Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 669. máls.

Þskj. 1020  —  669. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Skýring á „jöfnunargreiðslu“ fellur brott.
     b.      Skýring á „lögbýli eða jörð“ orðast svo: Lögbýli eða jörð er í lögum þessum skilgreint skv. 2. gr. jarðalaga, nr. 81/2004.
     c.      Í stað orðsins „forðagæsluskýrslu“ í lokaorðskýringunni kemur: haustskýrslu skv. 11. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

2. gr.

    3.–6. mgr. 29. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    36. gr. laganna orðast svo:
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu sauðfjárafurða eru:
     a.      að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,
     b.      að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli,
     c.      að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu,
     d.      að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar,
     e.      að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.

4. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Á tímabilinu frá 1. janúar 2008 – 31. desember 2013 greiðir íslenska ríkið í samræmi við markmið 36. gr. framlög til gæðastýringar, til ullarnýtingar, til markaðsstarfs og birgðahalds, til svæðisbundins stuðnings og til nýliðunar- og átaksverkefna og framlög í formi beinna greiðslna til framleiðenda sauðfjárafurða í samræmi við samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007.
    Frá og með 1. janúar 2008 verður heildargreiðslumark í sauðfé 368.457 ærgildi. Frá sama tíma verður heildarbeingreiðslumark sauðfjárafurða 1.716 millj. kr. á ári sem skiptast hlutfallslega eins milli lögbýla og beingreiðslur gerðu árið 2007 að teknu tilliti til 1. mgr.

5. gr.

    4. mgr. 38. gr. laganna orðast svo:
    Ábúanda eða leigutaka lögbýlis er heimilt að kaupa greiðslumark til skráningar á lögbýlið. Skal slíkt greiðslumark sérstaklega skráð á nafn leiguliða. Framsal á greiðslumarki samkvæmt þessari málsgrein er heimilt, án samþykkis jarðareiganda. Við lok ábúðar eða leigu á jarðareigandi þó forkaupsrétt að greiðslumarkinu við sölu þess. Skal slíkur forkaupsréttur boðinn jarðareiganda skriflega. Hafi jarðareigandi ekki tilkynnt um að hann hyggist nýta forkaupsrétt sinn innan tuttugu daga frá því honum barst slík tilkynning er sala á greiðslumarkinu heimil.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Beingreiðslur greiðast úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark hvers lögbýlis eins og það er skráð á hverjum tíma.
     b.      Í stað ártalsins „2001“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 2008.
     c.      Á eftir 3. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ef greiðslumarki lögbýlisins er skipt á fleiri en einn rekstraraðila skal miðað við greiðslumark og ásetning hvers rekstraraðila fyrir sig.
     d.      Í stað orðanna „Heimilt er að“ í upphafi 5. mgr. kemur: Landbúnaðarstofnun getur ákveðið að.

7. gr.

    40. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    41. gr. laganna orðast svo:
    Sauðfjárframleiðendur sem á tímabilinu frá 1. janúar 2008 – 31. desember 2013 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu eiga rétt á sérstakri gæðastýringargreiðslu úr ríkissjóði. Gæðastýringargreiðslu skal greiða á tiltekna gæðaflokka dilkakjöts frá framleiðendum sem uppfylla nánari skilyrði reglugerðar sem ráðherra setur um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
    Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu á dilkakjöti samkvæmt kröfum um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða. Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skal m.a. ná til landnota, aðbúnaðar og umhverfis, sauðfjárskýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður skulu skjalfestar.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að fela búfjáreftirlitsmönnum sveitarfélaga að annast eftirlit með skráningu í sérstaka gæðahandbók þar sem m.a. þau atriði sem tilgreind eru í 2. mgr. koma fram. Ráðherra er einnig í reglugerð heimilt að fela Landgræðslu ríkisins að annast nánar tilgreinda þætti við eftirlit eða úttekt á landi sem nýtt er við gæðastýrða framleiðslu. Landbúnaðarráðherra getur falið Landbúnaðarstofnun og Landgræðslu ríkisins stjórnsýsluverkefni vegna gæðastýringar eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Landbúnaðarráðherra er enn fremur heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, að annast framkvæmd eftirlitsþátta með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.
    Nánari fyrirmæli um framkvæmd og skilyrði gæðastýringargreiðslna skal ráðherra setja í reglugerð. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um landnýtingarskilyrði, gæðakerfi, tilkynningar og fresti, kæruheimildir, eftirlits- og úttektaraðila og tilhögun álagsgreiðslna. Áður en reglugerð samkvæmt þessari grein tekur gildi skal aflað umsagnar Bændasamtaka Íslands um hana. Hafi umsögn ekki borist innan eins mánaðar frá því ósk um umsögn var send er ráðherra heimilt að birta reglugerðina án frekara samráðs.
    Réttur framleiðenda til gæðastýringargreiðslna skv. 1. mgr. fellur niður uppfylli þeir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu samkvæmt lögum þessum og reglugerð.

9. gr.

    42. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    43. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    44. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

    45. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

    46. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    47. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    48. gr. laganna fellur brott.

16. gr.

    49. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Í stað orðanna „2001–2007“ í fyrirsögn IX. kafla kemur: 2008–2013.

18. gr.

    3. mgr. 54. gr. laganna orðast svo:
    Ábúanda eða leigutaka lögbýlis er heimilt að kaupa greiðslumark til skráningar á lögbýlið. Skal slíkt greiðslumark sérstaklega skráð á nafn leiguliða. Framsal á greiðslumarki samkvæmt þessari málsgrein er heimilt, án samþykkis jarðareiganda. Við lok ábúðar eða leigu á jarðareigandi þó forkaupsrétt að greiðslumarkinu við sölu þess. Skal slíkur forkaupsréttur boðinn jarðareiganda skriflega. Hafi jarðareigandi ekki tilkynnt um að hann hyggist nýta forkaupsrétt sinn innan tuttugu daga frá því honum barst slík tilkynning er sala á greiðslumarkinu heimil.

19. gr.

