Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 628. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 936  —  628. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2006.

1.    Inngangur.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi hinn 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja, sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Markmið ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafssvæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og landstjórna landanna og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis-, auðlinda- og samgöngumál, aukið menningarsamstarf og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur saman til ársfundar sem fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð þingmanni frá hverju aðildarríki, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið heldur árlega þemaráðstefnu þar sem sérstakt málefni er tekið fyrir og getur auk þess skipað vinnunefndir um tiltekin mál. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landstjórna, virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samvinnu við norðurheimskautsstofnanir og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

2.    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Árið 2006 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn: Halldór Blöndal, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigurjón Þórðarson, þingflokki Frjálslynda flokksins, Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigurrós Þorgrímsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Varamenn voru Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokki Frjálslynda flokksins, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Í upphafi árs gegndi Arna Gerður Bang starfi ritara Íslandsdeildar en Tómas Brynjólfsson tók við af henni í byrjun febrúar.
    Á fyrsta fundi nýrrar Íslandsdeildar hinn 9. október 2006 var Halldór Blöndal endurkjörinn formaður og Hjálmar Árnason endurkjörinn varaformaður.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt þrjá fundi á árinu. Á fyrri hluta ársins bar hæst undirbúning fyrir þemaráðstefnu um ferðamál sem haldin var á Grænlandi. Íslandsdeildin tók virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og ræddi ýmsar tillögur að dagskrá og erindum. Ákveðið var að Íslandsdeildin legði fram þrjár tillögur til ályktana á ársfundi ráðsins sem haldinn var í Færeyjum í ágúst.

3.    Starfsemi forsætisnefndar.
    Forsætisnefnd hélt sex fundi á árinu. Halldór Blöndal, formaður Íslandsdeildar, sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar í Kaupmannahöfn 12. janúar, símafund 27. mars, fund í Maniitsoq 7. júní, en sá fundur var haldinn samhliða þemaráðstefnu ráðsins um ferðaþjónustu, auk fundar samhliða ársfundi ráðsins í Þórshöfn 18. ágúst. Hjálmar Árnason, varaformaður Íslandsdeildar, sat símafund forsætisnefndar 23. október og fundi í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn 31. október til 2. nóvember, í fjarveru formanns. Tómas Brynjólfsson, ritari nefndarinnar, sótti fundina ásamt þingmönnunum nema fund 12. janúar sem Belinda Theriault sat.
    Fyrsti fundur forsætisnefndar var haldinn í Kaupmannahöfn 12. janúar. Í upphafi fundar kynnti Már Másson, viðskiptafulltrúi í íslenska sendiráðinu, aðstoð sendiráðsins við útrás íslenskra fyrirtækja. Hann sá samstarfsmöguleika á Vestur-Norðurlöndum á sviði þjónustuviðskipta og ferðamála og innan matvælaiðnaðarins. Skoða mætti t.d. að kynna Vestur- Norðurlönd sem áfangastað fyrir ferðamenn með sameiginlegu lógói og átaki út á við, þó að menn kepptust síðan sín á milli um ferðamennina innan svæðisins. Hann benti á að slíkt samstarf kallaði á traustar flugsamgöngur, sameiginlegt markaðsátak og samstarf um gagnagrunn á sviði markaðsmála.
    Rætt var um dagskrá þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram undan var í júní í Færeyjum, auk skipulagningar ársfundar ráðsins. Var m.a. ákveðið að hafa guðsþjónustu í tengslum við skoðunarferð á sunnudeginum þar sem Jonathan Motzfeldt predikaði.
    Rætt var um vestnorrænan dag sem samtök ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum hefðu hug á að halda á Norður-Atlantshafsbryggjunni í október. Forsætisnefndarmenn voru mjög jákvæðir gagnvart þessu framtaki og var ákveðið að skrifa þingum vestnorrænu landanna bréf og mæla með því að verkefnið yrði styrkt af þingunum. Jafnframt var tekin ákvörðun um að athuga hvort Vestnorræna ráðið gæti með einhverjum hætti komið að þessum degi með kynningu á sinni starfsemi.
