Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 660. máls.

Þskj. 1002  —  660. mál.



Frumvarp til laga

um skattlagningu kaupskipaútgerðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.


    Hlutafélög og einkahlutafélög, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og gera út kaupskip sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá (IIS), geta ákveðið að greiða af kaupskipaútgerð sinni skatt samkvæmt lögum þessum í stað tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003.
    Með kaupskipi samkvæmt lögum þessum er átt við hvert það skip sem flytur farm eða farþega gegn endurgjaldi í siglingum milli landa og farmflutningum innan lands og er 100 brúttótonn eða stærra.

2. gr.

    Tilkynna skal skattstjóra skriflega um ákvörðun skv. 1. gr. fyrir upphaf fyrsta tekjuárs sem skattlagningunni er ætlað að taka til. Skattlagningin skal standa í þrjú ár hið skemmsta. Kjósi útgerðarfélag að þremur árum liðnum að hverfa aftur til almennrar skattlagningar samkvæmt lögum um tekjuskatt skal tilkynna skattstjóra það skriflega fyrir upphaf tekjuárs. Útgerðarfélag getur ekki valið skattlagningu samkvæmt lögum þessum að nýju fyrr en að þremur árum liðnum.
    Sameinist tvö eða fleiri félög sem valið hafa skattlagningu samkvæmt lögum þessum skal þriggja ára lágmarkstími miðast við það félaganna sem skemmst hefur sætt slíkri skattlagningu. Hafi eitthvert hinna sameinuðu félaga ekki sætt skattlagningu samkvæmt lögum þessum skal hið sameinaða félag skattlagt samkvæmt þeim í þrjú ár hið skemmsta frá og með sameiningu. Þriggja ára lágmarkstími tekur einnig til skiptingar félaga.
    Útgerðarfélagi sem velur skattlagningu samkvæmt lögum þessum heimilast ekki samsköttun skv. 55. gr. laga um tekjuskatt.

3. gr.

    Kaupskipaútgerð samkvæmt lögum þessum telst flutningur í atvinnuskyni á farmi eða farþegum á milli áfangastaða með:
     a.      kaupskipum sem útgerðarfyrirtækið á,
     b.      kaupskipum sem leigð eru án áhafnar (bareboat-charter) og
     c.      kaupskipum sem leigð eru með áhöfn (time-charter).
    Til kaupskipaútgerðar telst jafnframt útleiga kaupskips sem leigutaki notar til flutninga á farmi eða farþegum. Til kaupskipaútgerðar telst ekki útleiga kaupskips án áhafnar (bareboat-charter) til lengri tíma en þriggja ára.
    Eftirtalið teljast rekstrarþættir í kaupskipaútgerð samkvæmt lögum þessum:
     1.      notkun gáma við farmflutninga,
     2.      rekstur út-, uppskipunar- og viðhaldsaðstöðu,
     3.      rekstur á miðasölu og farþegasölum,
     4.      rekstur skrifstofu og stjórnunaraðstöðu,
     5.      sala á vörum til neyslu um borð í kaupskipi.
    Skattlagning samkvæmt lögum þessum tekur til útgerðar allra kaupskipa útgerðarfélags sem uppfylla skilyrði til skráningar á íslenska alþjóðlega skipaskrá.
    Geri útgerðarfélag út kaupskip í sameign með öðrum tekur skattlagningin til hlutdeildar útgerðarfélagsins í útgerð þess kaupskips.

4. gr.

    Önnur starfsemi en útgerð skipa sem uppfylla skilyrði 1. og 3. gr. fellur ekki undir sérstaka skattlagningu samkvæmt lögum þessum. Hafi útgerðarfélag jafnframt kaupskipaútgerð aðra starfsemi með höndum skulu tekjur af þeirri starfsemi skattleggjast samkvæmt lögum um tekjuskatt. Hafi kaupskipi verið lagt varanlega telst notkun þess ekki til kaupskipaútgerðar. Til kaupskipaútgerðar telst ekki notkun kaupskipa við t.d.:
     1.      undirbúningsrannsóknir, leit og úrvinnslu á kolvetnissamböndum eða öðrum náttúruauðlindum,
     2.      fiskveiðar og vinnslu afla,
     3.      byggingu og viðgerð hafna eða annarra mannvirkja, lagningu leiðslna á hafsbotni, jarðefnanám og -vinnslu,
     4.      köfun,
     5.      lóðsun og björgun,
     6.      fræðslu- og uppeldisstarf eða aðra félagslega starfsemi,
     7.      safnastarfsemi,
     8.      íþrótta-, skemmti- og tómstundastarf, þ.m.t. hvalaskoðun,
     9.      farþegasiglingar milli hafna innan lands sem ekki eru áfangar á leið milli landa.

