Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1061  —  576. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Rósmund Guðnason, deildarstjóra vísitöludeildar Hagstofu Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Neytendastofu, Seðlabanka Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða og Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að vísitala neysluverðs verði reiknuð miðað við verð um miðjan mánuð en ekki verð í upphafi mánaðar eins og verið hefur. Frumvarpið er tilkomið vegna reglugerðar ráðs Evrópusambandsins nr. 701/2006 um að samræma tíma verðsöfnunar fyrir samræmda vísitölu neysluverðs, en hún tekur gildi 1. janúar 2008. Nefndin aflaði sér upplýsinga frá utanríkisráðuneyti um að reglugerðin hefði verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í nóvember 2006 og að 6 mánaða frestur til afléttingar stjórnskipulegs fyrirvara væri fram í apríl, en þetta kemur ekki fram í frumvarpinu.
    Nefndin vekur athygli á því að samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp af hálfu viðskiptaráðherra sem breytir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af sömu ástæðum og raktar eru hér að framan.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 6. mars 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Björgvin G. Sigurðsson.


Birgir Ármannsson.


Ellert B. Schram.



Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Sigurjón Þórðarson.