    Ákveðið var að kynna framvegis verðlaunahafa barnabókaverðlaunanna með móttöku í landi vinningshafans í stað þess að kynna vinningshafann á ársfundinum. Voru allir sammála um að nýtt fyrirkomulag yrði hagkvæmara og betra fyrir alla sem að verðlaunaafhendingunni koma.
    Rætt var um bréf frá norsku rannsóknaráði þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi við útgáfu á rannsókn á velferðarmálum á Vestur-Norðurlöndum. Fundarmenn voru jákvæðir gagnvart verkefninu sem slíku, en ákváðu að hafna beiðninni þar sem Vestnorræna ráðið hefur hvorki vald né fjárráð til að veita styrki.
    Forsætisnefnd hélt símafund 23. október. Á fundinum var rætt um fundi forsætisnefndarinnar í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í byrjun nóvember. Ákveðið var að fela framkvæmdastjóra ráðsins að gera drög að ályktun forsætisnefndar um stuðning hennar við hvalveiðar Íslendinga og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hélt fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og sjávarútvegs-, menningar-, samstarfs- og ferðamálaráðherrum vestnorrænu landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn 31. október til 2. nóvember.
    Forsætisnefndin kom fyrst saman til þess að ræða um fundina fram undan og starfsemi ráðsins. Þar kom fram að nokkrar umræður hefðu spunnist í Færeyjum og Grænlandi um ályktun um aukna kennslu í menningu, sögu og tungumálum hinna landanna. Í löndunum tveimur hafði verið lýst áhyggjum af því að auka þyrfti tungumálanám í skólakerfinu ef ályktunin næði fram að ganga. Forsætisnefndarmenn voru þó nokkuð vissir um að upphaflegur tilgangur ályktunarinnar, þ.e. að auka skilning skólabarna á menningu næstu nágrannaþjóða, mundi skýrast í meðferð þingnefnda. Grænlenska landstjórnin hefur auk þess bent á vankanta ályktunar um að löndin skiptist á ræðismannsskrifstofum. Samkvæmt Vínarsáttmálanum geta Grænland og Færeyjar ekki stofnað ræðismannsskrifstofur með diplómatíska stöðu hvort í annars landi, eins og hvatt er til í ályktun ráðsins, þar sem þau tilheyra sama ríki. Samstaða var innan forsætisnefndarinnar um að viðskiptaskrifstofur gætu komið í stað ræðismannsskrifstofa líkt og bent er á í greinargerð með ályktuninni. Framkvæmdastjóri ráðsins kynnti að því loknu tillögur að frímerkjum sem gefin verða út í löndunum þremur í upphafi árs 2007 í tilefni tíu ára afmælis Vestnorræna ráðsins. Auk þess er vilji til þess meðal forsætisnefndarinnar að efna til málþings í tengslum við ársfund ráðsins í Nuuk í ágúst. Einnig var ákveðið að næsti fundur forsætisnefndar skyldi haldinn í tengslum við ráðstefnu Evrópuþingsins um norðlægu víddina sem fram fer í Brussel í lok febrúar 2007. Formaður forsætisnefndarinnar taldi mikilvægt að ráðið léti að sér kveða í tengslum við ráðstefnu Evrópuþingsins til þess að koma í veg fyrir að norðurskautið gleymist í stefnumörkun Evrópusambandsins. Að lokum var rætt um tillögu að ályktun forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins um stuðning við hvalveiðar Íslendinga. Ályktunin var samþykkt af forsætisnefndinni undir lok Norðurlandaráðsþings.
