Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 699. máls.

Þskj. 1149 — 699. mál.Skýrsla

forsætisráðherra um störf faghóps um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)    Alþingi samþykkti 11. maí 2005 eftirfarandi þingsályktun um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.
    Faghópur á vegum forsætisráðuneytis verði settur á laggirnar til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar. Að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum geri hópurinn tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006.
    Við mat á afleiðingum verði m.a. horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið og heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn.
    Við greiningu á orsökum verði horft vítt, svo sem á áhrif mataræðis og lífsstíls nútímafjölskyldna, áherslur á hreyfingu í starfi og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Enn fremur verði hugað að verðlagsmálum, aðstöðu almennings til íþrótta, útivistar og hreyfingar, skipulagi byggðar og samgangna og hlutverki starfsmanna skóla og heilbrigðisþjónustu við greiningu á vanda einstaklinga í forvarnaráðgjöf til foreldra og eftirfylgni aðgerða.
    Við skipun faghópsins verði haft í huga hve víðtækt verkefnið er og leitast við að tryggja þátttöku sem flestra viðkomandi ráðuneyta svo og fulltrúa Lýðheilsustöðvar sem hefur veigamiklu lögbundnu hlutverki að gegna á þessu sviði.
    Í starfi faghópsins verði haft til hliðsjónar markmið 11 í gildandi heilbrigðisáætlun, næringarráðleggingar manneldisráðs og samþykkt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar: „Global strategy on diet, physical activity and health“.“
    Forsætisráðherra skipaði 31. október 2005 faghóp til samræmis við ákvæði fyrrgreindrar ályktunar Alþingis.
    Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og blaðamaður var skipaður formaður faghópsins. Aðrir sem áttu sæti í faghópnum voru dr. Jón Óttar Ragnarsson næringarfræðingur, Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari, Anna Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, Sæunn Stefánsdóttir, þáverandi aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Árni Einarsson, uppeldis- og menntunarfræðingur, Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, Valur N. Gunnlaugsson matvælafræðingur og Petrína Baldursdóttir leikskólastjóri.
    Faghópurinn skilaði forsætisráðherra í september 2006 skýrslu, sem hér fylgir á eftir, um tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

LÉTTARA LÍF


Tillögur að fjölþættum aðgerðum til að efla lýðheilsu á Íslandi
með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.


Skýrsla faghóps forsætisráðherra um bætt heilbrigði þjóðarinnar.
(11. september 2006.)


SAMANTEKT

    Hollur matur og hreyfing er eitt það mikilvægasta í lífi hvers einstaklings. Rannsóknir víða um heim sýna að afleiðingar óholls mataræðis, hreyfingarleysis og ofeldis eru alvarleg ógn við heilsu og ef til vill víða vanmetin ógn við lífsgæði fólks. Þættir, sem varða næringu, holdafar og hreyfingarleysi, raða sér í sex af tíu efstu sætum yfir þá þætti sem helst stytta líf og minnka lífsgæði. Næring og hreyfing verða áfram mikilvægustu þættir heilbrigðs lífs og hafa ekki síst mikla þýðingu vegna vaxandi ofþyngdar með tilheyrandi sjúkdómum og vanlíðan.
    Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er hægt að fyrirbyggja 80% tilfella af hjarta- og æðasjúkdómum, 90% af fullorðinssykursýki og 30% af öllum krabbameinstilfellum með hollu mataræði, nægri hreyfingu og reykleysi. Í skýrslu WHO er mælt með því að forvarnaraðgerðir beinist fyrst og fremst að því að draga úr þeim þáttum í umhverfinu sem stuðla að þyngdaraukningu. Þar vegur þyngst framlag stjórnvalda til að auka hreyfingu og bæta gæði matvæla ásamt aðgengi að hollum mat.
    Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði árið 2002 voru um 57% karla og 40% kvenna á aldrinum 15–80 ára yfir kjörþyngd. Hlutfall 9 ára barna af höfuðborgarsvæðinu, sem greinast yfir kjörþyngd, hefur aukist jafnt og þétt, úr 2% árið 1938 í 23% 2004–2005 en ekki var um frekari aukningu að ræða 2005–2006. Hlutfall 15 ára stráka af höfuðborgarsvæðinu, sem voru yfir kjörþyngd, var 22% á árunum 2004–2006 en var lægra meðal 15 ára stúlkna af sama svæði eða um 17%. Um 53% íslenskra 15 ára stúlkna og 25% íslenskra 15 ára drengja hreyfa sig ekki nægjanlega mikið. Aðeins um 30–45% karla og kvenna stunda nægilega hreyfingu samkvæmt því sem ráðlagt er.
    Fiskneyslan hefur minnkað um þriðjung frá árinu 1990 og nær fjórðungur 15 ára unglinga fullnægir ekki þörf fyrir joð þar sem neysla þeirra er minni en skilgreind lágmarksneysla. Um 18% 9 ára barna taka lýsi daglega en aðeins 3% 15 ára unglinga. Langflest börn fá vítamín og steinefni í samræmi við ráðleggingar. Þó eru ákveðin næringarefni í of litlu magni hjá þeim sem borða einhæft fæði. Þannig er t.d. ónógt joð og D-vítamín meðal helstu áhyggjuefna. Meðalgrænmetisneysla barna og ungmenna samsvarar hálfri gulrót á dag í magni og meðalneysla ávaxta hálfu epli.
    Fjölmargir utanaðkomandi þættir hafa áhrif á matarvenjur og heilsusamlegt líferni barna. Nægir þar að nefna félagslega stöðu, áhrif markaðarins, mataræði og hegðan foreldra sem skiptir sköpum og mótar yfirleitt afstöðu barna til næringar. Ofgnótt einkennir aðstæður meiri hluta þjóðarinnar og er almenn neysla vaxandi. Aukin kyrrseta fullorðinna eykur líkur á depurð, hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi, áunninni sykursýki, minnkaðri beinþéttni, dettni og beinbrotum hjá öldruðum, bakverkjum, ristilkrabbameini, brjóstakrabbameini og fleiri tegundum krabbameina. Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing getur minnkað líkurnar á fyrrgreindum sjúkdómum um 20–50%. Að auki eykur hreyfing vellíðan og dregur úr streitu og kvíða. Almennt hreyfingarleysi veldur um tveimur milljónum dauðsfalla á heimsvísu á ári hverju.
    Þrátt fyrir þessa óæskilegu þróun er vel mögulegt að snúa henni við. Á Íslandi ríkir meiri velmegun og hagsæld en nokkru sinni fyrr og það veitir svigrúm til fjárfestingar í heilbrigði þjóðarinnar. Gífurleg sóknarfæri til hollari lifnaðarhátta í formi fræðslu og athafna eru í skólakerfinu, íþróttahreyfingunni, atvinnulífinu, innan stjórnsýslunnar og meðal almennings. Flestir eru á einu máli um að hægt sé að blása til heilbrigðrar sóknar með samtakamætti Íslendinga. Fjölbreyttar tillögur liggja fyrir sem snerta alla strengi þjóðlífsins og þarf fjármagn, vilja og þor til að ýta þeim úr vör. Ábyrgðin er allra.


FAGHÓPURINN

    ,,Alþingi ályktaði hinn 11. maí 2005 að fela ríkisstjórninni að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Í ályktuninni segir að faghópur á vegum forsætisráðuneytis skuli settur á laggirnar til að greina vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi, bæði orsakir vandans og afleiðingar. Við mat á afleiðingunum verði m.a. horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið og heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn. Lýðheilsustöð verður nefndinni til ráðgjafar og aðstoðar við öflun upplýsinga og gagna og er þeim tilmælum jafnframt beint til nefndarinnar að hún óski eftir samstarfi við þau ráðuneyti sem koma að þeim málaflokkum sem snerta störf hennar. Nefndin skili tillögum um samræmdar aðgerðir og framkvæmdaáætlun í apríl 2006.“ Úr skipunarbréfi faghópsins dags. 31. október 2005.
    Eftirtaldir aðilar eiga sæti í nefndinni:
     Anna Elísabet Ólafsdóttir forstjóri Lýðheilsustöðvar,
     Árni Einarsson uppeldis- og menntunarfræðingur,
     Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari,
     Jón Óttar Ragnarsson næringar- og matvælafræðingur,
     Valur Norðri Gunnlaugsson matvælafræðingur,
     Petrína Baldursdóttir leikskólastjóri,
     Sigurbjörn Sveinsson formaður Læknafélags Íslands,
     Sæunn Stefánsdóttir alþingismaður,
     Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og blaðamaður, formaður og starfsmaður faghópsins.


FORMÁLI

    Maðurinn hefur löngum gert sér grein fyrir því að líkamleg áreynsla og hófsemi í lifnaðarháttum stuðlar að betri heilsu og lengra lífi. Á allra síðustu tímum hafa vísindin varpað ljósi á þetta samhengi hlutanna þannig að ekki verður um villst. Menningarsaga Vesturlandabúa birtir sömu viðhorf þótt þar sé stuðst við reynslu kynslóðanna fremur en vísindi okkar daga. Þessar hversdagslegu staðreyndir verða okkur almenningi æ ljósari eftir því sem líf okkar verður auðveldara; það verður fyrirhafnarminna að afla sér lífsviðurværis og krefst minni áreynslu. Með aukinni líkamsþyngd, hreyfingarleysi og lélegri næringu versnar heilsan og lífsgæðin rýrna og sálin lætur undan hreyfingarleysinu með vaxandi þunglyndi.
    Hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu? Líklega eru svörin jafn misjöfn og þau eru mörg en þeir sem búa við alvarlegan heilsubrest eru þó flestir á einu máli. Án góðrar heilsu minnka lífsgæðin. Það er án efa mikilvægara að bæta lífi við árin en árum við lífið. En hvað eru lífsgæði, hvað viljum við fá út úr lífinu? Þótt máltækið hver er sinnar gæfu smiður sé enn í fullu gildi á það ekki alltaf við þegar börn eiga í hlut. Þau fæðast inn í mismunandi aðstæður, öll með margþætta eiginleika, en mótast síðan af foreldrunum, umhverfinu, fjölmiðlum, skólakerfinu, tómstundastarfi, vinum og vandamönnum. Börnin stjórna því ekki nema að litlu leyti hvort þau neyta næringarríkrar fæðu, hvort þeim gefst kostur á að stunda íþróttir eða annað félagsstarf, hvort sköpunarþrá þeirra fái útrás, hvort þau fái næga örvun og svo mætti lengi telja. Sum börn verða afskipt og njóta ekki þeirrar ástar og umhyggju sem þau þyrftu til að þroskast sem heilsteyptir, kærleiksríkir og meðvitaðir einstaklingar. Sjónvarpið og tölvan er vettvangur allt of margra barna og ungmenna og sumir foreldrar eru afskiptalausir gagnvart því.
    Allmörg börn eru nánast með átta klukkustunda viðveru í leikskólum og grunnskólum og sökum krafna nútímans eiga einhverjir foreldrar ekki annarra kosta völ en að láta börnin dvelja á leikskólum eða hjá dagmæðrum langt fram eftir degi. Í mörgum tilvikum tekur þá við skipulagt en fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf þar sem foreldrar þurfa gjarnan að aka börnunum á milli staða. Jafnvel þótt ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna sé ótvíræð liggur í augum uppi að allt samfélagið er í raun að ala upp börnin okkar. Ábyrgð yfirvalda á því að vel takist til er mikil og getur enginn skorast undan. Þeir sem eiga að láta sig málið varða auk foreldra eru starfsfólk í heilbrigðiskerfinu, starfsfólk skóla, matvælaframleiðendur, smásalar, auglýsendur, fjölmiðlar, íþróttasamfélagið í heild sinni, skipulagsfræðingar, þjóðkirkjan og stjórnvöld, svo einhverjir séu nefndir.
    Foreldrar ættu að hafa töluvert um það að segja hvers konar örvunar, umönnunar og næringar börnin njóta í leikskólum og hjá dagmæðrum því lengi býr að fyrstu gerð. Góð næring og fjölbreytt hreyfing er mikilvæg fyrir andlegan og líkamlegan þroska barna. Með réttri næringu fá börnin nauðsynleg næringarefni og hafa orku til að hreyfa sig sem stuðlar að eðlilegum vexti og þroska. Reikna má með að börn, sem eru fædd fyrri hluta árs og byrja í leikskóla eins árs gömul, dvelji hátt í 9.000 klukkustundir í leikskóla, fram að fyrsta skóladegi á 6. aldursári. Það er gífurlega langur og áhrifaríkur tími á helstu mótunarárum barnanna og þau öðlast líkamlega, félagslega og sálfræðilega eiginleika sem móta viðmót þeirra til leiks og náms til frambúðar.

OF ÞUNGUM FJÖLGAR

    Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er engin lýðheilsuógn jafn vanmetin um víða veröld og offitan. 32 Skilgreiningar á kjörþyngd og offitu fyrir fullorðna miða við líkamsþyngdarstuðul (LÞS sbr. BMI) sem er reiknaður út frá hæð og þyngd einstaklinga, þ.e. þyngd(kg)/hæð(m) 2. Samkvæmt skilgreiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar miðast kjörþyngd við LÞS 18,5–24,9, ofþyngd við 25–29,9 en offita við 30 eða hærra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki sett nein mörk fyrir börn en þeir staðlar, sem algengt er að nota, eru tilkomnir eftir samanburð milli sjö landa. 5 Samkvæmt þeim gögnum eru viðmiðunarstaðlarnir eftirfarandi fyrir 9 ára börn: ofþyngd (LÞS) ≥ 19,1 kg/m 2 og offita (LÞS) ≥ 22,8 kg/m 2. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að viðmiðunargildi líkamsþyngdarstuðulsins eru breytileg eftir kyni og aldri barna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru meira en 22 milljónir barna undir 5 ára aldri of þungar og um 155 milljónir barna á skólaaldri. 4 Í ríkjum Evrópusambandsins eru 14 milljónir skólabarna of þungar, þar af glíma 3 milljónir við offitu. Talið er að of þungum börnum í Evrópu fjölgi um 400.000 á ári og að 85.000 börn bætist í hóp þeirra sem glíma við offitu. 5
    Breytingar á holdafari barna og unglinga á Íslandi eru einnig áhyggjuefni. Hlutfall 9 ára barna af höfuðborgarsvæðinu, sem greinast yfir kjörþyngd, hefur aukist jafnt og þétt, úr 2% árið 1938 1 í 23% 2004–2005 en ekki var um frekari aukningu að ræða 2005–2006. 2 Hlutfall 15 ára stráka af höfuðborgarsvæðinu, sem voru yfir kjörþyngd, var 22% á árunum 2004–2006 en var lægra meðal 15 ára stúlkna af sama svæði eða um 17%. 2
    Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði árið 2002 voru um 57% karla og 40% kvenna á aldrinum 15–80 ára yfir kjörþyngd og 12,5% Íslendinga teljast of feit samanborið við 7,5% árið 1990. 29 Borið saman við árið 1990 er þyngdaraukningin mest í yngsta hópi karla þar sem nærri þrefalt fleiri flokkast nú yfir kjörþyngd. Niðurstöður úr hóprannsókn Hjartaverndar sýna einnig að hlutfall of feitra fullorðinna Reykvíkinga nánast tvöfaldaðist á árunum 1975–1994 og var komið í 18% meðal karla og 19% meðal kvenna. 34 Rannsóknir sýna að um 95% þungra foreldra eiga of þung börn og 50–60% feitra barna eru einnig of feit sem fullorðnir einstaklingar. 35
    Í desember 2005 biðu um 400 einstaklingar eftir því að komast í offituaðgerð og endurhæfingu á Reykjalundi. Þeir sem eru með líkamsþyngdarstuðul (LÞS) hærri en 40 ganga fyrir. Kostnaður ríkisins við eina offituaðgerð, fyrir utan endurhæfingu, er um ein milljón króna og er fólk að meðaltali um 10 vikur frá vinnu. Á síðustu árum hafa 60–70 einstaklingar farið í aðgerð á Reykjalundi á ári en stefnt er að því að hægt verði að sinna 120 tilfellum árið 2008. Langtímaárangur meðferðar við offitu á Reykjalundi er betri en árangur annarra þjóða af sömu meðferð. 36
    Í ljósi aukinnar ofþyngdar og hreyfingarleysis má leiða að því líkum að heilsufar íslenskra barna geti farið versnandi og leiði í framtíðinni til aukningar á sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki, krabbameini og stoðkerfisvandamálum. Vandamálin eru af samfélagslegum toga. Börn yfir kjörþyngd þurfa ekki endilega að losa sig við aukakílóin heldur má ná líkamsþyngdarstuðlinum niður með því að hægja á þyngdaraukningu á meðan þau eru að stækka. Rannsóknir á lífsstíl íslenskra barna og unglinga sýna að drengir hreyfa sig meira en stúlkur og að hreyfingin fer minnkandi með hækkandi aldri hjá báðum kynjum. 3,6 Drengir taka einnig fremur en stúlkur þátt í skipulögðu íþróttastarfi 7, 8 og brottfallið úr slíku starfi er meira hjá stúlkum. 7

HÆGT AÐ FYRIRBYGGJA SJÚKDÓMA OG AUKA LÍFSGÆÐI


    Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna í Oxfordháskóla í Bretlandi kostuðu hjarta- og æðasjúkdómar ríki Evrópusambandsins 13.520 milljarða íslenskra króna árið 2003. 9 Það samsvarar 18.000 krónum á hvert mannsbarn. Um 269 milljónir vinnudaga töpuðust í ríkjum Evrópusambandsins vegna þessara sjúkdóma og þeir höfðu auk þess verulega hamlandi áhrif á daglegt líf 4,4 milljóna manna. Rannsóknin er sú fyrsta sem beinist að efnahagslegum áhrifum hjarta- og æðasjúkdóma í þeim 25 ríkjum sem eiga aðild að Evrópusambandinu. Vísindamenn studdust við gögn frá heilbrigðisyfirvöldum í ríkjunum tuttugu og fimm og rannsóknir á áhrifum sjúkdóma á starfsgetu sjúklinga og vinnutap. Sérfræðingar í hjartalækningum segja að niðurstöðurnar sýni að þörf sé á öflugri og skilvirkari forvörnum.
    Ísland er ekkert eyland í þessum efnum. Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er hægt að fyrirbyggja 80% tilfella af hjarta- og æðasjúkdómum, 90% af áunninni sykursýki og 30% af öllum krabbameinstilfellum með hollu mataræði, nægri hreyfingu og reykleysi. 4

SKÓLAKERFIÐ OG FORELDRAR GEGNA LYKILHLUTVERKI


    Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er mælt með því að forvarnaraðgerðir beinist fyrst og fremst að því að draga úr þeim þáttum í umhverfinu sem stuðla að þyngdaraukningu. 10 Þar vegur þyngst framlag stjórnvalda til að auka hreyfingu og bæta gæði matvæla ásamt aðgengi að hollum mat. Ógrynni utanaðkomandi þátta hefur áhrif á matar- og hreyfivenjur og heilsusamlegt líferni barna. Nægir þar að nefna mataræði, hreyfingu og hegðan foreldra, félagslega stöðu og áhrif markaðarins. Það sem ræður úrslitum um hvað börn borða og hversu mikið þau hreyfa sig er margþætt og breytilegt eftir aldri barnanna. Mataræði og hreyfivenjur fjölskyldna skipta sköpum og móta yfirleitt afstöðu barna til næringar og hreyfingar. Ef börn alast upp við það að borða ávexti og grænmeti eru miklar líkur á að þau haldi því áfram alla ævi. Að sama skapi er líklegt að slæmar matarvenjur í æsku, svo sem óhófleg neysla sykurs og fitu, breytist ekki þótt aldurinn færist yfir. Þá eru foreldrar mikilvægar fyrirmyndir þegar kemur að hreyfingu barna og geta haft mikil áhrif á hversu mikið þau hreyfa sig framvegis.
    Aðgengi og vöruúrval skiptir miklu máli um það sem valið er hverju sinni. Ef hollar vörur eru áberandi, í miklu úrvali og á viðráðanlegu verði eru meiri líkur á því að þær verði valdar en hinar. Markaðurinn hefur sífellt meiri áhrif á matarvenjur fólks. Neysluvörur, sem beint er sérstaklega að börnum, uppfylla síður en svo þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til næringargildis. 11, 12, 13 Fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki í að móta afstöðu fólks til næringar. Það getur verið erfitt fyrir foreldra að stjórna mataræði barna og ungmenna þegar umhverfið hvetur til óhollra matarvenja, svo sem með auglýsingum. Foreldrum getur verið um megn að standast kröfur barna sinna sökum utanaðkomandi þrýstings og gefa eftir. Það er mikilvægt að allir, sem láta sig málefni barna varða, minni stöðugt á mikilvægi þess að borða hollan og næringarríkan mat, ekki bara með orðum heldur líka með athöfnum. Skólakerfið og foreldrar gegna lykilhlutverki í þessum efnum og ætti kennsla í næringarfræði að vera í fyrirrúmi í heimilisfræði í grunnskólum auk þess sem skólamötuneyti þurfa að bjóða upp á hollan og góðan mat. Þá þarf að hvetja börn til enn frekari hreyfingar í skólum, t.d. með hreyfivænni skólalóð, útikennslu og enn betri íþróttatímum.
    Í skólakerfinu og þjóðfélaginu almennt eru takmarkalaus tækifæri til að vinna á enn markvissari og heildrænni hátt en gert er til að örva huga, sál og líkama – sem leiðir til meðvitundar um mikilvægi þess að neyta hollrar fæðu og hreyfa sig reglulega. Það helst í hendur að ná árangri í námi og starfi og að búa yfir sjálfstrausti og almennri hreysti.