5. gr.


    Selji útgerð saman farmflutning með eigin kaupskipi og flutningsfari í eigu annars farmflytjanda skal heildarþjónustan skattleggjast hjá útgerðinni eftir lögum þessum. Annist útgerð sjálf flutning með öðru flutningsfari en kaupskipi skattleggst sá þáttur flutningsins ekki samkvæmt lögum þessum heldur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Skipting söluverðs milli rekstrarþátta skal miðast við almennt gangverð.
    

6. gr.

    Stofn til skatts af kaupskipaútgerð ákvarðast á grundvelli stærðar þeirra skipa sem gerð eru út óháð afkomu. Skattstofn ákvarðast samkvæmt eftirfarandi grunnfjárhæðum fyrir hver 100 nettótonn (NT) hvers skips á hverjum byrjuðum sólarhring, hvort sem skipið er í rekstri eða ekki:
     1.      Til og með 1.000 NT – 70 kr. á hver 100 NT.
     2.      Frá 1.001 NT til og með 10.000 NT – 45 kr. á hver 100 NT.
     3.      Frá 10.001 NT til og með 25.000 NT – 35 kr. á hver 100 NT.
     4.      Frá 25.001 NT – 10 kr. á hver 100 NT.
    Frá skattstofni skv. 1. mgr. heimilast enginn frádráttur.
    Skattur skal nema 18% af skattstofni.

7. gr.

    Útgerðarfélög sem greiða skatt samkvæmt lögum þessum skulu halda tekjum og gjöldum af kaupskipaútgerð aðgreindum frá tekjum og gjöldum af annarri starfsemi í bókhaldi og ársreikningum.

8. gr.

    Vextir, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. tekjuskattslaga, skiptast milli kaupskipaútgerðar og annarar starfsemi í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna til nota í kaupskipaútgerð annars vegar og til annarra nota hins vegar.

9. gr.

    Útgerðarkostnaður kaupskipa, svo og annar kostnaður sem eingöngu eða fyrst og fremst varðar tekjuöflun í kaupskipaútgerð, verður ekki færður til frádráttar þeim tekjum útgerðarinnar sem skattleggjast skulu samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga.
    Varði kostnaður, annar en fjármagnskostnaður, í senn bæði öflun tekna í kaupskipaútgerð og öflun annarra tekna, að frátöldum fjármagnstekjum, skal skipta kostnaðinum í réttu hlutfalli við tekjurnar. Frádráttarbærni þess hluta kostnaðarins sem þannig telst varða öflun annarra tekna ræðst af ákvæðum laga um tekjuskatt.
    Varði vaxtagjöld, afföll og gengistöp skv. 49. gr. laga um tekjuskatt í senn öflun tekna í kaupskipaútgerð og öflun annarra tekna skal skipta þeim fjármagnskostnaði í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna til nota í kaupskipaútgerð annars vegar og til annarra nota hins vegar. Frádráttarbærni þess hluta kostnaðarins sem þannig telst varða aðra tekjuöflun en í kaupskipaútgerð ræðst af ákvæðum laga um tekjuskatt.

10. gr.

    Nemi tekjur sem tilheyra kaupskipaútgerð skv. 8. gr. hærri fjárhæð en kostnaður sem heyrir kaupskipaútgerðinni til skv. 3. mgr. 9. gr. skal mismunurinn skattlagður samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt.

11. gr.

    Tap af kaupskipaútgerð verður ekki fært til frádráttar tekjum af annarri starfsemi útgerðarfélags hvorki á því ári þegar tap myndast né á síðari árum.
    Hafi fyrir upphaf skattlagningar samkvæmt lögum þessum myndast rekstrartap í margþættri starfsemi, þ.e. kaupskipaútgerð og annarri starfsemi, skal því tapi skipt milli rekstrarþátta í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna til nota í kaupskipaútgerð annars vegar og til annarra nota hins vegar.

12. gr.

    Reikna skal árlega fyrningu eftir ákvæðum tekjuskattslaga og færa til lækkunar stofnverði rekstrarfjármunanna, þó ekki á því ári þegar eign er seld eða nýtingu hennar lýkur. Fyrning skal árlega nema meðalfyrningu í viðkomandi eignaflokki skv. 37. gr. laga um tekjuskatt.

