Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 588. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1158  —  588. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svanhvíti Axelsdóttur og Helgu Haraldsdóttur frá samgönguráðuneyti, Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti og Ernu Hauksdóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Umsagnir um málið hafa borist frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Reykjavíkurborg, ríkissaksóknara, Samtökum verslunar og þjónustu, Siglingastofnun Íslands, Lýðheilsustöð, Samtökum ferðaþjónustunnar, Hallgrími S. Sveinssyni, tollstjóranum í Reykjavík, Vinnueftirlitinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóra og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi lög um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, V. og VIII. kafla áfengislaga, nr. 75/1998, og lög um heimild til að marka skemmtunum og samkomum tíma, nr. 120/1947. Megintilgangur frumvarpsins er að einfalda leyfisveitingar til reksturs veitinga- og gististaða og draga úr þeim fjölda leyfa, gagna og umsagna sem umsækjendur þurfa nú að afla til að hefja slíkan rekstur.
    Töluverð umræða varð í nefndinni um 17. gr. frumvarpsins um tækifærisleyfi. Nefndin áréttar að umrætt ákvæði gildi einungis um skemmtanir og atburði sem fara fram utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni. Undir ákvæðið falla því ekki atburðir og skemmtanir á vegum sveitarfélaga, t.d. bæjarhátíðir og æskulýðs- og íþróttahátíðir sem ekki eru haldnar í atvinnuskyni, en í slíkum tilvikum er aðgangur ekki seldur að skemmtun eða atburði.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Á 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 7. gr., 5. mgr. 18. gr., 4. mgr. 21. gr. og í síðari málslið ákvæðis til bráðabirgða I. eru lagðar til orðalagsbreytingar.
     2.      Lagt er til að á eftir orðinu „persónuvernd“ í 4. mgr. 9. gr. komi „og meðferð persónuupplýsinga“ í samræmi við fullt heiti laganna.
     3.      Lagt er til að í 4. tölul. 3. mgr. 17. gr. verði tiltekið að sá sem standi fyrir skemmtun greiði kostnað af ráðstöfunum sem lögreglustjóri ákveður í samráði við umsækjanda. Eðlilegt þykir að lögreglustjóri hafi samráð við umsækjanda í slíkum tilvikum enda geta slíkar ráðstafanir lögreglustjóra verið annað en löggæsla.
     4.      Í síðari málsl. 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að tímabundin áfengisleyfi verði eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en fjórum sinnum ár hvert vegna sama staðar. Lögð er til sú breyting að í stað orðalagsins: „almennt ekki oftar en fjórum sinnum ár hvert“ komi „almennt ekki oftar en tólf sinnum ár hvert“. Nefndin tekur undir framkomnar athugasemdir í umsögnum sem nefndinni hafa borist um að hugsanlegt sé að ákvæðið eins og það er sett fram geti haft veruleg áhrif á svæðum þar sem ekki er fullnægjandi húsnæði með rekstrarleyfi, en íbúar á svæðinu komi að jafnaði saman oftar en fjórum sinnum á ári sér og öðrum til skemmtunar.
     5.      Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. getur leyfishafi verið einstaklingur eða lögaðili og í viðurlagaákvæði frumvarpsins, þ.e. 22. gr., er m.a. fjallað um refsiábyrgð leyfishafa. Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að á eftir 2. mgr. 22. gr. komi ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að gera megi lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. sama ákvæðis.
     6.      Í ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að sú tryggingarskylda sem liggur til grundvallar leyfi til áfengisveitinga skv. 14. gr. gildandi áfengislaga, nr. 75/1998, falli niður við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum. Nefndin leggur til breytingar á framangreindu ákvæði þannig að innheimtumanni ríkissjóðs verði heimilt að fella niður tryggingar sem grundvallast á 14. gr. áfengislaga við gildistöku laganna hafi leyfishafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á því tímamarki. Hafi leyfishafi hins vegar verið úrskurðaður gjaldþrota við gildistöku laganna skal tryggingin halda gildi sínu og skiptastjóri innheimta hana hjá ábyrgðaraðila. Er þessi breyting gerð svo að þeir sem hafa leyfi til sölu og veitingar áfengis beri ekki einir starfsstétta kostnað af ábyrgð sem er skilyrði starfsleyfis þeirra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Guðjón A. Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. mars 2007.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.Kristján L. Möller.


Guðjón Hjörleifsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Jón Kristjánsson.