    Fyrsti fundur forsætisnefndar með ráðherrum var með menningarmálaráðherrum Færeyja og Grænlands og fulltrúa íslenska ráðherrans. Á fundinum kynnti Jonathan Motzfeldt, formaður forsætisnefndarinnar, starf Vestnorræna ráðsins á síðasta ári. Í máli sínu lagði hann áherslu á mikilvægi menningarmála í samstarfi ríkjanna sem eru í raun það sem heldur ríkjunum saman. Formaður forsætisnefndarinnar sagði ráðherrum einnig frá því að á næsta ári ætti ráðið tíu ára afmæli og að hugsanlega yrði sóst eftir samstarfi við ráðuneyti menningarmála varðandi hátíðarhöld vegna afmælisins. Nokkur umræða spannst um nýjan samstarfssamning ríkjanna varðandi menningarmál. Rætt var um ályktun 1/2001 um skrásetningu veiðimenningar ríkjanna og 1/2005 um rithöfundanámskeið. Ráðherrarnir bentu á að nokkuð hefði áunnist varðandi vinnu við varðveislu veiðimenningarinnar, hvort sem það yrði gert með skrásetningu, gerð heimildarmyndar eða á annan hátt. Ef meira ætti að gera þyrftu þeir fjármunir að dragast frá öðrum verkefnum. Á fundinum kom fram að mikilvægt væri fyrir Vestur-Norðurlönd að ný menningarmálastofnun Norðurlandanna yrði staðsett á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn að tillögu vestnorrænu landanna. Stofnunin fór að lokum til Finnlands. Ráðherrarnir fóru yfir breytingar á menningarsamstarfi landanna og hugsanleg áhrif þeirra.
    Að loknum fundinum með menningarmálaráðherrum var fundur með ferðamálaráðherrum Færeyja og Grænlands, auk fulltrúa íslenska samgönguráðuneytisins. Að lokinni almennri kynningu á starfi ráðsins síðastliðið ár var rætt um flugsamgöngur milli Íslands og Narsasuaq næsta sumar. Flugið virðist vera í nokkru uppnámi m.a. vegna skorts á samkomulagi milli stjórnvalda Íslands og Grænlands um framkvæmd fjárstuðnings við flugið. Útlit er fyrir að ferðum verði fækkað og flugtímabilið stytt. Málið var rætt ítarlega á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í júní 2006. Forsætisnefndin lagði á það mikla áherslu að samgöngur milli Íslands og Grænlands yrðu tryggðar a.m.k. um sumartímann.
    Á fundi með umhverfisráðherrum landanna þriggja spannst veruleg umræða um samstarf á sviði nýtingar sjálfbærra orkugjafa sem komist hefur á í kjölfar ályktunar ráðsins. Auk þess var rætt um samstarf Íslands og Færeyja varðandi endurnýtingu plasts og veiðarfæra og hugsanlega þátttöku Grænlands í því samstarfi. Þemafundur ráðsins í ágúst um loftslagsbreytingar var kynntur ráðherrunum. Umhverfisráðherra Íslands kynnti fund um áhrif loftslagsbreytinga á Norður-Atlantshafi sem haldinn var á Íslandi í september. Á Grænlandi fara einnig fram loftslagsrannsóknir og sagði ráðherrann m.a. frá rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga á seltustig sjávar.
    Á fundi með samstarfsráðherrum var farið yfir starf ráðsins og ályktanir þess frá síðasta ársfundi. Einnig var rætt um stöðu ályktana frá fyrri ársfundum sem hafa enn ekki verið afskrifaðar. Formaður forsætisnefndarinnar kynnti einnig starfið fram undan, sérstaklega ársfundinn á næsta ári og þemaráðstefnuna sem haldin verður á Húsavík í júní um Vestur- Norðurlönd og fríverslun. Þónokkur umræða spannst um jafnréttismál í löndunum þremur, þó sérstaklega í Færeyjum. Á fundinum kynnti Hjálmar ákvörðun utanríkisráðherra Íslands um stofnun aðalræðismannsskrifstofu í Færeyjum á næsta ári. Henrik Old sagðist fagna nýjum fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja en það þyrfti að ljúka ákveðnum atriðum sem lúta að sjávarútvegi.