13. gr.

    Hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaútgerð skal ákvarðaður og skattlagður með sama hætti og af fyrnanlegum eignum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt að teknu tilliti til lækkunar stofnverðs skv. 12. gr. Heimilt er að fresta tekjufærslu söluhagnaðar og færa hann til lækkunar stofnverði varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaútgerð sem keyptir eru á næstu tveimur rekstrarárum. Komi ekki til slíkra kaupa innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist. Ákvæði þessarar greinar taka til hagnaðar af sölu varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaútgerð sem frestað hefur verið á síðustu tveimur rekstrarárum fyrir upptöku skattlagningar samkvæmt lögum þessum.

14. gr.

    Við skiptingu tekna og kostnaðar skal miða verð og viðskiptakjör við það sem almennt gerist í viðskiptum óháðra aðila. Fari útgerð ekki eftir því getur skattstjóri leiðrétt tekjur og kostnað í samræmi við ákvæði 57. gr. laga um tekjuskatt.

15. gr.

    Um álagningu og innheimtu skatts samkvæmt lögum þessum skal fara eftir ákvæðum laga um tekjuskatt, sbr. IX.–XIV. kafla.

16. gr.

    Hlutafélög og einkahlutafélög, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og gera út kaupskip, sbr. 3. gr., sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá (IIS), skulu fá styrk sem svarar til 90% af réttilega ákvarðaðri fjárhæð tekjuskatts og útsvars í staðgreiðslu af launum áhafna á viðkomandi kaupskipum, að teknu tilliti til persónuafsláttar og sjómannaafsláttar. Staðgreiðslunni skal að öðru leyti ráðstafað þannig að 5% hennar skulu renna í ríkissjóð og 5% skulu renna til sveitarfélags viðkomandi manns í áhöfn. Ráðstöfun þessi skal koma í stað ráðstöfunar staðgreiðslu og skiptingu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða á um framkvæmd greiðslna skv. 1. mgr., þar með talið um form styrkumsóknar, greiðslutíma og skuldajöfnun á móti vangreiddum opinberum gjöldum.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Hafi útgerðarfélag nýtt sér heimild í 1. gr. laga nr. 48/2006 skulu tekjur, sem þannig var frestað skattlagningu á, skattleggjast eftir ákvæðum tekjuskattslaga þrátt fyrir að útgerðarfélagið hafi síðar valið skattlagningu samkvæmt lögum þessum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.          