FORVARNIR Í FYRIRRÚMI


    Færð hafa verið rök fyrir því að árangursríkara og ódýrara sé að leggja áherslu á forvarnir sem hafa það að markmiði að fyrirbyggja þyngdaraukningu en aðgerðir sem miða að meðferð við offitu. Forvarnarstarf, sem beinist að öllum almenningi, ætti því tvímælalaust að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Eigi að síður er mikilvægt að sinna þeim sem þegar eiga við offitu eða ofþyngd að stríða, svo og þeim hópum sem eru í sérstakri hættu.
    Það er engin ein leið að heilbrigðum lifnaðarháttum en miðað við hvert stefnir í matarvenjum og hreyfingarleysi Íslendinga er nauðsynlegt að vekja fólk til vitundar um að allt samfélagið þurfi að taka sér tak. Nauðsynlegt er að menntayfirvöld, heilbrigðisyfirvöld, atvinnulífið og fleiri aðilar taki höndum saman um að auka heilbrigði þjóðarinnar í ljósi þess að frammistaða og afköst aukast ef næring og hreyfing er til fyrirmyndar.
    Tryggja þarf heildræna nálgun og taka mið af félagslegum og menningarlegum þáttum sem hafa áhrif á næringu og hreyfingu barna jafnt sem fullorðinna. Vekja þarf samfélagið til umhugsunar um mikilvægi góðrar heilsu bæði fyrir einstaklinginn sjálfan en þó ekki síður samfélagið í heild. Því þarf að koma til sameiginlegt átak stjórnvalda sem fara með samgöngumál, fjármál, heilbrigðismál, landbúnaðarmál og fleiri mál auk þátttöku atvinnulífs við að bæta velferð og styrkja fólk til sjálfsbjargar og gera því betur kleift að taka ákvarðanir sem stuðla að bættri heilsu á sama tíma og stuðlað er að aukinni þekkingu meðal þegnanna sjálfra. Allt samfélagið þarf að bregðast við, ábyrgðin er allra.

FORGANGSRÖÐUN VERKEFNA


    Ofneysla og hreyfingarleysi með tilheyrandi ofþyngd er meðal þeirra atriða sem helst ógna heilsu landsmanna auk þess sem agaleysis gætir í uppeldismálum og meðal margra einstaklinga. Það er þó hægt að snúa þessari þróun við. Íslendingar tala flestir sama tungumál, búa við 100% læsi, öfluga og útbreidda fjölmiðla, virka og frjálsa grasrótarhreyfingu og áhugasamar sveitarstjórnir. Ísland hefur allt til að bera til að svara kalli samtímans. Ekki er hægt að treysta því að „kerfið“ eitt og sér ýti jákvæðum breytingum úr vör, heldur þarf samstarf fjölmargra, til að mynda framsýnna og áhugasamra einstaklinga sem eru í aðstöðu til þess að breyta, innan eða utan kerfisins. Fjárskortur á ekki að þurfa að standa í vegi fyrir árangri í þessum efnum; breytt forgangsröðun verkefna ætti að tryggja það. Á Íslandi ríkir meiri velmegun og hagsæld en nokkru sinni fyrr og það veitir svigrúm til fjárfestingar í heilbrigði þjóðarinnar.
    Nái meðfylgjandi tillögur fram að ganga ættu flestir að geta fundið leið til að bæta lífsgæði sín með aukinni hreyfingu og hollara mataræði, að geta notið stuðnings með fræðslu, hagstæðu verðlagi, góðu aðgengi að hollum mat og aðstöðu til hreyfingar. Almenningur á hvorki vegna fjárskorts né þekkingarleysis að þurfa að velja sér í óhag.


HREYFING

    Heilbrigð sál í hraustum líkama eru orð að sönnu og er þekkt að almenn hreyfing og íþróttaiðkun skiptir miklu máli í félagslegri og persónulegri uppbyggingu og þroska einstaklingsins. Fjölþætt líkamsþjálfun skipar veglegan sess í lífi margra Íslendinga og þar með taka þeir þátt í að byggja upp heilbrigðara samfélag. Á hinn bóginn sýnir íslensk rannsókn að aðeins um 30–40% karla og kvenna á höfuðborgarsvæðinu stunda næga hreyfingu samkvæmt því sem ráðlagt er. 14 Samkvæmt hreyfiráðleggingum Lýðheilsustöðvar er mælt með því að fullorðnir hreyfi sig a.m.k. 30 mín. á dag af ákefð sem samsvarar röskri göngu en börn sem svarar til 60 mínútna.
    Þótt góðar rannsóknir skorti á því hve mikil hreyfing var stunduð áður fyrr hníga öll rök að því að hreyfing Íslendinga hafi staðið í stað eða heldur minnkað undanfarna áratugi. Það stafar líklega að miklu leyti af aukinni tækni- og tölvuvæðingu á vinnustöðum og almennri einkabílanotkun almennings. Tölur frá Hagstofunni sýna að kyrrsetustörfum hefur fjölgað og erfiðisvinnustörfum fækkað. Aukin kyrrseta fullorðinna eykur líkur á depurð, 15 hjarta- 16 og æðasjúkdómum, 17 háþrýstingi, 18 áunninni sykursýki, 19 minnkaðri beinþéttni, 20 dettni og beinbrotum hjá öldruðum, 21 bakverkjum, ristilkrabbameini 22 og brjóstakrabbameini. 23 Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing getur minnkað líkur á fyrrgreindum sjúkdómum um 20–50%. 24 Hreyfing eykur vellíðan og dregur úr streitu og kvíða.
    Samkvæmt rannsókn Erlings Jóhannssonar og fleiri um lífsstíl 9 og 15 ára Íslendinga hreyfa um 53% íslenskra 15 ára stúlkna og 25% íslenskra 15 ára drengja sig ekki nægjanlega mikið 3 en ráðlegt er að þau hreyfi sig í a.m.k. 60 mín. á dag. 25 Enn nýrri rannsókn á heilsu og líðan íslenskra skólanema (HBSC) sýnir að hreyfing nemenda minnkar með aldrinum. 6 Samkvæmt þeirri rannsókn hreyfa sig um 26% nemenda í 6. bekk, 19% nemenda í 8. bekk og 14% nemenda í 10. bekk samkvæmt núgildandi hreyfiráðleggingum Lýðheilsustöðvar.
    Íþróttaiðkun eykur lífsgæði og er ómissandi liður í heilsusamlegum lífsstíl og forvörnum. Þrátt fyrir það hættir íþróttaiðkun ungmenna til að vera of keppnistengd. Kröfurnar um að komast í lið og skara fram úr eru miklar. Brottfall ungmenna úr íþróttum, einkum stúlkna, er áhyggjuefni og hefur margoft verið fjallað um mikilvægi þess að breyta áherslum í íþróttaiðkun barna, upphefja leikinn á kostnað keppninnar. Það er eðlilegt að kostnaður við íþróttaiðkun upp að 18 ára aldri verði viðurkenndur sem samfélagsframlag en með því er hægt að tryggja jafnan rétt til íþróttaiðkunar, á forsendum barnanna. Það er góðra gjalda vert að halda úti keppnisflokkum og bjóða upp á tíðar æfingar en fjölmargir gætu hugsað sér að æfa sjaldnar og að mestu leyti í leikjaformi. Þá er vert að hafa í huga að fólk tekur frekar upp heilbrigðari lifnaðarhætti ef nánasta umhverfi er hvetjandi og veitir stuðning, svo sem að aðstæður séu góðar til að hjóla eða ganga.
    Nú orðið verja börn umtalsverðum tíma í tölvuleiki og sjónvarps- og myndbandaáhorf. Rúmlega fimmtungur ungmenna ver fjórum klukkustundum eða meira fyrir framan sjónvarp eða tölvuskjá á hverjum einasta degi. 3 Íslensk börn eru meðal feitustu barna á Norðurlöndum 3 og eru til að mynda 18% íslenskra 9 ára gamalla barna yfir kjörþyngd (of feit eða of þung). 3 Líkamleg áreynsla er börnum nauðsynleg svo þau vaxi eðlilega og öðlist nægan hreyfiþroska, styrk og fimi. 27 Rannsóknir sýna að líkamleg áreynsla dregur auk þess úr líkum á geðrænum vandamálum barna og unglinga. 26 Regluleg hreyfing barna bætir sjálfsmynd þeirra og námsárangur.

NÆRING


    Matarvenjur landsmanna hafa breyst mikið undanfarna áratugi og má segja að sterkustu
einkenni íslensks mataræðis frá árum áður séu óðum að hverfa. Að nokkru leyti er um jákvæðar breytingar að ræða því neysla grænmetis og ávaxta hefur aukist meðal yngstu aldurshópanna en einnig meðal fullorðinna. 28, 29 Þess skal þó getið að neysla grænmetis og ávaxta meðal 11 ára barna er minni á Íslandi en í öðrum löndum Evrópu samkvæmt nýlegri rannsókn. 30 Neysla mæðra 11 ára barna reyndist einnig minnst á Íslandi. 31 Könnun á mataræði barna og unglinga 2003–2004 leiddi í ljós að 18% 9 ára barna tóku lýsi daglega en aðeins 3% 15 ára unglinga. 28 Sama könnun sýndi að meðalgrænmetisneysla barna og ungmenna er sem samsvarar hálfri gulrót á dag og meðalneysla ávaxta samsvarar rúmlega hálfu epli. Könnunin sýndi enn fremur að hlutfall of þungra 15 ára unglinga reyndist vera 15% ef miðað er við alþjóðleg viðmiðunarmörk fyrir ofþyngd og offitu. 28
    Samkvæmt landskönnun á mataræði 2002 drekka ungir drengir að meðaltali tæpan lítra af gosi á dag eða 323 lítra á ári. 29 Stúlkurnar drekka heldur minna eða um hálfan lítra á dag. Sykurneyslan er jafnframt óheyrilega mikil og meiri en annars staðar á Norðurlöndum en meira en helmingur af viðbætta sykrinum í fæði drengja kemur úr gosdrykkjum einum saman. Rannsókn á mataræði ungra barna sýndi að þegar við tveggja ára aldur er sykurneyslan komin yfir ráðleggingar. 45

LÍTIL NEYSLA Á FISKI, ÁVÖXTUM OG GRÆNMETI


    Fiskneyslan hefur minnkað mikið, eða um þriðjung frá árinu 1990 þegar við áttum Evrópumet í fiskneyslu. 29 Nærri því fjórðungur 15 ára unglinga fullnægir ekki þörf fyrir joð þar sem neysla þeirra er minni en skilgreind lágmarksneysla. 28 Bregðast verður við lágu joðhlutfalli með aukinni fiskneyslu. Segja má að pitsan hafi tekið við af fiskinum sem þjóðarréttur ungra Íslendinga en þeir borða tæplega fimm sinnum meira af pitsu en fiski. Þessi breyting á mataræðinu getur haft afdrifarík áhrif á heilsu landsmanna í framtíðinni þar sem fiskur er mikil hollustuvara ekki síður en grænmeti og ávextir og minnkar m.a. líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Ofneysla og ofgnótt sem og vaxandi hreyfingarleysi er þó tvímælalaust helsti og alvarlegasti vandi íslenskra neytenda nú um stundir og sá þáttur sem helst ógnar heilsu landsmanna. Það er erfitt að kunna sér hóf þegar orkuríkur og girnilegur matur er hvarvetna á boðstólum og kostaboðin eru fólgin í stærri skömmtum fyrir lægra verð. Trúlega er stór hluti vandans aukið úrval af orkuríkum mat og matvælum tilbúnum til neyslu, ásamt áleitinni sölumennsku þar sem markmiðið er fyrst og fremst meiri neysla og stærri matarskammtar.
    Áhrif næringar á sjúkdómabyrði eru meiri en menn hafa gert sér grein fyrir. 32 Meðal tíu
helstu áhættuþátta, sem sjúkdómabyrði í þróuðum löndum er rakin til, eru næringartengdir
þættir á borð við háan blóðþrýsting, hátt kólesteról, ofþyngd og litla neyslu á ávöxtum og
grænmeti. 4 Talið er að um einn þriðji hluti af hjarta- og æðasjúkdómum og annað eins af krabbameinstilfellum tengist röngu mataræði. 32 Varðandi hjarta- og æðasjúkdóma virðast verndandi áhrifin meiri eftir því sem neysla á mismunandi tegundum grænmetis og ávaxta er meiri. Lítil grænmetis- og ávaxtaneysla er talin skýra um 19% af krabbameinstilfellum í meltingarfærum, 31% af hjartasjúkdómum og 11% af heilablóðfallstilfellum í heiminum. Talið er að bjarga mætti 2,7 milljónum (4,9%) mannslífa á hverju ári með því einu að auka neyslu grænmetis og ávaxta. 4
    Rannsóknir víða um heim sýna að ofeldi, óæskilegt mataræði og hreyfingarleysi er alvarleg ógn við heilsu og lífsgæði. Þættir, sem varða næringu, holdafar og hreyfingarleysi, raða sér í sex af tíu efstu sætum yfir þá þætti sem helst stytta líf og minnka lífsgæði. 33
    Í þessari skýrslu er lögð áhersla á forvarnaraðgerðir sem ná til samfélagsins í heild til að bæta megi almennt heilbrigði þjóðarinnar með bættri næringu og aukinni hreyfingu, m.a. til að koma megi í veg fyrir vaxandi ofþyngd.

TILLÖGUR1)     SKÓLAR

Leikskólar:
1)        Leikskólar leggi sérstaka áherslu á næringu, hreyfingu og geðrækt barnanna.
2)        Skipulögð hreyfing í leikjaformi verði hluti af daglegri iðju jafnt innandyra sem utan.
3)        Hreyfiþroski mældur og unnið sérstaklega með börnum sem þurfa á því að halda.
4)        Börnin fái grunnfræðslu í næringarfræði.
5)        Matjurtagarðar í leikskólum.
6)        Hreyfihvetjandi aðstaða, með viðeigandi áhöldum og tækjum, sé til staðar innandyra sem utan.

Grunnskólar:
7)        Ókeypis máltíðir í grunnskólum með næringarinnihaldi í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar.
8)        Íþróttakennsla eða skipulögð hreyfistund alla skóladaga.
9)        Samfelldur skóladagur, nám, tómstundir, íþróttir.
10)    Næringarfræði hafi forgang í heimilisfræði og sé hluti af lífsleikni.
11)    Efla og samræma viðbrögð í skólaheilsugæslunni þegar börn eru að fara út af vaxtarlínu.
12)    Stuðningskennsla/sérkennsla í íþróttum og heilsurækt.
13)    Hreyfihvetjandi aðstaða, með viðeigandi áhöldum og tækjum, sé til staðar innandyra sem utan.
14)     Matseðill liggi fyrir, fram í tímann, og upplýsingar um máltíðir séu aðgengilegar á heimasíðu skóla.
15)    Skólasjoppur selji eingöngu hollan mat.
16)    Námsefni, sem styrkir nemendur andlega, líkamlega og félagslega, hafi forgang í lífsleikni.

Framhaldsskólar:
17)     Heilsusamlegur matur á boðstólum í stað sykraðra drykkja og sætmetis.
18)     Fjölbreyttari íþróttakennsla í boði.
19)     Nemendur stundi íþróttaiðkun allar annirnar.
20)     Hagnýt næringarfræði, upplýsingalæsi á matvæli, verði valáfangi á öllum brautum framhaldsskólastigsins.
21)     Hreyfihvetjandi aðstaða, með viðeigandi áhöldum og tækjum, sé til staðar innandyra sem utan.
22)     Hléæfingar verði fastur liður í skólastarfinu.

Háskólar:
23)     Næringarfræði verði stórlega efld á brautum sem varða heilbrigðisþjónustu og íþróttafræði.
24)     Hollur og næringarríkur matur aðgengilegur í háskólum.
25)     Hreyfihvetjandi aðstaða í boði.

2) HEILSUGÆSLA OG HEILBRIGÐISSTOFNANIR26)    Ljósmæður hafi mataræði, hreyfingu og heilbrigt líferni sem sérstakt viðfangsefni við mæðravernd og foreldranámskeið. Gert verði hentugt námsefni og starfsmenn mæðraverndar fari á sérstök námskeið til að tileinka sér þetta efni.
27)    Ungbarnaeftirlit verði notað eins og kostur er til að fræða foreldra um næringu barna og mikilvægi fjölbreyttrar hreyfiörvunar. Þetta verði gert samhliða fræðslu um brjóstagjöf og hefjist eigi síðar en við þriggja mánaða skoðun. Farið verði yfir það námsefni sem fyrir er.
28)     Efld verði skráning og úrvinnsla rafrænna upplýsinga um líkams- og hreyfiþroska barna, hæð og þyngd í grunnskóla.
29)     Heilbrigðisþjónusta í grunnskóla verði efld.
30)     Heilsufarsskoðun fari fram á heilsugæslustöð eða hjá heimilislækni við 35 ára aldur hjá öllum. Þar fáist ráðgjöf um lífsstíl byggð á grundvelli mælinga á hæð, þyngd, blóðþrýstingi, blóðsykri og kólesteróli og á grundvelli upplýsinga um mataræði, hreyfivenjur, reykingar og áfengisneyslu.
31)     Ávísanir á hreyfingu verði hluti þeirra úrræða sem læknar hafi handa skjólstæðingum sínum og þeim verði fundinn staður í tryggingakerfi landsmanna.
32)     Læknar (og aðrar heilbrigðisstéttir eftir atvikum) fái meiri fræðslu í næringarfræði í því augnamiði að þeir geti greint betur innihald algengra matvæla, áhrif matreiðslu á fæðuna og geti þannig átt upplýsandi samræður við sjúklinga sína um þessa meginundirstöðu tilveru hvers og eins.

3) ATVINNULÍF OG VINNUSTAÐIR33)     Matur á vinnustöðum sé hollur og í samræmi við þarfir starfsmanna.
34)     Heilsuræktarstyrkir verði án hlunnindaskatts fyrir starfsmenn fyrirtækja og stofnana.
35)     Geymsluaðstaða fyrir hjól og góð hreinlætisaðstaða með sturtu á vinnustöðum.
36)     Heilsuræktarstyrkir til starfsmanna verði að fullu frádráttarbærir frá skatti fyrir rekstraraðila.
37)     Fjárstuðningur við íþróttastarfsemi verði frádráttarbær frá skatti.
38)     Efling landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum.

4) SAMGÖNGUR OG SKIPULAGSMÁL39)    Við skipulagningu nýrra hverfa og enduruppbyggingu gamalla verði framkvæmt heilbrigðismat.
40)     Hjólreiðar verði fullgildur kostur í samgöngumálum og gert ráð fyrir hjólastígum jafnt sem gangbrautum og vegum.
41)     Aukin nýting almenningssamgangna.
42)     Græn svæði verði fjölskylduvænni og um leið meira hreyfihvetjandi, m.a. með leiktækjum.
43)     Hitalagnir undir nýjar gang- og hjólabrautir og fleiri bekkir á gönguleiðum.

5) NEYTENDAMÁL44)    Skýrar merkingar á matvælum með læsilegum og skiljanlegum innihaldslýsingum.
45)     Kannað hvort rétt sé að takmarka auglýsingar á óhollum mat sem beint er að börnum.
46)     Tryggt verði sem lægst verð á hollum matvælum og drykkjum.
47)     Hollar vörur staðsettar við sölukassa verslana.
48)     Matvælaframleiðendur hafi hollustuviðmið að leiðarljósi við vöruþróun.
49)    Matvælaframleiðendur og matsölustaðir hugi að skammtastærðum og verðlagi.
50)     Íþróttamannvirki opin almenningi í lausum tímum.
51)     Ungbarnasund og sundleikfimi fyrir eldri borgara í öllum sundlaugum sem völ er á og sundlaugar opnar á kvöldin um helgar.
52)     Ókeypis aðgangur að sundstöðum fyrir 12 ára og yngri.
53)     Fræðslu- og hvatningarherferðir sem vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að borða hollan mat og stunda reglulega hreyfingu.
54)     Einn stór gagnagrunnur, aðgengilegur á Netinu, um allt sem varðar heilbrigða lífshætti.
55)     Vörugjöld, tollar og virðisaukaskattur af reiðhjólum, útivistarvörum og öðrum hreyfihvetjandi tækjum eins lág og kostur er.
56)     Fjölnota skýli með hjólabrettabrautum, brautum fyrir línuskauta, gangandi og skokkandi.
57)     Heilsurækt í boði fyrir eldri borgara.
58)     Safnaðarheimili nýtt undir skipulagða hreyfingu eldri borgara.

6) ÍÞRÓTTAHREYFINGIN OG FRJÁLS FÉLAGASAMTÖK59)     Kostnaður við íþróttaiðkun viðurkenndur sem samfélagsframlag fyrir 18 ára og yngri.
60)     Öll börn og unglingar eigi þess kost að taka þátt í íþróttastarfi án tillits til keppni.
61)     Íþróttafélögin reki íþróttaskóla fyrir ungmenni upp að 12 ára aldri.
62)     Íþróttafélög bjóði upp á afþreyingu og/eða íþróttaiðkun fyrir foreldra/almenning.
63)     Grænmeti, ávextir og aðrar hollustuvörur seldar í íþróttahúsum og á sundstöðum.
64)     Líkams- og heilsurækt í sama virðisaukaskattsþrepi og sund.
65)     Samþætt verðlaun veitt einstaklingum og hópum fyrir íþróttaþátttöku og heilbrigðan lífsstíl, félagslega virkni, námsástundun og árangur.
66)     Íþrótta- og Ólympíusambandið (ÍSÍ), Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og aðrir hrindi í framkvæmd fleiri hreyfihvetjandi verkefnum sem hvatningu til fjölgunar iðkenda í sem flestum íþróttagreinum.
67)     Íþróttahetjur í þjóðfélaginu breiði út boðskap um mikilvægi hreyfingar og holls mataræðis.

TILLÖGUR MEÐ RÖKSTUÐNINGI1) SKÓLARLEIKSKÓLAR:

1) Leikskólar leggi sérstaka áherslu á næringu, hreyfingu og geðrækt barnanna.
     *    Hollusta máltíða í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar.
    *    Námskeið, ráðgjöf og fræðsla fyrir dagforeldra og starfsfólk með áherslu á næringu, hreyfingu, geðrækt, tilfinningatengsl, aga og ábyrgð.
    *    Lífsleikni fái aukið vægi.

