Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 617. máls.

Þskj. 917  —  617. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda
á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)



I. KAFLI
Breytingar á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum
og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005.

1. gr.

    Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein er verður 20. gr. a, svohljóðandi:
    Neytendastofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöðvum þeirra sem lög þessi taka til þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum Neytendastofu.
    Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

2. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein er verður 21. gr. a, svohljóðandi:
    Neytendastofu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd laga í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt milliríkjasamningum.
    Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
     1.      farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
     2.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í viðkomandi milliríkjasamningi og
     3.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Neytendastofu og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.

II. KAFLI

     Breytingar á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga,
nr. 46/2000, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum.

4. gr.

    2. málsl. 25. gr. laganna orðast svo: Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.

IV. KAFLI

Breytingar á lögum um alferðir, nr. 80/1994, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.

V. KAFLI

Breytingar á lögum um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis,
nr. 23/1997, með síðari breytingum.

6. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:

     a.      (10. gr.)
    Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

     b.      (11. gr.)
    Neytendastofa getur lagt bann við athöfnum sem brjóta í bága við ákvæði laga þessara.
    Neytendastofa getur lagt dagsektir á aðila sem brýtur gegn ákvörðun sem stofnunin tekur á grundvelli 1. mgr. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.

VI. KAFLI

Breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
nr. 87/1998, með síðari breytingum.

    7. gr.

    Á eftir 14. gr. kemur ný grein er verður 14. gr. a, svohljóðandi:

Upplýsingaskipti.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
     1.      gætt sé þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga þessara,
     2.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar,
     3.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Fjármálaeftirlitsins og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.

8. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna orðast svo: Þagnarskylda. Upplýsingaskipti. Samskipti við eftirlitsstjórnvöld og Seðlabanka Íslands.
    

VII. KAFLI

Breytingar á útvarpslögum, nr. 53/2000, með síðari breytingum.

9. gr.

    Á eftir 1. málslið 5. mgr. 6. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Útvarpsréttarnefnd getur krafið leyfishafa um skriflegar upplýsingar vegna ætlaðra brota hans á ákvæðum VI. kafla og skulu þær veittar innan hæfilegs frests sem nefndin setur. Nefndin getur í framhaldi af slíkri athugun lagt bann við útsendingu efnis sem telst andstætt ákvæðum VI. kafla. Útvarpsréttarnefnd getur við rannsókn ætlaðra brota gegn VI. kafla gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð leyfishafa eða stað þar sem gögn eru varðveitt, þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn 7.–14. gr. laganna. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

10. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein er verður 6. gr. a, svohljóðandi:

Upplýsingaskipti.


    Útvarpsréttarnefnd er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd ákvæða VI. kafla í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
     1.      farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
     2.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar,
     3.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki útvarpsréttarnefndar og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.
    

VIII. KAFLI

Breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

11. gr.

    Við 3. mgr. 126. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Jafnframt skal í reglugerð kveða á um heimildir Flugmálastjórnar Íslands til að tryggja eftirfylgni slíkra reglna, svo sem með hvers konar upplýsingaöflun, vettvangsskoðun, heimildum til að stöðva brot og krefjast þess að látið sé af brotum, auk birtingar slíkra ákvarðana eftir því sem við á. Þá skal setja í reglugerð ákvæði um heimild Flugmálastjórnar til að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu nauðsynlegar upplýsingar og gögn.
    

IX. KAFLI
Breytingar á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.
    12. gr.

    Við 18. gr. bætast þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Lyfjastofnun getur krafið einstaklinga og lögaðila um skriflegar upplýsingar vegna ætlaðra brota á ákvæðum 13.–17. gr. og skulu þær veittar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Lyfjastofnun getur við rannsókn ætlaðra brota gegn ákvæðum 13.–17. gr. gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð eða stað þar sem gögn eru varðveitt, enda séu ríkar ástæður til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðunum. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.
    Lyfjastofnun er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd ákvæða 13.–17. gr. í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
     1.      farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
     2.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upplýsingar,
     3.      upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Lyfjastofnunar og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.

X. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru gerðar tillögur um lagabreytingar sem nauðsynlegt er að gera vegna innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd). Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp þar sem gerð er tillaga um að reglugerðin verði tekin upp í innlendan rétt. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2006 frá 7. júlí 2006 var ákveðið að breyta XIX. viðauka við EES-samninginn (Neytendavernd) og fella reglugerð nr. 2006/2004 inn í samninginn. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Efni reglugerðar um samvinnu um neytendavernd.
    Markmið reglugerðar um samvinnu um neytendavernd er að tryggja eftirfylgni við lagaákvæði á sviði neytendaverndar, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem um er að ræða viðskipti yfir landamæri. Í reglugerðinni er kveðið á um að sett verði upp net opinberra eftirlitsstofnana sem ná skal yfir allt Evrópska efnahagssvæðið og öðlast stofnanirnar réttindi og skyldur varðandi gagnkvæma aðstoð við meðferð ákveðinna brota sem beinast gegn neytendum. Þau brot sem um ræðir eru brot gegn lagaákvæðum, sem innleiða þær gerðir Evrópusambandsins á sviði neytendaverndar sem taldar eru upp í reglugerðinni, alls 14 tilskipanir og ein reglugerð.
    Reglugerð um samvinnu um neytendavernd mælir fyrir um að í hverju landi skuli tilnefnd lögbær stjórnvöld sem bera ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar. Lögbærum stjórnvöldum í hverju aðildarríki EES-samningsins er heimilað að grípa til aðgerða gegn fyrirtæki frá aðildarríkinu, sem starfar á því sviði sem stjórnvald fer með eftirlit á, án tillits til þess í hvaða ríki innan EES-svæðisins neytandi, sem verður fyrir tjóni vegna brotsins, er staddur. Skulu lögbær stjórnvöld hafa þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem kveðið er á um í reglugerðinni en framkvæmd rannsókna og eftirlits skal vera í samræmi við löggjöf hvers lands. Þó er gerð krafa um að stjórnvöldin hafi nánar tilteknar lágmarksrannsóknar- og eftirlitsheimildir til að framfylgja þeim ákvæðum sem falla undir reglugerðina, svo sem rétt til að krefjast afhendingar upplýsinga og gagna, rétt til að gera vettvangsrannsókn og rétt til að krefjast stöðvunar á broti eða leggja bann við því.
    Markmið breytinga þeirra sem lagðar eru til á ýmsum lögum í frumvarpi þessu er að tryggja að stjórnvöld þau sem fara með framkvæmd þeirra laga sem reglugerðin tekur til hafi þær heimildir sem reglugerðin gerir kröfu um.
    Til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar hafa íslensk stjórnvöld tilnefnt lögbær stjórnvöld og miðlæga tengiskrifstofu. Þetta var gert með bréfi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, dags. 12. júlí 2006. Þau stjórnvöld sem tilnefnd voru lögbær stjórnvöld eru Neytendastofa, Fjármálaeftirlitið, Lyfjastofnun, Flugmálastjórn Íslands og útvarpsréttarnefnd. Neytendastofa var jafnframt tilnefnd miðlæg tengiskrifstofa.
    
Tilskipanir og reglugerðir sem falla undir reglugerð (EB) nr. 2006/2004.
    Í viðauka með reglugerðinni um samvinnu um neytendavernd eru taldar upp 14 tilskipanir og ein reglugerð, en innleiðing á þessum gerðum í landslög teljast lög til verndar hagsmunum neytenda í skilningi a-liðar 3. gr. reglugerðarinnar. Þær gerðir sem falla undir reglugerðina eru:

Tilskipun ráðsins 84/450/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um villandi auglýsingar og samanburðarauglýsingar og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/55/EB um breytingu á tilskipun 84/450/EBE þannig að hún taki einnig til samanburðarauglýsinga.
    Tilskipun 84/340/EBE er innleidd í íslenskan rétt með lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 97/55/EB þannig að nú falla samanburðarauglýsingar einnig undir hana. Ákvæði um auglýsingar hérlendis voru fyrst í lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þegar þau lög voru felld úr gildi við gildistöku samkeppnislaga fluttust ákvæði um auglýsingar í samkeppnislög, en þau lög höfðu að geyma ítarlegri ákvæði um auglýsingar en áður hafði verði í íslenskum lögum. Þegar samkeppnislögum var breytt á árinu 2000 var bætt við þau ákvæði um samanburðarauglýsingar. Ákvæði um auglýsingar voru felld úr samkeppnislögum við gildistöku laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins 1. júlí 2005.
    Neytendastofa fer með framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    
Tilskipun ráðsins 85/577/EBE um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga.
    Ákvæði þessara tveggja tilskipana voru tekin upp í íslenskan rétt með lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, en tilskipun ráðsins 85/577/EB, um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva, hafði áður verið lögleidd með setningu laga nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu.
    Í lögunum er að finna margvíslegar lágmarksreglur sem miða að því að veita neytendum vernd með tilliti til fjarsölu á vöru og þjónustu. Réttarvernd neytenda samkvæmt lögunum felst m.a. í víðtækari rétti til upplýsinga af hálfu seljanda og rétti til að falla frá samningi ef varan uppfyllir ekki við skoðun og móttöku þær forsendur sem neytandi lagði til grundvallar við kaupin og gat vænst að hún uppfyllti samkvæmt upplýsingum frá seljanda.
    Neytendastofa fer með eftirlit með viðskiptaháttum á grundvelli laganna.
    