    Með frumvarpi þessu er lögð til sambærileg skattlagning kaupskipaútgerða og í ýmsum nágrannalöndum okkar. Þannig er stuðlað að því að kaupskip sem skráð eru í útlöndum verði skráð hér á landi á íslenska alþjóðlega skipaskrá (IIS) og verði með því íslensk skip sem sigla undir íslenskum fána. Samhliða þessu frumvarpi leggur samgönguráðherra fram frumvarp er snýr að stofnun íslenskrar alþjóðlegrar skipaskrár og er forsagan ítarlega rakin í athugasemdum þess.
    Kaupskipaútgerð stendur frammi fyrir stöðugt vaxandi samkeppni á alþjóðlega vísu og hefur þróunin á Íslandi og í öðrum löndum verið á þá leið að útgerð hefur staðsett sig með hliðsjón af skattaumhverfi og ríkisaðstoð. Er nú svo komið að kaupskip Íslendinga í millilandasiglingum sigla öll undir erlendum fánum.
    Evrópusambandið hefur tekið afstöðu til styrkja aðildarríkja við kaupskipaútgerð. Mótast hún af því að kaupskipum skráðum í skipaskrár Evrópulandanna hafði fækkað svo ört að hrun þótti blasa við í greininni. Var það talið óviðunandi að meirihluti kaupskipaflotans yrði skráður í löndum utan sambandsins og ríki þess háð þjóðum utan álfunnar með flutning. Bent hefur verið á að ESB gæti tapað lögsögu um gerð og öryggisbúnað kaupskipa auk þess sem störf og þekking á þessu sviði gætu glatast. Þetta réttlæti ríkisaðstoð og þá aðallega í formi skattahagræðis.
    Vegna ríkisaðstoðar annarra ríkja hafa mál skipast þannig að kaupskipaútgerð hefur flust úr landi og fjöldi íslenskra farmanna sætir skattlagningu erlendis en ekki á Íslandi af launatekjum sínum. Verði frumvarpið að lögum skapast grundvöllur til að flytja kaupskipaútgerð heim aftur og þar með skattlagningarrétt af launum farmanna.
    Með frumvarpi þessu er kveðið á um tvenns konar form ríkisaðstoðar við kaupskipaútgerðir. Í fyrsta lagi er lagt til að farin verði sú leið, sem fjölmargar þjóðir hafa farið, að setja sérstaka löggjöf um skattlagningu kaupskipaúgerðar er tekur mið af stærð skipa en ekki afkomu rekstrar. Grannþjóðir nefna skattinn tonnaskatt. Slíkur skattur er m.a. í Danmörku, Færeyjum, Noregi, Hollandi og Írlandi. Lagt er til að útgerðarfélög með ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi sem skráð hafa kaupskip sín á íslenska alþjóðlega skipaskrá eigi kost á að velja milli tekjuskatts á hagnað og skatts sem ræðst af flutningsrými kaupskipaflotans. Skattstofninn ákvarðast þá sem tiltekin krónutala á hver hundrað nettótonn hvers skips fyrir hvern sólarhring og skattur 18% af stofni. Skatturinn er þannig óháður rekstrarniðurstöðu. Lagður er til lágur skattur í samræmi við það sem gerist í öðrum ríkjum. Þannig er gert ráð fyrir að skattur af 3.500 nettótonna skipi nemi 119.902 kr. á ári. Tylft skipa af þeirri stærð sem notuð eru í siglingum milli Íslands og annarra ríkja, þ.e. á bilinu 1.500 til 8.000 nettótonn (að meðaltali rúm 3.500 NT) gæfi árlega í skatttekjur tæpa eina og hálfa milljón króna.
    Í öðru lagi er lögð til ríkisaðstoð við hlutafélög og einkahlutafélög sem gera út kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá. Gert er ráð fyrir að aðeins útgerðum sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi tekjuskattslaga verði heimil slík skráning og geti þannig notið ríkisaðstoðar. Ríkisaðstoðinni er ætlað að nema 90% fjárhæðar samanlagðs ávinnings ríkissjóðs og sveitarfélaga af heimtu tekjuskatts og útsvars áhafnar sem að öðrum kosti hefði runnið til annarra ríkja. Þau 10% staðgreiðslufjár sem ekki er varið til aðstoðarinnar skiptast jafnt milli ríkis og sveitarfélaga óháð útsvarsprósentu í hverju og einu sveitarfélagi. Viðlíka aðstoð er veitt í ýmsum öðrum ríkjum, svo sem í Færeyjum og Danmörku.
    Að gefnum þeim forsendum að árslaun hvers farmanns nemi 4.320.000 kr. mundi tekjuskattur og útsvar, að teknu tilliti til persónuafsláttar, sjómannaafsláttar og iðgjalds í lífeyrissjóð, nema 791.170 kr. Ríkisaðstoðin mundi nema 90% af þeirri fjárhæð, eða 712.053 kr. Þau 10% sem eftir standa, eða 79.117 kr., skiptast jafnt milli ríkis og sveitarfélaga. Áætla má að um 200 farmenn séu í áhöfnum kaupskipa í siglingum milli Íslands og annarra landa.
