Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 622. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 925  —  622. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2006.

1. Inngangur.
    Í starfi Norðurlandaráðs árið 2006 var megináhersla lögð á tvennt. Annars vegar skilgreiningu á stöðu og möguleikum Norðurlanda á alþjóðavísu, sem og stöðu ákveðinna svæða innan Norðurlanda, og hins vegar stöðu og hreyfanleika norrænna borgara og fyrirtækja innan Norðurlanda.
    Í samræmi við niðurstöður skýrslu um „Norðurlönd – sigursvæði á heimsvísu“ (Norden som global vinderregion) hófst vinna starfshóps um hvernig hægt væri að nýta sóknarfæri Norðurlanda í alþjóðlegri samkeppni.
    Staða sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja í opinberu norrænu samstarfi var til umfjöllunar í forsætisnefnd og á Norðurlandaráðsþingi vegna umsóknar Færeyja um fullgilda aðild að opinberu norrænu samstarfi.
    Norðurlandaráð tók þátt í verkefninu „Sambúð menningarheima“ (Co-existence of civilizations) sem fjallaði um hvernig leysa mætti menningarlega togstreitu meðal borgaranna og hvernig mætti koma í veg fyrir að slík togstreita skapaðist. Verkefninu var hleypt af stokkunum í kjölfar harðra deilna sem brutust út eftir að Jótlandspósturinn birti skopmyndir af Múhameð spámanni haustið 2005.
    Þá var áfram haldið umræðu um landamærahindranir einstaklinga og fyrirtækja. Rætt var hvort koma ætti á fót embætti umboðsmanns norrænna einstaklinga og fyrirtækja til að yfirstíga þær hindranir sem fyrir eru.
    Danir fóru með formennsku á starfsárinu 2006. Forseti Norðurlandaráðs var Ole Stavad og varaforseti Kristian Pihl Lorentzen.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna landanna fjögurra (ásamt sjálfstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert land skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa þinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi starfsársins 2006 skipuðu Íslandsdeildina þau Jónína Bjartmarz formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Drífa Hjartardóttir varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Ásta Möller, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sigurrós Þorgrímsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Þann 7. mars tók Siv Friðleifsdóttir, sem var varamaður í Íslandsdeild, sæti heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Íslands og 15. júní varð Jónína Bjartmarz, formaður Íslandsdeildar, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda. Drífa Hjartardóttir, varaformaður Íslandsdeildar, var starfandi formaður frá 15. júní til 5. október.
    Ný Íslandsdeild var kosin 2. október við upphaf 133. löggjafarþings. Tvær breytingar urðu á skipan aðalmanna þegar Sigríður A. Þórðardóttir tók við af Arnbjörgu Sveinsdóttur og Jón Kristjánsson af Jónínu Bjartmarz. Ein breyting varð á skipan varamanna, á þá leið að Arnbjörg Sveinsdóttir tók við af Bjarna Benediktssyni. Á fundi Íslandsdeildar 5. október var Sigríður A. Þórðardóttir kjörin formaður deildarinnar og Jón Kristjánsson varaformaður.
    Stígur Stefánsson alþjóðaritari var ritari Íslandsdeildar til 1. mars 2006 þegar Lárus Valgarðsson alþjóðaritari tók við því starfi.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2006 á 57. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Reykjavík 25. október til 27. október 2005. Eftir kosninguna var nefndarseta Íslandsdeildar sem hér segir: Jónína Bjartmarz, formaður Íslandsdeildar, og Rannveig Guðmundsdóttir sátu í forsætisnefnd. Drífa Hjartardóttir, varaformaður Íslandsdeildar, og Steingrímur J. Sigfússon áttu sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, Drífa sem formaður nefndarinnar og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Í menningar- og menntamálanefnd sat Arnbjörg Sveinsdóttir. Ásta R. Jóhannesdóttir átti sæti í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Í borgara- og neytendanefnd sat Kjartan Ólafsson. Kjartan átti einnig sæti í eftirlitsnefnd. Þegar Jón Kristjánsson tók sæti Jónínu Bjartmarz í Íslandsdeild Norðurlandaráðs tók hann sæti hennar í forsætisnefnd og þegar Sigríður A. Þórðardóttir tók við af Arnbjörgu Sveinsdóttur tók hún sæti hennar í menningar- og menntamálanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs og í stjórnum stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Jónína Bjartmarz átti sæti í vinnuhópi um samfélagslegt öryggi á vegum forsætisnefndar og sat einnig í tengihópi Norðurlandaráðs á vegum forsætisnefndar við dönsku hugmyndasmiðjuna og fjölmiðlafyrirtækið Mandag morgen vegna verkefnis þess um sambúð menningarheima. Þegar hún varð ráðherra tók Drífa Hjartardóttir sæti hennar í tengihópnum. Arnbjörg Sveinsdóttir sat í vinnuhópi um nýja skipan norræns menningarsamstarfs á vegum menningar- og menntamálanefndar. Ásta R. Jóhannesdóttir sat í upplýsingahópi á vegum forsætisnefndar. Þá var Rannveig Guðmundsdóttir áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs hjá þingmannaráðstefnunni um Norðurskautsmál. Jónína Bjartmarz sat í stjórn norræna menningarsjóðsins á starfsárinu þangað til hún tók við ráðherraembætti, en þá tók varamaður hennar, Arnbjörg Sveinsdóttir, sæti hennar í stjórninni. Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og Þuríður Backman sat í stjórn Norrænu samstarfsmiðstöðvarinnar um málefni fatlaðra.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar sjö sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum og þingi Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá svo og gagnkvæm upplýsingaskipti meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og vinnuhópum Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs var fjallað um fjárhagsáætlun Íslandsdeildarinnar og tilmæli Norðurlandaráðs frá Norðurlandaráðsþinginu 25. til 27. október 2005 í Reykjavík send fastanefndum Alþingis. Tilmæli Norðurlandaráðsþings eru jafnan send fastanefndum þjóðþinganna til upplýsingar og eftirfylgni í löggjafarstarfi ríkjanna þegar við á. Landsdeildir Norðurlandaráðs hafa síðan það hlutverk að fylgja tilmælunum eftir í fastanefndunum. Í samræmi við það sendi formaður Íslandsdeildar, Jónína Bjartmarz, íslenska þýðingu tilmæla þingsins til fastanefnda Alþingis og skiptu meðlimir Íslandsdeildar með sér verkum við að fylgja þeim eftir í fastanefndunum.
    Í lok mars fundaði Íslandsdeild með fulltrúum Norræna félagsins á Íslandi. Fulltrúar félagsins á fundinum voru Bjarni Daníelsson formaður, Óðinn Albertsson framkvæmdastjóri og Esther Sigurðardóttir, skrifstofustjóri og verkefnisstjóri upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd. Halló Norðurlönd veitir upplýsingar og leiðbeiningar í síma og á vefsíðu fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem hyggjast flytja á milli Norðurlanda. Á fundinum voru kynntir helstu áhersluþættir í starfi félagsins um þær mundir og lýstu fulltrúarnir yfir áhyggjum af þróun einstakra mála innan norræns menningarsamstarfs og upplýsingamálum. Af hálfu félagsins var mikilvægi og velgengni Halló Norðurlönd ítrekað, en hingað til hefur símaþjónusta verið rekin á skrifstofum í hverju Norðurlandanna fyrir sig. Þá var einnig fjallað um norrænu bókasafnsvikuna, sem að sögn framkvæmdastjóra Norræna félagsins var stærsta norræna menningarverkefnið á árinu. Framkvæmdastjórinn velti einnig vöngum yfir afdrifum norræns samstarfs í skólamálum, t.d. nemendaskipta íslenskra barna innan Norðurlandanna, sem hefði fækkað til muna.
    Í byrjun sumars fékk Íslandsdeild fulltrúa IMG ráðgjafar á sinn fund til að kynna nýútkomna skýrslu um íslensk fyrirtæki á Norðurlöndum. Þorgeir Pálsson, rekstrarráðgjafi hjá IMG ráðgjöf, kynnti skýrsluna sem fyrirtækið vann fyrir Útflutningsráð Íslands um íslensk fyrirtæki í útrás á Norðurlöndum. Við gerð hennar ræddi aðalhöfundur skýrslunnar, Sigrún Davíðsdóttir, blaðamaður í London, við á þriðja tug starfsmanna íslenskra fyrirtækja í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Helstu niðurstöður hennar eru að íslensk fyrirtækjamenning sé að ýmsu leyti frábrugðin því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru kannski áræðnari að sækja á markað og starfsmenn þeirra hafa meiri ábyrgð, en almannatengsl fyritækja eru á stundum vanmetin og jafnvel í höndum stjórnenda fyrirtækjanna í stað almannatengslafulltrúa. Íslandsdeildin veitti einnig fréttamannastyrki Norðurlandaráðs á fundi sínum 6. júní. Samanlögð styrkupphæð var 90 þúsund danskar krónur. Alls bárust átta umsóknir og var ákveðið fimm skyldu hljóta styrk að þessu sinni. Erna Guðrún Kaaber fékk 15.000 dkr., Helga Brekkan 25.000 dkr., Jóhann Hauksson 25.000 dkr., Óðinn Jónsson 10.000 dkr. og Sigrún María Kristinsdóttir 15.000 dkr.
    Á fundi Íslandsdeildar 19. september var fjallað um breytingar á styrkleikahlutfalli flokkahópa í Norðurlandaráði eftir þingkosningar í Svíþjóð þann 17. september, en þær fólu í sér að flokkahópur jafnaðarmanna missti einn þingmann og miðflokkahópurinn tvo þingmenn, hægriflokkahópurinn bætti við sig þremur þingmönnum en fjöldi vinstrisósíalista og grænna var óbreyttur.
    Staða sjálfstjórnarsvæðanna innan opinbers norræns samstarfs var einnig til umræðu á septemberfundi Íslandsdeildar. Fram kom að málið virtist vera erfiðara eftir þá bjartsýni sem ríkt hefði að loknum sumarfundi forsætisnefndar í Færeyjum þar sem næsta óhugsandi væri samkvæmt dönsku stjórnarskránni að einhver annar en handhafi konungsvaldsins væri aðili að milliríkjasamkomulagi á borð við Helsinkisáttmálann og erfitt fyrir Færeyinga að eiga aðild að Norðurlandaráði en ekki Norrænu ráðherranefndinni.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Í forsætisnefnd sátu á starfsárinu af hálfu Íslandsdeildar Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz. Jón Kristjánsson tók sæti Jónínu Bjartmarz þegar hún varð ráðherra. Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við Norðurlandaráðsþingið. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá vinnu sérstaklega að sér árið 2006, líkt og áður hafði verið gert. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri. Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd fundaði sex sinnum á árinu. Í janúar átti hún fund með formönnum norrænu félaganna sem eru grasrótin í norrænu samstarfi og hafa í sögulegu samhengi starfað að því að gera norrænar þjóðir meðvitaðar um sameiginlegan tungumála- og menningararf landanna. Á dagskrá fundarins voru m.a. áframhaldandi fækkun landamærahindrana, framtíð norræna menningarsamstarfsins, styrkjaáætlanir sem fjármagnaðar eru með norrænu fjármagni, t.d. Nordplus junior og Nordjobb, og spurningin um hvernig frjáls félagasamtök geta tekið þátt í upplýsingagjöf um opinbert norrænt samstarf.
    Á fundi forsætisnefndar í apríl var til umræðu nýleg ráðning tveggja danskra starfsmanna á sameiginlega upplýsingadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, deildarstjóra og ráðgjafa. Þar létu helst Finnar að sér kveða, en af hálfu þeirra kom fram að það væri óviðunandi að Finni hefði ekki verið ráðinn og það að báðir nýju starfsmennirnir væru Danir gerði málið allt verra þar sem Finnar skildu illa dönsku. Því væri viðbúið að huga þyrfti að túlkun á fundum Norðurlandaráðs eða skipta yfir í ensku. Þá var á það bent að ekki væri einungis um finnskt hagsmunamál að ræða heldur Norðurlandanna allra þar sem ófullnægjandi og ófaglegt væri ef upplýsingadeildin gæti ekki gefið upplýsingar á finnsku. Sú skoðun var einnig látin í ljós að það væri fáránlegt að það þyrfti að ræða þetta mál þar sem það ætti að vera hægt að nota finnsku rétt eins og önnur tungumál í norrænu samstarfi. Rannveig Guðmundsdóttir taldi eðlilegt að í alþjóðlegu samstarfi væri ákveðin skipting á milli landanna en upplýsingadeildin væri slík lykildeild að tungumálakunnátta yrði að vera ráðningarforsenda. Jónína Bjartmarz lýsti yfir skilningi á afstöðu Finna en benti á að það þyrfti líka að taka visst tillit til íslenskunnar þar sem kunnáttu í norrænum málum hrakaði á Íslandi og því þyrftu Íslendingar hugsanlega túlkun í fyllingu tímans.
