Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1134  —  273. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um embætti landlæknis.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



     1.      Í stað orðsins „heilbrigðisþjónustunnar“ í 1. gr. komi: heilbrigðisþjónustu.
     2.      Á eftir orðinu „m.a.“ 4. gr. komi: eftirfarandi.
     3.      Við 6. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „tillögum landlæknis“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: og að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisstéttir.
                  b.      Á eftir 1. málsl. 3. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama gildir þegar ráðherra endurnýjar samninga við heilbrigðisstofnanir.
                  c.      7. mgr. falli brott.
     4.      Við 8. gr.
                  a.      2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Tilgangur skránna er að afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, hafa eftirlit með þjónustunni, tryggja gæði hennar og meta árangur þjónustunnar, ásamt því að nota þær við gerð áætlana um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum.
                  b.      Á eftir 2. tölul. 2. mgr. komi nýr töluliður sem orðist svo: Skrá um taugasjúkdóma.
     5.      Við 10. gr.
                  a.      1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum.
                  b.      Á eftir orðunum „eftir því sem kostur er að“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: slík.
                  c.      Orðið „jafnframt“ í 3. málsl. 2. mgr. falli brott.
     6.      3. mgr. 11. gr. orðist svo:
                      Landlæknir metur gæði og árangur innan heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt mælikvörðum sem settir eru af ráðherra með reglugerð. Samanburðarhæfar niðurstöður gæða- og árangursmælinga skulu birtar í heilbrigðisskýrslum skv. 8. gr.
     7.      Á eftir 1. málsl. 5. mgr. 12. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til.
     8.      1. mgr. 13. gr. orðist svo:
                      Landlæknir hefur eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á.
     9.      15. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Svipting og brottfall starfsleyfis.

                      Komi áminning heilbrigðisstarfsmanns skv. 14. gr. ekki að haldi ber landlækni að skýra ráðherra frá málinu og gera tillögur um hvað gera skuli. Getur ráðherra þá ákveðið að viðkomandi skuli sviptur starfsleyfi að fullu eða tímabundið.
                      Ráðherra getur svipt heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi, án undangenginnar áminningar að fenginni tillögu landlæknis, ef viðkomandi er talinn ófær um að gegna starfi sínu svo forsvaranlegt sé, svo sem vegna alvarlegra andlegra erfiðleika, andlegs eða líkamlegs heilsubrests, neyslu fíkniefna eða sambærilegra efna, misnotkunar áfengis eða skorts á faglegri hæfni. Sama gildir ef heilbrigðisstarfsmaður brýtur alvarlega gegn starfsskyldum sínum, svo sem með því að gefa út röng og villandi vottorð, með því að veita umsagnir að órannsökuðu máli, með því að gefa út ranga og villandi reikninga, með því að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvílir, með því að sýna alvarlegt hirðuleysi í störfum sínum eða með öðru atferli sem fer í bága við lög.
                      Séu skilyrði sviptingar starfsleyfis fyrir hendi er ráðherra heimilt að fenginni tillögu landlæknis að takmarka starfsréttindi tímabundið. Gera skal skýra grein fyrir í hverju takmarkanir eru fólgnar, hver gildistíminn skuli vera og hvernig eftirliti skuli háttað.
                      Málsmeðferð við töku ákvörðunar um sviptingu starfsleyfis eða takmörkun starfsleyfis fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
                      Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu starfsleyfis séu fyrir hendi og að töf á sviptingu geti haft hættu í för með sér fyrir sjúklinga er landlækni þó heimilt að svipta heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi þegar í stað þar til endanleg ákvörðun í málinu skv. 1. og 2. mgr. hefur verið tekin. Landlæknir skal tilkynna ráðherra um bráðabirgðasviptingu án tafar. Hafi ráðherra ekki tekið endanlega ákvörðun um sviptingu skv. 1. mgr. innan þriggja mánaða fellur bráðabirgðasvipting niður.
                      Byggi heilbrigðisstarfsmaður starfsréttindi sín hér á landi á starfsleyfi sem útgefið er í öðru landi falla starfsréttindi hans hér á landi niður ef hann er sviptur starfsleyfi í því landi.
                      Starfsréttindi heilbrigðisstarfsmanns falla niður sé hann sviptur lögræði eða hann uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem krafist var þegar hann fékk starfsréttindi.
     10.      Við 19. gr.
                  a.      Í stað orðanna „lækninn eða tannlækninn“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: viðkomandi lækni eða tannlækni.
                  b.      Í stað 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:
                      Málsmeðferð við töku ákvörðunar um sviptingu réttar til þess að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
                      Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu réttar til að ávísa lyfjum séu fyrir hendi og talið að töf á sviptingu geti haft hættu í för með sér fyrir sjúklinga er landlækni heimilt, án undangenginnar áminningar, að svipta lækni eða tannlækni rétti til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, þegar í stað, þar til tekin hefur verið endanleg ákvörðun í málinu skv. 1. mgr. Landlæknir skal tilkynna ráðherra um bráðabirgðasviptingu án tafar. Hafi ráðherra ekki tekið endanlega ákvörðun um sviptingu skv. 1. mgr. innan þriggja mánaða fellur bráðabirgðasvipting niður.
     11.      Á eftir orðunum „afturkallað sviptingu“ í 20. gr. komi: réttar.
     12.      23. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. september 2007.
     13.      Við 24. gr.
                  a.      Við 1. tölul. bætist nýr stafliður sem orðist svo: 1. mgr 30. gr. laganna orðast svo: Brot gegn ákvæðum laga þessara varða auk sviptingar lækningaleyfis samkvæmt lögum um landlækni, sbr. 27. gr., sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
                  b.      Í stað orðanna „laga um embætti landlæknis“ komi hvarvetna í greininni: laga um landlækni.
     14.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um landlækni.