    Lengi býr að fyrstu gerð! Ef börn alast upp við hollan og næringarríkan mat, grænmeti og ávexti, og nauðsyn þess að drekka vatn, eru góðar líkur á því að þau verði meðvituð um mikilvægi þess til frambúðar. Að sama skapi er líklegt að slæmar matarvenjur í æsku, svo sem óhófleg neysla sykurs og fitu, breytist ekki þótt aldurinn færist yfir. Sama gildir um hreyfingu og mikilvægi þess að gera hana hluta af daglegu lífi. Í ljósi þessa ættu leikskólar að hafa fjölþætt heilbrigði að leiðarljósi. Allir foreldrar hljóta að óska þess að börnin búi við það besta sem völ er á þegar kemur að næringu og möguleikum til aukinnar hreyfingar.
    Samþætta þarf starf leikskóla eins og kostur er þannig að réttur barna sé tryggður hvað varðar hollan mat og fjölþætta hreyfingu. Matseðill, ásamt næringarinnihaldi hverrar máltíðar, ætti að vera aðgengilegur (t.d. á heimasíðu) þannig að hægt sé að fylgjast með því hvað börnunum er boðið upp á. Slíkt auðveldar foreldrum/forráðamönnum að hafa tilbreytingu í matseld að kvöldlagi frá því sem var á boðstólum í leikskólanum.
    Samkvæmt rannsóknum njóta um 20% leikskólabarna á landinu aldrei ávaxtastunda fyrir hádegi í leikskólum en um 65% neyta ávaxta daglega í leikskólanum. Þá bjóða um 80% leikskóla upp á grænmeti næstum daglega. 37
    Líkamleg áreynsla er börnum nauðsynleg svo þau vaxi eðlilega og öðlist nægan hreyfiþroska, styrk og fimi. Flest bendir til að líkamleg áreynsla dragi auk þess úr líkum á geðrænum vandamálum barna og unglinga. Þá er almennt talið að regluleg hreyfing barna bæti sjálfsmynd þeirra og námsárangur.
    Leikskólinn Urðarhóll í Kópavogi er dæmi um leikskóla sem býður eingöngu upp á holla næringu og börnin þar stunda skipulagða hreyfingu í leikjaformi nokkrum sinnum í viku. Urðarhóll var sá fyrsti, af nokkrum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu, sem gaf sig út fyrir að vera heilsuleikskóli og í ljósi þess árangurs, sem þar hefur náðst í hreyfiþroska og líkamlegum styrk barnanna, væri æskilegt ef allir leikskólar stefndu að því að verða heilsuleikskólar. Rannsóknir sýna að börnin, sem hafa verið á Urðarhóli, iðka frekar íþróttir eftir að þau hætta á leikskóla en börn á öðrum leikskólum. 38 Og hreyfiþroski þeirra er mun meiri en barna í öðrum leikskólum. 39
    Annað dæmi um leikskóla, sem hefur hollt fæði og mikla hreyfingu að leiðarljósi, er Náttúruleikskólinn Hvarf sem er rekinn af ÓB Ráðgjöf samkvæmt þjónustusamningi við Kópavogsbæ. Þar er m.a. lögð áhersla á lífrænt ræktað fæði, fisk, grænmeti og ávexti og enn fremur á skipulagða hreyfingu. Sérstaða skólans er að foreldrum eru boðin námskeið í uppeldisaðferðum skólans og ráðgjöf í uppeldisvanda. 40

Námskeið, ráðgjöf og fræðsla fyrir dagforeldra og starfsfólk


    Í ljósi þess að flest börn eru með um átta klukkustunda viðveru í leikskólum í fimm ár er mikilvægt að þau njóti örvunar, fræðslu og hreyfistunda í sem ríkustum mæli. Gera verður kröfur til þess að starfsfólk leikskóla sé vel menntað en ef svo er ekki að því standi þá til boða að sækja námskeið, fá ráðgjöf eða fræðslu í því sem skiptir mestu máli í uppeldi barna og þroskaferli þeirra. Enn fremur þarf að leggja áherslu á fræðslu um tilfinningatengsl, næringu líkama og sálar, aga, ábyrgð, hegðun, viðhorf, slysavarnir og hlutverk uppalenda. Eðli barna er að vera sífellt á iði og uppgötva heiminn með margvíslegum hætti og er mikilvægt að styðja þau með þroska út frá sannreyndum uppeldisaðferðum.

Lífsleikni fái aukið vægi


    Lífsleikni í grunn- og framhaldsskólum er kjörin leið fyrir tilbreytingu frá hefðbundnu námi sem gæti þroskað hæfileika nemenda. Leikskólar ættu að tileinka sér lífsleikni í auknum mæli enda felast fjölbreyttir möguleikar í henni. Nýjasti leikskólinn í Reykjavík heitir Reynisholt en hann hefur fengið styrk til þróunarverkefnis sem heitir Líf og leikni. Verkefninu er ætlað að þróa og innleiða starfsaðferðir barna ásamt því að leggja grunn að því að þau rækti með sér grundvallareiginleika sem ábyrgir og hæfir einstaklingar í lýðræðisþjóðfélagi. Lögð er áhersla á að efla sjálfshjálp við matarborðið, hollar neysluvenjur og fjölbreyttar máltíðir og stuðlað er að markvissum kyrrðarstundum til að tryggja andlega og líkamlega vellíðan barnanna, svo dæmi sé tekið. 41
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

2)    Skipulögð hreyfing í leikjaformi verði hluti af daglegri iðju jafnt innandyra sem utan.
    Aðeins um 17% leikskóla á landinu eru með skipulagðar hreyfistundir í stundaskrá utandyra þrisvar í viku eða oftar. 74% eru með skipulagðar hreyfistundir innandyra einu sinni eða tvisvar í viku en aðeins 35% leikskóla jafnoft með hreyfistundir utandyra. Í 36% tilvika tekur starfsfólkið þátt í hreyfileikjum barna utandyra 2–3 sinnum í viku. 37
    Eðli barna er að leika sér en ekki láta njörva sig niður við iðju sem hentar ekki þeirra aldri. Börn sækjast eftir viðurkenningu og hrósi og þurfa almennt mikla athygli. Mikilvægt er að hreyfing í leikskólum sé í leikjaformi og börnin hvött til dáða. Of mikil keppni á unga aldri getur hins vegar leitt til þess að börn óttist að gera mistök, finni til örvæntingar og verði fráhverf íþróttum og annarri hreyfingu.
    Æskilegast væri að leikskólar hefðu aðgang að ráðgjöf og íþróttafræðingum sem ýttu skipulagðri hreyfingu úr vör með fjölbreyttum leikjum og viðhéldu henni. Enn fremur mætti hugsa sér að íþróttakennaranemar tækju að sér afmörkuð verkefni í leikskólum, t.d. með hvaða hætti væri hægt að halda börnum við efnið.
    Þótt Íslendingar búi við rysjótt veðurfar er yfirleitt hægt að fara út að leika með börnin á hverjum degi. Í raun má segja að ekki sé hægt að tala um vont veður, aðeins ófullnægjandi klæðnað. Mikilvægt er að börnin mæti ætíð með viðeigandi útifatnað svo þau venjist því að fara út að leika hvernig sem viðrar.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

3)    Hreyfiþroski mældur og unnið sérstaklega með börnum sem þurfa á því að halda.
    Margt bendir til að börn, sem óttast að fara í íþróttatíma í grunnskólum og fá vottorð til að forðast líkamlega hreyfingu, búi við skertan hreyfiþroska. 42 Af þeim sökum er mikilvægt að börn fái snemma fjölbreytta hreyfingu sem þroskar sem flesta þætti líkamsgetu, svo sem þol, styrk, samhæfingu og snerpu. Með því að greina og mæla hreyfiþroska barna er hægt að vinna sérstaklega með þau sem þurfa á því að halda og auka sjálfstraust þeirra gagnvart hreyfingu. Slíkum mælingum ætti að fylgja eftir í grunnskóla og halda áfram að vinna með börnum sem búa við skertan hreyfiþroska.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

4)    Börnin fái grunnfræðslu í næringarfræði.
    Börn, sem eru fædd fyrri hluta árs og eru í leikskóla frá eins árs aldri fram að skólaskyldu, dvelja í um 9.000 klukkustundir í leikskóla. Það liggur í augum uppi að hægt er að auka verulega á þeim tíma meðvitund barna um mikilvægi hollrar fæðu og veita þeim grunnfræðslu í næringarfræði. Börn eru einstaklega móttækileg á fyrstu árum ævinnar. Upplýsa þarf börn um hvaða áhrif holl næring hefur á líkamann og hvaða líkamlegar og andlegar afleiðingar það hefur að neyta óhollra matvæla. Fræða þarf börnin um hvers vegna vatn er mikilvægt og hvaða áhrif það hefur á líkamsstarfsemina.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög og menntamálaráðuneytið.

5)    Matjurtagarðar í leikskólum.
    Það er eitt að neyta hollrar fæðu, annað að átta sig á því hvaðan hún kemur. Leiða má að því líkum að einhver börn telji að grænmeti og ávextir verði til í stórmörkuðum. Það að yrkja jörðina, setja niður fræ í ,,sinn“ reit, hlúa að honum og fylgjast með honum blómstra hlýtur að vekja áhuga barna á hollum matvælum og virðingu fyrir móður jörð. Afurðirnar eru þeirra afrakstur og þau geta deilt sínu grænmeti eða blómum með öðrum. Hægt er að taka á ótal viðfangsefnum í þroska barna með því að kenna þeim að ,,rækta garðinn sinn“.
Framkvæmdaraðili: Leikskólar.

6)    Hreyfihvetjandi aðstaða, með viðeigandi áhöldum og tækjum, sé til staðar innandyra sem utan.
    Rólur, vegasölt og sandkassar eru án efa í boði á hverri einustu leikskólalóð en börn sitja yfirleitt í þeim leiktækjum. Í hverjum einasta leikskóla þyrftu að vera fleiri hreyfihvetjandi aðstæður þannig að börnin geti hangið, klifrað, hlaupið, stokkið eða velt sér. Hreystibrautir munu án efa ryðja sér til rúms á lóðum grunnskóla og/eða á opnum svæðum á næstu árum, ekki síst í ljósi þess að skólahreysti nýtur aukinna vinsælda. Það þarf ekki mikinn tilkostnað til að setja upp fleiri hreyfihvetjandi leiktæki til að reyna á almenna hreysti leikskólabarna. Í ljósi þess að börn þurfa hrós og hvatningu er æskilegt að leikskólakennarar taki þátt í leikjum barnanna að einhverju leyti og að gömlu góðu leikirnir flytjist milli kynslóða.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

GRUNNSKÓLAR:

7)     Ókeypis máltíðir í grunnskólum með næringarinnihaldi í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar.
    *    Grænmeti og ávextir í nestistímum.
    *    Auðvelt aðgengi að vatni.

    Samkvæmt landslögum verða börn að stunda nám í grunnskóla. Og þar sem þau eru í skólanum í hádeginu ætti það að vera á ábyrgð skóla/sveitarstjórna að sjá börnunum fyrir heitum mat. Fæstum börnum gefst kostur á að fara heim í hádeginu og því ættu hádegisverðir að vera hluti af skólastarfinu með aga, reglum og utanumhaldi eins og um hefðbundna kennslustund væri að ræða.
    Nýlegar kannanir sýna að 97% foreldra 11 ára barna eru hlynnt aðgerðum í skóla til að bæta mataræði barna með heitri máltíð. Um 78% vilja ókeypis skólamáltíð og 91% foreldra vill að börnin fái ókeypis ávexti í skólanum. 43
    Mikilvægt er að allir nemendur sitji við sama borð hvað varðar næringarríka fæðu án tillits til efnahags foreldra. Góður og næringarríkur matur hefur áhrif á þroska og námsárangur og
eykur einbeitingu. Hádegisverðartíminn á að vera hluti af skólastarfinu þar sem ríkir agi og skipulag og allir borða í sátt og samlyndi. Máltíðir eru uppeldislegs eðlis og er mikilvægt að starfsmenn skóla borði með nemendum. Börnum á að leiðbeina um hvernig ber að haga sér við borðið og þau eiga að ganga frá eftir sig. Matvendni er oft áunnin og börn ættu ekki að komast upp með að stjórna því einhliða hvað þau borða. Vissulega þarf þó fjölbreytt fæða og ákveðið val að vera til staðar.
    Í tæplega 90% tilvika eru útreikningar um næringarinnihald skólamáltíða í Reykjavík ekki fyrir hendi. 44 Í 96% tilvika eru notaðir hálf- og fulltilbúnir réttir að einhverju leyti í framleiðslueldhúsum. Hafa ber í huga að orkuþörf einstaklinga er misjöfn. Um 70% grunnskóla segjast fjalla um hollustu skólamáltíða í stefnu sinni. Um 65% grunnskóla segjast vinna eftir stefnu Lýðheilsustöðvar varðandi skólamáltíðir. 44
    Tæpur helmingur nemenda 10. bekkjar borðar aldrei heitan mat í skólanum. Um 37% nemenda í 8. bekk gera það ekki heldur og ekki 27% nemenda í 6. bekk. Hins vegar borða 36% 6. bekkinga heitan mat í hádeginu alla skóladagana en aðeins 17% nemenda í 10. bekk. 43

    Til að tryggja jöfnuð meðal nemenda er æskilegast að skólinn sjái þeim fyrir grænmeti og ávöxtum í nestistímum. Það tíðkast enn að nemendur komi með sykraða drykki og óhollustu að heiman, jafnvel þótt það sé í andstöðu við skólareglur. Samkvæmt nýlegri könnun bera 40% skóla fram ávexti daglega og 47% þeirra grænmeti daglega. 43 Aðeins 15% nemenda í 10. bekk borða ávexti einhvern tímann yfir daginn, 21% nemenda í 8. bekk og 34% nemenda í 6. bekk. Með þetta lítilli neyslu ávaxta skipum við okkur í eitt neðsta sæti Evrópuþjóða hvað það varðar. Grænmetisneysla á enn síður upp á pallborðið því aðeins 14% nemenda í 10. bekk borða grænmeti daglega, 18% í 8. bekk og 26% í 6. bekk. Um 40% nemenda í 10. bekk borða morgunmat daglega og 25% 5–6 sinnum í viku. 43
    Vatnsdrykkja hefur verið að aukast hér á landi á undanförnum árum og þrefaldast frá árinu 1990 samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði 2002. Við eigum að notfæra okkur það að geta drukkið hreint og ómengað vatn beint úr krananum. Halda þarf vatni að börnum til að venja þau á að neyta þess og ekki síst við þorsta. Hvert barn gæti verið með sérmerktan vatnsbrúsa til að venja börnin enn frekar við að drekka vatn. Og vatnshanar ættu að vera víða í skólum og á skólalóðum.
    Tryggja þarf að skólanámskrár endurspegli heilbrigðismarkmið aðalnámskrár og að skólarnir fái nægilegt fjármagn til að fylgja þeim eftir. Hér má sérstaklega til nefna verkefni eins og Heilsueflandi skólar sem unnið er í samstarfi skóla, Lýðheilsustöðvar, Miðstöðvar heilsuverndar barna og menntamálaráðuneytis og verkefnið ,,Allt hefur áhrif – einkum við sjálf“ sem er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og sveitarfélaga í landinu.
    Gera verður kröfur til þess að innra eftirlit framleiðslueldhúsa sé virkt og veiti aðhald. Ánægjulegt er að sjá sveitarfélög eins og Reykjavík axla ábyrgð með því að skipa eitt stöðugildi til að fylgjast með því að framleiðslueldhús grunnskólanna sjái nemendum fyrir hollum og góðum mat.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög, félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið.

8)     Íþróttakennsla eða skipulögð hreyfistund alla skóladaga.
    Eitt af mikilvægustu forvarnarverkefnum stjórnvalda er að jafna möguleika ungmenna til fjölbreyttrar hreyfingar. Skólinn er eini vettvangurinn þar sem hægt er að ná til allra barna og unglinga og þar verja þau stórum hluta dagsins. Í tengslum við skólastarf er því einstakt tækifæri til að stuðla að daglegri hreyfingu þessa hóps og vinna þannig að því að öll ungmenni hafi tækifæri til að tileinka sér þann lífsstíl sem er æskilegt að fylgi þeim út í lífið. Sérstök áskorun er að ná til barna og unglinga sem ekki stunda neina hreyfingu. Um 21% nemenda í 9. og 10. bekk árið 2003 reyndi á sig svo til daglega af svo mikilli ákefð að þeir svitnuðu. 8 Þegar í framhaldsskóla er komið sögðust, árið 2004, rúm 16% framhaldsskólanema reyna á sig líkamlega á nánast hverjum degi svo þeir mæddust eða svitnuðu. 7
    Börn á grunnskólaaldri eiga rétt á þremur kennslustundum í íþróttum að lágmarki í hverri viku skólaársins. 46 Flestir sem hafa áhuga á málefnum grunnskóla virðast sammála um að fjölga þurfi íþróttatímum eða skipulögðum hreyfistundum en aðgerðir hefur skort. Mögulegt er að stuðla að daglegri hreyfingu nemenda í tengslum við almennar kennslustundir, íþróttatíma og frímínútur. Auk þess skiptir ferðamáti miklu máli. Til þess að ná markmiðinu um daglega hreyfingu nemenda í skólastarfi er mikilvægt að ábyrgðin liggi hjá öllum starfsmönnum skólans en ekki aðeins hjá íþróttafræðingum (íþróttakennurum).

*     Hreyfing í almennum kennslustundum.
    Með því að gera ráðstafanir í upphafi skólaárs ætti að vera mögulegt að flétta hreyfingu með einhverjum hætti inn í allar námsgreinar, svo sem með hreyfileikjum innandyra og skipulagðri útikennslu (dæmi: Fossvogsskóli, Smáraskóli, Sjálandsskóli, Ingunnarskóli). Eins væri æskilegt að hléæfingar eða nánar tiltekið æfingar sem auka blóðflæði um líkamann og liðka helstu álagssvæði væru hluti af sem flestum kennslustundum og þá ekki síst af þeim tímum þar sem setið er við tölvu. Slíkar æfingar eru ekki aðeins góðar fyrir heilsu nemenda á meðan skólavist þeirra varir heldur myndi reglubundin iðkun þeirra vera ómetanleg forvörn í kyrrsetustörfum framtíðarinnar (dæmi: Menntaskólinn á Akureyri).

*      Skipulögð hreyfing í frímínútum
    Í frímínútum er gott tækifæri til að virkja börnin til hreyfingar. Til að það sé raunhæfur valkostur þarf skólalóðin að vera örugg, aðlaðandi og bjóða upp á fjölbreytta möguleika til ýmissa leikja. Nokkrir skólar hafa þegar farið þá leið að bjóða upp á fjölbreytta, skipulagða hreyfingu í frímínútum undir stjórn fullorðinna og/eða nemenda í eldri bekkjum (dæmi: Smáraskóli, Grunnskóli Þorlákshafnar). Þannig er stuðlað að því að allir hafi tækifæri til hreyfingar og komið í veg fyrir aðstæður sem geta stuðlað að einelti á skólalóðinni.
    Rannsóknir sýna að með hækkandi aldri dregur úr hreyfingu. Því er ekki síður brýnt að skapa aðstæður sem hvetja eldri nemendur til hreyfingar og draga úr ýmsum áhrifaþáttum sem stuðla að hreyfingarleysi þessa aldurshóps. Má þar m.a. nefna þá hefð sem víða hefur skapast að eldri nemendur eru innandyra í frímínútum.

*      Íþróttir – líkams- og heilsurækt
    Allir skólar ættu að uppfylla lágmarkskennslustundafjölda í sundi og íþróttum, samtals 102 stundir á ári. Samkvæmt skýrslu menntamálaráðuneytisins uppfylla 21–26% skóla ekki þennan tímafjölda í 2.–10. bekk. 60 Svo virðist sem þar sé helst um að kenna mismunandi fyrirkomulagi sundkennslu og því þyrfti að hnykkja enn betur á því að ef valin er sú leið að kenna sund á námskeiði verði að fylla upp í þá tíma sem upp á vantar með annars konar íþróttakennslu. Eins vakna spurningar um hvernig eftirfylgni er háttað og ekki síst hvaða viðurlög liggja við fyrir þá skóla sem uppfylla ekki samanlagðan lágmarkskennslustundafjölda í íþróttum og sundi. Það er ekki nóg að boðið sé upp á íþróttatíma heldur skiptir einnig máli þátttaka, líðan og öryggi nemenda í tímum. Því þarf alvarlega að íhuga hvort það form, sem er á íþróttakennslunni í dag, skili þeim markmiðum sem lagt er upp með.
    Tíminn, sem ætlaður er til þátttöku í íþróttatímum í stundaskrá, er af skornum skammti (yfirleitt 40 mínútur) og úr samhengi við þann tíma sem er til ráðstöfunar í öðrum kennslustundum. Þessu til stuðnings má nefna að íþróttafræðingar með áratuga reynslu áætla að um helmingur tímans, sem ætlaður er til íþróttakennslu, fari í að koma sér úr og í tíma, skipta um föt og í útskýringar á skipulagningu tímans.
    Varðandi nemendafjölda í tímum fylgja skólarnir alla jafna því viðmiði sem er sett fram fyrir sundkennslu (15 nemendur eða færri). Í íþróttatímum eru hins vegar 40–52% grunnskóla með 16 nemendur eða fleiri í íþróttatímum. 60 Það vekur upp spurningar um hversu raunhæft sé fyrir kennarann að hafa stjórn á svo fjölmennum hópum, tryggja eins og mögulegt er öryggi nemenda og leggja fyrir verkefni við hæfi sem flestra þann stutta tíma sem er til umráða.
    Auka þarf virðingu fyrir íþróttakennslu. Í skóla í Reykjavík, skólaárið 2005–2006, voru til að mynda þrír bekkir saman í sal sem er 18x33 metrar að stærð. Það segir sig sjálft að ógjörningur er að vinna af fagmennsku og með árangur í huga með yfir 50 nemendur í einum sal, jafnvel þótt tveir íþróttafræðingar sinni hópnum. Í öðrum skóla, sama skólaár, er verið að byggja nýtt skólamötuneyti sem einnig á að nota undir íþróttakennslu. Það er ljóst að ásættanlegar aðstæður annars vegar til að matast og hins vegar til að hreyfa sig eru afar ólíkar. Slíkt fyrirkomulag er einnig til þess fallið að senda nemendum þau skilaboð að íþróttir séu ekki eins mikilvægar og aðrar námsgreinar. Þegar við bætist að hávaði í vinnuumhverfi kennara og nemenda í tengslum við íþróttaiðkun er samkvæmt úttekt Vinnueftirlits ríkisins (2005) um eða yfir 85 dB, sem eru þau hávaðamörk sem sett eru til verndar heyrn, hlýtur að vera rík ástæða til að setja fjöldaviðmið í íþróttatímum líkt og sundtímum. Að mati reyndra íþróttafræðinga er æskilegur fjöldi í íþróttakennslu 14–16 nemendur. 47 Meðalstarfsaldur íþróttakennara er 4,7 ár en helsta ástæða þess virðist vera slæm aðstaða í skólum, mikið álag og lítill skilningur á mikilvægi íþróttakennslu. 48
    Til að koma enn betur til móts við mismunandi þarfir nemenda þarf að auka stuðningskennslu og/eða sérkennslu þeirra sem þurfa mest á henni að halda.
    Í Fellaskóla í Reykjavík er unnið að þróunarverkefninu Bætt heilsa – betri námsárangur og í Vopnafjarðarskóla er íþróttakennsla fyrir nemendur í 1.–6. bekk alla virka daga og fjórum sinnum í viku fyrir eldri bekkinga. Þetta fyrirkomulag hefur mælst einstaklega vel fyrir og hefur frískað upp á nemendur að mati skólastjórans.
    Ein áhrifaríkasta leiðin til að auka daglega hreyfingu er að ganga/hjóla milli staða. Því er afar mikilvægt að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að sem flestir nemendur geti á öruggan hátt nýtt eigin orku til að ferðast til og frá skóla. Gott dæmi er ,,göngustrætó“ þar sem foreldrar skiptast á að ganga með börnunum til og frá skóla. Reglur um takmarkaðan akstur í nágrenni skólans gætu ýtt undir aukna hreyfingu og á sama tíma dregið úr þeirri hættu sem skapast vegna mikillar bílaumferðar í upphafi og lok skóladags. Mikilvægt er að hafa gangbrautarverði við umferðarþungar götur. Einnig þarf að skoða hvort og þá hvaða reglur gilda um hjólreiðar í skólum og hvernig aðstæður eru til að geyma hjól.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög og menntamálaráðuneytið.

