Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 663. máls.

Þskj. 1005  —  663. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um brunavarnir,
nr. 75/2000, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Á eftir orðinu „eldvarnaeftirlit“ í 1. gr. laganna kemur: forvarnir.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Skilgreining hugtaksins eldvarnir verður svohljóðandi: Allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða eða hindra útbreiðslu elds.
     b.      Skilgreining hugtaksins mannvirki verður svohljóðandi: Hvers konar jarðfastar framkvæmdir manna, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, samgöngumannvirki, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, göngubrýr í þéttbýli og togbrautarbúnaður til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Byggingarstofnun er ráðherra til aðstoðar um málefni er falla undir lög þessi, sbr. lög um mannvirki.

4. gr.

    5., 7. og 8. gr. laganna falla brott og breytist númeraröð annarra greina sem því nemur.

5. gr.

    Í stað orðsins „Brunamálastofnun“ tvívegis í 6. gr. laganna, sem verður 5. gr., og hvarvetna annars staðar í lögunum nema í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr., 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 38. gr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: Byggingarstofnun.

6. gr.

    9. gr. laganna, sem verður 6. gr., orðast svo:
    Byggingarstofnun starfrækir Brunamálaskóla sem ætlaður er slökkviliðsmönnum, þ.m.t. slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum. Skólinn skal annast umsjón með menntun, fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna sem fram fer á vegum Byggingarstofnunar. Byggingarstofnun er heimilt með samningi að fela menntastofnun starfrækslu Brunamálaskólans. Enn fremur er heimilt að gera samning við slökkvilið eða aðra fagaðila um framkvæmd einstakra þátta í starfsemi skólans.
    Ráðherra skipar til fjögurra ára í senn þriggja manna fagráð, og jafnmarga menn til vara, sem er Byggingarstofnun til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna tilnefna hvort sinn fulltrúa í fagráð og skal ráðherra skipa formann.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Brunamálaskólans og hlutverk fagráðs.

7. gr.

    A- og b-liður 1. mgr. 12. gr. laganna, sem verður 9. gr., orðast svo:
     a.      framkvæma í samvinnu við byggingarfulltrúa öryggisúttekt og eftir atvikum lokaúttekt, gefa umsagnir um brunavarnir við meðferð byggingarleyfisumsókna og hafa þannig eftirlit með því að nýbyggingar fullnægi kröfum samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir áður en notkun þeirra er heimiluð,
     b.      gera úttekt á mannvirkjum í notkun, starfsemi í þeim með tilliti til brunavarna, lóðum og öðrum svæðum utandyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar úrgangs eða geymslu eldfimra efna, og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir.

8. gr.

    Í stað orðanna „umsögn Brunamálastofnunar og samþykki sveitarstjórnar“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna, sem verður 10. gr., kemur: samþykki Byggingarstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna sem verður 14. gr.:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: Byggingarstofnun.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:
                  Slökkviliðsmenn sem stunda reykköfun skulu hafa staðist læknisskoðun samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
     c.      2. mgr., sem verður 3. mgr., orðast svo:
                  Ráðherra skal að fenginni tillögu Byggingarstofnunar setja reglugerð um menntun og önnur skilyrði til að öðlast löggildingu, um reglubundna læknisskoðun vegna reykköfunar og um réttindi og skyldur slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna.

10. gr.

    18. gr. laganna, sem verður 15. gr., orðast svo:
    Slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra skulu slysatryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi. Sama gildir um önnur störf er slökkviliðsmenn sinna eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra, þ.m.t. sjúkraflutninga og björgunarstörf. Bætur skulu ákvarðast á grundvelli reglna I. kafla skaðabótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum.
    Þeir sem slasast við störf sem tilgreind eru í 1. mgr. eiga rétt á að fá greiddar bætur úr sveitarsjóði, verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna sem verður 20. gr.:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.
     b.      Í stað orðsins „byggingarnefnd“ á tveimur stöðum í 3. mgr. kemur í viðeigandi beygingarfalli: byggingarfulltrúi.
     c.      Í stað orðsins „hún“ í lokamálslið 3. mgr. kemur: hann.

12. gr.

    Í stað orðanna „Brunamálastofnun og Löggildingarstofu“ í 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laganna, sem verður 24. gr., kemur: Byggingarstofnun.