Tilskipun ráðsins 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi neytendalán.
    Tilskipunin er innleidd í íslenskan rétt með lögum um neytendalán, nr. 121/1994. Lögin ná til lánssamninga sem gerðir eru við lántakanda af hálfu verslana, framleiðenda og þjónustuaðila með vissum undantekningum. Þá ná lögin til lána vegna kaupa á lausafé og þjónustu, svo og almennra neyslulána. Þau taka jafnt til lánssamninga sem einstaklingar og lögaðilar gera. Tilgangur laganna er m.a. að bæta möguleika lántakenda til að bera saman mismunandi tilboð lánveitenda en lánveitanda ber á grundvelli laganna að upplýsa lántakanda í prósentum um svokallaða árlega hlutfallstölu kostnaðar áður en lánssamningurinn nær fram að ganga. Upplýsingar um þetta gera lántakanda auðveldara að meta hvort hann vill taka lánið.
    Neytendastofa annast eftirlit með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun ráðsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um sjónvarpsrekstur.
    Tilskipunin var innleidd í íslenskan rétt með breytingu á útvarpslögum, nr. 82/1993. Breytingar voru gerðar á tilskipuninni með tilskipun 97/36/EB og voru þær leiddar í lög við setningu nýrra útvarpslaga, nr. 53/2000. Í þeim lögum er nú að finna ákvæði sem innleiða tilskipanirnar. Útvarpsréttarnefnd fer með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun ráðsins 90/314/EBE um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðarpakka.
    Tilskipunin var innleidd með lögum nr. 80/1994, um alferðir. Í lögunum eru m.a. ákvæði um upplýsingaskyldu gagnvart neytendum, form samninga, rétt neytenda til að falla frá samningi og bótarétt neytenda ef ferð er ekki í samræmi við ákvæði samnings. Neytendastofa fer með eftirlit með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun ráðsins 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
    Ákvæði tilskipunarinnar voru innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 14/1995, sem breyttu lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fólust breytingarnar í því að gerð var breyting á 1. mgr. 36. gr. samningalaga en auk þess var bætt við fjórum nýjum greinum, 36. gr. a–d. Gilda þau ákvæði um vissa samninga að því er snertir sanngirnismat, réttaráhrif sérstaklega skilgreindrar ósanngirni og túlkun. Þá var sett í lögin regla til að vernda neytendur gegn vissum ákvæðum um erlend lög sem gilda skulu um viðkomandi samninga. Tilskipunin miðar að því að koma í veg fyrir röskun á samkeppni og jafnframt auka vernd til handa neytendum. Markmið þeirra breytinga sem gerð voru á samningalögunum þegar tilskipunin var innleidd var að tryggja framkvæmd þeirra ákvæða tilskipunarinnar sem eru einkaréttarlegs eðlis, sbr. 3.–6. gr. hennar. Neytendastofu er hins vegar auk dómstóla ætlað að tryggja framkvæmd þeirra ákvæða tilskipunarinnar sem eru allsherjarréttarlegs eðlis.
    
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni.
    Tilskipuninn var innleidd með lögum um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997. Í lögunum eru reglur um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti af fasteign í þeim tilgangi að tryggja að hinn innri markaður starfi eðlilega og veita kaupendum nægilega vernd. Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB um neytendavernd að því er varðar upplýsingar um verð á vöru sem boðin er neytendum.
    Í 17.–19. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005, eru ákvæði um verðmerkingar, heimild til að gefa fyrirtækjum sérstök fyrirmæli um að gera ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði, auk ákvæðis um öflun og birtingu upplýsinga um verð og verðmyndun og önnur viðskiptakjör. Eru ákvæðin í samræmi við tilskipunina. Neytendastofa fer með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.
    Tilskipunin um neytendakaup er tvíþætt. Fyrst og fremst felast í 2.–5. gr. tilskipunarinnar reglur um rétt neytenda gagnvart seljanda þegar vara er haldin göllum og var sá hluti tilskipunarinnar innleiddur með lögum nr. 48/2003, um neytendakaup. Með lögunum voru ákvæði um neytendakaup tekin úr lögum um lausafjárkaup og sett í sérstakan lagabálk með það að meginmarkmið að efla réttarstöðu neytenda. Í 6. gr. tilskipunarinnar er svo kveðið á um ábyrgðir, og voru þau ákvæði innleidd með breytingu á samkeppnislögum. Þau ákvæði eru nú í 10. og 11. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005.
    Neytendastofa fer með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti).
    Tilskipunin var innleidd með lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að tryggja að um rafræna þjónustu gildi meginregla Evrópusambandsins um frjálst flæði þjónustu, þ.e. að unnt verði að veita þjónustuna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu ef hún fullnægir lagaákvæðum upprunalands. Tilskipunin leggur þær skyldur á aðildarríkin að tryggja að réttarkerfi þeirra heimili að samningar séu gerðir með rafrænum hætti, með fáum undantekningum sem taka m.a. til samninga á sviði sifja- og erfðaréttar, samninga sem stofna eða yfirfæra rétt yfir fasteignum, nema þegar um leigurétt er að ræða, og samninga sem lögum samkvæmt krefjast þátttöku dómstóla, stjórnvalda eða annarra sem fara með opinbert vald.
    Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd laganna.
    
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum.
    Tilskipunin er heildartilskipun á sviði lyfjamála. Með setningu hennar voru fjölmargar eldri tilskipanir sem um þetta svið giltu felldar saman. Forverar tilskipunar 2001/83/EB höfðu verið innleiddar í íslenskan rétt með setningu lyfjalaga, nr. 93/1994 og þar sem tilskipun 2001//83/EB fól ekki í sér neinar efnislegar breytingar er hún að fullu innleidd með gildandi lyfjalögum. Lyfjastofnun fer með framkvæmd laganna og eftirlit samkvæmt ákvæðum þeirra.
    
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur.
    Tilskipunin var innleidd með lögum um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005. Tilgangurinn með tilskipuninni er að samræma löggjöf og reglur um fjarsölu á fjármálaþjónstu til neytenda. Þá er tilskipuninni ætlað að styrkja innri markaðinn og auka neytendavernd. Ákvæði tilskipunarinnar gilda um fjarsölusamninga um fjármálaþjónustu sem gerðir eru á milli þjónustuveitanda og neytanda og markaðssetningu sem ætlað er að leiða til slíkra samninga. Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með framkvæmd laganna.
    
Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða þegar mikil seinkun verður.
    Reglugerðin var innleidd með reglugerð nr. 574/2005, sem sett var á grundvelli 126. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998.
    Í reglugerðinni eru reglur um skaðabætur og aðstoð til handa flugfarþegum sem hefur verið neitað um far eða farþegum sem verða fyrir því að flugi er aflýst eða miklar seinkanir verða á flugi. Reglugerðin gildir um farþega sem fljúga til eða frá flugvelli innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin felur í sér aukna neyendavernd en hún kemur í stað reglugerðar ráðsins 259/91.
    Flugmálastjórn Íslands fer með eftirlit með framkvæmd loftferðalaga og reglugerða settra á grundvelli þeirra.
    