    Sumarfundur forsætisnefndar var haldinn í Þórshöfn í Færeyjum í júní 2006. Viðstaddir voru fulltrúar Færeyja og Álandseyja sem kynntu sjónarmið þeirra varðandi stöðu sjálfstjórnarsvæðanna, Færeyja, Grænlands og Álandseyja, innan opinbers norræns samstarfs.
    Staða sjálfstjórnarsvæðanna var á dagskrá fundarins í framhaldi af skýrslu sem út kom í maí 2006 og unnin var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Skýrslan var gerð að ósk norrænu samstarfsráðherranna sem tóku um það ákvörðun 27. október 2005. Á fundinum kynnti Frederik Harhoff dósent efni skýrslunnar. Samkvæmt útleggingu hans voru fjórir möguleikar í stöðunni varðandi aðild sjálfstjórnarsvæðanna, fyrst og fremst hvað varðaði Norðurlandaráð. Í fyrsta lagi óbreytt ástand. Í öðru lagi þátttökuaðild sem fælist í því að sjálfstjórnarsvæðin hefðu svipuð áhrif og sjálfstæðir aðilar, án formlegrar aðildar. Aðeins lönd geta átt aðild að Helsinkisáttmálanum. Sjálfstjórnarsvæðin búa í raun að einhverju leyti við sömu stöðu og löndin fimm sem eiga aðild að sáttmálanum, t.d. eiga þau fulltrúa í norrænu samstarfi, en þó innan landsdeilda Danmerkur og Finnlands. Þriðji möguleikinn var sjálfstæð aðild sem mundi kalla á miklar breytingar á Helsinkisáttmálanum. Loks var möguleiki á að hafa mismunandi aðild, sem hefði í för með sér að sjálfstjórnarsvæðin þrjú, Færeyjar, Grænland og Álandseyjar hefðu ólíka stöðu innan norræns samstarfs. Ef Færeyingum einum yrði veitt sjálfstæð aðild mundu Færeyjar öðlast sterkari stöðu en hin sjálfstjórnarsvæðin. Innan nefndarinnar þótti fyrsti möguleikinn ólíklegur þar sem áður hefði komið fram tillaga í forsætisnefndinni um að óskir Færeyja um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði yrðu teknar til umfjöllunar innan ráðsins. Taka þyrfti afstöðu til tillögunnar. Því voru hinir möguleikarnir þrír helst til umræðu á fundinum. Í heild má segja að forsætisnefndin hafi lagt áherslu á fá álit allra sem hlut eiga að máli og að vera í tengslum við Norrænu ráðherranefndina um málið til að gæta samræmis. Einnig lagði hún áherslu á að skilgreina þyrfti hvaða áhrif breytingar á stöðu sjálfstjórnarsvæðanna hefðu, og á hvaða hluta norræns samstarfs, og að leita þyrfti álits þinga sjálfstjórnarsvæðanna á slíkum breytingum. Hugsanlegt var talið að sjálfstjórnarsvæðin vildu fara ólíkar leiðir í þessu máli, í það minnsta hefðu Færeyingar sótt málið af meira krafti en hinar þjóðirnar.
    Samstarf við Vestnorræna ráðið var rætt á fundinum í Færeyjum í framhaldi af umræðum um hvernig styrkja mætti samvinnu Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um ferðamennsku á Grænlandi í júní. Á ráðstefnunni komu fram hugmyndir um að ráðin tvö gætu styrkt samstarfið með því að undirrita samstarfssamning sem mundi festa formlegar vinnureglur í því sambandi, t.d. um að ályktanir beggja ráða væru kynntar hjá hinu ráðinu og að Norðurlandaráð hefði hugsanlega áheyrnarfulltrúa hjá Vestnorræna ráðinu. Fundarmenn voru almennt fylgjandi samstarfssamningi við Vestnorræna ráðið. Rannveig Guðmundsdóttir ítrekaði mikilvægi þess að Norðurlandaráð ætti áheyrnarfulltrúa hjá Vestnorræna ráðinu og sagði að annars yrði virknin ekki næg.
    Landamærahindranir voru einnig á dagskrá fundarins í Færeyjum. Ole Stavad forseti upplýsti að þegar Poul Schlüter lét af störfum sem sérstakur fulltrúi ríkisstjórna Norðurlanda til að minnka landamærahindranir fyrir fólk og fyrirtæki innan Norðurlandanna hefðu margir þingmenn í Norðurlandaráði haft ákveðnar væntingar um að einhver annar héldi áfram svipuðu starfi. Norrænn umboðsmaður gæti safnað upplýsingum um mál sem upp kæmu þegar fólki þykir meðferð mála hafa verið ófullnægjandi af hinu opinbera og bent á hugsanlegt misræmi milli meðferðar mála og réttinda einstaklinga sem tryggð eru í norrænum samningum. Jafnframt gæti slíkur umboðsmaður tekið upp mál varðandi fyrirtæki sem telja sig fá óréttláta málsmeðferð eða að samspil þátta í kerfinu sé ófullnægjandi. Meðlimir forsætisnefndar studdu hugmyndir um norrænan umboðsmann en lýstu þó yfir áhyggjum af framtíð Halló Norðurlönd og óskuðu eftir því að fjárhagshópur forsætisnefndar legði áherslu á að tryggja hana. Rætt var um hvernig fjármögnun stöðu umboðsmanns skyldi hagað, auk þess sem rætt var um að starfssvið norræns umboðsmanns mætti ekki skarast við starfssvið umboðsmanna þjóðþinganna.
    Tímasetning Norðurlandaráðsþings var tekið fyrir en þjóðþingin höfðu komið því á framfæri við Norðurlandaráð að hún væri óheppileg vegna anna í þjóðþingunum, sérstaklega vegna fjárlagagerðar. Af þessum sökum hafði forsætisnefnd unnið að því að finna betri tímasetningu fyrir þingið. Á fundi nefndarinnar í Færeyjum varpaði forsetinn fram þeirri hugmynd að þinginu yrði flýtt um einn dag, þ.e. að þingið sjálft hæfist á mánudegi í stað þriðjudags og lyki á miðvikudegi. Fundir flokkahópa yrðu þá haldnir á sunnudeginum. Þannig væri hægt að halda þingfundi í þjóðþingunum á fimmtudeginum og föstudeginum. Þessi hugmynd féll í góðan jarðveg. Ragnar Erlandsson upplýsti að setningardagur landsþings Álandseyja væri 1. nóvember og ef þingi Norðurlandaráðs yrði flýtt um einn dag minnkaði hættan á að þetta tvennt skaraðist. Forseti fékk umboð til að ákveða tímasetningu þingsins í samráði við Norræna ráðherraráðið og þjóðþing landanna.
    Þá var rætt um tengihóp Norðurlandaráðs við Mandag Morgen. Inge Lønning upplýsti að hópurinn væri metnaðargjarn og vinnan mundi stuðla að umræðum á komandi Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn. Lønning lagði til að framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, forseti þess og hann sjálfur fengju umboð til að ákvarða hugsanleg fjárútlát til starfsins ásamt því að ákveða hver tæki sæti Jónínu Bjartmarz í hópnum, þar sem hún væri orðin ráðherra, og var það samþykkt.
    Forseti Norðurlandaráðs, Ole Stavad, var fulltrúi Norðurlandaráðs á ársfundi Vestnorræna ráðsins í Færeyjum 18.–22. ágúst. Hann var einnig gestur á fundi norrænna þingforseta dagana 24. og 25. ágúst í Helsinki. Á fundi þingforsetanna í Helsinki var fallist á tillögu þess efnis að tímasetningu Norðurlandaráðsþings yrði flýtt um einn dag frá og með árinu 2008.
    Í september var staða sjálfstjórnarsvæðanna í opinberu norrænu samstarfi aftur til umræðu, en nokkurt bakslag kom í málið vegna ákvæða dönsku stjórnarskrárinnar um milliríkjasamstarf. Það er ekki miklum vandkvæðum bundið að Færeyjar og önnur sjálfstjórnarsvæði fái aðild að Norðurlandaráði og því var beðið viðbragða Norrænu ráðherranefndarinnar um hvort og hvernig ætti að gera breytingar á Helsinkisáttmálanum til að leysa málið.
    Á fundinum var einnig fjallað um formlegt samkomulag Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins um samstarf þeirra í millum og var vel tekið í tillögur sem fela m.a. í sér árlega fundi ráðanna og gagnkvæma upplýsingagjöf um ályktanir og tillögur, auk réttar Norðurlandaráðs til að eiga áheyrnarfulltrúa hjá Vestnorræna ráðinu. Formlegur samstarfssamningur Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins var síðan undirritaður á fundi ráðanna á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn.
    Meðan á Norðurlandaráðsþingi stóð fundaði forsætisnefnd/formenn landsdeilda með forsetum þjóðþinganna. Fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði á þeim fundi var Sigríður A. Þórðardóttir, formaður Íslandsdeildar, en Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sótti fundinn. Til umræðu var starfsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2007 og fjárhagsáætlun fyrir árið 2008, auk sameiginlegra málþinga fastanefnda þjóðþinganna, Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins.
    Forsætisnefnd fundaði einnig með utanríkisráðherrum Norðurlandanna meðan á þinginu stóð. Á dagskrá var samstarf við ríkin við Eystrasalt, Norðlæga víddin, norðurskautsmál, og sambúð menningarheima.
    Forsætisnefnd hélt síðan fund í Kaupmannahöfn 13. desember 2006 þar sem þrjú mál voru helst til umræðu: staða sjálfstjórnarsvæðanna í opinberu norrænu samstarfi, vinna gegn landamærahindrunum, og Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu.
    Staða sjálfstjórnarsvæðanna í opinberu norrænu samstarfi var áfram til umræðu, en gestur fundarins af þessu tilefni var Per Unckel, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sem var ætlað að gera grein fyrir framgangi og stöðu mála eftir fund samstarfsráðherra Norðurlandanna 8. desember. Unckel greindi frá því að samstarfsráðherrarnir hefðu ákveðið að skipa tæknilegan starfshóp til þess að kanna að hvaða leyti sjálfstjórnarsvæðin gætu tekið þátt í öllum þáttum samstarfsins og sömuleiðis hvað staðið gæti í vegi fyrir því. Hópurinn átti að skila athugasemdum sínum í júní og mögulegt ætti að vera að komast að niðurstöðu í málinu á Norðurlandaráðsþinginu 2007 í Ósló. Hlutverk hópsins væri ekki að meta stöðu landanna hvað varðaði Helsinkisáttmálann heldur að draga fram hvaða atriði tengdust því helst að sjálfstjórnarsvæðin tækju að fullu þátt í opinberu norrænu samstarfi. Ole Stavad, forseti Norðurlandaráðs og formaður dönsku landsdeildarinnar, greindi frá því að danska landsdeildin hefði skrifað bréf til stjórna Færeyja, Grænlands og Danmerkur og óskað eftir áliti þeirra á þátttöku Færeyja og Grænlands í norrænu samstarfi, en útkoman úr þeim bréfaskriftum lægi ekki fyrir.
    Á fundinum í Kaupmannahöfn í desember var vinnan gegn landamærahindrunum rædd í tengslum við þá hugmynd að koma á fót skrifstofu norræns umboðsmanns sem ynni að afnámi landamærahindrana. Hugmyndin byggist á því að standa eigi vörð um flæði yfir landamæri þar sem það skapi Norðurlöndunum nauðsynlegan sveigjanleika. Hlutverk slíks umboðsmanns væri að hafa milligöngu þegar ósamræmi væri í stjórnsýslureglum landanna, benda á úrbætur á lögum vegna norrænna samninga, koma skráðum tilfellum um landamærahindranir á framfæri við Norðurlandaráð og norræn þjóðþing og koma með tillögur um nýja norræna samninga og umbætur til að greiða fyrir borgurum og fyrirtækjum að flytjast yfir landamærin. Á skrifstofunni mundu starfa a.m.k. fimm lögfræðingar. Á fundinum voru ræddar ýmsar hugmyndir um í hvaða formi og í hvaða farvegi vinnunni við að ryðja landamærahindrunum úr vegi væri best borgið. Athugasemdir komu fram um heitið „umboðsmaður“ í þessu samhengi og um samsetningu starfsmanna skrifstofunnar. Einnig var rætt um að framvinda málsins yrði að vera í góðum tengslum við umboðsmenn þinganna í þjóðlöndunum, svo og Norrænu ráðherranefndina.
    Þá var kynnt það sem helst var á döfinni í starfinu við Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu, en fyrirhuguð er myndun norræns alþjóðavæðingarráðs og skipulagning málþings í lok mars 2007 í Kaupmannahöfn. Í kjölfar umfjöllunarinnar var samþykkt tillaga um að mynda nýjan starfshóp á grunni eldri hóps til að fylgja starfinu eftir, en hann samanstendur af fulltrúum frá öllum nefndum, flokkahópum og löndum. Fyrir hönd Íslands situr í hópnum Steingrímur J. Sigfússon.
    Þá var á fundinum staðfest tilnefning íslensku landsdeildarinnar til stjórnar Norræna menningarsjóðsins. Rannveig Guðmundsdóttir var valin aðalmaður og Jón Kristjánsson varamaður.