    Á fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs var farið yfir starf ráðanna undanfarið ár og rætt um starfið fram undan. Því næst var rætt um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna innan norræns samstarfs og samstarfssamning Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og hann undirritaður. Norðurlandaráð hefur beðið ríkisstjórnirnar um skýra afstöðu til sjálfstjórnarsvæðanna fyrir næsta Norðurlandaráðsþing. Samstaða er um að mikilvægt sé að fá svar sem fyrst og ekki sé hægt að víkja sér frekar undan því að taka afstöðu til þessa máls. Helst virðist vera andstaða meðal Svía sem óttast að með inngöngu sjálfstjórnarsvæðanna fái Danmörk í raun þrjú atkvæði og Finnland tvö. Nefndarmenn lýstu yfir miklum áhuga á að auka samstarf ráðanna um loftslagsmál og að embættismenn ráðanna tveggja ættu að athuga samstarfsmöguleika á því sviði við fyrsta tækifæri.
    Á fundi með sjávarútvegsráðherrum landanna mætti aðeins íslenski ráðherrann. Hann fór yfir samstarf landanna á sviði sjávarútvegsmála, sérstaklega varðandi flökkustofna og hvalveiðar. Forsætisnefndin var sammála um mikilvægi sjálfbærrar nýtingar þeirra auðlinda sem hafið hefur að geyma. Forsætisnefndin hefur mikinn áhuga á að sjávarútvegsnefndir landanna fundi sem fyrst í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2005. Íslenska sjávarútvegsráðuneytið styður þátttöku ráðherra. Rætt var um að nefndirnar, ásamt fulltrúum ráðuneyta, gætu komið saman til funda fyrri hluta næsta árs.
    Vestur-Norðurlönd og samstarf þeirra nutu nokkurrar athygli á Norðurlandaráðsþingi fyrir utan fundi forsætisnefndarinnar. Sem dæmi um það má nefna að fríverslunarsamningur Færeyja og Íslands, svokallaður Hoyvíkursamningur, tók gildi 1. nóvember og utanríkisráðherra Íslands tilkynnti um fyrirhugaða opnun aðalræðismannsskrifstofu í Færeyjum. Auk þess lýstu ráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs áhuga á að auka samstarf á sviði leitar- og björgunarmála. Formaður forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins hafði lagt áherslu á mikilvægi slíks samstarfs á fundum nefndarinnar með ráðherrum.

4.    Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins.
    Í desember 2005 voru tilkynntar tilnefningar til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins árið 2006. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og var þetta í þriðja skipti sem tilnefningar fóru fram. Dómnefndir landanna þriggja tilnefna eina bók hver frá sínu landi.
    Íslenska dómnefndin tilnefndi til verðlaunanna skáldsöguna Frosnu tærnar eftir Sigrúnu Eldjárn. Grænlenska dómnefndin tilnefndi barnabókina Jólasveinninn og litlu sveinarnir eftir Grethe Guldager sem Nuka Godfredsen myndskreytti. Dómnefnd Færeyja tilnefndi bókina Hundur, köttur og mús eftir Bárð Oskarsson til verðlaunanna. Vestnorræna dómnefndin veitti bókinni Hundur, köttur og mús eftir Bárð Oskarsson verðlaunin 2006 og voru þau afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við ársfund ráðsins í ágúst. Verðlaunin verða næst veitt árið 2008.
    Markmiðið með barnabókaverðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur- Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu en þær bækur sem hljóta tilnefningu eru þýddar á vegum menntamálaráðuneyta landanna á vestnorrænu málin og skandinavísku.
    
5.    Þemaráðstefna um ferðaþjónustu.
