Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 639. máls.

Þskj. 947  —  639. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar, í réttri stafrófsröð:
     1.      Berg: Samsafn steinda, oftast margra mismunandi steinda, sem finnst í náttúrunni og ekki hefur orðið til fyrir tilverknað mannsins. Berggler, svo sem hrafntinna og biksteinn, telst einnig til bergtegunda.
     2.      Steind: Fast efni með ákveðna samsetningu, oftast kristallað, sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og ekki hefur orðið til af manna völdum.
     3.      Steingervingur: Leifar og steingerðar leifar lífveru eða för eftir hana sem finnast í jarðlögum.
     4.      Umhverfisverndarsamtök: Samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
     5.      Útivistarsamtök: Samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Óheimilt er að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað. Umhverfisráðuneytið getur þó að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæði þessu í þágu jarðfræðirannsókna.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Steindir og steingervingar.

3. gr.

    2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laganna orðast svo: Náttúrumyndanir, svo sem fossa, eldstöðvar, hella og dranga, svo og fundarstaði steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og bergforma, sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Friðlýsa skal svæði í kringum náttúrumyndanir svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín og skal þess greinilega getið í friðlýsingu. Friðlýstar náttúrumyndanir nefnast náttúruvætti.

4. gr.

    Við 63. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Innan friðlýstra náttúruverndarsvæða er óheimilt að losa um, nema á brott eða skemma hrafntinnu í formi bergglers og tæra silfurbergskristalla lengri en 5 cm. Sama gildir um aðrar sjaldgæfar tegundir steinda og bergs sem kunna að verða friðlýstar. Umhverfisráðuneytið getur þó að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt undanþágu frá ákvæði þessu í þágu jarðfræðirannsókna.

5. gr.

    Við 74. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðunum Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum þessum geta skotið málinu til ráðherra í þeim tilgangi að fá ákvarðanir felldar úr gildi eða þeim breytt. Umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök sem varnarþing eiga á Íslandi njóta sama réttar, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að möguleikar til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana á grundvelli náttúruverndarlaga verði auknir frá því sem nú er. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um aukna vernd bergtegunda.
    Á undanförnum mánuðum hafa komið til úrlausnar stjórnvalda mál sem varða nám sjaldgæfra steinda og bergtegunda. Hafa þau gefið tilefni til að styrkja ákvæði náttúruverndarlaga um vernd slíkra sérstæðra fyrirbrigða í náttúrunni. Að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar er lagt til að ákvæði náttúrverndarlaga um friðlýsingu verði styrkt þannig að þau nái jafnframt til bergtegunda og bergforma. Einnig er lagt til að kveðið verði á um að óheimilt sé að losa um, nema á brott eða skemma sjaldgæfar tegundir steinda og bergs sem friðunarákvæði gilda um. Loks er lagt til að kveðið verði á um að óheimilt sé að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað.
    Meginregla stjórnsýsluréttarins varðandi kæruaðild er sú að aðeins þeir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvörðun. Á sviði umhverfisréttarins er viðurkennt að kæruaðild geti hins vegar verið rýmri en á öðrum sviðum. Á sviði náttúruverndar gildir svokallaður almannaréttur, þ.e. réttur almennings til umferðar um landið og náttúruupplifunar. Þykir því eðlilegt að kæruréttur nái í náttúruverndarlögum einnig til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.



Um 1. gr.

    Lagt er til að lykilhugtök frumvarpsins verði skilgreind, þ.e. berg, steindir steingervingar, umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök. Jarðfræðihugtök eru skilgreind í samræmi við tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Lagt til að umhverfisverndarsamtök verði skilgreind með sama hætti og gert er í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Um 2. gr.

    Lagt er til að bætt verði við 40. gr. laganna ákvæði um sérstaka vernd steingervinga, þ.e. að óheimilt verði að nema þá brott af fundarstað nema í þágu rannsókna. Nám steinvervinga er óafturkræft og því mikilvægt að tryggja varðveislu þeirra. Steingervingar hafa einnig mikið vísinda- og fræðslugildi.

Um 3. gr.

    Lagt er til að orðunum bergtegund og bergform verði bætt við 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laganna þannig að einnig verði heimilt að friðlýsa slíkar náttúrumyndanir. Eins og fram kemur í 2. mgr. 53. gr. getur friðlýsing samkvæmt ákvæðinu ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls.