    1. mgr. 56. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

    1. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    74. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    75. gr. laganna orðast svo:
    Styrktarsjóður sá sem varð til vegna tekna af sölu og leigu á eignum, ásamt sjóðum Grænmetisverslunar landbúnaðarins, skal sameinaður Framleiðnisjóði landbúnaðarins og lúta þeim lögum og reglum sem um hann gilda.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæðum til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Ákvæði P, R og S falla brott.
     b.      Ákvæði T orðast svo:
                      Landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samninga við sauðfjárbændur á lögbýlum með greiðslumark, sem hafa náð eða ná 64 ára aldri á tímabilinu 2008–2013, um að eiga hvorki né halda sauðfé til og með 31. desember 2013 en halda óskertum beingreiðslum á sama tíma á meðan greiðslumark sauðfjár er í eigu hlutaðeigandi bænda og áfram skráð á lögbýli. Þeim er þó heimilt að halda eftir allt að tíu vetrarfóðruðum kindum, enda séu afurðir þeirra til eigin nota. Ráðherra er jafnframt heimilt að kveða svo á í samningunum að þeir bændur sem hyggjast hefja sauðfjárrækt að nýju megi koma sér upp bústofni frá 1. september 2012. Samningunum skal þinglýst sem kvöðum á viðkomandi lögbýli sem gilda til 31. desember 2013. Verði eigendaskipti að greiðslumarki eða lögbýli fellur samningurinn niður og hin þinglýsta kvöð.
     c.      Við bætast tvö ný ákvæði, svohljóðandi:
                  1.      (U.)
                       Frá og með 1. janúar 2008 skal undanþága framleiðenda sem hafa haft 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks frá útflutningsskyldu skv. 6. mgr. 29. gr. laga nr. 99/1993 falla niður. Framleiðendur, er undanþegnir verða útflutningsskyldu haustið 2007, bera þó helming álagðrar útflutningsskyldu árið 2008.
                       Frá og með 1. júní 2009 fellur útflutningsskylda kindakjöts skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 brott. Fram til 1. júní 2009 gilda ákvæði 3.–6. mgr. 29. gr. og 74. gr. laga nr. 99/1993, eftir því sem við á.
                  2.      (Ú.)
                       Réttur til jöfnunargreiðslna, eins og þær eru skilgreindar í 40. gr. laga nr. 99/ 1993, sbr. 9. gr. laga nr. 88/2000, sem úthlutað var frá og með 1. janúar 2001 fellur niður frá og með 1. janúar 2008. Í stað jöfnunargreiðslna skal úthluta greiðslumarki til þeirra sem áttu slíkan rétt þannig að greiðslur til hvers framleiðanda árin 2004, 2005 og 2006 séu reiknaðar til verðlags 1. janúar 2007. Að því loknu skal velja tvö bestu árin hjá hverjum framleiðanda og síðan meðaltal þeirra. Á grundvelli þess skal 17.600 ærgildum skipt hlutfallslega milli framleiðenda og bætt við heildargreiðslumark samkvæmt skráningu Landbúnaðarstofnunar 31. desember 2007. Réttur til úthlutunar fellur niður hafi framleiðslu verið hætt árið 2007.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.
    Ákvæði 2. og 21. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. júní 2009, sbr. 1. tölul. c- liðar 23. gr. (ákvæði til bráðabirgða U í lögunum).

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra og í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna ákvæða í samningi um starfskilyrði sauðfjárræktar milli landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands sem undirritaður var 25. janúar 2007. Samningurinn er að byggður á eldri samningi um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000, en þó töluvert einfaldaður og breyttur. Samningurinn sem nú liggur fyrir nær yfir tímabilið frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013. Um efni hans vísast til fylgiskjals I með frumvarpi þessu. Ekki er í samningnum um grundvallarstefnubreytingu af hálfu ríkisins að ræða hvað varðar stuðningsfyrirkomulag við sauðfjárrækt. Þó felur samningurinn og frumvarp þetta í sér nokkrar breytingar sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um breytingar á 2. gr. búvörulaga þar sem skilgreiningar á hugtökum er að finna. Í fyrsta lagi er hugtakið jöfnunargreiðslur fellt brott þar sem hætt verður að greiða slíkar greiðslur eftir gildistöku laganna 1. janúar 2008. Í öðru lagi er tilvísun til eldri jarðalaga felld brott og um skilgreiningu á hugtökunum lögbýli og jörð vísað til nýrra jarðalaga, nr. 81/2004. Í þriðja lagi kemur kemur ný skilgreining á forðagæsluskýrslu þar sem í lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., er nú talað fjallað um þessa tegund skýrslna sem haustskýrslur, sbr. 11. gr. þeirra laga.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um brottfall 3.–6. mgr. 29. gr. laganna sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla með einu eða öðrum hætti um útflutning á kindakjöti og skyldu sláturleyfishafa og sauðfjárframleiðenda til að taka þátt í slíkum útflutningi. Í samningi ríkisins og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007 er kveðið á um afnám útflutningsskyldunnar í ákveðnum skrefum og verður skyldan að fullu afnumin 1. júní 2009. Ákvæði þessi falla brott úr lögunum eftir nánari fyrirmælum gildistökuákvæðis laganna.

Um 3. gr.

    Grein þessi fjallar um breytingu á ákvæðum 36. gr. búvörulaga. Með tilkomu nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar var markmiðum samningsaðila lítillega breytt og þau umorðuð, án þess þó að um neina grundvallarbreytingu á markmiðum væri að ræða. Rétt þykir að samræmi sé á milli lagatexta búvörulaga og markmiða samningsaðila í nýjum samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar á tímabilinu 1. janúar 2008 – 31. desember 2013. Þrátt fyrir það sem að framan er rakið má þó segja að í hinum nýju markmiðum er að finna eitt áhersluatriði sem ekki var að finna í gildandi 36. gr. Með frumvarpinu er lögð áhersla á, sbr. b-lið, að styrkja búsetu í dreifbýli. Í samræmi við þetta markmið renna tilteknar greiðslur til ákveðinna lögbýla á svæðum þar sem sauðfjárrækt er sérstaklega mikilvæg fyrir viðkomandi byggð. Í dag rennur svipuð fjárhæð til viðkomandi byggða í formi styrks í gegnum svonefnd 7.500 ærgildi, en með nýjum sauðfjársamningi var sérstaklega samið um þennan styrk sem úthluta á til þeirra aðila sem nú njóta greiðslna á grundvelli 7.500 ærgildanna.