Menningar- og menntamálanefnd.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í menningar- og menntamálanefnd á starfsárinu 2006, frá janúar til október þegar Sigríður A. Þórðardóttir tók sæti hennar. Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Til umfjöllunar á starfsárinu hjá menningar- og menntamálanefnd voru fyrst og fremst þær breytingar sem standa yfir á norrænu menningarsamstarfi á árunum 2006 og 2007. Breytingarnar fela í sér að fækka og sameina stofnanir og skapa betri grundvöll fyrir verkefnatengt og þverfaglegt samstarf. Nefndin skipaði starfshóp um málið og sat Arnbjörg Sveinsdóttir í honum. Einnig var fjallað um norræna málstefnu, grannsvæðasjónvarp, frjáls félagasamtök og Nordplus-áætlanir og jafnframt Norðurlönd í fararbroddi á alþjóðavísu og sambúð menningarheima.
    Sumarfundur menningar- og menntamálanefndar var haldinn í Smálöndum þar sem auk fundardagskrár var fræðst um upprunaslóðir Carls von Linné, IKEA og sænskra vesturfara.

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd voru Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem gegndu stöðu formanns og varaformanns nefndarinnar. Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Efnahags- og viðskiptanefnd átti á starfsárinu 2006 frumkvæði að eftirfylgni innan Norðurlandaráðs við sameiginlega skýrslu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar 2005 „Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu“ (Norden som global vinderregion). Skýrslan fjallaði um sameiginlega einkennisþætti í samfélögum Norðurlanda sem styrkir þau sem eitt svæði við markaðssetningu á alþjóðavettvangi. Meðal þessara þátta má nefna umhverfismál, lýðræðishefð, staða jafnréttismála, velferðarmál, og stuttar boðleiðir milli almennings og valdhafa. Skipaður var vinnuhópur skipaður fulltrúum fjögurra nefnda í málinu. Auk efnahags- og viðskiptanefndar áttu þar fulltrúa menningar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd og umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Fulltrúi Íslandsdeildar í hópnum var Arnbjörg Sveinsdóttir. Vinnuhópurinn skilaði árangursríku starfi undir kröftugri forustu Marion Pedersen frá Danmörku. Í kjölfarið komst frekari skriður á málið auk þess sem það varð víðtækara, en áætlanir eru uppi um að það á starfsárinu 2007 að komið verði á fót sameiginlegu alþjóðavæðingarráði Norðurlandanna til að treysta ímynd þeirra í alþjóðlegri samkeppni.
    Efnahags- og viðskiptanefnd heimsótti á árinu Norrænu nýsköpunarmiðstöðina (Nordisk innovationscenter, NIC) og átti þar fund með Odd Eriksen, viðskiptaráðherra Noregs. Eriksen kynnti áherslur Norðmanna á sviði efnahags- og viðskiptamála fyrir nefndinni. Auk þess kynnti Kjetil Storvik, forstjóri NIC, starfsemi og framkvæmdaáætlanir stofnunarinnar.
    Þá átti efnahags- og viðskiptanefnd einnig fund með fulltrúum frá efnahags- og viðskiptanefndum norrænu þjóðþinganna. Á dagskrá var gagnkvæm upplýsingagjöf um framgang og stöðu mála í nefndum, auk áherslunnar á Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu.
    Drífa Hjartardóttir sat einnig á starfsárinu 2006, fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar, fund forseta Norðurlandaráðs með formönnum fagnefnda. Þar gerði hún grein fyrir stöðu mála hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Þá var hún fulltrúi Norðurlandaráðs á sameiginlegum vinnufundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Tallinn um frjálsra för vinnuafls á Eystrasaltssvæðinu. Erindi Drífu fjallaði um upplýsingar um vinnumarkaðsmál til launþega frá Eystrasaltsríkjunum og Póllandi sem hyggjast sækja vinnu á Norðurlöndum.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á starfsárinu. Nefndin annast málefni er varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Tvö mál tengd Eystrasalti voru áberandi í umfjöllun nefndarinnar á árinu. Annars vegar var það losun landbúnaðarúrgangs í Eystrasaltið, sem veldur ofvexti þörunga, og hins vegar losun skolpúrgangs skipa í Eystrasaltið. Þá lagði umhverfis- og náttúruauðlindanefnd áherslu á umhverfismál á norðurslóðum á árinu en sumarfundur nefndarinnar var haldinn í Murmansk í Rússlandi og m.a. voru heimsótt miðstöð um sjávarlíffræði, kjarnorkuver og frjáls félagasamtök. Þá tók nefndin þátt í starfinu um Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd stóð á árinu fyrir málþingi um samþætta stefnumótun ESB um hafið, svo og um meðhöndlun og geymslu geislavirks úrgangs á Eystrasaltssvæðinu.
    Ásta R. Jóhannesdóttir tók fyrir hönd umhverfis- og náttúruauðlindanefndar þátt í ráðstefnunni Baltic Sea Conference um umhverfismál Eystrasaltsins sem haldin var í Helsinki í nóvember.

Velferðarnefnd.
    Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu- og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, málefnum barna og unglinga og baráttu gegn misnotkun vímuefna. Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í nefndinni á starfsárinu 2006.
    Velferðarnefnd lagði á áherslu á stöðu geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Nefndin heimsótti margar stofnanir og átti fundi með samtökum og sérfræðingum á þessu sviði. Meðal annars var fjallað um meðhöndlunarúrræði fyrir ungt fólk. Sumarfundur nefndarinnar var haldinn í Kaupmannahöfn og Malmö og þar kynntu nefndarmenn sér geðheilbrigðisþjónustu í tengslum við húsnæðismál, til að mynda heilbrigðisþjónustu á heimilum, og húsnæðismál geðsjúkra og heimilislausra.

Borgara- og neytendanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2006 var Kjartan Ólafsson. Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Starf borgara- og neytendanefndar þetta árið var að miklu leyti helgað baráttunni gegn mansali og kynlífsþjónustu og kynlífsþrælkun. Borgara- og neytendanefnd heimsótti Norræna rannsóknastofu um kvenna- og kynjarannsóknir (NIKK) og kynnti sér starfsemi hennar. Nefndin fjallaði á árinu um tvær tillögur um aukið alþjóðlegt samstarf gegn kynlífsviðskiptum og kynlífsþrælkun, auk tillögu um athvarf í Eystrasaltslöndunum og á Norðurlöndum fyrir konur sem vilja losna úr vændi, og hlutu þær samþykki á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn. Nefndin stóð einnig fyrir málþingi um mansal. Þar fluttu erindi Anders Oljelund, fulltrúi Svíþjóðar í alþjóðasamstarfi gegn mansali, Marco Gramegna, formaður sérfræðingahóps ESB um mansal, og Malin Björk, stjórnandi verkefnis um stuðning við fórnarlömb mansals á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum.

Eftirlitsnefnd.
    Kjartan Ólafsson var einnig fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Eftirlitsnefnd hefur fundað með sama hætti og málefndanefndir Norðurlandaráðs en tók starfsaðferðir sínar til endurskoðunar á árinu. Um vorið snerist umræðan innan nefndarinnar um vinnuaðferðir og vinnuhraða rannsókna nefndarinnar og næsta rannsóknarefni. Ákveðið var að kanna norrænt samstarf á Vestur-Norðurlöndum og í framhaldi af því hélt eftirlitsnefndin sumarfund á Íslandi. Hér á landi átti hún fundi með fulltrúum norrænna samstarfsverkefna á borð við Norrænu Atlantsnefndina, Nordjobb, Halló Norðurlönd, Norræna félagið, Norræna húsið, Norræna eldfjallasetrið og Nordplus-tungumálaáætlunina. Einnig átti nefndin fund með samstarfsráðherra Norðurlanda, Jónínu Bjartmarz. Eftirlitsnefnd samþykkti um haustið breytingar á vinnutilhögun sinni á þá leið að rannsókn nefndarinnar hefst strax að afloknu þingi Norðurlandaráðs og getur tekið allt að tvö ár í stað eins árs áður. Enn fremur geta utanaðkomandi aðilar jafnt sem nefndin sjálf unnið rannsóknir nefndarinnar. Einnig var ákveðið að nefndin haldi fund í nóvember/desember utan reglubundinna funda Norðurlandaráðs en komi að jafnaði ekki saman meðan janúar- og aprílfundum Norðurlandaráðs standa yfir.

5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur. Verðlaunin fyrir árið 2006 voru afhent við hátíðlega athöfn í hátíðarsal Tívolí þann 1. nóvember í tengslum við 58. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda. Það var sænski rithöfundurinn Göran Sonnevi sem hlaut bókmenntaverðlaunin að þessu sinni fyrir ljóðasafnið Oceanen. Í rökstuðningi sínum fyrir verðlaununum sagði dómnefndin: „Oceanen er orðahaf sem maður sekkur í og umvefur mann. Safnið fjallar um líf og ljóðlist sem er í senn lifandi, ólokið og leitandi. Sonnevi skrifar ljóð sem eru í stöðugum samræðum við bæði pólitíska og samfélagslega atburði og auk þess persónulegar spurningar eins og sekt og ábyrgð.“
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Árið 2006 hlaut norska tónskáldið Natasha Barrett verðlaunin fyrir rafræna tónverkið … fetters …. Í umsögn dómnefndar sagði m.a.: „Helstu einkenni verðlaunaverksins eru hversu hin listræna tjáning er þroskuð, kraftmikil og sannfærandi og býður upp á sjálfstæða og trúverðuga túlkun. […] … fetters … er róttæk og nýskapandi rafræn tónsmíð þar sem tónahráefnið er nýtt á afar listrænan og lifandi máta sem endurspeglar mörg litbrigði og tónaauð.“
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Árið 2006 var loftslagsbreytingum og loftslagsaðlögun gefin sérstakur gaumur við veitingu verðlaunanna. Horft var til þess að verðlaunin skyldi hljóta einstaklingur eða samtök sem vakið hefðu athygli á og miðlað þekkingu á loftslagsbreytingum. Færeyingurinn Bogi Hansen, prófessor og rithöfundur, hlaut verðlaunin fyrir árið 2006. Í greinargerð dómnefndar sagði m.a.: „Bogi Hansen hlýtur verðlaunin fyrir umfangsmiklar rannsóknir sínar á loftslagi og haffræði á norðurhöfum. Sérstaklega er vísað til rannsókna hans til margra ára á hafstraumum og þeirri hættu sem kann að vera á því að golfstraumurinn, meðal annarra strauma, gæti fært sig til. Jafnframt hefur honum tekist að miðla þekkingu á loftslagsbreytingum á skiljanlegan og einfaldan hátt jafnt til almennings, vísindamanna og stjórnmálamanna. Dómnefndin telur Boga Hansen vera verðugan fulltrúa norræna vísindasamfélagsins, starf hans hefur haft mikla þýðingu í alþjóðlegu samhengi, m.a. sýndi hann snemma fram á áhrif loftslagsbreytinga á heimsskautssvæðinu.“
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu, sem hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki. Það var sænska kvikmyndin Zozo sem hreppti kvikmyndaverðlaunin árið 2006. Aðalpersóna kvikmyndarinnar er Zozo sem elst upp í Beirút og lifir venjulegu lífi þrátt fyrir átök í landinu, en dag einn verður hann, vegna skelfilegra atburða, að reyna að komast á eigin spýtur til hins framandi lands Svíþjóðar. Josef Fares, handritshöfundur og leikstjóri, og Anna Anthony, framleiðandi Zozo, skiptu verðlaununum á milli sín. Dómnefndin rökstuddi ákvörðun sína á eftirfarandi hátt: „Zozo er grípandi kvikmynd um þær aðferðir sem barn notar til þess að takast á við stríð, sorg og framandi menningu. Kvikmyndin notfærir sér margvísleg tjáningarform og tengir sterka raunsæisfrásögn við ljóðræna myndræna tjáningu, ímyndunarafl og húmor. Hún er aðgengileg og næm innsýn í raunveruleg átök og með því að notfæra sér skapandi kraft frá mismunandi kvikmyndamenningu leggur hún sitt af mörkum til endurnýjunar á sterkri hefð norrænna kvikmynda sem fjalla um uppvaxtarárin.“

6. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kemur að jafnaði saman til nefndafunda þrisvar sinnum á ári til þess að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing. Í tengslum við þessa nefndafundi fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem ákveðin efni eru tekin fyrir.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Ósló.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Ósló dagana 24.–25. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Jónína Bjartmarz formaður, Drífa Hjartardóttir varaformaður, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kjartan Ólafsson, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir. Auk hefðbundinna funda í nefndum og flokkahópum var haldinn einn sameiginlegur fundur alls ráðsins sem fjallaði um líftækni og möguleika á samræmdri norrænni líftæknistefnu.
    Sú hefð hefur skapast í Norðurlandaráði að janúarfundirnir séu haldnir í því landi sem tekið hefur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, en Norðmenn tóku við henni af Dönum 1. janúar 2006. Hugsunin að baki því er sú að gefa málefnanefndum Norðurlandaráðs kost á að funda með einstökum fagráðherrum um áherslur formennskulandsins á afmörkuðum sviðum. Það sem var sérstakt í Ósló var hins vegar fundur Norðurlandaráðs og forsætisráðherra Norðmanna, Jens Stoltenbergs. Sá fundur kom til af því að hinn nýi forsætisráðherra gat ekki tekið þátt í þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í október 2005. Í stað þess kynnti Stoltenberg formennskuáætlun Norðmanna í Norrænu ráðherranefndinni árið 2006 á sérstökum fundi með þingmönnum Norðurlandaráðs. Áætlun Norðmanna bar nafnið „Hin nýju Norðurlönd – Endurnýjun og samstarf í Norður-Evrópu“. Megináherslurnar voru: samstarf á norðurslóðum, norræna velferðarkerfið og vægi þekkingar á tímum hnattvæðingar. Auk þess héldu Norðmenn í formennskutíð sinni áfram starfi fyrirrennara sinna við afnám landamærahindrana á Norðurlöndum og að tryggja skilvirkni í norrænu samstarfi. Í framsögu sinni sagðist Stoltenberg vera ákafur fylgismaður norræns samstarfs. Samstarfið byggðist ekki einungis á sameiginlegri sögu og menningu heldur sameiginlegri lífssýn og gildum, svo sem áherslu á frelsi, lýðræði, jafnrétti og jöfnuð. Varðandi samstarf á norðurslóðum lagði Stoltenberg áherslu á að beina sjónum að hinum víðfeðmu höfum ekki síður en landsvæðum þegar horft væri til auðlinda norðurslóða. Þar væru ríkuleg fiskimið, olía og gas en huga þyrfti sérstaklega að umhverfismálum hafsins við nýtingu þess. Einnig þyrfti að tryggja réttindi og aðkomu frumbyggja þegar ráðist væri í nýtingu þessara auðlinda. Vestur-Norðurlönd og Norður-Atlantshafið væru mjög mikilvæg í þessu sambandi. Pólitískt samstarf á norðurslóðum tæki til samstarfs Norðurlanda við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland, sérstaks samstarfs á Barentssvæðinu, málefna norðurskautsins þar sem loftslagsbreytingar eru hraðar og hinnar norðlægu víddar ESB. Um norræna velferðarkerfið og þróun þess sagði Stoltenberg það verkefni Norðurlanda að tryggja að kerfið yrði sjálfbært til framtíðar. Stoltenberg benti á að erlendis væri mikill áhugi á norræna velferðarríkinu og bæði væri óskandi og nauðsynlegt að kynna það öðrum þjóðum. Árangur Norðurlanda við samþættingu atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs hefði vakið mikla athygli en fæðingartíðni og atvinnuþátttaka kvenna er meiri á Norðurlöndum en annars staðar í Evrópu.
    Hvað varðar vægi þekkingar sagði Stoltenberg góða menntun og þekkingu undirstöðu samkeppnishæfni Norðurlanda á tímum hnattvæðingar og þar með forsendu hagvaxtar og velsældar. Ole Stavad, nýr forseti Norðurlandaráðs, tók til máls að loknu erindi Stoltenbergs og taldi að einn lykillinn að hinu góða gengi og samstarfi Norðurlanda væri samkeppni þeirra á milli, hversu mótsagnakennt sem það kynni að hljóma. Þegar ein þjóð skaraði fram úr á afmörkuðu sviði hlypi hinum þjóðunum kapp í kinn og þær reyndu að læra af þeirri sem stæði sig vel. Uppbygging hátækniiðnaðar í Finnlandi væri gott dæmi sem hinar þjóðirnar hefði keppst við að fylgja.
    Forsætisnefnd gekkst ásamt borgara- og neytendanefnd fyrir málstofu um hryðjuverkaógnina og öryggi borgaranna. Yfirmaður norsku öryggislögreglunnar, Jørn Holme, gerði grein fyrir því mati stofnunarinnar að í Evrópu stafaði hætta á hryðjuverkum fyrst og fremst frá eigin ríkisborgurum en ekki vígamönnum sem kæmu langt að til að fremja voðaverk. Hættan stafaði miklu fremur af innflytjendum í annarri og þriðju kynslóð sem hafa íslamskan menningarbakgrunn og gengju af einhverjum orsökum til liðs við trúarofstækishópa. Besta vörnin gegn hryðjuverkum væri því öflug aðlögunarstefna fyrir innflytjendur sem tryggði þeim sess og hlutverk í vestrænu samfélagi og kæmi í veg fyrir einangrun þeirra. Erling Johannes Husabø, lagaprófessor við Háskólann í Bergen, talaði um þá löggjöf ESB sem lyti að hryðjuverkum og undirstöðuatriði hryðjuverka, árásir, tjón og ótta. Fyrirlestur hans fjallaði einnig um mannréttindi innan lagaramma ESB. Kristina Stenmann, frá mannréttindastofnuninni í Åbo, ræddi þann vanda sem skapast vegna mannréttinda þegar barist er gegn hryðjuverkum. Erfitt væri að finna jafnvægi á milli þess að veita ríkisstjórnum hámarkssvigrúm og tæki til þess að berjast gegn hryðjuverkum og þess að tryggja frelsi, lýðréttindi og persónuvernd borgaranna.
    Að loknum fundum Norðurlandaráðs fór fram þingmannafundur um málefni Barentssvæðisins 26. janúar 2006. Þrjú meginþemu fundarins voru efnahagsþróun, umhverfismál með áherslu á hinar hröðu loftslagsbreytingar og lýðheilsumál þar sem einkum var rætt um smitsjúkdóma, svo sem HIV/AIDS og berkla.

Aprílfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Aprílfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í sænska Ríkisdeginum dagana 24.–26. apríl 2006. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Jónína Bjartmarz formaður, Drífa Hjartardóttir varaformaður, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kjartan Ólafsson, Steingrímur J. Sigfússon og Rannveig Guðmundsdóttir. Auk hefðbundinna funda í nefndum og flokkahópum var haldinn einn sameiginlegur fundur alls ráðsins um mansal.
    Fundurinn um mansal var skipulagður í samstarfi við karlahóp Ríkisdagsins. Björn von Sydow, forseti Ríkisdagsins, byrjaði á því að bjóða fundarmenn velkomna og kynnti kvennahóp forseta Ríkisdagsins og karlahópinn. Því næst tók Ole Stavad, forseti Norðurlandaráðs, til máls og sagði að mansal væri fínna orð yfir þrælahald og hvatti til að strangari kröfur yrðu gerðar til ríkisstjórna Norðurlandanna. Þingmenn frá karlahópi Ríkisdagsins tóku næstir til máls. Lars U. Granberg sagði að mikið starf væri fyrir höndum hjá körlum í að koma málinu á dagskrá og lagði hann til að myndaðir yrðu karlahópar meðal þingmanna annarra landa. Lennart Gustavsson hvatti til umræðu um mansal í skólum, á vinnustöðum og á þjóðþingum og Ulrik Lindgren hafnaði því að taka þátt í brotum gegn konum og börnum. Á fundinum kynnti Kvennasamband jafnaðarmanna boli þar sem mótmælt var mansali í tengslum við heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu í Þýskalandi í júní 2006. Á þá var letrað „já við fótbolta, nei gegn vændi“. Steingrímur J. Sigfússon spurði hvort Norðurlandaráð ætlaði ekki að álykta kröftuglega gegn mansalinu í Þýskalandi. Hann sagði að þegar siðferðileg rök dygðu ekki væri fjárhagslegt tap það sem fengi fólk til að hugsa, t.d. vegna minnkandi auglýsingatekna frá sjónvarpsútsendingum. Að loknum umræðum tók danski þingmaðurinn Line Barfod saman helstu áherslur fundarins. Hún sagði að mikið starf væri óunnið og að athyglin ætti að beinast að fórnarlömbum vændis en það væri einfaldara að setja lög um mansal en að tryggja fórnarlömbunum bætur. Enn fremur sagði Barfod að ekki aðeins væri um vændi að ræða því margar konur væru ólöglegir starfsmenn í heimahúsum og í fyrirtækjum. Þá hvatti hún fólk til að gista ekki á hótelum sem tengjast vændi á einhvern hátt.
    Forsætisnefnd og borgara- og neytendanefnd hélt vinnufund um þörf fyrir þvermenningarlegar samræður. Fundurinn var til kominn vegna deilna í kjölfar birtinga Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni haustið 2005. Markmið fundarins var að leggja grunn að ákvörðun um hvernig Norðurlandaráð gæti átt frumkvæði á Norðurlöndum til heilbrigðrar umræðu um skopmyndamálið. Í því sambandi væri mikilvægt að gera sér betur grein fyrir orsökum og atburðarás málsins, svo og hugsanlegum afleiðingum. Einnig hvernig norrænt samstarf gæti ýtt undir samræður milli fylkinga og komið í veg fyrir misskilning með tengslamyndun. Á fundinum héldu erindi þau Jørgen S. Nielsen, prófessor í íslamfræðum við Háskólann í Birmingham, Jonas Otterback, lektor við Háskólann í Malmö, og Unni Wikan, prófessor í félagsmannfræði við Óslóarháskóla.
    Borgara- og neytendanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd stóðu fyrir málþingi um öryggi í tölvumálum. Preben Andersen, ráðgjafi hjá DK Cert, lýsti þeim hættum sem fylgdi einkanotkun borgara á tölvum ef ekki væri hugað vel að öryggi. Rene Belsø, ráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, tók fyrir hvernig tölvuþrjótar geta eytt ummerkjum eftir sig og fjallaði um möguleika ríkja til að hafa áhrif á öryggi í tölvumálum. Þeir hvöttu báðir til að Norðurlöndin tækju forustu í reglusetningu á þessu sviði þar sem þau væru í fararbroddi í notkun netsins.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Lahti.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Lahti dagana 19.–20. september 2006. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Drífa Hjartardóttir varaformaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kjartan Ólafsson, Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Rannveig Guðmundsdóttir. Fyrri daginn voru haldnir fundir flokkahópa, flokkahópastjórna, og landsdeilda, auk sameiginlegs fundar og funda eftirlitsnefndar og kjörnefndar. Seinni daginn voru fundir málefnanefnda, fundur forseta Norðurlandaráðs með formönnum málefnanefnda og málþing. Þessi tilhögun var í samræmi við rammaskipulag um reglubundna fundi Norðurlandaráðs sem forsætisnefnd samþykkti á fundi 26. júní 2006 í Þórshöfn í Færeyjum.
    Á fundi kjörnefndar 19. september voru til umfjöllunar breytingar á styrkleikahlutfalli flokkahópanna í Norðurlandaráði eftir þingkosningarnar í Svíþjóð 17. september. Eftir breytingarnar voru styrkleikahlutföll hópanna þannig: Jafnaðarmenn 27 þingmenn, miðflokkar 26 þingmenn, hægriflokkar 19 þingmenn, og vinstrisósíalistar og grænir 8 þingmenn.
    Á sameiginlega fundinum voru tvö mál til umræðu, norðlæga víddin í áætlun Finna sem gegna formennsku í Evrópusambandinu seinni hluta árs 2006 og sambúð menningarheima. Harri Mäki-Reinikka, skrifstofustjóri skrifstofu um norrænt samstarf hjá utanríkisráðuneyti Finnlands, kynnti áherslur Finna varðandi norðlægu víddina og norrænt samstarf. Rakin var saga norðlægu víddarinnar og sérstaklega farið yfir hlut Finna í henni. Mäki-Reinikka sagði að stefna ESB í málefnum Miðjarðarhafssvæðisins og stefna þess varðandi norðlægu víddina styddu hvor aðra en tækju ekki hvor frá annarri, og það sama gilti um Eystrasalt og norðurskautsglugga norðlægu víddarinnar. Þá benti hann á að Finnar mundu leitast við að samræma áherslur Norrænu ráðherranefndarinnar og ESB í formennskutíð sinni í Norrænu ráðherranefndinni árið 2007, sem einnig tengdist norðlægu víddinni að einhverju leyti. Í fyrirspurnum eftir erindið minnti Rannveig Guðmundsdóttir á hversu mikilvægt væri að hafsvæðinu við norðurskaut væri gefinn gaumur í norðlægu víddinni, en þar biðu mörg verkefni á næstunni. Þar væri ekki síst um að ræða samhengi loftslagsbreytinga, bráðnunar heimskautaíssins og breytinga á lífríkinu sem hefði áhrif á afkomu fólks við sjávarsíðuna.
    Verkefnið Sambúð menningarheima (Co-existence of civilizations) var kynnt af Inge Lønning. Hann var formaður tengihóps Norðurlandaráðs, sem Drífa Hjartardóttir átti sæti í, við hugmyndasmiðjuna og fjölmiðlafyrirtækið Mandag Morgen sem skipulagði verkefnið. Það var hugsað sem uppbyggileg viðbrögð við deilum í kjölfar skopmyndamálsins, tilkomið vegna birtinga Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni, og til að fyrirbyggja svipaðar deilur í framtíðinni. Lønning gerði grein fyrir stöðunni eftir ráðstefnuna „Copenhagen Lab of Co-existence“ sem haldin var í Kaupmannahöfn 5.–6. september. Í kjölfar ráðstefnunnar létu stjórnendur verkefnisins kefli ganga til ýmissa aðila sem hafa áhrif á þjóðfélagsþróun og er Norðurlandaráð fyrst til að taka við því kefli. Meðfylgjandi voru fimm áherslur varðandi úrlausnarefnið: að vinna gegn því að fólki finnist það vera fórnarlömb í deilunni, að tryggja trúarbragðafrelsi, að skapa vettvang fyrir sambúð mismunandi trúarhópa, að gera sér grein fyrir tengslum dómstóla og trúarbragða og að gera sér grein fyrir hvernig umfjöllun um öryggismál borgaranna geti skyggt á umræðu um sambúð ólíkra menningarhópa og aðgerðir til að sú sambúð sé friðsamleg. Tengihópur Norðurlandaráðs mótaði tillögur um aðgerðir fyrir þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

