Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 619. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 919  —  619. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2006.

1. Inngangur.
    Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) er margþætt, en Íslandsdeildin vill draga fram það sem hún telur mikilvægast í starfi sambandsins. Fyrst ber að nefna að sjaldan hefur verið meiri þörf á umræðum og skoðanaskiptum á milli menningarheima. Alþjóðaþingmannasambandið er eini vettvangurinn þar sem þingmenn frá nær öllum ríkjum heims geta rætt saman, skiptst á skoðunum og reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu. Á slíkum fundum takast kynni með fólki frá ólíkum þingum og mikilvægt er að nýta vel þau tækifæri sem þar bjóðast og vinna markvisst að því að efla tengslin við þing frá fjarlægum menningarsvæðum. Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og nýjar hugmyndir að lausn mála.
    Næst ber að nefna starf IPU til að efla lýðræði. Það er ljóst að mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum IPU, en jafnframt vinnur sambandið mjög þarft starf á milli þinga. Námskeið eru haldin fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, stundum í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðastofnun. Sem dæmi um námskeið sem haldin voru árið 2006 má nefna námsstefnu í Víetnam fyrir þjóðþing í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu um úrræði þinga á sviði barnaverndar, ráðstefnu fyrir kvenkyns þingmenn í Flóaríkjunum sem haldin var í Bahrein og námsstefna fyrir þingmenn sem sitja í mannréttindanefndum sem haldin var í Genf. IPU veitir jafnframt einstökum þingum tæknilega aðstoð og þjálfun. Þá gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Það er mikilvægt fyrir lýðræðisríki að styðja vel við þessa starfsemi alla.
    Í þriðja lagi vill Íslandsdeildin benda á nefnd sem starfar innan IPU um mannréttindi þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi lönd, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til einhver niðurstaða fæst. Sem dæmi má nefna mál Victors Gonchar, þingmanns frá Hvíta- Rússlandi, sem hvarf sporlaust fyrir sjö árum, en rannsókn málsins þykir mjög ábótavant. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar. Vanda þarf val þingmanna í þessa nefnd og mikilvægt er að þeir hafi þekkingu og reynslu á sviði mannréttindamála. Á árinu 2006 þurfti að kjósa nýjan fulltrúa Tólf-plús hópsins í nefndina og stóð þá valið á milli þýsks þingmanns og þingmanns frá Hvíta-Rússlandi, en sá fyrrnefndi náði kjöri.
    Alþjóðaþingmannasambandið tekur á þingum sínum hverju sinni fyrir mál sem eru á dagskrá alþjóðasamfélagsins, oft mál sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum. Að venju tók hver fastanefnd þingsins fyrir eitt mál á hvoru þingi ársins 2006, þannig að ekkert eitt mál var efst á baugi. Þó má segja að hjá Íslandsdeildinni hafi eitt mál verið fyrirferðarmest. Ásta Möller hafði verið valin til að skrifa skýrslu og ályktunardrög fyrir 1. nefndina um orkuöryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum sem var lögð fram á haustþinginu. Meðhöfundur Ástu var þingmaður frá Suður-Afríku. Verkefnið var vandasamt og fyrirfram talið að erfitt gæti verið að ná samstöðu um þessi mál, en skýrsluhöfundar hlutu mikið lof fyrir vinnu sína. Lesa má frekar um lokaályktun þingsins síðar í skýrslunni.
    
2. Almennt um Alþjóðaþingmannasambandið.
    Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu (IPU) eiga nú 148 þing en aukaaðilar að sambandinu eru sjö svæðisbundin þingmannasamtök. Hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum og hlúa að samstarfi þeirra. IPU fjallar um alþjóðamál og samþykkir ályktanir um þau og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Alþjóðaþingmannasambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar Alþjóðaþingmannasambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
    1. nefnd: friðar- og öryggismálanefnd;
    2. nefnd: nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál;
    3. nefnd: nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis. Alþjóðaþingmannasambandið gefur reglulega út bækur, tímarit, handbækur og skýrslur sem nálgast má á skrifstofu Íslandsdeildarinnar og á vefsíðu IPU, www.ipu.org.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Nefndir og vinnuhópar sem starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins skila skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna.

3. Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Íslandsdeild var í upphafi árs skipuð Ástu Möller, formanni, þingflokki sjálfstæðismanna, Kristjáni L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, og Hjálmari Árnasyni, varaformanni, þingflokki framsóknarmanna. Varamenn voru Bjarni Benediktsson, þingflokki sjálfstæðismanna, Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki framsóknarmanna. Ný Íslandsdeild var kjörin í upphafi 133. þings, þann 2. október sl., en eina breytingin sem varð á skipan hennar var að Guðjón Ólafur Jónsson tók við sem varamaður fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna í stað Magnúsar. Ritari Íslandsdeildar var Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur undir þátttöku í þingum IPU.

4. Svæðisbundið samstarf innan IPU.
Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist svokallaður Tólfplús-hópur sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU valdir. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum.
    Á vorþinginu var starfsreglum hópsins breytt lítillega. Umdeildari breytingartillögur voru ræddar en ákveðið var að bíða til haustsins með afgreiðslu þeirra. Þjóðverjar vildu að þýska yrði eitt af vinnumálum hópsins, þannig að á öllum fundum yrði túlkað á og úr þýsku, auk ensku og frönsku. Töluverð andstaða var við þessa tillögu. Þá var rætt um að breyta nafni Tólfplús-hópsins og voru mjög skiptar skoðanir á því máli, sérstaklega hvort nafnið eigi að vísa til Evrópu eins og sum ESB-ríki vilja, þó að í hópnum séu jafnframt lönd á borð við Kanada og Ástralía. Þá var rætt nokkuð um fjáröflunarstarf IPU, en starfsmaður hefur verið ráðinn til að sinna fjáröflun frá utanaðkomandi aðilum. Féð á að nýta í margvísleg verkefni IPU á sviði lýðræðisuppbyggingar og mannréttindamála. Fannst fundarmönnum almennt mikilvægt að auka aðkomu þingmanna að verkefnastarfi IPU sem oft virðist eiga sér sjálfstætt líf. Þá lýstu margir fulltrúar áhyggjum af vinnuhópi forseta IPU um breytingar á starfi samtakanna. Hann hefði aðallega fengið þingforseta í vinnuhópinn, en ekki fólk sem þekkti starfsemi IPU. Var lögð áhersla á mikilvægi þess að svæðishóparnir innan IPU fengju fulltrúa í nefndinni og var það síðar samþykkt af forsetanum.
    Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna mætti á fund hjá Tólfplús-hópnum til að ræða fuglaflensuna og viðbrögð ríkja við henni. Vildi hann heyra álit þingmanna á starfi Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og hvernig einstök ríki hefðu brugðist við hættunni. Kom fram að flest Evrópuríki eru vel undirbúin, en í Afríku hefur víða lítil undirbúningsvinna átt sér stað. T.d. ætti í Afríku víðast hvar eftir að þróa áætlanir til að borga bætur vegna fugla sem þyrfti að aflífa og væri því mjög hætt við að fólk mundi fela fiðurfé sitt til að missa ekki aleiguna. Í umræðum var lögð áhersla á að vandinn væri hnattrænn og að aðstoða yrði þau lönd sem ættu erfitt með að taka á þessu vandamáli. Þingmenn voru hvattir til að kalla ríkisstjórnir til ábyrgðar, m.a. með því að kalla ráðherra fyrir þingnefndir, óska eftir skýrslu um áætlanir ríkisstjórna o.s.frv. Ásta Möller tók þátt í umræðunum og lagði m.a. áherslu á að ekki mætti vekja ofsahræðslu hjá almenningi með því að blása vandann upp, þó að vissulega væri mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir.
    Á haustþinginu var fjallað um tvær tillögur til breytinga á starfsreglum hópsins sem ekki voru afgreiddar á vorþinginu. Í fyrsta lagi lá fyrir tillaga um að á fundum hópsins yrði framvegis möguleiki á að túlka á fleiri tungumál en ensku og frönsku og var sú tillaga felld. Í öðru lagi lá fyrir tillaga um að breyta nafni hópsins og lágu ýmsar tillögur fyrir í því sambandi, t.d. vestræni hópurinn og Evrópuhópurinn. Því var ákveðið að greiða fyrst um það atkvæði hvort yfirhöfuð ætti að breyta nafni hópsins og var sú tillaga felld. Því duttu tillögur um nýtt nafn um sig sjálfar. Þess má geta að Ísland sat hjá við atkvæðagreiðsluna, en innan norræna hópsins var ekki samstaða og greiddu Danir og Finnar atkvæði með tillögunni, en Norðmenn og Svíar á móti. Spennandi kosningar fóru fram um nýjan formann hópsins. Tveir þingmenn voru í framboði, þeir John Austin frá Bretlandi og Robert del Picchia, franskur öldungadeildarþingmaður. Á síðasta degi þingsins fór leynileg kosning fram á morgunfundi hópsins. 