Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 541. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
2. uppprentun.

Þskj. 991  —  541. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sesselju Árnadóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Gissur Pétursson frá Vinnumálastofnun, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Grönvold og Þorbjörn Guðmundsson frá Alþýðusambandi Íslands, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, Verkalýðsfélagi Akraness, Alþýðusambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Starfsgreinasambandi Íslands, Starfsgreinafélagi Austurlands, Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, ríkislögreglustjóra, Jafnréttisstofu, Alþjóðahúsi ehf., Vinnueftirliti ríkisins, Persónuvernd og landlæknisembættinu.
    Frumvarp þetta er afrakstur vinnu starfshóps sem félagsmálaráðherra skipaði og í eiga sæti aðilar vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum stjórnvalda. Í fylgiskjali með nefndaráliti félagsmálanefndar frá 26. apríl 2006 um frumvarp til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES kemur fram að hlutverk hópsins hafi verið að yfirfara málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Í álitinu kom einnig fram sú afstaða félagsmálanefndar að þörf væri á að styrkja vinnumarkaðinn þannig að grundvallarréttindi launafólks yrðu betur varin.
    Markmið frumvarpsins er í aðalatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi er því ætlað að tryggja að starfskjör, tryggingar og aðbúnaður starfsmanna fyrirtækja, sem hafa staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og veita tímabundna þjónustu hér á landi, sé ekki undir þeim lágmarksviðmiðunum sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi hér á landi. Í þriðja lagi er tilgangurinn að auka skilvirkni eftirlits og gera stjórnvöldum betur kleift að hafa yfirsýn yfir íslenskan vinnumarkað.
    Um starfskjör og starfstengd réttindi starfsmanna hinna erlendu þjónustufyrirtækja og frávik frá þeim reglum er fjallað í 4.–6. gr. frumvarpsins og í 7. gr. er kveðið á um slysatryggingar. Skv. 8. gr. ber þjónustufyrirtæki að veita tilteknar grunnupplýsingar áður en það hefur hér starfsemi og er þeirri kvöð ætlað að gera Vinnumálastofnun kleift að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi fyrirtæki starfi löglega í því ríki þar sem það hefur staðfestu og jafnframt gefa stofnuninni færi á að fá vitneskju um starfsmenn fyrirtækisins, tryggingavernd þeirra, fyrirhugaðan dvalartíma og dvalarstað þeirra og, eftir atvikum, starfsréttindi. Enn fremur er tilgangur grunnupplýsingagjafar að tryggja vissu fyrir því að fyrirtæki stundi sannanlega þjónustustarfsemi hér á landi. Skv. 5. mgr. lagagreinarinnar ber Vinnumálastofnun að halda skrá yfir þau fyrirtæki sem veita upplýsingar samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun er jafnframt heimilt að fara fram á að fyrirtæki afhendi upplýsingar sem stofnunin álítur nauðsynlegar í þágu eftirlitsins, þ.m.t. þjónustusamninga, ráðningarsamninga og önnur gögn varðandi ráðningarkjör, sbr. 1. mgr. 13. gr. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að Vinnumálastofnun skuli láta öðrum eftirlitsstofnunum og, eftir atvikum, stéttarfélögum í té nánar tilgreindar upplýsingar, sbr. 4. mgr. 8. gr. og 14. gr. Í 19. gr. er svo heimild til handa ráðherra til útgáfu reglugerðar um samstarf þar til bærra eftirlitsstjórnvalda í einstökum aðildarríkjum EES.
    Skylda til að veita grunnupplýsingar tekur til þeirra erlendu þjónustufyrirtækja sem veita þjónustu hér á landi lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum, sbr. þó 9. gr. frumvarpsins. Áskilnaðurinn í 10. gr. um að þjónustufyrirtæki skuli tilnefna sérstakan fulltrúa hér á landi, sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins, tekur á sama hátt mið af tímabili starfseminnar hér á landi en að auki er tekið mið af umfangi starfseminnar. Þannig verður skyldan aðeins virk þegar þjónustufyrirtæki veitir þjónustu samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum og sex eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði hér á landi á vegum fyrirtækisins.
    Lögð er sú skylda á herðar notendafyrirtæki að það afli skriflegrar staðfestingar frá þjónustufyrirtæki sem það á í viðskiptum við um að grunnupplýsingagjöf hafi verið sinnt og verði ekki orðið við þeirri beiðni ber notendafyrirtækinu að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar, sbr. 3. mgr. 11. gr. Þá hefur stofnunin skv. 2. mgr. 13. gr. afmarkaðar heimildir til að krefja notendafyrirtæki um upplýsingar sem nauðsynlegar eru í þágu eftirlitsins, þ.m.t. samning síðarnefnda fyrirtækisins við þjónustufyrirtækið.