Rannsóknar- og eftirlitsheimildir lögbærra stjórnvalda.
    Í 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er nánar kveðið á um þær lágmarksrannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld eiga að hafa. Samkvæmt ákvæðinu skulu heimildirnar í fyrsta lagi fela í sér heimild stjórnvalds til að fá aðgang að hvers konar viðeigandi skjölum, í hvaða formi sem er, sem tengjast viðkomandi broti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í öðru lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimildir til að krefjast þess af hvaða einstaklingi sem er að hann leggi fram viðeigandi upplýsingar í tengslum við brot innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að framkvæma vettvangsskoðun. Í fjórða lagi eiga lögbær stjórnvöld að hafa heimild til að krefjast þess skriflega að viðkomandi seljandi eða birgir láti af broti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í fimmta lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að fá hjá seljanda eða birgi, sem gerst hefur sekur um brot innan Evrópska efnahagssvæðisins, loforð um að hann láti af því broti og, eftir því sem við á, birta þau loforð. Í sjötta lagi skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að krefjast stöðvunar eða banns við öllum brotum innan Evrópska efnahagssvæðisins og, eftir því sem við á, birta þær ákvarðanir sem eru teknar. Loks skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að krefjast þess að brotlegur aðili greiði sekt ef hann fer ekki að ákvörðun sem er tekin.
    Í 11. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það að lögbærum stjórnvöldum beri að uppfylla skyldur sínar samkvæmt reglugerðinni eins og þau væru að vinna fyrir hönd neytenda í sínu eigin landi og að eigin frumkvæði eða að beiðni annars lögbærs yfirvalds í heimalandi sínu. Því munu íslensk stjórnvöld á grundvelli reglugerðarinnar geta beitt þeim rannsóknar- og eftirlitsheimildum sem þau hafa samkvæmt íslenskum lögum í málum sem varða brot á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem frumkvæði að rannsókn máls fellur innan ramma reglugerðarinnar. Þetta gildir einnig þó að það séu einungis neytendur í öðru landi en á Íslandi sem eru þolendur brotsins.
    Misjafnt er hvaða rannsóknar- og eftirlitsheimildir lögbær stjórnvöld hafa nú þegar samkvæmt lögum. Í ljósi þess að sumar heimildir reglugerðar um samvinnu um neytendavernd geta verið íþyngjandi fyrir borgarana er lagt til að lögbærum stjórnvöldum verði aðeins heimilað að beita þeim heimildum sem lagt er til að þeim verði veittar í frumvarpi þessu í þeim málum sem falla innan ramma reglugerðarinnar. Þó er lagt til að heimildir Neytendastofu verði almennar þar sem stofnunin fer með framkvæmd flestra laga á sviði neytendaverndar og gegnir hlutverki miðlægrar tengiskrifstofu.
    Verður nú gerð grein fyrir þeim rannsóknar- og eftirlitsheimildum sem lögbær stjórnvöld hafa samkvæmt núgildandi lögum og hvaða breytingar þarf að gera á einstökum lögum til að innleiða reglugerð um samvinnu um neytendavernd.
    
Löggjöf á sviði Neytendastofu.
    Þeir lagabálkar sem innleiða tilskipanir sem falla undir reglugerð (EB) nr. 2006/2004 heyra undir Neytendastofu. Þetta eru lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005, lög um húsgöngu og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, lög um neytendalán, nr. 121/1994, lög um alferðir nr. 80/1994, lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og lög um neytendakaup, nr. 48/2003. Neytendastofa þarf að hafa rannsóknar- og eftirlitsheimildir þær sem lögbærum stjórnvöldum ber að hafa, sbr. 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd, til að framfylgja ákvæðum framangreindra laga sem innleiða tilskipanir sem falla undir reglugerð um samvinnu um neytendavernd. Þegar litið er nánar á eðli og efni fyrrtalinna laga er ljóst að ákvæði laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og laga um neytendakaup eru einkaréttarlegs eðlis og að Neytendastofa fer ekki með framkvæmd þeirra. Því verður að telja óþarfi að gerðar séu breytingar á þeim lögum. Eftir stendur að festa verður þær lágmarksrannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa í önnur framantalin lög.
    
Lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gangsæi markaðarins.
    Ákvæði tilskipunar 84/340/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um villandi auglýsingar og samanburðarauglýsingar og tilskipunar 97/55/EB um breytingu á tilskipun 84/450/EBE þannig að hún taki einnig til samanburðarauglýsinga eru innleidd í íslenskan rétt með lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005.
    Þegar farið er yfir þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem Neytendastofa hefur samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins sést að Neytendastofa hefur nú þegar flestar heimildir sem kveðið er á um að lögbært stjórnvald skuli hafa í reglugerðinni.
    Þannig hefur stofnunin á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laganna heimild til að grípa til aðgerða gegn athöfnum sem brjóta í bága við ákvæði laganna um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og geta aðgerðir Neytendastofu falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Verður að telja að þar með hafi stofnunin yfir að ráða heimildum samkvæmt d- og f-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd, en samkvæmt þeim ákvæðum skulu lögbær stjórnvöld hafa heimild til að krefjast þess skriflega að viðkomandi seljandi eða birgir láti af broti innan Evrópska efnahagssvæðisins og geta krafist stöðvunar eða banns við öllum brotum innan Evrópska efnahagssvæðisins og, eftir því sem við á, birta þær ákvarðanir sem eru teknar.
    Í 22. gr. laganna um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er Neytendastofu veitt heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum. Því hefur stofnunin heimildir samkvæmt g-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar þar sem þess er krafist að lögbær stjórnvöld hafi heimild til að krefjast þess að brotlegur aðili greiði sekt ef hann fer ekki að ákvörðun sem er tekin.
    Í e-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að lögbært stjórnvald skuli hafa heimild til að fá hjá seljanda eða birgi, sem gerst hefur sekur um brot innan Evrópska efnahagssvæðisins, loforð um að hann láti af því broti og, eftir því sem við á, að birta þau loforð. Ekkert ákvæði í lögum um óréttmæta viðskiptahætti kveður á um slíka heimild, en stofnunin hefur hins vegar heimild á grundvelli stjórnsýslulaga til að gera sátt við aðila sem gerst hefur brotlegur gegn ákvæðum þeirra laga sem stofnunin hefur eftirlit með í formi stjórnsýsluákvörðunar. Því er ekki talið að innleiða þurfi ákvæðið sérstaklega.
    Í 1. mgr. 20. gr. lagana er að finna heimild fyrir Neytendastofu til að krefja þá sem lögin taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Heimildin nær til þess að krefjast bæði munnlegra og skriflegra upplýsinga og getur stofnunin sett aðilum frest til að skila upplýsingunum. Þá getur Neytendastofa samkvæmt 2. mgr. 20. gr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar frá þeim aðilum sem lögin taka til. Loks getur Neytendastofa á grundvelli 3. mgr. greinarinnar krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum. Á grundvelli þessa verður að telja að stofnunin hafi yfir að ráða heimildum samkvæmt a- og b-liðum 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004 um samvinnu um neytendavernd.
    Það er hins vegar ljóst að í lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins eru Neytendastofu ekki veittar þær lágmarksheimildir sem kveðið er á um í c-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd, en þar er kveðið á um heimild til að framkvæma vettvangsskoðun. Í I. kafla frumvarpsins eru því lagðar til breytingar sem ráða eiga bót á þessu. Þá er lagt til að sett verði í lögin ákvæði um heimild til upplýsingaskipta, en ákvæði 6. og 7. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd gera ráð fyrir að lögbær stjórnvöld á Íslandi veiti erlendum lögbærum stjórnvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða hvort brot hefur átt sér stað. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 1. og 2. gr. frumvarpsins.
    
Lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002.
    Ákvæði tilskipunar 2000/31/EB um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti) eru innleidd í íslenskan rétt með lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002.
    Í 19. gr. laga um rafræn viðskipti er kveðið á um að Neytendastofa hafi eftirlit með að farið verði eftir nánar tilgreindum ákvæðum laganna. Jafnframt er kveðið á um að ef brotið er gegn ákvæðum þeim sem Neytendastofa hefur eftirlit með, gilda ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins um úrræði Neytendastofu, stjórnvaldssektir og málsmeðferð. Þar sem í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd verði festar í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er ekki þörf á að gera breytingar á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.
    
Lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000.
    Með lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga voru innleidd ákvæði tilskipunar 85/577/EBE um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga.
    Neytendastofa fer með eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Lagt er til að kveðið verði á um það í lögunum að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Þar sem í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd verði festar í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er ekki þörf á að gera breytingar á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga.
    
Lög um neytendalán, nr. 121/1994.
    Með lögum um neytendalán var innleidd tilskipun 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi neytendalán.
    Neytendastofa fer með eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Lagt er til að kveðið verði á um það í lögunum að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Þar sem í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd verði festar í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er ekki þörf á að gera breytingar á lögum um neytendalán.
    
Lög um alferðir, nr. 80/1994.
    Tilskipun 90/314/EBE um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðarpakka er innleidd með lögum um alferðir.
    Neytendastofa fer með eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Lagt er til að kveðið verði á um það í lögunum að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Þar sem í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd verði festar í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er ekki þörf á að gera breytingar á lögum um alferðir.
    
Lög um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997.
    Tilskipun 94/47/EB um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni er innleidd í íslenskan rétt með lögum um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis, nr. 23/1997. Í lögunum er ekki kveðið á um eftirlit með framkvæmd laganna að öðru leyti en því að í 9. gr. segir að viðskiptaráðherra fari með framkvæmd þeirra. Lagt er til að kveðið verði á um það að Neytendastofa fari með eftirlit með ákvæðum laganna. Þá er lagt til að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Þar sem í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd verði festar í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins er ekki þörf á að gera breytingar á lögum um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.
    