13. gr.

    Við 28. gr. laganna, sem verður 25. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Byggingarstofnun getur krafið sveitarfélög um hvers konar upplýsingar um stöðu brunavarna, búnað og starfsemi slökkviliða í sveitarfélaginu.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna sem verður 26. gr.:
     a.      Á eftir orðinu „Byggingarfulltrúi“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða eftir atvikum heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags.
     b.      Orðin „sbr. 23.–24. gr., á grundvelli byggingarreglugerðar“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      Á eftir orðinu „notkun“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: starfsemi í því eða á lóðum og öðrum svæðum utandyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar sorps og annars úrgangs eða geymslu eldfimra efna.
     d.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:
                  Sé ákvæðum 2. mgr. beitt skal eigandi eða umráðamaður mannvirkis eða lóðar bera kostnað af eftirliti með því að farið hafi verið að kröfum um úrbætur. Sveitarfélag skal setja sér gjaldskrá um fjárhæð gjalda fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein og um innheimtu þeirra. Gjöld skulu ekki vera hærri en sem nemur kostnaði við framkvæmd eftirlitsins. Gjöldum samkvæmt þessari málsgrein fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð og má innheimta gjaldfallin gjöld með fjárnámi.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna sem verður 29. gr.:
     a.      Orðin „að fengnu samþykki sveitarstjórnar“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður svohljóðandi: Slökkviliðsstjóri tekur ákvörðun um að leggja á dagsektir samkvæmt þessari grein.

16. gr.

    37. gr. laganna, sem verður 34. gr., orðast svo ásamt fyrirsögn:

Þjónustuaðilar brunavarna.


    Fyrirtæki sem bjóða þjónustu við viðhald, skoðun, áfyllingu og þrýstiprófun handslökkvitækja og reykköfunarbúnaðar, svo og uppsetningu og viðhald brunaviðvörunarkerfa og slökkvikerfa, skulu hafa starfsleyfi Byggingarstofnunar. Óheimilt er að bjóða slíka þjónustu nema að fengnu starfsleyfi Byggingarstofnunar. Skilyrði til að öðlast slíkt starfsleyfi er að fyrirtækið uppfylli kröfur reglugerðar sem ráðherra setur um húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað vegna starfseminnar og að starfsmenn fyrirtækisins hafi lokið námskeiði og staðist próf sem Byggingarstofnun heldur um uppsetningu, viðhald og skoðun slíks búnaðar. Enn fremur er það skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis að fyrirtækið hafi fullnægjandi gæðakerfi í samræmi við kröfur sem ákveðnar eru í reglugerð.
    Byggingarstofnun getur svipt þjónustuaðila starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef þjónustuaðili hlítir ekki fyrirmælum Byggingarstofnunar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari kröfur um framkvæmd þessa ákvæðis, þ.m.t. um framkvæmd námskeiða og prófs fyrir starfsmenn þjónustuaðila brunavarna.

17. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 38. gr. laganna, sem verður 35. gr., orðast svo: Byggingarstofnun annast úthlutun styrkja.

