Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 928  —  451. mál.
Viðbót.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti og Guðlaug Sverrisson frá Úrvinnslusjóði. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar til lækkunar á upphæðum úrvinnslugjalds á umbúðir úr pappa, pappír og plasti og á olíuvörur, prentliti og hjólbarða. Endurskoðun þessari er ætlað að draga úr sjóðsmyndun sem átt hefur sér stað í þessum flokkum, en reynslan hefur sýnt að kostnaður vegna meðhöndlunar þessa úrgangs er lægri en menn reiknuðu með þegar gjöldin voru sett á. Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á álagningarstofni úrvinnslugjalds á umbúðir úr pappa, pappír og plasti. Leiðrétta þarf álagningarstofninn og er markmiðið með þeim breytingum að laga álagningarstofn gjaldsins að nýrri og nákvæmari upplýsingum um magn umbúða sem berst til landsins og gera hann þannig sanngjarnari gagnvart innflytjendum vara.
    Lögum um úrvinnslugjald hefur nokkrum sinnum verið breytt. Með lögum nr. 128/2004 voru gjöld á fjóra vöruflokka lækkuð umtalsvert til að koma á jafnvægi í rekstri þessara flokka. Var úrvinnslugjald á samsettar drykkjarvöruumbúðir þá lækkað um tæp 55%, gjald á rafhlöður um 50%, hjólbarða um tæp 17% og úrvinnslugjald á ökutæki var lækkað um tæp 33%. Í þessu sambandi má einnig nefna sérstaklega sem dæmi þær lækkanir sem hafa orðið á úrvinnslugjaldi á hjólbarða. Þann 1. janúar 2005 lækkaði gjaldið úr 36,02 kr./kg í 30 kr./kg og svo í 20 kr./kg þann 1. janúar 2006. Með frumvarpi þessu er lagt til að gjaldið lækki niður í 15 kr./kg.
    Í 4. mgr. 15. gr. laga um úrvinnslugjald er sjóðnum heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi rekstraraðila samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð. Á þessum grundvelli hefur Úrvinnslusjóður samið við prentsmiðju Morgunblaðsins og Ísafoldarprentsmiðju um að fyrirtækin fái endurgreitt innborgað úrvinnslugjald vegna kaupa sinna á prentlitum í samræmi við samning þar að lútandi. Í samningi milli Úrvinnslusjóðs og fyrirtækjanna er tilgreint hvaða skilyrði endurnýting á prentlitaafgöngum þarf að uppfylla til að úrvinnslugjaldið sé endurgreitt. Það er því á ábyrgð viðkomandi fyrirtækja að koma úrgangnum til endurnýtingar.
    Í upphafi árs 2006, er gjaldtaka hófst á úrvinnslugjaldi vegna pappa, pappírs- og plastumbúða, nýttu vel yfir 90% þeirra sem fluttu inn vöru til landsins sér reiknireglur. Þróunin fyrstu 9 mánuði ársins 2006 hefur verið að 87% af innfluttum umbúðum úr pappa eru gefnar upp með reiknireglu og 85% plastumbúða. Þeim sem gefa upp magn umbúða fer því jafnt og þétt fjölgandi.
    Nefndin leggur til tvær breytingar við frumvarpið. Er annars vegar gerð breyting í þá veru að lögin öðlist gildi 1. mars 2007 og hins vegar leggur nefndin til breytta viðauka þar sem ranglega var farið með nokkur númer í frumvarpinu.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ásta R. Jóhannesdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. febr. 2007.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Mörður Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Kjartan Ólafsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.