    Dagana 6.–9. júní var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um ferðaþjónustu haldin í bænum Maniitsoq á vesturströnd Grænlands. Rúmlega fjörutíu fulltrúar frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi sóttu ráðstefnuna. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu ráðstefnuna Halldór Blöndal, formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sigurjón Þórðarson og Gunnar Örlygsson, auk Tómasar Brynjólfssonar ritara. Ráðherrar frá Grænlandi og Færeyjum sóttu einnig ráðstefnuna, svo og fulltrúar Norðurlandaráðs og norska þingsins.
    Meginmarkmið ráðstefnunnar var að efla upplýsingaflæði milli landanna í þessum málaflokki og finna fleti á frekara samstarfi. Þingmenn báru saman bækur sínar um ástand og framtíð ferðaþjónustunnar. Leitað var leiða til að auka samvinnu landanna á milli og gera þá samvinnu sem fyrir er markvissari. Einnig var horft til samkeppnishæfni svæðisins til framtíðar og hugsanlegrar markaðssetningar þess í heild. Alþjóðlegir sérfræðingar fluttu erindi um margvíslegar hliðar ferðaþjónustunnar og hugsanlegt samstarf og markaðssetningu landanna þriggja.
    Á ráðstefnunni kom fram að löndin þrjú þyrftu að gera sér vel grein fyrir styrkleikum sínum og leggja í því sambandi áherslu á náttúru, menningu og mat sem mikilvæga þætti í þeirri einstöku reynslu sem ferðalög um vestnorrænu löndin getur verið. Ekki sé mögulegt fyrir löndin að keppa við suðlægari láglaunalönd um fjölda ferðamanna. Löndin þrjú þyrftu þess í stað að einbeita sér að styrkleikum sínum og sérkennum. Í erindum frá löndunum þremur komu fram óskir um þéttara og uppbyggilegra samstarf. Áhersla var lögð á að samstarfið skyldi byggjast á menntun starfsmanna í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum. Löndin þrjú kynntu auk þess stöðu ferðamála í sínu landi. Langflestir ferðamenn í löndunum þremur koma til Íslands og auka þarf þann fjölda sem flýgur áfram til hinna landanna tveggja. Þónokkur bjartsýni ríkir um framtíð ferðaþjónustu í löndunum. Á Grænlandi eru t.d. bundnar miklar vonir við beint flug til Baltimore í Bandaríkjunum.
    Í tengslum við þróun ferðamannaiðnaðarins var mikið rætt um mikilvægi góðra samgangna. Árni Gunnarsson frá Flugfélagi Íslands lagði áherslu á mikilvægi frjálsra flugsamgangna milli landanna þriggja. Hann sagði einnig mikilvægt að flugbrautir yrðu lengdar og aðstaða á flugvöllum bætt auk þess sem mikilvægt væri fyrir Grænlendinga að hafa flugvelli sína opna á sunnudögum. Fulltrúar á ráðstefnunni virtust sammála um mikilvægi góðra og tíðra samgangna milli landanna þriggja fyrir öflugt samstarf þeirra í ferðamálum.
    Einnig var rætt um stofnanaumgjörð vestnorræns samstarfs í ferðamálum. Grænlensk og íslensk ferðamálayfirvöld virtust ekki sammála um hvernig skuli haga því.
    Halldór lagði áherslu á mikilvægi samstarfs ríkjanna í ferðamálum, sérstaklega á það grundvallarhlutverk sem góðar samgöngur á svæðinu gegna í auknu samstarfi landanna á sviði ferðaþjónustu. Anna Kristín lagði sérstaka áherslu á mikilvægi menntunar í ferðamálafræðum. Hún minntist á þann árangur sem náðst hefur á Íslandi á þessu sviði á undanförnum árum, m.a. í tengslum við sértæka menntun í ferðamálafræðum fyrir dreifbýli í háskólanum á Hólum.