Um 4. gr.

    Í nýju samkomulagi um starfsskilyrði sauðfjárræktar, sem undirritað var 25. janúar 2007, er ekki lengur gert ráð fyrir svonefndum jöfnunargreiðslum, heldur er gert ráð fyrir því að þær renni inn í heildargreiðslumark sauðfjár á samningstímabilinu. Því er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að 40. gr. laganna falli brott. Þess í stað er gert ráð fyrir að til verði ný 37. gr. búvörulaga þar sem m.a. verði fjallað um og taldir upp þeir flokkar greiðslna sem gert er ráð fyrir í samningnum frá 25. janúar 2007. Í 1. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins koma fyrir þeir flokkar greiðslna sem framlög ríkisins eru veitt til, þ.e. beingreiðslur sem samvæmt samningnum eru á ári út samningstímann 1.716 millj. kr., gæðastýringargreiðslur 898 millj. kr. út samningstímann, ullarnýtingargreiðslur 300 millj. kr. út samningstímann, greiðslur vegna markaðsstarfs og birgðahalds sem í upphafi samningstímans eru 311 millj. kr. en lækka á hverju ári og eru í lok samningstímans 160 millj. kr., svæðisbundinn stuðningur 43 millj. kr. út samningstímann og að lokum greiðslur vegna nýliðunar- og átaksverkefna 80 millj. kr. út samningstímann. Heildarfjárhæð greiðslna á ári út samningstímann fara úr 3.348 millj. kr. í upphafi lækkandi ár frá ári og eru á lokaári samningsins 3.197 millj. kr. Tekið skal fram að allar framangreindar fjárhæðir eru miðaðar við verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs 1. janúar 2007, sem var 266,2 stig, og taka þær mánaðarlegum breytingum þaðan í frá.
    Í 2. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins er að finna frekari breytingar er leiðir af undirritun nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Í greininni er að finna upplýsingar um heildargreiðslumark í sauðfé sem í gildi verður frá og með 1. janúar 2008, þ.e. 368.457 ærgildi. Einnig er kveðið á um hvert verði heildarbeingreiðslumark sauðfjárafurða, þ.e. 1.716 millj. kr. á ári og um skiptingu þess hlutfallslega milli lögbýla. Kveðið er á um sömu skiptingu beingreiðslna og farið var eftir árið 2007.

Um 5. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að gildandi 4. mgr. 38. gr. laganna falli brott. Nú er greininni ætlað að uppfylla ákveðna samningsskuldbindingu ríkisins samkvæmt gildandi sauðfjársamningi sem fellur úr gildi 1. janúar 2008. Eftir þann tíma á hún ekki lengur við. Í nýjum sauðfjársamningi er hins vegar að finna ákvæði sem kallar á breytingu á lögum þar sem kveða þarf á um tiltekinn lögvarinn rétt ábúanda eða leigutaka lögbýlis til þess að kaupa og skrá greiðslumark á viðkomandi býli. Einnig er kveðið á um sérskráningu greiðslumarksins á nafn viðkomandi leiguliða og þannig komið í veg fyrir að ruglingur verði á eign leiguliða annars vegar og eign jarðareiganda hins vegar. Í greininni er jafnframt ítrekuð heimild leiguliðans til að framselja slíkt greiðslumark án samþykkis jarðareignda.
    Í greininni er kveðið á um forkaupsrétt jarðareiganda að því greiðslumarki sem leiguliði á við leigu- eða ábúðarlok. Þykir rétt með hliðsjón af hagsmunum lögbýlisins og búvöruframleiðslu á viðkomandi stað að um slíkan rétt sé að ræða, enda ætti hann ekki að rýra verðgildi greiðslumarksins. Forkaupsrétturinn á samkvæmt framansögðu ekki við ef ábúandi flytur af jörðinni án þess að komi til sölu á greiðslumarkinu, t.d. er viðkomandi hyggur á búskap annars staðar. Kveðið er á um skriflega tilkynningu til jarðareiganda. Komi til þess að deilt verði um það hvort slíkur réttur hafi í raun verið boðinn má gera ráð fyrir að sá sem vill halda því fram að hann hafi löglega boðið forkaupsréttinn þurfi að sýna fram á slíkt. Sama má segja um jarðareigandann en í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að hann þurfi að tilkynna það skriflega innan tuttugu daga ef hann hyggst nýta sér forkaupsrétt sinn að greiðslumarkinu, ella fellur rétturinn niður og salan er heimil. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði sú að samningur um kaup á greiðslumarki verði að jafnaði sendur jarðareiganda og þarf hann þá að ganga að öllum skilyrðum samningsins ellegar falla frá forkaupsréttinum. Með þessu er átt við að jarðareigandi þarf m.a. að játast undir ákvæði um greiðslufjárhæð, stað og tíma.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.

    Ekki er gert ráð fyrir að jöfnunargreiðslur verði áfram greiddar til framleiðenda með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 40. gr. laganna. Þess í stað verða greiðslur þær sem þar er kveðið á um teknar inn í heildargreiðslumark lögbýla frá og með 1. janúar 2008. Um þá framkvæmd er vísað til nýs bráðabirgðaákvæðis, Ú, sbr. 2. tölul. c-liðar 23. gr.
    

Um 8. gr.

