Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 1047  —  388. mál.
Viðbót.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Kristrúnu Lind Birgisdóttur og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneytinu, William Möller frá Umferðarstofu, Ágúst Mogensen og Sævar Helga Lárusson frá rannsóknarnefnd umferðarslysa, Jón H.B. Snorrason og Hólmstein Gauta Sigurðsson frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Signýju Sigurðardóttur frá Landssambandi vörubifreiðaeigenda og Guðmund Nikulásson frá Eimskipi. Umsagnir um málið hafa borist frá Landssambandi lögreglumanna, Vegagerðinni, ríkissaksóknara, rannsóknarnefnd umferðarslysa, Lögregluskóla ríkisins, Ökukennarafélagi Íslands, ríkislögreglustjóra, Umferðarstofu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Leið ehf. og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess fékk nefndin til skoðunar umsögn refsiréttarnefndar um upptökuákvæði frumvarpsins sem samgönguráðuneytinu barst eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi.
    Markmið þessa frumvarps er að gera auknar kröfur til ungra ökumanna með bráðabirgðaskírteini og að herða viðurlög við hrað- og ofsaakstursbrotum. Í því skyni er í m.a. lagt til að bráðabirgðaskírteini gildi í þrjú ár í stað tveggja ára og að lögreglustjóri geti sett akstursbann á byrjanda, sem hefur fengið bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta í ökuferilsskrá vegna umferðarlagabrota. Þá er lagt til að viðurlög við hraðakstursbrotum verði hert til muna og að hlutfallslega hærri sektum verði beitt þegar akstur hefur í för með sér aukna hættu, svo sem við akstur stærri ökutækja. Sama á við þegar ekið er á 140 km á klst. eða meira eða þegar ekið er á tvöföldum hámarkshraða en í síðarnefnda tilvikinu er jafnframt lagt til að ökumaður verði sviptur ökurétti tímabundið. Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að mælt verði fyrir um heimild og í vissum tilvikum skyldu lögreglu til að gera vélknúið ökutæki upptækt vegna stórfelldra og ítrekaðra umferðarlagabrota.
    Nokkur umræða varð um upptökuákvæði frumvarpsins í nefndinni, m.a. um það hvort ákvæðið færi á svig við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndin leggur til breytingar á þessu ákvæði frumvarpsins til samræmis við framkomnar athugasemdir um ákvæðið, m.a. frá refsiréttarnefnd en í umsögn nefndarinnar er lagt til að kveðið verði skýrar á um til hvaða tilvika ákvæðið taki. Í umsögn refsiréttarnefndar var jafnframt skýrt kveðið á um það að ákvæði frumvarpsins um upptöku skyldi ekki ná til ökutækis þess sem ekki er við brot riðinn þar sem slík heimild kynni að ganga nærri stjórnarskrárvörðum eignarrétti eiganda ökutækis, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
    Töluverð umræða varð einnig í nefndinni um þær reglur sem gilda um hleðslu og frágang farms. Nefndin telur nauðsynlegt að tryggja betur eftirfylgni við slíkar reglur. Þá telur nefndin að herða þurfi viðurlög við brotum á reglum um hleðslu og frágang farms þannig að brot gegn reglunum varði punkt í ökuferilsskrá. Nefndin leggur enn fremur áherslu á mikilvægi þess að ábyrgð á hleðslu og frágangi farms verði bæði hjá eiganda ökutækis og ökumanninum sjálfum.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Með breytingu á 2. gr. gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, með lögum nr. 84/2004, voru lítil vél- og rafknúin farartæki, hvort sem þau voru knúin með rafmótor eða sprengihreyfli, sem ekki voru hönnuð til hraðari aksturs en 15 km á klst. skilgreind sem reiðhjól. Þar undir falla m.a. vélknúin hlaupahjól. Framangreind breyting hefur reynst vel en efri hraðamörk ákvæðisins hafa hins vegar þótt of lág. Þess vegna er lagt til að breyta c-lið skilgreiningarinnar á hugtakinu reiðhjól í 2. gr. gildandi umferðarlaga þannig að efri hraðamörk framangreindra ökutækja verði hækkuð úr 15 km á klst. í 25 km á klst. Nefndin telur eðlilegt að skilgreina hjól sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. sem reiðhjól í stað léttra bifhjóla enda eru síðarnefndu ökutækin skráningarskyld og ætluð til notkunar í almennri umferð. Í umferðarlögum er hins vegar tekið fram að ekki megi aka reiðhjólum á akbraut. Nefndin telur auknar líkur á slysahættu ef lítil vél- og rafknúin farartæki sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. eru notuð í almennri umferð.
     2.      Lagt er til að ákvæði 9. mgr. 1. gr. frumvarpsins um heimild ráðherra til að setja reglur um takmörkun á heimild byrjanda til að stjórna ökutæki, sem ökuskírteini þarf til að stjórna, á tilteknum tímum sólarhringsins, takmörkun á fjölda farþega yngri en 20 ára og um takmörkun á afli hreyfils ökutækis verði fellt niður. Mikil umræða hefur orðið um framangreint ákvæði í nefndinni og er niðurstaða nefndarinnar sú að réttast sé að fella ákvæðið brott úr frumvarpinu. Nefndin telur varhugavert að mæla fyrir um slíkar íþyngjandi aðgerðir í lögum gegn einum hópi í þjóðfélaginu. Auk þess telur nefndin að illmögulegt yrði að framfylgja ákvæðinu.
