Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 637. máls.

Þskj. 945  —  637. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Við II. kafla laganna bætist ný grein er verður 9. gr. laganna og breytast númer annarra greina í samræmi við það. Greinin orðast svo ásamt fyrirsögn:

Breyting á vatnsfarvegi.


    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. vatnalaga, nr. 20/2006, er fasteignareiganda heimilt að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns.
    Nú þarf sá sem ætlar að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. afnot af fasteignum annarra manna og getur þá ráðherra veitt heimild til eignarnáms. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati ef ekki semst með aðilum.
    Ráðherra er rétt að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill. Landgræðsla ríkisins í samráði við Vegagerðina, eftir því sem við á, annast þær framkvæmdir sem ráðherra ákveður að ráðist skuli í. Heimilt er ráðherra að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á vatnalögum, nr. 20/2006:
     1.      1. mgr. 22. gr. orðast svo:
                      Heimilt er fasteignareiganda að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru til vatnsveitugerðar, áveitugerðar, orkunýtingar o.s.frv.
     2.      3. mgr. 22. gr. orðast svo:
                      Ráðherra er rétt að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. enda sé framkvæmdin í þágu almannaheilla. Heimilt er ráðherra að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.
     3.      Í stað 1. mgr. 34. gr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                      Iðnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum þessum.
                      Landbúnaðarráðherra fer með leyfisveitingar skv. 14. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við þinglega meðferð frumvarps til vatnalaga á 132. löggjafarþingi, sem varð að lögum nr. 20/2006 með gildistöku 1. nóvember 2007, kom í ljós að við smíð frumvarpsins hafði ekki verið höfð í huga sú skipan mála og verkaskipting sem nú er samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923, sbr. og 6. tölul. 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004. Í 75. gr. gildandi vatnalaga, nr. 15/1923, er fjallar um varnir lands og landsnyja gegn ágangi vatna, er svohljóðandi ákvæði:
     1. Rétt er ríkinu, héruðum, vatnafélögum og einstökum mönnum að hleypa niður vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg, flóðgarða og fyrirhleðslur eða önnur mannvirki í vatni eða við það í því skyni að verja land eða landsnytjar við spjöllum af landbroti eða árennsli vatns.
    2. Nú þarf sá, er vill framkvæma mannvirki slík sem í 1. lið segir, til þess afnot af landi annarra manna, og getur þá ráðherra veitt heimild til lögnáms samkvæmt 55. gr.
    3. Nú þykir tjón eða hætta búin eign annars manns eða réttindum af mannvirkjum slíkum sem í 1. lið segir, eða að af þeim mundu stafa óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta hagsmunum almennings, og má þá því aðeins framkvæma verkið, að leyfi ráðherra komi til. Leyfi má binda þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja vegna hagsmuna ríkisins, almennings eða einstakra manna.
    4. Bæta skal tjón og spjöll á eignum annarra, sem leiðir af framkvæmdum samkvæmt þessari grein. Bætur skal ákveða með mati, ef eigi semur.
    Greinin mælir fyrir um heimild eða leyfi ráðherra til ákveðinna framkvæmda og til lögnáms. Í 151. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, segir að atvinnumálaráðherra fari með yfirstjórn þeirra mála er lögin mæla fyrir um. Eftir að atvinnuvegamálaráðuneytið var aflagt og sérgreind ráðuneyti fyrir landbúnað, sjávarútveg og iðnað og viðskipti urðu til deildust þau verkefni sem gildandi vatnalög mæla fyrir um á viðkomandi ráðuneyti eftir starfssviði þeirra, sbr. nú reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004. Samkvæmt framansögðu fór landbúnaðarráðherra með þær leyfisveitingar og leyfi til lögnáms sem mælt er fyrir um í 75. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, allt þar til frumvarp til nýrra vatnalaga hlaut samþykki sitt á Alþingi 16. mars 2006.
    Í nýjum vatnalögum sem öðlast gildi 1. nóvember 2007 segir eftirfarandi í 14. gr. þar sem fjallað er um heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag:
     Nú breytist farvegur af náttúrulegum ástæðum og er þá fasteignareiganda hverjum sem bagi verður að breytingunni rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Ef til þess þarf afnot af annarri fasteign eru þau heimil samkvæmt leyfi ráðherra, en þá getur eigandi þeirrar fasteignar krafist bóta fyrir tjón og óþægindi sem slíkt bakar honum. Ef ágreiningur verður skal skorið úr með eignarnámsmati.
    Nú hefur sama ástand haldist í 20 ár eða lengur og skal þá um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo.

