Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 635. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 943  —  635. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um flutning á starfsemi Fiskistofu.

Flm.: Ólafur Níels Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hefja nú þegar undirbúning að flutningi Fiskistofu út á landsbyggðina með aðalstöðvar á Akureyri og starfsstöðvar í Hafnarfirði, í Grindavík, í Ólafsvík, á Ísafirði, á Þórshöfn, í Fjarðabyggð, á Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Leitast verði við að starfseminni sé dreift sem jafnast á starfsstöðvarnar þar sem 8–15 manns starfi í hverri stöð. Flutningi stofnunarinnar verði lokið innan tveggja ára.

Greinargerð.


    Grunnur allrar starfsemi Fiskistofu á rætur sínar að rekja út á landsbyggðina. Enga stofnun er auðveldara að flytja og að líkindum yrðri hún mun ódýrari í rekstri með dreifðri starfsemi sem næst þeim aðilum sem stofnunin á að fylgjast með. Með þeim samskiptaleiðum sem til eru í dag á þetta að vera auðvelt. Ekki er verið að rétta landsbyggðinni neitt heldur færa starfsemi á þá staði þar sem hún á heima, þ.e. nær upprunanum. Það var stórslys þegar Fiskistofa var sett á laggirnar að hún skyldi ekki hafa aðalstöðvar úti á landi og enginn sá fyrir sér hvað þessi stofnun átti eftir að blása út.
    Hjá Fiskistofu starfa nú 96 starfsmenn og þar af virðast 10 vera „staðbundnir“, sem á víst að þýða að þeir séu við starfsstöðvar úti í á landi. Þess vegna eru þeir staðbundnir. Ef þeir eru á höfuðborgarsvæðinu virðast þeir ekki vera staðbundnir.
    Þróun ríkisstarfa hefur jafnframt verið sú að draga úr starfsemi úti á landi. Lítil byggðarlög hafa þannig tapað heilsársstörfum sem hafa verið þeim mikilvæg stoð. Með flutningi starfa sem tilheyra Fiskistofu nær upprunanum og á þá staði þar sem störfin eru unnin er jafnframt stigið mikilvægt skref í þá átt að styrkja búsetu á landsbyggðinni.