7. 58. þing Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráðsþing, hið 58. í röðinni, var haldið dagana 31. október til 2. nóvember 2006. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Sigríður A. Þórðardóttir formaður, Jón Kristjánsson varaformaður, Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Guðmundur Hallvarðsson. Þingið var að þessu sinni haldið í danska þinginu í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn, en þingið er haldið til skiptis á Norðurlöndunum fimm. Síðast var þingið haldið á Íslandi árið 2005.
    Dagskrá þingsins var á þá leið að fyrsta daginn var þingsetning, norrænn leiðtogafundur, kynning á formennskuáætlun Finna í Norrænu ráðherranefndinni 2007 og almennar umræður. Á öðrum degi voru umræður um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna í opinberu norrænu samstarfi, fyrirspurnatími norrænu samstarfsráðherranna, skýrsla utanríkisráðherranna, sambúð menningarheima, barátta gegn mansali og norræn velferðarstefna. Á þriðja degi voru umræður um samfélagslega aðlögun vegna loftslagsbreytinga á Norðurlöndum, norrænt samstarf um skipulag orkumála, norræn tungumála- og menningarstefna, rannsóknir, nýsköpun og menntun, áætlanir um norrænt samstarf árið 2007 og kosningar í nefndir og til trúnaðarstarfa á vegum Norðurlandaráðs.
    Áður en Norðurlandaráðsþingið sjálft hófst voru haldnir fundir nefnda Norðurlandaráðs. Á nefndafundunum var þingið fram undan helst til umræðu og þau mál sem þar voru á dagskrá. Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði einnig meðan á þinginu stóð.
    Þá var tilkynnt áður en þingið var sett að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði verið valinn af forsætisráðherrum Norðurlandanna til að gegna starfi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í stað Per Unckel, sem lét af störfum um áramótin 2006/2007. Tveir sóttust eftir stöðunni og var hinn kandídatinn Jan Erik Enestam, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi. Halldór Ásgrímsson sagði á blaðamannafundi eftir tilkynninguna að hann vildi færa norrænt samstarf nær Norðurlandabúunum og daglegu lífi þeirra og að hann vildi að Norðurlönd ynnu með Evrópusambandinu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi.
    Sú nýbreytni var tekin upp á þessu þingi að efna til norræns leiðtogafundar eftir þingsetningu. Aðalræðumenn á þessum þingfundi voru leiðtogar norrænu ríkisstjórnanna og oddvitar stjórnarandstöðunnar í hverju landi, auk fulltrúa Norðurlandaráðs. Fulltrúar Íslands voru Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Markmiðið með fundinum var að efna til umræðu þar sem sjónarmið stjórnar jafnt sem stjórnarandstöðu hvers ríkis kæmu skýrt fram. Umræðuefnið var þróun Norðurlanda sem sigursvæðis á heimsvísu og jafnvægið milli markaðsafla og velferðarsamfélags. Í framhaldi af greiningarvinnu um styrk Norðurlanda er það viðhorf ríkjandi í opinberu norrænu samstarfi að Norðurlöndin hafi einstaka möguleika og sóknarfæri. Þau hafa ákveðin sameiginleg gildi en jafnframt mismunandi styrkleikaþætti sem nýta má til að einkenna þau á alþjóðavísu og styrkja samkeppnishæfni svæðisins í heild og einstakra landa innan þess.
    Geir H. Haarde sagði í sinni ræðu að til þess að ná árangri í samkeppni á alþjóðavísu væri nauðsynlegt að skilgreina og þekkja styrkleika sína, gera aðgerðaáætlun og setja sér markmið. Dæmi um styrkleika norrænu landanna væri langur lífaldur og há fæðingartíðni, fjárfestingar og gott umhverfi fyrir einkarekin fyrirtæki, sterk lýðræðishefð, velferðarkerfi samhliða markaðshagkerfi og staða jafnréttismála. Geir sagði að í heild mætti segja að styrkur Norðurlanda væri samfélagsgerð þeirra og dugmiklir og hæfir íbúar. Honum leist vel á hugmynd Fredriks Reinfeldts, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem fram kom á þinginu um að myndað yrði norrænt alþjóðavæðingarráð ('nordiskt globaliseringsråd') til að samhæfa aðgerðir Norðurlandanna í alþjóðlegri samkeppni.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék í ræðu sinni fyrst að norræna velferðarsamfélaginu sem stolti Norðurlandabúa en sagði að þrátt fyrir velferðina mætti ekki slá slöku við því að velferðarsamfélagið legði skyldur á herðar okkar. Ef velferðarsamfélagið ætti að standa undir nafni þyrftu þjóðirnar að leggja harðar að sér í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi á konum og börnum og í baráttunni fyrir því að innflytjendur hefðu aðgang að samfélaginu, því ef innflytjendur yrðu valdalaus jaðarhópur gæti það skapað hættulega spennu í samfélaginu. Þá ræddi Ingibjörg Sólrún stefnu í umhverfismálum. Hún sagði að nýlega hefði verið sýnt fram á að ef ekki yrði hafist handa nú þegar mundu loftslagsbreytingar hafa mjög slæm áhrif á hagkerfi heimsins. Því ættu Norðurlönd að taka forustu í þessum málum. Ingibjörg Sólrún hrósaði stefnu Svía á þessu sviði og benti á hversu framarlega Íslendingar stæðu í notkun umhverfisvænna orkugjafa á borð við vatnsorku og jarðhita. Þess háttar þekkingu ættu Norðurlandabúar að miðla til umheimsins.
    Steingrímur J. Sigfússon, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs, tók einnig þátt í umræðunum á norræna leiðtogafundinum. Hann veitti andsvar við ræðu Siv Jensen, oddvita norsku stjórnarandstöðunnar, frá norska Framfaraflokknum, varðandi ástæður þess að fólk yrði utanveltu í norrænu velferðarsamfélagi. Steingrímur andmælti orðum Jensen um að ástæðan væri sú að velferðarsamfélagið sljóvgaði fólk. Hann taldi að það væri frekar markaðshagkerfi nýfrjálshyggjunnar sem dæmdi fólk úr leik, en velferðarsamfélagið hefði komið í veg fyrir að enn fleiri væru utanveltu.
    Steingrímur J. Sigfússon veitti einnig ræðu Anders Fogh Rasmussens, forsætisráðherra Danmerkur, andsvar og spurði hvers vegna íslensk fyrirtæki fengju jafn óblíðar viðtökur í Danmörku og blaðagreinar um fjárfestingar íslenskra fjárfesta bæru vitni um. Fogh Rasmussen svaraði því til að íslenskar fjárfestingar væru vel þegnar í Danmörku, líkt og aðrar erlendar fjárfestingar. Hann bætti við að hann hefði ekki stjórn á fjölmiðlum í Danmörku þar sem þar ríkti fjölmiðlafrelsi.
    Eftir norræna leiðtogafundinn kynnti Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, áætlun Finnlands í formennskutíð sinni í Norrænu ráðherranefndinni árið 2007. Áætlunin nefnist: Norræn tækifæri – innan seilingar (Möjligheternas Norden – Nära dig). Í áætluninni er megináherslan lögð á þrjá þætti. Í fyrsta lagi að samræma formennsku Finna í ESB á seinni hluta 2006 og í Norrænu ráðherranefndinni árið 2007 þannig að skipulag ráðherranefndarinnar færist nær skipulagi ESB. Í öðru lagi að styrkja möguleika Norðurlanda á alþjóðavísu á sama tíma og tengsl Norðurlandabúa við velferðarsamfélagið eru treyst. Í þriðja lagi að beina athyglinni að umhverfismálum og heilsuvernd í norðlægu víddinni og styrkja tengslin við Rússland og Eystrasaltsríkin.