    Með kaupskipi samkvæmt frumvarpi þessu er átt við hvert það skip sem flytur farm eða farþega gegn endurgjaldi í siglingum milli landa og farmflutningum innan lands og er 100 brúttótonn eða stærra. Kjósi útgerðarfélag skattlagningu samkvæmt frumvarpinu skal skattlagningin standa í þrjú ár hið skemmsta og sama gildir kjósi það að hverfa aftur til almennrar skattlagningar samkvæmt lögum um tekjuskatt. Hvorn kostinn sem úgerðin velur þá getur hún ekki valið hann til skemmri tíma en þriggja ára í senn. Samkvæmt frumvarpinu fellur ekki önnur starfsemi en kaupskipaútgerð undir hina sérstöku skattlagningu. Hafi útgerðarfélag jafnframt með höndum aðra starfsemi en kaupskipaútgerð skulu tekjur af þeirri starfsemi skattleggjast samkvæmt lögum um tekjuskatt.
    Náist einnig það markmið að gera íslenska alþjóðlega skipaskrá aðlaðandi fyrir erlendar kaupskipaútgerðir má vænta þess að þær taki þann kost með tilheyrandi umsvifum hér á landi. Slík umsvif kalla á þjónustu innlendra fyrirtækja. Skip sem skráð verða á íslenska alþjóðlega skipaskrá munu lúta íslenskum lögum. Af því leiðir að skoðun skipanna og eftirlit með þeim verður á forsjá íslenskra aðila. Þannig getur öflug kaupskipaútgerð haft margfeldisáhrif á starfsemi og atvinnu í landi. Takist vel til geta skapast störf á sjó og í landi er skilað geta þjóðarbúinu tekjum.
    Þar sem með frumvarpinu er kveðið á um ríkisaðstoð við tiltekna atvinnugrein ber með vísan til 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um áformaða ríkisaðstoð. Samhliða framlagningu þessa frumvarps á Alþingi verður ESA tilkynnt um frumvarpið og með þeim hætti leitað eftir afstöðu stofnunarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessu upphafsákvæði frumvarpsins er kveðið á um það hvaða aðilum, og að uppfylltum hvaða skilyrðum, sé heimilt val um skattlagningu samkvæmt frumvarpi þessu af reglulegri starfsemi í stað þess að greiða almennan tekjuskatt af henni samkvæmt lögum nr. 90/2003. Þeir aðilar sem uppfylla skilyrði frumvarpsins eru kaupskipaútgerðir sem reknar eru af hlutafélögum og einkahlutafélögum og gera út kaupskip sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá. Við skilgreiningu á kaupskipi er miðað við að lágmarksstærð þess sé 100 brúttótonn og að skipið sé í millilandasiglingum með farm og farþega eða í farmflutningum milli hafna innan lands. Skilgreiningunni er ekki ætlað að taka til skipa í farþegaflutningum hérlendis.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. eru settar formlegar kröfur um að viðkomandi skattstjóra sé tilkynnt um val útgerðarinnar fyrir upphaf fyrsta tekjuárs, sem skattlagningu samkvæmt frumvarpi þessu er ætlað að taka til.
    Ákvörðun um skattlagningu samkvæmt frumvarpinu er bindandi og skal skattlagning að lágmarki taka til þriggja rekstrarára. Jafnframt er áskilið að hyggist kaupskipaútgerð hverfa frá skattlagningu samkvæmt frumvarpi þessu að loknum lágmarksbinditíma eða síðar, þá skuli tilkynna skattstjóra um þau áform fyrir upphaf þess árs þegar horfið yrði til almennrar skattlagningar samkvæmt tekjuskattslögum. Skattlagning samkvæmt frumvarpi þessu verður ekki tekin upp að nýju fyrr en að liðnum þremur árum. Ákvæði sem þetta er að finna í lögum þeirra ríkja, sem tekið hafa upp svokallaða „tonnaskattlagningu“ og er ætlað að sporna gegn því að skattlagningu verði hagað eftir því sem henta þykir frá ári til árs. Binditími annarra ríkja er skemmstur þrjú ár en víðast hvar tíu ár.
    Í annarri málsgrein er undirstrikuð sú meginregla að hvert það félag sem valið hefur skattlagningu samkvæmt frumvarpinu skal að lágmarki bundið í þrjú ár. Sameining félaga, þar sem eitt eða fleiri félaganna hafa valið tonnaskattlagningu, hefur þannig þau áhrif að hið sameinaða félag skal uppfylla skilyrði um að hvert það félag sem fellur undir sameininguna hafi sætt skattlagningu í þrjú ár. Við skiptingu félags, sem ekki hefur lokið þriggja ára binditíma, skulu þau félög sem skipt er upp bundin til loka þess tímabils sem hið skipta félag var bundið af.
    Með vísan til ákvæða í frumvarpi þessu um að halda beri aðgreindum rekstri útgerðarfélags á kaupskipum frá öðrum rekstri, sem sætir almennri skattlagningu, þá þykir rétt að kveða á um að samsköttun samkvæmt tekjuskattslögum, þ.e. 55. gr., sé óheimil þann tíma sem útgerðarfélag hefur valið tonnaskattlagningu.