76 greiddu atkvæði sem féllu þannig að del Picchia fékk 37 atkvæði, Austin 38 og einn atkvæðaseðill var auður. Austin var því réttkjörinn formaður hópsins og tók við eftir lok þingsins í Genf. Þess má geta að íslensku þingmennirnir studdu Austin.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Finnar í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Helsinki 6.–7. apríl og sá síðari í Valamo i 21.–22. september 2005. Ritari sótti báða fundina fyrir hönd Íslandsdeildar.
.
5. Störf og ályktanir 114. þings IPU.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið, sem haldið var í Nairóbí dagana 6.–12. maí, Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason og Belinda Theriault, ritari Íslandsdeildar. Fulltrúar 118 þjóðþinga tóku þátt í þinghaldinu. Auk þess sóttu þingið fulltrúar svæðisþinga sem eiga aukaaðild að IPU og fjölmargir áheyrnarfulltrúar frá stofnunum og samtökum.
    Við setningu þingsins fluttu eftirfarandi aðilar ávörp: þingforseti Kenía, fulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, varaforseti IPU og forseti Kenía. Síðar á þinginu fluttu utanríkisráðherra Kenía og nóbelsverðlaunahafinn Wangari Maathai erindi. Utanríkisráðherrann ræddi m.a. málefni grannríkisins Sómalíu og lagði áherslu á mikilvægi aðstoðar alþjóðasamfélagsins við tilraunir til að byggja þar upp lýðræði. Nóbelsverðlaunahafinn Maathai lagði m.a. áherslu á réttláta og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.
    Pallborðsumræður fóru fram um tvö mál sem voru valin með tilliti til staðsetningar þingsins. Annars vegar fóru fram umræður um þróun Afríku og hins vegar um HIV/eyðni og börn, en þar var rætt um forvarnir, meðferð sjúkdómsins og vernd munaðarleysingja og barna í áhættuhópum.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Hér er aðeins sagt lítillega frá samþykktum ályktunum, en nálgast má heildartextann á alþjóðasviði og á heimasíðu IPU.
    Í 1. nefnd um frið og alþjóðleg öryggismál var rætt um hlutverk þjóðþinga til að stemma stigu við sölu léttra vopna og skotfæra og auka eftirlit með slíkri sölu. Ásta Möller tók þátt í starfi nefndarinnar. Í lokaályktun er hvatt til margvíslegra aðgerða til að stemma stigu við sölu slíkra vopna, m.a. með viðeigandi lagasetningu þjóðþinga.
    2. nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál fjallaði um hlutverk þjóðþinga við stjórnun umhverfismála og í baráttunni gegn hnattrænum umhverfisspjöllum. Hjálmar Árnason tók þátt í störfum nefndarinnar. Í lokaályktun eru þing m.a. hvött til að tryggja þátttöku þingmanna í sendinefndum ríkisstjórna á alþjóðlega fundi um umhverfismál. Jafnframt er lagt til að Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) setji saman lista yfir markmið á sviði umhverfismála með sama hætti og gert var á sviði þróunarmála.
    Í 3. nefnd um lýðræði og mannréttindi var fjallað um leiðir þjóðþinga til að berjast gegn ofbeldi gegn konum. Kristján L. Möller tók þátt í störfum nefndarinnar. Í lokaályktun eru þing, ríkisstjórnir og frjáls félagasamtök m.a. hvött til að vekja athygli almennings á þessu vandamáli með margvíslegum aðgerðum og farið er fram á að þjóðþing tryggi fjárveitingar til að uppræta ofbeldi gegn konum. Jafnframt er farið fram á að þing endurskoði löggjöf með það í huga að koma auga á venjur og hefðir sem vinna gegn jafnrétti.
    Nokkrar tillögur um neyðarumræður lágu fyrir þinginu, en allar nema ein voru dregnar til baka þegar ljóst var að almennur vilji þingfulltrúa var að styðja tillögu Afríku-hópsins um ályktun um brýna þörf fyrir matvælaaðstoð til að berjast gegn hungursneyð af völdum þurrka og fátæktar í Afríku. Í ályktuninni er því beint til iðnríkja að hraða aðstoð við Afríku og auka hana umtalsvert. Lögð er áhersla á að aðstoðin nái þangað sem neyðin er stærst.
    Þess má geta að formaður og ritari áttu í Nairóbí tvo fundi með fulltrúum Suður-Afríku þar sem efnistök skýrslunnar um orkuöryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum voru rædd.