9)    Samfelldur skóladagur, nám, tómstundir, íþróttir.
    Æskilegt er að börn upp að 12 ára aldri geti lokið tómstunda- og íþróttastarfi eftir skóla í samráði við frístundaheimilin og íþrótta- og æskulýðsfélög hverfisins. Skólakerfið á að hvetja til þess að hreyfing verði hluti af lífsstíl ungmenna og að auka valmöguleika barna til fjölbreyttrar iðkunar.
    Skólaárið 2004–2005 kom Íþróttabandalag Reykjavíkur með nýjung inn í skólana í samvinnu við Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar en fleiri sveitarfélög hafa gert slíkar tilraunir, t.d. Reykjanesbær. Öllum sex ára gömlum börnum var boðin þátttaka í íþróttaskóla tvisvar í viku, 40 mínútur í senn, þeim að kostnaðarlausu. Samið var við íþróttafélög hverfa um að reka íþróttaskólana. Með þessu móti var verið að tengja betur saman skóla og íþróttafélag.
    Nýlegar kannanir sýna að 32% nemenda í 10. bekk æfa með íþróttafélagi 3–5 sinnum í viku, 41% nemenda í 8. bekk og 52% nemenda í 6. bekk. 43 Um helmingur nemenda í 6., 8. og 10. bekk fer daglega gangandi eða hjólandi í skólann. 43 Mikil kyrrseta barna og unglinga við tölvu og/eða sjónvarpsskjá er áhyggjuefni og stundar stór hluti barna og unglinga mjög litla líkamlega hreyfingu. Nýta mætti íþróttahús og sali í grunnskólum betur en gert er, sem og íþróttahús íþróttafélaga.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög, menntamálaráðuneytið og íþróttafélög.

10)    Næringarfræði hafi forgang í heimilisfræði og sé hluti af lífsleikni.
    Mikilvægt er að auka skilning nemenda á næringarfræði og fæðuflokkunum þannig að þeir geri sér grein fyrir því hvers vegna hollur og næringarríkur matur skiptir þá miklu máli. Ef til vill má nýta afrakstur af vinnu nemenda í heimilisfræði þannig að hann nýtist í skólamötuneytinu og þeir þannig gerðir að virkum þátttakendum við fæðuval mötuneytisins sem væri þá í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um næringarinnihald. Endurskoða þarf námsefni í heimilisfræði til að hægt sé að auka vægi næringarfræði í kennslunni.
Framkvæmdaraðilar: Grunnskólar, menntamálaráðuneytið og sveitarfélög.

11)    Efla og samræma viðbrögð í skólaheilsugæslunni þegar börn eru að fara út af vaxtarlínu.
    Mikilvægt er að fylgst sé með líkamsþyngd nemenda, hreyfigetu og hreyfimynstri sem og andlegri líðan. Þá er mikilvægt að halda áfram með aldursskoðanir þar sem mæld er þyngd, hæð, sjón og heyrn og að allt sé skráð í tölvutækan gagnagrunn. Þetta eru mikilvægar upplýsingar samfélagsins á hverjum tíma um hvert stefnir.
    Fjölga þarf skólahjúkrunarfræðingum og ef til vill skilgreina betur hlutverk þeirra þannig að þeir geti enn frekar aðstoðað nemendur við að halda eða komast í kjörþyngd í samvinnu við foreldra. Aðeins er starfandi einn skólahjúkrunarfræðingur á hverja 800 nemendur í Reykjavík og það segir sig sjálft að þeir ná varla að gera annað en að plástra, hugga og huga að eymslum. Vinna þarf markvisst með þá nemendur sem þurfa á því að halda, leiðbeina þeim og fjölskyldum þeirra um mataræði og fjölþætta hreyfingu.
    Þörf er fyrir miðlægt meðferðarúrræði fyrir of feit börn hjá heilsugæslunni, Miðstöð heilsuverndar barna, Barnaspítala Hringsins og víðar þar sem ráðleggingar skólaheilsugæslunnar duga ekki til að leiðrétta ástandið eða ef sérstakrar meðferðar er þörf. Þekking og færni til að vinna með fjölskyldur er til staðar en það vantar aðgengi að þverfaglegum stuðningshópi. Skólalæknar eiga að vera bakhjarlar í þessu starfi. Eðlilegt er að slík samræming verði unnin á vegum Landlæknisembættis, Miðstöðvar heilsuverndar barna og heilsugæslna landsins með þátttöku Lýðheilsustöðvar.
    Mikilvægt er að finna hreyfingu sem hentar þeim sem eru of þungir og/eða finna sig ekki í íþróttatímum.
Framkvæmdaraðili: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

12)    Stuðningskennsla/sérkennsla í íþróttum og heilsurækt.
    Þótt skiptar skoðanir séu um einstaklingsmiðað nám er öllum ljóst að geta og hæfni nemenda í bóklegu sem og verklegu námi er mismunandi. Þetta kemur ekki síst fram í íþróttakennslu.
    Ekki þykir ráðlegt að skipta börnum upp í hópa eftir líkamlegri getu og ásigkomulagi, þ.e. að hafa þau í mismunandi íþróttatímum. Mikilvægt er þó að koma til móts við þá sem minna mega sín í stað þess að draga þá út úr íþróttakennslu. Slíkt mætti e.t.v. gera með stuðningskennara eða aukatímum í íþróttum.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög og menntamálaráðuneytið.

13)    Hreyfihvetjandi aðstaða, með viðeigandi áhöldum og tækjum, sé til staðar innandyra sem utan.
    Á sumum skólalóðum er þörf úrbóta þar sem þær eiga ekki að vera geymslustaðir heldur hvetja til fjölbreyttrar hreyfingar með ýmsum tækjum og leiðsögn. Gera þarf aðstöðuna á skólalóðum aðlaðandi, hreyfivæna og hvetjandi með hugmyndaríkri uppsetningu sem hentar öllum aldurshópum. Virkja mætti börnin til samstarfs um það hvernig þau vilja sjá skólalóðina sína og aðstaðan verði þannig í betri takt við tíðarandann hverju sinni.
    Flestum börnum þykir gaman að klifra og spreyta sig í alls kyns þrautum sem reyna á færni, hraða, liðleika og styrk. Skólahreysti, fjölþætt hraðabraut, nýtur síaukinna vinsælda meðal eldri nemenda grunnskóla og mun líklega verða útbreidd meðal yngri nemenda. Með því að bjóða upp á áþekkar þrautir á skólalóðinni, eins og gert er við grunnskólana í Mosfellsbæ og í Vogum á Vatnsleysuströnd, geta ungmenni á hvaða aldri sem er reynt sig við ýmsar þrautir. Brautin er enn fremur fyrir fullorðna og ætti því að nýtast fjölskyldum utan skólatíma og á sumrin. Gæta þarf fyllsta öryggis varðandi undirlag og samsetningu og að brautirnar uppfylli öryggiskröfur og séu samþykktar af eftirlitsaðilum.
    Fjölbreytt aðstaða, eins og sparkvellir, körfuboltaspjöld og hjólabrettasvæði, ætti að vera á skólalóðum. Skólalóðir eru leiksvæði barna utan skólatíma og því fjölbreyttari sem þær eru, þeim mun meiri líkur eru á að þær séu nýttar til hins ýtrasta.
    Gera má tilraunir með útikennslustofur eins og þá sem er byggð á kenningum Johns Deweys, ,,learning by doing“. Hún hefur verið í aðalnámskrá Norðmanna síðan 1997 undir heitinu L-97. Lögð er áhersla á heildrænt nám, þ.e. tengingu milli allra þátta námsins. Börnum er kennt að handleika verkfæri, reisa skýli, búa til eldstæði, útbúa mat við erfiðar aðstæður og þeim er kennt að umgangast náttúruna. Hugmyndin er að nýta útikennslustofuna sem vettvang margbreytilegrar kennslu og skapa möguleika á að blanda saman námi í hinum mismunandi námsgreinum og gefa nemendum svigrúm til að ná tökum á námsgreinum með fjölbreyttri nálgun. 49
    Í einhverjum tilvikum er óheimilt að hjóla í skólann og bjóða þeir skólar þar af leiðandi ekki upp á hjólastanda á skólalóðinni. Á meðan enn er morgunbjart á haustin og þegar birtir snemma á vorin á að hvetja nemendur, sem hafa aldur til, til að hjóla í skólann eða koma á línuskautum og bjóða upp á örugga aðstöðu fyrir fararskjótana. Jafnvel má veita þeim sérstaka viðurkenningu sem ganga, hjóla eða koma á línuskautum í skólann.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

14)    Matseðill liggi fyrir, fram í tímann, og upplýsingar um máltíðir séu aðgengilegar á heimasíðu skóla.
    Það er mikilvægt fyrir foreldra/forráðamenn að geta fylgst með því hvað er borið á borð fyrir börnin í skólanum. Grunnskólar ættu að birta matseðla á heimasíðu sinni ásamt næringarinnihaldi þess sem er í boði. Þetta er sjálfsögð þjónusta og geta foreldrar/forráðamenn þá haft fjölbreytnina að leiðarljósi við kvöldverðarborðið.
Framkvæmdaraðili: Grunnskólar.

15)    Skólasjoppur selji eingöngu hollan mat.
    Algengt er að eldribekkingar í grunnskólum selji sætt bakkelsi í skólum til fjáröflunar. Tryggja þarf að ,,skólasjoppur“ séu eingöngu með hollar vörur til sölu, svo sem grænmeti, ávexti og sykursnautt bakkelsi. Samkvæmt könnunum eru 88% foreldra hlynnt því að sælgæti og annað slíkt sé ekki til sölu í grunnskólum. 43
Framkvæmdaraðili: Grunnskólar.

16)    Námsefni, sem styrkir nemendur andlega, líkamlega og félagslega, hafi forgang í lífsleikni.
    Í hinu daglega lífi standa unglingar frammi fyrir miklum kröfum frá umhverfinu. Þeir þurfa að standa sig vel í skólanum, vera samvinnuþýðir, geta unnið í hópum og geta tekið ábyrgar ákvarðanir. Unglingar þurfa að passa sig á vímuefnum, standast ágang fjölmiðla og markaðsáhrif, hafa sjálfstæðar skoðanir, leggja sitt af mörkum til fjölskyldunnar, ávinna sér félagslega og jafnvel verklega hæfni og læra siðferðileg gildi. Ofan á allt þetta búa sumir unglingar, því miður, við erfiðar heimilisaðstæður, hraða, tímaskort og jafnvel mikla ábyrgð.
    Í lífsleikni stendur kennurum fjölbreytt námsefni til boða og fer það yfirleitt eftir áhugasviði kennara hvaða námsefni þeir velja hverju sinni. Það er góðra gjalda vert að hafa upp á margt að bjóða, fyrir utan þær námsgreinar sem eru í aðalnámskrá, en það liggur í augum uppi að börn og ungmenni, sem hafa sterka sjálfsmynd og mikið sjálfsöryggi, spjara sig betur á flestum sviðum en ungmenni með brotna eða lélega sjálfsmynd og því er uppbygging á sterkri sjálfsmynd besta forvörnin.
    Grunnskólinn er því kjörinn vettvangur til að styrkja sjálfsmynd nemenda enn frekar. Fyrsta markmið í lífsleikni ætti að miðast við að auka sjálfstraust þeirra, bæta tjáninguna, gera þau hæfari í mannlegum samskiptum, efla leiðtogahæfileikana og kenna þeim að stjórna viðhorfum til að sigrast á áhyggjum og streitu. Lífsleiknin er kjörin námsgrein fyrir slíkt námsefni.
    Samkvæmt könnunum segjast um 48% grunnskóla fjalla um andlega líðan nemenda í stefnu sinni. Um 21% grunnskólanemenda líður hvorki vel né illa í skólanum en um 70% segja ýmist að sér líði mjög vel eða frekar vel. Athygli vekur að 9% nemenda í 6. bekk segja að sér líði mjög eða frekar illa í skólanum. 43 Fjölbreytt efni er til sem myndi hæfa til kennslu í lífsleikni með aukið sjálfstraust og sjálfsvitund nemenda að leiðarljósi.
    Stórauka þarf þekkingu barna á mikilvægi heilbrigðra lifnaðarhátta með því að tryggja að allir nemendur fái reglulega fræðslu um heilbrigðan lífsstíl þar sem útskýrt er fyrir krökkum hvers vegna líf þeirra, heilsa, vellíðan og úthald byggist á hollri næringu og nægri hreyfingu, samhliða því að láta reykingar og áfengis- og vímuefnaneyslu lönd og leið. Fyrirlestrarnir ættu heima í lífsleiknitímum og ættu að vera fluttir af fagaðilum sem ná klárlega til krakkanna. Að sama skapi ættu skólar að bjóða foreldrum upp á áþekka fyrirlestra á hverju skólaári svo að vitneskja foreldra sé í takt við þá fræðslu sem börnin fá í skólanum. Samhliða uppbygging á góðum skólabrag myndi styðja vel við góða fræðslu.
Framkvæmdaraðilar:      Grunnskólar, sveitarfélög, menntamálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.


FRAMHALDSSKÓLAR:

17)    Heilsusamlegur matur á boðstólum í stað sykraðra drykkja og sætmetis.
    Framhaldsskólar þurfa að leggja aukna áherslu á heilsu og næringu nemenda því þeir hafa jafn mikla þörf fyrir hollan og næringarríkan mat þótt þeir séu ,,frjálsari“ og sjálfstæðari fjárhagslega en nemendur í grunnskóla. Ef nemendur alast upp við næringarríkar máltíðir í grunnskóla vilja þeir án efa eiga kost á því að njóta slíkra máltíða í framhaldsskóla. Skólasjoppur selja að jafnaði sælgæti og gosdrykki innan veggja skólans, oft til að fjármagna útskriftarferðir, en bæta þarf um betur í þeim efnum og bjóða upp á meiri hollustu. Þegar fólk er svangt grípur það yfirleitt það sem hendi er næst án tillits til næringarinnihalds vörunnar. Grænmeti, ávextir og annað hollmeti þarf að vera áberandi og aðgengilegt í framhaldsskólum á kostnað sykraðra drykkja og sætinda.
    Tryggja þarf að skólanámskrár endurspegli heilbrigðismarkmið aðalnámskrár og að skólarnir nýti fjármagn í málaflokkinn í stað þess að nota það í annað.
Framkvæmdaraðilar:     Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

18)    Fjölbreyttari íþróttakennsla í boði.
    Flestir nemendur á framhaldsskólastigi eru jákvæðir að eðlisfari og því móttækilegir fyrir þekkingu og viljugir að bæta sig hvað varðar þjálfun og mataræði. En það gildir með hreyfingu þeirra eins og annarra: ef þeir eiga að endast verða þeir að hafa gaman af iðkuninni.
    Í framhaldsskólum ætti íþróttakennslan fyrst og fremst að ganga út á að virkja nemendurna til heilsuræktar á þann hátt sem þeim þykir gaman og þeir geta séð fyrir sér að stunda til frambúðar. Tryggja þarf að grunnaðstaða til íþróttaiðkunar sé til staðar í öllum framhaldsskólum og að aðstæður innandyra sem utan séu hreyfihvetjandi. Skólarnir þurfa því að bjóða upp á fjölbreytta möguleika og ættu íþróttafræðingar að leggja sig alla fram við að auka áhuga nemendanna, á forsendum hvers og eins. Með heimalestri ættu nemendur að,,skila“ 2–3 hreyfistundum á viku, undir einhvers konar eftirliti sem getur verið innan ýmissa hópa sem skólinn býður upp á, innan íþróttafélaganna, á líkamsræktarstöðvum eða annars staðar, á eigin forsendum. Í upphafi skólaárs setur hver og einn nemandi sér markmið í samvinnu við íþróttafræðingana. Þau markmið geta tengst þyngd/fituprósentu, fjölda hreyfistunda, styrk, úthaldi eða öðrum þáttum sem stjórna lífsgæðum og hæfni einstaklingsins. Þessi markmið skulu svo notuð til viðmiðunar við árangursmat í lok annar/skólaárs. Íþróttafræðingurinn verður að sjá til þess að nemandinn fái þá þekkingu sem markmið hans krefjast.
    Íþróttakennsla í framhaldsskólum gæti farið fram í hópum þar sem nemendur velja sér verkefni við hæfi, í stað bekkjartíma (a.m.k. að hluta). Einstaklingar ættu því að geta skráð sig í mismunandi hópa í samráði við kennarann og markmið sín, svo sem boltagreinar, líkamsrækt, skokkhóp, sund, þrekþjálfun, eróbikk, jóga og svo mætti lengi telja. Hreyfistundir ættu að vera 4–5 sinnum í viku.
    Stuðla þarf að aukinni heilsurækt og jákvæðum lífsstíl í framhaldsskólum. Kannanir sýna að nemendur á framhaldsskólastigi eru almennt neikvæðir gagnvart íþróttakennslu (í því formi sem hún er) og 40% stúlkna segjast hætta í íþróttum af því þær hafi ekki tíma. 7 Þá segjast yfir 50% stelpna og stráka hafa hætt að stunda íþróttir með íþróttafélagi af því þau misstu áhugann. Til að standast kröfur samtímans vinna margir nemendur samhliða námi en slíkt bitnar á íþrótta- og tómstundastarfi þeirra. Reyndir íþróttafræðingar segja að nemendur kvarti oft undan bak- og hnjáeymslum sem rekja megi til kyrrsetu. Líkamsrækt er vinsælasta hreyfingin meðal framhaldsskólanemenda en alls stunduðu 34,8% líkamsrækt árið 2004 vikulega eða oftar en 23,4% sögðust iðka knattspyrnu. 7
    Kannanir sýna að 57% skólastjórnenda í framhaldsskólum þykir sjálfsagt að nemendur geti útskrifast án þess að uppfylla námsskyldu í íþróttum. 7 Það liggur í augum uppi að þessi afstaða skólastjórnenda er letjandi fyrir aukið íþróttastarf í skólunum.
    Fagaðilar telja að það kosti um 12–15 milljónir kr. að setja upp fullnægjandi aðstöðu til líkamsræktar í framhaldsskólum. Sé slík aðstaða til staðar, með starfandi íþróttafræðing, geta nemendur sinnt æskilegri hreyfingu (æfingu) í þeim ,,götum“ sem myndast oft í stundaskrá á framhaldsskólastigi, fyrir utan hefðbundna íþróttakennslu. Íþróttafræðingur sæi um að leiðbeina nemendum og hann gæti enn fremur fylgst með hreysti viðkomandi og aðstoðað hann við að setja upp einstaklingsmiðaða æfingaáætlun.
    Mikið er um brottfall nemenda á framhaldsskólastigi úr íþróttum og verður að leita allra leiða til að vekja áhuga þeirra á hollum lifnaðarháttum, fjárfesta í eigin heilsu. Hefja þarf íþróttakennslu í framhaldsskólum til vegs og virðingar með aukinni fjölbreytni, stuðningi við nemendur, aga og aðhaldi. Samkvæmt könnun frá árinu 2004 telja 37% nemenda framhaldsskóla, sem stunda íþróttir eða líkamsrækt vikulega eða oftar, andlega heilsu sína mjög góða en samsvarandi hlutfall er 24,5% hjá þeim sem segjast ekki stunda íþróttir eða líkamsrækt eða sjaldnar en vikulega. 7
Framkvæmdaraðilar: Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