    Í greininni er fjallað um þær breytingar sem gert er ráð fyrir að gerðar verði á 41. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að 1. mgr. gildandi 41. gr. falli brott í heild þar sem hún, ef frumvarp þetta veður að lögum, á þá ekki lengur við. Almennt má segja um greinina að í henni er fjallað um svokallaðar gæðastýringargreiðslur í sauðfjárrækt. Með því er átt við sérstakar greiðslur sem greiddar eru úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum í samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt frá 25. janúar 2007. Greiðslurnar skulu fara til þeirra bænda sem uppfylla skilyrði lagagreinarinnar og reglugerðar sem sett er með heimild í lögunum þar sem fjallað skal um nánari skilyrði fyrir gæðastýringargreiðslum. Með þeirri breytingu sem lögð er til á 41. gr. er lagatextinn gerður einfaldari og gert ráð fyrir að almenn efnisákvæði og nánari skilyrði fyrir gæðastýringargreiðslum verði útfærð í reglugerð sem ráðherra setur í samráði við Bændasamtök Íslands. Við framkvæmd gildandi ákvæða um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar hefur komið í ljós að erfitt er að sjá fyrir öll einstök tilvik sem upp kunna að koma við eftirlit, framkvæmd og vottun innan kerfisins. Reynslan af núverandi kerfi kallar á þessar breytingar. Nauðsynlegt er hins vegar að lagatexti mæli fyrir um kerfið og kveði á um almennar framsalsheimildir ráðherra vegna þeirra verkefna sem leiðir af eftirliti og framkvæmd með gæðastýringargreiðslum.
    Sauðfjárframleiðendur sem á tímabilinu frá 1. janúar 2008 – 31. desember 2013 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu eiga skv. 1. mgr. greinarinnar rétt á sérstakri gæðastýringargreiðslu úr ríkissjóði. Í 2. mgr. er fjallað um það til hvaða meginþátta gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skuli ná. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð útfært nánar einstaka þætti gæðastýringarinnar og brotið þá upp í undirflokka ef því er að skipta. Ekki er heldur gert ráð fyrir að upptalning greinarinnar sé tæmandi og getur ráðherra með reglugerð kveðið á um aðra þætti sem hann telur nauðsynlegt að teknir séu til greina við gæðastýringargreiðslur.
    Í 3. mgr. er að finna almennar heimildir landbúnaðarráðherra til framsals eftirlits og framkvæmdaþátta vegna gæðastýringargreiðslna. Ráðherra er m.a. heimilað í reglugerð að fela búfjáreftirlitsmönnum sveitarfélaga að annast eftirlit með skráningu í sérstaka gæðahandbók. Gert er ráð fyrir að slík gæðahandbók byggist á gæðahandbók Bændasamtaka Íslands, þ.e. að annaðhvort sé hún tekin beint upp eða á henni byggt. Ráðherra er einnig í 3. mgr. heimilað með reglugerð að fela Landgræðslu ríkisins að annast ákveðna þætti við eftirlit eða úttekt á landi sem nýtt er við gæðastýrða framleiðslu. Landbúnaðarráðherra getur einnig falið Landbúnaðarstofnun eða Landgræðslunni stjórnsýsluverkefni vegna gæðastýringar eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Landbúnaðarráðherra er enn fremur heimilað að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, að annast framkvæmd eftirlitsþátta með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skv. 1. mgr. Þær framsalsheimildir ráðherra sem að framan hafa verið taldar byggjast á því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft í gæðastýringunni. Nýmælið er hins vegar það að ekki er nú kveðið beinlínis á um það í lögunum að tiltekinn aðili sinni þessum þáttum heldur er valið ráðherra. Í núverandi kerfi álagsgreiðslna vegna gæðastýringar sinna búfjáreftirlitsmenn, Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarstofnun þessum verkefnum. Hins vegar hefur komið í ljós að núverandi kerfi mætti bæta og gera skilvirkara og því er hér lagt til að nánari útfærsla á kerfinu verði í reglugerð sem sett verði í samráði við Bændasamtök Íslands.
    Í 4. mgr. segir að nánari fyrirmæli um framkvæmd og skilyrði gæðastýringargreiðslna skuli ráðherra setja í reglugerð. Í reglugerðinni skuli m.a. kveðið á um tilkynningar og fresti, kæruheimildir, eftirlits- og úttektaraðila og tilhögun álagsgreiðslna. Í 4. mgr. er einnig gert ráð fyrir rétti Bændasamtaka Íslands til þess að fá reglugerðina til umsagnar áður en hún hlýtur lögformlega gildi og gerð grein fyrir því hvernig ráðherra megi með fara neyti samtökin ekki umsagnarréttar síns.
    Í 5. mgr. er kveðið á um það að réttur framleiðanda til gæðastýringargreiðslna skv. 1. mgr. falli niður uppfylli þeir ekki lengur skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu samkvæmt lögum þessum eða reglugerð. Ekki er um breytingu á gildandi lögum að ræða. Rétt þykir að árétta þetta atriði í lögum þar sem það að svipta framleiðanda gæðastýringargreiðslum er vandasöm stjórnvaldsákvörðun sem ekki verður tekin nema ljóst sé að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla um réttinn til greiðslanna séu ekki uppfyllt.

Um 9. gr.

    Eins og áður sagði er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að 42. gr. gildandi laga falli brott. Í gildandi 42. gr. er fjallað um hlutverk framkvæmdanefndar búvörusamninga við framkvæmd og eftirlit með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Gert er ráð fyrir að hætt verði með lögum að fela framkvæmdanefndinni verkefni vegna gæðastýringar. Einn annmarki þess kerfis sem nú er í gæðastýringu er hversu mörg stjórnvöld koma að þeim málum sem þar er fjallað um. Með því að hætta að fela framkvæmdanefndinni ákveðin stjórnsýsluverkefni vegna gæðastýringarinnar verður þessum aðilum fækkað um einn. Gert er ráð fyrir að ráðherra feli í reglugerð Landbúnaðarstofnun að sinna því hlutverki sem framkvæmdanefndinni er nú falið í lögum. Ákvæði um heimild landbúnaðarrráðherra til að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast framkvæmd eftirlitsþátta með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu færist í 41. gr. laganna, sbr. 8. gr. frumvarps þessa. Heimildin hefur hins vegar ekki verið notuð en rétt þykir að halda henni í lögum.

Um 10. gr.

    Í greininni eru felld brott úr lögum ákvæði 43. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir því, með vísan til þess sem sagt var í skýringum við 8. gr. frumvarps þessa að þessi ákvæði fari að mestu í reglugerð sem ráðherra setur, enda er efni gildandi 43. gr. þess eðlis að því er eðlilega skipað með þeim hætti.