Löggjöf á sviði Fjármálaeftirlitsins.
    Lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005, heyra undir Fjármálaeftirlitið. Með lögunum var innleidd tilskipun 2002/65/EB um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur sem fellur undir reglugerð nr. 2006/2004.
    Í 20. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu segir að um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með framkvæmd laganna gildi ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Því verður að líta til þeirra laga um rannsóknar- og eftirltisheimildir Fjármálaeftirlitsins. Þegar farið er yfir þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem Fjármálaeftirlitið hefur á grundvelli laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, sést að stofnunin hefur nú þegar allar þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem kveðið er á um að lögbært stjórnvald skuli hafa í reglugerð um samvinnu um neytendavernd.
    Þannig er í 3. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kveðið á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að, í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt ákvæðum sérlaga, láta Fjármálaeftirlitinu í té allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg. Því hefur Fjármálaeftirlitið á grundvelli ákvæðisins fullnægjandi heimildir samkvæmt a- og b-liðum 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004. Þá verður að telja að stofnunin hafi einnig fullnægjandi heimildir samkvæmt c-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga frá eftirlitsskyldum aðilum.
    Í 1. mgr. 10. gr. laganna er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að krefjast þess að eftirlitsskyldur aðili sem ekki fylgir lögum og reglum sem gilda um starfsemi hans bæti úr innan hæfilegs frests. Verður að telja að þar með hafi stofnunin yfir að ráða heimildum samkvæmt d- og f-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004.
    Á grundvelli 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi getur Fjármálaeftirlitið lagt dagsektir á aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Þá getur stofnunin lagt févíti á aðila sem brjóta gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af stofnuninni. Því hefur Fjármálaeftirlitið fullnægjandi heimildir samkvæmt g-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.
    Um heimildir samkvæmt e. lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004 vísast til umfjöllunar hér að framan um lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en með þeim rökum sem þar koma fram er ekki talið að innleiða þurfi þetta ákvæði sérstaklega.
    Því þarf ekki að gera breytingar á rannsóknar- og eftirlitsheimildum Fjármálaeftirlitsins í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi vegna innleiðingar reglugerðar um samvinnu um neytendavernd.
    
Löggjöf á sviði útvarpsréttarnefndar.
    Framkvæmd útvarpslaga, nr. 53/2000, er í höndum útvarpsréttarnefndar, en tilskipun 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um sjónvarpsrekstur, sem fellur undir reglugerð nr. 2006/2004, er innleidd í íslenskan rétt í VI. kafla laganna þar sem fjallað er um auglýsingar, fjarsölu og kostun.
    Í 30. gr. útvarpslaga er kveðið á um heimildir útvarpsréttarnefndar til að leggja stjórnvaldssektir á útvarpsstöðvar fari þær ekki að fyrirmælum ákvæða VI. kafla laganna um auglýsingar, fjarsölu og kostun. Því hefur útvarpsréttarnefnd heimildir samkvæmt g-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um um samvinnu um neytendavernd.
    Um heimildir samkvæmt e-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004 vísast til umfjöllunar hér að framan um lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en með þeim rökum sem þar koma framer ekki talið að innleiða þurfi þetta ákvæði sérstaklega.
    Í útvarpslögum er ekkert almennt ákvæði sem heimilar útvarpsréttarnefnd að krefjast stöðvunar eða banns við broti gegn VI. kafla laganna, sbr. d- og f-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd. Þá er ekki að finna í lögunum ákvæði sem heimilar nefndinni að krefjast nauðsynlegra upplýsinga við athugun einstakra mála og gera vettvangsrannsókn í samræmi við a-, b- og c- lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004. Því þarf að lögfesta slík ákvæði og eru gerðar tillögur um það í 9. gr. frumvarpsins.
    
Löggjöf á sviði Flugmálastjórnar Íslands.
    Flugmálastjórn Íslands fer með framkvæmd laga um loftferðir, nr. 60/1998, en reglugerð (EB) 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða þegar mikil seinkun verður var innleidd með reglugerð nr. 574/2005, sem sett var með stoð í 126. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998.
    Þar sem reglugerð 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða þegar mikil seinkun verður hefur verið innleidd með reglugerð þykir eðlilegast að þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem Flugmálastjórn þarf að hafa til að framfylgja ákvæðum þeim sem innleiða Evrópugerðina verði settar í reglugerð. Því er lagt til að lögfest verði í 3. mgr. 126. gr. loftferðalaga heimild til að kveða nánar á um rannsóknar- og eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar Íslands í reglugerð.
    
Löggjöf á sviði Lyfjastofnunar.
    Framkvæmd lyfjalaga, nr. 93/1994, heyrir undir Lyfjastofnun, en lögin innleiða tilskipun 2001/83/EB um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum. Ákvæði 86.–100. gr. tilskipunarinnar um lyfjaauglýsingar falla undir reglugerð nr. 2006/2004 og eru þau innleidd í 13.–18. gr. í VI. kafla lyfjalaga.
    Í 18. gr. lyfjalaga er kveðið á um að Lyfjastofnun skuli hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum. Í ákvæðinu kemur fram að stofnunin getur bannað og/eða látið afturkalla tilteknar auglýsingar sem gefa rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um lyf. Þá getur stofnunin krafist þess að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar á sambærilegan hátt. Í 47. gr. laganna er kveðið á um þær aðgerðir sem Lyfjastofnun getur beitt til að knýja á um úrbætur og framkvæmd ráðstöfunar eða vegna brota á lögunum. Getur stofnunin veitt áminningu, frest til úrbóta, beitt dagsektum og stöðvað eða takmarkað starfsemi eða notkun, m.a. lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Því er ljóst að Lyfjastofnun hefur heimildir samkvæmt d-, f- og g-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um um samvinnu um neytendavernd.
    Um heimildir samkvæmt e-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004 vísast til umfjöllunar hér að framan um lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en með þeim rökum sem þar koma fram er ekki talið að innleiða þurfi þetta ákvæði sérstaklega.
    Lyfjastofnun hefur hins vegar ekki heimildir til að krefjast upplýsinga við rannsókn mála, sbr. a- og b-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004. Þá hefur stofnunin ekki heimild til að gera vettvangsskoðun. Í 11. grein frumvarpsins er því lagt til að Lyfjastofnun fái framangreindar heimildir þegar stofnunin framfylgir ákvæðum 13.–18. gr. lyfjalaga.
    Rétt er að árétta að gert er ráð fyrir að auk þeirra sérstöku heimilda sem Lyfjastofnun eru færðar með frumvarpi þessu mun stofnunin áfram geta beitt öllum þeim þvingunarúrræðum sem kveðið er á um í 47. gr. lyfjalaga þegar um brot á ákvæðum 13.–18. gr. þeirra er að ræða.
    
