Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 600. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1182  —  600. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf á landsbyggðinni.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins hafa orðið til á landsbyggðinni frá samþykkt byggðaáætlunar 2006?
     2.      Hverjar eru áætlanir ráðherra um frekari fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni?


    Frá samþykkt byggðaáætlunar 2006 hafa orðið til 3,5 stöðugildi á landsbyggðinni.
    Kjarninn í starfsemi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis er að stuðla að bættri samkeppnisstöðu Íslands. Í þessu felst að bæta ytri skilyrði atvinnulífsins með almennum aðgerðum (t.d. skattalegum umbótum) og einnig með sértækari hætti þegar kemur að eflingu tæknirannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar (t.d. með eflingu samkeppnissjóða). Markmiðið er að afrakstur þessa verði fyrst og fremst fjölbreyttara atvinnulíf og ný og vel launuð störf – fyrst og fremst störf í einkarekstri en einnig í opinberum rekstri. Þannig hverfast t.d. hugmyndir ráðuneytisins um eflingu þekkingarsetra á landsbyggðinni um að skapa störf á sviði háskólakennslu og rannsókna og tengja þau í þekkingarklasa með opinberum rannsóknum og starfsemi nýsköpunarfyrirtækja. Starfsemin grundvallast því á að skapa þekkingarkjarna sem dregur til sín hæft starfsfólk úr mörgum áttum. Fjölgun opinberra starfa verður þá fyrst og fremst vegna faglegra þarfa fyrir tilvist þeirra.