Um 11. gr.

    Í greininni eru að mestu felld brott ákvæði 44. gr. gildandi laga. Heimild gildandi 1. mgr. 44. gr., til að fela búfjáreftirlitsmönnum sveitarfélaga að annast eftirlit með skráningu í gæðahandbók er í frumvarpi þessu færð í 41. gr. laganna. Að öðru leyti fellur 44. gr. brott og ákvæði hennar munu eftir því sem við á færast í reglugerð.

Um 12. gr.

    Í greininni eru að mestu felld brott ákvæði 45. gr. gildandi laga. Ákvæði gildandi 1. mgr. 45. gr., um brottfall réttar til álagsgreiðslna, er í 8. gr. frumvarps þessa færð í 41. gr. laganna. Að öðru leyti fellur 45. gr. brott og ákvæði hennar munu eftir því sem við á færast í reglugerð.

Um 13. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að nefnd sú sem komið er á fót í 46. gr. gildandi laga og fjallaði um ágreining um það hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eða ekki verði lögð niður. Í raun hefur það verið svo að fá mál hafa ratað á borð umræddrar nefndar.
    Samhliða því að ákvæði er varðar úrskurðarnefndina eru felld brott eru tilvísanir í búvörulögunum þar sem fjallað er um úrskurðarnefndirnar felldar brott, þ.e. úr 1. mgr. 56. gr. og 1. mgr. 61. gr.
    Nánar um rökstuðning fyrir ákvæði greinarinnar er vísað til umfjöllunar um 16. gr. frumvarps þessa.

Um 14. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að 47. gr. gildandi laga falli brott og þar með að framkvæmdanefnd búvörusamninga hætti að hafa yfirumsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.

Um 15. gr.

    Í grein þessari er gert ráð fyrir að 48. gr. gildandi laga falli brott. Ákvæði hennar hafa nú að mestu verið færð í 41. gr., sbr. 8. gr. frumvarps þessa.

Um 16. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að 49. gr. gildandi laga falli brott. Í 49. gr. gildandi laga er fjallað um úrskurðarnefnd um ágreining um greiðslumark og skipan hennar. Í nýlegri skýrslu umboðsmanns Alþingis frá nóvember 2006 er fjallað um úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi og hvernig tekist hefur til við rekstur mála hjá þeim. Samkvæmt áliti umboðsmanns, máli nr. 4193/2004, er mikið um það að mál dragist á langin hjá sjálfstæðum stjórnsýslu- og úrskurðarnefndum og ákvæði um málshraða og fresti séu ekki virt. Í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda, sem útgefin var af forsætisráðuneytinu 1999, bls. 89, segir um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir: „Sjálfstæðar stjórnsýslunefndir kallast þær nefndir sem fara með málefni á starfssviði ráðherra en er skipað til hliðar við þau stjórnvöld sem heyra undir yfirstjórn hans. Þessar stjórnsýslunefndir eru sjálfstæðar í þeim skilningi að ráðherra fer ekki með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart þeim. Af þeim sökum getur ráðherra ekki gefið þeim bindandi fyrirmæli um framkvæmd stjórnsýslu, nema hafa til þess lagaheimild og ákvörðun slíkrar nefndar verður ekki skotið til ráðherra. Sjálfstæðum stjórnsýslunefndum verður einungis komið á fót með lögum.“ Úrskurðarnefnd samkvæmt búvörulögum um ágreining um greiðslumark fékk þrjú mál til meðferðar 2001, ellefu mál árið 2002, þrjú mál árið 2003, fjögur mál 2004 og tvö mál 2005. Með framangreindri breytingu verður það svo að þeir úrskurðir sem gera má ráð fyrir að Landbúnaðarstofnun felli verða kæranlegir til ráðherra sem æðra stjórnvalds, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í 56. gr. í X. kafla um framleiðslu og greiðslumark mjólkur 1998–2005 er kveðið á um að 49. gr. gildi um ágreining vegna ákvörðunar á greiðslumarki lögbýla samkvæmt þeim kafla. Í 61. gr. í XI. kafla um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða 2002–2011 er kveðið á um að 49. gr. gildi um ágreining samkvæmt þeim kafla. Í samræmi við það að úrskurðarnefndin er lögð niður eru ofangreindar tvær tilvitnanir í 49. gr. felldar brott úr viðeigandi lagagreinum.
    Komi upp ágreiningur um greiðslumark mun Landbúnaðarstofnun sem nú fer með verkefni er varða skráningu greiðslumarks samkvæmt lögum taka stjórnvaldsákvörðun í slíkum tilvikum. Slíkar ákvarðanir verði þá kæranlegar til landbúnaðarráðherra, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 17. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 18. gr.


    Um greinina vísast til athugasemda við 5. gr. því ákvæðin eru sambærileg. Í þessari grein er kveðið á um forkaupsrétt að greiðslumarki mjólkur. Ekki er um mikla efnisbreytingu að ræða þar sem 3. mgr. 54. gr. kveður nú á um slíkan forkaupsrétt jarðareiganda og rétt leiguliða til að kaupa og skrá greiðslumark á lögbýli. Ákvæðin um skriflega tilkynningu og þann frest sem veittur er til að neyta forkaupsréttarins eru þó nýmæli í lögunum. Rétt þykir að sambærilegar reglur gildi í þessum tilvikum er varðar greiðslumark sauðfjár og mjólkur.

Um 19. og 20. gr.


    Um greinarnar vísast til athugasemda við 13. gr.

Um 21. gr.

    Í grein þessari er fjallað um breytingu á 74. gr. gildandi laga. Í tengslum við afnám útflutningsskyldu á sauðfjárafurðum í áföngum og að fullu 1. júní 2009 er gert ráð fyrir því að 74. gr. falli brott, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða. Í 21. gr. er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra hætti að hafa afskipti af samningum milli Bændasamtaka Íslands og sláturleyfishafa um verkaskiptingu við slátrun og verkun sauðfjár- og stórgripaafurða til sölu á erlendum markaði. Slík samningsskylda er nú felld brott úr lögum. Þessir aðilar geta eftir sem áður haft ákveðið samstarf og þá innan ramma samkeppnislaga, nr. 44/2005. Sérstaklega á það við um samstarf vegna útflutnings á erlenda markaði, enda hafi það ekki áhrif á samkeppni innan lands.