18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í umhverfisráðuneytinu. Breytingarnar eru í fyrsta lagi tilkomnar vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á löggjöf um byggingarmálefni í frumvarpi til laga um mannvirki. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem komnar eru til vegna eldsvoða á athafnasvæði Hringrásar í Reykjavík í nóvember 2004 og úttektar Brunamálastofnunar í kjölfarið á ástæðum eldsvoðans. Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar sem æskilegt er talið að gerðar verði á lögum um brunavarnir í ljósi reynslu þeirra sex ára sem lögin hafa verið í gildi.
    Í frumvarpi til laga um mannvirki eru lagðar til margháttaðar breytingar stjórnsýslu byggingarmála. Er lagt til að sett verði á fót ný stofnun, Byggingarstofnun, sem taki við því hlutverki sem Brunamálastofnun hefur sinnt, auk þess sem stofnunin taki við ábyrgð á framkvæmd byggingarmála sem hingað til hefur verið í höndum Skipulagsstofnunar. Gert er ráð fyrir að undir Byggingarstofnun heyri öll mál er varða öryggi bygginga, þ.m.t. brunavarnir, rafmagnsöryggi og eftirlit með lyftum, en þessir þættir hafa hingað til heyrt undir hinar ýmsu stofnanir og ráðuneyti. Með slíkri sameiningu málaflokksins er ætlunin að ná fram aukinni skilvirkni stjórnsýslu og gera unnt að einfalda allt eftirlit með öryggi mannvirkja með það að markmiði að auka gæði þeirra, endingu og öryggi. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að öll ákvæði sem verið hafa í lögum um brunavarnir varðandi hlutverk Brunamálastofnunar færist undir lög um mannvirki og undir Byggingarstofnun. Hins vegar er lagt til að lög um brunavarnir haldi gildi sínu sem sjálfstæð lög og að mestu óbreytt, fyrir utan þær breytingar á yfirstjórn málaflokksins sem hér eru raktar, enda hafa þau í aðalatriðum reynst vel frá því að þau voru sett árið 2000.
    Í nóvember 2004 varð stórbruni á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík þegar eldur kom upp í miklu magni af hjólbörðum sem geymdir voru á lóð fyrirtækisins. Mikinn og þykkan reyk lagði frá svæðinu yfir íbúðarbyggð og þurfti að rýma hús á stóru svæði í nágrenni eldsvoðans. Í kjölfar brunans óskaði umhverfisráðherra eftir úttekt Brunamálastofnunar á atburðinum og skilaði stofnunin skýrslu til ráðherra í janúar 2005. Gerði Brunamálastofnun ýmsar tillögur til úrbóta, m.a. á lögum um brunavarnir, í því skyni að draga úr líkum á því að slík atvik endurtaki sig. Taldi stofnunin að skýra þyrfti heimildir eldvarnaeftirlits til að hafa eftirlit með og afskipti af brunavörnum á lóð og öðrum svæðum utandyra þar sem eldhætta gæti skapast. Enn fremur taldi stofnunin að auka þyrfti upplýsingaflæði milli heilbrigðiseftirlits annars vegar og eldvarnaeftirlits hins vegar og er lögð til lítils háttar breyting á lögunum til að undirstrika það.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Forvarnir eru afar mikilvægur þáttur eldvarnaeftirlits. Til að leggja áherslu á mikilvægi forvarna er lagt til að því orði verði bætt við markmiðsgrein laganna og mikilvægi þeirra þannig dregið enn betur fram en áður.

Um 2. gr.


    Hér er í fyrsta lagi lögð til lítils háttar útvíkkun á hugtakinu eldvarnir. Lagt er til að eldvarnir nái einnig til þess að hindra útbreiðslu elds. Í öðru lagi er lögð til breyting á skilgreiningu hugtaksins mannvirki til samræmis við skilgreiningu hugtaksins í frumvarpi til laga um mannvirki. Sá munur er þó á að samgöngumannvirki teljast til mannvirkja samkvæmt lögum um brunavarnir en þau falla hins vegar utan gildissviðs laga um mannvirki. Í gildi er reglugerð um brunavarnir í samgöngumannvirkjum sem sett var með stoð í lögum nr. 75/2000, um brunavarnir, og er gert ráð fyrir að hún haldi gildi sínu.

Um 3. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum frumvarpsins er lagt til að Brunamálastofnun verði lögð niður og Byggingarstofnun taki við hlutverki hennar.

Um 4. gr.


