Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 676. máls.

Þskj. 1042  —  676. mál.Skýrsla

samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar flugslysa árið 2006.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
Rannsóknarnefnd flugslysa.
    Rannsóknarnefnd flugslysa tók til starfa 28. júní 1996 í samræmi við lög nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa. Rannsóknarnefnd flugslysa tók þá við starfsemi flugslysarannsóknardeildar Flugmálastjórnar Íslands og starfsemi flugslysanefndar sem þá voru lagðar niður. Ný lög nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, tóku gildi 1. september 2004.
    Rannsóknarnefnd flugslysa er stjórnsýslunefnd sem heyrir stjórnsýslulega undir samgönguráðherra en starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Nefndin lýtur forstöðu forstöðumanns sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn og er hann ábyrgur fyrir rannsóknarverkefnum hennar og stjórnar daglegum rekstri hennar. Rannsóknarnefnd flugslysa annast rannsókn flugslysa, alvarlegra flugatvika og flugumferðaratvika samkvæmt framangreindum lögum og viðauka 13 við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem Ísland er aðili að.
    Flugslysarannsóknir miða að því að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og að auka öryggi í flugi. Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við flugslys fer samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og er slík rannsókn óháð rannsókn flugslysa.
    Í skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa er gerð grein fyrir orsök eða líklegri orsök flugslyss auk þess sem þar eru, ef við á, gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum. Þá skal rannsóknarnefnd flugslysa gera tillögur um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsókn á orsökum flugslysa gefur tilefni til. Skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum, enda er markmið flugslysarannsókna samkvæmt áðurnefndum lögum að greina orsakaþætti flugslysa í því skyni einu að koma í veg fyrir frekari flugslys. Tilgangurinn er ekki að draga fram sök eða ábyrgð.
    Nefndina skipa eftirtaldir: Hallgrímur A. Viktorsson flugstjóri, formaður, Ólafur Haraldsson hæstaréttarlögmaður og Ragnar Guðmundsson flugvélaverkfræðingur.
    Varamenn eru: Bryndís Lára Torfadóttir flugstjóri, Hörður Arilíusson flugumferðarstjóri og Páll Valdimarsson, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands.
    Starfsmenn rannsóknarnefndar flugslysa eru: Þorkell Ágústsson verkfræðingur, forstöðumaður/rannsóknarstjóri, og Bragi Baldursson flugvélaverkfræðingur, aðstoðarforstöðumaður/aðstoðarrannsóknarstjóri.

Fjárheimildir og kostnaður.
    Fjárheimildir til starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa voru á árinu 2006 samtals 34,7 millj. kr., að meðtöldum 0,3 millj. kr. sem fluttust frá árinu 2005. Heildarkostnaður við starfsemina var 32,9 millj. kr. og því færast 1,8 millj. kr. til ársins 2007.

Yfirlit yfir skráð og rannsökuð mál árið 2006.
    Á árinu 2006 lauk rannsóknarnefnd flugslysa gerð rannsóknarskýrslu í níu málum sem ólokið var í upphafi ársins. Þá lauk nefndin 16 öðrum málum frá árinu 2003 til ársins 2006 með bókun.
    Árið 2006 skráði rannsóknarnefnd flugslysa 296 frávik í flugi íslenskra loftfara hérlendis og erlendis, svo og í flugi erlendra loftfara um íslenska lögsögu og um íslenska flugstjórnarsvæðið. Rannsóknarnefndin skoðaði 71 þessara frávika nánar og af þeim tók nefndin samtals 41 atvik, sem skilgreint var sem flugslys, flugumferðaratvik eða alvarleg flugatvik, til formlegrar meðferðar og rannsóknar.
         Í árslok átti rannsóknarnefnd flugslysa eftir að ljúka einu máli frá árinu 2003, níu málum frá árinu 2004 og átta málum frá árinu 2005. Rannsókn þeirra var langt komin og mun þeim að öllum líkindum verða lokið með rannsóknarskýrslum eða bókunum á árinu 2007.
    Ekkert banaslys varð í flugi skráðra íslenskra loftfara eða á íslensku yfirráðasvæði á árinu 2006.
    Rannsóknarnefnd flugslysa átti samstarf við erlenda rannsakendur sem fyrr vegna rannsóknarverkefna sinna. Nokkur atvik hentu erlendar flugvélar hér á landi á árinu og jafnframt aðstoðaði nefndin og tók þátt í rannsóknum erlendra rannsakenda á atvikum er hentu íslenskt skráðar flugvélar erlendis.
    Rannsóknarnefnd flugslysa gerði samtals 13 tillögur til úrbóta í flugöryggismálum í kjölfar rannsókna sem hún lauk á árinu 2006. Í nokkrum málanna voru að mati nefndarinnar ekki efni til þess að gera tillögur til úrbóta. Tillögum þessum var beint til flugrekenda og Flugmálastjórnar Íslands, en skv. 10. gr. laga nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, er þeim sem tillögum er beint til skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra tilmæla í öryggisátt og hrinda þeim í framkvæmd ef við á.