    Ef brotið er gegn ákvæðum laganna skal Vinnumálastofnun, að aðgættum reglum stjórnsýsluréttar um jafnræði og meðalhóf, beina því til hlutaðeigandi þjónustufyrirtækis að það hagi starfsemi sinni til samræmis við lög, sbr. 12. gr. Virði fyrirtækið þau tilmæli stofnunarinnar að vettugi getur hún fengið liðsinni lögreglu við að stöðva starfsemina hér á landi tímabundið þar til úrbætur hafa verið gerðar, sbr. 15. gr. Í 18. gr. frumvarpsins eru ákvæði um viðurlög sem taka jafnt til þjónustufyrirtækja og notendafyrirtækja.
    Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 54/2001 en þau voru samin á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/1998 og tilskipunar Evrópubandalagsins 96/71/EB. Þar sem frumvarp þetta fjallar öðrum þræði um starfsmannaleigur, sbr. 3. mgr. 1. gr., eru í 21. gr. lagðar til breytingar á núgildandi lögum, nr. 139/2005, um starfsmannaleigur.
    Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að hlutfall erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði sé um 9%. Var á það bent að frá því að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hafi komu þessa fólks einkum borið að með tvennum hætti, annars vegar á grundvelli frjálsrar farar launþega og hins vegar á grundvelli þjónusturéttarins. Er það álit þeirra sem fundað hafa með nefndinni að eftir að niður féll fyrirvari Íslands um tímabundna takmörkun á frjálsri för launþega frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins, sbr. lög nr. 19/2004 og lög nr. 21/2006, hafi þeim fjölgað sem hingað koma á grundvelli frjálsrar farar. Að sama skapi hefur dregið úr eftirspurn eftir starfsfólki þjónustufyrirtækja, þ.m.t. starfsmannaleigna sem helst hafa tengst neikvæðri umræðu um slæma meðferð starfsmanna. Jafnframt þykir frumvarpið vera framsækið og vel til þess fallið að vernda réttindi starfsmanna þjónustufyrirtækja til jafns við launþega sem eru í beinu ráðningarsambandi við íslensk fyrirtæki. Til að svo megi verða þurfi Vinnumálastofnun og stéttarfélögin í landinu þó að eiga með sér gott samstarf sem tryggir eftir því sem framast er kostur að erlend þjónustufyrirtæki og starfsmenn þeirra starfi raunverulega í samræmi við þær forsendur sem fram koma í þeim grunnupplýsingum sem þjónustufyrirtæki veita, þ.m.t. þeim sem lúta að starfsréttindum starfsmannanna.
    Frumvarpið er sett í því augnamiði að styrkja innviði vinnumarkaðarins og telur nefndin að því sé ekki ætlað að hafa bein áhrif á þau eftirlitsúrræði sem verkalýðshreyfingin hefur á grundvelli núverandi laga og kjarasamninga, sbr. þó 14. gr. og 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Má í því sambandi minnast samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá mars 2004 en þar er tekið fram um rétt trúnaðarmanna og, eftir atvikum, sérstakrar samráðsnefndar til að yfirfara gögn um laun og önnur starfskjör erlendra starfsmanna. Sameiginlegar tillögur þessara aðila vinnumarkaðarins frá júní 2006 voru hafðar að leiðarljósi við samningu þessa frumvarps.
    Varðandi launarétt starfsmanna í veikinda- og slysatilvikum og áskilnað um að þeir skuli vera slysatryggðir sem kveðið er á um í 5. og 7. gr. frumvarpsins vill nefndin vekja á því sérstaka athygli að þessar greinar eiga sér fyrirmyndir í ákvæðum laga og kjarasamninga og eru öðrum þræði settar til hagsbóta fyrir þjónustufyrirtækin þannig að ekki fari á milli mála hvaða skyldur hvíli á þeim í þessum efnum.
    Nefndin er þeirrar skoðunar að frumvarpið horfi til almannaheilla en leggur jafnframt áherslu á að markmiðum þess verði ekki náð nema vel takist til við framkvæmd eftirlits. Telur nefndin brýnt að Vinnumálastofnun séu tryggð góð starfsskilyrði og að stofnunin eigi gott samstarf við önnur hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld, hérlend sem erlend. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að við framkvæmd eftirlits verði gætt meðalhófs gagnvart eftirlitsskyldum aðilum þannig að samræmst fái skuldbindingum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið auk þess sem samkeyrsla upplýsinga taki mið af almennum sjónarmiðum um persónuvernd. Hvetur nefndin til þess að fyrirkomulag skráningar verði gert eins einfalt og kostur er og enn fremur að þjónustufyrirtækin og starfsmenn þeirra geti nálgast sem flestar upplýsingar um réttindi sín og skyldur á einum stað.
    Lagðar eru til smávægilegar breytingar á orðalagi núverandi 4., 8., 19. og 21. gr. frumvarpsins og að við bætist ný grein þar sem fram komi að með lögunum sé verið að innleiða efni Evróputilskipunar. Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu að hinir sérstöku gildistökufrestir sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. 20. gr. verði framlengdir um einn mánuð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram, Jóhann Ársælsson og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álitið.

Alþingi, 21. febr. 2007.



Dagný Jónsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.



Einar Oddur Kristjánsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Ellert B. Schram,


með fyrirvara.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Svanhvít Aradóttir.


Valdimar L. Friðriksson,


með fyrirvara.