    Í greinargerð frumvarpsins segir um 14. gr:
     Í greininni er kveðið á um heimild til að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Hún er nánast samhljóða 8. gr. gildandi vatnalaga. Sjá nánar um rökin Alþt. 1921, A- deild, bls. 182; nefndarálit meiri hluta fossanefndar, A.I, bls. 62 og nefndarálit minni hluta fossanefndar, bls. 34.
    Í samræmi við meginreglu 14. gr. frumvarpsins og Landsleigubálks Jónsbókar þess efnis að „vötn öll skulu svá renna sem at fornu runnit hafa; veit þat eingi maður af bæ eða á bæ annars, nema þat brjóti sjálft“ er fasteignareiganda heimilt skv. 1. mgr. að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag ef farvegur breytist án þess af mannavöldum sé. Ef til þess þarf afnot annarrar fasteignar eru þau heimil samkvæmt leyfi ráðherra, en þá getur viðkomandi fasteignareigandi krafist bóta fyrir tjón og óþægindi sem verkið bakar honum. Ef ágreiningur verður skulu dómkvaddir matsmenn skera úr. Ákvæði þessarar greinar gildir þó að sjálfsögðu með þeim takmörkunum sem leiða kann af öðrum lögum, sbr. 2. gr. frumvarpsins, þar á meðal vegna friðlýsingar.

    Í 22. gr. laganna, þar sem fjallað er um breytingar á vatnsfarvegi, segir eftirfarandi:
     Heimilt er fasteignareiganda að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns, til vatnsveitugerðar, áveitugerðar, orkunýtingar o.s.frv.
    Nú þarf sá sem ætlar að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. afnot af fasteignum annarra manna og getur þá ráðherra veitt heimild til eignarnáms. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati ef ekki semst með aðilum.
    Ráðherra er rétt að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill. Heimilt er ráðherra að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.

    Í greinargerð frumvarpsins segir um 22. gr.:
     Greinin á sér að nokkru hliðstæðu í 75. gr. vatnalaga, en hefur verið víkkuð út í frumvarpinu. Sjá Alþt. 1921, A-deild, bls. 196; nefndarálit meiri hluta fossanefndar, A.I, bls. 73. Með 1. mgr. er verið að verja hagsmuni fyrir ágangi vatna. Ákvæði 2. mgr. kveður á um heimild ráðherra til að veita heimild til eignarnáms vegna framkvæmda skv. 1. mgr. Þá er í 3. mgr. ákvæði sem beitt verður án tillits til þess hvort nota þarf land annars manns, en nægilegt er að hættan á spjöllum sé fyrir hendi. Hér er ráðherra heimilt að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni. Ákvæði þessarar greinar gilda þó að sjálfsögðu með þeim takmörkunum sem leiða kann af öðrum lögum, sbr. 2. gr. frumvarpsins, þar á meðal vegna friðlýsingar.
    Af tilvitnuðum texta úr nýjum vatnalögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi og úr greinargerð sem fylgdi frumvarpi til þeirra laga er ljóst að ekki var ætlunin að breyta þeirri skipan sem nú er á málum er varða landbrot og varnir gegn ágangi vatns og snerta heimild landbúnaðarráðherra til að leyfa slíkar aðgerðir eftir ákvæðum laganna. Ljóst er að málaflokkurinn heyrir undir ráðuneytið, sbr. 6. tölul. 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, fer Landgræðslan f.h. ráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til. En tilgangur laganna er að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi vatna. Ákvæði þau sem með frumvarpi þessu eru hér flutt úr vatnalögunum í nýleg lög um varnir gegn landbroti þykja eiga vel heima í þeim lagabálki, enda er í greinunum fjallað um ágang vatns og heimildir landeigenda til að verja land sitt og breyta eða rétta farveg vatnsfalls vegna þess. Ef ákvæði hinna nýju vatnalaga taka gildi í óbreyttri mynd væru verkefni þar sem Landgræðsla ríkisins hefur sérfræðiþekkingu á málaflokknum og annast í umboði ráðherra færð til ráðuneytis þar sem enga sérfræðiþekkingu á landbroti er að finna. Tilgangur löggjafans var í rauninni ekki sá að færa þessi verkefni heldur verður að telja að um yfirsjón hafi verið að ræða sem auðvelt er að laga nú þar sem hin nýju vatnalög sem samþykkt hafa verið á Alþingi taka ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2007.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um heimildir fasteignareiganda til þess að breyta vatnsfarvegi í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns. Heimild 1. mgr. til handa fasteignareiganda kann að takmarkast af ákvæðum annarra laga, svo sem lax- og silungsveiðilaga, og ávallt þarf að skýra heimildarákvæði 1. mgr. með hliðsjón af öðrum ákvæðum laga eftir því sem við á.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að veita eignarnámsheimild til fasteignareiganda ef hann þarf afnot af fasteign annars manns til þeirra framkvæmda sem heimilar eru skv. 1. mgr. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati ef ekki semst með aðilum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill.

Um 2. gr.

    1. mgr. þarfnast ekki skýringa. Um skýringu á 2. mgr. er vísað til almennra athugasemda með frumvarpi þessu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/2002,
um varnir gegn landbroti.

    Frumvarpi þessu er ætlað að færa valdmörk og verkaskiptingu milli landbúnaðarráðherra og iðnaðarráðherra, er varða leyfisveitingar ráðherra til tiltekinna framkvæmda og lögnáms, í sama horf og þau voru í fyrir samþykkt nýrra vatnalaga.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.