Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 686. máls.

Þskj. 1069  —  686. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum,
eldsneyti o.fl., með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Orðin „metangas eða“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum falla brott.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Bifreiðar sem gjaldskyldar eru skv. 3. gr. laganna og búnar eru vélum og öðrum búnaði sem miðast við að bifreið nýti metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu skulu vera undanþegnar vörugjaldi samkvæmt lögum þessum til 31. desember 2008.     
    Tilgreina skal í ökutækjaskrá ef vörugjald hefur verið fellt niður skv. 1. mgr. svo og stærð eldsneytisgeyma.
    Óheimilt er að breyta bifreiðum skv. 1. mgr. með brottnámi metangasbúnaðar eða með breytingum á eldsneytisgeymum.
    Ef brotið er gegn 3. mgr. skal skráður eigandi bifreiðar, sem notið hefur niðurfellingar vörugjalds skv. 1. mgr., greiða til tollstjóra fullt vörugjald skv. 3. gr. ásamt 50% álagi.
    Tollstjórar hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis og geta gert þær athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að kanna hvort gerðar hafi verið breytingar á bifreið andstætt 3. mgr., þar á meðal að skoða eldsneytisgeyma og vél ökutækis.
    Fjármálaráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem nánari skilgreiningu á því hvaða skilyrði vél bifreiðar og búnaður að öðru leyti þarf að uppfylla til þess að bifreið teljist nýta metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu skv. 1. mgr., um gögn sem leggja þarf fram með umsókn um undanþágu á grundvelli þess ákvæðis og um eftirlitið.


3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á vörugjaldi af bifreiðum sem nýta metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Er lagt til að umræddar bifreiðar verði undanþegnar vörugjaldi tímabundið til ársloka 2008. Það er til samræmis við gildistíma tímabundinna undanþágna vörugjalda af vetnis- og rafmagnsbifreiðum samkvæmt núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að fyrir árslok 2008 verði mótuð heildarstefna um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa.
    Í nýsamþykktri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er kveðið á um að grípa skuli strax til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ein helsta leiðin til þess er að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.
    Flestir bifreiðaframleiðendur bjóða eina eða fleiri tegundir metangasbifreiða. Í þeim eru venjulega vélar sem geta bæði brennt bensíni og metani en jafnframt eru fáanlegar bifreiðar sem eingöngu ganga fyrir metani. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að gera metangasbifreiðar ákjósanlegri kost en nú er við val á bifreið.
    Hauggasi hefur á undanförnum árum verið safnað saman á urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi og það hreinsað og metan skilið úr hauggasinu til notkunar á bifreiðar. Metan er skæð gróðurhúsalofttegund, um tuttugu sinnum öflugri en koltvísýringur. Það er því æskilegt að metaninu sé safnað saman og brennt, og eytt þannig sem gróðurhúsalofttegund. Í dag eru um 50 bifreiðar hér á landi sem ganga fyrir metangasi að hluta eða öllu leyti. Þessar bifreiðar nota um 100 tonn af metani á ári sem er um 5% af heildarframleiðslu í Álfsnesi. Áætlað er að nægjanlegt gas geti fengist á hverju ári úr Álfsnesi til að fullnægja þörfum 4.000 smærri ökutækja.
    Metan er selt á einni dælustöð á höfuðborgarsvæðinu og er undanþegið eldsneytisgjöldum. Verð á metani er því mjög hagstætt og svarar til þess að bensínlítrinn kostaði tæpar 80 kr.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að framangreindar bifreiðar verði nú að fullu undanþegnar vörugjaldi en hingað til hafa þær notið 240.000 kr. eftirgjafar af vörugjaldi. Ætla má að þær aðgerðir sem hér eru lagðar til muni stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda og jafnframt koma í veg fyrir þá sóun orku sem felst í því að nýta ekki hauggasið á bifreiðar.
Til að sporna við misnotkun er lagt til að óheimilt verði að breyta bifreiðum sem notið hafa niðurfellingar vörugjalds skv. 3. gr. frumvarpsins á þann hátt að dregið verði úr vistvænum eiginleikum hennar. Þannig er óheimilt að fjarlægja eða gera breytingar á metangasbúnaði bifreiðanna. Jafnframt er óheimilt að stækka eða gera aðrar breytingar á eldsneytisgeymum bifreiðar. Ákvæðinu er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að fluttar verði inn metangasbifreiðar sem síðan verði eingöngu notaðar sem bensínbifreiðar.
    Lagt er til að ef í ljós kemur að óheimilar breytingar hafi verið gerðar á bifreið sem notið hefur niðurfellingar vörugjalds samkvæmt frumvarpinu beri sá sem er skráður eigandi hennar hlutlæga ábyrgð þegar slíkt kemur í ljós. Þar sem eigendaskipti á bifreiðum eru tíð getur verið miklum erfiðleikum bundið að upplýsa hvort núverandi eigandi eða fyrri eigendur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með breytingum á bifreiðinni. Er því lagt til að skráður eigandi hennar beri hlutlæga ábyrgð án tillits til þess hvort brot megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Með skráðum eiganda er gert ráð fyrir að tekið sé mið af opinberri skráningu í ökutækjaskrá.
    Tollstjórar hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis. Meðal verkefna þeirra er að kanna hvort gerðar hafi verið óheimilar breytingar á bifreiðum sem notið hafa niðurfellingar samkvæmt frumvarpi þessu. Í því skyni geta þeir kannað eldsneytisgeyma og vél ökutækis.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að bifreiðar sem nýta metangas að verulegu leyti sem orkugjafa í stað bensíns eða dísilolíu verði undanþegnar vörugjaldi fram til loka ársins 2008. Tilgangurinn með undanþágunni er að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Vörugjald af fólksbifreiðum er 30% eða 45% eftir stærð sprengirýmis aflvélar. Reikna má með því að undanþágan leiði til þess, að teknu tilliti til afleiddra áhrifa á virðisaukaskatt, að lækkun á söluverði slíkra bifreiða verði á bilinu 25–30% eftir því hvort um er að ræða smábíla eða stærri jeppa. Í dag eru u.þ.b. 50 bifreiðar hér á landi sem ganga fyrir metangasi að hluta eða öllu leyti. Afar erfitt er að spá fyrir um það í hvaða mæli fyrirtæki og einstaklingar muni kaupa bifreiðar með þessum búnaði í kjölfar slíkrar verðlækkunar. Samkvæmt lauslegum útreikningum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af miðlungsstórum fólksbíl verði hátt í 500 þús. kr. lægri en ef greitt væri fullt vörugjald og virðisaukaskattur af því. Sem dæmi má taka að fyrir hverja 50 metangasbíla sem fluttir væru inn til viðbótar árlega gæti tekjutap ríkisins legið nærri 25 m.kr. Þó þarf að hafa í huga að samkvæmt bráðabirgðaákvæði í gildandi lögum er heimilt að fella niður 240 þús. kr. af vörugjaldi á bifreiðar af þessum toga þannig að mismunurinn eftir afgreiðslu þessa frumvarps yrði þá um 250 þús. kr. á meðalfólksbíl, sem svarar til um 12,5 m.kr. tekjutaps fyrir hverjar 50 bifreiðar sem fluttar væru inn til landsins.
    Ekki er talið að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á kostnað skattkerfisins við umsýslu þessara mála frá því sem nú er.