6. Störf og ályktanir 115. þings IPU.
    115. þing IPU var haldið í Genf 15.–18. október 2006. Í forföllum þingmanna Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Jón Kristjánsson og Rannveig Guðmundsdóttir, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar.
    Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðabankans, hélt ræðu á þinginu og svaraði spurningum þingmanna. Hann sagði að efst á baugi í þróunarmálum væri að takast á við skuldir, fátækt og spillingu. Hann minnti á að 100 milljónir barna fengju enga skólagöngu og að í Afríku sunnan Sahara hefði fjöldi þeirra sem lifa undir fátæktarmörkum tvöfaldast á árunum 1981–2002 og væri nú helmingur allra íbúa. Þó taldi hann ástæðu til nokkurrar bjartsýni, því teikn væru á lofti um framfarir í Afríku og tækifærum þar væri að fjölga. Hann nefndi Rúanda og Mósambík sem dæmi um lönd þar sem efnahagslegar framfarir væru sýnilegar. Wolfowitz lagði áherslu á að mannauðurinn væri mikill í Afríku, en fólkið þyrfti tækifæri. Hann ræddi um nauðsynlegar umbætur á lagaumhverfinu í mörgum Afríkuríkjum til að laða að fjárfestingu, mikilvægi gegnsæis í stjórnkerfum landanna og upprætingu spillingar. Hann sagði að Alþjóðabankinn ynni náið með þjóðþingum margra samstarfsríkja á þessum sviðum og taldi t.d. mikilvægt að setja alls staðar lög gegn peningaþvætti til þess að gera einræðisherrum og öðrum skúrkum erfiðara fyrir að fela peninga erlendis. Hann ræddi jafnframt mikilvægi þess að fella niður skuldir fátækra ríkja, en lagði einnig áherslu á að fátt skaðaði fátækasta fólkið í þróunarríkjum meira en niðurgreiðslur í landbúnaði til ríkra bænda á Vesturlöndum. Í umræðum um stöðu kvenna tók Wolfowitz fram að Alþjóðabankinn vildi ekki þröngva vestrænum gildum upp á aðrar þjóðir, en það væri ljóst að ef konur væru ekki virkir þátttakendur í atvinnulífinu og samfélaginu almennt hefði það neikvæð áhrif á allt þjóðfélagið og möguleika þess til uppbyggingar.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Jón Kristjánsson tók þátt í störfum 1. nefndar um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um samstarf Sameinuðu þjóðanna og þjóðþinga í baráttunni gegn hryðjuverkum og fyrir orkuöryggi. Ásta Möller hafði ásamt þingmanni frá Suður- Afríku skrifað skýrslu um þessi mál ásamt ályktunardrögum sem voru grundvöllur umræðunnar í nefndinni. Skýrslan hlaut mikið lof þingmanna í nefndinni. Hún þótti vönduð og til þess fallin að gera þingmönnum auðveldara að ná samstöðu um þessi umdeildu mál. Vissulega komu upp ágreiningsefni í meðförum nefndarinnar, en þau snerust aðallega um ágreining Ísraelsmanna og Palestínumanna, m.a. um skilgreiningu á hryðjuverkum. Fulltrúar Venesúela lýstu sig reyndar alfarið á móti ályktuninni. Í lokaályktun eru hryðjuverk í öllum myndum fordæmd og hryðjuverkamenn fordæmdir sem ótíndir glæpamenn. Þjóðþing eru hvött til að styðja undirbúning sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og að þrýsta á stjórnvöld til að ná samstöðu innan alþjóðasamfélagsins á skilgreiningu hryðjuverka. Bent er á að orkulindir og mannvirki á sviði orkumála séu í mörgum tilfellum freistandi skotmörk hryðjuverkamanna og jafnframt að orkuþörfin fari enn vaxandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Farið er fram á frekari umfjöllun alþjóðasamfélagsins um orkumál í alþjóðlegu samhengi og tengsl orkuöryggis og hryjuverkaógnarinnar og lögð er áhersla á aðkomu þjóðþinga að þeirri umræðu. Þjóðþing eru hvött til að setja lög sem hygla endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku og jafnframt er hvatt til aðstoðar við þróunarríki á sviði endurnýjanlegrar orku og aðgangs að nútímalegri orkuþjónustu.
