Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 887  —  378. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. á sviði Neytendastofu.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Frey Guðmundsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu. Nefndinni bárust einnig umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga sem Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd á. Miða þessar breytingar að því að unnt sé að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Hins vegar eru lagðar til breytingar sem varða tilfærslu á framkvæmd faggildingar frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu.
    Nefndin leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Er í fyrsta lagi lagt til að bætt verði við ákvæðum í viðeigandi lög þar sem kveðið verði á um að ákvarðanir Neytendastofu verði ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggi fyrir. Er með þessu kveðið á um að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar verði tæmdar áður en málið er borið undir dómstóla. Sambærilegt ákvæði er að finna í 25. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Í öðru lagi leggur nefndin til að við frumvarpið verði bætt ákvæði þess efnis að mál fyrir dómstólum skuli höfðað innan sex mánaða frá því aðili fær vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Er hér um að ræða ákvæði sem er sambærilegt 41. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Hér búa réttaröryggissjónarmið að baki en óvissa getur verið fólgin í því að málshöfðun í tilteknu máli, sem áfrýjunarnefndin hefur kveðið upp úrskurð í, geti verið yfirvofandi jafnvel um árabil.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. jan. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ásta Möller.