Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1189  — 542. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson, Hrein Hrafnkelsson og Lárus M.K. Ólafsson frá iðnaðarráðuneyti, Karl Axelsson hrl., Þorkel Helgason og Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Agnar Olsen og Þórð Bogason frá Landsvirkjun, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Rögnvaldsson og Hrein Haraldsson frá Vegagerðinni, Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Sveinbjörn Björnsson, formann verkefnisstjórnar 1. rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, Ínu Björgu Helgadóttur og Maríönnu Helgadóttur frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Pál Guðmundsson frá Ferðafélagi Íslands og Berg Sigurðsson og Freystein Sigurðsson frá Landvernd. Umsagnir bárust um málið frá Samtökum atvinnulífsins, Orkustofnun, Samtökum iðnaðarins, Vegagerðinni, Eyþingi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Háskóla Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtökum Íslands og Samorku.
    Í framsögu við 1. umræðu málsins óskaði iðnaðarráðherra eftir því að um málið yrði fjallað bæði í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd. Því sendi iðnaðarnefnd málið til umsagnar hjá umhverfisnefnd og jafnframt þáðu nokkrir nefndarmenn boð um að sitja fund iðnaðarnefndar með hagsmunaaðilum úr umhverfisgeiranum.
    Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af iðnaðarráðherra í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 5/2006, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Nefndin hafði það verkefni að gera tillögu um það með hvaða hætti yrði valið milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laganna og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til, þ.e. auðlinda í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir töluverðum breytingum á gildandi auðlindalögum. Þannig verður gildissvið laganna þannig að þau munu einnig ná til nýtingar á vatnsafli með raforkuframleiðslu. Úthlutun leyfa til rannsókna og nýtingar færist yfir til Orkustofnunar frá iðnaðarráðherra og lögfestar verða verklagsreglur um hvernig staðið skuli að afgreiðslu og vali milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á auðlindum í jörðu og vatnsafli til raforkuframleiðslu í þjóðlendum og landi í ríkiseigu. Forræði á rannsóknum og nýtingu auðlinda í eignarlöndum verður alfarið hjá fasteignareigendum í stað ráðherra áður, en leyfi Orkustofnunar og forsætisráðherra eða landbúnaðarráðherra verður áskilið þegar um er að ræða rannsóknir og nýtingu í þjóðlendum og á ríkisjörðum. Þá verður skylt að auglýsa eftir umsóknum um leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli og sú meginregla lögfest að rannsóknarleyfi geti falið í sér forgang til nýtingar. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að skipaðir verði tveir starfshópar á vegum iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra til að móta nýtingar- og verndaráætlanir fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl og að vinnu þeirra lokinni muni forsætisráðherra skipa þriðja hópinn sem hafi það hlutverk að samræma tillögur hópanna tveggja í lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt verði fram á haustþingi 2010.
    Meiri hlutinn fagnar þeirri miklu og vönduðu vinnu sem lögð hefur verið í málið af hálfu auðlindanefndar iðnaðarráðherra. Jafnframt hvetur nefndin til þess að vinnu við rammaáætlun 2 ljúki sem fyrst, en fjármagn hefur vantað til að ljúka henni. Meiri hlutinn telur að fjármagn vegna rammaáætlunarinnar eigi að vera sérstakur fjárlagaliður í stað þess að vistast innan almennra fjárheimilda Orkustofnunar.
    Meiri hlutinn vekur athygli á að í frumvarpinu er á tveimur stöðum vísað til ákvæða laga um meginreglur umhverfisréttar, en frumvarp til þeirra laga er nú til meðferðar hjá umhverfisnefnd (566. mál). Meiri hlutinn leggur áherslu á að það frumvarp verði að lögum á sama tíma og frumvarpið sem hér er til meðferðar.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á ákvæði til bráðabirgða III sem tekur til þess hvernig leyfisveitingum verði háttað þar til framtíðarstefna í auðlindamálum hefur verið mörkuð með nýtingar- og verndaráætlun. Meiri hlutinn leggur til að heimild til að veita ný nýtingarleyfi sé einungis í höndum Alþingis. Meiri hlutinn telur eðlilegt að greina á milli rannsóknarleyfis og nýtingarleyfis þannig að rannsóknarleyfi feli ekki sjálfkrafa í sér nýtingarleyfi, en telur þó að rannsóknarleyfi megi veita á grundvelli rammaáætlunar 1 úr flokki A og B, sbr. fylgiskjal I.
    Þá leggur nefndin til tvær tæknilegar breytingar á frumvarpinu. Sú fyrri lýtur að skilgreiningum í frumvarpinu, en eins og frumvarpið er úr garði gert verður skilgreining á hugtakinu „jarðefni“ tvítekin í lögunum með þeim greinarmun einum að í annarri verða steindir taldar til jarðefna en í hinni ekki. Seinni breytingin lýtur að því að ekki er tilgreint í frumvarpinu hvar 25. gr. þess er ætlað að koma inn í auðlindalögin. Nefndin leggur til að greininni verði bætt við 18. gr. frumvarpsins sem breytir 21. gr. laganna .
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Sigurður Kári Kristjánsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og stendur ekki að áliti þessu.

Alþingi, 12. mars 2007.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Kjartan Ólafsson.



Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.


Gunnar Örlygsson.






Fylgiskjal I.


Iðnaðarráðuneyti:


Virkjunarkostur Leyfi RÁÆ Athugasemd
Svartsengi (stækkun) a
Nesjavellir (stækkun) a
Núpsvirkjun a a Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið
Núpsvirkjun b a Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið
Krafla (stækkun)
RL + FFN
a
Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið, heimild Alþingis
Hágöngusvæði RL + FFN a
Hellisheiði RL + FFN a
Sandfell (Krýsuvík) RL a
Þverárdalur (Nesjavellir) a
Ölkelduháls RL + FFN a
Bjarnarflag
a
Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið, heimild Alþingis
Krafla (vestursvæði) RL + FFN a
Austurengjar (Krýsuvík) RL a
Seltún (Krýsuvík) RL a
Reykjanes NL a
Innstidalur (Hengill) RL + FFN a
Trölladyngja RL + FFN a
Hólmsárvirkjun a
Búðarhálsvirkjun
a
Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið, heimild Alþingis
Skaftárveita b
Skaftárvirkjun b
Krafla (Leirhnjúkur) b
Urriðafossvirkjun b Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið
Brennisteinsfjöll b
Þeistareykir RL b
Hrafnabjargavirkjun a b
Villinganesvirkjun
b
Rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum lokið, heimild Alþingis
Fljótshnjúksvirkjun b
Grændalur c
Hrafnabjargavirkjun b c
Skatastaðavirkjun a c
Skatastaðavirkjun b c
Fljótsdalsvirkjun d
Norðlingaölduveita d Alþingi hefur áður heimilað útgáfu leyfis og rh. veitt leyfi
Háuhverir d
Brennisteinsalda d
Reykjadalir (Kaldaklof) d
Reykjadalir (austari) d
Reykjadalir (vestari) d
Jökulsá á Fjöllum e
Markarfljósvirkjun a e
Markarfljótsvirkjun b e
RÁÆ=Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma
RL=Rannsóknarleyfi
FFN=Fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi
> Heimilt að veita nýtingarleyfi á grundvelli fyrirheits um forgang í rannsóknarleyfi
> Heimilt að veita rannsóknarleyfi
> Óheimilt að veita ný rannsóknar- eða nýtingarleyfi nema með samþykki Alþingis