Um 22. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að ákvæði 1.–3. mgr. 75. gr. laganna falli brott þar sem þau hafa ekki lengur þýðingu.
    Í greininni er jafnframt kveðið á um breytingu á 4. mgr. gildandi 75. gr. í þá veru að sérstakur sjóður, svokallaður Garðávaxtasjóður sem starfræktur hefur verið og úthlutað hefur styrkjum til stofnræktar garðávaxta, rannsókna og tilrauna með ræktun og meðferð garðávaxta og vöruþróun á þessu sviði, sbr. reglugerð nr. 180/1992, verði sameinaður Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Stjórn Framleiðnisjóðs annast nú vörslu og úthlutun fjár úr sjóðnum. Eignir Garðávaxtasjóðs í árslok 2005 voru 53,6 millj. kr. Úthlutun úr sjóðnum árið 2005 samkvæmt ársskýrslu sjóðsins nam 1,7 millj. kr. (vöxtum af höfuðstól) til fastaverkefnis Landbúnaðarháskóla Íslands (áður RALA) og útsæðisnefndar sem varðar viðhald heilbrigðra kartöflustofna. Þar sem fjárþörf verkefnisins var meiri en nam árstekjum Garðávaxtasjóðs árið 2005 var mismuninum mætt með viðbótarframlagi úr Framleiðnisjóði. Um fjárhag Garðávaxtasjóðs er að öðru leyti vísað til ársreiknings hans fyrir árið 2005. Gera þarf Garðávaxtasjóð sérstaklega upp og fylgja ákvæðum sérstakrar reglugerðar um sjóðinn. Er talið að með því að sameina sjóðinn Framleiðnisjóði landbúnaðarins sé hægt að gera hann öflugari og einfalda stjórnsýslu með þeim verkefnum sem sjóðnum er ætlað að sinna. Þau verkefni sem sjóðnum er ætlað að styrkja eru nú jafnframt styrkhæf úr Framleiðnisjóði, sbr. lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966, ásamt síðari breytingum, og 3. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, og er æskilegt að áhersla verði á að áfram fáist jafnmikið og helst meira fé til þessara rannsókna eftir sameiningu sjóðanna.

Um 23. gr.

    Í greininni er fjallað um breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögunum.
    Ákvæði P, R og S eiga ekki lengur við og eru því felld brott.
    Í nýju ákvæði T er sambærilegt ákvæði og nú er að finna í búvörulögunum, en ákvæðið er aðlagað nýjum samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar.
    Nýtt ákvæði U tekur á afnámi útflutningsskyldu í áföngum og kveður á um þær reglur sem um það gilda.
    Í nýju ákvæði Ú er fjallað um það hvernig réttur þeirra sem samkvæmt núverandi lögum fá jöfnunargreiðslur breytist í greiðslumark. Í ákvæðinu kemur fram að greiðslur til hvers framleiðanda árin 2004, 2005 og 2006 skuli reikna til verðlags 1. janúar 2007. Að því loknu skuli velja tvö bestu árin hjá hverjum framleiðanda og síðan meðaltal þeirra. Á grundvelli þess skal 17.600 ærgildum skipt hlutfallslega milli framleiðenda og bætt við heildargreiðslumark samkvæmt skráningu Landbúnaðarstofnunar 31. desember 2007. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um missi þessa réttar hafi framleiðslu verið hætt árið 2007.

Um 24. gr.


    Gert er ráð fyrir því að lög þessi taki gildi 1. janúar 2008 og er það í samræmi við gildistökuákvæði nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að 29. gr. og 74. gr. búvörulaga, sem afnumdar eru samkvæmt frumvarpinu haldi gildi sínu tímabundið eftir nánari ákvæðum ákvæðis til bráðabirgða U í við lögin, sbr. 1. tölul. c-liðar 23. gr.



Fylgiskjal I.


S A M N I N G U R
um starfskilyrði sauðfjárræktar.


    Landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Bændasamtök Íslands hins vegar, gera með sér eftirfarandi samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar á grundvelli 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

1. gr.


Markmið.


1.     Markmið samningsins eru eftirfarandi:
1.1.    Að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda.
1.2.    Að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli.
1.3.    Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.
1.4.    Að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar.
1.5.     Að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.

2. gr.
Hugtök.

2.1. Beingreiðslur.
    Tiltekin fjárhæð, sem ákveðin er í gr. 4.1 og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.

2.2 Greiðslumark lögbýla.
    Greiðslumark lögbýla er tiltekinn fjöldi ærgilda, sem ákveðinn er fyrir hvert lögbýli, sbr. gr. 3.2 og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.

2.3 Vetrarfóðruð kind.
    Ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin fram á búfjáreftirlitsskýrslu.

2.4 Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla.
    Dilkakjöt sem framleitt hefur verið eftir kröfum um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða.

3. gr.
Greiðslumark sauðfjárbúa og beinar greiðslur.

3.1 Heildargreiðslumark.
    Heildargreiðslumark sauðfjár er samanlagt greiðslumark lögbýla 31. desember 2007 samkvæmt skráningu Landbúnaðarstofnunar alls 350.857 ærgildi.
    Réttur til jöfnunargreiðslna, eins og þær eru skilgreindar í 40. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 9. gr. laga nr. 88/2000, sem úthlutað var frá og með 1. janúar 2001, skulu frá og með gildistökudegi samnings þessa umreiknaðar í greiðslumark með eftirfarandi hætti: Greiðslur til hvers framleiðanda árin 2004, 2005 og 2006 skal reikna til verðlags 1. janúar 2007. Að því loknu skal velja tvö bestu árin hjá hverjum framleiðanda og síðan meðaltal þeirra. Á grundvelli þessa verði 17.600 ærgildum skipt hlutfallslega milli framleiðenda og bætt við heildargreiðslumark 31. desember 2007. Réttur til úthlutunar fellur niður hafi framleiðslu verið hætt árið 2007. Heildargreiðslumark 1. janúar 2008 er því 368.457 ærgildi.