    Forseti Norðurlandaráðs, sem var gestur fundarins, ræddi um nauðsyn nánara og formlegra samstarfs Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins. Þessi hugmynd var tekin fyrir á forsætisnefndarfundi Vestnorræna ráðsins sem haldinn var samhliða ráðstefnunni. Þar fékk hún góðan hljómgrunn og var ákveðið að embættismenn skyldu vinna drög að samstarfssamningi fyrir ársfund ráðsins í ágúst.
    
6.    Ársfundur Vestnorræna ráðsins.
    Dagana 18.–22. ágúst 2006 var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn í Þórshöfn í Færeyjum. Meginmálefni ársfundarins voru ferðaþjónusta, loftslagsbreytingar og fríverslun. Fyrir hönd Íslandsdeildar sátu fundinn Halldór Blöndal, formaður, Hjálmar Árnason, varaformaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson, auk Tómasar Brynjólfssonar, ritara Íslandsdeildar. Halldór Blöndal og ritari nefndarinnar sóttu forsætisnefndarfund ráðsins sem haldinn var í tengslum við ársfundinn.
    Fyrir upphaf ársfundarins var tilkynnt að Bárður Oskarsson frá Færeyjum hlyti barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins sem veitt eru annað hvert ár. Þetta er í fyrsta skipti sem Færeyingur hlýtur verðlaunin. Við upphaf ársfundarins flutti fráfarandi formaður Vestnorræna ráðsins, Henrik Old, ræðu og formenn landsdeildanna fóru yfir þróun vestnorrænna málefna í sínu heimalandi.
    Laugardaginn 19. ágúst var haldinn þemadagur um loftslagsbreytingar og hugsanleg áhrif þeirra á Norður-Atlantshafið og vestnorrænu löndin. Á fundinum fluttu margir af fremstu sérfræðingum vestnorrænu landanna í loftslagsmálum erindi. Þar kom m.a. fram að búist er við að hitastig á jörðinni eigi eftir að hækka um að meðaltali þrjár gráður næstu fimmtíu árin af völdum gróðurhúsaáhrifa. Búast mætti þó við enn meiri hækkun á norðurslóðum. Eftir erindi sérfræðinganna voru umræður um breytingarnar þar sem sérfræðingarnir sátu fyrir svörum. Sunnudaginn 20. ágúst var farið í útsýnisferð til Suðureyjar. Þar var þess m.a. minnst að 100 ár eru liðin frá upphafi færeyskrar útgerðar við strendur Grænlands.
    Mánudaginn 21. ágúst var fundargestum skipt í vinnuhópa þar sem farið var yfir tillögur forsætisnefndar um framtíð fyrri ályktana Vestnorræna ráðsins. Ákveðið var að afskrifa þær ályktanir sem þegar höfðu verið uppfylltar. Ole Stavad, forseti Norðurlandaráðs, hélt því næst ræðu þar sem kom fram að forsætisnefndir Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins væru sammála um að gerð yrðu drög að formlegum samstarfssamningi þessara tveggja ráða. Hann lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að færa athygli Norðurlandaráðs aftur til vesturs, en frá lokum kalda stríðsins hefði athygli þess beinst í síauknum mæli að Eystrasaltinu, Rússlandi og Austur-Evrópu almennt. Hann fjallaði einnig um hugsanlega aðild sjálfstjórnarsvæðanna þriggja að Norðurlandaráði. Sagði hann að málið væri pólitískt úrlausnarefni frekar en lagalegt deilumál. Þjóðirnar þrjár væru þó misvel undir aðild búnar og að Grænlendingar og Álendingar hefðu ekki lýst yfir jafnmiklum áhuga og Færeyingar.