19)    Nemendur stundi íþróttaiðkun allar annirnar.
    Í framhaldsskólum (fjölbrautakerfi) þarf að ljúka 8 einingum í íþróttum til stúdentsprófs. Íþróttakennarafélag Íslands telur að nemendur þurfi og eigi að stunda íþróttir, á ábyrgð skólans, öll árin til að halda þeim við efnið og draga úr brottfalli.
    Sífellt fleiri framhaldsskólar koma með meiri fjölbreytni inn í íþróttakennsluna með þarfir einstaklingsins að leiðarljósi. Aðgangur nemenda að líkamsræktarstöðvum er ein leið, góð og gild, en stjórnendur skólanna verða að gera sér grein fyrir því að til þess að slík kennsla skili árangri þurfa þeir að hafa fagaðila við störf, íþróttafræðinga, sem bera ábyrgð og halda utan um markvissa og einstaklingsmiðaða heilsurækt (líkamsrækt).
    Samkvæmt könnun, sem var gerð árið 2004, sögðust 13,3% stráka og 15,7% stelpna í framhaldsskólum nær aldrei stunda íþróttir eða líkamsrækt. 20,4% stráka og 25,7% stelpna sögðust stunda líkamsrækt eða íþróttir vikulega eða sjaldnar. Hins vegar sögðust 54,2% stráka og 71,9% stelpna aldrei æfa íþróttir með íþróttafélagi. 7
Framkvæmdaraðilar: Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

20)    Hagnýt næringarfræði, upplýsingalæsi á matvæli, verði valáfangi á öllum brautum framhaldsskólastigsins.
    Það er gífurlega mikilvægt að nemendur á öllum skólastigum fái viðeigandi fræðslu í næringarfræði. Hægt væri að þróa lífsleikniáfanga sem fjallaði um næringarfræði og heilsufræði eða gera næringarfræði hluta af íþróttakennslu. Eitt af því sem er mikilvægt er að nemendur kunni að lesa úr innihaldslýsingum matvæla og öðlast grundvallarþekkingu á áhrifum hollrar næringar á heilsu og líðan.
Framkvæmdaraðilar: Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

21)    Hreyfihvetjandi aðstaða, með viðeigandi áhöldum og tækjum, sé til staðar innandyra sem utan.
    Það eru ekki einungis grunnskólabörn sem þurfa að nýta það svigrúm sem gefst yfir daginn til að hreyfa sig, svo sem íþróttatíma, frímínútur og aðrar eyður í töflu. Fjölbreytt aðstaða til hreyfingar ætti því að vera til staðar í framhaldsskólum, innandyra sem utan. Eðlilegast væri að heyra hvaða óskir nemendur hafa en þarna gæti verið um að ræða t.d. sparkvelli, körfuboltaspjöld, borðtennisborð og aðgang að þreksal og sturtum.
    Virkur ferðamáti er ein áhrifaríkasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi. Því er mikilvægt að til staðar sé góð aðstaða til að geyma hjól, hafa fataskipti og jafnvel komast í sturtu.
Framkvæmdaraðilar: Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

22)    Hléæfingar verði fastur liður í skólastarfinu.
    Með aukinni tæknivæðingu eykst sífellt hlutur kyrrsetustarfa. Einhæf kyrrsetustörf geta haft ýmis vandamál í för með sér, svo sem álagsmeiðsli í stoðkerfi. Einn liður í að sporna gegn slíkri þróun er að gera reglulega hléæfingar (æfingar sem auka blóðflæði um líkamann og liðka helstu álagssvæði). Hléæfingar ættu að vera hluti af sem flestum kennslustundum og þá ekki síst af þeim tímum þar sem setið er við tölvu. Slíkar æfingar eru ekki aðeins góðar fyrir heilsu nemenda á meðan skólavist þeirra varir heldur verður reglubundin iðkun þeirra vonandi hluti af lífsstíl nemenda í framtíðinni (dæmi: Menntaskólinn á Akureyri).
Framkvæmdaraðilar: Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

HÁSKÓLAR:

23)    Næringarfræði verði stórlega efld á brautum sem varða heilbrigðisþjónustu og íþróttafræði.
    Það er mjög mikilvægt að þeir sem hafa atvinnu af því að meðhöndla einstaklinga (læknar, hjúkrunarfræðingar, tannlæknar o.fl.) eða fræða almenning um allt sem varðar líkamlegt heilbrigði séu vel að sér í næringarfræði.
    ,,Látið fæði vera lækningu ykkar og lækninguna vera fæðið,“ sagði Hippókrates um 440 árum fyrir Krist en Hippókrates er talinn faðir læknisfræðinnar. Rúmlega 1200 árum síðar sagði Thomas Edison: ,,Læknir framtíðarinnar mun ekki vísa á nein lyf heldur vekja áhuga sjúklinga á að fyrirbyggja sjúkdóma með því að hlúa að líkama okkar með réttri fæðu.“
    Þótt það hljómi eins og klisja að við séum það sem við borðum eru það orð að sönnu. Því fleiri sem eru vel að sér í næringarfræði og geta komið góðum boðskap áleiðis, þeim mun meiri líkur eru á því að fólk snúi sér í ríkara mæli að hollara fæði og heilbrigðari lífsháttum.
Framkvæmdaraðilar: Háskólar og menntamálaráðuneytið.

24)    Hollur og næringarríkur matur aðgengilegur í háskólum.
    Þegar fólk er svangt grípur það yfirleitt það sem hendi er næst án tillits til næringarinnihalds vörunnar. Grænmeti, ávextir og annað hollmeti þarf að vera áberandi og aðgengilegt í háskólum á kostnað sykraðra drykkja og sætinda.
Framkvæmdaraðili: Háskólar.

25)    Hreyfihvetjandi aðstaða í boði.
    Háskólanámi fylgir oft mikið álag og takmarkaður fjárhagur. Því er mikilvægt að nemendur hafi tækifæri til nýta það svigrúm sem gefst yfir daginn til að hreyfa sig á eigin vegum eða taka þátt í skipulögðum hreyfistundum, án þess að t.d. vegalengdir (tími) eða kostnaður sé hindrun. Má þarna nefna göngu, hlaup, skipulagða þrektíma, fasta hóptíma með félögum o.s.frv. Þannig er æskilegt að nemendur hafi hvenær sem er dagsins aðgang að vel búinni og aðlaðandi aðstöðu til að hafa fataskipti, fara í sturtu og stunda ýmiss konar þrekæfingar. Einnig er mikilvægt að bjóða upp á góða aðstöðu til að geyma hjól við allar byggingar.
Framkvæmdaraðilar: Framhaldsskólar og menntamálaráðuneytið.

2) HEILSUGÆSLA OG HEILBRIGÐISSTOFNANIR26)     Ljósmæður hafi mataræði, hreyfingu og heilbrigt líferni sem sérstakt viðfangsefni við mæðravernd og foreldranámskeið. Gert verði hentugt námsefni og starfsmenn mæðraverndar fari á sérstök námskeið til að tileinka sér þetta efni.
    Meðgangan er æviskeið þar sem konur eru taldar sérstaklega líklegar til að vilja breyta lífsmynstri sínu og taka upp heilsusamlegri lífshætti. Við mæðravernd skapast því lykilaðstaða varðandi fræðslu um mikilvægi hollrar næringar og hreyfingar. Verðandi foreldrar ættu að fá fræðslu um heilbrigða lífshætti, svo sem heppilega næringu og hreyfingu á meðgöngu, mikilvægi brjóstagjafar og um næringu barna eftir að brjóstagjöf lýkur. Eins er mikilvægt að fræða nýbakaða foreldra um hreyfingu móður eftir fæðingu og hvernig hægt er að fylgjast með og örva hreyfiþroska barnsins strax frá upphafi. Samhæfa má þessa fræðslu því átaki sem lagt er til með tillögu 27 varðandi ungbarnaeftirlitið.
Framkvæmdaraðilar: Landlæknisembættið og heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu.

27)    Ungbarnaeftirlit verði notað eins og kostur er til að fræða foreldra um næringu barna og mikilvægi fjölbreyttrar hreyfiörvunar. Þetta verði gert samhliða fræðslu um brjóstagjöf og hefjist eigi síðar en við þriggja mánaða skoðun. Farið verði yfir það námsefni sem fyrir er.
    Velheppnuð brjóstagjöf er móður og barni mjög mikilvæg. Rannsóknir sýna að hún styrkir tengsl þeirra og að áhrif brjóstamjólkur á heilsu barnsins eru margvísleg, bæði til lengri og skemmri tíma. Mjólkin er vörn gegn sýkingum og hvati á vöxt og þroska barnsins. Athyglisvert er að ýmsar rannsóknir sýna að lengd brjóstagjafar getur haft forvarnargildi hvað varðar þróun offitu hjá börnum síðar meir. 50
    Að því kemur að brjóstamjólkin er ekki fullnægjandi fyrir barnið og það þarfnast annarrar fæðu og þarf að venjast henni. Þörf foreldranna fyrir fræðslu um þetta efni er ótvíræð. Hins vegar er misjafnt við ungbarnaeftirlit hvernig henni er mætt og það er á reiki hvaða ráð eru heppilegust í þessum efnum. Því ræður m.a. að yfirlitsgreinar um efnið eru fremur fáar og rannsóknir af skornum skammti. Því er mikilvægt að ætíð sé stuðst við bestu fáanlegu þekkingu að þessu leyti og gagnreynda læknisfræði því margt bendir til að í bernsku sé grundvöllur lagður að holda- og heilsufari síðar á lífsleiðinni. Að sama skapi er einnig mikilvægt að fræða foreldra um hvernig þeir geta fylgst með og örvað hreyfiþroska barnsins strax frá upphafi.
Framkvæmdaraðilar: Landlæknisembættið og heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu.

28)    Efld verði skráning og úrvinnsla rafrænna upplýsinga um líkams- og hreyfiþroska barna, hæð og þyngd í grunnskóla.
    Í marga áratugi hefur verið fylgst með heilbrigði barna í grunnskóla og m.a. verið skráð niður hæð þeirra og þyngd. Út frá lýðheilsusjónarmiði er mikilvægt að þessi tölulegu gögn séu skráð rafrænt og varðveitt þannig að hægt sé að vinna úr þeim upplýsingar um þróun heilsufars meðal grunnskólabarna á Íslandi.
Framkvæmdaraðilar: Heilsugæslan og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

29)    Heilbrigðisþjónusta í grunnskóla verði efld.
    Skólahjúkrunarfræðingar eru mikilvægir starfskraftar og hafa góðan grunn til að gera þær heilsufarsathuganir á börnum sem getið er í tillögum 11 og 28 og einnig menntun til að taka þátt í að fræða börnin og veita þeim jafnframt persónulega þjónustu. Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingum verði fjölgað og starfssvið þeirra skilgreint enn betur.
Framkvæmdaraðilar:      Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, landlæknisembættið og menntamálaráðuneytið.

30)     Heilsufarsskoðun fari fram á heilsugæslustöð eða hjá heimilislækni við 35 ára aldur hjá öllum. Þar fáist ráðgjöf um lífsstíl byggð á grundvelli mælinga á hæð, þyngd, blóðþrýstingi, blóðsykri og kólesteróli og á grundvelli upplýsinga um mataræði, hreyfivenjur, reykingar og áfengisneyslu.
    Áhugi samfélagsins hefur fyrst og fremst beinst að skimun fyrir sjúkdómum. Sá áhugi hefur í meginatriðum varðað eldri hópa þýðisins og yngri konur vegna tveggja sjúkdóma, leghálskrabbameins annars vegar og brjóstakrabbameins hins vegar. Fullnægjandi rök eru fyrir því að yngra fólki sé boðin skimun í forvarnarskyni sem beinist að því að vefa saman lífsstíls- og líkamsathugun hjá frísku fólki þar sem sjúklegu ástandi er ekki til að dreifa í hverri skoðun (mælingu). Hálffertugt fólk er að verða miðaldra og á þessum aldri koma fram afleiðingar óheppilegs lífsstíls, fólk þyngist, kyrrseta eykst oft án þess að næring dragist saman og erfiðara verður að breyta öðrum óheppilegum þáttum í fari hvers og eins hvað heilsuna varðar. Þessi skoðun gæti því bætt heilsu fólks í bráð og lengd.
Framkvæmdaraðilar:     Landlæknisembættið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Lýðheilsustöð.

31)    Ávísanir á hreyfingu verði hluti þeirra úrræða sem læknar hafa handa skjólstæðingum sínum og þeim verði fundinn staður í tryggingakerfi landsmanna.
    Hreyfing er sjálfstæður áhrifaþáttur til heilsubótar. Af tveimur einstaklingum, sem kljást við langvinna sjúkdóma en eru að öðru leyti sambærilegir, vegnar þeim betur heilsufarslega sem hreyfir sig meira. Þetta vísar bæði til líkamlegrar og geðrænnar heilsu. 51 Hreyfing er lykilatriði við meðferð efnaskiptavillu og einnig til að fyrirbyggja hana svo dæmi sé tekið. Lyfjameðferð við efnaskiptavillu getur tekið til hjarta- og æðasjúkdóma, blóðfituhækkunar, sykursýki og fleiri vandamála. Hún getur kostað sjúklingana 10–100 þús. kr. á ári og ríkissjóð 50–300 þús. kr., gróflega áætlað. Það er því skynsamleg fjárfesting að læknar hafi í það minnsta jafna kosti, hvað varðar hreyfingu og lyf, þegar ráðgjöf um meðferð er veitt.
    Nokkur tilraunaverkefni eru í gangi í þessa veru svo sem Græni lífsseðillinn sem félag sjúkraþjálfara heldur utan um í samvinnu við aðra og hinn svokallaði Hreyfiseðill á heilsugæslustöð Garðabæjar. Í stað þess að ávísa á lyfseðil fá ,,sjúklingar“ ávísun á hreyfingu (sund, skokk eða líkamsrækt) allt eftir þörfum og óskum hvers og eins.
Framkvæmdaraðili: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

32)     Læknar (og aðrar heilbrigðisstéttir eftir atvikum) fái meiri fræðslu í næringarfræði í því augnamiði að þeir geti greint betur innihald algengra matvæla, áhrif matreiðslu á fæðuna og geti þannig átt upplýsandi samræður við sjúklinga sína um þessa meginundirstöðu tilveru hvers og eins.
    Læknar geta í læknisviðtalinu haft mikil áhrif á afstöðu fólks til lífsstílsbreytinga og á árangur af slíkum breytingum. Þessu til sönnunar eru endurteknar rannsóknir, einkum í tengslum við tóbaks- og áfengisnautn. Árangur læknisins er háður áhuga hans á viðfangsefninu og þekkingu hans og innsæi í tilveru þess sem hann aðstoðar. Þessa fullyrðingu styður einnig reynsla lækna af meðhöndlun sjúkdóma þar sem upplýst ráðgjöf um sérstakt mataræði er grundvallaratriði. Kennsla annarra heilbrigðisstétta en næringarfræðinga í grunnnámi um þessi efni er lítil sem engin. Sjái læknadeild ekki tækifæri til að mæta þessari þörf er nauðsynlegt að þeim læknum, sem bæta vilja þekkingu sína á þessu sviði, verði gert það kleift og til þess fremur örvað en latt.
Framkvæmdaraðilar:      Fræðslustofnun lækna, fagfélög heilbrigðisstétta og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.


3) ATVINNULÍF OG VINNUSTAÐIR33)    Matur á vinnustöðum sé hollur og í samræmi við þarfir starfsmanna.
    Fólk ver miklum hluta dagsins í vinnu og því er mikilvægt að aðstæður séu á vinnustað til að auka heilbrigði og vellíðan starfsmanna. Starfsmenn ættu að eiga kost á næringarríkum málsverði á vinnustaðnum (í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar) og geta fengið nægt grænmeti og ávexti með og á milli mála. Hægt er að nýta fundi til að bjóða upp á hollustu, svo sem ávexti og grænmeti í stað óhollustu.
    Auka mætti fræðsluefni og upplýsingar um heilbrigðan lífsstíl sem fyrirtæki geta nýtt á vinnustað, bæði í formi bæklinga og í gegnum vefsíður til að auka meðvitund fólks um að hollur matur og lífsstíll hefur áhrif á einbeitingu, vellíðan og afköst.
Framkvæmdaraðilar: Atvinnurekendur, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið.

34)    Heilsuræktarstyrkir verði án hlunnindaskatts fyrir starfsmenn fyrirtækja og stofnana.
    Við áramótin 2005–2006 tóku gildi ný lög um hlunnindaskatt á heilsuræktarstyrki til starfsmanna. 52 Mikill kostnaður er hindrun fyrir ástundun hreyfingar og því er líklegt að niðurfelling á umræddum hlunnindaskatti myndi hvetja og styðja fleiri starfsmenn til að stunda reglulega hreyfingu, fyrirtækinu og samfélaginu til hagsbóta. Andvirði hlunnindaskatts færi í aðra neyslu með virðisaukaskatti sem rynni hvort sem er í ríkissjóð.
Framkvæmdaraðili: Fjármálaráðuneytið.

35)    Geymsluaðstaða fyrir hjól og góð hreinlætisaðstaða með sturtu á vinnustöðum.
    Ef góð hreinlætisaðstaða og sturta er fyrir hendi á vinnustöðum eru meiri möguleikar á því að starfsmenn velji fremur að hjóla, ganga eða skokka til vinnu en ef engin slík aðstaða er fyrir hendi. Slíkar aðstæður hvetja einnig til aukinnar hreyfingar í tengslum við vinnutímann, svo sem í hádegishléi. Þeir sem stunda einhvers konar hreyfingu/æfingar eru líklegri til að auka afköst sín, vera jákvæðari og líklegri til að standast vinnutengt álag.
Framkvæmdaraðilar: Félagsmálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og umhverfisráðuneytið.

36)    Heilsuræktarstyrkir til starfsmanna verði að fullu frádráttarbærir frá skatti fyrir rekstraraðila.
    Slík aðgerð væri stuðningur og hvatning stjórnvalda til vinnuveitenda til að skapa aðstæður fyrir starfsmenn sína til heilsuræktar. Rannsóknir sýna að einstaklingar, sem stunda reglulega hreyfingu, eru heilsuhraustari, afkastameiri og eru síður fjarverandi frá námi (og vinnu) vegna veikinda. 53 Þannig er ekki aðeins um að ræða ávinning fyrir fyrirtækið heldur samfélagið í heild. Sem dæmi má nefna ef rekstraraðili veitir starfsmanni 25.000 kr. styrk á ári til heilsuræktar. Það þýðir að viðkomandi rekstraraðili gæti fengið skattaafslátt upp á 4.500 kr. fyrir hvern starfsmann vegna útgreidds heilsuræktarstyrks. Þessir fjármunir skila sér væntanlega að einhverju eða öllu leyti aftur í ríkissjóð í gegnum aðra keypta þjónustu starfsmannsins. Aðgerð ætti því ekki að vera sérstök tekjuskerðing fyrir ríkissjóð.
Framkvæmdaraðili: Fjármálaráðuneytið.

37)    Fjárstuðningur við íþróttastarfsemi verði frádráttarbær frá skatti.
    Stuðningur fyrirtækja við íþróttastarfsemi á Íslandi, ekki síst við meistaraflokka karla, er mikill og skiptir sköpum fyrir þá sem hans njóta. Yfirvöld þurfa að hvetja fyrirtæki til að setja meira fjármagn til eflingar íþróttastarfi í landinu gegn því að tryggja að fjárhæðin sé að fullu frádráttarbær frá skatti, ekki hluti hennar eins og tíðkast í dag. Brýnast er að fjárstuðningur við fjölbreytt unglingastarf verði aukinn.
Framkvæmdaraðili: Fjármálaráðuneytið.

38)    Efling landsnets um heilsueflingu á vinnustöðum.
    Efla þyrfti landsnet um heilsueflingu á vinnustöðum sem er verkefni sem hefur verið í gangi í nokkur ár og stýrt af Vinnueftirlitinu. Í heilbrigðisáætlun ríkisstjórnarinnar þarf að leggja áherslu á þátt atvinnu í heilsufari landsmanna og mikilvægi góðrar vinnutengdrar heilsu. Þá mætti vera með hvatningu og áróður á vinnustað, svo sem að það sé heilsusamlegra að nota stigann en lyftur, en Lýðheilsustöð hefur í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif gefið út slíkt veggspjald sem blasir við í mörgum opinberum byggingum og á vinnustöðum. Hvetjandi skilaboð geta haft heilmikið að segja og ættu sem flest fyrirtæki að beina starfsmönnum og gestum á stigaganginn.
Framkvæmdaraðilar: Vinnueftirlitið og Lýðheilsustöð.


4) SAMGÖNGUR OG SKIPULAGSMÁL39)    Við skipulagningu nýrra hverfa og enduruppbyggingu gamalla verði framkvæmt heilbrigðismat.
    Heilbrigðismat (Health impact assessment) er tiltölulega ný aðferðafræði til að meta áhrif stjórnvaldsaðgerða á heilsu og líðan þjóðar. Hér er um að ræða mat sem helst mætti líkja við umhverfismat þar sem metið er hver séu líkleg áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á náttúru og umhverfi. Brýnt er að yfirvöld kynni sér vel slíka möguleika þegar kemur að skipulagningu nýrra hverfa eða endurskipulagningu gamalla þannig að lagt sé mat á áhrif aðgerðanna á heilsu og líðan fólks en ekki bara á náttúru og umhverfi. Heilbrigðismat á vaxandi fylgi að fagna í heiminum og styðja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Alþjóðabankinn að það sé notað. Víða hafa verið gerðar tilraunir með að þróa aðferðafræði við slíkt mat en í raun er hún enn í þróun og verið er að prófa sig áfram með raundæmum. Í stuttu máli er heilbrigðismat aðferð sem fær samfélagið til að hugsa um hvaða áhrif tiltekin framkvæmd getur haft á lýðheilsu. Þetta er því mjög gott stjórntæki fyrir stjórnvöld til að nota við ákvörðun um stórar og smáar aðgerðir, einnig til að hjálpa til við forgangsröðun verkefna með það að markmiði að jákvæð áhrif verði sem mest og dregið sé úr þeim neikvæðu. Heilbrigðismat getur staðið eitt og sér en það er einnig hægt að hugsa sér það sem hluta af stærra matskerfi. 54
Framkvæmdaraðilar:     Heilbrigðisráðuneytið, umhverfisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið.

