Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 1077  —  432. mál.
Viðbót.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Múla Jónasson og Arndísi Ármann Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Friðrik J. Arngrímsson og Björgólf Jóhannsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Þorleif Þór Jónsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Gísla Rúnar Gíslason frá Fiskistofu, Helga Jóhannesson frá Siglingastofnun Íslands og Halldór B. Nellet frá Landhelgisgæslunni. Einnig hafa nefndinni borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Eyþingi- Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Siglingastofnun Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna.
    Tilurð frumvarpsins á rætur að rekja til svokallaðra frístundafiskveiða sem felast í því að einstaka útgerðir hafa um skeið boðið einstaklingum sem þess óska og gjald greiða til veiða, ýmist með eða án skipstjóra. Í frumvarpinu er því slegið föstu að umræddar veiðar teljist ekki vera tómstundaveiðar heldur séu stundaðar í atvinnuskyni og ræður þar einkum tvennt. Annars vegar það að skipin eru nýtt gegn gjaldi og hins vegar að nokkuð virðist um að viðkomandi útgerðir fénýti þann afla sem komið er með að landi. Er því gerð sú krafa að skip sem nýtt eru til frístundafiskveiða hafi fengið skráðar á sig aflaheimildir í þeim kvótabundnu tegundum sem veiddar eru.
    Gert er ráð fyrir að veiðarnar skuli lúta almennum reglum á sviði fiskveiðistjórnar en þó með þeim fyrirvara að ráðherra er heimilt að setja sérstakar reglur, m.a. hvað varðar skyldur skipstjóra, tilkynningar og skýrsluskil. Eru þau frávik réttlætt með vísan til þess að um er að ræða nýja atvinnugrein af sérstökum toga.
    Við umfjöllun nefndarinnar hafa tvö atriði verið rædd sérstaklega. Hið fyrra varðar sjónarmið um jafnræði en frumvarpið virðist bjóða þeirri hættu heim að ýmsar útgerðir gætu hafið að stunda fiskveiðar undir yfirskyni frístundafiskveiða í því augnamiði að koma sér undan íþyngjandi reglum á sviði fiskveiðistjórnar og spara sér um leið kostnað. Síðara atriðið varðar það að ákveðinnar réttaróvissu virðist hafa gætt varðandi það hvaða kröfur eigi að gera til skipstjórnar frístundafiskveiðiskipa og hvort um það atriði gildi reglur um fiskiskip, farþegaskip, skemmtibáta eða jafnvel einhver önnur skip.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að frístundafiskveiðiskipum verði einungis heimilt að stunda fiskveiðar með stöng eða handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Einnig álítur nefndin í ljósi þess sem fram hefur komið við umfjöllun málsins að frístundafiskveiðiskip lúti að meginstefnu til reglum um fiskiskip og þar af leiðandi þurfi frávik frá þeim reglum að vera reist á skýrum lagagrundvelli. Í því sambandi leggur nefndin á það áherslu að valdheimildir sjávarútvegsráðherra til að setja sérstakar reglur einskorðast að efni til við veiðar og afla.
    Að gefnu tilefni vill nefndin vekja athygli samgönguyfirvalda á nauðsyn þess að lög og reglur um skipstjórn frístundafiskveiðibáta séu skýrar og fullnægjandi með tilliti til öryggis áhafnar og farþega. Jafnframt óskar nefndin þess að gerðar verði ráðstafanir sem tryggi að útgerðaraðilar feli skipstjórn hæfum einstaklingum sem kunna skil á góðum siglingarháttum. Til að koma til móts við sjónarmið ferðaþjónustunnar telur nefndin rétt að fresta gildistöku laganna fram til 1. nóvember nk.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson og Jón Bjarnason skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Magnús Þór Hafsteinsson og Guðjón Ólafur Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2007.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Hjálmar Árnason.



Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.