    Rannveig Guðmundsdóttir tók þátt í störfum 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál. Nefndin fjallaði um hlutverk þjóðþinga þegar kemur að því að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega hvað varðar skuldavandann og útrýmingu fátæktar og spillingar. Í lokaályktun eru þjóðþing m.a. hvött til að sjá til þess að ríkisstjórnir standi við skuldbindingar sínar til að auka þróunaraðstoð í 0,7% í samræmi við þúsaldarmarkmiðin. Hvatt er til samstarfs þjóðþinga í baráttunni gegn spillingu og farið fram á að Doha-viðræðurnar fari í gang aftur. Þá eru þjóðþing hvött til að íhuga lækkun fjárveitingar til hermála og að fé verði frekar veitt til að uppfylla grundvallarþarfir borgaranna. Í ályktuninni eru margar tillögur settar fram um hvernig ná megi betri árangri í baráttunni gegn fátækt, bæði í þróunarlöndum og í ríkjum sem veita þróunaraðstoð.
    3. nefnd um lýðræði og mannréttindi fjallaði um fólk sem hefur horfið sporlaust. Í lokaályktun er lögð áhersla á rétt fjölskyldunnar til að fá upplýsingar um horfna ættingja. Hvatt er til lagasetningar í öllum ríkjum og tiltekin margvísleg atriði sem slík lagasetning þurfi að ná yfir. Farið er fram á að IPU vinni handbók fyrir þingmenn um þessi mál.
    Nokkrar tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Nokkrir drógu tillögur sínar til baka, en greiða þurfti atkvæði á milli tveggja tillagna. Önnur fjallaði um uppbyggingu Líbanons og var lögð fram af Arabaríkjum en hin fjallaði um kjarnorkutillögur Norður-Kóreu og var lögð fram af japönsku sendinefndinni. Ákveðið var í Tólfplús-hópnum að styðja tillögu Japana. Aldrei þessu vant náði hópurinn árangri í atkvæðagreiðslu um neyðarályktun og var japanska tillagan samþykkt. Í ályktun sem þingið samþykkti er tilkynning norður-kóreskra stjórnvalda frá 9. október 2006 um að kjarnorkutilraun hefði verið framkvæmd í trássi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1695 fordæmd. Norður-Kórea er hvött til að endurskoða ákvörðun sína um að segja sig frá samningum gegn útbreiðslu kjarnavopna, að framkvæma ekki frekari kjarnorkutilraunir og hætta þegar í stað við áætlun sína um þróun kjarnavopna. Þá er hvatt til þess að sex ríkja viðræðum verði fram haldið eins fljótt og auðið er með það markmið að Kóreuskagi verði kjarnavopnalaus. Öll ríki heims eru hvött til að auka viðleitni sína til að koma í veg fyrir flutning tækja, efna og tækni sem hægt er að nota til útbreiðslu kjarnavopna. Sendinefnd Norður-Kóreu á IPU-þinginu fór fram á atkvæðagreiðslu um ályktunina, en hún var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, þó að ýmsir hafi setið hjá og örfáir stutt Norður- Kóreu.
    Þess má geta að 30,5% þingfulltrúa á 115. þingi IPU voru konur, sem er betri árangur en náðist á 114. þingi (28,4%). 11 sendinefndir, eða 9,7% sendinefnda með fleiri en einn fulltrúa, voru einungis skipaðar körlum, en sendinefnd Dana skipuðu konur eingöngu sem þótti heldur ekki til fyrirmyndar.

7. Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU Council).
Ráðsfundir á 114. þingi.
    Ráð IPU kom tvívegis saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Paragvæ og Sómalía fengu endurinngöngu í IPU og Katar fékk inngöngu. Nefnd um mannréttindi þingmanna sem starfar innan IPU kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Bangladess, Hvíta- Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Indónesía, Líbanon, Malasía, Mongólía, Búrma, Pakistan, Palestína, Filippseyjar, Rúanda, Sri Lanka, Sýrland, Tyrkland og Simbabve.
    Rætt var um samstarf IPU og Sameinuðu þjóðanna. Minnt var á að á 61. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 2006 ætti að leggja fram ályktun um málið. Taldi ráðið mikilvægt að í ályktuninni yrði staða þingmannafundar sem haldinn er árlega í tengslum við allsherjarþingið fest í sessi og að hann yrði í framtíðinni haldinn sameiginlega af IPU og Sameinuðu þjóðunum, að samráð á milli IPU og stofnana Sameinuðu þjóðanna yrði formlegt og samstarf náið. Þingmenn voru hvattir til að koma skýrum skilaboðum á framfæri við utanríkisráðuneyti sín og fastanefndir í New York.

Ráðsfundir á 115. þingi.
    Ráð IPU kom þrisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Gambía, Palau og Svartfjallaland fengu inngöngu í IPU. Djíbútí var vikið úr IPU vegna vangoldinna árgjalda. Þá var ákveðið að víkja Tælandi tímabundið úr IPU þar sem ekkert þing er þar starfandi eftir nýlegt valdarán. Þessi ákvörðun leiddi af sér að ekki yrði hægt að halda vorþing IPU 2007 í Bangkok, eins og til stóð. Indónesía bauðst til að halda næsta þing og var það samþykkt með þeim fyrirvara að viðunandi aðstaða fyndist með svo skömmum fyrirvara.
    Drög að ályktun fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um samstarf Sameinuðu þjóðanna og IPU var samþykkt og voru landsdeildir hvattar til að vekja athygli fastanefnda í New York á henni og óska eftir stuðningi þeirra þegar drögin kæmu til afgreiðslu á allsherjarþinginu.
    Ráðið samþykkti niðurstöður vinnuhóps forseta IPU um breytingar á starfsemi samtakanna sem gengu út á að gera starfið skilvirkara. Meðal niðurstaðna vinnuhópsins má nefna að haustfundurinn verði minni í sniðum, með áherslu á ráðsfund og umræður um mál sem efst er á baugi innan Sameinuðu þjóðanna á hverjum tíma. Rætt er um að lengja kjörtímabil forseta IPU í fjögur ár og fjölga fundum framkvæmdastjórnar IPU.
    Kjósa þurfti um eitt sæti í nefnd um mannréttindi þingmanna á milli þingmanna frá Belgíu og Hvíta-Rússlandi, en sá fyrrnefndi vann kosninguna. Nefndin kynnti á ráðsfundinum skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kambódía, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Líbanon, Malasía, Mongólía, Búrma, Pakistan, Palestína/Ísrael, Filippseyjar, Rúanda, Sri Lanka, Tyrkland og Simbabve.
    