40)    Hjólreiðar verði fullgildur kostur í samgöngumálum og gert ráð fyrir hjólastígum jafnt sem gangbrautum og vegum.
    Líkur á hreyfingu í frítíma aukast um 20% ef útivistarsvæði er innan 1 km fjarlægðar, um 21% ef menntastofnun er innan 1 km fjarlægðar, um 23% þegar þéttleiki byggðar eykst um fjórðung, um 19% þegar þéttleiki þjónustu eykst um fjórðung. 55
    Hjólreiðabrautir verði sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skal tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skal gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli. Hjól ættu að vera viðurkennd og virt sem samgöngutæki en ekki bara tómstundagaman og ætti aðstaða til að geyma hjól að vera við allar opinberar stofnanir.
    Huga mætti að endurskoðun umferðarlaga þannig að réttur hjólreiðamanna væri aukinn í umferðinni á kostnað réttar bílsins. Það gæti orðið til þess að auka öryggi hjólreiðamanna til mikilla muna.
Framkvæmdaraðilar:     Samgönguráðuneytið, sveitarfélög, umhverfisráðuneytið og fjármálaráðuneytið.

41)    Aukin nýting almenningssamgangna.
    Samkvæmt skýrslu um samgönguskipulag í Reykjavík, sem unnin var af Reykjavíkurborg og verkfræðistofunni Hönnun, er meirihluti af öllum ferðum 6 ára og eldri íbúa á höfuðborgarsvæðinu farinn á einkabíl. 56 Hlutur strætisvagna er rúm 4% og hlutfall ferða, sem farnar eru gangandi/hlaupandi eða hjólandi, er rúm 19%. Innan við 1% ferða eru farnar á annan hátt, þ.e. á vélhjóli, með leigubílum, rútum eða skólabílum. Það eru því mikil sóknarfæri að auka nýtingu almenningsfarartækja sem kalla á aukna hreyfingu þegar gengið er til og frá biðstöð að heimili, vinnustað eða skóla. Árið 2005 voru ferðir í og úr vinnu farnar í yfir 88% tilvika í einkabíl.
    Það tíðkast í mörgum fyrirtækjum og stofnunum að greiða starfsmönnum aksturspeninga, ýmist eftir akstursbók eða föstum fjölda kílómetra á mánuði. Að sama skapi mætti hugsa sér að vinnuveitendur niðurgreiddu strætisvagnakort fyrir starfsmenn sem hvatningu til að nýta sér almenningsvagna sem krefst alla jafna aukinnar hreyfingar fyrir starfsmann á sama tíma og það væri umhverfisvænna fyrir samfélagið. Fara mætti í sérstakar aðgerðir til að auka notkun almenningssamgangna, svo sem að hvetja til breytinga á ferðavenjum til og frá vinnu. Í borgum erlendis, þar sem unnið er að breyttum ferðavenjum, tíðkast það að fyrirtæki greiði starfsmanni beingreiðslur í stað þess að útvega honum gjaldfrjálst bílastæði eða niðurgreiða gjaldskylt bílastæði. 56 Þessa greiðslu getur starfsmaðurinn notað í að greiða fyrir almenningssamgöngur eða notað í annað ef hann kýs að ganga/hjóla til vinnu. Tryggja þyrfti að slíkir styrkir væru undanþegnir hlunnindaskatti.
    Til að breyta ferðavenjum barna í grunnskólum hefur víða verið lögð áhersla á að fræða foreldra og hvetja til að láta börnin taka skólabíla eða ganga til skóla. Yfirvöld koma að þessu með því að bæta göngu- og hjólaleiðir og umferðaröryggi umhverfis grunnskóla.
Framkvæmdaraðilar:     Samgönguráðuneytið, sveitarfélög, vinnuveitendur og fjármálaráðuneytið.

42)    Græn svæði verði fjölskylduvænni og um leið meira hreyfihvetjandi, m.a. með leiktækjum.
    Víða í þéttbýlisstöðum eru opin, græn svæði sem almenningur nýtti enn betur ef þar væri komið fyrir einföldum, hreyfihvetjandi leiktækjum að ógleymdri aðstöðu til að geyma reiðhjól. Oft þarf ekki nema t.d. góðar klifurbrautir, körfuboltaspjöld, mark og spennandi leiktæki til að hreyfa við börnum. Það er mikilvægt að hafa net í körfuhringjunum þar sem körfuboltaspjöld eru á opnum svæðum. Stórátak í dreifingu sparkvalla um gjörvallt land á síðustu árum hefur lyft knattspyrnuiðkun upp á hærra plan og gert ungum iðkendum kleift að æfa og/eða leika sér við góðar aðstæður.
    Ný reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim tók gildi í janúar 2003. 57 Í reglugerðinni eru m.a. gerðar kröfur um daglegt eftirlit og árlega skoðun faggilts aðila en það þýðir að rekstraraðilar verða að kaupa þessa þjónustu frá faggiltri skoðunarstofu. Enn hefur ekki verið samræmt á landsvísu hvernig bregðast á við athugasemdum sem koma fram við skoðun hjá faggiltum aðila, þ.e. hvort rekstraraðila ber skilyrðislaust að lagfæra leiksvæði samkvæmt slíkum skoðunum og þá hvaða tímamörk eru sett hvað það varðar eða hvort heilbrigðiseftirliti beri að framfylgja athugasemdum sem koma fram við slíka skoðun. Skoða þarf vel að möguleikar til útivistar og öryggismála fari vel saman.
Framkvæmdaraðilar:     Sveitarfélög og samgönguráðuneytið.

43)     Hitalagnir undir nýjar gang- og hjólabrautir og fleiri bekkir á gönguleiðum.
    Heita vatnið er ein af auðlindum þjóðarinnar. Æskilegt væri að leggja hitalagnir undir gang- og hjólabrautir þar sem því verður við komið til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda að vetrarlagi. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir eldri kynslóðina sem veigrar sér við að fara í gönguferðir yfir vetrartímann vegna fallhættu. Í könnunum, sem voru framkvæmdar meðal eldri borgara á dvalar- og hjúkrunarheimilum í Reykjavík, kemur fram að eldri borgurum þykir skorta töluvert af bekkjum á gönguleiðum þeirra. 58 Þeir halda því fram að þeir færu í lengri gönguferðir ef þeir gætu tyllt sér oftar niður á leiðinni. Göngu- og hjólastígum þarf að halda vel við, t.d. moka snjó, sandbera, sópa, halda þeim vel lýstum o.s.frv.
Framkvæmdaraðilar: Samgönguráðuneytið, sveitarfélög og orkuveitur.


5) NEYTENDAMÁL


44)    Skýrar merkingar á matvælum með læsilegum og skiljanlegum innihaldslýsingum.
    Þótt Ísland sé ekki í Evrópusambandinu þarf það, sem hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, að merkja matvörur samkvæmt tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu. Gert er ráð fyrir nýjum reglum frá Evrópusambandinu innan ekki langs tíma. Mikilvægt er að merkingar á umbúðum matvæla verði gerðar skýrari og þannig auðveldari til aflestrar fyrir neytendur. Eftirfarandi atriði væru til bóta:
    1.    Byggt verði ofan á núverandi merkingar.
    2.    Öll matvæli verði merkt með næringarinnihaldi.
    3.    Næringargildi sé áfram gefið upp miðað við 100 grömm en jafnframt sé skilgreind skammtastærð í grömmum (t.d. ,,skál“ af morgunkorni = 40 g) svo auðvelt sé að reikna næringargildi fyrir hvern skammt.
    4.    Merkingar á kílójoule (kJ) verði felldar niður en þess í stað einungis miðað við kílókaloríur (kcal) til að forðast rugling. (Kílókaloríur eru sama og hitaeiningar.)
    5.    Fari magn af viðbættum sykri, hertri fitu eða matarsalti í tiltekinni matvöru yfir tiltekið mark (t.d. 2 grömm af sykri í 100 g, 1 g af hertri fitu í 100 g eða 250 mg matarsalts í 100 g) sé framleiðandi skyldaður til að merkja nákvæmlega magn viðbætts sykurs, hertrar fitu eða matarsalts í vörunni.
    6.    Skylt verði að merkja allar matvörur sérstaklega sem innihalda herta fitu.
    7.    Skylt sé að merkja á umbúðir allrar unninnar vöru úr fiski, kjöti, grænmeti og ávöxtum (á áberandi stað) hversu hátt hlutfall fisks, kjöts, grænmetis eða ávaxta varan inniheldur miðað við 100 grömm (t.d. % af rækjum í rækjusalati eða % af ávaxtasafa í blönduðum ,,djús“).
    8.    Stefnt verði að því að koma á hollustumerkingum (,,umferðarljósamerkingum“) á matvörum hér á landi með samstarfi matvælaframleiðenda og heilbrigðisyfirvalda í því skyni að auðvelda almenningi að átta sig betur á hollustugildi matvæla.

    Á Íslandi er ekki skylda að gefa upp næringarinnihald matvæla þótt það tíðkist í flestum tilfellum. Evrópusambandið hvetur framleiðendur til að gefa sem gleggstar upplýsingar á matvælum og hér á landi ætti það að vera skylda í öllum tilfellum að merkja næringarinnihald matvæla til að auðvelda neytendum að átta sig á næringargildi þeirra.
    Núverandi merkingar á næringarinnihaldi eru líklega óþarflega flóknar fyrir hinn almenna neytanda og ætti að einfalda þær og skýra þar sem kostur er. Til að mynda er óþarfi að gefa upp orkuinnihald bæði í kcal (hefðbundnar hitaeiningar) og kJ. Rétt er að sleppa kJ til að einfalda merkingar.
    Þar sem fólk er yfirleitt tímabundið þarf að vera auðvelt og fljótlegt að átta sig á því hvaða matvæli eru holl og hvaða næringarefni þau innihalda. Þannig hafa sumar matvælaverslunarkeðjur og yfirvöld í Bretlandi tekið höndum saman og unnið að nýjum merkingum á matvælum sem auðvelda neytandanum að velja holla vöru á skjótan hátt. Það sem vekur eftirtekt er að þetta var gert án þess að reglugerðir væru settar, heldur gert með þarfir neytandans að leiðarljósi. Þessar viðbótarmerkingar sýna viðskiptavininum á augljósan máta hversu mikla fitu, sykur og salt varan inniheldur. Þetta er gert með tölulegum upplýsingum auk þess sem umferðarljósalitirnir eru notaðir til að gefa til kynna hversu hátt hlutfall af þessum næringarefnum er í matvörunni. Æskilegt væri að svipað kerfi yrði byggt upp hér á landi þar sem því mætti koma við. Sala á óhollum mat hefur minnkað um allt að 40% í breskum matvöruverslunum eftir að farið var að merkja matvörur og tilgreina nákvæmlega hve mikið af fitu, sykri og salti varan inniheldur. 59
    Íslenskar merkingar gefa ekki nógu glögga mynd af innihaldi í sumum tilfellum og á neytandinn erfitt með að átta sig á hversu mikið af kjöti, fiski eða ávöxtum er í afurð, til að mynda hversu mikið er af rækjum í rækjusalati eða hversu hreinn ávaxtasafinn er. Þetta þarf að vera merkt með augljósum hætti. Einnig þarf að gefa upp á umbúðum hver meðalskammtur er til að auðvelda neytandanum að reikna út næringargildið og hversu margir skammtar eru í pakkningu.
    Auka þarf almennt læsi neytenda á merkingar þannig að þeir geti áttað sig á hollustu matvæla út frá grunnmerkingum. Þetta þarf að gerast í samvinnu fjölmiðla, skólakerfis, Umhverfisstofnunar og Lýðheilsustöðvar.
    Í Svíþjóð hefur Græna skráargatið verið notað síðan 1989 til að merkja holla matvöru en slíkt er valfrjálst þar í landi. Viðmið er til frá Svíþjóð um hvaða vörur gerðu tilkall til slíkra hollustuvísa og ættu fagaðilar á Íslandi að geta nýtt þá vinnu við að flokka hollustuvörur hérlendis og leyfa merkingar á þeim vörum sem uppfylla viðkomandi skilyrði ef áhugi væri á að fara sambærilega leið í umbúðamerkingum.
Framkvæmdaraðili: Umhverfisráðuneytið.

45)    Kannað hvort rétt sé að takmarka auglýsingar á óhollum mat sem beint er að börnum.
    Börn og unglingar verða fyrir miklu áreiti af auglýsingum og eru mikilvægur hópur fyrir matvælafyrirtækin þar sem smekkur þeirra mótast snemma á lífsleiðinni. Sum börn hafa yfir talsverðum peningum að ráða auk þess sem þau geta haft áhrif á matvöruval foreldranna.
    Í aðgerðaáætlun Svía kemur fram að aukin áhersla á neytendapólitík geti verið nauðsynleg, sérstaklega til að vernda viðkvæma hópa eins og börn og efnaminni þjóðfélagshópa. 13
    Food Standard Agency í Bretlandi stóð fyrir viðamikilli úttekt þar sem farið var í gegnum rannsóknir á áhrifum matarauglýsinga í sjónvarpi á börn á kerfisbundinn hátt og eru niðurstöðurnar birtar í greinargóðri skýrslu. 11 Ástæðan fyrir úttekt þessari voru áhyggjur af óhollu mataræði breskra barna og aukning í ofþyngd og offitu meðal þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að þær fæðutegundir, sem mest er haldið að börnum í auglýsingum, eru þær sem stuðla að óhollu mataræði, þ.e. fæðutegundir sem eru fitu-, salt- eða sykurríkari en talið er æskilegt en sjaldan hvatt til að borða holla fæðu. Það kom fram að matarauglýsingar hafa áhrif á val barna á matvælum, innkaupavenjur þeirra og neyslu bæði þegar miðað var við vörumerki, t.d. hvaða súkkulaðistykki á að velja, og við flokka (sælgæti eða ávexti). Börnin velja t.d. frekar sælgæti en ávexti og frekar sykrað morgunkorn en ósykrað eftir að hafa horft á auglýsingar um slíkar vörur en hvort tveggja er mjög óæskilegt út frá hollustusjónarmiðum. Skýrsla Food Standard Agency tekur einungis fyrir sjónvarpsauglýsingar. Trúlega eru því heildaráhrif matarauglýsinga á börn vanmetin.
    Matvælaiðnaðurinn notfærir sér margar aðrar leiðir en sjónvarp til að koma vörum sínum á framfæri við börn. Það eru t.d. skólarnir, Netið, útvarp, myndasögur, bíó og að láta leikföng fylgja með á skyndibitastöðum. Skoða þyrfti íslenska auglýsingamarkaðinn, hvað og hve mikið er auglýst í kringum barnaefni í sjónvarpi, bíó, á keyptum mynddiskum fyrir börn o.s.frv. Í áðurnefndri sænskri aðgerðaáætlun kemur fram að á þeim tíma, sem gera má ráð fyrir að börn séu að horfa á sjónvarp, eru orkuþéttar vörur eins og súkkulaði, ís, gos, sælgæti og skyndibitar auglýstar. Árið 2003 var í Svíþjóð keyptur auglýsingatími fyrir þessar vörur í sjónvarpi á tímabilinu 07:00–08:00 fyrir 25 milljónir sænskra króna og á tímabilinu 17:00–20:00 fyrir 213 milljónir sænskra króna. Af tíu mest auglýstu fæðutegundunum voru engar þeirra fæðutegunda sem ráðlagt er að auka neyslu á en að stærstum hluta var um að ræða orkuþéttar matvörur. 13
    Í skýrslu, sem gefin er út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, er talið að ágeng markaðssetning skyndibita og orkuríkra en næringarsnauðra fæðutegunda eigi þátt í ofþyngdar- og offituvandanum. 61
    Eitt af mörgu, sem tekið er fyrir í aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um næringu, hreyfingu og heilsu, er markaðssetning og auglýsing á matvælum. Þar kemur fram að þeir sem auglýsa matvæli og drykkjarvörur eigi ekki að notfæra sér reynsluleysi og trúgirni barna. Rannsóknir hafa sýnt að auglýsingar á matvælum hafa áhrif á fæðuval og neysluvenjur barna. 10 Þau börn, sem horfa á auglýsingar, velja frekar auglýstar matvörur en þau börn sem ekki horfa á auglýsingar. Það er því talið mikilvægt að skerpa þær reglur sem lúta að auglýsingum og markaðssetningu matvæla fyrir börn. Stjórnvöld eru hvött til að taka höndum saman með neytendasamtökum, matvælaiðnaðinum og auglýsendum til að finna lausn á því hvort yfir höfuð eigi að leyfa markaðssetningu þar sem börn eru markhópurinn.
    Í fyrstu áfangaskýrslu verkefnis evrópsku hjartaverndarfélaganna og samtaka þeirra í 20 löndum, ,,Markaðssetning óhollrar fæðu sem beint er að börnum í Evrópu“, komast menn að eftirfarandi niðurstöðum: 62
    *    Sjónvarpsauglýsingar á óhollum matvörum, sem beint er að börnum, ætti að banna vegna þess að árangurinn verður ekki tryggður nema það sé gert á Evrópuvettvangi. Breyta ætti tilskipuninni ,,sjónvarp án landamæra“ til samræmis.
    *    Frekari aðgerða er þörf til að hlífa börnum við öðrum tegundum markaðssetningar á,,óhollum“ matvörum eins og til dæmis í skólum og á veraldarvefnum sem og í öllum öðrum miðlum, bæði ljósvakamiðlum og öðrum.
    *    Samkomulag þarf að nást um sameiginlega skilgreiningu ESB á því hvaða matvæli skuli teljast óholl.
    *    Koma þarf á skilvirku skipulagi og traustu vinnuferli til að fylgjast með eðli og umfangi markaðssetningar á matvælum handa börnum, svo og til að fylgjast með regluverki um þessa hluti í gjörvallri Evrópu.
    Heilbrigðisráðuneytið í Bretlandi birti Public Health White Paper (Choosing Health: making healthier choices easier) þar sem kemur fram að sterk rök séu fyrir því að takmarka markaðssetningu á fituríkum, söltum og sætum mat- og drykkjarvörum. 63
    Meirihluti foreldra 11 ára barna á Íslandi er fylgjandi því að takmarka markaðssetningu á feitum eða sykruðum mat sem beint er að börnum. 43
Framkvæmdaraðilar: Umboðsmaður barna og Lýðheilsustöð.

46)    Tryggt verði sem lægst verð á hollum matvælum og drykkjum.
     1.     Lækka verð á hollustuvörum eftir því sem kostur er.
    2.     Lækka vörugjöld og tolla á hollustuvörum eins og kostur er.
    3.     Tryggja að virðisaukaskattur bitni ekki á hollustuvörum.

    Vörugjöld á matvöru byggjast í mörgum tilfellum á afar veikum og tilviljanakenndum grunni enda var þeim upphaflega ætlað að bæta upp tekjutap ríkisins vegna afnáms tolla á grundvelli EFTA-samningsins. Nauðsynlegt er að fram fari endurskoðun á vörugjöldum og að í því samhengi verði horft til þess að vörugjöld verði afnumin af hollum matvörum. Þess ber að geta að samkvæmt nýlegri könnun eru 43% fullorðinna hlynnt aukagjaldi á sykurvörum sem lið í að bæta mataræði barna þeirra. Og 97% foreldra vilja að hollustuvörur séu í lægra skattþrepi. 43
    Miðað við núverandi fyrirkomulag felur skattlagning stjórnvalda enn í sér neyslustýringu sem er tilviljunarkennd og neytendum óhagstæð. Sem dæmi má nefna að vörugjald er af sykri ef hann fer í súkkulaði en ekki ef hann fer í skyrdrykki. Og 24,5% virðisaukaskattur er af hreinum ávaxtasafa og vatni en 14% af mjólkurvörum með sykri. Lækka þarf eða afnema vörugjald af kolsýrðu vatni svo það verði ódýrara en gosdrykkir.
Framkvæmdaraðili: Fjármálaráðuneytið.

47)    Hollar vörur verði staðsettar við sölukassa verslana.
    Í langflestum matvöruverslunum, byggingavöruverslunum, apótekum og víðar er nánast eingöngu hægt að grípa með sér sælgæti við afgreiðslukassana. Í biðröðum þrýtur oft þolinmæði foreldra gagnvart svöngum börnum og þá er gripið til þess sem hendi er næst. Gera þarf kröfur til verslana um að þær bjóði upp á ávexti, grænmeti og aðra hollustu í smáum og aðgengilegum einingum, jafnvel í snakkformi, við afgreiðslukassana. Aðgengi að hollustu skiptir máli og ætti að verðlauna þá sem standa sig vel á þeim vettvangi og finna til samfélagslegrar ábyrgðar með að bjóða upp á holla vöru á breiðum grunni.
Framkvæmdaraðili: Verslunareigendur.

48)    Matvælaframleiðendur hafi hollustuviðmið að leiðarljósi við vöruþróun.
    Matvælaframleiðendur hafa á undanförnum árum gert ágætlega í því að hafa hollustuviðmið að leiðarljósi við vöruþróun sína á nýjum vörum. Hefur skipulega verið dregið úr notkun á hertri fitu og viðbættum sykri og saltmagn minnkað.
    Samkvæmt síðustu neyslukönnun er hörð fita enn allt of stór hluti þeirrar fitu sem fólk neytir og veitir samtals um 16% orkunnar en æskilegt er að hún sé innan við 10%. Til harðrar fitu teljast mettaðar fitusýrur og transómettaðar fitusýrur. Í sömu könnun kom fram að sykurneysla er óvenjumikil meðal ungs fólks á Íslandi. Viðbættur sykur er í mjög mörgum fæðutegundum sem eru vinsælar meðal ungs fólks, svo sem gosi, sælgæti, kexi, kökum, mjólkurvörum og morgunkorni. 29
    Meðalneyslan úr könnuninni á salti samsvarar 9 grömmum á dag. 29 Brauð og unnar kjötvörur vega drjúgt í saltneyslunni og því er mikilvægt að minnka salt í þessum vörum án þess að skerða gæði eða geymsluþol.
    Hvetja þarf matvælaframleiðendur til að gera enn betur í að minnka notkun þessara hráefna í framleiðsluvörum sínum og nota önnur æskilegri hráefni í staðinn. Nýjar vörur, sem koma á markað, ættu að vera hollari en sambærilegar vörur sem eru þar fyrir og eldri vörur má einnig bæta út frá hollustuviðmiðum.
Framkvæmdaraðili: Matvælaframleiðendur.