    Mikil umræða spannst um ferðamál í ljósi þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Grænlandi í júní 2006 og umhverfismál, m.a. um framtíð endurnýjanlegra orkugjafa í vestnorrænu löndunum. Hugmyndir eru um nýtingu vetnis í auknum mæli á Íslandi og í Færeyjum auk þess sem Grænlendingar stefna að aukinni nýtingu vatnsorku. Þónokkur umræða spannst einnig um jafnréttismál á Vestur-Norðurlöndunum þremur. Sérstaklega var rætt um hversu fáar konur sitja á færeyska þinginu.
    Ársfundurinn samþykkti að þessu sinni fimm ályktanir sem verða lagðar fram sem þingsályktunartillögur á þjóðþingunum þremur. Í fyrsta lagi samþykkti ársfundurinn að leggja til við ríkisstjórnirnar að löndin opni ræðismannsskrifstofur með sendifulltrúastöðu hvert hjá öðru. Í öðru lagi skal ræða möguleika á stækkun fríverslunarbandalags Íslands og Færeyja (Hoyvíkursamkomulagið) með þátttöku Grænlands. Ráðið benti á að vestnorrænu þjóðirnar ættu langa samstarfshefð að baki og að fríverslunarsvæði milli eyjanna í Norður-Atlantshafi væri hagfellt íbúum, stjórnvöldum og atvinnulífi landanna þriggja. Gefinn er kostur á því í Hoyvíkursamkomulaginu að fleiri hlutar danska konungsríkisins geti orðið aðilar að því. Í þriðja lagi leggur ársfundurinn til við ríkisstjórnirnar að sett verði ferðaþjónustustefna fyrir Vestur-Norðurlönd í heild sinni. Þar verði gerðar áætlanir um styrkingu sameiginlegrar markaðssetningar Vestur-Norðurlanda sem ferðamannasvæðis og aukna kennslu í ferðamálafræðum. Í fjórða lagi var lagt til við ríkisstjórnirnar að í kennsluskrá grunnskóla landanna yrði sett kennsla í sögu, samfélagsgerð, menningu og tungumálum grannlanda á Vestur- Norðurlöndum. Í fimmta lagi var samþykkt að styrkja samstarf og upplýsingagjöf um skaðsemi reykinga.
    Auk þess samþykkti ráðið einróma að hækka árleg framlög til barna- og unglingabókaverðlaunanna um 20.000 DKK, úr 60.000 í 80.000 DKK. Nauðsynlegt er að hækka framlögin til þess að þau standi undir öllum kostnaði við verðlaunin, sérstaklega í ljósi verðbólgu undanfarinna ára. Auk þess samþykkti ráðið að framlög þinganna til ráðsins skyldu héðan í frá ákveðin tvö ár fram í tímann til þess að koma til móts við fjárlagagerð í löndunum þremur. Heildarframlög til Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2007 verða því 969.503 DKK. Alþingi greiðir þar af 484.752 DKK. Framlögin fyrir árið 2008 verða þá 998.588 DKK. Alþingi greiðir þar af 499.294 DKK. Á fundinum var Jonathan Motzfeldt, forseti grænlenska landsþingsins, kosinn formaður Vestnorræna ráðsins, Halldór Blöndal var kjörinn fyrsti varaformaður og Henrik Old frá lögþingi Færeyja annar varaformaður.

7.    Ályktanir Vestnorræna ráðsins á ársfundi í Þórshöfn 18.–22. ágúst 2006.
          Ályktun til þingsályktunar um sameiginlegar vestnorrænar ræðisskrifstofur.
          Tillaga til þingsályktunar um útvíkkun fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja (Hoyvíkursamkomulagið) með þátttöku Grænlands.
          Tillaga til þingsályktunar um sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd.
          Tillaga til þingsályktunar um kennslu vestnorrænnar menningar í grunnskólum.
          Tillaga til þingsályktunar um samvinnu vestnorrænna landa og upplýsingamiðlun í baráttunni gegn reykingum.
    

Alþingi, 20. febr. 2007.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.



Guðrún Ögmundsdóttir.



Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Sigurjón Þórðarson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.