Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 280. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1119  —  280. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svein Þorgrímsson og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Aðalstein Þorsteinsson og Herdísi Sæmundsdóttur frá Byggðastofnun, Hákon Ólafsson frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Davíð Lúðvíksson frá Samtökum sprotafyrirtækja, Hallgrím Jónasson frá Iðntæknistofnun, Guðmund Pétursson frá Lykilráðgjöf á Suðurnesjum, Stefán Stefánsson frá Þróunarfélagi Austurlands og Magnús Ásgeirsson frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Þá átti nefndin símafund með Tryggva Finnssyni frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Óla Halldórssyni frá Þekkingarsetri Þingeyinga og Aðalsteini Óskarssyni og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Umsagnir bárust um málið frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Vegagerðinni, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Iðntæknistofnun, stjórnendum á Iðntæknistofnun, Alþýðusambandi Íslands, Þekkingarsetri Þingeyinga, Orkustofnun, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Byggðastofnun, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Reykjavíkurborg, Tæknifræðingafélagi Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Verkfræðingafélagi Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Bændasamtökum Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Háskóla Íslands, Eyþingi og Háskólanum á Akureyri. Þá bárust sameiginlegar umsagnir frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fiskvinnslustöðva og Samtökum iðnaðarins annars vegar og Frumkvöðlasetri Austurlands, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu og Háskólasetrinu á Hornafirði hins vegar.
    Í frumvarpinu er lagt til að þrjár stofnanir verði sameinaðar í eina, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er ætlað að taka við hlutverki Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og leggja höfuðáherslu á nýsköpun og atvinnuþróun á Íslandi. Hinni nýju stofnun er ætlað að veita rekstrarþjónustu fyrir Byggðasjóð og tryggingadeild útflutnings en samkvæmt frumvarpinu munu báðir þessir aðilar starfa sem sjálfstæðar einingar, sem og Tækniþróunarsjóður.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði þekkingarsetur þar sem saman koma tæknirannsóknir með tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annars vegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hins vegar. Þar verði miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem fást við hvers konar nýsköpunarvinnu auk þess sem þar verði að finna frumkvöðlasetur sem aðstoði sprotafyrirtæki og frumkvöðla við þróun nýsköpunarhugmynda og við að vaxa fyrstu rekstrarárin. Þá verði þar unnið að greiningum á stöðu og þróun atvinnulífs og byggðarlaga, m.a. til að unnt verði að bregðast við aðsteðjandi vanda hverju sinni með öllum þeim tækjum sem stofnunin býr yfir.
    Í frumvarpinu er því um að ræða samþættingu áherslna er lúta að rannsóknum og tækniþróun annars vegar og atvinnu- og búsetuþróun hins vegar.
    Að vel athuguðu máli telur nefndin að starfsemi Byggðastofnunar eigi ekki nægilega vel heima með starfsemi Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar, þótt vissulega séu miklir snertifletir með þeim. Í þessu sambandi bendir nefndin á að í nóvember 2004 komst starfshópur iðnaðarráðherra að þeirri niðurstöðu að unnt væri að efla opinberar tæknirannsóknir með því að sameina starfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfshópurinn taldi að sameiningin mundi leiða til samlegðaráhrifa sem væri ein veigamesta forsenda þess að aukinn árangur næðist í alþjóðlegri samkeppni á sviði tæknirannsókna og nýsköpunar sem gæti leitt til bættrar samkeppnisstöðu Íslands. Í desember 2004 tók Vísinda- og tækniráð síðan undir þetta álit starfshópsins og beindi því til iðnaðarráðherra að vinna áfram að sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins á grundvelli greinargerðar starfshóps iðnaðarráðherra um tæknirannsóknir með áherslu á náin tengsl við háskólana. Nefndin bendir jafnframt á að mikil áhersla hefur verið lögð á það á undanförnum árum að efla byggðaaðgerðir og telur eðlilegra að Byggðastofnun starfi áfram á eigin forsendum að svo komnu máli. Hvað þetta varðar bendir nefndin einnig á að byggðamál eru víðfeðmur málaflokkur og taka ekki eingöngu til byggingariðnaðar, iðnaðar og tækni. Nefndin leggur því til verulegar breytingar á frumvarpinu þess efnis að horfið verði frá því að fella Byggðastofnun undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Jafnframt verði horfið frá því að breyta Vísinda- og tækniráði í Vísinda- og nýsköpunarráð og ákvæði um Tryggingarsjóð útflutnings felld brott. Þannig mun tryggingadeild útflutnings áfram vistast hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Sigurður Kári Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 12. mars 2007.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Kjartan Ólafsson.Helgi Hjörvar.


Jóhann Ársælsson.


Katrín Júlíusdóttir.Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.


Gunnar Örlygsson.


Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.