49)     Matvælaframleiðendur og matsölustaðir hugi að skammtastærðum og verðlagi.
    Á síðustu árum hafa skammtar á matsölustöðum og í matvöruverslunum verið að stækka. Ofurskammtar fást nú á hagstæðu verði á matsölustöðum en ,,minni“ skammtar eru lítið ódýrari. Það segir sig nánast sjálft að unglingar kaupa frekar 2 lítra gosflösku en ½ lítra gos á sama verði. Þessu þarf að breyta.
    Þegar fólk fer á matsölustað eða kaupir tilbúinn mat neytir það oft meiri fitu, salts og hitaeininga en það áttar sig á. Skammtastærðir gegna því lykilhlutverki í að stilla hitaeiningum í hóf. Æskilegt væri ef veitingahús gæfu upp heildarmagn hitaeininga í skammtinum og þannig myndu ofurskammtarnir líklega fljótlega heyra sögunni til.
    Matvælaframleiðendur ættu einnig að huga að skammtastærðum sínum, sérstaklega í matvörum sem eru tilbúnar til neyslu.
Framkvæmdaraðili: Matvælaframleiðendur, verslanir og veitingahús.

50)    Íþróttamannvirki opin almenningi í lausum tímum.
    Byggð hafa verið íþróttamannvirki fyrir tugi milljarða á undanförnum árum og þrátt fyrir það anna þau ekki eftirspurn. Eigi að síður myndast oft ,,dauður“ tími í íþróttahúsum, ekki síst úti á landi á kvöldin og um helgar. Æskilegt væri að leyfa fjölskyldum að njóta þeirra tíma sem eru illa nýttir, ýmist með opnum fjölskyldutímum eða skipulögðum leikjum, stöðvaræfingum eða boltaleikjum.
    Það vita þeir sem hafa alist upp úti á landi að íþróttamannvirki þar standa stundum tóm þau kvöld sem ungmennin þurfa mest á þeim að halda. Ungmenni tækju því örugglega fagnandi að geta fengið útrás í sundi eða íþróttasal með jafnöldrum sínum í stað þess að ráfa um götur í leit að félagsskap sem gæti verið óheppilegur. Sveitarfélög ættu að íhuga það af alvöru að opna íþróttamannvirkin á þeim ,,viðkvæma“ tíma sem föstudags- og laugardagskvöld geta verið í lífi unglinga.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög og íþróttafélög.

51)    Ungbarnasund og sundleikfimi fyrir eldri borgara í öllum sundlaugum sem völ er á og sundlaugar opnar á kvöldin um helgar.
    Ungbarnasund hefur notið stöðugt meiri vinsælda á Íslandi á síðasta áratug enda er það sérlega styrkjandi og hreyfihvetjandi fyrir börnin. Þau öðlast betra jafnvægi, sækja meira í sund seinna meir og síðast en ekki síst er ungbarnasund frábær samverustund foreldra og barnsins.
    Sundleikfimi fyrir eldri borgara er ekki síður mikilvæg og hefur hún rutt sér til rúms á síðustu árum. Margar sundlaugar bjóða upp á sundleikfimi fyrir eldri borgara þegar aðsókn annarra gesta er í lágmarki. Allar sundlaugar á Íslandi ættu að bjóða upp á ungbarnasund og sundleikfimi fyrir eldri borgara undir handleiðslu menntaðra heilsuþjálfara.
    Fyrir um áratug gerði Reykjavíkurborg tilraun til að ná ungmennum af götum borgarinnar á föstudags- og laugardagskvöldum með því að hafa opið í Sundhöllinni fram eftir kvöldi umrædda daga. Tilraunin tókst einstaklega vel því ungmennin fylltu sundlaugina og léku sér í sátt og samlyndi í heilbrigðu umhverfi. Samkvæmt könnun frá árinu 2004 stunduðu aðeins 9,7% framhaldsskólanemenda sund til samanburðar við 14,6% fjórum árum áður. 7
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög og íþróttafélög.

52)    Ókeypis aðgangur að sundstöðum fyrir 12 ára og yngri.
    Sundferð er ekki eingöngu góð heilsubót heldur ákjósanleg fjölskyldustund. Búast má við að ókeypis aðgangur að sundstöðum fyrir 12 ára og yngri muni auka áhuga fólks á sundiðkun og að fjölskyldur fjölgi sundferðum sínum. Frá og með hausti 2005 hafa börn innan 12 ára aldurs í Reykjanesbæ fengið frítt í sund en það hefur ekki eingöngu aukið almenna sundiðkun í bænum heldur hefur það aukið aðsókn greiðandi iðkenda.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

53)     Fræðslu- og hvatningarherferðir sem vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að borða hollan mat og stunda reglulega hreyfingu.
    Árið 2002 auglýsti gosdrykkjaframleiðandi á Íslandi fyrir 160 milljónir króna fyrir utan þá kostun sem framleiðandinn stóð fyrir á öðru dagskrárefni ljósvakamiðla og kostun annarra viðburða í þjóðfélaginu. 64 Sláandi auglýsingar gegn notkun tóbaks hafa haft áhrif á vitund fólks gagnvart ákveðinni hegðan. Þótt ekki megi líkja neyslu tóbaks við neyslu matvæla er eigi að síður hægt að draga einhvern lærdóm af tóbaksvarnarauglýsingum.
    Þeir opinberu aðilar, sem hafa með málefnið að gera, þurfa að leggja drög að áhrifamiklum auglýsingum sem tengjast góðum fræðsluverkefnum og munu klárlega vekja fólk til betri vitundar um mikilvægi þess að við erum það sem við borðum, að foreldrar eru fyrirmyndir barnanna og að það er lífsspursmál að stunda reglubundna hreyfingu. Með nægu fjármagni ætti ekki að vera neinum vandkvæðum bundið að útbúa upplýsandi auglýsingar fyrir ljósvaka- og prentmiðla sem munu hreyfa við fólki. Það næst ekki vitundarvakning með því að hvísla skilaboðum út í þjóðfélagið. Ögrandi auglýsingar og fræðsluverkefni skapa umræður og skoðanaskipti.
Framkvæmdaraðili: Lýðheilsustöð.

54)    Einn stór gagnagrunnur, aðgengilegur á Netinu, um allt sem varðar heilbrigða lífshætti.
    Yfirgripsmikill gagnagrunnur um allt sem varðar heilbrigt líf myndi auðvelda fagaðilum og almenningi að nálgast þær upplýsingar sem hann þarf á að halda um heilbrigðan lífsstíl frá a til ö. Hægt væri að fletta upp næringargildi allra matvæla, hvað beri að forðast, með hvaða hætti sé hægt að taka sér tak til að komast í gott líkamsástand, hvar hægt sé að stunda íþróttir, hvar opin leik- og íþróttasvæði sé að finna og svo mætti lengi telja. Einnig ættu allar niðurstöður rannsókna um málefnið að vera aðgengilegar í grunninum. Nokkrir aðilar gætu sameinast um að búa til slíkan gagnagrunn, halda honum við og gera hann aðgengilegan almenningi. Ýmsar upplýsingar um hollt mataræði og heilbrigðan lífsstíl liggja víða fyrir en þær þurfa að vera aðgengilegar á einum stað.
Framkvæmdaraðilar: Lýðheilsustöð og sveitarfélög.

55)    Vörugjöld, tollar og virðisaukaskattur af reiðhjólum, útivistarvörum og öðrum hreyfihvetjandi tækjum eins lág og kostur er.
    Koma þarf á heildstæðri hreyfistefnu í landinu þar sem stjórnmálamenn leggja þyngstu lóðin á vogarskálarnar með því að lækka gjöld af þeim útbúnaði sem stuðlað getur að bættu heilbrigði þjóðarinnar. Misræmis gætir í skattlagningu reiðhjóla til samanburðar við önnur farartæki og þarf að gera almenningi kleift að fjárfesta í reiðhjóli á sem hagstæðustu verði.
Framkvæmdaraðili: Fjármálaráðuneytið.

56)    Fjölnota skýli með hjólabrettabrautum, brautum fyrir línuskauta, gangandi og skokkandi.
    Þegar ráðist er í byggingu ,,íþróttamannvirkja“ þarf ekki alltaf að byggja hallir með tilheyrandi kostnaði við sturtuaðstöðu, áhorfendapalla og fleira. Byggja má skýli áþekk gróðurhúsum þannig að sólin sjái að mestu leyti um að halda hita í húsinu. Það vantar tilfinnanlega innanhússaðstöðu fyrir jaðaríþróttagreinar eins og hjólabretta- og línuskautaiðkun og ætti að vera hægt að uppfylla þarfir ólíkra hópa með byggingu fjölnota skýla. Fólk gæti skokkað innandyra, gengið, klifrað og stundað aðra afþreyingu.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

57)    Heilsurækt í boði fyrir eldri borgara.
    Reynslan sýnir að það er aldrei of seint að hefja íþróttaiðkun eða reglulega hreyfingu. Eldri borgarar geta aukið lífsgæði sín verulega með því að hreyfa sig daglega. Nýleg rannsókn Janusar Guðlaugssonar íþróttakennara á íþróttaiðkun eldri borgara í Hafnarfirði staðfestir að þótt fólk sé orðið fullorðið getur það bætt þol sitt og styrk með því að ganga rösklega eða stunda heilsurækt. 65 Huga þarf sérstaklega að aðstöðu fyrir þennan aldurshóp og ættu dvalarheimili og félagsmiðstöðvar eldri borgara að sjá til þess að skipulögð hreyfing og líkamsæfingar standi heimilisfólkinu til boða. Skipulagðar gönguferðir, undir handleiðslu þjálfara, eru hvetjandi. Enn fremur ættu eldri borgarar að geta notið líkamsmælinga óski þeir eftir því og fengið leiðbeiningar um hvers konar hreyfing og mataræði hæfir líðan þeirra og líkamsástandi. Á lóðum dvalar- og hjúkrunarheimila ættu að vera púttvellir til að auka á fjölbreytnina í tómstundastarfi. Vel mætti hugsa sér að menntaðir íþróttafræðingar færu á milli dvalar- og hjúkrunarheimila og ýttu skipulagðri hreyfingu úr vör með fjölbreyttum æfingum og viðhéldu henni.
Framkvæmdaraðili: Sveitarfélög.

58)    Safnaðarheimili nýtt undir skipulagða hreyfingu eldri borgara.
    Í flestum kirkjum er rúmgott safnaðarheimili sem gæti án efa nýst samborgurunum betur. Þar mætti hugsa sér fjölþættar hreyfivænar uppákomur eins og leikfimi, jóga, göngu eða hvað sem er. Ef eldri borgarar hafa úr nokkrum möguleikum að velja, bæði í sínu nánasta umhverfi, innanhúss og utanhúss, eru líkur á því að fleiri myndu finna eitthvað við sitt hæfi.
Framkvæmdaraðili: Þjóðkirkjan.

6) ÍÞRÓTTAHREYFINGIN OG FRJÁLS FÉLAGASAMTÖK59)    Kostnaður við íþróttaiðkun viðurkenndur sem samfélagsframlag fyrir 18 ára og yngri.
    Sveitarfélög kosti þjálfun og æfingagjöld iðkenda til 18 ára aldurs en það tryggir að allir geti lagt stund á hvers kyns íþróttir án tillits til efnahags foreldra. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi íþróttaiðkunar og ættu allir að geta fundið íþróttagrein/hreyfingu við sitt hæfi. Kostnaður vegna æfingagjalda getur verið töluverður í barnmörgum fjölskyldum. Í ljósi mikils brottfalls ungmenna úr íþróttum er tímabært að grípa inn í og gefa börnum og ungmennum kost á því að stunda íþróttir eða aðra hreyfingu sér að kostnaðarlausu.
Framkvæmdaraðilar: Sveitarfélög, íþróttafélög og fjármálaráðuneytið.

60)    Öll börn og unglingar eigi þess kost að taka þátt í íþróttastarfi án tillits til keppni.
    Sveitarfélög eiga að gera kröfur til íþróttafélaga um að reka flokka fyrir öll aldursskeið þar sem engin áhersla er lögð á keppni, eingöngu leiki og kennslu. Þetta mætti gera í samvinnu við félagsmiðstöðvar og grunnskóla. Auk hefðbundinna ,,keppnisflokka“ stæði iðkendum til boða að æfa sína íþróttagrein án þess að gerðar væru kröfur um að þeir þyrftu að etja kappi við aðra. Þessir æfingaflokkar gætu æft nokkrum sinnum í viku og ættu iðkendur ætíð möguleika á því að færa sig yfir í keppnisflokk óski þeir eftir því. Mikið er um brottfall úr íþróttum á unglingsaldri, að hluta til vegna þess að of mikið er lagt upp úr keppnisliðum þar sem færri komast að en vilja. 53 Þá hentar ekki öllum að æfa með keppnisflokkum þar sem iðkendur eru í innbyrðis samkeppni og undir þrýstingi um að standa sig sífellt betur.
    Þess má geta að erlendar rannsóknir sýna að ungar íþróttastjörnur ná síður að slá í gegn á fullorðinsárunum en þau ungmenni sem vinna sig hægt og bítandi upp á við. 66
Framkvæmdaraðilar: Íþróttafélög, sveitarfélög og fjármálaráðuneytið.

61)    Íþróttafélögin reki íþróttaskóla fyrir ungmenni upp að 12 ára aldri.
    Í mörgum tilfellum velja foreldrar íþróttagreinar fyrir börnin sín út frá eigin áhugasviði og í einhverjum tilvikum heltast börnin snemma úr lestinni af því þau finna sig ekki. Æskilegast væri að börn og ungmenni fengju að kynnast sem flestum íþróttagreinum og velja sjálf sína framtíðargrein á eigin forsendum. Íþróttafélög þyrftu að bjóða upp á íþróttaskóla með fjölbreytni og gæði að leiðarljósi. Stjórnir og ráð ynnu að gæðum starfsins, félagslegri eflingu, foreldrastarfi, undirbúningi að uppákomum, ferðum, æfingabúðum, mótum og svo framvegis.
    Fimleikar og frjálsíþróttir eru t.d. frábær grunnur fyrir allar íþróttagreinar og mikilvægt að ungmenni fái alhliða þjálfun fram á unglingsaldurinn. Þrátt fyrir rekstur íþróttaskóla stendur ungmennum eftir sem áður til boða að stunda sína eftirlætisgrein eingöngu, óski þau frekar eftir því. Mörg börn og ungmenni leggja töluvert upp úr því að fá að keppa og reyna sig við aðra, strax á unga aldri, og ættu þau að geta fundið sinn farveg innan íþróttafélaganna þrátt fyrir að félögin starfræki jafnframt íþróttaskóla.
Framkvæmdaraðilar: Íþróttafélög með stuðningi ríkis og sveitarfélaga.

62)    Íþróttafélög bjóði upp á afþreyingu og/eða íþróttaiðkun fyrir foreldra/almenning.
    Á meðan börn og unglingar eru á íþróttaæfingum gætu foreldrar/forráðamenn í einhverjum tilvikum hugsað sér að nýta tímann til að æfa sjálf, lesa bók, stunda aðra afþreyingu eða njóta veitinga. Íþróttafélög ættu að huga að því að bjóða upp á ýmsa möguleika fyrir foreldra, ekki síst til að vera fjölskylduvænni því ef allir fjölskyldumeðlimir finna eitthvað við sitt hæfi hjá íþróttafélögunum eru minni líkur á brottfalli yngri iðkenda. Félögin gætu t.d. verið með skipulagða hlaupa- eða gönguhópa fyrir foreldra/almenning.
Framkvæmdaraðilar: Íþróttafélög og sveitarfélög.

63)    Grænmeti, ávextir og aðrar hollustuvörur seldar í íþróttahúsum og á sundstöðum.
    Í mörgum íþróttamannvirkjum er nánast eingöngu selt sælgæti og gosdrykkir en það hæfir engan veginn metnaðarfullu íþróttastarfi. Íþróttafélög verða að vera með skýr skilaboð til iðkenda enda byggist árangur í íþróttum ekki síst á góðri og hollri næringu. Flest félög reka ákveðna forvarnarstefnu en í sumum tilfellum er minna um efndir. Það vita þeir sem til þekkja að góður árangur næst ekki í íþróttum þótt æft sé alla daga ef næringarþættinum er ábótavant.
    Samkvæmt könnun vilja 77% foreldra á landsvísu ekki að sælgæti eða annað slíkt sé til sölu í íþróttahúsum. 43 Í stórum íþróttahöllum þar sem opinberir leikir fara fram eða sem nýtast til tónleikahalds er eðlilegt að meira úrval sé fyrir hendi fyrir þá viðburði. Íþróttamiðstöðin í Mosfellsbæ er dæmi um íþróttamiðstöð sem hefur eingöngu ávexti og annað hollmeti til sölu á skólatíma og ætti að vera öðrum íþróttahúsum til eftirbreytni hvað það varðar.
Framkvæmdaraðili: Íþróttafélög.

64)    Líkams- og heilsurækt í sama virðisaukaskattsþrepi og sund.
    Til að hvetja sem flesta til að stunda líkams- og heilsurækt er mikilvægt að skapa jöfnuð meðal íþróttagreina og hafa virðisaukaskatt af æfinga- og aðgangskortum í heilsurækt í lægra þrepi. Það liggur í augum uppi að því ódýrara sem það er að stunda heilsurækt því meiri líkur eru á að iðkendum fjölgi. Í það minnsta skiptir mestu máli að möguleiki til íþróttaiðkunar og hreyfingar sé ekki misskattlagður eftir tegund hreyfingar, sbr. að líkamsrækt ber núna 24,5% vsk. en sundiðkun 14% vsk.
Framkvæmdaraðili: Fjármálaráðuneytið.

65)    Samþætt verðlaun veitt einstaklingum og hópum fyrir íþróttaþátttöku og heilbrigðan lífsstíl, félagslega virkni, námsástundun og árangur.
    Það væri jákvætt, bæði fyrir skóla og íþróttastarfsemi, ef hægt væri að veita sérstakar viðurkenningar fyrir heilbrigðan lífsstíl, félagslega virkni, námsástundun og árangur. Undirbúa þyrfti þetta vel til að ná sem mestri virkni og að viðurkenningarnar gætu virkað hvetjandi á bæði hópa og einstaklinga á öllu landinu. Þetta gæti verið samstarfsverkefni nokkurra félaga og/eða samtaka sem láta sig velferð ungmenna varða, til að mynda foreldrafélaga, Heimilis og skóla, ÍSÍ og Lýðheilsustöðvar. Sem dæmi um velheppnað, sambærilegt verkefni má nefna Reyklaus bekkur sem Lýðheilsustöð stendur að. Þar gefst nemendum í 7. og 8. bekk kostur á að vinna til veglegra verðlauna með því að vera mjög virkir í tóbaksvörnum. Yfir 70% þátttaka hefur verið í verkefninu á landsvísu og á það án efa einhvern þátt í því að verulega hefur dregið úr reykingum ungmenna á undanförnum árum.
Framkvæmdaraðilar:      Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Heimili og skóli og Lýðheilsustöð.

66)    Íþrótta- og Ólympíusambandið (ÍSÍ), Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og aðrir hrindi í framkvæmd fleiri hreyfihvetjandi verkefnum sem hvatningu til fjölgunar iðkenda í sem flestum íþróttagreinum.
    Með frjórri hugsun og framsýni geta ÍSÍ, UMFÍ, Lýðheilsustöð og fleiri aðilar hrundið nýjum hreyfihvetjandi ,,verkefnum“ af stað. Á síðastliðnum 10 árum hefur verið fjárfest í íþróttamannvirkjum í Reykjavík fyrir 13 milljarða. 67 Íþróttahús, knattspyrnuhallir, gervigrasvellir (stórir og smáir), skautahöll, skotbrautir, frjálsíþróttaaðstaða, æfingasvæði fyrir golf og fleira hefur litið dagsins ljós. Aðsókn á sundstaði jókst úr 1,3 milljónum gesta í 1,9 milljónir gesta frá 1994 til 2003, meðal annars vegna aukinnar kynningar og heilsuáhrifa hennar. 68
    Þeir sem eru komnir vel af unglingsaldri muna líklega eftir því þegar einstaklingar fengu skráningu fyrir að synda 200 m daglega og gátu unnið sér inn brons-, silfur- og gullmerki. Þetta átak jók sundiðkun Íslendinga til muna. Knattþrautir KSÍ nutu mikilla vinsælda á níunda áratug síðustu aldar og voru mikill hvati fyrir yngri iðkendur að æfa sig utan æfingatíma. Sérsamböndin hafa fengið hvatningu (bréflega) frá faghópi forsætisráðherra um að ýta úr vör áhugaverðum og hreyfihvetjandi verkefnum.
Framkvæmdaraðilar: ÍSÍ, UMFÍ og Lýðheilsustöð.