3.2 Greiðslumark lögbýla.
    Greiðslumark er bundið við lögbýli og skal skráð í einu lagi, nema um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða, sem standa að búi. Þar sem fleiri aðilar standa saman að búrekstri skal slíkt sérstaklega skráð hjá Landbúnaðarstofnun. Greiðslumark lögbýla þann 1. janúar 2008 miðast við greiðslumark eins og það er skráð hjá Landbúnaðarstofnun þann. 31. desember 2007, að viðbættum umreiknuðum jöfnunargreiðslum sbr. 2. mgr. gr. 3.1.

3.3 Skráning og viðskipti með greiðslumark.
    Landbúnaðarstofnun heldur skrá yfir greiðslumark lögbýla, sérskráð greiðslumark og handhafa greiðslumarks og staðfestir breytingar á skráningu.
    Greiðslumark getur flust milli lögbýla. Ávallt þarf samþykki þinglýstra eigenda fyrir framsali greiðslumarks. Sé ábúandi annar en eigandi lögbýlis þarf samþykki beggja fyrir framsali greiðslumarks.
    Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli og skal það sérstaklega skráð á nafn hans. Leiguliða er heimilt að framselja sérskráð greiðslumark án samþykkis jarðareiganda. Þó skal jarðareigandi eiga forkaupsrétt við ábúðarlok.
    Framsal greiðslumarks tekur gildi 1. janúar ár hvert og greiðast beingreiðslur út á keypt greiðslumark frá sama tíma. Tilkynna skal Landbúnaðarstofnun um framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna greiðslna fyrir viðkomandi ár.

3.4 Skerðing beingreiðslna.
    Til að fá fullar beingreiðslur þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Landbúnaðarráðherra ákveður árlega, að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, hlutfall vetrarfóðraðra kinda á hvert ærgildi sem þurfa að vera skráð á forðagæsluskýrslum til þess að viðkomandi greiðslumarkshafi hljóti fullar beingreiðslur. Nái ásetningur ekki því lágmarki skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Ef greiðslumark lögbýlisins er skipt á fleiri en einn rekstraraðila, þá skal miðað við greiðslumark og ásetning hvers rekstraraðila fyrir sig.
    Á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland, er ráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins, enda verði samhliða ráðist í að bæta beitarskilyrði. Umsóknum um slíka undanþágu skal skila til framkvæmdanefndar búvörusamninga. Þá getur ráðherra ákveðið að víkja frá framangreindu ásetningshlutfalli hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar sjúkdómum.
    Landbúnaðarstofnun er heimilt að skerða eða fella niður beingreiðslur ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé.

3.5 Beingreiðslur eftir búskaparhlé.
    Falli beingreiðslur niður vegna fjárleysis heldur viðkomandi lögbýli engu að síður greiðslumarki sínu á samningstímanum. Beingreiðslur hefjast að nýju þegar bústofn er aftur tekinn á jörðina.

3.6 Eftirstöðvar beingreiðslna.
    Beingreiðslur sem lausar eru án samninga um búskaparlok skulu renna til markaðsstarfs á vegum framleiðenda kindakjöts, eftir ákvæðum gr. 4.4.

4. gr.

Framlög ríkisins og skipting þeirra.

    Ríkissjóður greiðir á samningstímanum framlög sem hér segir:

Ár Heildarfjárhæðir Beingreiðslur Gæðastýring Ullarnýting Markaðsstarf og birgðahald Svæðisbundinn stuðningur Nýliðun- og átaksverkefni
2008 3.348 1.716 898 300 311 43 80
2009 3.318 1.716 898 300 281 43 80
2010 3.288 1.716 898 300 251 43 80
2011 3.257 1.716 898 300 220 43 80
2012 3.227 1.716 898 300 190 43 80
2013 3.197 1.716 898 300 160 43 80

4.1 Beingreiðslur.
    Beingreiðslur skiptast í níu jafnar greiðslur sem greiðast mánaðarlega frá janúar til september þó þannig að janúargreiðsla greiðist með febrúargreiðslu.

4.2 Gæðastýring.
    Gæðastýringarframlag (álagsgreiðslur) er greitt á tiltekna gæðaflokka dilkakjöts frá framleiðendum sem uppfylla skilyrði reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eins og hún er á hverjum tíma. Gjalddagar fyrir framleiðslu skulu vera tveir á ári. Lokauppgjör ársins skal fara fram fyrir 5. febrúar næsta ár á eftir. Samningsaðilar eru sammála um að fram fari endurskoðun á reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 175/2003 fyrir gildistöku samnings þessa.

4.3 Ullarnýting.
    Ráðstöfun fjár vegna nýtingar á ull er í umsjón Bændasamtaka Íslands.

4.4 Markaðsstarf og birgðahald.
    Ráðstöfun fjár vegna markaðs og birgðahalds er í umsjón Bændasamtaka Íslands. Heimilt er að verja fjármagninu m.a. til eftirfarandi verkefna:
     *      Til að greiða bændum álag vegna slátrunar utan hefðbundins sláturtíma.
     *      Til að standa straum af hluta kostnaðar vegna birgðahalds.
     *      Til markaðssetningar sauðfjárafurða.

4.5 Nýliðunar- og átaksverkefni.
    Á fyrsta ári samnings þessa skal verja 80 m.kr. til nýliðunar og átaksverkefna í sauðfjárrækt. Til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda verði varið 35 m.kr., m.a. í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum. Þá verða 30 m.kr. nýttar til að styðja kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í greininni, t.d. vegna gæðastýringar og lífrænnar framleiðslu. Loks skal árlega veita allt að 15 m.kr. til stuðnings við endurræktun og jarðrækt. Ráðstöfun þessa fjár er í höndum Bændasamtaka Íslands.