     3.      Lagt er til að í 2. mgr. 64. gr. a gildandi umferðarlaga verði tiltekið að réttur til einkamerkis gildi í átta ár og að skráður eigandi ökutækis skuli fram að 65 ára aldri greiða sama gjald vegna endurnýjunar á rétti til einkamerkis. Í c-lið 4. mgr. 26. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja, nr. 751/2003, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir að réttur til einkamerkis skuli endurnýjaður á átta ára fresti og að fyrir endurnýjun skuli greiða sérstakt gjald. Af lögmætisreglu íslensks réttar leiðir að nauðsynlegt er að slíkt ákvæði sé í umferðarlögum. Er þessi breyting gerð til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4843/2006. Þá þykir sanngjarnt að ökumenn 65 ára og eldri séu undanþegnir gjaldi vegna endurnýjunar á rétti til einkamerkis. Frá 65 ára aldri fá ökumenn ökuskírteini útgefin til ákveðins tíma og eftir 80 ára aldur er þeim gert að endurnýja ökuskírteini sitt árlega. Með hliðsjón af framangreindu þykir eðlilegt að einstaklingar á þessu aldursskeiði þurfi ekki að greiða fyrir rétt til einkamerkis þar sem ökuskírteini þeirra gildir í skemmri tíma en átta ár.
     4.      Lögð er til breyting á 3. gr. frumvarpsins þannig að þar verði kveðið á um að ráðherra geti sett reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Í þeim reglum skuli m.a. kveðið á um hvaða kröfur séu gerðar til slíks búnaðar.
     5.      Í 4. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við ákvörðun sektar vegna brota gegn 37. og 38. gr., sbr. 5. mgr. 100. gr. umferðarlaga, skuli sekt ákveðin mun hærri en ella á vegi þar sem hámarkshraði er takmarkaður við minni hraða en 80 km á klst. ef hraðinn er 30% meiri en heimilt er. Lagt er til að ákvæðið verði fellt brott þar sem hætt er við að ósamræmi í hraðamerkingum milli einstakra sveitarfélaga og að viðmiðunin í ákvæðinu sé til þess fallin að valda ruglingi hjá ökumönnum.
     6.      Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að viðurlög vegna hraðakstursbrota þegar ekið er tvöfalt hraðar en heimilt er skuli vera a.m.k. sex mánaða ökuleyfissvipting. Í núgildandi reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, nr. 930/2006, er m.a. kveðið á um sviptingu í mánuð þegar ekið er á meira en 60 km hraða á klst. þar sem hámarkshraði er 30 km á klst. og þriggja mánaða sviptingu þegar ekið er á meira en 140 km hraða á klst. þar sem hámarkshraði er 70 km á klst. Samkvæmt framangreindri reglugerð er að hámarki hægt að svipta einstakling ökurétti í þrjá mánuði þegar ekið er meira en tvöfalt hraðar en heimilt er. Með hliðsjón af framkomnum athugasemdum um þetta ákvæði frumvarpsins og þeirri verulegu þyngingu viðurlaga sem í ákvæðinu felst er lagt til að miða ökuleyfissviptingu þegar ekið er tvöfalt hraðar en heimilt er við þrjá mánuði í stað sex mánaða.
     7.      Lögð er til sú leiðrétting að í stað orðsins „reglum“ í 3. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins verði sagt „lögum“.
     8.      Lagðar eru til breytingar á 7. gr. frumvarpsins um heimild/skyldu til að gera vélknúið ökutæki upptækt í tilteknum tilvikum. Við gerð þessara breytinga var, eins og áður segir, að mestu farið að áliti refsiréttarnefndar um upptökuákvæði frumvarpsins. Þá þykir einnig eðlilegt að í 2. mgr. a-liðar 7. gr. frumvarpsins sé kveðið á um skyldu til að gera vélknúið ökutæki upptækt þegar eigandi ökutækis hefur verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og viðkomandi hefur tvisvar síðustu þrjú árin fyrir brotið verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar. Nefndin telur eðlilegt að umferðarlöggjöf sé þannig úr garði gerð að hægt sé að grípa til sértækra aðgerða gegn síbrotamönnum í umferðinni. Nefndin áréttar þó mikilvægi þess að framangreindu ákvæði verði einungis beitt í undantekningartilvikum þegar brýna nauðsyn ber til og í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttar.
     9.      Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur margsinnis verið bent á óskýrar gjaldtökuheimildir, m.a. að óljóst sé hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir. Með vísan til þessa er lagt til að þeir kostnaðarliðir sem ætlað er að liggja til grundvallar útreikningi þeirra gjalda sem Umferðarstofu er heimilt að innheimta skv. 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga verði nánar tilgreindir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. mars 2007.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Anna Kristín Gunnarsdóttir,


með fyrirvara.



Guðjón Hjörleifsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.



Jón Kristjánsson.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.