8. Aðrir fundir.
Fundur IPU um jafnréttismál, haldinn 1. mars í New York.
    Í tengslum við 50. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í New York stóð Alþjóðaþingmannasambandið fyrir þingmannafundi 1. mars, sem bar heitið „Jafnrétti kynjanna: framlag þjóðþinga“. Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, og Jóhanna Sigurðardóttir sátu fundinn, ásamt Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar. Jafnframt sat forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, fundinn, en hún sótti jafnframt fund kvenþingforseta sem skipulagður var af IPU. Í umræðum um leiðir til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum ræddi Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, hvernig kvennasamtök innan stjórnmálaflokka gætu hjálpað konum til áhrifa. Hún tók jafnframt þátt í umræðum um kynjakvóta og sagði skoðanir skiptar meðal stjórnmálaflokka á Íslandi um gildi þeirra. Í umræðum um samstarf karla og kvenna í jafnréttisbaráttunni sagði sendinefnd Alþingis frá fæðingarorlofslögum á Íslandi.
    Um 160 þingmenn frá 60 ríkjum sóttu þingmannafundinn. Meðal fundarmanna voru þingkonur frá Írak, en þetta var fyrsta tækifæri nýja írakska þingsins til að taka þátt í alþjóðlegum fundi af þessu tagi. Íslenskar þingkonur fengu tækifæri til að ræða við írakskar starfssystur sínar sem lögðu mikið áherslu á að ná tengslum við þingmenn annarra ríkja.
    Formaður og ritari Íslandsdeildar notuðu tækifærið í New York til að eiga fundi í tengslum við skýrsluskrif um orkuöryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum.

6.–9. júní, heimsókn til Bretlandsdeildar IPU .
    Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) heimsótti breska þingið dagana 6.–9. júní í boði Bretlandsdeildar IPU. Í sendinefndinni voru Ásta Möller, formaður, Kristján Möller og Arnbjörg Sveinsdóttir, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildar.
    Tilgangur heimsóknarinnar var að styrkja samskipti þinganna, eiga viðræður við breska þingmenn um margvísleg mál og kynna sér starfsemi breska þingsins. Íslenska sendinefndin fékk tækifæri til að fylgjast með fyrirspurnatíma forsætisráðherra í neðri deild breska þingsins og fylgdist með umræðum í lávarðadeildinni. Sendinefndin átti viðræður við fjölda breskra þingmanna sem sýndu Íslandi mikinn áhuga. Sérstaklega höfðu breskir þingmenn áhuga á stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, útrás íslenskra fyrirtækja og fjárfestingar í Bretlandi, afstöðu Íslands til ESB, sjávarútvegsmálum og umhverfismálum. Auk þess kynntu íslensku þingmennirnir framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, stöðu varnarmála á Íslandi og þátttöku Íslands í friðargæslustarfi. Þau ræddu jafnframt sameiginlega hagsmuni við að koma í veg fyrir sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg. Enn fremur var stjórnmálaástandið í báðum löndunum til umræðu, sem og starfshættir þinganna og starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins. Á fundum hitti sendinefndin meðal annarra Austin Mitchell sem spilaði stórt hlutverk í farsælum endi þorskastríðsins á sínum tíma, Jim Dowd sem hefur staðið fyrir áhugaverðum rannsóknum á samkeppnisstöðu á breskum matvælamarkaði og Sylviu Heal, varaforseta breska þingsins, auk fjölda annarra þingmanna úr báðum deildum breska þingsins.

9. Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2006.
9.1. Ályktanir 114. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þjóðþinga til að auka eftirlit með sölu léttra vopna og skotfæra.
     2.      Hlutverk þjóðþinga við stjórnun umhverfismála og í baráttunni gegn hnattrænum umhverfisspjöllum.
     3.      Leiðir þjóðþinga til að berjast gegn ofbeldi gegn konum.
     4.      Þörfin fyrir brýna matvælaaðstoð til að berjast gegn hungursneyð og fátækt af völdum þurrka í Afríku.

9.2. Ályktanir 115. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:

     1.      Samstarf Sameinuðu þjóðanna og þjóðþinga í baráttunni gegn hryðjuverkum og fyrir auknu orkuöryggi.
     2.      Umsjón þjóðþinga með framkvæmd þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega á sviði skuldavandans og útrýmingar fátæktar og spillingar.
     3.      Fólk sem hefur horfið sporlaust.
     4.      Kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu.


Alþingi, 7. febr. 2007.



Ásta Möller,


form.


Hjálmar Árnason,


varaform.

Kristján L. Möller.