Um 4. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um það að innan friðlýstra náttúruverndarsvæða sé óheimilt að losa um, nema á brott eða skemma hrafntinnu í formi bergglers og tæra silfurbergskristalla lengri en 5 cm. Hrafntinna, sem er ákveðið form bergtegundarinnar rhýólíts, er fremur sjaldgæf og finnst aðeins á eldfjallasvæðum. Hérlendis er hrafntinna þekkt frá allnokkrum stöðum en yfirleitt í mjög litlu magni. Í þeim fáu tilvikum þar sem hrafntinna finnst í einhverjum mæli gefur hún yfirborði myndunarinnar sérstaka glitrandi áferð, enda draga slíkir staðir gjarnan nafn sitt af hrafntinnunni. Hrafntinna í formi bergglers finnst t.d. í friðlandi að Fjallabaki. Silfurberg er það afbrigði kalsíts kallað sem alveg er gegnsætt. Stórir kristallar, stærri en u.þ.b. 5 cm, af silfurbergi eru fágætir, bæði á landsvísu og á heimsvísu. Kalsít hefur mjög hátt tvíbrot og voru stórir gegnsæir kristallar notaðir við ýmsar ljósfræðitilraunir allt fram á 20. öld. Hrafntinna og silfurberg hafa að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar mikið náttúruverndargildi. Nám steinda og bergtegunda er óafturkræft og því mikilvægt að tryggja verndun þess. Er því lagt til að sama regla gildi um aðrar sjaldgæfar tegundir steinda og bergs sem kunna að verða friðlýstar skv. 53. gr. laganna. Skv. 2. mgr. 53. gr. laganna getur friðlýsing náttúruminja ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls.

Um 5. gr.

    Lagt er til að réttur til að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna verði rýmkaður frá því sem nú er og taki jafnframt til umhverfisverndar- og útivistarsamtaka sem og þeirra sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Ákvæðið er samið m.a. með hliðsjón af 19. gr. frumvarps til laga um Vatnajökulsþjóðgarð sem lagt hefur verið fram á Alþingi enda eðlilegt að svipaðar reglur gildi um kæruaðild í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum.
    Þær ákvarðanir Umhverfisstofnunar sem eru kæranlegar eru stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar. Einkum er þar um að ræða ákvarðanir skv. 38. gr. laganna. Með 38. gr. er kveðið á um að vegna framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum þurfi leyfi Umhverfisstofnunar. Í þeim tilvikum þar sem ákvörðun stofnunarinnar um takmörkun á umferð í óbyggðum skv. 19. gr. laganna beinist að tilteknum aðila eða aðilum og telst binda endi á stjórnsýslumál mundi hún einnig að vera kæranleg.
    Á sviði umhverfisréttar geta komið upp vafatilvik um hverja beri að telja aðila máls. Úr slíkum vafatilvikum má leysa með heildstæðu mati á hagsmunum og tengslum umrædds aðila við úrlausn máls. Þau sjónarmið sem koma til skoðunar við mat á aðild eru hvort viðkomandi eigi beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.
    Með beinum hagsmunum er vísað til þess hversu náið maður tengist hagsmunum af úrlausn málsins. Ekki er loku fyrir það skotið að maður sem á óbeinna eða afleiddra hagsmuna að gæta geti talist aðili máls. Við mat á því hvort afleiddir hagsmunir séu nægilega verulegir til þess að skapa manni aðilastöðu er til dæmis litið til eðlis og vægis hagsmunanna og hvernig þeir tengjast úrlausnarefni málsins og jafnframt hvaða þýðingu niðurstaða máls getur haft fyrir hlutaðeigandi.
    Með verulegum hagsmunum getur m.a. verið átt við fjárhagslega og persónulega hagsmuni. Því meiri hagsmunir sem aðili máls hefur af úrlausn málsins þeim mun meiri líkur eru á því að hann teljist aðili málsins, svo framarlega sem önnur sjónarmið standi ekki í vegi fyrir því.
    Það sem greinir almenna hagsmuni frá sérstökum hagsmunum er að með almennum hagsmunum er byggt á því að mjög margir eða nánast allir eiga sambærilegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls, slíkir hagsmunir skapa ekki aðilastöðu í máli.
    Með lögvörðum hagsmunum er vísað fyrst og fremst til þess hver uppspretta og eðli hagsmunanna eru. Til þess að um lögvarða hagsmuni sé að ræða þá þarf einstaklingur að sýna fram á að hann hafi hagsmuni af því að fá leyst úr þeim kröfum sem hann gerir eða öllu heldur verður hann að hafa beinna og einstaklingslega hagsmuni af úrlausnaratriði máls.
    Hvað varðar hagsmuni á borð við áhuga á umhverfismálum þá nægja þeir einir og sér ekki til aðildar í málum. Þykir því ástæða til að mæla sérstaklega fyrir um aðild umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka sem eru samtök áhugafólks um umhverfisvernd og útivist þegar um er að ræða tilvik þar sem ekki er hægt að sýna fram á að tilteknir einstaklingar eigi lögvarða hagsmuni.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd,
nr. 44/1999, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lögð til rýmkun á rétti til að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Þá eru aukin ákvæði um vernd bergtegunda.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.