Um 3. gr.


    Í greininni er hugtakið kaupskipaútgerð afmarkað. Útgerðin skal vera í atvinnuskyni og felast í flutningi á farmi eða farþegum með skipum sem útgerðin á eða hefur á leigu með eða án áhafnar. Jafnframt telst til kaupskipaútgerðar útleiga kaupskips ef leigutaki nýtir skipið sannanlega í kaupskipaútgerð við flutning á farmi og farþegum. Útleiga skips án áhafnar til lengri tíma en þriggja ára telst þó ekki til kaupskipaútgerðar, enda verður að telja slíkt tímamark hæfilegt til að mæta tímabundnum verkefnaskorti. Þannig mynda grundvöll tonnaskattlagningar þau kaupskip sem útgerðin nýtir í reglulegri starfsemi sinni.
    Í ákvæðum þessarar greinar eru tiltaldir þeir rekstrarþættir, sem telja verður svo órjúfanlega þætti í kaupskipaútgerð að eðlilegt sé að falli undir tonnaskattlagningu, enda um að ræða þætti í tekjuöflun eða kostnað, sem með beinum eða óbeinum hætti á rætur sínar í kaupskipaútgerð og hefur áhrif á afkomu hennar.
    Enn fremur er undirstrikað það meginsjónarmið að hafi kaupskipaútgerð valið tonnaskattlagningu skuli sú skattlagning taka til útgerðar allra þeirra skipa sem félagið gerir út og uppfylla skilyrði um skráningu á íslenska alþjóðlega skipaskrá. Samkvæmt þessu er félagi óheimilt að fella ýmist undir tonnaskattlagningu eða tekjuskattslög einstök skip sem það gerir út.
    Að lokum er það áréttað að ef útgerð sem valið hefur tonnaskattlagningu gerir út skip í sameign með öðrum tekur hún einnig til hlutdeildar útgerðarinnar í hinum sameiginlega rekstri.

Um 4. gr.


    Tonnaskattlagning tekur einvörðungu til kaupskipaútgerðar svo sem hún er skilgreind í 3. gr. laga þessara. Hafi félagið jafnframt með höndum aðra starfsemi samhliða, þ.m.t. útgerð annarra skipa, verður hagnaður af slíkri starfsemi skattlagður samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga. Í ákvæði þessu eru talin upp í dæmaskyni tilvik um notkun kaupskipa sem falla utan tonnaskattlagningar. Það leiðir af eðli máls að skip sem lagt hefur verið varanlega telst ekki með skipastól sem nýttur er í kaupskiparekstri samkvæmt frumvarpinu.

Um 5. gr.


    Ákvæði þetta kveður á um að undir tonnaskattlagningu falli farmflutningur sem kaupskipaútgerð selur í einu lagi, þrátt fyrir að óskyldur aðili annist hluta þess flutnings. Þetta grundvallast á því að sá hluti farmflutningsins sem keyptur er af öðrum skattleggst í hendi þess aðila. Farmflutningur sem rekstraraðili kaupskipaútgerðar annast í eigin rekstri með öðrum flutningatækjum en kaupskipum fellur utan tonnaskattlagningar. Þessi skipan skattlagningar helgast m.a. af samkeppnisástæðum. Skipting söluverðs milli rekstrarþátta hjá útgerðaraðila skal miðast við almennt gangverð, þ.e. það verð sem greitt hefði verið til óskylds aðila vegna farmflutnings sem ekki fer fram með kaupskipum.

Um 6. gr.


    Skattstofn tonnaskatts er hlutlægur og tekur einvörðungu mið af nettótonnafjölda þeirra skipa, sem teljast til kaupskipaútgerðar. Hafi félag valið tonnaskattlagningu ákvarðast skattstofn fyrir hvern sólarhring sem margfeldi tonnafjölda hvers skips og tilgreindrar krónutölu. Fjárhæðin er hæst á fyrstu 100 tonnin til og með 1.000 tonnum, en fer síðan stiglækkandi í þrepum eftir stærð skipa. Skattstofn skal ákvarðaður fyrir hvern þann byrjaðan sólarhring sem úgerðin hefur viðkomandi skip í umráðum sínum hvort heldur það er í notkun eða ekki. Frá skattstofninum þannig reiknuðum heimilast enginn frádráttur. Skatthlutfallið er það sama og í tekjuskatti, þ.e. 18%.

Um 7. gr.


    Gerð er krafa um aðgreiningu tekna og gjalda af kaupskipaútgerð annars vegar og annrri starfsemi hins vegar, sé slíkri annrri starfsemi til að dreifa, enda verður tekjuskattsstofn af þeirri starfsemi að öðrum kosti ekki rétt leiddur fram.

Um 8. gr.


    Ef um blandaða starfsemi er að ræða skal skipta vöxtum, afföllum og gengishagnaði milli kaupskipaútgerðar og annarrar starfsemi. Bókfært verð eigna í hvorri starfsemi fyrir sig ræður skiptihlutfallinu.