    Þá tóku við almennar umræður. Sigríður A. Þórðardóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, tók þátt í þeim. Hún ræddi styrk Norðurlandanna í alþjóðlegri samkeppni og sagði þau mynda sterkt svæði en velgengni þeirra kæmi ekki af sjálfu sér. Stöðugt þyrfti að halda vinnunni áfram því að áskoranirnar væru síbreytilegar. Sigríður tók fram hversu gleðilegt það væri að almenningur á Norðurlöndum styddi norrænt samstarf og hefði um það svipuð sjónarmið og ríktu á Norðurlandaráðsþinginu. Þar vitnaði Sígríður til þess að í skoðanakönnun sem Norðurlandaráð lét gera á Norðurlöndunum í aðdraganda þingsins kom í ljós að almenningur þekkti vel til og hefði jákvætt viðhorf til norræns samstarfs. Á Íslandi þekkja 90% til Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og 69% telja Norðurlöndin mikilvægan samstarfsaðila fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Til samanburðar nefna 52% ríki Evrópusambandsins, 23% Bandaríkin og 22% Kína sem mikilvægan samstarfsaðila landsins. Þá telja Íslendingar þrjá málaflokka mikilvægasta í norrænu samstarfi, þ.e. möguleika til náms og rannsókna í öðrum norrænum ríkjum, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og umhverfismál. Sigríður sagði að Norðurlöndin hefðu ýmsa sameiginlega styrkleikaþætti en einnig einstaka styrkleikaþætti. Einn styrkleikaþáttur sem Ísland gæti státað af sneri að orku- og umhverfismálum, sem gæfi landinu möguleika í alþjóðlegri samkeppni, og gat Sigríður þess að Ísland flytti þegar út þessa þekkingu til landa í Norður- og Suður-Ameríku, Afríku og Asíu. Þetta styrkti stöðu Norðurlandanna í framtíðinni.
    Jón Kristjánsson, varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, tók þátt í almennu umræðunum og talaði um jafnrétti kynjanna sem sameiginlegt norrænt gildi og hluta af lýðræðishefð Norðurlandanna. Jón taldi að það gæfi Norðurlöndum möguleika á forskoti á alþjóðavísu. Hins vegar sagði Jón að stöðugt þyrfti að halda upp árvekni fyrir jafnrétti kynjanna. Á Íslandi hefði nýleg könnun fyrir félagsmálaráðuneytið því miður leitt í ljós að launamunur kynjanna væri um það bil sá sami og fyrir tólf árum, eða um 16%. Hann taldi það ekki viðunandi og sagði að breytingum á þessu sviði mætti gjarnan miða hraðar. Stöðugt þyrfti að sýna aðhald og fylgjast með því að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla væri fylgt.
    Rannveig Guðmundsdóttir tók þátt í almennu umræðunum. Hún vakti athygli á mannréttindum samkynhneigðra og rifjaði upp að fyrir um aldarfjórðungi hefðu norrænir þingmenn á vettvangi Norðurlandaráðsþings þrýst á um umbætur í þá átt að samkynhneigðum á Íslandi væri sýnd virðing. Nú væri svo komið að ástæða væri að ræða stöðu samkynhneigðra í Færeyjum í tilefni af árás á færeyskan söngvara og undirskriftasöfnun samkynhneigðum til stuðnings. Rannveig benti á að færeyska Lögþingið hefði tvisvar fellt frumvarp um að kynhneigð yrði eitt af þeim atriðum sem refsivert væri að mismuna fyrir. Í framhaldi af því sagðist hún vona að Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, stigi í ræðustól og upplýsti hvenær og hvernig Færeyjar hygðust veita samkynhneigðum í Færeyjum sömu réttindi og annars staðar á Norðurlöndum. Eidesgaard svaraði á þann veg að málið fengi um þær mundir lýðræðislega meðferð hjá færeyska þinginu og bíða ætti niðurstöðu þess, en tók jafnframt fram að halda þyrfti áfram almennri umræðu um málið í Færeyjum.
    Rannveig Guðmundsdóttir tók einnig til máls í umræðum um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja í opinberu norrænu samstarfi. Staða sjálfstjórnarsvæðanna hefur verið til umfjöllunar hjá forsætisnefnd Norðurlandaráðs í kjölfar skýrslu sem unnin var að beiðni forsætisráðherra Norðurlanda vegna umsóknar Færeyja um fullgilda aðild að opinberu norrænu samstarfi. Umræðan hefur snúist um hvort og hvernig unnt sé að veita sjálfstjórnarsvæðunum meiri þátttöku í samstarfinu, en eins og staðan er nú er þátttaka þeirra mikil í samanburði við sambærilegt samstarf á alþjóðlegum vettvangi. Rannveig minnti á mikilvægi málsins og mikilvægi þátttöku sjálfstjórnarsvæðanna í Norðurlandaráði og hversu brýnt væri að ljúka afgreiðslu málsins. Umfjöllunin mætti ekki taka mörg ár.
    Steingrímur J. Sigfússon tók til máls um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna sem talsmaður flokkahóps vinstrisósíalista og grænna. Hann lýsti yfir stuðningi flokkahópsins við umsókn Færeyinga um fullgilda aðild að opinberu norrænu samstarfi og stuðningi við að sjálfstjórnarsvæðin yrðu aðilar að Helsinkisáttmálanum. Hann sagði að flokkahópur vinstrisósíalista og grænna væri á þeirri skoðun að málið snerist um pólitískan vilja til breytinga í takt við aukna þátttöku sjálfstjórnarsvæða í alþjóðlegu samstarfi frekar en lögfræðileg álitamál. Mikilvægast væri að fullur einhugur ríkti um málið í Lögþinginu og færeyskum stjórnmálum.
    Í fyrirspurnatíma samstarfsráðherra Norðurlandanna ítrekaði Rannveig Guðmundsdóttir fyrirspurn sína til færeyska samstarfsráðherrans Jógvans af Lækjunni um hvenær og hvernig Færeyingar hygðust tryggja samkynhneigðum í Færeyjum þau grundvallarmannréttindi sem tíðkuðust á Norðurlöndum. Jógvan af Lækjunni sagði að málið væri í lýðræðislegu ferli í Lögþinginu og að hvorki mannréttindabrot né önnur mismunun ætti sér stað í Færeyjum. Honum fannst slíkur skilningur á málinu á þinginu með ólíkindum og taldi ekki ásættanlegt að vakin væri athygli á Færeyjum í þessu ljósi. Jógvan af Lækjunni bætti því við að sú skoðun Rannveigar að samkynhneigðum væri mismunað í Færeyjum væri móðgun við færeysku þjóðina. Þessi skoðanaskipti og ummæli færeyska samstarfsráðherrans vöktu töluverða athygli í íslenskum fjölmiðlum. Fleiri þingmenn frá öðrum norrænum ríkjum fylgdu í kjölfar Rannveigar og inntu samstarfsráðherrann svara.
    Drífa Hjartardóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs, kvaddi sér hljóðs í umræðunni um sambúð menningarheima (Co-Existence of Civilizations). Hún lýsti yfir ánægju með tillögu sem lá fyrir þinginu um að myndaður yrði stýrihópur sem hefði frumkvæði að leiðum til að styðja við menningarlega fjölbreytni og sambúð í fjölmenningarlegu samfélagi. Drífa sagði í ræðu sinni að samskipti væru forsenda samræðunnar til að efla friðsamlega sambúð í samfélaginu og góð leið til þess að eiga samskipti væri að geta talað sama tungumál. Hún kom inn á aðstæður innflytjenda á Íslandi og benti á nauðsyn þess að þeir hefðu betri tækifæri til að læra íslensku. Þetta atriði væri einnig þýðingarmikið vegna tengsla þess við samfélagslegt öryggi á þann veg að sú hætta væri fyrir hendi að ef að hópur borgara í samfélaginu einangraðist vegna tungumálaörðugleika gætu vonbrigði þeirra brotist neikvætt út.
    Steingrímur J. Sigfússon lýsti einnig yfir ánægju með málið og mikilvægi þess í andsvari við Søren Espersen frá danska þjóðarflokknum sem lagði til að Norðurlandaráð aðhefðist ekkert í málinu.
    Í umræðum um samfélagslega aðlögun vegna loftslagsbreytinga á Norðurlöndum tók Rannveig Guðmundsdóttir til máls. Hún vakti athygli á rannsóknum sem hafnar eru á Íslandi í alþjóðlegri samvinnu um losun koltvísýrings djúpt í jörð gegnum borholur þar sem hann sameinast basaltbergi. Rannveig minnti einnig á mikilvægi Norðurskautsráðsins í umfjöllun um loftslagsbreytingar og þær áskoranir sem liggja fyrir á næstu sex árum þegar norræn lönd fara þar með formennsku.
    Norðmenn fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2007. Í lok þingsins var Dagfinn Høybråten kosinn forseti Norðurlandaráðs næsta árið og Berit Brørby varaforseti. Eftir kosningar í nefndir og ráð er nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2007 sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir situr áfram í forsætisnefnd, Jón Kristjánsson verður formaður velferðarnefndar, Drífa Hjartardóttir er áfram formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Steingrímur J. Sigfússon tekur sæti í forsætisnefnd, Sigríður A. Þórðardóttir situr áfram í menningar- og menntamálanefnd, Ásta R. Jóhannesdóttir situr áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og Kjartan Ólafsson situr áfram í borgara- og neytendanefnd og eftirlitsnefnd.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður í Ósló 30. október til 1. nóvember 2007.