4.6 Búskaparlok.
    Bændur á lögbýlum með greiðslumark, sem eru orðnir 64 ára, eiga kost á að gera samning um búskaparlok. Í samningi skal kveða á um afléttingu ásetningskyldu, gegn rétti á óskertum beingreiðslum út gildistíma samnings þessa.

4.7 Svæðisbundin stuðningur.
    Til þeirra aðila sem nú hljóta greiðslur til stuðnings sauðfjárræktar, á svæðum sem skilgreind hafa verið sérstaklega háð sauðfjárrækt, sbr. reglur landbúnaðarráðuneytisins nr. 552/2005, skal árlega verja fjárhæð, sbr. töflu í 4. gr. Stuðningurinn er háður því að viðkomandi sé skráður ábúandi með lögheimili á lögbýli sem rétt á til úthlutunar samkvæmt framangreindum reglum. Ekki er skilyrði að þeir sem stuðnings njóta stundi sauðfjárrækt. Réttur samkvæmt þessari grein skal vera óframseljanlegur og bundinn við lögbýli. Landbúnaðarráðuneytið setur nánari reglur um greiðslur samkvæmt þessari grein.

5. gr.
Framleiðsla og afurðaverð.

5.1 Útflutningsskylda.
    Frá og með 1. janúar 2008 skal undanþága framleiðenda sem hafa haft 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks frá útflutningsskyldu skv. 6. mgr. 29. gr. laga nr. 99/1993 falla niður. Framleiðendur er undanþegnir verða útflutningsskyldu haustið 2007, bera þó helming álagðrar útflutningsskyldu árið 2008.
    Frá og með 1. júní 2009 fellur útflutningsskylda kindakjöts skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 brott. Fram til 1. júní 2009 gilda ákvæði 5. mgr. 29. gr. laga nr. 99/1993 um útflutning á dilkakjöti, eftir því sem við á.

5.2 Afurðaverð.
    Landssamtökum sauðfjárbænda er heimilt að gefa út viðmiðunarverð.
    Verð fyrir framleiðsluna er samningsatriði milli sauðfjárbænda og sláturleyfishafa.

6. gr.
Endurskoðun, framkvæmd og gildistími samnings.

6.1 Um fjárhæðir.
    Allar fjárhæðir í samningi þessum skulu miðaðar við verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs 1. janúar 2007, sem var 266,2 stig, og taka breytingum mánaðarlega þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs.

6.2 Breyting og endurskoðun.
    Aðilar samnings þessa geta á gildistíma hans hvor um sig óskað eftir viðræðum um endurskoðun á einstökum atriðum hans. Verði af hálfu beggja samningsaðila fallist á breytingu skulu þær gerðar skriflega sem viðauki við samning þennan.

6.3 Eftirlit með samningi.
    Bændasamtök Íslands skulu setja verklagsreglur um úthlutun greiðslna samkvæmt samningi þessum. Bændasamtök Íslands skulu árlega skila yfirliti til landbúnaðarráðuneytisins um heildarfjárhæðir greiddra framlaga og skulu fjárhæðir vera sundurliðaðar á milli verkefna eða viðfangsefna sem framlags geta notið samkvæmt samningi þessum.
    Verði fjárhæðum samkvæmt liðum 4.3, 4.4 og 4.5 ekki ráðstafað innan þeirra liða, samkvæmt verklagsreglum um úthlutun, er Bændasamtökum Íslands, að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra, heimilt að færa til greiðslur milli þeirra. Heimilt er að geyma fjármuni á milli ára.
    Reglur um ráðstöfun fjár samkvæmt liðum 4.3, 4.4 og 4.5 skulu öðlast staðfestingu landbúnaðarráðherra.

6.4 Fyrirvarar um nauðsynleg samþykki.
    Samningur þessi er undirritaður f.h. ríkisstjórnar Íslands með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis og f.h. Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda með fyrirvara um samþykki í almennri atkvæðagreiðslu.

6.5 Fyrirvari vegna WTO samninga.
    Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðu samningaviðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Þegar yfirstandandi samningaviðræðum innan WTO lýkur skal samningur þessi endurskoðaður þannig að stuðningsfyrirkomulag ríkisins við íslenskan landbúnað rúmist hverju sinni innan þeirra heimilda sem skuldbindingar Íslands á vettvangi WTO kveða á um.

6.6 Framkvæmd og gildistími.
    Samningurinn gildir frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013. Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur umsjón með framkvæmd samnings þessa. Samningurinn er gerður í fjórum samhljóða eintökum og skulu Bændasamtök Íslands halda einu, Landssamtök sauðfjárbænda einu, landbúnaðarráðherra einu og fjármálaráðherra einu.

Reykjavík, 25. janúar 2007.


F.h. Bændasamtaka Íslands               F.h. ríkisstjórnar Íslands

     Haraldur Benediktsson     Guðni Ágústsson                    landbúnaðarráðherra
     Jóhannes Sigfússon     
          Árni M. Mathiesen
     Fanney Ólöf Lárusdóttir     fjármálaráðherra
    
    Gunnar Sæmundsson

    Jóhanna Pálmadóttir




Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að breyta lögum svo að markmið nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands nái fram að ganga. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013 og er áætlaður kostnaður ríkissjóðs af samningnum sýndur í eftirfarandi töflu í m.kr. Allar fjárhæðir eru miðaðar við verðlag í janúar 2007 og taka mánaðarlegum breytingum þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs. Samkvæmt verðlagi í janúar 2007 eru útgjöld ríkissjóðs til þessara mála, fyrir árið 2007, áætluð um 3.048 m.kr. og munu því aukast um 300 m.kr. á fyrsta ári samningsins.

2008 2009 2010 2011 2012 2013 Alls
Beingreiðslur 1.716 1.716 1.716 1.716 1.716 1.716 10.296
Gæðastýring 898 898 898 898 898 898 5.388
Ullarnýting 300 300 300 300 300 300 1.800
Markaðsstarf og birgðahald 311 281 251 220 190 160 1.413
Svæðisbundinn stuðningur 43 43 43 43 43 43 258
Nýliðunar- og átaksverkefni 80 80 80 80 80 80 480
Samtals 3.348 3.318 3.288 3.257 3.227 3.197 19.635