Ákvæði um upplýsingagjöf.
    Í 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 2006/2004 er fjallað um upplýsingaskipti milli lögbærra stjórnvalda. Er gert ráð fyrir að lögbær stjórnvöld á Íslandi veiti erlendum lögbærum stjórnvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða hvort brot hefur átt sér stað. Þá hvílir samkvæmt reglugerðinni skylda á lögbærum stjórnvöldum til að tilkynna lögbærum stjórnvöldum annarra ríkja ef þeim verður kunnugt um brot innan EES-svæðisins eða þau hafa rökstuddan grun um slíkt brot. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að setja ákvæði sem heimila upplýsingaskipti í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, lyfjalög og útvarpslög auk þess sem gera þarf breytingu á loftferðalögum vegna þessa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði við lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins ákvæði sem heimilar Neytendastofu að gera athuganir á starfsstöðvum þeirra sem lögin taka til að uppfylltum ákveðnum skilyrðum við rannsókn máls. Er breytingin nauðsynleg vegna innleiðingar reglugerðar um samvinnu um neytendavernd, en í c-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að lögbær stjórnvöld skuli hafa heimild til að gera vettvangsrannsóknir. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði samkeppnislaga um vettvangsrannsókn að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að Neytendastofa geti lagt hald á gögn við vettvangsrannsókn. Fram að gildistöku laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins 1. júlí 2005 voru ákvæði laganna hluti samkeppnislaga og því var heimilt að framkvæma athuganir á starfsstöð þeirra sem lögin tóku til við rannsókn á meintum brotum á ákvæðum laganna.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að Neytendastofa geti við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöðvum þeirra sem lögin taka til í þeim tilvikum þar sem ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins eða ákvörðunum Neytendastofu.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að við framkvæmd aðgerða skuli fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum. Hefur sambærilegt ákvæði í samkeppnislögum verið túlkað svo í framkvæmd að nauðsynlegt sé að afla dómsúrskurðar áður en vettvangsrannsókn er gerð.
    Skilyrði fyrir beitingu heimilda til athugana á starfsstöðvum eru mjög ströng og er ætlunin að tryggja að heimildinni sé beitt á málefnalegum forsendum og aðeins þegar ríkar ástæður eru til.
    

Um 2. gr.


    Í 6. og 7. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd er gert ráð fyrir að lögbær stjórnvöld á Íslandi veiti erlendum lögbærum stjórnvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða hvort brot hefur átt sér stað. Þá hvílir samkvæmt reglugerðinni skylda á lögbærum stjórnvöldum til að tilkynna lögbærum stjórnvöldum annarra ríkja ef þeim verður kunnugt um brot innan EES-svæðisins eða þau hafa rökstuddan grun um slíkt brot. Í ljósi þessa er lagt til að sett verði í lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins ákvæði um heimild til upplýsingaskipta. Sambærilegt ákvæði er nú í samkeppnislögum.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 17. gr. laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga þar sem kveðið verði á um að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Ef tillögur frumvarps þessa ná fram að ganga mun Neytendastofa hafa allar þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að í 2. málsl. 25. gr. laga um neytendalán verði kveðið á um það að lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Ef tillögur frumvarps þessa ná fram að ganga mun Neytendastofa hafa allar þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að bætt verði nýrri málsgrein við 17. gr. laga um alferðir þess efnis að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Ef tillögur frumvarps þessa ná fram að ganga mun Neytendastofa hafa allar þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Um 6. gr.


     Lagt er til að tveimur greinum verði bætt við lög um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í 10. gr. verði kveðið á um að Neytendastofa annist eftirlit með ákvæðum laganna. Þá er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði þar sem kveðið er á um að ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gildi um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð. Ef tillögur frumvarps þessa ná fram að ganga mun Neytendastofa hafa allar þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem lögbær stjórnvöld verða að hafa á grundvelli 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Þá er lagt til að í 10. gr. verði kveðið á um að ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laganna verði skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
    Í öðru lagi er lagt til að í 11. gr. verði kveðið á um að Neytendastofa geti lagt bann við athöfnum sem brjóta í bága við ákvæði laganna. Þá er lagt til að Neytendastofa fái heimild til að leggja dagsektir á aðila sem brjóta gegn ákvörðun sem stofnunin tekur á grundvelli 1. mgr. 11. gr. Lagt er til að dagsektir geti numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.

    Um 7. gr.


