Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 515. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1010  —  515. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson, Hrein Hrafnkelsson og Lárus M. K. Ólafsson frá iðnaðarráðuneyti, Steinar Þór Guðlaugsson frá Íslenskum orkurannsóknum og Þórð Reynisson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Orkustofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Alþýðusambandi Íslands, Landsvirkjun, Óbyggðanefnd og Olíufélaginu. Einnig bárust nefndinni gögn frá iðnaðarráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis þess efnis að kveðið verði nánar á um réttindi og skyldur leyfishafa, leyfisveitingar og ýmis stjórnsýsluverkefni færð frá iðnaðarráðuneyti til Orkustofnunar og að styrkari stoðum verði skotið undir gjaldtökuheimildir.
    Töluverð umræða skapaðist í nefndinni um samræmi á milli þess frumvarps sem hér er til umræðu og frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem einnig er til meðferðar í nefndinni (542. mál). Í þessu sambandi tekur 1. minni hluti fram að með hliðsjón af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru Íslendingar bundnir á alþjóðlegum vettvangi hvað varðar ákvæði um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, en geta hins vegar hagað jarðhitaleitinni að eigin óskum. Jafnframt bendir 1. minni hluti á að gert er ráð fyrir því í auðlindafrumvarpinu að ákvæði um jarðhitaleit verði færð nær því sem gerist í olíuleitinni hvað varðar auglýsingar og fleiri þætti.
    Nefndin ræddi sérstaklega um gjaldtöku fyrir nýtingu á kolvetni sem framleitt kann að vera. Nefndin aflaði sér upplýsinga um hvernig sköttum og gjöldum vegna leitar, rannsókna og vinnslu olíu er háttað í nágrannaríkjum Íslands, en þau hafa flest margþætt gjöld og skattheimtu til að tryggja sér hlutdeild í þeim hagnaði sem myndast getur af árangursríkri olíuvinnslu. Gjaldtakan og skattheimtan byggist þannig á svipuðum grunni, en útfærslan er mismunandi milli landa. Leyfishafi greiðir almennt leyfisgjald vegna undirbúnings og útgáfu leyfis og svæðisgjald fyrir afnot af því svæði sem honum er úthlutað til rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis. Þá eru innheimt sérstök framleiðslugjöld í sumum ríkjum, en önnur ríki hafa hætt því og taka í staðinn hlutdeild í leyfum sem þýðir að þau greiða ákveðinn hlut í kostnaði og fá á móti hlutdeild í hagnaði. Þá greiðir leyfishafi að jafnaði einnig fyrirtækjaskatt og að auki eru innheimtir sérstakir olíuskattar af hagnaði olíuvinnslunnar. Á móti kemur að yfirleitt er heimilt að draga ýmsan kostnað, svo sem rannsóknakostnað, frá skattstofni. Í þessu sambandi áréttar 1. minni hluti að svæðisgjald samkvæmt ákvæði lokamálsgreinar b- liðar 4. gr. frumvarpsins er hugsað sem leiga fyrir svæðið sjálft, en því til viðbótar kæmi svo gjaldtaka fyrir nýtinguna. Nefndin var upplýst um að slík gjaldtaka væri á forræði fjármálaráðuneytis og að vinnuhópur á vegum þess væri með það í athugun hvaða leið væri best að fara í þessum efnum. Þegar hópurinn hefði lokið störfum mætti búast við tillögum um leiðir varðandi gjaldtöku fyrir nýtingu. 1. minni hluti leggur áherslu á að hópurinn hraði vinnu sinni svo að óvissu í þessum efnum verði eytt sem fyrst.
    Í c-lið 5. gr. frumvarpsins er að finna heimild til þess að veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsingar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. 1. minni hluti telur heimildina of rúma og leggur því til breytingu á ákvæðinu þess efnis að birta skuli tilkynningu í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindum Evrópusambandsins þar sem fram komi afmörkun viðeigandi svæðis ásamt leiðbeiningum um hvar veittar séu frekari upplýsingar um leyfisveitingu á svæðinu.
    Loks leggur 1. minni hluti til breytingu á ákvæði 13. gr. frumvarpsins varðandi þagnarskyldu starfsmanna Orkustofnunar. 1. minni hluti telur að trúnaðarskylda á gögnum á rannsóknarleyfistíma þurfi ekki að vera eins fortakslaus og gert er ráð fyrir í frumvarpinu og að heimilt ætti að vera að semja við umsækjendur um heimildir til rýmri aðgangs að og notkunar á rannsóknargögnum. Þannig gætu umsækjendur um rannsóknarleyfi gert grein fyrir því í umsókn hversu mikla leynd þeir teldu þurfa að vera á rannsóknargögnum. Í sumum tilvikum kynni gagnaleynd jafnvel að vera óþörf á rannsóknarleyfistíma að mati rannsóknarleyfishafa og niðurstöður því mögulega nýtanlegar til annarra rannsókna eða leyfisundirbúnings jafnóðum og þær berast. 1. minni hluti leggur áherslu á að með breytingunni er eingöngu um heimildarákvæði að ræða þannig að ekki er hægt að skylda rannsóknarleyfishafa til að veita aðgang að gögnum á gildistíma rannsóknarleyfis, heldur yrði slíkt ávallt samkomulagsatriði milli leyfisveitanda og leyfishafa.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson, Katrín Júlíusdóttir, Gunnar Örlygsson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og stendur ekki að áliti þessu.

Alþingi, 28. febr. 2007.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Kjartan Ólafsson.



Birgir Ármannsson.