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs 2006.
    Í starfsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2007 er megináhersla lögð á fjögur svið. Það fyrsta er áframhaldandi starf til að styrkja samkeppnishæfni Norðurlanda á alþjóðavísu. Þar er ekki einungis átt við markaðssetningu fyrirtækja og aðgang að áhættufjármagni heldur einnig hvað varðar tengsl menningar og efnahagslífs og að einkenna Norðurlönd í sambandi við orkunotkun og umhverfismál og velgengni norræna velferðarsamfélagsins.
    Þá er áhersla lögð á áframhaldandi starf til að afnema landamærahindrarnir fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þar ber hæst hugmyndir um að koma á fót skrifstofu svokallaðs norræns umboðsmanns í þeim tilgangi. Sú staðreynd að æ fleiri Norðurlandabúar búa og starfa í fleiri en einu norrænu ríki gerir slíka skrifstofu æ meira aðkallandi.
    Þriðja áherslumálið er baráttan gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi. Ástæðan er sú að skipulögð glæpastarfsemi er andhverfa þess sem einkennir norræn velferðarsamfélög, sem er virðing fyrir mannréttindum og öryggi borgaranna. Norðurlandaráð mun í þessu sambandi taka þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
    Fjórða sviðið sem lögð verður sérstök áhersla á í starfi Norðurlandaráðs árið 2007 er starf til að tryggja friðsamlega sambúð borgara norrænna samfélaga. Mikilvægt er að Norðurlandabúar af erlendum uppruna taki þátt í grundvallarþáttum samfélagsins þar sem það stuðlar að friðsamlegri uppbyggingu þess. Í þessu sambandi verður sérstaklega litið til aðstæðna kvenna sem eru innflytjendur út frá jafnréttissjónarmiðum.


Alþingi, 15. febr. 2007.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form.


Jón Kristjánsson,


varaform.


Rannveig Guðmundsdóttir.



Drífa Hjartardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Kjartan Ólafsson.




Fylgiskjal.


Ályktanir og tilmæli og ákvarðanir um innra starf
samþykkt á starfsárinu 2006.


     1.      Ályktun 1/2006: Að sporna gegn loftslagsbreytingum af manna völdum (A 1363/miljø).
     2.      Ályktun 2/2006: Áætlun og reglur um norrænt samstarf á sviði löggjafarmála (B 240/ medborger).
     3.      Ályktun 3/2006: Samræmdar upplýsingar um norrænan vinnumarkað í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi (A 1376/næring).
     4.      Ályktun 4/2006: Norrænar aðgerðir til að koma í veg fyrir innflutning ólöglegs vinnuafls frá Eystrasaltsríkjunum og Póllandi (A 1376/næring).
     5.      Ályktun 5/2006: Skýrsla og ráðstefna um samfélagsöryggi (A 1364/presidiet).
     6.      Ályktun 6/2006: Efling skiptireglunnar í efnavörulöggjöf ESB, REACH (A 1386/medborger/miljø/næring).
     7.      Ályktun 7/2006: Áhersla á umhverfismál á norðurslóðum (A 1387/miljø).
     8.      Ályktun 8/2006: Aðgerðir gegn fuglaflensu og norræn framleiðsla bólusetningarefnis (A 1383/välfärd).
     9.      Ályktun 9/2006: Rannsóknir á lagaumhverfi hafsvæða á norðurslóðum og norðurskautssáttmáli (A 1392/medborger).
     10.      Ályktun 10/2006: Eftirlitskerfi vegna skolplosunar í Eystrasaltið (A 1385/miljø).
     11.      Ályktun 11/2006: Verkefni um kortlagningu menntunarþarfar á sviði heilabilunar (A 1395/välfärd).
     12.      Tilmæli 12/2006: Eftirfylgni ákvarðana (pådriverordninger) um afnám landamærahindrana (A 1397/næring).
     13.      Tilmæli 13/2006: Tímatakmörk ákvarðana um afnám landamærahindrana (A 1397/ næring).
     14.      Tilmæli 14/2006: Stjórnarnefnd um fjölmenningu og eflingu samstöðu (A 1398/ presidiet).
     15.      Tilmæli 15/2006: Framkvæmdaáætlun um bætta heilsu og lífsgæði með mataræði og hreyfingu (B 247/välfärd).
     16.      Tilmæli 16/2006: Aðgerðir gegn útbreiðslu HIV/AIDS og fjölónæmra berkla á Barentssvæðinu (A 1382/välfärd).
     17.      Tilmæli 17/2006: Biðtími barna og unglinga eftir vistun á geðdeildum á Norðurlöndum (A 1400/välfärd).
     18.      Tilmæli 18/2006: Átak á Norðurlöndum gegn miðlun kynlífsviðskipta (A 1381/medborger).
     19.      Tilmæli 19/2006: Athvörf fyrir fórnarlömb mansals (A 1391/medborger).
     20.      Tilmæli 20/2006: Barátta gegn mansali til kynlífsþrælkunar (A 1393/medborger).
     21.      Tilmæli 21/2006: Norrænt samstarf um lífeldsneyti fyrir samgöngutæki (A 1394/miljø).
     22.      Tilmæli 22/2006: Frjáls félagasamtök (B 244/kultur).
     23.      Tilmæli 23/2006: Yfirlýsing um norræna málstefnu (B 245/kultur).
     24.      Tilmæli 24/2006: Grannsvæðasjónvarp eftir tilkomu stafrænnar tækni (A 1388/kultur).
     25.      Tilmæli 25/2006: Nordplus-áætlanirnar 2008–2011 (B 246/kultur).
     26.      Tilmæli 26/2006: Samanburðarúttekt á frumkvöðlum á Norðurlöndum (A 1396/næring).
     27.      Tilmæli 27/2006: Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2007 (B 243/ presidiet).
     28.      Innra starf 1/2006: Úttektaraðili á sviði samfélagsöryggis (A 1364/presidiet).
     29.      Innra starf 2/2006: Meginverkefni varðandi friðsamlega sambúð (A 1399/presidiet).
     30.      Innra starf 3/2006: Hótel sem ekki taka þátt í miðlun kynlífsviðskipta (A 1381/presidiet).