Um 9. gr.


    Kostnaður, sem varðar rekstur kaupskipaútgerðar undir tonnaskatti, verður hvorki færður til frádráttar tekjum, né myndar tap til frádráttar í annarri starfsemi sem útgerð stundar jafnframt kaupskipaútgerð.
    Kostnaði öðrum en fjármagnskostnaði, svo sem stjórnunarkostnaði, sem varðar heildartekjuöflun í rekstri félags, sem rekur jöfnum höndum kaupskipaútgerð og aðra starfsemi, skal skipt í réttu hlutfalli við tekjur.
    Fjármagnskostnaði, þ.e. vaxtagjöldum, afföllum og gengistapi, skv. skilgreiningu 49. gr. tekjuskattslaga skal skipt á sama hátt og fjármagstekjum í réttu hlutfalli við bókfært verð eigna í rekstri kaupskipa og bókfærðu verði annarra eigna.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 8. gr. og 3. mgr. 9. gr. skal skipta fjármagnstekjum og fjármagnsgjöldum, sbr. 8. og 49. gr. tekjuskattlaga, milli kaupskipaútgerðar og annarrar starfsemi. Reynist sá hluti fjármagnstekna, sem féll í hlut kaupskipaútgerðarinnar, nema hærri fjárhæð en fjármagnskostnaður samkvæmt fyrrgreindri skiptingu, skal skattleggja mismuninn samkvæmt almennum ákvæðum tekjuskattslaga enda ekki um að ræða beinar tekjur af kaupskipaútgerð heldur afleiddar tekjur. Grannþjóðir okkar hafa í löggjöf sinni sérstök ákvæði af þessum toga til að sporna gegn yfirfjármögnun af skattalegum ástæðum í kaupskipaútgerð undir tonnaskattlagningu.

Um 11. gr.


    Samkvæmt 6. og 9. gr. er útgerðarkostnaður hvorki frádráttarbær í rekstri sem tonnaskattlagningu sætir né í öðrum rekstri. Til að taka af öll tvímæli er í ákvæði þessu kveðið á um að tap af kaupskipaútgerð, sem færð hefur verið undir tonnaskattlagningu, heimilist ekki til frádráttar öðrum tekjum, hvorki á meðan sú skattlagning stendur eða eftir að henni lýkur.
    Hafi félag hins vegar verið rekið með tapi eða önnur þau félög, sem felld yrðu undir tonnaskattlagningu vegna sameiningar, þá skal því tapi skipt á milli kaupskipaútgerðar og annarrar starfsemi í réttu hlutfalli við bókfært verð þeirra eigna sem nýttar voru í rekstri félagsins í lok síðasta rekstrarárs fyrir upphaf tonnaskattlagningar.
    Eftirstöðvar rekstrartapa frá því fyrir upphaf tonnaskattlagningar rakna við að nýju verði horfið frá henni síðar, að virtum tímamörkum 8. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga.

Um 12. gr.


    Tonnaskattlagning kemur í stað tekjuskatts af reglulegri starfsemi kaupskipaútgerðar en ekki í stað skatts af óreglulegum tekjum, þ.m.t. af söluhagnaði varanlegra rekstrarfjármuna. Við ákvörðun söluhagnaðar slíkra fjármuna verður því að taka tillit til verðrýrnunar þeirra á þeim tíma sem nýting þeirra féll undir tonnaskattlagningu. Því er kveðið á um að árlega skuli reikna afskriftir af varanlegum rekstrarfjármunum í samræmi við ákvæði um fyrningar í tekjuskattslögum og færa þær til lækkunar á stofnverði fjármunanna. Afskriftarhlutfallið skal vera meðaltal afskriftarhlutfalla í hverjum fyrningarflokki fyrir sig.

Um 13. gr.


    Söluhagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna í kaupskipaúgerð skal reiknaður með sama hætti og af fyrnanlegum eignum, sbr. 13. gr. tekjuskattslaga. Við þann útreikning skal lagt til grundvallar stofnverð að teknu tilliti til lækkunar vegna reiknaðra fyrninga og niðurfærslu vegna söluhagnaðar annarra eigna.

Um 14. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um beitingu milliverðlagsreglu (transfer pricing) við skiptingu tekna og kostnaðar.

Um 15. gr.


    Grein þessi, sem kveður á um framkvæmd álagningar og innheimtu, þarfnast ekki skýringar.

Um 16. gr.


