Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1125  —  387. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingvar Sverrisson frá Alþýðusambandi Íslands, Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Rúnar Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Gunnar Ármannsson og Sigurbjörn Sveinsson frá Læknafélagi Íslands, Guðjón Rúnarsson, Helga Bjarnason og Valgeir Pálsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Særúnu Maríu Gunnarsdóttur frá Persónuvernd og Kjartan Gunnarsson og Ólöfu Emblu Einarsdóttur frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Tilgangur frumvarpsins er að eyða vafa á túlkun sem hefur risið um ákvæði 82. gr. laga um vátryggingarsamninga sem komu til framkvæmda 1. janúar 2006. Tvær opinberar stofnanir, Persónuvernd og Fjármálaeftirlitið, höfðu hvor sína túlkun á lögunum. Með frumvarpinu er lögð til breyting á framangreindu ákvæði sem fjallar um upplýsingaöflun við töku persónutrygginga. Slík upplýsingaöflun er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir neikvætt úrtak og til þess að vátryggingafélag geti metið hlutlaust þá áhættu sem vátryggja á til þess að geta ákveðið iðgjald og metið hvort vátrygging skuli veitt samkvæmt almennum skilmálum.
    Í fyrsta lagi er í frumvarpinu lagt til að vátryggingafélagi verði heimilt að afla upplýsinga um þá sjúkdóma sem vátryggingartaki, eða vátryggður, svo og foreldrar hans, systkini og börn vátryggðs eru haldin eða hafa verið haldin og félagið telur nauðsyn að fá vitneskju um til að geta lagt mat á væntanlega áhættu. Í öðru lagi er kveðið á um það í frumvarpinu að áfram skuli leita eftir samþykki þess sem upplýsingar varða ef þeirra er aflað frá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum. Þá er í þriðja lagi með frumvarpinu lagt til að vátryggingafélagi sé bannað að notfæra sér upplýsingar úr erfðafræðilegum rannsóknum. Bannákvæðið nær þó ekki til upplýsinga sem staðfesta að vátryggður sé haldinn tilteknum sjúkdómi þó þær séu fengnar úr niðurstöðu erfðarannsóknar.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem unnar voru í samvinnu við Fjármálaeftirlitið, Persónuvernd og Samtök fjármálafyrirtækja. Leggur meiri hlutinn í fyrsta lagi til að orðið „barn“ falli brott úr upptalningu á þeim aðilum sem heimilt er að óska upplýsinga um. Þá er lagt til að kveðið verði á um í lagatextanum að ekki skipti máli hvernig sjúkdómur þess sem upplýsinga er aflað um hafi greinst. Einnig er lagt til að því verði bætt inn að vátryggingartaki, eða vátryggður, skuli veita félaginu svör eftir bestu vitund. Þá er lagt til ákveðið framhald við bannákvæði 2. mgr. ákvæðisins þannig að félaginu sé einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljist nauðsynlegar til að unnt sé að afla þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 1. málsl. 2. mgr.
    Dagný Jónsdóttir og Sæunn Stefánsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. mars 2007.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir,


með fyrirvara.