeim tíma liðnum eiga allir sem stunda leyfisskyldan rekstur að hafa sótt um nýtt rekstrarleyfi og þurfa ekki lengur að leggja fram tryggingar.
    Tryggingar þessar eru varðveittar hjá innheimtumönnum ríkissjóðs og er það frágangsatriði milli þeirra og leyfishafa hvernig staðið verður að skilum trygginga. Þó er gert að skilyrði að leyfishafi framvísi staðfestingu á nýju rekstrarleyfi eða innlögn áfengisveitingaleyfis til innheimtumanns og að ekki er heimilt að afhenda tryggingar nema slíkt liggi fyrir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

    Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að einfalda leyfisveitingar til rekstur veitinga- og gististaða og draga úr þeim fjölda leyfa, gagna og umsagna sem umsækjendur þurfa nú að afla til að fá slík leyfi. Helstu breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér frá núgildandi lögum eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi eru nokkur leyfi sameinuð í eitt leyfi, rekstrarleyfi. Með því verður gjaldtaka vegna leyfa breytt þar sem að gjaldtaka verður lægri en í núverandi lögum. Í öðru lagi er lagt til að gagnaöflun vegna umsókna og endurnýjun rekstrarleyfa verði einfaldað. Í þriðja lagi er lagt til að yfirstjórn mála er varða veigina- og gististaði færist frá samgönguráðherra til dóms- og kirkjumálaráðherra. Í fjórða lagi verða tryggingar sem hafa verið til grundavallar áfengisleyfa felldar á brott. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar er skýra úrræði vegna brota þar sem leyfisveitenda með aðstoð lögreglu fær beina heimild til að loka stöðum sem stunda starfsemi án leyfis eða starfsemmin samræmist ekki útgefnu rekstrarleyfi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.