    Í 6. og 7. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd er gert ráð fyrir að lögbær stjórnvöld á Íslandi veiti erlendum lögbærum stjórnvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða hvort brot hefur átt sér stað. Þá hvílir samkvæmt reglugerðinni skylda á lögbærum stjórnvöldum til að tilkynna lögbærum stjórnvöldum annarra ríkja ef þeim verður kunnugt um brot innan EES-svæðisins eða þau hafa rökstuddan grun um slíkt brot. Í ljósi þessa er lagt til að sett verði í lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi ákvæði um heimild til upplýsingaskipta. Sambærilegt ákvæði er nú í samkeppnislögum.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á kaflaheiti IV. kafla laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 8. gr. frumvarpsins um að bæta nýju ákvæði um upplýsingaskipti lögbærra stjórnvalda við kaflann.

Um 9. gr.


    Í greininni er lagt til að bætt verði við útvarpslög ákvæði þar sem lögfestar verði þær heimildir sem nefndin hefur ekki samkvæmt núgildandi lögum, en nauðsynlegt er að hún hafi vegna innleiðingar reglugerðar um samvinnu um neytendavernd.
    Lagt er til að í ákvæðinu verði í fyrsta lagi kveðið á um heimild útvarpsréttarnefndar til að krefja leyfishafa um skriflegar upplýsingar vegna ætlaðra brota hans á ákvæðum VI. kafla laganna. Getur nefndin ákveðið að upplýsingarnar skuli veittar innan hæfilegs frests. Veitir ákvæðið útvarpsréttarnefnd heimildir í samræmi við a- og b-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004. Í öðru lagi er lagt til að útvarpsréttarnefnd geti lagt bann við útsendingu efnis sem telst andstætt ákvæðum VI. kafla útvarpslaga. Með ákvæðinu er lagt til að útvarpsréttarnefnd verði veittar heimildir í samræmi við d- og f-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd. Í þriðja lagi er lagt til að útvarpsréttarnefnd geti gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð leyfishafa eða stað þar sem gögn eru varðveitt, þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn 7.–14. gr. útvarpslaganna. Jafnframt er lagt til að við framkvæmd aðgerða skuli fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum. Hefur sambærilegt ákvæði í samkeppnislögum verið túlkað svo í framkvæmd að nauðsynlegt sé að afla dómsúrskurðar áður en vettvangsrannsókn er gerð. Skilyrði fyrir beitingu heimilda til athugana á starfsstöðvum eru mjög ströng og er ætlunin að tryggja að heimildinni sé beitt á málefnalegum forsendum og aðeins þegar ríkar ástæður eru til.
    

Um 10. gr.


    Í 6. og 7. gr. reglugerðar um samvinnu um neytendavernd er gert ráð fyrir að lögbær stjórnvöld á Íslandi veiti erlendum lögbærum stjórnvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða hvort brot hefur átt sér stað. Þá hvílir samkvæmt reglugerðinni skylda á lögbærum stjórnvöldum til að tilkynna lögbærum stjórnvöldum annarra ríkja ef þeim verður kunnugt um brot innan EES-svæðisins eða þau hafa rökstuddan grun um slíkt brot. Í ljósi þessa er lagt til að sett verði í útvarpslög ákvæði um heimild til upplýsingaskipta við framkvæmd ákvæða VI. kafla laganna. Svipað ákvæði er nú í samkeppnislögum.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á ákvæðum 3. mgr. 126. gr. loftferðalaga en í málsgreininni segir að nánar skuli í reglugerð kveðið á um bætur vegna umframskráningar og niðurfellingar flugs og um frávísun farþega, fyrirkomulag bótagreiðslna, ferðatilhögun, upphæð bóta og aðrar úrbætur til handa farþega.
    Lagt er til að lögfest verði heimild til að kveða á um fleiri atriði í reglugerð, þ.e. heimildir Flugmálastjórnar Íslands til að tryggja eftirfylgni slíkra reglna, svo sem með hvers konar upplýsingaöflun, vettvangsskoðun, heimildum til að stöðva brot og að krefjast þess að látið sé af brotum, auk birtingar slíkra ákvarðana eftir því sem við á, og um ákvæði um heimild Flugmálastjórnar til að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja nauðsynlegar upplýsingar og gögn.

Um 12. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði heimild Lyfjastofnunar til að krefja einstaklinga og lögaðila um upplýsingar vegna ætlaðra brota á ákvæðum 13.–17. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að stofnunin geti veitt ákveðinn frest til upplýsingagjafarinnar. Veitir ákvæðið Lyfjastofnun heimildir í samræmi við a- og b-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004.
    Þá er lagt til að Lyfjastofnun geti gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð eða stað þar sem gögn eru varðveitt, þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn 13.–17. gr. lyfjalaga og veitir það Lyfjastofnun heimild í samræmi við c-lið 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 2006/2004. Jafnframt er lagt til að við framkvæmd aðgerða skuli fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum. Hefur sambærilegt ákvæði í samkeppnislögum verið túlkað svo í framkvæmd að nauðsynlegt sé að afla dómsúrskurðar áður en vettvangsrannsókn er gerð. Skilyrði fyrir beitingu heimilda til athugana á starfsstöðvum eru mjög ströng og er ætlunin að tryggja að heimildinni sé beitt á málefnalegum forsendum og aðeins þegar ríkar ástæður eru til.


13. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.


Fylgiskjal.
    


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd og er vísað í kostnaðarumsögn með því frumvarpi. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum sem nauðsynlegt er talið að þurfi að breyta svo að af innleiðingu áðurnefnds frumvarps um neytendavernd geti orðið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki annað séð en að útgjöld ríkissjóðs vegna þess verði óveruleg og muni rúmast innan útgjaldaramma fjárlaga.