Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 431. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1041  —  431. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Hugmyndir um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands eiga sér langan aðdraganda og hefur allt frumkvæði í málinu komið frá skólunum sjálfum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sú undirbúningsvinna sem fram hefur farið falli í lagalegan feril þar sem sameining skólanna verði heimiluð hinn 1. júlí 2008. Ljóst er hins vegar að langt ferli er fram undan áður en sameiningunni lýkur. Fram kom m.a. hjá gestum á fundum nefndarinnar að ferlið gæti tekið 10–15 ár. Á þeirri leið þarf að taka ótal ákvarðanir, m.a. um flest það sem ágreiningi getur valdið.
    Það er mikilvægt að málið skuli eiga eftir að koma aftur til afgreiðslu á Alþingi þegar tillögur um breytt skipulag Háskóla Íslands verða lagðar fram, en þær tillögur eru meðal helstu forsendna sameiningarinnar. Þá kom það einnig fram hjá gestum að þótt frumvarpið verði samþykkt er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að ferlið gangi til baka ef í ljós kemur að erfiðleikar við sameininguna eða ágreiningur um einhver atriði verði með þeim hætti að ekki þyki rétt að ganga alla leið.
    Nokkur áherslumunur virðist milli starfsfólks skólanna varðandi skipulag kennaranáms. Kennaranám í Háskóla Íslands hefur hingað til miðast við svokallað raðnámslíkan en Kennaraháskólinn hefur alla tíð skipulagt kennaranám út frá samþættu líkani. Raðnámslíkanið gerir ráð fyrir að nemendur öðlist fyrst þekkingu í tiltekinni fræðigrein en síðan bætist uppeldisgreinar við. Samþætta líkanið gerir hins vegar ráð fyrir að uppeldisgreinar séu samþættar öðrum fræðigreinum. Þá hafa kennarar í Kennaraháskólanum lagt áherslu á að skólinn verði áfram ein heild, að breyttu breytanda, með núverandi fyrirkomulagi þótt hann gerist hluti Háskóla Íslands. Viðhorf í Háskóla Íslands virðast hins vegar fremur þau að faggreinanám kennaranema fari fram í núverandi deildum Háskóla Íslands eða á vegum þeirra. Hér hafa engar ákvarðanir verið teknar og er afar mikilvægt að strax eftir samþykkt frumvarpsins hefjist víðtæk fagleg umræða um þessi og önnur grundvallaratriði mögulegrar sameiningar, því að í raun er verið að fjalla um framtíð og þróun kennaramenntunar í landinu.
    Fjölmörg atriði önnur þarf að athuga rækilega eins og fram kemur í ýmsum þeirra umsagna sem borist hafa um frumvarpið, þar á meðal um stöðu kennaramenntunar í alþjóðlegu samhengi. Sérstaklega skal getið umsagnar Bandalags íslenskra námsmanna en í henni er lögð áhersla á samráð við stúdenta við væntanlega sameiningu skólanna. Minni hlutinn tekur undir þá kröfu stúdentanna.
    Með samþykkt frumvarpsins er í raun aðeins verið að stíga fyrsta skrefið að sameiningu skólanna tveggja og endurskipulagningu kennaramenntunar í landinu. Minni hlutinn treystir því að vinnubrögð forustumanna og starfsliðs skólanna verði vönduð og lýðræðisleg í framhaldinu og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 5. mars 2007.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Mörður Árnason.



Kolbrún Halldórsdóttir.