    Vegna breytinga á yfirstjórn brunamála er 5. gr. gildandi laga felld brott og færist efni hennar yfir í 5. gr. frumvarps til laga um mannvirki. Þar eru talin upp öll verkefni Byggingarstofnunar, þ.m.t. þau verkefni sem stofnunin hefur á grundvelli laga um brunavarnir. Er hlutverkið að mestu leyti óbreytt. Þó er lagt til að Byggingarstofnun hafi ekki það hlutverk, sem Brunamálastofnun hefur haft, að yfirfara brunahönnun nýbygginga, viðbóta og breytinga á mannvirkjum sem slökkviliðsstjórar og byggingarfulltrúar vísa til stofnunarinnar. Um er að ræða verkefni sem framangreindir aðilar eiga að geta sinnt og er hluti af byggingar- og eldvarnaeftirliti sveitarfélaganna. Ekki er talið eðlilegt að Byggingarstofnun komi með svo beinum hætti að eftirliti með einstökum mannvirkjum. Leiðbeiningar- og ráðgjafar hlutverki Byggingarstofnunar verður samkvæmt nýjum lögum sinnt með öðrum hætti, svo sem með útgáfu skoðunarhandbóka.
    Þar sem lagt er til að stjórnsýsla byggingaröryggismála verði samræmd undir einni öflugri ríkisstofnun undir stjórn forstjóra sem ábyrgð ber á rekstri hennar er gert ráð fyrir að brunamálaráð sem starfað hefur á grundvelli laga um brunavarnir verði lagt niður. Brunamálaráð hefur verið forstjóra Brunamálastofnunar til ráðgjafar. Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt til að Byggingarstofnun leiti í störfum sínum samráðs við hina ýmsu hagsmunaaðila, þ.m.t. Samband íslenskra sveitarfélaga. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að sérstakt fagráð starfi að baki stofnunarinnar, heldur leiti stofnunin þeirrar ráðgjafar sem hún þarfnast hverju sinni eftir aðstæðum. Útvíkkun á hlutverki stofnunarinnar kallar á samráð við mun fleiri aðila en þá sem setið hafa í brunamálaráði. Eðlilegt er að stofnunin skipuleggi sjálf einhvers konar samráðsvettvang, mismunandi eftir málefnum og málaflokkum sem undir stofnunina heyra. Ekki er talin þörf á að binda slíkt samráð eða fyrirkomulag þess í lög umfram það sem gert er í frumvarpi til laga um mannvirki.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laganna um Brunamálaskólann vegna frumvarps til laga um mannvirki. Gerð er tillaga um að í stað skólaráðs Brunamálaskólans verði skipað sérstakt fagráð fyrir skólann forstjóra Byggingarstofnunar til ráðgjafar um fagleg málefni skólans. Ábyrgð á rekstri skólans verði hins vegar alfarið í höndum forstjóra Byggingarstofnunar. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á starfsemi skólans en að heimilt verði að fela menntastofnun starfrækslu hans. Byggingarstofnun verður þó ávallt ábyrg fyrir þeirri starfsemi hvort sem hún annast hana sjálf eða felur hana öðrum. Enn fremur er heimilt að gera samning við slökkvilið eða aðra fagaðila um framkvæmd einstakra þátta í starfsemi skólans.

Um 7. gr.


    Lagðar eru til breytingar til samræmis við ákvæði frumvarps til laga um mannvirki. Hér er hlutverk slökkviliðs við byggingareftirlit skilgreint og það m.a. tengt svokölluðum öryggis- og lokaúttektum sem fjallað er nánar um í því frumvarpi. Öryggisúttekt er úttekt á öryggi og hollustuháttum mannvirkja þegar þau eru tekin í notkun og er óheimilt að flytja inn í eða taka mannvirki í notkun fyrr en slík úttekt hefur verið framkvæmd. Lokaúttekt skal framkvæmd innan þriggja ára frá því að mannvirki er tekið í notkun. Byggingarfulltrúar eða eftir atvikum faggiltar skoðunarstofur framkvæma öryggis- og lokaúttektir að viðstöddum fulltrúum slökkviliðs.
    Í b-lið er hlutverk eldvarnareftirlits víkkað út þannig að það hafi ótvírætt heimild til að hafa afskipti af brunavörnum á lóðum og öðrum svæðum utandyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar sorps og annars úrgangs eða geymslu eldfimra efna. Þessar breytingar eru meðal þess sem Brunamálastofnun lagði til í skýrslu sinni vegna Hringrásarbrunans svokallaða. Var á það bent að heimildir eldvarnareftirlits til afskipta væru bundnar við mannvirki og starfsemi í þeim en næðu ekki til lóða og annarra svæða utandyra. Ljóst má vera af þeim atburðum að eldhætta getur ekki síður skapast utan mannvirkja og því er nauðsynlegt að eldvarnaeftirlitið hafi heimildir til afskipta þar.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að Byggingarstofnun samþykki brunavarnaáætlanir sveitarfélaga í stað þess að gefa um þær umsagnir. Breytingin hefur ekki áhrif á það vinnulag sem skapast hefur við afgreiðslu þessara áætlana.