    Í greininni er kveðið á um beina ríkisaðstoð við kaupskipaútgerð. Aðstoðin er bundin því skilyrði að kaupskip útgerðarinnar séu á íslenskri alþjóðlegri skipaskrá. Skilyrði skráningar er að útgerðin beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi í skilningi tekjuskattslaga. Ekki er gert að skilyrði fyrir þessari aðstoð að útgerðin velji tonnaskattlagningu í stað almenns tekjuskatts. Lagt er til að aðstoðin felist í beinum fjárframlögum sem svara til 90% tekjuskatts og útsvars af launum áhafna. Þau 10% staðgreiðslufjár sem ekki er varið til styrksins skiptast jafnt milli ríkis og sveitarfélaga óháð útsvarsprósentu í hverju og einu sveitarfélagi. Með þessu er, að því er skatt áhafnar varðar, vikið til hliðar reglum um ráðstöfun og skiptingu á greiðslu opinberra gjalda settum á grundvelli 1. mgr. 32. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tekjuskatt og IV. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Lagt er til að fjármálaráðherra ákveði í reglugerð framkvæmd ríkisaðstoðar.

Um 17. gr. og ákvæði til bráðabirgða.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skattlagningu kaupskipaútgerðar.

    Vegna ríkisaðstoðar annarra ríkja hafa mál skipast þannig að öll kaupskip Íslendinga í millilandasiglingum sigla undir erlendum fánum og eru launatekjur áhafna þeirra skattlagðar þar. Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að því að kaupskipaútgerðin flytjist aftur til landsins. Í því skyni er í frumvarpinu lagt til að veitt verði opinber aðstoð við kaupskipaútgerðir með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til að farin verði sú leið sem margar þjóðir hafa farið með því að setja sérstaka löggjöf um skattlagningu kaupskipaútgerða sem tekur mið af stærð skipa en ekki af afkomu rekstrar þannig að lagður verði á svonefndur tonnaskattur. Slíkur skattur er m.a. í Danmörku, Færeyjum, Noregi, Hollandi og á Írlandi. Lagt er til að útgerðarfélög sem skattskyld eru hér á landi og hafa skráð kaupskip sín á íslenska alþjóðlega skipaskrá eigi kost á að velja milli tekjuskatts á hagnað og skatts sem ræðst af flutningsrými skipaflotans. Skattstofninn ákvarðast þá sem tiltekin krónutala á hver hundrað nettótonn skips fyrir hvern sólarhring og síðan greiðist 18% skattur af þeim stofni. Gert er ráð fyrir að tekjur af þessum skatti verði óverulegar eða í kringum 1,5 m.kr.
    Í frumvarpinu er í öðru lagi lögð til opinber aðstoð við hlutafélög og einkahlutafélög sem gera út kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá og eru skattskyld hér á landi. Lagt er til að aðstoðin felist í fjárframlögum sem svari til 90% tekjuskatts og útsvars af launum áhafna, að teknu tilliti til persónuafsláttar og sjómannaafslátta, en þeir skattar mundu að öðrum kosti renna til annarra ríkja. Viðlíka aðstoð er veitt í ýmsum öðrum ríkjum, svo sem í Færeyjum og Danmörku.
    Erfitt er að segja fyrir um fjárhagsleg áhrif af lögfestingu frumvarpsins þar sem það fer eftir því hversu mörg skip verða skráð hér á landi í kjölfarið. Ákvarðanir bæði íslenskra og erlendra fyrirtækja um það munu ekki aðeins ráðast af því hversu hagstætt skattaumhverfið þykir vera heldur einnig af mismunandi launakostnaði eftir löndum og fleiri þáttum. Kaupskip í íslenskri eigu eru talin vera um 30 talsins og til að gefa til kynna hugsanlega stærðargráðu beinna áhrifa má taka sem dæmi að helmingur þeirra verði skráður hér á landi. Einnig væri þó hugsanlegt að erlendir aðilar sæju sér hag í að skrá skip sín hér á landi. Ef gengið er út frá því að meðalfjöldi í áhöfn 15 skipa sem færi lögheimili sitt til Íslands verði 17 manns og að árslaun þeirra verði um 4,3 m.kr. að meðaltali er útkoman sú að heildarskatttekjur, að meðtöldu tryggingargjaldi, yrðu um 225 m.kr. og styrkurinn yrði nálægt 155 m.kr. Beinn nettóávinningur hins opinbera yrði þannig tæplega 70 m.kr.