Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 597. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1055  —  597. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf á landsbyggðinni.

     1.      Hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins hafa orðið til á landsbyggðinni frá samþykkt byggðaáætlunar 2006?
    Byggðaáætlun 2006–2009 var samþykkt á Alþingi 3. júní 2006. Frá því að hún var samþykkt hafa orðið til 9,8 ný störf hjá félagsmálaráðuneytinu og stofnunum þess á landsbyggðinni. Í janúar 2007 urðu til 9 störf á Hvammstanga þegar skrifstofa Fæðingarorlofssjóðs tók þar til starfa. Starfsemin fór áður fram í Reykjavík. Störfum hjá Fjölmenningarsetri, sem er á Ísafirði, fjölgaði um 0,8 á árinu 2006.
    Með nýgerðum samningum við Akureyrarkaupstað og Byggðasamlag um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra um þjónustu við fatlaða áætlar ráðuneytið að störfum hjá Akureyrarkaupstað og byggðasamlaginu fjölgi um 12–15 á árunum 2007–2009.

     2.      Hverjar eru áætlanir ráðherra um frekari fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni?
    Í apríl 2007 mun hluti af starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs flytjast frá Reykjavík til Skagastrandar. Þangað flytjast 6–8 störf.
    Í tengslum við átak ráðuneytisins til að bæta þjónustu og fjölga búsetuúrræðum fyrir geðfatlað fólk áætlar ráðuneytið að störfum á landsbyggðinni fjölgi um 20–25 á árunum 2007– 2010. Þessi nýju störf verða bæði hjá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra og sveitarfélögum sem tekið hafa að sér þjónustu við fatlaða samkvæmt samningum við ráðuneytið.