Um 9. gr.


    Samkvæmt frumvarpi til laga um mannvirki færast löggildingar hönnuða og iðnmeistara úr höndum umhverfisráðherra til Byggingarstofnunar. Lögð er til sama breyting hvað varðar löggildingar slökkviliðsmanna. Í b-lið er lagt til að lögfest verði að slökkviliðsmenn þurfi að standast læknisskoðun til að mega stunda reykköfun. Í undirbúningi er endurskoðun á reglugerð um reykköfun og hefur verið um það rætt að nauðsynlegt sé að lögfesta það verklag, sem mörg slökkvilið hafa tekið upp, að skylda starfsmenn sína til að standast læknisskoðun áður en þeim er heimilt að stunda reykköfun. Reykköfun er hættulegt og erfitt starf sem einungis hraust og vel þjálfað fólk er fært um að sinna. Þess vegna er talið nauðsynlegt að krefjast reglubundinnar læknisskoðunar.

Um 10. gr.


    Hér er lögð til breyting á ákvæðum um slysatryggingu slökkviliðsmanna og kveðið á um að þeir skuli njóta sambærilegs réttar til bóta eins og aðrar starfsstéttir sem sinna hættulegum störfum, svo sem lögreglumenn og sjómenn. Samkvæmt gildandi lögum skal lágmarkstrygging slökkviliðsmanna vera í samræmi við skilmála um slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga samkvæmt kjarasamningum. Hér er lagt til að slökkviliðsmenn verði áfram slysatryggðir við störf sín en breyting er gerð á því með hvaða hætti bætur skuli ákvarðaðar. Er lagt til að bætur vegna slysa í starfi skuli ákvarðaðar á grundvelli reglna I. kafla skaðabótalaga, nr. 50/1993. Meginhugsunin að baki skaðabótalögum er sú að tjónþoli fái tjón sitt að fullu bætt. Þar eru m.a. ákvæði um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar, varanlega örorku, miska og fyrir missi framfæranda. Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku og missi framfæranda er tekið mið af þeim tekjum sem tjónþoli hafði fyrir slys. Það getur skipt tjónþola verulegu máli hvort bætur eru reiknaðar út frá ákvæðum skaðabótalaga eða hvort hann fær greiddar bætur sem miðast við tiltekna fyrir fram ákveðna upphæð samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og skilmálum vátryggingar. Yfirleitt bæta greiðslur úr hefðbundinni slysatryggingu launþega samkvæmt kjarasamningum ekki nema hluta af raunverulegu tjóni launþegans. Talið er eðlilegt og sanngjarnt með tilliti til eðlis starfa slökkviliðsmanna sem innt eru af hendi í almannaþágu og þeirrar hættu sem störfunum fylgja að þeim séu tryggðar fullar bætur verði þeir fyrir slysi í starfi.
    Tekið er fram að slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi skuli slysatryggðir samkvæmt ákvæðinu. Sama gildir um önnur störf er slökkviliðsmenn sinna eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra, þ.m.t. sjúkraflutninga og björgunarstörf. Starf slökkviliðsmanna hefur á síðustu árum þróast í þá átt að um alhliða björgunarstörf sé að ræða. Sinna þeir mörgum störfum sem ekki falla undir gildissvið laga um brunavarnir. Hér er tekið fram að slysatryggingin skal ná til allra þeirra starfa sem þeim er falið að sinna hvort sem er af slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra. Ekki skiptir máli þó að störfin falli utan sviðs laga um brunavarnir.
    Ákvæði 2. mgr. er sambærilegt við ákvæði gildandi laga. Hafi ekki verið keypt slysatrygging hjá vátryggingafélagi greiðast bætur sem ákvarðaðar eru á sama hátt úr sveitarsjóði.

Um 11. gr.


    Í a-lið er því bætt við að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á brunavörnum á lóð þess. Er um að ræða sambærilega breytingu og í b-lið 7. gr. Í b- og c-lið eru lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði laga um mannvirki þar sem lagt er til að byggingarnefndir sveitarfélaganna verði lagðar niður og byggingarfulltrúi taki við hlutverki þeirra.

    Um 12. gr.


