Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1074  —  409. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um æskulýðsmál.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Þórisdóttur lögfræðing og Erlend Kristjánsson deildarstjóra frá menntamálaráðuneyti, Önnu Elísabet Ólafsdóttur forstjóra og Stefán Hrafn Jónsson sviðsstjóra frá Lýðheilsustöð, Andrés Jónsson frá Landssambandi æskulýðsfélaga, Þórodd Bjarnason prófessor frá Háskólanum á Akureyri, Þórólf Þórlindsson prófessor, Gest Guðmundsson prófessor og Jóhönnu Rósu Arnardóttur frá Hugheimum.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Þóroddi Bjarnasyni prófessor, Fangelsismálastofnun ríkisins, Persónuvernd, Lýðheilsustöð, Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, Hugheimum, Gesti Guðmundssyni, prófessor við Kennaraháskóla Íslands, Félagi íslenskra félagsvísindamanna, félagsfræðiskor Háskóla Íslands, Rannsóknum og greiningu ehf. og kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um æskulýðsmál en núverandi lög eru frá 1970 og orðin barn síns tíma. Tilgangur laganna er fyrst og fremst að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi.
    Nefndin fjallaði meðal annars um 10. gr. frumvarpsins er fjallar um starfsskilyrði í æskulýðsstarfi. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi og er nú lagt fram með einni efnisbreytingu á 10. gr. Í greininni er nú kveðið á um að óheimilt verði að ráða þá einstaklinga sem hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ávana- og fíkniefnalögum á síðastliðnum fimm árum. Með þessu er ekki hafnað öllum þeim sem hafa einhvern tímann á lífsleiðinni brotið gegn framangreindri löggjöf en snúið við blaðinu. Slíkir aðilar geta jafnvel í einhverjum tilvikum unnið að forvörnum.
    Þá ræddi nefndin ýmis sjónarmið varðandi 10. gr. Annars vegar hvort eðlilegt sé að tiltaka sérstaklega kynferðisbrot og brot á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, einkum með hliðsjón af öðrum alvarlegum brotum, svo sem manndrápi eða þjófnaði, en slík brot eru ekki undanskilin. Hins vegar hvort í þessu sambandi ætti að takmarka upptalningu brota og miða eingöngu við ákvæði 36. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Niðurstaða meiri hlutans er sú að ekki sé tilefni til að breyta 10. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur jafnframt að rétt sé að tiltaka sérstaklega brot á ákvæðum ávana- og fíkniefnalöggjafar á síðastliðnum fimm árum með hliðsjón af eðli slíkra brota og takmarka þá hættu að vettvangur slíkra brota sé við æskulýðsstarfsemi.
    Meiri hluti nefndarinnar beinir þó jafnframt þeim tilmælum til þeirra sem annast ráðningar á þessu sviði að tryggja að ráðningarferlið sé vandað. Meiri hlutinn telur þó ekki ástæðu til að lögfesta ákvæði þess efnis.
    Sú kostnaðarumsögn sem tilgreind er í frumvarpinu er efnislega röng þar sem þau mistök áttu sér stað að eldri umsögn sem fylgdi með frumvarpinu á 132. löggjafarþingi var sett inn í frumvarpið í stað nýrrar kostnaðarumsagnar. Rétt kostnaðarumsögn er því fylgiskjal með nefndarálitinu.
    Lögð er til sú breyting á 12. gr. frumvarpsins að skipunartími ráðgjafarnefndar æskulýðsrannsókna verði þrjú ár í stað tveggja. Nefndinni barst sú ábending að eðlilegt væri að lengja skipunartímann með hliðsjón af því að gefa nefndarmönnum meira svigrúm til að setja sig vel inn í starfsemina á þessu sviði, einkum í ljósi þess að nefndinni er ætlað að vera ráðgefandi fyrir ráðherra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Magnús Þór Hafsteinsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. mars 2007.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.Kjartan Ólafsson.


Sæunn Stefánsdóttir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.