Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 523. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1129  —  523. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði.


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Hlyn Jónsson og Jónas Fr. Jónsson frá Fjármálaeftirliti, Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur frá Kauphöll Íslands, Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrota, Einar Pál Tamimi og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Áslaugu Árnadóttur, Jónínu S. Lárusdóttir og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum (þskj. 788, 522. mál). Frumvörpin byggjast á starfi nefndar sem forsætisráðherra skipaði um viðurlög við efnahagsbrotum en formaður nefndarinnar var dr. Páll Hreinsson.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem snerta fjármálamarkaðinn. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi er refsiábyrgð vegna brota gegn lögum á fjármálamarkaði afmörkuð nánar en í gildandi lögum. Í öðru lagi er lagt til að sett verði ákvæði í löggjöf á fjármálamarkaði um að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki og einstaklinga vegna brota á lögunum. Samkvæmt gildandi rétti er aðeins heimild til álagningar stjórnvaldssekta í lögum um verðbréfaviðskipti. Þá er lagt til að fyrningarákvæði varðandi heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir verði lögfest þannig að heimildin fellur niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk ef um er að ræða meint brot gegn ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti. Í öðrum tilfellum fellur heimildin niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Í þriðja lagi er í frumvarpinu ákvæði sem kveður á um að brot gegn lögum á fjármálamarkaði sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu. Í fjórða lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði er kveður á um rétt einstaklings til að fella ekki sök á sjálfan sig við rannsókn á stjórnsýslustigi. Í fimmta lagi er kveðið á um það í frumvarpinu að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að ljúka málum með sátt.
    Með frumvarpinu er kveðið á um ákveðna verkaskiptingu milli lögreglu og Fjármálaeftirlits við rannsókn á meintum brotum á fjármálamarkaði sem bæði refsing og stjórnvaldssektir liggja við en það er eitt af markmiðum frumvarpsins að samhæfa hið almenna viðurlagakerfi og viðurlagakerfi eftirlitsstofnana. Með þessu er stefnt að því að mál tiltekins aðila sé ekki rannsakað á sama tíma bæði hjá stjórnvaldi og hjá lögreglu. Með frumvarpinu er stefnt að því að sú sérfræðiþekking sem er fyrir hendi í Fjármálaeftirlitinu muni nýtast betur en nú við rannsókn og málsmeðferð vegna brota gegn löggjöf á fjármálamarkaði.
    Kveðið er á um það í frumvarpinu að brot gegn lögunum sæti aðeins opinberri ákæru ef kæra þar að lútandi berst lögreglu frá Fjármálaeftirliti. Einungis meiri háttar brot sæta kæru til lögreglu og er það sérstaklega skilgreint í frumvarpinu hvenær brot teljast meiri háttar. Fjármálaeftirlitinu ber að gæta jafnræðis og er sérstaklega kveðið á um það í frumvarpinu að gæta skuli samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.



Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.


Drífa Hjartardóttir.



Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.