    Þar sem lagt er til að verkefni rafmagnsöryggissviðs Neytendastofu, áður Löggildingarstofu, sem varða rafmagnsöryggi í mannvirkjum færist undir Byggingarstofnun er vísun til Löggildingarstofu felld brott hér, en rafmagnsöryggissviðið hefur m.a. sinnt rannsóknum á eldsvoðum vegna rafmagns.

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að það verði sérstaklega tekið fram að Byggingarstofnun geti krafið sveitarfélög um hvers konar upplýsingar um stöðu brunavarna, búnað og starfsemi slökkviliða í sveitarfélaginu. Komið hefur fyrir að fyrirspurnum Brunamálastofnunar um þessi atriði hefur ekki verið sinnt en í ljósi eftirlitshlutverks stofnunarinnar er nauðsynlegt að henni berist slíkar upplýsingar.

Um 14. gr.


    Hér er lagt til að kveðið verði á um að slökkviliðsstjóri geti leitað aðstoðar heilbrigðiseftirlits til að knýja fram úrbætur vegna mannvirkis í notkun eða á lóðum eða öðrum svæðum utandyra þar sem eldhætta getur skapast. Nauðsynlegt er að samstarf milli þessara aðila sé náið þar sem þeir hafa oft á tíðum eftirlit með sömu starfseminni. Þetta sýndi sig m.a. í Hringrásarmálinu. Í d-lið er lagt til að heimilt verði að innheimta kostnað við endurtekið eftirlit hjá eiganda mannvirkis eða umráðamanni. Eðlilegt er að hann beri kostnað af því ef mál eru í ólagi í stað þess að sá kostnaður lendi á viðkomandi slökkviliði, eins og nú er.

Um 15. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að slökkviliðsstjóri taki ákvörðun um álagningu dagsekta en ekki sveitarstjórn eins og nú er. Þykir það of þungt í vöfum að þurfa að leggja slíkar ákvarðanir fyrir sveitarstjórn, sérstaklega á þeim svæðum þar sem slökkvilið hafa sameinast og mörg sveitarfélög standa að rekstri eins slökkviliðs.

Um 16. gr.


    Lagt er til að ákvæði laganna um brunavarnagjald falli niður en sambærilegt ákvæði verði tekið upp í frumvarp til laga um mannvirki og heiti hér eftir byggingareftirlitsgjald. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði innheimt með óbreyttum hætti með iðgjöldum vátryggingarfélaga og að gjaldstofninn verði áfram vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár. Þar sem gert er ráð fyrir að gjaldið verði notað til að fjármagna starfsemi Byggingarstofnunar er eðlilegt að ákvæði um innheimtu þess verði fært yfir í lög um mannvirki.
    Í stað ákvæðis um brunavarnagjald kemur nýtt ákvæði um þjónustuaðila brunavarna. Fjallað er um þessa aðila í e-lið 1. mgr. 5. gr. gildandi laga en nánari útfærslu á þeim kröfum sem heimilt er að gera til starfsemi þessara aðila hefur skort. Um er að ræða aðila sem annast þjónustu við ýmsan búnað vegna brunavarna, svo sem handslökkvitæki, reykköfunarbúnað, brunaviðvörunarkerfi og slökkvikerfi. Allt er þetta mikilvægur öryggisbúnaður sem nauðsynlegt er að sé meðhöndlaður af traustum aðilum sem hafa yfir nægjanlegri þekkingu að ráða. Því er hér lagt til að þessir aðilar þurfi starfsleyfi Byggingarstofnunar.

Um 17. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2009 til samræmis við gildistöku nýrra laga um mannvirki.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir,
nr. 75/2000, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um mannvirki. Í frumvarpinu er lagt til að Brunamálastofnun verði lögð niður og þau verkefni sem hún hefur sinnt hingað til verði færð undir nýja stofnun, Byggingarstofnun. Kallar þetta á ýmsar aðrar breytingar á lögum um brunavarnir. Vísast til kostnaðarumsagnar um mannvirkjafrumvarpið varðandi áhrif á kostnað ríkissjóðs. Einnig er gert ráð fyrir að brunamálaráð og skólaráð Brunamálaskólans verði lögð niður og nokkrar aðrar minni háttar breytingar eru lagðar til sem ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.