Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 511. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1065  —  511. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um námsgögn.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra, Val Árnason skrifstofustjóra og Helgu Þórisdóttur, lögfræðing frá menntamálaráðuneyti, Ingibjörgu Ásgeirsdóttur frá Námsgagnastofnun, Kristbjörgu Stephensen, skrifstofustjóra lögfræðisviðs Reykjavíkurborgar, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján B. Jónasson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, Bjarna Þorsteinsson frá Eddu útgáfu og Baldur Gíslason skólameistara frá Iðnskólanum í Reykjavík og einnig frá bókaútgáfunni Iðnú, Elnu Katrínu Jónsdóttur og Ólaf Loftsson frá Kennarasambandi Íslands, Jón Yngva Jóhannsson og Sverri Jakobsson frá Hagþenki og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppniseftirlitinu.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Kennaraháskóla Íslands, Samtökum sjálfstæðra skóla, Skólastjórafélagi Íslands, Eddu útgáfu, Hagþenki, Félagi náms- og starfsráðgjafa, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs og Kennarasambandi Íslands, Hagþenki, vísindanefnd Vísinda og tækniráðs, Samkeppniseftirlitinu og Félagi íslenskra framhaldsskóla.
    Með frumvarpinu er lagt til að aukið verði framboð og fjölbreytileiki námsgagna og að þau verði í samræmi við þarfir nemenda og skóla. Frumvarpið felur í sér þriggja stoða fyrirkomulag. Í fyrsta lagi mun Námsgagnastofnun starfa áfram með svipuðu fyrirkomulagi og nú er. Í öðru lagi er stofnaður námsgagnasjóður sem lýtur eingöngu að grunnskólum og er ætlað að veita fé til námsgagnakaupa grunnskólanna og þar með auka úrval námsefnis. Í þriðja lagi er komið á fót þróunarsjóði námsgagna en hlutverk hans er einkum að styðja við nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
    Við umfjöllun nefndarinnar var m.a. rætt um 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lýtur að fjárhagslegum aðskilnaði hjá Námsgagnastofnun vegna sölu á námsgögnum í frjálsri samkeppni við aðra aðila á almennum markaði frá lögbundnu hlutverki stofnunarinnar að leggja grunnskólum til námsgögn. Slíkur áskilnaður er nú þegar í samkeppnislögum og er ákvæðið einnig í samræmi við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, nr. 40/2006. Við fjárhagslegan aðskilnað er mikilvægt að kostnaðargreining fari fram hjá Námsgagnastofnun og er því um reikningslega útfærslu að ræða. Námsgögn verða ekki að samkeppnisvöru fyrr en Námsgagnastofnun tekur ákvörðun um að setja þau á frjálsan markað. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var m.a. tekið fram að viðskipti samkeppniseiningar Námsgagnastofnunar við óskylda aðila, svo sem sala á námsefni útgefnu af stofnuninni til bóksala, verð og viðskiptakjör, skulu vera almenn og gagnsæ. Hvers konar mismunun samkeppniseiningarinnar í verði og viðskiptakjörum er óheimil, byggist hún ekki á skýrum hlutlægum og málefnalegum forsendum. Samkvæmt þessu er gengið út frá því að sérstök eining innan stofnunarinnar sjái um frjálsa markaðinn og í raun sé um óskylda aðila að ræða.
    Nefndin ræddi sérstaklega um 6. gr. frumvarpsins er lýtur að sérstökum námsgagnasjóði, einkum með hliðsjón af því hvort æskilegra væri að í stað sjóðsins fengju sveitarfélögin fjármagn sem þau mundu síðan úthluta grunnskólunum með sama hætti og öðru fjármagni. Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri skólanna og hafa tekið við verkefnum grunnskóla að undanskilinni útgáfu námsgagna. Sveitarfélögin telja við nánari skoðun að það fyrirkomulag námsgagnasjóðs sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé betra með hliðsjón af áherslum á aukið sjálfstæði skólanna og leiði jafnframt til minni miðstýringar.
    Umræða fór fram í nefndinni um gæðamat námsgagna. Aðilum er heimilt á grundvelli 8. gr. frumvarpsins að óska eftir því að menntamálaráðuneytið meti hvort viðkomandi námsgögn séu hæf til notkunar í kennslu ef þeir efast um að námsgögnin uppfylli réttmætar gæðakröfur eða samrýmist markmiðum aðalnámskrár. Þessi heimild á einnig við um þau námsgögn sem hafa verið keypt fyrir það fé sem úthlutað er á grundvelli 6. gr. frumvarpsins um námsgagnasjóð. Menntamálaráðherra setur úthlutunarreglur og er tekið fram í athugasemdum við greinina að úthlutun eigi að einskorðast við kaup á námsgögnum sem uppfylla réttmætar gæðakröfur eða samrýmast markmiðum námskrár. Nefndin telur rétt að benda á í þessu sambandi að í fyrsta lagi er eingöngu um að ræða kaup á námsgögnum en ekki hlutum sem nýtast við kennslu, svo sem myndvörpum og þess háttar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ekki fari fram sérstakt fyrirframmat á gæðum námsgagna heldur er gengið út frá því að námsgögnin uppfylli gæðakröfur við úthlutun. Ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum eru því lagðar í hendur skólastjórnendum en aðilar geta beint kvörtun til ráðuneytisins á grundvelli 8. gr. ef þeir telja að gæðakröfur séu ekki uppfylltar. Í því sambandi telur nefndin rétt að árétta að heimildin er ekki takmörkuð við ákveðna aðila heldur geta allir beint kvörtun til ráðuneytisins, m.a. þeir sem eru áhugamenn um skólastarf o.fl.
    Enn fremur var umræða hjá nefndinni um fjárveitingu í námsgagnasjóð og þróunarsjóð námsgagna. Þrátt fyrir að þróunarsjóðurinn fái það hlutverk að veita fé til námsefnisgerðar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi er ekki gert ráð fyrir neinni skerðingu á framlagi til framhaldsskólastigsins frá því sem nú er. En á fundum nefndarinnar komu fram áhyggur í þá veru að hlutur smærri greina á framhaldsskólastigi gæti orðið rýr úr sameiginlegum sjóði. Nefndin mælist til að sérstaklega verði hugað að þessum greinum, sem oftar en ekki tengjast iðn- og verknámi. Í umsögn fjármálaráðuneytisins er 100 millj. kr. aukning á fjárveitingu til námsefnisgerðar sem ráðuneytið áformar að veita til hinna nýju sjóða. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá ráðuneytinu er fyrirhugað að veita þessar 100 millj. kr. í námsgagnasjóð á þessu ári en gert verði ráð fyrir framlagi í þróunarsjóð námsgagna á fjárlögum næsta árs. Á fjárlögum fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi til námsefnisgerðar á framhaldsskólastigi.
    Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu að fenginni ábendingu Félags íslenska framhaldsskóla, þess efnis að Félagi íslenskra framhaldsskóla verði heimilt að tilnefna einn aðila í stjórn þróunarsjóðs námsgagna samkvæmt 7. gr. í stað þess að einn stjórnarmaður komi úr hópi skólameistara framhaldsskóla án tilnefningar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Magnús Þór Hafsteinsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. mars 2007.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.Björgvin G. Sigurðsson.


Einar Már Sigurðarson.


Kjartan Ólafsson.Mörður Árnason.


Sæunn Stefánsdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.