67)    Íþróttahetjur í þjóðfélaginu breiði út boðskap um mikilvægi hreyfingar og holls mataræðis.
    Íþróttahetjur sem og þekktir einstaklingar eru sterkar fyrirmyndir barna og ungmenna og geta haft veruleg áhrif á daglegt lífsmynstur þeirra, matarvenjur og almenna hegðan. Flestir foreldrar barna í íþróttum þekkja það að orð þjálfarans í huga barnanna hafa oft og tíðum meira vægi en það sem foreldrar segja. Börn hafa breytt matarvenjum sínum, svefntíma og öðru fyrir tilstilli þjálfara.
    Á Íslandi mætti gera meira að því að fá íþróttahetjur, söngvara, leikara og aðra þekkta einstaklinga til að breiða út heilbrigðan boðskap, fá þá til að hvetja börn og ungmenni til að borða hollan mat og stunda íþróttir. Íþróttaálfurinn (Magnús Scheving) er sterk fyrirmynd barna og eru foreldrar meðvitaðir um mikilvægi þess sem hann hefur fram að færa.
    Íslendingar eiga heilbrigðar fyrirmyndir í ólíkum íþróttagreinum sem og þekkta einstaklinga sem hafa slegið í gegn á öðrum vettvangi og væri heppilegt ef hægt væri að virkja þá til að láta gott af sér leiða með heilbrigði æskunnar að leiðarljósi. Þess ber að geta að þeim sem njóta afreksstyrkja hjá ÍSÍ er gert skylt að taka þátt í forvarnarstarfi sé eftir því leitað.
Framkvæmdaraðilar: ÍSÍ, UMFÍ og Lýðheilsustöð.


LOKAORÐ


    Samkvæmt nýrri könnun eru Íslendingar hamingjusamasta þjóð í heimi. Hér á landi ríkir meiri velmegun og hagsæld en nokkru sinni fyrr sem veitir takmarkalítið svigrúm til fjárfestinga í heilbrigði þjóðarinnar. Við eigum eitt besta vatn í heimi, hreint andrúmsloft og einstaka náttúru. Ísland getur orðið heilsuparadís og fyrirmynd annarra þjóða við að bera ábyrgð á og hrinda í framkvæmd aðgerðum sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum. Ákvarðanir stjórnvalda skipta sköpum til að svo geti orðið.
    Í skólakerfinu og þjóðfélaginu almennt eru mörg tækifæri til að vinna á enn markvissari og heildrænni hátt en til þessa til að örva huga, sál og líkama þannig að leiði til meðvitundar um mikilvægi þess að neyta hollrar fæðu og stunda heilsurækt og að hver og einn beri ábyrgð á eigin heilsu.
    Almennt er talið að hver króna sem fari í forvarnar- og heilsueflingarstarf skili sér þúsundfalt í sparnaði í heilbrigðiskerfinu þegar fram líða stundir. Forvarnir og heilsuefling, sem beinist að almenningi, ætti því tvímælalaust að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Hér á landi hefur víða verið unnið öflugt forvarnarstarf á liðnum áratugum. Góður árangur hefur náðst á ýmsum sviðum en því miður virðist sem auðveldara sé að sækja fjármagn til að slökkva elda en í það sem skiptir mestu máli, fyrsta stigs forvarnir og heilsueflingu.
    Tillögur um aðgerðir, sem geta bætt heilbrigði þjóðarinnar með aukinni hreyfingu og hollara mataræði, liggja nú fyrir. Aðeins er eftir taka ákvarðanir um fjölþætta framkvæmd og koma í verk. Með skýr markmið, hugrekki og framsýni að leiðarljósi og ekki síst með réttri forgangsröðun ætti enginn að þurfa að velja sér í óhag. Ábyrgðin er allra.

Heimildaskrá:
1)        Brynhildur Briem, 1999. Hæð og þyngd 9 ára skólabarna í Reykjavík 1919–1998. Háskóli Íslands, Reykjavík.
2)        Ískrá, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 2006.
3)         Erlingur Jóhannsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Þórarinn Sveinsson, 2005. Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga, þverfaglegt samstarfsverkefni.
4)        WHO, 2002b. The World Health Report, Reducing risks, promoting healthy life. Genf.
5)         Cole et al., 2000. BJM. Establishing a standard definition for child overweight and obesity worldwide: International survey.
6)         Háskólinn á Akureyri og Lýðheilsustöð, 2006. Heilsa og lífskjör skólanema 2006: Landshlutaskýrsla. Akureyri/Reykjavík: Háskólinn á Akureyri/Lýðheilsustöð.
7)         Álfgeir Logi Kristjánsson, Silja Björk Baldursdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Sigfússon. Ungt fólk 2004. Menntun, menning, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna. Rannsóknir meðal nemenda í framhaldsskólum á Íslandi 2004 og 2000.
8)         Hera H. Björnsdóttir, Stefán H. Jónsson, Bryndís B. Ásgeirsdóttir, Inga D. Sigfúsdóttir, Jón Sigfússon, 2003. Menntun, menning, tómstundir og íþróttaiðkun íslenskra unglinga. Rannsóknir á meðal nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla vorin 1997, 2000, 2003. Rannsóknir og greining.
9)         Blaðið, forsíðufrétt, janúar 2006.
10)     WHO, 2004. Global strategy on diet, physical activity and health. World Health Organization. WHA57 17, 22.
11)    Hastings G, Stead M, McDermott L, 2003. Review of research on the effects of food promotion to children. England: Food Standards Agency. Final Report. www. csm. strath.ac.uk.
12)    Sesselía Birgisdóttir, júní 2006. Börn og auglýsingar, greining á auglýsingum í sjónvarpi ætluðum börnum.
13)     National Foodadministration and National Institute of Public Health, Uppsala and Stockholm, Sweden, July 2005. The action plan for healthy dietary habits and increased physical activity.
14)     Sigríður Lára Guðmundsdóttir, Díana Óskarsdóttir, Leifur Franzson, Ólafur Skúli Indriðason, Gunnar Sigurðsson, 2004. Samband líkamlegrar þjálfunar við þyngdarstuðul, fitumassa og gripstyrk í íslensku þýði. Læknablaðið.
15)     Camacho TC, Roberts RE, Lazarus NB, Kaplan GA, Cohen RD, 1991. Physical-Activity and Depression – Evidence From the Alameda County Study. American Journal of Epidemiology.
16)    Manson JE, Hu FB, Rich-Edwards JW, Colditz GA, Stampfer MJ, Willett WC, et al., 1999. A prospective study of walking as compared with vigorous exercise in the prevention of coronary heart disease in women. New England Journal of Medicine.
17)     Powell KE, Thompson PD, Caspersen CJ, Kendrick JS, 1987. Physical-Activity and the Incidence of Coronary Heart-Disease. Annual Review of Public Health.
18)     Fagard RH, 2001. Exercise characteristics and the blood pressure response to dynamic physical training. Medicine and Science in Sports and Exercise.
19)     Pan XR, Li GW, Hu YH, Wang JX, Yang WY, An ZX, et al., 1997. Effects of diet and exercise in preventing NIDDM in people with impaired glucose tolerance – The Da Qing IGT and diabetes study. Diabetes Care.
20)     Dalsky GP, Stocke KS, Ehsani AA, Slatopolsky E, Lee WC, Birge SJ, 1988. Weight- Bearing Exercise Training and Lumbar Bone-Mineral Content in Postmenopausal Women. Annals of Internal Medicine.
21)     Vuori IM, 2001. Dose-response of physical activity and low back pain, osteoarthritis, and osteoporosis. Medicine and Science in Sports and Exercise.
22)     Slattery ML, Potter J, Caan B, Edwards S, Coates A, Ma KN, et al., 1997. Energy balance and colon cancer – Beyond physical activity. Cancer Research.
23)    Carpenter CL, Ross RK, Paganini-Hill A, Bernstein L, 1999. Lifetime exercise activity and breast cancer risk among post-menopausal women. British Journal of Cancer.
24)     Landers, D.M., Petruzzello, S.J., 1994. Physical activity, fitness and anxiety. Og: Bouchard, C., Shepard, R.J. Stevens, T. (ritstj.) Physical activity, fitness and health. Champaign, IL, Human Kinetics.
25)     Sveinsson, T., Sigurdardottir, S.J., Helgason, J., Miilunpalo, S., 2000. A survey of health and physical activity in Iceland. Medicine & Science in Sports & Exercise.
26)     Steptoe A, Butler N., 1996. Sports participation and emotional wellbeing in adolescents. Lancet.
27)     Armstrong, N., 1997. Young people and physical activity. Champaign III, Huma Kinetics.
28)     Inga Þórsdóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir, 2006. Hvað borða íslensk börn og unglingar? Könnun á mataræði 9 og 15 ára barna og unglinga 2003–2004. Rannsóknarstofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús.
29)     Laufey Steingrímsdóttir, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir, 2002. Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2002. Helstu niðurstöður. Rannsóknir Manneldisráðs Íslands III. Reykjavík.
30)     Inga Þórsdóttir o.fl., 2005. Ann Nutr. Metab. Fruit and intake of 11 years-old schoolchildren in nine European countries: The Pro Children cross-sectional survey.
31)     Inga Þórsdóttir o.fl., 2005. Ann Nutr. Metab. Fruit and intake of mothers of 11 years-old school children in nine European countries: The Pro Children cross-sectional survey.
32)     WHO, 2002a. The European Health Report 2002. WHO Regional Publications European Series, No. 97.
33)     WHO, The European health report 2005. Public health action for healthier children and populations.
34)     Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir, Örn Ólafsson, Vilmundur Guðnason, 2001. Þróun ofþyngdar og offitu meðal 45–64 ára Reykvíkinga á árunum 1975–1994. Læknablaðið.
35)     Gry Skjæveland, 2004. Meistararitgerð í íþróttafræðum. Sammenheng mellom overvekt og kardiorespiratorisk form hos 15-åringer på Island – samt medbestemmende variabler på overvekt. Hovedfagsoppgave, Norges Idrettshøgskole.
36)     Ludvig Guðmundsson, 2005. Endurhæfing ofþungra. Reykjalundur.
37)     Stefán Hrafn Jónsson, 2006. Könnun í leikskólum og grunnskólum. Lýðheilsustöð.
38)     Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir og Helga Kristín Olsen, 2005. Þáttaka 6–8 ára barna í hverfi heilsuleikskólans Urðarhóls í íþróttum. Rannsókn til B.Ed. prófs í KHÍ.
39)    Ingibjörg Sumarliðadóttir, 2005. Hreyfifærni 5–6 ára barna í Kópavogi. Lokaritgerð til BS prófs í KHÍ.
40)     Náttúruleikskólinn Hvar, www.obradgjof.is og www.natturuleikskolinn.is
41)     Leikskólinn Reynisholt, www.leikskolar.is/leikskolar/displayer.asp?cat_id=939
42)     Samtal við Anton Bjarnason íþróttakennara.
43)     Laufey Steingrímsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, 2006. Allt hefur áhrif, einkum við sjálf. Stöðumat í upphafi verkefnis. Lýðheilsustöð.
44)     Sn-Ráðgjöf, 2004. Úttekt á starfsemi framleiðslueldhúsa í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.
45)     Gunnarsson BS, 2000. Research on Dietary Intake of Icelandic 2-Year-Old Children. University of Iceland, thesis.
46)     Aðalnámskrá grunnskóla, íþróttir, líkams- og heilsurækt, 1999.
47)     Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari og Anton Bjarnason íþróttakennari.
48)     Sonja Sif Jóhannsdóttir, 1999. Íþróttakennaranám á krossgötum. Lokaritgerð frá Íþróttakennaraskólanum á Laugavatni.
49)     Hellas, Oddrun, sept. 2005. Outdoor learning. Erindi flutt og dreift á fundi á vegum KHÍ á Laugarvatni.
50)     Hanson, Lars A., 2004. Immunology of Human Milk. How Breastfeeding Protects Babies. Amarillo, Texas: Pharmasoft Publishing.
51)     Pederson BK. Saltin B., 2006. Evidence for Prescribing exercise as therapy in chronic disease. Scand J Med Sci Sports.
52)     Ríkisskattstjóri 2004.
53)     Þórólfur Þórlindsson, Þorlákur Karlsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, 1994. Um gildi íþrótta fyrir íslensk ungmenni. Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála.
54)     Kemm, J. o.fl., 2004. Health Impact Assessment. Oxford university press.
55)     Lawrence, D. o.fl., 2005. Linking Objectively Measured Physical Activity with Objectively Measured Urban Form. Og: Obesity Relationship with Community Design, Physical Activity, and time spent in Cars. University of British Columbia.
56)     Samgönguskipulag í Reykjavík. Skýrsla unnin af verkfræðistofunni Hönnun fyrir Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar.
57)     Reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.
58)     Sigríður Jónsdóttir, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, september 2005. Viðhorfskannanir meðal eldri borgara í Laugardal.
59)    Tækni & Vísindi, Morgunblaðið, maí 2006. Og: www.food.gov.uk/multimedia/pdf/fsa 060303a.pdf. Og: www.food.gov.uk/multimedia/pdfs/fsa060303.pdf
60)     Menntamálaráðuneytið, 2005. Íþróttakennsla í grunnskólum 03- 04.
61)    WHO, 2003. Diet, nutrition and the prevention of chronic diseases. World Health Organization Technical Report Series 916. World Helath Organization, Genf.
62)     The European Heart Network, 2005. Markaðssetning óhollrar fæðu sem beint er að börnum í Evópu. Skýrsla um 1. áfanga verkefnisins ,,Börn, offita og tengdir langvinnir sjúkdómar sem má forðast“.
63)      www.dh.gov.uk/PublicationsAndStatistics/Publications/PublicationsPolicyAndGuid ance/PublicationsPolicyAndGuidanceArticle/fs/en?CONTENT_ID=4094550&chk=a N5Cor
64)     Hagstofan. Sótt á vef Hagstofunnar, www.hagstofan.is
65)     Janus Friðrik Guðlaugsson, október 2005. Líkams- og heilsuræktarþjálfun aldraðra. Samanburður á ólíkum þjálfunaraðferðum. Meistaraprófsverkefni.
66)     Íþróttablaðið 1992.
67)     Ómar Einarsson, 2005. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar.
68)     Ómar Einarsson, 2005. Aðsókn að sundstöðum Reykjavíkur. Íþrótta- og tómstundaráð.


Eftirtaldir aðilar/samtök/stofnanir komu á fund hjá faghópnum:
    Allt hefur áhrif – einkum við sjálf, samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og 25 sveitarfélaga. Jórlaug Heimisdóttir verkefnastjóri hjá Lýðheilsustöð.
    Lýðheilsustöð (manneldisráð). Hólmfríður Þorgeirsdóttir kynnti niðurstöður ráðstefnunnar ,,Part of the solution“ (tekist á við offituvandann) sem hún sótti í Danmörku dagana 10.–11. nóvember 2005.
    Íþróttakennaraháskólinn á Laugarvatni. Erlingur Jóhannsson skólastjóri, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Þórarinn Sveinsson kynntu niðurstöður úr könnun sinni um lífsstíl 9 og 15 ára Íslendinga sem er þverfaglegt samstarfsverkefni og framkvæmt í sex öðrum löndum. Könnunin var framkvæmd 2003–2004.
    Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri, Andri Stefánsson sviðsstjóri fræðslusviðs og Jóna Hildur Bjarnadóttir sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs kynntu sambandið, starfsemina og þau verkefni sem eru fram undan.
    Miðstöð heilsuverndar barna. Geir Gunnlaugsson forstöðumaður og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir sviðsstjóri á skólasviði.
    Samtök iðnaðarins. Jón Steindór Valdimarsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Ragnheiður Héðinsdóttir matvælafræðingur. Verðstýring, matvælaeftirlit, merkingar og fleira.
    Umhverfissvið Reykjavíkurborgar. Ellý K. Guðmundsdóttir sviðsstjóri, Árný Sigurðardóttir forstöðumaður heilbrigðiseftirlits og vöktunar, Hjalti J. Guðmundsson framkvæmdastjóri Staðardagskrár 21. Göngu- og hjólabrautir, sjálfbær þróun, opin leiksvæði.
    Skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar. Dagur B. Eggertsson læknir og formaður skipulagsnefndar. Græn svæði og útivistarsvæði í grunnskipulagi.
    Áhrif matvælaauglýsinga sem beinast að börnum og ungmennum. Vilmundur Guðnason forstöðumaður Hjartaverndar. Alþjóðlegt verkefni á vegum European Heart Network.
    Samtök íslenskra auglýsingastofa (SÍA). Ingólfur Hjörleifsson framkvæmdastjóri. Er æskilegt að takmarka auglýsingar á óhollum ,,matvælum“ í barnaefni?
    Umhverfisstofnun – merkingar á matvælum. Jóhanna Torfadóttir og Brynhildur Briem á matvælasviði stofnunarinnar, um meginverkefni og hvað matvælasvið getur gert til að stuðla að bættu mataræði þjóðarinnar.
    Lýðheilsustöð – Laufey Steingrímsdóttir kynnti niðurstöður rannsókna sem gerðar voru í upphafi verkefnisins Allt hefur áhrif, einkum við sjálf. 1) Könnun send til skóla/leikskólastjóra á aðbúnaði í grunnskólum og leikskólum, á stefnu skólanna og skólastarfi. 2) Könnun á högum og lífsháttum barna. 3) Könnun á viðhorfum foreldra og mati þeirra á lífsháttum og líðan barna sinna.
    Vinnueftirlitið. Heilsuefling á vinnustað – evrópskt samstarfsnet. Stýrt af Vinnueftirlitinu. Eyjólfur Sæmundsson forstjóri, Berglind Helgadóttir og Ása Ásgeirsdóttir.
    Reykjalundur. Meðferð við ofþyngd. Árangur, kostnaður, biðlistar, hvað má betur fara? Björn Ástmundsson forstjóri og Ludvig Guðmundsson læknir.
    Lýðheilsustöð. Anna Elísabet Ólafsdóttir forstjóri.
    Landlæknir. Sigurður Guðmundsson.
    Lýðheilsustöð, rannsóknarsvið. Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur og sviðsstjóri rannsóknarsviðs fjallaði um niðurstöður rannsókna.
    Fulltrúi menntamálaráðuneytis. Líney Rut Halldórsdóttir íþróttafulltrúi ríkisins.
    Fulltrúi landbúnaðarráðuneytis. Níels Árni Lund skrifstofustjóri.
    Fulltrúi fjármálaráðuneytis. Helga Jónsdóttir sérfræðingur.


Formaður faghópsins hitti (ræddi við) eftirtalda aðila:
*     Aðalbjörn Björnsson skólastjóri Vopnafjarðarskóla
*     Andrés Guðmundsson íþróttafrömuður
*     Anton Bjarnason íþróttakennari
*     Axel Hall Hagfræðistofnun Háskóla Íslands
*     Ágústa Johnson eigandi Hreyfingar
*     Ásdís Sigurðardóttir formaður Íþróttakennarafélags Íslands
*      Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir alþingismaður
*      Bjarni Þórarinsson ráðgjafi hjá ÓB Ráðgjöf
*      Björg Bjarnadóttir formaður Félags leikskólakennara
*      Björn Leifsson eigandi Lauga – World Class
*      Brynhildur Briem næringarfræðingur hjá Umhverfisstofnun
*      Elísa Thorarensen framkvæmdastjóri Heimilis og skóla
*      Ellert B. Schram forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands
*      Finnur Árnason forstjóri Haga
*      Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Úttekt á starfsemi framleiðslueldhúsa í grunnskólum
*      Geir Brynjólfsson sölumaður Herbalife
*      Geir Gunnlaugsson barnalæknir og forstöðumaður á Miðstöð heilsuverndar barna
*      Geir Sveinsson skólastjóri Íþróttaakademíunnar á Suðurnesjum
*      Guðjón Bergmann jógakennari og rithöfundur
*      Guðjón Magnússon framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO
*      Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður
*      Halldór Þorsteinsson mótsstjóri Knattspyrnusambands Íslands
*      Hanna S. Hjartardóttir formaður skólastjórafélags Íslands
*      Helgi Rúnar Óskarsson eigandi Dale Carnegie á Íslandi
*      Inga Þórsdóttir næringarfræðingur á rannsóknarstofnun LSH í næringarfræði
*      Janus Guðlaugsson íþróttakennari, M.Ed. í uppeldis- og menntunarfræði við KHÍ
*      Jóhanna E. Torfadóttir næringarfræðingur hjá Umhverfisstofnun
*      Jónas Traustason íþróttakennari heilsuleikskólanum Urðarhóli
*      Júlía Linda Ómarsdóttir hjúkrunarfræðingur
*      Kristín Jóhannesdóttir aðstoðarskólastjóri Fellaskóla
*      Leopold Sveinsson auglýsingastofunni Argus
*      Magnús Scheving hjá Latabæ
*      María Kristín Gylfadóttir formaður Heimilis og skóla
*      Matti Osvald nuddari og fyrirlesari
*      Ólafur Grétar Gunnarsson ráðgjafi hjá ÓB Ráðgjöf
*      Ólafur Sæmundsson næringarfræðingur
*      Ómar Bragi Stefánsson landsfulltrúi UMFÍ
*      Ómar Einarsson forstöðumaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur
*      Pálmi Hreinsson íþróttafræðingur og verkefnisstjóri lyfjamála ÍSÍ
*      Sigurður R. Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ
*      Sigurlaug Einarsdóttir leikskólastjóri Reynisholti
*      Skólaíþróttanefnd ÍSÍ
*      Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands
*      Unnur Guðrún Pálsdóttir íþróttakennari, sjúkraþjálfari og einkaþjálfari
*      Unnur Stefánsdóttir leikskólastjóri heilsuleikskólanum Urðarhóli, Kópavogi
*     Þorsteinn Hjartarson
skólastjóri Fellaskóla
*     Þórólfur Þórlindsson
prófessor
*     Þráinn Hafsteinsson
íþróttakennari
*      Þrúður Gunnarsdóttir. Fjölskyldumeðferð fyrir offeit börn á Barnaspítala Hringsins


LÉTTARA LÍFSkýrsla faghóps forsætisráðherra um bætt heilbrigði þjóðarinnar
var samþykkt á fundi faghópsins þann 11. september 2006.


Anna Elísabet Ólafsdóttir forstjóri Lýðheilsustöðvar
Árni Einarsson uppeldis- og menntunarfræðingur
Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari
Jón Óttar Ragnarsson næringar- og matvælafræðingur
Valur Norðri Gunnlaugsson matvælafræðingur
Petrína Baldursdóttir leikskólastjóri
Sigurbjörn Sveinsson formaður Læknafélags Íslands
Sæunn Stefánsdóttir alþingismaður
Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og blaðamaður,
formaður og starfsmaður faghópsins