Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 693. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1097  —  693. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.1. gr.     

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „6,43 kr.“ kemur: 9,35 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „3,40 kr.“ kemur: 3,96 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „2,50 kr.“ kemur: 2,91 kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „1,80 kr.“ kemur tvívegis: 2,09 kr.
     e.      Í stað fjárhæðarinnar „0,76 kr.“ kemur: 0,86 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á grunni skilagjalds og umsýsluþóknunar af einnota drykkjarvöruumbúðum samhliða lækkun virðisaukaskatts á matvæli. Með lögum nr. 175/2006, um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, lækkaði virðisaukaskattur á gosdrykki úr 24% í 7% en stóð í stað á áfengi. Lækkun á álagningu virðisaukaskatts á matvæli hefur áhrif á rekstrargrundvöll Endurvinnslunnar hf. og leiðir til þess að félagið verður af umtalsverðum tekjum. Í 1. gr. laga nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða, er kveðið á um álögur á ákveðnar drykkjarvörur í einnota umbúðum. Í fyrsta lagi er lagt á svokallað skilagjald sem nú er 8,04 kr. án virðisaukaskatts á hverja umbúðaeiningu og til viðbótar því er lagt á umsýslugjald sem standa á undir rekstri kerfisins og er upphæð gjaldsins mismunandi eftir umbúðategundum. Fjárhæð umsýslugjaldsins er einnig án virðisaukaskatts. Endurvinnslan hf. fær greitt í gegnum ríkisbókhaldið framangreind gjöld sem innheimt eru í tolli eða hjá innlendum framleiðendum auk virðisaukaskattsins. Þegar lögin voru sett var virðisaukaskatturinn fremur nýr og aðrar starfsreglur giltu þá um greiðslur.
    Skilagjald á einnota umbúðir var fram til 1. mars sl. 10,00 kr. og skiptist þannig að skilagjald án virðisaukaskatts var áðurnefndar 8,04 kr. og virðisaukaskatturinn 1,96 kr. Lækkun virðisaukaskatts á matvæli hefur í för með sér umtalsverða tekjuskerðingu fyrir Endurvinnsluna hf. sem felst einkum í því að ef skilagjald verður áfram 8,04 kr. mun innheimt skilagjald af einnota umbúðum af öðrum drykkjum en áfengum einungis vera 8,60 kr. í stað 10,00 kr. Skilagjald af umbúðum áfengra drykkja verður áfram 10,00 kr. Breyting á virðisaukaskatti á matvæli hefur jafnframt áhrif á uppreikning umsýslugjalds þar sem fjárhæðir þess eru einnig án virðisaukaskatts og tekjur Endurvinnslunnar hf. af umsýslugjaldi er þóknun ásamt virðisaukaskatti. Umsýslugjald er grunnforsenda rekstrartekna félagsins. Í ljósi þessa er lagt til í frumvarpi þessu að breyting verði gerð á lögunum til að leiðrétta þau áhrif sem lækkunin hefur.
    Framangreindar breytingar eiga ekki að leiða til raunhækkunar á innheimtum gjöldum heldur að tryggja að Endurvinnslan hf. fái það sama og hún fékk fyrir lækkun virðisaukaskattsins. Í frumvarpinu er miðað við hvað gjöldin þurfa að hækka miðað við 7% virðisaukaskatt. Vert er að benda á að virðisaukaskattur lækkar ekki á áfengi en um 15% af þeim umbúðum sem koma inn eru flöskur undan áfengi. Að mati Endurvinnslunnar hf. og fjármálaráðuneytisins er illframkvæmanlegt að setja mismunandi gjald á vöru eftir því hvort umbúðirnar bera 7% virðisaukaskatt eða 24%. Því er lagt til að sama gjald verði lagt á allar drykkjavöruumbúðir og að Endurvinnslan hf. fái alltaf 7% af virðisaukaskattinum en í þeim tilvikum sem hann sé í raun 24% þá fari afgangurinn í ríkissjóð. Með breytingunum er Endurvinnslunni hf. gert fært að standa áfram undir lögbundnu skilagjaldi að upphæð 10,00 kr. sem það var hækkað upp í nýverið en við það jukust skil á einnota drykkjarvöruumbúðum.
    Lagt er til að lögin taki þegar gildi.